Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
3:10 to Yuma (1957) ****
5.2.2008 | 19:01
3:10 to Yuma (1957) ****
Ben Wade (Glenn Ford) og glæpaflokkur hans ræna gullsendingu frá herra Butterfield (Robert Emhardt) og til að stoppa vagn hans nota þeir nautgripi frá bónda í nágrenninu. Þessi bóndi, Dan Evans (Van Heflin) verður vitni að ráninu ásamt tveimur sonum sínum. Hann situr aðgerðarlaus á hesti sínum og lætur Wade fá sinn eigin hest og sona sinna þegar hann biður um þá. Dan Evans er einfaldlega skynsamur maður sem vill ekki hætta lífi sona sinna við ómögulegar aðstæður.
Yngri sonurinn er hissa á föður sínum að gera ekkert í málunum, og eiginkona hans, Alice Evans (Leora Dana) er undrandi að heyra að hann hafi staðið aðgerðarlaus hjá á meðan glæpur var framinn, gefur honum augnaráð eins og hún sé hissa á honum og þekki hann ekki almennilega. Það er ljóst að stolt hans er sært.
Það hefur verið þurrkur í þrjú ár og nautgripir hans eru að skrælna. Eina leiðin til að þeir geti lifað af er ef þeir fá að drekka úr læk sem rennur um jörð nágrannans. Þessi réttur mun hins vegar kosta hann 200 dollara. Dan fer í bæinn til að biðja um lán. Hann slysast til að vera réttur maður á réttum stað, eða rangur maður á röngum stað, því að hann nær að handsama Ben Wade ásamt bæjarbúum. Þegar hann fær ekki lánið en er boðið 200 dollara til að fara með Wade til lestarstöðvar þar sem lest fer um kl. 15:10 á leið til Yuma, ákveður hann að taka starfið.
Það sem kemur helst á óvart er að glæpamaðurinn Ben Wade er ekki eins og glæpamenn eru flestir. Hann er þægilegur og rólegur í umgengni, greinilega mjög gáfaður og sýnir því sem hann telur hafa gildi mikla virðingu. Herra Butterfield og bæjarróninn Alex Potter (Henry Jones) fara með þeim að lestinni.
Eftir að komið er inn á hótel þar sem þeir Wade og Evans bíða lengi inni á hótelherbergi, ræða þeir saman, og virðing Wade fyrir Evans fer dýpkandi. Þegar ræningjahópur Wade kemur í bæinn og Evans stendur einn eftir, þarf Evans að taka ákvörðun. Honum eru boðnir gull og grænir skógar fyrir að sleppa glæpamanninum, en stolt hans hefur verið sært og til eru hlutir mikilvægari en peningar og jafnvel lífið sjálft. Þetta er nokkuð sem Wade skilur og ber nú mikla virðingu fyrir heilindum bóndans, og nú stendur hann í þeim vanda að koma fangaverði sínum lifandi í gegnum hans eigin ræningjahóp á leið þeirra að lestinni til Yuma kl. 15:10.
3:10 to Yuma er hörkuspennandi og vel leikinn vestri. Ég hef ekki séð nýju útgáfuna frá 2007, get varla beðið eftir að hún komi út á DVD, þar sem að hún fær hörkudóma líka. Handritið er líka vel skrifað, eftir smásögu Elmore Leonard.
3:10 to Yuma fjallar um virðingu, heiður, vináttu, traust, bræðralag og hugrekki á mjög spennandi hátt. Ég hef lengi haft mikið dálæti af vestrum þar sem hetjurnar klóra sig í gegnum stanslausa erfiðleika og lifa það stundum af, en stundum ekki. Ég mæli afdráttarlaust með þessari útgáfu af 3:10 to Yuma.
Sýnishorn:
Ned Kelly (2003) ***
4.2.2008 | 02:37
Ned Kelly (Heath Ledger) er bóndasonur í Ástralíu af írskum uppruna. Hann er handtekinn fyrir að stela hesti sem hann stal ekki, og fyrir að lemja lögreglumann sem skaut að honum af engu tilefni. Fyrir þetta þarf Kelly að dúsa þrjú ár í fangelsi.
Þegar hann sleppur út taka á móti honum besti vinur hans, Joseph Byrne (Orlando Bloom) og bróðir (Dan Kelly). Þeir félagar hefja hrossarækt sem gengur ljómandi vel. Ned kemst í kynni við gifta konu, Julia Cook (Naomi Watts) og fljúga neistar og fleira milli þeirra. Þegar Ned er ásakaður fyrir að hafa skotið á lögregluþjón þarf hann að leggja á flótta. Þar sem að ásökunin er hreinn uppspuni reikna þeir félagar með að málinu verði lokið á fáeinum dögum.
En lögreglan handsamar móður Ned og stingur henni í steinnin þar sem hún fær að dúsa í nokkur ár. Lögreglumenn ráðast að Ned og félögum hans, og í sjálfsvörn drepa þeir þrjá þeirra. Þetta verður til þess að safnað er saman heilum her lögregluþjóna til að hafa uppi á þeim félögum.
Þar sem að Kelly og félögum hefur verið stuggað út í horn, ræna þeir banka og koma peningunum til fjölskyldna sem hafa verið beittar órétti af lögreglunni og segja sína sögu öllum þeim sem vilja heyra. Þeir öðlast fádæma vinsældir. Enda minna þeir töluvert á Hróa Hött og félaga.
Fyrir her lögreglumannanna fer Francis Hare (Geoffrey Rush) sem heitir því að gera allt sem í hans valdi stendur til að drepa þessa harðsvíruðu útlaga.
Hinn nýlátni Heath Ledger sýnir stórgóðan leik í túlkun sinni á Ned Kelly, ástralskri þjóðsögu sem hefur verið gert skil af fjölmörgum öðrum leikurum, meðal annars af Mick Jagger úr Rolling Stones árið 1970 og í grínmynd með Yahoo Serious árið 1993.
Þó að persónusköpun annarra en Ned Kelly sé frekar yfirborðskennd, tekst vel að búa til kvikmynd sem minnir helst á Braveheart af öllum myndum, enda eru þemun ekki ólík. Ég viðurkenni fúslega að það vantar töluvert upp í að Ned Kelly teljist klassísk mynd, en Ledger er fantagóður.
Kvikmyndir | Breytt 5.2.2008 kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skipta trúarbrögð einhverju máli?
3.2.2008 | 22:11
Í dag var ég gagnrýndur fyrir að efast um nokkuð sem ég gat ekki vitað.
Mér finnst sjálfsagt að efast um hluti sem ég veit að ég þekki ekki. Þetta á sérstaklega við um hluti sem hægt er að sanna eða afsanna með sönnunargögnum. Þegar kemur að stærri málum, eins og tilvist Guðs, óendanleika alheimsins, eðli sálarinnar, náttúru mannsins, og slíku, þá leyfi ég mér líka að efast, án þess að það þýði endilega að ég sé trúlaus.
Trú er persónulegt fyrirbæri. Þegar um ósannanlega hluti er að ræða, sem eru jafnvel handan mannlegs skilnings - ekki það að ég þykist þekkja takmörk mannlegs skilnings - þá duga rök skammt og þar af leiðandi er tilgangslaust að rökræða slík mál. Þegar þú reynir að sannfæra einhvern um þína eigin trú þarftu að beita mælskulist þar sem markmið orðræðunnar er að sannfæra, en ekkert endilega að leiða hið sanna í ljós. Sumir virðast halda að sannleikurinn felist í kappræðu, að sá sem hefur betur í kappræðu hafi vald á sannleikanum. Eðli sannleikans er bara ekki svo einfalt.
Hins vegar tekst mönnum með ýmsum brögðum að sannfæra fólk um að vera hluti af hópi fólks sem trúir á sambærilega hluti. Þannig verða trúarbrögðin til, stofnanir um trú. Þessar stofnanir líta stundum svolítið stórt á sig og sumar þeirra telja jafnvel þá sem tilheyra ekki hópnum, einskis virði og glataðar sálir eða jafnvel sem sálarlaus skrímsli. Þetta getur gengið út í öfgar.
Til er fólk sem hefur ákveðna trú en finnur engan samhljóm með trúarbrögðum, og svo eru líka til einstaklingar sem trúa því að Guð sé ekki til, og finna því heldur ekki samhljóm með trúarbrögðum. Þetta fólk er trúarbragðaleysingjar, en er oft misnefnt sem trúleysingjar.
Trúleysingjar eru nefnilega undarlegt fyrirbæri, og leyfi ég mér að efast um tilvist þeirra. Trúleysingi er manneskja sem engu trúir. Sú manneskja trúir ekki að mjólkin sem hún er að drekka sé útrunnin eða ekki, né heldur hvort hún er að drekka mjólk yfir höfuð eða ekki. Sú manneskja trúir ekki á þörf þess að drekka, né á þörf þess að lifa. Ég leyfi mér að efast um að algjörlega trúlaus manneskja sé til.
Aftur á móti eru til manneskjur sem trúa ekki á tilvist Guðs, og spurning hvort að það fólk mætti ekki kalla Guðleysingja. Reyndar væri það vafasamt, því að ef Guð er til og er algóður, þá myndi hann sjálfsagt sjá aumur á þeim sem trúa ekki að hann sé til, og ekkert verða sár út í þau. Því hver getur verið sár út í þá sem hafa ekki forsendur til þekkingar?
Samt skil ég vel mikilvægi trúboðs. Málið er að trúarbrögð geta hjálpað við að stjórna hópum af fólki til betra lífs. Trúarbrögð getur komið hlutum í reglu þar sem engin regla var fyrir. Trúarbrögð geta hjálpað við að leiða siðferðilega fötluðu fólki til betri vegar, fólki sem er ekki tilbúið til að átta sig á hvað er gott eða illt, rétt eða rangt, satt eða ósatt, út frá eigin forsendum, og finnst betra að treysta á yfirvald til að segja sér hvað er gott eða illt, rétt eða rangt og satt eða ósatt.
Ekki ætla ég að fullyrða um hvernig best er að lifa lífinu, tel best að hver og einn fái nógu góða menntun sem gefi forsendur til að meta hlutina út frá eigin forsendum. Við erum líkleg til að lifa eftir þeim reglum sem við setjum okkur sjálf.
Það væri óskandi að til væru kúrsar í gagnrýnni hugsun á öllum skólastigum sem gerðu þetta mögulegt. Ég held að slíkir kúrsar séu nauðsynlegir hvort sem að þjóð er á flótta undan trúarbrögðum eða tekur þeim fagnandi.
Hvað finnst þér?
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
TMNT (Teenage Mutant Ninja Turtles) 2007 *1/2
2.2.2008 | 21:32
Stökkbreyttu unglinganinjaskjaldbökurnar birtast loks aftur á tjaldinu eftir langa fjarveru. Skjaldbökurnar hafa elst lítið eitt frá því að síðasta mynd í bálknum kom út árið 1993 (Teenage Mutant Ninja Turtles III). Þær hefðu mín vegna mátt hvíla nokkra áratugi í viðbót og birtast sem stökkbreyttar risaskjaldbökur, sem flúið hafa holræsin af því þær eru orðnar alltof feitar eftir endalaust flatbökuát. Myndi sú mynd fjalla um hvernig þeim gengi að komast inn á elliheimili, en vandinn væri sá að þær væru svo kalkaðar að þeim tækist ekki að muna neitt lengur en fimm mínútur í einu. En þetta er ekki svoleiðis mynd.
Fjórar táningsskjaldbökur sem þjálfaðar hafa verið að rottunni Splinter (Mako) til bardagalista ná ekki lengur saman sem liðsheild. Þegar hinn 3000 ára gamli auðkýfingur og forn stríðskóngur undir álögum, Winters (Patrick Stewart) ákveður að ná saman sínum gömlu vinum, sem eru í álögum, til þess eins að stoppa sína eigin alltof langa ævi, þýðir það að 13 skrímsli ráðast á New York borg og gömlu vinir Winters snúast gegn honum, en nú eru þeir úr steini og þykjast sjá að Winters ætli að stoppa ódauðleika þeirra.
Skjaldbökurnar blandast inn í málin og taka að sjálfsögðu þátt í að leysa það sem ein liðsheild og með því eina sem dugar á skrímsli, ofbeldi og meira ofbeldi. Annars vil ég sem minnst skrifa um þessa mynd. Ég hafði á tilfinningunni að höfundar hefðu ekkert að segja og sagan eftir því. Aftur á móti eru þrívíddarteikningarnar afar flottar, og öll tæknivinna til fyrirmyndar. Það er bara ekki nóg, að minnsta kosti ekki fyrir mig.
Kannski er ég bara orðinn alltof gamall fyrir svona vitleysu, - en samt ekki, því ég gaf skjaldbökunum séns. Málið er að þessi mynd er í rauninni hvorki fyrir börn né unglinga, því að sagan er of barnaleg fyrir unglinga og of ofbeldisfull fyrir börn, nema þau sem við viljum heilaþvo og telja trú um að ofbeldi sé svalt, og þar af leiðandi einelti ekkert annað en aumingjavæl. TMNT er svo sannarlega ekki heldur fyrir fullorðna sem eru með einhverjar virkar heilasellur á milli eyrnanna.
Þema myndarinnar er mikilvægi fjölskyldu og vina og hversu vonlaust er að vera til í heimi þar sem vinir manns og fjölskylda geta ekki verið vinir.
Sýnishorn:
Kvikmyndir | Breytt 3.2.2008 kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sumum orðasamböndum botna ég alls ekkert í. Eitt þeirra er tengt þeirri stífu stefnu að fólk verði að segja: "Ég hlakka til" en að bannað sé að segja "Mig hlakkar til."
Ég hef þá tilfinningu að orðanotkunin "Mig hlakkar til einhvers" sé rétt og að "Ég hlakka til einhvers" sé röng, þrátt fyrir að íslenskufræðingar segi annað. Hins vegar finnst mér rangt að segja "Mig hlakkar yfir óförum annarra", en réttara væri, "Ég hlakka yfir óförum annarra." (Ekkert sérstaklega geðslegur eiginleiki samt).
"Mér hlakkar til" eða "mín hlakkar til" er aftur á móti tómt bull og steypa.
Ég vil halda því fram að eftirfarandi sé tvær ólíkar sagnir:
- Að hlakka (Ég hlakka)
- Að hlakka til (Mig hlakkar til)
Hefurðu skoðun á þessu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)