36 Quai des Orfèvres (Lögreglustöð 36) (2004) ***1/2


Stórtækir ræningjar hafa framið sjö vel heppnuð rán á tæpum tveimur árum. Lögreglustjórinn á Stöð 36 hvetur tvo bestu menn sína til að ná þessum ræningjum áður en hann hættir störfum. Sá sem nær þeim mun verða næsti lögreglustjóri. Þessir tveir lögregluforingjar eru þeir Léo Vrinks (Daniel Auteuil) og Denis Klein (Gerard Depardieu).

Vrinks er hörð lögga sem leggur sig allan fram til að ná glæpamönnunum, hann er vinsæll meðal starfsfélaga sinna og líklegastur til að verða næsti lögreglustjóri. Klein er hins vegar metnaðarfullur og agalaus lögregluforingi sem hugsar um það eitt að ná sem mestum frama.

Vrinks fréttir að uppljóstrarinn Hugo Silien (Roschdy Zem) sé tilbúinn að koma til hans gögnum um ræningjana, en þegar á reynir er Vrinks svikinn á hrikalegan hátt, sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð hans innan lögreglunnar. En hann fær upplýsingarnar og nýtir þær til að skipuleggja umsátur um ræningjana. Klein kemst á snoðir um áætlunina og er langt frá því að vera sáttur við að Vrinks fari fyrir árásinni, og í örvæntingu drekkur Klein sig fullan og æðir inn í ræningjahópinn með skammbyssu að vopni, en áttar sig ekki á því að hann er að búa til harmleik þar sem hann leiðir marga af félögum sínum í dauðann.

Ræningjarnir sleppa og ljóst er að hegðun Klein verður rannsökuð, enda er Vrinks fokillur út í hann og vill fá hann rekinn af stöðinni. En þá kemst Klein yfir viðkvæmar upplýsingar um Vrinks, og nýtir sér aðstæðurnar til að rústa starfi, máli, fjölskyldu og frama Vrinks, og jafnframt til að hreinsa orðspor sitt og ná starfi lögreglustjórans. Þegar eiginkona Vrinks, Camille (Valeria Golino), reynir að sanna sakleysi hans fer allt í bál og brand. Ljóst er að Vrinks er beittur órétti og þarf að jafna sakirnar.

Fyrir utan truflandi tónlist í upphafi myndarinnar, er henni vel leikstýrt. Það tekst að magna upp spennu og samúð með aðalhetjunni, og andúð gegn illmenninu. Hinir morðóðu ræningjar eru aukaatriði. Skilin á milli glæpamanna og lögreglumanna verða mjög óljós þegar lögreglumenn fá að gera nánast hvað sem er til að leysa glæpi, jafnvel fremja þá.

Umfram allt fjallar myndin um afleiðingar þess að láta tilganginn helga meðalið, að allt hefur afleiðingar og það illa eða góða sem þú gerir mun koma í hausinn á þér í lokin, annað hvort sem byssukúla eða ljúfur koss.

 

Sýnishorn:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 
 







Ásdís Sigurðardóttir, 17.1.2008 kl. 01:09

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þessi hljómar spennandi.

Steingerður Steinarsdóttir, 17.1.2008 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband