Er hrollvekjumeistarinn Guillermo del Toro rétti leikstjórinn fyrir Hobbitann?

deltorohobbit

Hobbitinn er eitt af mínum eftirlætis ævintýrum, en J.R.R. Tolkien skrifaði hana til að skemmta þremur ungum sonum sínum. Hún gerist um 50 árum áður en The Lord of the Rings hefst, en Tolkien skrifaði þá bók fyrir syni sína á meðan þeir börðust í seinni heimstyrjöldinni gegn nasistum.

Morgun einn fær Bilbo Baggins óvænta heimsókn frá 12 ókunnugum dvergum og töframanninum Gandálfi. Þar sem að Bilbo er með kurteisari hobbitum og lifir eins rólegu og venjubundnu lífi og hugsast getur, býður hann þeim öllum inn á heimili sitt í te.

Í ljós kemur að hópurinn ætlar í fjársjóðsleit og þá vantar þann fjórtánda í hópinn, því að þrettán er óhappatala. Þeir vilja ráða Bilbo sem þjóf í langt ferðalag, þar sem þeir þurfa að fara í gegnum myrkan skóg með tröllum, risakóngulóm og yfir fjöll sem stjórnað er af orkum og vörgum. Bilbo ákveður að slá til, þrátt fyrir að heilbrigð skynsemi segi honum að halda sig heima. Hann átti nefnilega frænda sem hafði verið ævintýragjarn, og alltaf hafði blundað í honum þrá eftir ævintýrum svo að hann hefði sögur að segja frá í ellinni.

Bilbo og félagar lenda í hverri lífshættunni á eftir annarri, og Bilbo finnur meðal annars forláta hring í dimmum helli þar sem Gollum sjálfur ræður ríkjum. En ferðin heldur áfram að þorpi nokkru þar sem þorpsbúar lifa í stöðugum ótta við drekann Smaug, sem liggur á miklum fjársjóði inni í nærliggjandi fjalli. Smaug er hins vegar með ólíkindum lævís og klókur, sem kemur í ljós þegar Bilbo á við hann samtal upp á líf og dauða.

Fyrir nokkrum árum, þegar tilkynnt var að Peter Jackson kæmi til með að leikstýra The Lord of the Rings var ég sannfærður um að hann væri rétti maðurinn í starfið. Ég hafði haft áhuga á verkum hans í mörg ár, alveg frá því ég sá viðbjóðslegu splatter myndirnar Bad Taste (1987) og Braindead (1992) sem hann gerði við upphaf ferilsins. Það sérstaka við þær myndir var hversu vel honum tókst að blanda saman hryllingi og húmor, auk þess hvað tæknibrellurnar voru trúverðugar þrátt fyrir takmarkaða tækni.

Síðan sló Jackson í gegn með Heavenly Creatues (1994), mynd um vinkonur sem myrða móður annarar þeirra. Mér líkaði ekkert sérstaklega vel við þá mynd, en hún stendur samt eftir í minningunni. Næst gerði hann svo Forgotten Silver (1995), snilldar heimildarmynd í laufléttum dúr. Síðan kom hann með draugamyndina The Frighteners (1996) sem mér fannst hreint frábær, en hún blandaði saman hryllingi og spaugi, rétt eins og í Bad Taste, nema að tæknibrellurnar voru margfalt betri og myndin mun smekklegri en það sem hann geði í sínum fyrstu skrefum.

Ég hafði séð allar þessar myndir fyrir utan Forgotten Silver og hafði lesið The Lord of the Rings þrisvar sinnum og var sannfærður um að þetta myndi smella saman, og skrifaði um það grein á writtenbyme.com, þar sem sumir voru mér sammála en aðrir ekki. Við vitum núna hver hafði rétt fyrir sér þar. 

Þegar mér verður hugsað til þess að Guillermo del Toro ætli að leikstýra hobbitanum vakna svipaðar kenndir. Reyndar hef ég ekki séð allar hans myndir, en sú fyrsta sem ég sá var Mimic (1997), sem mér þótti frekar slök hrollvekja um kakkalakkafaraldur í stórborg. Hann fylgdi henni eftir með afbragðs myndinni El Espinazo del Diablo, draugasaga sem gerist á munaðarleysingjahæli undir lok síðari heimstyrjaldarinnar á Spáni. Tímabil og staðsetning sem hann átti eftir að nota aftur í El Laberinto del fauno (2006), jafn góðri mynd en miklu vinsælli.

Á milli þessara tveggja snilldarverka leikstýrði hann Blade II (2002), ágætri hasarkvikmynd um vampíru sem segir öðrum vampírum stríð á hendur og Hellboy (2004) um kaþólska ofurhetju sem kemur úr iðrum helvítis til að berjast gegn yfirnáttúrulegum og illum öflum til verndar mannkyninu. Sú mynd var ágæt, og tæknibrellurnar voru sérstaklega góðar. Það er stutt í að framhaldsmyndin Hellboy II: The Golden Army (2008) verði frumsýnd, en mér líst mjög vel á sýnishorn hennar.

Reyndar er del Toro með mörg járn í eldinum sem leikstjóri og nokkuð ljóst að hann verður að velja og hafna, því að hann hefur tilkynnt að hann sé með fimm kvikmyndir í bígerð: The Hobbit (2010) og The Hobbit 2 (2011), auk 3993 (2009) þar sem hann heimsækir aftur kunnuglegar slóðir, en um draugasögu í spænsku borgarastyrjöldinni árið 1939 er að ræða, sem endurspeglast í atburðum sem gerast árið 1993, sem útskýrir heiti myndarinnar. 

Hann er með fleiri spennandi verkefni í gangi, en hann ætlar að leikstýra At the Mountains of Madness (2010) sem gerð er upp úr sögu hryllingsmeistarans H.P. Lovecraft, og loks ætlar hann að leikstýra ofurhetjumyndinni Doctor Strange (2010) sem fjallar um sjálfselskan skurðlækni sem missir hendurnar í bílslysi, en uppgötvar að hann hefur tengingu við heim handan þessa heims sem gerir honum fært að galdra í baráttu sinni við ill öfl. Ljóst er að del Toro þarf að forgangsraða vel öllum þessum gífurlega spennandi verkefnum sem bíða hans. Ljóst er að maður kemst ekki hjá því að fylgjast náið með þessum manni næstu árin.

Svar mitt við spurningunni í titli greinarinnar er að mínu mati ótvírætt já, enda er The Hobbit afar myndræn saga með miklum hasar og skrímslum, launráðum og dáðum, og þar að auki magnaðan lokabardaga milli fimm ólíkra herja, þar sem sumar hetjur falla, en þær sem eftir lifa verða goðsögur í þeirra heimi.

Sýnishorn úr nokkrum myndum eftir Guillermo del Toro.  Athugið að megnið af hans myndum eru hrollvekjur og fantasíur, þannig að sumum gæti misboðið sýnishornin.

 

Cronos (1993)

 

Mimic (1997) (Fann þetta bara döbbað á spænsku)

 

El Espinazo del Diablo (2001)

 

Blade II (2002)

 

Hellboy (2004)

 

El Laberinto del Fauno (2006)

 

 

Hellboy 2: The Golden Army (2008)

 

Ég skrifaði aðra grein um sama mál 28.1.2008 undir heitinu:  Guillermo Del Toro leikstýrir The Hobbit eftir J.R.R. Tolkien

 

Mynd af Smaug eftir Alberto Gordillo: GFX Artist


mbl.is Toro leikstýrir Hobbitanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Loksins þegar LOTR var búið kemur Hobbitinn

Hann verður án efa með Pétur Jakobsson á bakinu allan tíman og þætti mér það ekki ólíklegt að allt færi í háaloft í miðjum klíðum.

En kannski ekki nógu lengi var hann að staðfesta þetta.

Ómar Ingi, 26.4.2008 kl. 21:19

2 identicon

Spennandi! Hobbitinn er ein af mínum uppáhalds sögum, lesið hana svo oft að ég hef ekki á því tölu lengur :)

takk fyrir góða færslu.

kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 09:51

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

ohhhhhh... nú verð ég að teygja mig í hilluna og ná í Hobbitann minn og lesa hana í skrilljónasta skipti! :)

Heiða B. Heiðars, 27.4.2008 kl. 11:38

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Elías: sjálfsagt gleður það þig mikið að Guillermo del Toro er ekki evrópskur leikstjóri frekar en Nýsjálendingurinn Peter Jackson. Guillermo er frá Mexíkó.

Hrannar Baldursson, 29.4.2008 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband