Færsluflokkur: Sjónvarp

The Wire (2002-2008) *****

the-wire-2

17. maí síðastliðinn setti Jón Gnarr það sem skilyrði til samstarfs við Besta Flokkinn að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka hefðu séð sjónvarpsþættina "The Wire". Ég hafði ekki séð þá og skildi ekki af hverju. Nú hef ég séð þá og tel mig skilja hvað borgarstjórinn var að hugsa.

"The Wire" fjallar um spillingu og hvernig hún eyðileggur líf fólks, hvar sem er í samfélaginu. Allar ákvarðanir sem teknar eru á einu þrepi samfélagsins hafa áhrif á önnur. Fókus þáttanna er á jaðarmenningu: skipulagða glæpastarfsemi og verr skipulagða lögreglustarfsemi og félagslegt kerfi sem er komið í hundana.

Yfirmenn í lögreglu Baltimore hafa hagrætt tölfræðilegum upplýsingum í mörg ár. Þeir nappa smáglæpamenn á kostnað þeirra stóru. Það er ekki fyrr en McNulty rannsóknarlögreglumaður fær algjört ógeð á þessum aðferðum og tekst að koma í gang rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi að eitthvað virðist ætla að breytast.

Þættirnir flétta saman fjölmörgum sögum úr öllum lögum samfélagsins. Meðal þeirra er borgarfulltrúinn Carcetti sem ákveður að bjóða sig fram til borgarstjóra. Heimilislausi dópistinn Bubbles sem þráir ekkert heitar en að komast út úr vitleysunni. Ræninginn Omar sem gengur um með haglabyssu undir síðum frakkar og sérhæfir sig í að ræna glæpamenn. Við fáum að fylgjast með glæpaforingjunum Avon Barksdale, String, Marlo og Grikkjanum; lögfræðingnum sem kennir þeim að forðast dóma, fjölmörgum lögreglumönnum í vestur-umdæmi og morðmálum, og sérstaklega sérsveitinni "Stórfelldir Glæpir".

Þessi sérsveit hefur það markmið að finna upplýsingar um skipulagða glæpastarfsemi og klófesta foringjana. Á leið sinni að glæpamönnunum þarf þessi hópur lögreglumanna að takast á við ýmis vandamál, þá sérstaklega pólitík og skaðlega skammsýni yfirmanna sem kæra sig um ekkert annað en fallegar tölur á pappírum fyrir hvern ársfjórðung, mönnum sem er nákvæmlega sama um hvort að árangur náist gegn glæpum, og hugsa um fátt annað en eigin frama.

Þessi sérsveit er skrautleg. Helsti drifkrafturinn í henni felst í snillingnum Lester Freamon, sem er svona ef þú púslaðir saman Morgan Freeman og Sherlock Holmes og fengir út nútíma persónu. McNulty er einnig fyrirferðarmikill, en hann lifir fyrir að leysa mál. Gallinn er að hann er bitur út í kerfið, og tilbúinn að gera allt til að leysa málin. Hann er líka algjörlega stjórnlaus þegar kemur að áfengi og konum. Svona nokkurs konar Dirty Harry, bara skítugri. Aðrar góðar persónur er hinn óþolandi þurs Herc, góða löggann Carver, hinn seinheppni Prez, Kima Greggs, varðstjórinn Landsman og morðlöggan Bunk. Ég gæti skrifað langa grein um allar þessar frábærar persónur sem fram koma í þáttunum en það er ekki markmiðið með þessari grein.

Markmiðið með greininni er að velta fyrir mér af hverju Jóni Gnarr finnst nauðsynlegt að samstarfsfólks sitt sé viðræðuhæft um þá. Mér sýnist það augljóst. Það er þessi hugsunarháttur sem tengist því að hugsa um borgarbúa annað hvort sem tölustafi eða sem manneskjur.

Þeir sem hugsa um borgarbúa sem tölustafi hafa öfluga tölfræði á bakvið sig til að styrkja sig í sessi. Hinir sem hugsa um borgarbúa sem manneskjur þurfa að horfa upp á einstaklinga þjást, þurfa að átta sig á þeirri ógurlegu fjarlægð við hið mannlega sem virðist nauðsynleg til að geta stjórnað ferlíki eins og borg. 

Stóri slagurinn snýst um kerfið og tölurnar sem það þarf á að halda til að virka, og hvernig það valtar áfram yfir allt og alla sem sýna ekki samvinnuhug. 

"The Wire" fjallar líka á dapurlegan hátt um að tilgangsleysi þess að vera fastur í kerfi, sama hvort það sé pólitík, skóli, verkalýðsfélag, lögregla eða glæpasamtök, og hversu erfitt er að slíta sig út úr slíku kerfi og lifa lífinu sem frjáls manneskja, og hvernig frelsið felst meira í viðhorfi fólks til lífsins og sjálfsþekkingu, en valdi þeirra yfir öðrum manneskjum. Þættirnir fjalla líka um breytingar á tækni og viðhorfum, og hvernig slíkt hefur áhrif á samfélagsmyndina.

Ég get ekki annað tekið undir meðmæli Jóns Gnarr, að ómetanlegt væri að hafa samstarfsfélaga í stjórnmálum sem hafa horft á og velt vandlega fyrir sér "The Wire", en þeir eru án vafa meðal bestu sjónvarpsþátta sem framleiddir hafa verið.
 
"The Wire" er hörkugott drama. Margar góðar persónur falla í valinn, persónur sem manni er ekki sama um, og ekkert er dregið úr ljótleika morða eða málfars. Þú getur ekki misst af einum einasta þætti án þess að missa af þræðinum. Besta leiðin til að horfa á þessa þætti er að kaupa þá á DVD og horfa á þá í réttri röð.  

Spaugstofan og siðferðisþroski

bilde?Site=XZ&Date=20080128&Category=LIFID01&ArtNo=80128078&Ref=AR&NoBorder

Eftir að Spaugstofumenn birtust með háði og spotti á laugardagskvöldið hafa fjölmargir þyrlað ryki yfir almenning og í augu hans með því að átelja grínarana fyrir lágkúrulega árás á Ólaf borgarstjóra og geðsjúka, en gleymt því að ráðamenn hafa sýnt þegnum sínum enn verri lítilsvirðingu, og það í verki. Stutt er að minnast á dómararáðningamálið, þar sem farið var eftir lögum en gegn anda laganna, þar sem sitjandi dómsmálaráðherra sýndi því miður lágan siðferðisþroska með slökum rökstuðningi fyrir ákvörðun sem var byggð á duttlungum og pólitík.

Enn styttra er að minnast á yfirtöku sjálfstæðismanna á borginni með Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Ólaf flokklausa en þar nýtti fólk rétt sinn til friðsamlegra mótmæla með því að mótmæla fjandsamlegri yfirtöku á sjálfri Reykjavíkurborg, en áður hafði Vilhjálmur hrökklast frá völdum eftir eigin mistök og sýnt að hann valdi ekki starfinu. Þá var reynt að þyrla ryki í augu almennings og yfir hann með að gagnrýna fólkið sem mætti á palla til að mótmæla harkalega því óréttlæti sem það hefur upplifað síðustu daga. Það er þeirra réttur, og geta ekki kallast óspektir þar sem enginn  framdi eða hótaði ofbeldisverkum.

Að mínu mati er öll gagnrýni á siðgæðisvitund Spaugstofumanna marklaus, þar sem Spaugstofumenn hafa engin völd í þjóðfélaginu önnur en að kitla hláturtaugar okkar þegar vel tekst til, hið svokallaða fimmta vald. Við vitum vel að það er engin nauðsyn að taka þá alvarlega og að hver og hvað sem er getur orðið að skotmarki þeirra. Það að geðsjúkdómar séu orðið eitthvað tabú í dag réttlætir enn frekar að Spaugstofumenn taki slíka sjúkdóma fyrir, enda eiga geðsjúkdómar ekki að vera neitt tabú - menn eiga ekki að þurfa að skammast sín fyrir þá.

Ef Spaugstofumenn halda nú rétt á spöðunum ættu þeir að geta gert úr þessu klassískt efni, því að nú mun öll þjóðin fylgjast með þeim á næsta laugardegi, og þora þeir vonandi að ganga jafnlangt og Monty Python gerði forðum daga á BBC, og í stað þess að draga sig til baka og biðjast afsökunar, hæðast að landanum með meiri krafti en nokkru sinni fyrr.

Svo get ég ekki annað hrósað gömlum skólafélaga úr Breiðholtinu Erlendi Eiríkssyni, sem túlkaði Ólaf snilldarlega í þessum þætti.


Lögbanns krafist vegna endursölu Íslendinga á áskrift að SKY sjónvarpsstöðinni

1224_A52Segjum að ég kaupi mér gervihnattadisk og móttakara hjá EICO, og fengi mér áskrift að enska boltanum; gæti ég þá átt von á því að lögreglan vaði inn á heimili mitt og geri búnaðinn upptækan, vegna þess að ég væri að horfa á höfundarvarið efni.

Ég skil ekki hvernig sjónvarpsgláp getur verið lögbrot.

Höfundarréttur er ætlaður til að verja höfund efnis; ekki endursöluaðila. Þó að keypt sé frá upprunalegum höfundi, er ekki verið að skaða hann með slíkum kaupum; því get ég engan veginn séð hvernig þetta svokallaða lögbann getur staðist heilbrigða skynsemi eða lög.

Ef eigendur EICO sjá um endursölu á kortum sem notuð eru til að fá áskrift að SKY sjónvarpsstöðinni; hvað með það? Hvernig getur það skaðað nokkurn? Þegar verið er að tala um íslenska útsendingu, er þá ekki talað um útsendingu um íslenskar stöðvar? Þó að ég stundi viðskipti við fyrirtæki í Englandi, hver getur vogað sér slíkan hroka að banna mér það?

365 miðlar hafa síðustu daga gengið langt útfyrir skynsamleg mörk. Í stað þess að líta í eigin barm; lækka alltof hátt verð hjá sér og bæta þjónustu, eru þeir farnir að ráðast á fólk fyrir að leita annarra úrræða. Ég á ekki til orð. Þeir ættu að skammast sín.

Ég tek fram að ég á ekki gervihnattadisk og horfi reyndar lítið sem ekkert á sjónvarp, en borga afnotagjöld af því að ég á sjónvarpstæki.

Mér finnst þetta einfaldlega stórfurðulegt mál.

Ég er feginn að hafa engan áhuga á enskri knattspyrnu. 

 

Til umhugsunar: 

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. (úr Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands)

 

Frétt í heild sinni af Eyjan.is um afleiðingar þessarar lögbannskröfu:

Lögreglan á Selfossi gerði húsrannsókn og lagði hald á tölvur og búnað hjá fyrirtækinu Skykort.com fyrr í vikunni vegna gruns um ólöglega sölu á áskriftum að sjónvarpsstöðvum Sky. Forsvarsmaður fyrirtækisins var handtekinn og yfirheyrður en látinn laus að því loknu.

Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á Selfossi, er tölvubúnaðurinn nú í rannsókn og er þar leitað upplýsinga um málið og starfsemi Skykort.com. Rannsókn á tölvunum lýkur væntanlega eftir helgi og verður framhald rannsóknarinnar og hvaða stefnu málið tekur ákveðið að því loknu.

Rannsóknin byggist á því að starfsemin brjóti gegn vernduðum réttindum höfundarréttarhafa - þ.e. íslenskra sjónvarpsstöðva sem keypt hafa einkarétt til að sýna á Íslandi sama efni og Sky sjónvarpsstöðvarnar hafa rétt til að sýna á Bretlandi og Írlandi, m..a.  ensku knattspyrnuna. Talið er að 5-7000 íslensk heimili hafi búnað til að taka á móti sendingum Sky en áskrifendur eru líklega færri því að með búnaðinum er einnig hægt að taka á móti fjölmörgum stöðvum sem ekki læsa útsendingum sínum, svo sem CNN og Discovery.


mbl.is Ætla að tryggja að enski boltinn berist um allt land á hagstæðum kjörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eurovision textarnir: "Ég les í lófa þínum" og "Valentine Lost"

Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég þessa grein, og fannst við hæfi að endurbirta hana í tilefni Eurovision kvöldsins í kvöld. 

Í dag las ég að Kristján Hreinsson, sá sem samdi upphaflega textann við íslenska Eurovision lagið í ár, hafi verið búinn að snúa honum yfir á ensku með tilvísun í Hamlet, en lagið átti að heita í hans þýðingu, "To be or not to be", sem mér finnst nú talsvert áhugaverðara heiti en "Valentine Lost," sem er hryllileg þýðing enda hefur hugtakið "Valentine" nákvæmlega enga þýðingu fyrir okkur Íslendinga. 

Mig langar að gera samanburð á textunum tveimur, svona rétt til gamans: 

Ég les í lófa þínum, leyndarmálið góða
Ég sé það nú, ég veit og skil
Það er svo ótalmargt sem ætla ég að bjóða
Já, betra líf, með ást og yl

Upphafserindið í þýðingu Kristjáns fjallar um von og ást. Hægt er að sjá fyrir sér tvær manneskjur sem í miklum trúnaði tjá ást sína. En stökkvum í ensku þýðinguna á sama erindi:

I’ll let the music play while
love lies softly bleeding
in heavy hands
on shadow lands
As thunder clouds roll the sunset is receding
no summerwine
no Valentine
   

Hér eru aðstæður gjörólíkar. Þarna eigum við að sjá fyrir okkur mynd af ást sem liggur blæðandi í þungum höndum (blönduð myndhverfing sem gengur engan veginn upp), en það er frekar erfitt þar sem að ást er frekar ómyndrænt hugtak. Þannig að ljóst er að þýðingin er strax komin út í eitthvað abstrakt dæmi sem fjallar um tilfinningaflækjur einhvers þungarokkara, á meðan upphaflegi textinn virkar sem ástarjátning tveggja manneskja.

Næsta erindi:

Í lófa þínum les ég það
Að lífið geti kennt mér að
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Það er lítið um þetta að segja, en ljóst er að ástarjátningin er ennþá í gangi og maður finnur að mælandinn hefur sterka þrá til að lifa með elskuðu manneskjunni alla sína ævi. 

Og nú að þýðingunni á sama erindi:

A tiger trapped inside a cage
an actor on an empty stage
Come see the show
Rock and roll can heal your soul
when broken hearts lose all control

Þarna má sjá tígrisdýr lokað inn í búri og athyglissjúkan leikara á auðu sviði, sem vísar svo í sigurvegara síðustu Eurovisionkeppni með að koma inn orðunum 'Rock and roll'. Eina orðið sem kemur í huga mér núna til að lýsa þessu erindi: 'pathetic' - þarna er einhver aumingi að öskra vegna þess að hann fær ekki nóga athygli. Eru menn að missa það?

Kristján: 

Það er svo augljóst nú að allir draumar rætast
Við höldum tvö, um höf og lönd
Um lífið leikum við og lófar okkar mætast
Þá leiðumst við
Já, hönd í hönd

Enn heldur sama mynd áfram, en nú mætast hendurnar sem gætu þá táknað hversu vel þessir tveir einstaklingar passa saman - að ástin sé gagnkvæm og þau vilji bæði vera saman að eilífu.

En nú aftur að þýðingunni:

Some rivers still run dry and jungles burn to embers
gold autumn days
must fade to gray
There is a reason why a haunted man remembers
one frozen night his darkest day

Uppþornuð fljót og brenndir skógar, haust verður að vetri (dauðaminning). Og enn fer mælandinn að vorkenna sjálfum sér og sekkur sér nú í sjálfsvorkun og volæði þegar hann minnist dags þegar enginn vildi vísast hlusta á hann, frekar en núna. Þannig heldur textinn áfram. Á meðan íslenska útgáfan fjallar um ást, von og lífið - er þýðingin um vonleysi, sjálfsvorkun og dauða.

Þegar ég heyrði fyrst ensku útgáfuna náði ég ekki textanum. Núna þegar ég hef náð honum óska ég þess að ég hefði ekki gert það. Hann er nefnilega verri þegar maður botnar í honum en ekki. Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvers vegna ensk þýðing Kristjáns var ekki notuð, þar sem að hann er þátttakandi í gerð upphaflega hugverksins og ekki skyldi gera lítið úr hans hlutverki.

En hér að neðan eru textarnir í heild (vonandi rétt skráðir):

 

Ég les í lófa þínum (Smelltu hér til að sjá myndband við lagið)

Söngvari: Eiríkur Hauksson
Höfundur lags: Sveinn Rúnar Sigurðsson
Höfundur texta: Kristján Hreinsson

Ég les í lófa þínum, leyndarmálið góða
Ég sé það nú, ég veit og skil
Það er svo ótalmargt sem ætla ég að bjóða
Já, betra líf, með ást og yl

Í lófa þínum les ég það
Að lífið geti kennt mér að
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Það er svo augljóst nú að allir draumar rætast
Við höldum tvö, um höf og lönd
Um lífið leikum við og lófar okkar mætast
Þá leiðumst við
Já, hönd í hönd

Í lófa þínum les ég það
Að lífið geti kennt mér að
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Ég ætla að fara alla leið
Með ást á móti sorg og neyð
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Í lófa þínum les ég það
Að lífið geti kennt mér að
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Ég ætla að fara alla leið
Með ást á móti sorg og neyð
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

 

Valentine Lost (Smelltu hér til að sjá myndband við lagið)

Söngvari: Eiríkur Hauksson
Höfundur lags: Sveinn Rúnar Sigurðsson
Höfundur texta: Peter Fenner

I’ll let the music play while
love lies softly bleeding
in heavy hands
on shadow lands
As thunder clouds roll the sunset is receding
no summerwine
no Valentine   

A tiger trapped inside a cage
an actor on an empty stage
Come see the show
Rock and roll can heal your soul
when broken hearts lose all control

Some rivers still run dry and jungles burn to embers
gold autumn days - must fade to gray
There is a reason why a haunted man remembers
one frozen night his darkest day

A tiger trapped inside a cage
an actor on an empty stage                 
Come see the show
Rock and roll will heal your soul
when broken hearts lose all control

A passion killed by acid rain
a rollercoaster in my brain

But how would you know
In your satin silk and lace
another time another place
A tiger trapped inside a cage
an actor on an empty stage

Come see the show
Rock and roll will heal your soul
when broken hearts lose all control
A love that loose and painted black
a train stuck on a broken track

I’ll let it go
Rock and roll has healed my soul
the stage is set on with the show       


mbl.is Eiríkur Hauksson vinsæll meðal sjóræningja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húmor: Robot Chicken myndbönd á YouTube.

Varúð. Myndböndin í þessu bloggi eru fyndin og frekar ósmekkleg. Hafirðu ekki kímnigáfu skaltu sleppa því að skoða þetta. Móðgist þú auðveldlega fyrir hönd þeirra fórnarlamba sem gert er grín að á þessum myndböndum, skaltu stinga báðum vísifingrum inn fyrir varir; og draga þá síðan hægt í átt að eyrum. Klikkar aldrei. Í boði Robot Chicken.

1. Hér fræðumst við um hina raunverulega ástæðu þess að ráðist var inn í Írak, þar sem að W forseti hefur verið greindur sem mögulegur Jedi riddari. ***1/2


2. Í þessu stutta atriði fær Luke Skywalker alltof mikið af upplýsingum. ****



3. Fróðlegt atriði um fimm einkenni sorgar þegar gíraffi lendir í kviksyndi. ****



4. Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér af hverju einhyrningar, hafmeyjur og drekar dóu út? Útskýringin finnst öll í sögunni um flóðið mikla og örkina hans Nóa. ***

 

5. Hefur þig einhvern tíma langað til að fá svar við hinum eilífu spurningum? Hugsaðu þér bók sem svarar öllum spurningum þínum satt. Hvers myndir þú spyrja? ***1/2



6. Útgáfa Robot Chicken af kvikmyndagagnrýni Roger Ebert: ***1/2



7. Sannleikurinn um Michael Jackson, honum var rænt af geimverum: ***1/2



8. Sjálf Björk Guðmundsdóttir birtist eitt augnablik í þessu myndbandi með sænska kokkinum í aðalhlutverki. Þegar Björk rímar við ork er ekki von á góðu. ***



9. Að lokum, útskýring á því hvernig seinni heimstyrjaldöldin braust út: ***1/2

 

Góða skemmtun! 


Systir mín á forsíðu Fréttablaðsins um Internetsjónvarpsstöðina WaveTV

bilde?Site=XZ&Date=20070407&Category=LIFID01&ArtNo=104070078&Ref=V2&NoBorder

Þegar ég skoðaði forsíðu Fréttablaðsins í dag (Mogginn kom ekki út) fannst mér ég sjá kunnuglegt andlit. Ég lagfærði aðeins gleraugun og pýrði á myndina. Jú! Var þetta ekki systir mín á forsíðunni? Ég var fljótur að sækja símann og hringja í hana, en samtímis fletti ég upp á viðtalinu aftarlega í blaðinu.  Reyndar ætti ég ekki að láta svona lagað koma mér á óvart, myndir af henni hafa það oft birst í dagblöðum og sjónvarpi að þetta hlýtur að komast upp í vana einhvern daginn. Ekki fyrir mig samt. Wizard

Internetsjónvarpsstöðin WaveTV mun hefja útsendingar í maí árið 2007. Eins og nafnið gefur til kynna verða útsendingar fyrst og fremst á vefnum. Meðal dagskrárgerðarmanna er systir mín, Anna Brynja. Hún ætlar að halda utan um sjónvarpsþátt um afsnobbaða vínsmökkun. Þetta þýðir sjálfsagt að á morgun hendi ég á bloggið gagnrýni á Sideways, einni fyndnustu vínsmökkunarkvikmynd allra tíma.

Úr Fréttablaðinu 7. apríl 2007:

Á meðal þáttanna sem verða í boði á wave tv er vínþáttur í umsjón Önnu Brynju Baldursdóttur. Anna Brynja er lærð leikkona frá Rose Bruford College, og mun útskrifast sem leiklistarkennari frá LHÍ í vor. „Við ætlum svona að taka snobbið úr vínmenningunni. Hugmyndin er komin frá mér og kærastanum mínum. Hann er vínsérfræðingur, og ég er oft dálítið týnd í þessu," sagði Anna og hló. „Ég á eftir að koma með spurningarnar sem enginn þorir að spyrja. Þetta verður fræðsla í svona léttgeggjuðum dúr. Svo ætlum við líka að skoða hvernig vín er gert, ræða við alþingismenn um léttvínsfrumvarpið og heimsækja vínskólann, svo eitthvað sé nefnt," útskýrði hún. Anna segir þáttinn því verða tilvalinn fyrir fólk sem vill kynna sér grundvallarreglur í vínsmökkun og öðru, án þess að þurfa að fara alveg á kaf. „Þetta verður á mannamáli, sem vill nú oft á tíðum vanta í vínþætti. En þeir sem halda að þeir viti allt um vín munu líka hafa gaman af þessu," sagði hún.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband