Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Af hverju eru Íslendingar svona fljótir að gleyma?

Ég hef margoft heyrt minnst á að reiðiöldur Íslendinga verði að engu innan fárra vikna, enda erum við svo fljót að gleyma þegar einhver kemur illa fram við okkur.

Þjóðin hneykslaðist mikið þegar settur dómsmálaráðherra valdi mann í stöðu sem var ekki álitinn hæfastur að mati dómnefndar, en samt hæfur. Má taka fram, ákvörðun ráðherra til stuðnings (eða ekki) að umræddur einstaklingur hafði starfað í dómsmálaráðuneytinu og því þekkti ráðherra af störfum hans í stjórnsýslu hversu hæfur dómari hann hlýtur að vera.

Reykvíkingar hneyksluðust mikið þegar sjálfstæðismenn og frjálslyndir (Ólafur F.) kipptu borgarstjórastólnum undan Degi B. Eggertssyni þegar hann ætlaði að fá sér sæti þarsíðasta mánudag. Svokölluð skrílslæti, eða mótmæli um 1000 manns, truflaði fund um nokkrar mínútur - og þótti það alvarlegt mál, það alvarlegt að enginn hefur þorað að þykjast skríll upp frá því.  Þannig að nú starfar settur dómsmálaráðherra í friði sem fjármálaráðherra, Ólafur F. sem borgarstjóri, og Vilhjálmur Þ. bíður þolinmæður eftir að söðla undir sig stólinn. Og allir hafa gleymt Spaugstofuþættinum góða.

Ég velti fyrir mér hvort að þetta séu meðvitaðar aðgerðir, þar sem reiknað er með að hinn íslenski almúgi verði í fyrsta lagi fljótur að gleyma (enda valdarán Reykjavíkurborgar sviðsett á sama tíma og Evrópumót landsliða í handknattleik fór fram - en það er klassísk brella stjórnmálamanna víða um heim að framkvæma vafasama hluti þegar athygli fólks er annars staðar, - en núverandi borgarstjóra til mæðu gekk Íslandi illa í handboltakeppninni og fólk vildi hugsa um eitthvað allt annað en handbolta á þessu augnabliki).

Við höfum fengið þær fréttir að við erum ríkasta og hamingjusamasta fólk í heimi, og sjálfsagt erum við líka umburðarlyndust, frumlegust, klárust, fallegust og skemmtilegust líka, að minnsta kosti miðað við höfðatölu. Yfir hverju höfum við þá svosem að kvarta? Það er ekki eins og einhver hafi verið drepinn! Er ekki í lagi þó að einhverjir kallar fái sínu fram, svo framarlega sem að skaðleg áhrif eru ósýnileg í fljótu bragði?

Hvað með það þó að aðför sé gerð að lýðræðinu? Það veit hvort eð er enginn nema háskólamenntaðir nördar sem geta átt það til að leggja sig undir skriðdreka hvað lýðræði er hvort eð er. Þýðir lýðræði kannski það að við veljum manneskju til að kaupa handa okkur pizzu og svo höfum við ekkert með það að segja þegar hún kemur með gráðostapizzu með skinku, sveppum og humar? Það erum við sem völdum manneskjuna til að kaupa pizzuna, við gáfum frá okkur valdið til að hafa eitthvað um það að segja hvað verður á pizzunni okkar - og við megum bara þakka fyrir að við fáum pizzu yfir höfuð, en ekki súrt slátur. Sá sem við völdum, hann ræður... öllu!

Um hvað var ég aftur að tala? Ó já, gleymni.

Ef engin væri gleymnin væri alltof mikið af þekkingu til staðar í heiminum. Við lesum svo mikið, hlustum svo mikið á fréttir, og fylgjumst svo vel með því sem er að gerast í heiminum, og sérstaklega náunganum, að við höfum ekki tíma til að halda okkur við eitthvað eldgamalt mál sem gerðist fyrir þremur vikum, hvað þá tveimur mánuðum. Við lifum í alltof hröðu þjóðfélagi til að staðna í sama málinu. Það er óþarfi að teygja hugann margar vikur aftur í tímann þegar enginn tapaði aleigunni, enginn var meiddur og enginn drepinn. Við sjáum það bara á fréttum að okkar spillingarmál eru samasem ekki neitt miðað við það sem gerist úti í hinum stóra heimi. Þó að Reykjavíkurborg verður endurnefnd sem Litla-Ítalía, hverjum er ekki sama?

Svo er það spurningin. Er okkur kannski sama? Og er kannski allt í lagi að vera sama? Viljum við ekki bara fá eitthvað til að kjafta um af því að íslenski veturinn er svo leiðinlegur? Kvörtum við kannski bara af því að allir hinir gera það?

Festist ekkert í þjóðarsálinni nema harður dómur verði gerður, að ákvörðun verður tekin, að einhverjum verður refsað, að einhver fái að hirða pokann sinn? Ef ráðamenn gera hluti sem eru siðlausir en löglegir, skiptir það engu máli þar sem við erum svo fljót að gleyma?

Ég þekki fólk sem man ekki söguþráð kvikmyndar daginn eftir að það horfði á hana, og jafnvel ekki að það hafi verið að horfa á viðkomandi kvikmynd, og þrætir jafnvel fyrir það. Fer þannig fyrir verkum sem framkvæmd eru af siðleysi en án þess að vera kærð og dæmd? Að þau gleymist því við nennum ekki að eyða tíma í þau?

Er það siðferðileg skylda almennings að kæra slík mál til dómsstóla, til að þau gleymist ekki og að hugsað verði meira um þau og sams konar framkvæmdir í framtíðinni? Hver leggur línurnar um hvað má og hvað ekki má?

Skiptir kannski siðferði engu máli lengur? Hafa lögin tekið við siðferðisvitundinni?

Af hverju munum við það sem við munum og gleymum því sem við gleymum?


Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 10. sæti: Abre los Ojos

Niðurtalningin heldur áfram. Í athugasemdum hefur verið hneykslast svolítið á því að Blade Runner skuli ekki komast hærra á blað hjá mér. Vissulega tel ég þá kvikmynd góða, og samþykki að um tímamótaverk sé að ræða sem umbylti vísindaskáldsögum á hvíta tjaldinu. Hún er samt ekki nógu skemmtileg til að komast inn á topp 10 hjá mér.

Næsta mynd er mögnuð pæling um veruleikann, sannleikann, fegurð, gildi lífsins og tímaflakk inn í framtíðina, ein af mínum eftirlætis pælingamyndum og þá sérstaklega vegna þess að það er bráðskemmtilegt að horfa á hana, enda eilífðarhugtökum fléttað inn í rómantíska sögu þar sem morð, kynlíf og svik spila stóra rullu.

Abre los Ojos er sérstaklega ætluð þeim sem eru svolítið spilltir og hafa verið duglegir að stinga aðra í bakið, en aðalandhetja myndarinnar er einmitt slík týpa. Opnaðu augun gæti alveg eins verið nútímasaga úr Reykjavík.  

 

Abre los Ojos (1997) ****

Sjálfselski glaumgosinn César (Educardo Noriega) heldur fjölmenna afmælisveislu. Meðal gesta er besti vinur hans, Pelayo (Fele Martinéz), sem kemur með kærustu sína, Soffíu (Penélope Cruz). César verður strax hrifinn af henni og grípur tækifærið þegar vinur lítur undan og fylgir stúlkunni heim. Þau eyða nóttinni saman.

Næsta morgun þegar César er á heimleið keyrir Nuria (Najwa Nimmi) upp að honum og býður honum far. Hann sest upp í hjá henni. Hún keyrir vísvitandi útaf veginum á ofsahraða, drepur sjálfa sig en César lifir af. Þegar César uppgötvar að andlit hans hefur eyðilagst í slysinu, og læknar geta ekkert gert, leiðist hann út í hreina örvæntingu.

Hann trúir ekki að nokkrum geti líkað við mann með afmyndað andlit. Hann trúir ekki að Soffía geti elskað hann og efast um vináttu Pelayo. César ákveður að láta frysta sig þar til tækninni hefur farið það mikið fram að hægt verði að laga andlit hans.

Þessa sögu segir César sjálfur, hulinn sviplausri grímu, í viðtali við sálfræðinginn Antonio (Chete Lera), læstur í fangaklefa, ákærður fyrir morð. Eftir dáleiðslutíma fer César að gruna veruleikann vera annan en það sem hann upplifir. Hann grunar að hann sé hvorki staddur í veruleikanum né draumi; heldur martröð og sjálfskaparvíti sem hann verður að sleppa úr.

Eftir því sem að César er sannfærðari um að lifa í draumaveröld, fyllist sálfræðingurinn Antonio efasemdum um hvort að hann sjálfur sé raunverulegur. Þeir verða að komast að sannleikanum.

Abre los Ojos er spænsk mynd, leikstýrð af Alejandro Amenábar, sem meðal annars hefur einnig gert hinar stórgóðu The Sea Inside og The OthersAbre los Ojos var endurgerð af Cameron Crowe undir nafninu Vanilla Sky með Tom Cruise í aðalhlutverki. Þrátt fyrir góða takta, er endurgerðin langt frá því að vera jafngóð frumgerðinni, sérstaklega þar sem að leikur Eduardo Noriega er óviðjafnanlegur.

Abre los Ojos fjallar um hugtök og spurningar um fegurð, sannleika, þekkingu og framhaldslíf, sem hverjum og einum er hollt að hugsa um.

 

10. sæti: Abre los Ojos

11. sæti: The Thing

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


Spaugstofan og siðferðisþroski

bilde?Site=XZ&Date=20080128&Category=LIFID01&ArtNo=80128078&Ref=AR&NoBorder

Eftir að Spaugstofumenn birtust með háði og spotti á laugardagskvöldið hafa fjölmargir þyrlað ryki yfir almenning og í augu hans með því að átelja grínarana fyrir lágkúrulega árás á Ólaf borgarstjóra og geðsjúka, en gleymt því að ráðamenn hafa sýnt þegnum sínum enn verri lítilsvirðingu, og það í verki. Stutt er að minnast á dómararáðningamálið, þar sem farið var eftir lögum en gegn anda laganna, þar sem sitjandi dómsmálaráðherra sýndi því miður lágan siðferðisþroska með slökum rökstuðningi fyrir ákvörðun sem var byggð á duttlungum og pólitík.

Enn styttra er að minnast á yfirtöku sjálfstæðismanna á borginni með Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Ólaf flokklausa en þar nýtti fólk rétt sinn til friðsamlegra mótmæla með því að mótmæla fjandsamlegri yfirtöku á sjálfri Reykjavíkurborg, en áður hafði Vilhjálmur hrökklast frá völdum eftir eigin mistök og sýnt að hann valdi ekki starfinu. Þá var reynt að þyrla ryki í augu almennings og yfir hann með að gagnrýna fólkið sem mætti á palla til að mótmæla harkalega því óréttlæti sem það hefur upplifað síðustu daga. Það er þeirra réttur, og geta ekki kallast óspektir þar sem enginn  framdi eða hótaði ofbeldisverkum.

Að mínu mati er öll gagnrýni á siðgæðisvitund Spaugstofumanna marklaus, þar sem Spaugstofumenn hafa engin völd í þjóðfélaginu önnur en að kitla hláturtaugar okkar þegar vel tekst til, hið svokallaða fimmta vald. Við vitum vel að það er engin nauðsyn að taka þá alvarlega og að hver og hvað sem er getur orðið að skotmarki þeirra. Það að geðsjúkdómar séu orðið eitthvað tabú í dag réttlætir enn frekar að Spaugstofumenn taki slíka sjúkdóma fyrir, enda eiga geðsjúkdómar ekki að vera neitt tabú - menn eiga ekki að þurfa að skammast sín fyrir þá.

Ef Spaugstofumenn halda nú rétt á spöðunum ættu þeir að geta gert úr þessu klassískt efni, því að nú mun öll þjóðin fylgjast með þeim á næsta laugardegi, og þora þeir vonandi að ganga jafnlangt og Monty Python gerði forðum daga á BBC, og í stað þess að draga sig til baka og biðjast afsökunar, hæðast að landanum með meiri krafti en nokkru sinni fyrr.

Svo get ég ekki annað hrósað gömlum skólafélaga úr Breiðholtinu Erlendi Eiríkssyni, sem túlkaði Ólaf snilldarlega í þessum þætti.


Guillermo Del Toro leikstýrir The Hobbit eftir J.R.R. Tolkien

Eins og flestir vita er The Hobbit forsaga The Lord of the Rings, sem Peter Jackson leikstýrði við fádæma undirtektir. Þar sem að Peter Jackson er fastur í öðrum stórverkefnum, meðal annars leikstjórn og framleiðslu á Tinna, ásamt Steven Spielberg, hefur Jackson samþykkt að vera framkvæmdastjóri verkefnisins (executive producer ef ég skil það hlutverk rétt).

Ég man þegar fyrst var tilkynnt að Peter Jackson myndi leikstýra The Lord of the Rings, þá tók hjarta mitt kipp, enda þekkti ég hans eldri myndir og vissi að hann smellpassaði sem leikstjóri. Ég skrifaði meira að segja ritgerð um þetta val á writtenbyme.com, þar sem ég skrifaði greinar í nokkur ár. Þar voru margir í vafa um hvort ég hefði rétt fyrir mér. Eflaust eiga einhverjir eftir að efast um del Toro fyrir The Hobbit, en ekki ég.


Verið er að ræða við mexíkóska leikstjórann Guillermo del Toro um að leikstýra The Hobbit, og verður hún þá gefin út í tveimur hlutum sem teknir verða upp samtímis. Að mínu mati er þetta einfaldlega frábært val á leikstjóra, enda hefur del Toro sýnt frábært vald á sögum sem krefjast einhvers myrkurs og húmors samtímis. Allar myndir hans hafa þó ekki slegið í gegn, og þar á meðal Hellboy, sem samt á sína góðu spretti, og Blade II. Aftur á móti gerði hann hinar stórkostlegu dramahrollvekju El Espinazo del Diablo (Mæna Djöfulsins) og hina frábæru El Laberinto del Fauno (Völundarhús Pans). Ég hef lesið The Lord of the Rings á tíu ára fresti síðan ég var sextán ára gamall, og The Hobbit oftar.

The Hobbit fjallar um ævintýri Bilbo Baggins, gamla frænda Frodo. Galdrakarlinn Gandálfur býður þrettán dvergum í heimsókn til Bilbós, en þeir þurfa að fá hann með sem þjóf í leit að fjársjóði sem varinn er af drekanum Smaug. Bilbo er ekkert sérstaklega hrifinn af ævintýrum, og er meira fyrir að sötra te, en hann lætur sig hafa það og slæst með í hópinn. Áður en hann veit af er hann farinn að berjast við risakóngulær, tröll, orka og úlfa, Gollúm og drekann ógurlega klóka, auk þess að hann þarf að takast á við óvænt vandamál í eigin hóp. Endar bókin á eftirminnilegu stríði á milli fimm herja.

Nú getur maður farið að hlakka til.

 

Teikningarnar eru eftir Alan Lee, af vefsetrinu TheOneRingNet


The Thing from Another World (1951) **1/2

Hópur hermanna úr bandaríska flughernum er sendur á rannsóknarstöð á Norðurpólnum þar sem vísindamenn urðu varir við fljúgandi furðuhlut. Stór hópur fer með herflugvél að svæðinu þar sem hluturinn lenti, og í ljós kemur að þetta er disklaga skip utan úr geimnum. Það hefur gefið frá sér mikinn hita, sokkið í ísinn sem fraus aftur saman. Ákveðið er að losa skipið með hitasprengjum, en það fer ekki betur en svo að þeir sprengja geimskipið í tætlur. Þegar þeir skoða svæðið finna þeir geimveru frosna undir yfirborði klakans, höggva bút úr ísnum og taka með heim í búðirnar.

Ákveðið er að geima veruna frosna, þrátt fyrir mótmæli vísindamanna, sem vilja rannsaka hana og vekja til lífsins. Einn af vörðunum yfir klakanum er svo gáfaður að leggja hitateppi sem er í sambandi ofan á ísinn, þannig að hann bráðnar, og veran losnar.

Fljótt kemur í ljós að þessi vera er langt frá því að vera vinsamleg. Hún ræðst á sleðahunda og drekkur úr þeim allt blóð. Það sama gerir hún við vísindamenn sem hún nær í. Hópurinn sér að nauðsynlegt er að drepa geimveruna, áður en hún næði að drepa þá og drekka úr þeim allt blóð. Vísindamaðurinn Dr. Carrington (Robert Cornthwaite) vill allt gera til að vernda geimveruna, en flugmaðurinn Patrick Hendry (Kenneth Tobey) vill hins vegar drepa hana sem allra fyrst.

Því miður er persónusköpun fyrir neðan allar hellur, fyrir utan kannski vísindamanninn Dr. Carrington, en samt er hann frekar klisjukennd flatneskja, en ekkert í samanburði við alla hina, sem eru eins og klipptir út úr klisjumetbók Guinnes. Það er lítið mál að fyrirgefa úreltar tæknibrellur, en staðnaðan og stirðan leik er erfiðara að fyrirgefa. Geimskrímslið er samt skemmtilega ógnvekjandi og það eru til nokkur atriði sem fá mann til að bregða.

Ég er viss um að The Thing from Another World hafi þótt frábær á sínum tíma, en hún hefur einfaldlega ekki elst vel, annað en hægt er að segja um endurgerð hennar frá 1982, The Thing, í leikstjórn John Carpenter. Maður sér bara betur hvílíkt þrekvirki John Carpenter hefur unnið með því að endurskrifa söguna frá grunni og skapa eftirminnilegar persónur sem erfitt er að gleyma.

Á meðan The Thing frá 1982 fjallaði um tortryggni og það hvernig samskipti og traust manna molna við erfiðar aðstæður, er 1951 útgáfan mun bjartsýnni á megn mannsins til að ráða við hverja þá ógn sem skotist getur upp á yfirborðið. Þó að ég sé frekar bjartsýnn maður, þá er ég hrifnari af raunsæju og jafnvel bölsýni John Carpenter, enda varð eitthvað til í því ferli sem er erfitt að gleyma.

 

Sýnishorn:


Eastern Promises (2007) ***1/2

Nikolai (Viggo Mortensen) er bílstjóri og útfararstjóri, eða með öðrum orðum hreingerningarmaður rússnesku mafíunnar í London. Hann starfar fyrir hinn óreglusama Kirill (Vincent Cassel) son mafíuforingjans.Semyon (Armin Mueller-Stahl). Kirill lætur myrða vin sinn án samráðs við föður sinn, en þessi vinur hans hafði verið að halda því fram að Kirill væri samkynhneigð fyllibytta. Nikolai þarf að hreinsa upp sönnunargögnin eftir morðið.

Annars staðar í borginni deyr unglingsstúlka af barnförum á sjúkrahúsi. Hún skilur eftir sig dóttur og dagbók, sem ljósmóðirin Anna (Naomi Watts) tekur með sér heim. Þar sem að bókin er á rússnesku fær hún frænda sinn til að þýða hana fyrir sig. Hún finnur nafnspjald í bókinni sem leiðir hana á heimili mafíuforingjans, og fljótlega veit hann um bókina og að frændi hennar er að lesa hana. Í bókinni segir unglingsstúlkan frá því hvernig Semyon hafði nauðgað henni og haldið henni nauðugri og dópað upp með heróíni.

Semyon fær Nikolai til að þagga niður í Önnu og fjölskyldu hennar, en málið er ekki það einfalt, því að Nikolai ber virðingu og hugsanlega einhverjar tilfinningar til Önnu, en á sama tíma komast bræður mannsins sem Kirill lét myrða, að því hverjir sökudólgarnir eru. Semyon vill að sjálfsögðu ekki láta drepa son sinn, og gefur því Nikolai það verkefni að deyja í stað sonar síns, án þess náttúrulega að segja Nikolai frá því. En Nikolai hefur meira til brunns að bera en nokkurn grunar, og hefur aðeins meiri metnað en að vera bílstjóri og útfararstjóri mafíuforingja.

Eastern Promises er meistaraleg söguflétta frá David Cronenberg sem borgar sig ekki að útskýra um of. Hún er uppfull af trúarlegum tilvísunum, og þá sérstaklega í húðflúrum þeim sem Nikolai hefur um líkamann allan. Yfir brjóstkassann er húðflúraður kross, og hegðun hans og viðmót gefa alls ekki til kynna að hann sé harðsvíraður glæpamaður. Hann er nær því að vera heilagur maður eða munkur, sem þarf að gera hræðilega hluti til að ná markmið sem bæta skal heiminn. Hann er maður sem fórnar sér fyrir málstaðinn.

Ef einhvern veikan hlekk er að finna í Eastern Promises, þá myndi ég helst benda á óvenju slakan leik Naomi Watts. Hún les sig einfaldlega í gegnum hlutverkið og myndina, á meðan þeir Vincent Cassel og Viggo Mortensen gefa sig alla og Viggo jafnvel meira en það til að gera hlutverki sínu almennileg skil.

Eastern Promises situr í mér og hvetur mig til umhugsunar um siðferði og fórnir sem sumir einstaklingar færa til að bæta samfélagið á einhvern hátt. Og mér verður hugsað til þess hvernig gott siðferði og fórnir fyrir betri heimi virðast verið orðin  hugtök alltof fjarlæg fólki sem er sokkið í líf sem snýst um fátt annað en að eignast sem mest af hlutum og þægilegri aðstöðu en allir hinir. Við búum í skrítnum heimi, og fáum áhugaverða áminningu í þessari mynd um það hvernig fer þegar venjulegt fólk lendir í hringiðu hinnar eilífu baráttu hins góða og illa.

Sýnishorn:


Stórleikari fallinn: Heath Ledger (1979-2008)

Þeir segja að þegar fræga fólkið deyr, þá eru það alltaf þrír í einu. Vonandi er það ósatt. Robert J. Fischer dó í síðustu viku, og Heath Ledger í gær.

Heath Ledger var með betri leikurum í Hollywood og var honum spáð miklum frama með hans næstu mynd, framhaldsmyndinni af Batman Begins (2005), The Dark Knight (2008). Það var búið að taka hana upp, þannig að hún verður líklegast tileinkuð minningu Heath Ledger þegar hún kemur í bíó næsta sumar.  Ledger var tilnefndur til óskarsverðlauna árið 2005 fyrir leik sinn í Brokeback Mountain. Einnig þótti hann þrælgóður í myndinni um Bob Dylan, I'm Not There.

Síðasta mynd sem ég sá með Ledger var The Brothers Grimm (2005) sem mér fannst afar góð. Annars ætla ég að setja inn sýnishorn úr þeim myndum sem ég hef séð eftir hann.

The Patriot (2000)

Leikur elsta son Mel Gibson, sem berst fyrir frelsi gegn Englendingum í bandarísku byltingunni árið 1776. Eftirminnilegastur allra í þeirri kvikmynd - stal senunni af Gibson sjálfum.  

A Knight's Tale (2001)

 

 

Leikur bóndason sem vill gerast riddari. Eftirminnileg gamanmynd um miðaldariddara þar sem tónlist Queen virðist lifa á meðal fólksins. 

Monster's Ball (2001)

Leikur ungan mann í sjálfsvígshugleiðingum. Þetta er myndin þar sem Halle Berry fékk óskarinn.  

The Four Feathers (2002)

Leikur breskan hermann árið 1884 sem talinn er heigull fyrir að hætta í hernum. Fyrir vikið tapar hann ástum kærustu sinnar, en ákveður að sanna hugrekki sitt með því að fara dulbúinn í stríð ásamt vinum sínum.

The Brothers Grimm (2005)

Leikur annan Grimmsbræðra, þann sem lifir í heimi ímyndunaraflsins þar sem allt getur gerst. 

Brokeback Mountain (2005)

Leikur kúrekastrák sem verður ástfanginn af öðrum kúrekastrák, giftist síðan konu en heldur síðar framhjá henni með kúrekastráknum. 

 

Og fljótlega:

The Dark Knight(2008)

Leikur The Joker, hrikalega geðveikan glæpamann sem er höfuðóvinur ofurhetjunnar Batman. 

 

Blessuð sé minning þessa fína leikara.

 

Takk fyrir skemmtunina. 


mbl.is Heath Ledger látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snillingur fallinn: Robert James Fischer (1943-2008)

Minningargrein um Bobby Fischer með hans eigin orðum. Hann var snillingur á skákborðinu en leiddist út í öfgafullar og ofsóknakenndar skoðanir gegn gyðingum, Bandaríkjamönnum, vestrænum læknavísindum, konum og öðrum skákmönnum, sem er nokkuð sem ég get engan veginn tekið undir. Samt átti hann fjölda gullkorna sem vert er að rifja upp, hvort sem að þau eru pólitískt rétt eða röng.

Hann var sjálfum sér verstur, en átti litríkan feril, og heimurinn, og þá sérstaklega skákheimurinn og Ísland, væri án nokkurs vafa mun fátækari án hans. Ég hef oft kíkt yfir skákirnar hans og dáðst að hugrekkinu og dirfskunni sem hann komst upp með yfir skákborðinu. Mig grunar reyndar að hann hafi ekki gert skýran greinarmun á þeim hugsunarhætti sem góður árangur í skák krefst, og þeim ólíka hugsunarhætti sem þörf er á til að ná árangri í lífinu sjálfu.

Fischer fær orðið:

 

"Ég er ekki eins mjúk og gjafmild manneskja og ég væri ef heimurinn hefði ekki breytt mér." (Robert J. Fischer)

"Skák er stríð yfir borðinu. Markmiðið er að mylja huga andstæðingsins" (Robert J. Fischer)

"Ég held að það sé nánast öruggt að skákin er teórískt jafntefli." (Robert J. Fischer)
 

"Ég er besti skákmaður í heimi og er hérna til að sanna það." (Robert J. Fischer)

"Taktík flæðir úr bætri stöðu." (Robert J. Fischer)

 

"Farðu inn í hvern einasta dag óþekktur til að sanna þig." (Robert J. Fischer)

"Mig langaði að gefa þeim eitthvað til að hugsa um þegar þeir undirbúa sig gegn mér í framtíðarmótum." (Robert J. Fischer)

 

"Ég mótmæli því að vera kallaður skáksnillingur, því ég tel mig vera algjöran snilling sem vill bara þannig til að teflir skák, sem er nokkuð mikill munur. Rusl eins og Kasparov gæti verið kallaður skáksnillingur, en hann er eins og heimsk alfræðiorðabók um skák. Fyrir utan skákina hefur hann enga þekkingu." (Robert J. Fischer)

"Fyrsta kennslustund þín í skák verður að tefla alla þræði nútíma skákbyrjana, og einnig neðanmálsgreinarnar. Í næstu kennslustund vil ég að þú gerir það aftur." (Robert J. Fischer)

 

"Ef einhver tæki út fyllingu og setti raftæki í staðinn, gæti hann haft áhrif á hugsun þína. Ég vil ekkert gervi í mínu höfði... Ég lét fjarlægja allar mínar fyllingar fyrir þó nokkru." (Robert J. Fischer)

Einbeittu þér að því að vinna liðsmun. Allt sem andstæðingurinn gefur þér skaltu taka, nema þú sjáir góða ástæðu til að gera það ekki." (Robert J. Fischer)

 

"Skák er líf." (Robert J. Fischer)

"Andstæðingar mínir leika líka góða leiki. Stundum gleymi ég að taka tillit til þess." (Robert J. Fischer)

 

"Það eina sem ég vil nokkurn tíma gera er að tefla." (Robert J. Fischer)

"Eins og Ólafsson sýndi mér, þá getur hvítur unnið... Það er erfitt að trúa því. Ég vakti í alla nótt og skoðaði skákina, og sannfærði sjálfan mig að lokum, og svo vill til að í leiðinni lærði ég um hróka og peðsendatöfl." (Robert J. Fischer)

 

"Ég trúi ekki á sálfræði. Ég trúi á góða leiki." (Robert J. Fischer)

"Mér líkar ekki við bandarískar stelpur. Þær eru mjög stoltar. Þær evrópsku eru þægilegri." (Robert J. Fischer)

 

"Það eina sem skiptir máli á skákborðinu eru góðir leikir." (Robert J. Fischer)

"Stundum skrifa stelpur mér. Ein stúlka í Júgóslavíu sendi mér fullt af ástarbréfum. Ég veit ekki hvernig hún fékk heimilisfangið mitt. Hún var í áhorfendahóp sem horfði á mig tefla. Hún segir að þegar ég fór hafi stjörnurnar byrjað að hrapa af himnum yfir Júgóslavíu, eða eitthvað svoleiðis." (Robert J. Fischer)

 

"Eina leiðin til að verða góður í skák er að elska leikinn." (Robert J. Fischer)

"Ég á enga nána vini. Ég á engin leyndarmál. Ég þarf ekki á vinum að halda. Ég segi bara öllum allt, það er allt og sumt." (Robert J. Fischer)

 

"Skák heimtar algjöra einbeitingu og ást á leiknum." (Robert J. Fischer)

"Ég var vanur að klæða mig illa þar til ég varð sextán ára gamall. Fólk virtist ekki bera nógu mikla virðingu fyrir mér. Mér líkaði það ekki, þannig að ég ákvað að sýna þeim að þeir eru ekkert betri en ég. Þeir voru eiginlega að monta sig. Þeir sögðu, "Hann vann okkur í skák, en hann er samt bara illa klæddur krakki.' Þannig að ég ákvað að vanda klæðnaðinn betur." (Robert J. Fischer)

 

"98% af hugarorku minni fer í skák. Aðrir nota bara 2%" (Robert J. Fischer)

"Ég er ekki viss um hvað þú meinar með prímadonna, en ef ég hef ekki áhuga á einhverju eða ef mér leiðist einhver, eða ef ég held að þeir séu falskir, þá hef ég ekkert með þá að gera, það er allt og sumt." (Robert J. Fischer)

 

"Líkami þinn þarf að vera í toppformi. Skákin hrörnar samhliða líkamanum. Þú getur ekki aðskilið líkama frá huga." (Robert J. Fischer)

"Þú lærir ekkert í skóla. Það er bara tímaeyðsla. Þú ferð með bækur út um allt og vinnur heimavinnu. Enginn hefur áhuga á þessu. Kennararnir eru heimskir. Þeir ættu ekki að hafa neinar konur þarna. Þær kunna ekki að kenna. Þær ættu ekki að þvinga neinn til að ganga í skóla. Þú vilt ekki fara, þú ferð ekki, það er allt og sumt. Þetta er fáránlegt. Ég man ekki eftir neinu sem ég hef lært í skóla. Ég hlusta ekki á aumingja. Ég eyddi tveimur og hálfu ári í Erasmus skólanum. Mér líkaði engan veginn við þetta. Þú þarft að vera innan um alla þessa heimsku krakka. Kennararnir eru jafnvel heimskari en krakkarnir. Þeir tala niður til krakkanna. Helmingur þeirra er bilaður. Ef þeir hefðu leyft mér það, hefði ég hætt áður en ég varð sextán ára." (Robert J. Fischer)

 

"Ég undirbý mig vel. Ég veit hvað ég get gert áður en ég fer inn. Ég er alltaf fullur af sjálfstrausti." (Robert J. Fischer)

Ég ferðast mikið um heiminn. Evrópa, Suður Ameríka, Ísland. En þegar ég er heima, veit ég ekki. Ég geri ekki mikið. Ég vakna kannski klukkan ellefu. Ég klæði mig og allt, kíki í skákbækur, fer niður og borða. Ég elda aldrei minn eigin mat. Ég trúi ekki á svoleiðis. Ég borða ekki heldur á kaffistofum eða sjálfsafgreiðslustöðum. Mér finnst gott þegar þjónn þjónar mér. Góðir veitingastaðir. Eftir mat hringi ég yfirleitt í einhverja af skákvinum mínum, fer í heimsókn og skoða skák eða eitthvað. Kannski fer ég í skákklúbb. Síðan fer ég kannski í bíó eða eitthvað. Það er í rauninni ekkert að gera fyrir mig. Kannski skoða ég bara einhverja skákbók." (Robert J. Fischer)

 

"Sálfræðilega þarftu að hafa sjálfstraust og þetta sjálfstraust ætti að vera byggt á staðreynd." (Robert J. Fischer)

"Systir mín keypti handa mér skáksett í sælgætisverslun og kenndi mér mannganginn." (Robert J. Fischer)

 

"Fólk hefur verið að tefla gegn mér undir þeirra eigin getu í fimmtán ár." (Robert J. Fischer)

"Reshevsky og ég erum þeir einu í Bandaríkjunum sem reyna (að lifa á skák). Við fáum ekki mikið. Hinir meistararnir vinna önnur störf. Eins og Rossolimo, hann keyrir leigubíl. Evans vinnur fyrir kvikmyndafyrirtæki. Rússarnir fá peninga frá ríkinu. Við þurfum að treysta á verðlaunafé úr mótum. Og þau eru léleg. Kannski nokkuð hundruð dollarar. Það eru milljónamæringar sem styrkja skákina, en þeir eru allir nískir. Sjáðu hvað þeir gerðu fyrir golfið: þrjátíu þúsund dollarar fyrir mót er ekki neitt. En fyrir skák gefa þeir þúsund eða tvö þúsund og finnst það mikið mál. Mótið þarf að heita eftir þeim, allir þurfa að beygja sig fyrir þeim, tefla þegar þeir vilja, allt fyrir nokkur þúsund dollara sem er þeim einskis virði hvort sem er. Þeir nota skattpening í þetta. Þetta er nískt fólk. Það er fáránlegt." (Robert J. Fischer)

 

"Það ert bara þú og andstæðingur þinn við skákborðið og þú ert að reyna að sanna eitthvað." (Robert J. Fischer)

 "Það er skákmönnunum sjálfum að kenna. Ég veit ekki hvað þeir voru áður, en í dag eru þeir ekki herramannslegur hópur. Þegar hefðarfólk tefldi var meiri tign og virðing tengd skákinni. Þegar þeir voru með klúbba þar sem engum konum var hleypt inn, og allir voru í jakkafötum, með bindi, eins og herramenn, þú veist. Núna koma krakkar hlaupandi á strigaskóm. Jafnvel í bestu skákklúbbum er konum hleypt inn. Þetta er orðið að félagslegum stöðum og fólk er með læti, þetta eru vistheimili fyrir geðveika." (Robert J. Fischer)

 

"Ég tefli af einlægni og ég tefli til að vinna. Ef ég tapa tek ég meðölin mín." (Robert J. Fischer)

"Mér er sama! Ég þarf ekki að sýna neinum skákirnar mínar vegna þess að þeir eru eitthvað merkilegir!" (Robert J. Fischer)

 

"Þú verður að hafa baráttuanda. Þú verður að þvinga leiki og taka áhættu." (Robert J. Fischer)

Fischer gegn Rússum

"Allar mínar skákir eru raunverulegar." (Robert J. Fischer)

 

"Það er þetta sem skákin snýst um. Einn daginn tekurðu andstæðing þinn í kennslustund, næsta dag tekur hann þig í
kennslustund." (Robert J. Fischer)

"Það var opið samráð á milli rússneskra skákmanna. Þeir samþykktu fyrirfram að gera jafntefli hver við annan. Alltaf þegar þeir sömdu jafntefli náðu þeir hálfum vinningi." (Robert J. Fischer)

 

"Mér finnst gaman að kvelja andstæðingana." (Robert J. Fischer)

"Þeir eiga ekkert í mig, þessir gaurar. Þeir geta ekki einu sinni snert mig. Sumir telja þá betri en mig. Það böggar mig verulega. Þeir halda að enginn Bandaríkjamaður kunni að tefla. Þegar ég hitti þessa rússnesku viðvaninga skal ég sýna þeim hvar þeir standa." (Robert J. Fischer)

 

"Mér finnst gaman þegar ég brýt sjálf andstæðingsins." (Robert J. Fischer)

"Ég dvel yfirleitt aldrei við taflborðið eftir skák. Sérstaklega gegn Spassky. Ég gerði heimskulega athugasemd sem hann hafnaði strax! Ég veit að ég á eftir að tefla við hann aftur og að það var heimskulegt af mér að haga mér eins og hálfviti fyrir framan hann." (Robert J. Fischer)

 

"Það eru harðir skákmenn og ljúfir einstaklingar, og ég er harður skákmaður." (Robert J. Fischer)

"Ég er ekki hræddur við Spassky. Heimurinn veit að ég er bestur. Þú þarft ekki einvígi til að sanna það." (Robert J. Fischer)

 

"Teflum. Ég er til í að tefla hvar sem er." (Robert J. Fischer)

"Þegar ég vinn mun ég leggja titilinn að veði á hverju ári, jafnvel tvisvar á ári. Ég mun gefa skákmönnum færi á að sigra mig." (Robert J. Fischer)

 

"Snillingur. Það er orð. Hvað þýðir það í raun og veru? Ef ég vinn er ég snillingur. Ef ekki, er ég það ekki." (Robert J. Fischer)

"Karpov, Kasparov, Korchnoi hafa algjörlega eyðilagt skák með siðlausum fyrirfram ákvörðuðum skákum. Þessir gaurar eru virkilega ómerkilegustu hundarnir á svæðinu." (Robert J. Fischer)

 

"Þegar ég var ellefu ára, varð ég bara góður." (Robert J. Fischer)

"Flest fólk eru lömb sem þurfa stuðning annarra." (Robert J. Fischer)

 

"Ferill minn snerist við þegar ég uppgötvaði að svartur skuli tefla til sigur í stað þess þess að stefna á að jafna taflið." (Robert J. Fischer)

"Ég las nýlega bók eftir Nietzsche þar sem hann segir að trúarbrögð séu bara til að slæva skilningarvit fólks. Ég er sammála." (Robert J. Fischer)

 

"Ef ég vinn mót, vinn ég það sjálfur. Ég er sá sem tefli. Enginn hjálpar mér." (Robert J. Fischer)

"Hugur okkar er allt sem við höfum. Ekki það að hann villi stundum um fyrir okkur, en við þurfum samt að skoða hlutina út frá sjálfum okkur." (Robert J. Fischer)

 

"Ef þú vinnur ekki er það enginn harmleikur - það versta sem gerist er þegar þú tapar skák." (Robert J. Fischer)

 

"Skák snýst um nákvæma dómgreind, að vita hvenær á að kýla og hvernig skal víkja." (Robert J. Fischer)

 

"Traust minni, einbeiting, ímyndunarafl og sterkur vilji," (Robert J. Fischer) (Um það sem þarf til að verða sterkur skákmaður.)

 

"Ég þekki fólk sem hefur allan vilja í heiminum, en getur samt ekki teflt vel." (Robert J. Fischer)

 

"Ég virkilega elska myrkur næturinnar. Það hjálpar mér að einbeita mér." (Robert J. Fischer)

 

"Skák er erfið vegna allar spennunnar og einbeitingarinnar, að sitja þarna klukkustund eftir klukkustund. Maður verður úrvinda." (Robert J. Fischer)

 

"Hver skák er eins og fimm klukkustunda lokapróf." (Robert J. Fischer)

 

"Þú veist að ég er hættur að tefla upp á gamla mátann því þetta snýst að mestu um teóríur og að leggja á minnið." (Robert J. Fischer)

 

"Gamla skákin er of takmörkuð. Ímyndaðu þér að spila til dæmis Svarta Pétur á spil, og þú færð alltaf sömu spilin í hendurnar. Hver er tilgangurinn?" (Robert J. Fischer)

 

"Ég hef engan áhuga á stjórnmálum. Ég kom til Júgóslavíu til að tefla og ekkert annað." (Robert J. Fischer)

 

"Ég fyrirlít fjölmiðla." (Robert J. Fischer)

 

"Er það lögbrot að drepa fréttamann?" (Robert J. Fischer)

 

"Þeir hafa bara áhuga á að skrifa slæma hluti um mig." (Robert J. Fischer)

 

Ísland, 1972:


Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 11. sæti: The Thing

Þá er ég búinn að telja niður úr 20. sæti niður í það 11. fyrir þær vísindaskáldsögur sem mér finnst skemmtilegastar. Í ellefta sæti lendir hrollvekjan og vísindatryllirinn The Thing, sem leynir ansi skemmtilega á sér. Helsti styrkleikur myndarinnar er dúndurgóður leikhópur, drungalegt andrúmsloft og geimveru sem líkist engu sem sést hefur á tjaldinu, fyrr eða síðar. 

The Thing (1982) **** 

Á Suðurpólnum hleypur hundur yfir snjóinn á flótta undan byssukúlum frá norskri þyrlu. Hann nálgast bandaríska rannsóknarstöð, þar sem tólf manns dvelja yfir veturinn. Þyrluflugmaðurinn og skotmaðurinn eru drepnir, og hundurinn kemst inn í búðirnar. Hópur manna fer í skoðunarferð að norsku rannsóknarstofunni og kemur að rústum einum. Þeir finna einnig lík í undarlegu ástandi. Þeir taka það með sér til frekari rannsókna.

Í ljós kemur að í hundinum faldi sig geimvera sem getur tekið á sig hvaða lifandi form sem er. Hver einasti blóðdrepi verunnar er sjálfstæð heild sem getur tekið yfir líkama manneskju eða dýra. Eftir að veran drepur flesta hunda stöðvarinnar, vaknar sá grunur meðal manna að einhver þeirra gæti verið smitaður.

Þyrluflugmaðurinn R.J. MacReady (Kurt Russell) gerist leiðtogi hópsins eftir að hann áttar sig á vandamálinu. Hann fer í annan leiðangur að norsku stöðinni og finnur fornt hringlaga geimskip frosið í jörðinni, og ummerki um að lífvera hefur frosið rétt fyrir utan geimskipið og verið flutt í norsku stöðina. Innan skamms byrjar geimskrímslið að drepa mennina, einn af öðrum, en mennirnir leita örvæntingarfullir leiða til að afmá veruna af yfirborði jarðar og komast að því hvort að einhver á meðal þeirra sé þessi hlutur.

The Thing er sérstaklega vel heppnaður vísindatryllir. Leikhópnum tekst að skapa stemmingu þar sem maður hefur á tilfinningunni að allar persónurnar gjörþekkist og hafi verið saman nokkuð lengi á þessum einangraða stað.

Meðal eftirminnilegra persóna eru hundatemjarinn Clark (Richard Masur), sem virðist meta líf hunda meira en manna, stöðvarstjórinn Garry (Donald Moffat) sem skýtur fyrst og hugsar svo, jarðfræðingurinn Norris (Charles Hallahan) sem fer í óvænta, óhugnanlega en jafnframt svolítið skondna hinstu för, vélstjórinn Childs (Keith David) sem reynist harður í horn að taka, líffræðingurinn Blair (A. Wilford Brimley) sem er fyrstur til að uppgötva hvað geimverunni gengur til, læknirinn Copper (Richard Dysart), sem upplifir óhugnanlegt augnablik þegar hann reynir að bjarga lífi félaga síns með hjartastuðtæki,  og samskiptamaðurinn Fuchs (Joel Polis) sem reynist með seinheppnari mönnum.

Þegar ljóst er að hluturinn utan úr geimnum ætlar sér að drepa þá alla og komast síðan til mannabyggða, er ljóst að fyrir liggur ekkert annað en styrjöld milli þessara 12 manna og hlutarins, en það fækkar hratt í hóp mannanna og líkurnar virðast sífellt minnka og aðstæður fara síversnandi með hverri mínútu.

Maður hefur alltaf á tilfinningunni og trúir því að mennirnir séu staddir í miklum kulda, á Suðurpólnum og við sífellt erfiðari aðstæður.Tæknibrellurnar eru einstakar og oft mjög óhugnanlegar og gróteskar, nokkuð sem hefur ekki verið endurgert. Tónlistin er afar góð, en þar stjórnar sjálfur Ennio Morricone og tónlistin rímar fullkomlega við hinn hráa stíl John Carpenter. Það er þessi stíll sem gerir myndina góða. Maður er sannfærður um að þessir hlutir séu að gerast, persónurnar og aðstæðurnar virka það raunverulegar, og einmitt þess vegna verður skrímslið sjálft trúverðugara.

The Thing elur á þeirri hugmynd að maður veit aldrei fullkomlega hvaða mann næsti einstaklingur hefur að geyma, og hversu erfitt getur verið að treysta öðrum við aðstæður sem gera alla tortryggilega. Hvernig getur maður komist að sannleikanum um næsta mann, hvort að hann sé í eðli sínu góður eða illur? Og þegar við vitum það ekki, hvernig er þá best að lifa í samskiptum við aðra? Er betra að sýna fólki traust, ef okkur grunar einhvern um græsku, eða er betra að hafa varann á og sýna tortryggni gagnvart öllum í hópnum?

The Thing gekk mjög illa í bíó, en kom hún út á svipuðum tíma og E.T. The Extra Terrestrial (1982). Það er eins og fólk hafi fengið nóg af sögum þar sem allir eru hræddir við geimverurnar og fögnuðu einni þar sem geimveran er loks vinaleg. Reyndar grunar mig að The Thing hafi fælt marga frá vegna þess hversu gróteskar tæknibrellurnar eru - það er engin spurning að þær hjálpa myndinni innan hennar söguheims, en gera hana jafnframt enn erfiðari í sölu.

 

Óvenju gott sýnishorn:

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum

11. sæti: The Thing

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


36 Quai des Orfèvres (Lögreglustöð 36) (2004) ***1/2


Stórtækir ræningjar hafa framið sjö vel heppnuð rán á tæpum tveimur árum. Lögreglustjórinn á Stöð 36 hvetur tvo bestu menn sína til að ná þessum ræningjum áður en hann hættir störfum. Sá sem nær þeim mun verða næsti lögreglustjóri. Þessir tveir lögregluforingjar eru þeir Léo Vrinks (Daniel Auteuil) og Denis Klein (Gerard Depardieu).

Vrinks er hörð lögga sem leggur sig allan fram til að ná glæpamönnunum, hann er vinsæll meðal starfsfélaga sinna og líklegastur til að verða næsti lögreglustjóri. Klein er hins vegar metnaðarfullur og agalaus lögregluforingi sem hugsar um það eitt að ná sem mestum frama.

Vrinks fréttir að uppljóstrarinn Hugo Silien (Roschdy Zem) sé tilbúinn að koma til hans gögnum um ræningjana, en þegar á reynir er Vrinks svikinn á hrikalegan hátt, sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð hans innan lögreglunnar. En hann fær upplýsingarnar og nýtir þær til að skipuleggja umsátur um ræningjana. Klein kemst á snoðir um áætlunina og er langt frá því að vera sáttur við að Vrinks fari fyrir árásinni, og í örvæntingu drekkur Klein sig fullan og æðir inn í ræningjahópinn með skammbyssu að vopni, en áttar sig ekki á því að hann er að búa til harmleik þar sem hann leiðir marga af félögum sínum í dauðann.

Ræningjarnir sleppa og ljóst er að hegðun Klein verður rannsökuð, enda er Vrinks fokillur út í hann og vill fá hann rekinn af stöðinni. En þá kemst Klein yfir viðkvæmar upplýsingar um Vrinks, og nýtir sér aðstæðurnar til að rústa starfi, máli, fjölskyldu og frama Vrinks, og jafnframt til að hreinsa orðspor sitt og ná starfi lögreglustjórans. Þegar eiginkona Vrinks, Camille (Valeria Golino), reynir að sanna sakleysi hans fer allt í bál og brand. Ljóst er að Vrinks er beittur órétti og þarf að jafna sakirnar.

Fyrir utan truflandi tónlist í upphafi myndarinnar, er henni vel leikstýrt. Það tekst að magna upp spennu og samúð með aðalhetjunni, og andúð gegn illmenninu. Hinir morðóðu ræningjar eru aukaatriði. Skilin á milli glæpamanna og lögreglumanna verða mjög óljós þegar lögreglumenn fá að gera nánast hvað sem er til að leysa glæpi, jafnvel fremja þá.

Umfram allt fjallar myndin um afleiðingar þess að láta tilganginn helga meðalið, að allt hefur afleiðingar og það illa eða góða sem þú gerir mun koma í hausinn á þér í lokin, annað hvort sem byssukúla eða ljúfur koss.

 

Sýnishorn:


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband