Er hægt að hugsa með fingrunum?

Lesendur mínir á blogginu trúa mér kannski ekki, en ég er frekar fámáll einstaklingur sem geri meira af því að hlusta en að tala. Það geta allir sem mig þekkja staðfest. Hins vegar þegar ég sest niður við lyklaborð og skrifa greinar fljóta orðin út eins og opnað hafi verið fyrir flóðgáttir. Mér hefur alltaf liðið vel þegar ég skrifa, og sífellt betur eftir því sem ég læri að skrifa betri texta. Einnig geri ég mér skýra grein fyrir hvað ég á gríðarlega mikið ólært.

Frá unga aldri hef ég skrifað smásögur og ljóð, og hef ekki haft mikið fyrir því að reyna að fá skrifin birt, fyrir utan að þegar ég var um tvítugt sendi ég eina sögu í Tímarit Máls og Menningar, og fékk fyrst að heyra frá ritstjóra að hún yrði birt fljótlega, en fékk síðan símhringingu frá honum nokkrum dögum síðar þar sem hann tjáði mér að ritstjórnin hefði ekki verið sammála honum, að sagan væri eins og skrifuð eftir ungling.

96d68aabed05e8c

Eftir þessa höfnun hætti ég hins vegar ekki að skrifa. Ég sótti tíma í ritlist hjá Nirði P. Njarðvík samhliða öðru námi, lauk heilum 30 einingum í faginu og naut hverrar einustu stundar yfir eigin skrifum og annarra. Megnið af þessum skrifum er til einhvers staðar á diskum og í möppum, og fjöldinn allur sem fór beint ofan í skúffu og hefur ekki litið ljós í 15 ár. Spurning hvort að maður fari ekki að grafa þetta upp og birta eitthvað af skáldskapnum sem rennur fram af fingrunum öðru hverju?

Ég hef heyrt því fleygt að ef maður geti talað, þá geti maður skrifað. Það skrýtna er að ég sé ekki skýrt samband þarna á milli. Til að ég hugsi upphátt fyrir framan annað fólk þarf ég fyrst að hafa byggt upp traust, og reyndar hef ég upplifað sams konar hluti með skrif. Eftir flutninga á ég til dæmis erfitt með að skrifa. Það er ekki fyrr en ég er búinn að koma mér vel fyrir, og helst umkringdur bókum sem hægt er að grípa með að halla sér aðeins aftur og teygja sig upp í hillu, að mér finnst ég vera heima hjá mér og með góðum vinum.

Elements_Style

Ein bókanna sem ég gríp reglulega í er  "The Elements of Style" eftir Strunk og White. Mig langar til að birta örstutt heilræði úr þeirri bók fyrir unga rithöfunda. Ætli ég heyri ekki sjálfur til þeirra þar sem ég hef aldrei gefið neitt út nema fáeinar smásögur og ljóð, og aldrei skrifað greinar í blöð eða tímarit, þó að ég hafi tekið þátt í þremur smásögusamkeppnum um ævina og birt eitt ljóð í Lesbókinni.

Eitt heilræði úr þeirri bók hljómar svona: 

"Ungir rithöfundar gera oft ráð fyrir því að  stíll sé krydd á kjöt texta, sósa sem gerir bragðdaufan rétt að bragðgóðum. Stíll hefur ekki slíka aðskilda eiginleika; hann er óaftengjanlegur, óspilltur. Byrjandinn ætti að nálgast stíl með varúð og gera sér grein fyrir að það er hann sjálfur sem hann er að nálgast, enginn annar; og hann ætti að byrja með því að snúa sér staðfastur frá öllum brellum sem hlotið hafa vinsældir sem stílbrigði - skrítin hegðun, trikk, skreytingar. Þú nálgast stíl með hreinleika, einfaldleika, skipulagi, einlægni." (Strunk og White, "Einkenni góðra stílbragða")


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta var gott ráð.

Steingerður Steinarsdóttir, 14.4.2008 kl. 10:24

2 Smámynd: Ómar Ingi

HAHAHAHAHA  Góður Don

Ómar Ingi, 14.4.2008 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband