Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 15. sæti: Serenity

Nú er komið að myndum sem ná fulli húsi hjá mér, en þær hafa allar þrennt sameiginlegt: þær komu mér á óvart, mér fannst þær skemmtilegar og ég nenni að horfa á þær aftur og aftur. Nú er komið að Serenity, kvikmynd sem byggð var á sjónvarpsþáttunum Firefly sem FOX sjónvarpsstöðin var fljót að taka af dagskrá. Það var alls ekki gæðanna vegna, enda sjaldséð jafn vandað efni. Aftur á móti eru til samsæriskenningar um að persónurnar í þáttunum hafi farið ansi frjálslega með hugmyndir sínar um frelsi, og hefði í raun verið hægt að skilgreina sem hryðjuverkamenn, enda sumar aðalhetjanna með heldur vafasama og pólitísk ranga siðferðiskennd. Ég mæli ekki aðeins með Serenity, heldur einnig með sjónvarpsþáttunum sem hægt er að eignast á DVD.

Þess má geta að Firefly á gífurlega traustan aðdáendahóp sem má fræðast lítillega um á myndbandinu hér fyrir neðan, og eru þessir aðdáendur kalliðir "Browncoats" eða brúnfrakkar, en það eru fyrrverandi uppreisnarmenn gegn illa heimsveldinu í heimi Serenity kallaðir.  

 

Serenity (2005) ****

Mel (Nathan Fillion) er skipstjórinn á Serenity. Það er þrennt sem hann metur mest í lífinu, geimskipið Serenity, áhöfnina og eigið líf. Hann hefur siðferðilega fótfestu á við jó-jó, þykist vera algjörlega siðlaus, uppreisnarmaður sem skýtur fyrst, bankaræningi, málaliði og smyglari. Samt má hann ekkert aumt sjá.

Áhöfn hans er full af eftirminnilegum persónum. Þar fer fremstur stýrimaðurinn Wash (Alan Tudyk) sem flýgur Serenity eins og laufi í vindi. Zoe (Gina Torres) er harðsnúin fyrrverandi uppreisnarmaður og eiginkona Wash. Kaylee (Jewel State) er vélstjórinn sem verður ástfangin af dularfulla lækninum Simon (Sean Maher), en hann hugsar um ekkert annað en að vernda River (Summer Glau) systur sína sem hefur verið notuð sem tilraunadýr hjá ríkisstjórninni, en hún getur meðal annars lesið hugsanir og barist eins og brúðurin í Kill Bill. Vændiskonan Inara (Morena Baccarin) er konan sem Mal þráir. Skrautlegastur allra er þó Jayne (Adam Baldwin), málaliði sem hefur aðeins einn forgang, peninga fyrir sjálfan sig.

Ríkisstjórnin hefur sent stóískan mannaveiðara (Chiwetel Ejiofor) til að hafa hendur í hári River, en hún hefur verið í nálægð helstu ráðamanna. Þar sem hún getur lesið hugsanir er aldrei að vita hvað hún veit. Til að halda þessu leyndarmáli leyndu vill ríkisstjórnin allt gera til að koma River fyrir kattarnef.

Þegar ríkið hefur lagt gildru fyrir Mal til að ná River og drepa alla þá sem vitað er til að gætu hjálpað áhöfninni á Serenity, grípur Mal örþrifaráða. Eina leiðin út úr þessari hnappheldu er að hjálpa River. Geimkúrekarnir á Serinity þurfa einnig að berjast við illar geimverur sem kallaðar eru Rifarar, en þær rífa lifandi fólk í sig. River veit af hverju.

Serenity er óbein gagnrýni á notkun geðlyfja til að halda óvenju órólegu fólki rólegu, rétt eins og þeir sem dæla rítalín í börnin sín. Ríkið ákveður að gefa öllum íbúum plánetu nokkurrar lyf, sem á að róa það niður, og gerir það að mestu. Uppreisnarmaðurinn Mal sér strax illskuna sem felst í að stjórna hegðun fólks á þennan hátt og segir:

"I aim to misbehave".

Serenity er fyrsta kvikmyndin sem Joss Whedon leikstýrir í fullri lengd, en hann skrifar einnig handritið. Þar fer magnaður listamaður.  Hann skapaði áður vampírubanann Buffy og þá frábæru sjónvarpsþætti sem fjölluðu um hana og hennar félaga, en betur skrifað sjónvarpsefni hef ég ekki séð. Einnig sá hann að hluta um Angel, þætti sem fylgdu einni af persónunum úr Buffy inn í aðra borg. Þar á eftir gerði hann þættina Firefly, sem fjalla um áhöfn Serenity, rétt eins og myndin, með sömu leikurum. En af einhverjum ástæðum var taumunum kippt úr höndum hans og hætt var við þættina á miðju fyrsta tímabili, sem var bæði mikið áfall fyrir hann og leikarana, enda með hreint frábæran efnivið í höndunum. Framleiðendur virðast bara ekki skilja þann fjársjóð sem Joss Whedon og sköpunargáfa hans er. Hann er kannski óþægilegur gaur með sérþarfir, en þannig eru snillingar, óferjandi og óalanda, en óborganlegir.

Serenity er klassísk vísindaskáldsaga sem á vonandi eftir að vinna sér traustan sess sem ein af þeim bestu, enda einstaklega spennandi, fyndin, vel gerð og skemmtileg í alla staði.

 

Myndband um bakgrunn Serenity:
 



Sýnishorn úr Serenity:




Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

 
15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black



Ratatouille (2007) ***

Remy rotta (Patton Oswalt) hefur einstaklega gott þefskyn. Faðir hans fær hann til að þefa af öllum mat sem fjölskylda hans étur til að forðast rottueitur. En metnaður Remy er meiri. Hann stelst reglulega inn á bóndabæ til að kíkja í bók með uppskriftum og fylgjast með sjónvarpsþætti um matreiðslu. Einn daginn fer illa þegar ráðskonan á heimilinu tekur eftir rottum í eldhúsinu. Hún tekur upp haglarann og aftur verður ekki snúið.

Á flótta undan kellingu verður Remy aðskila við fjölskyldu sína, en hann flýtur með holræsum undir Parísarborg. Hann ratar inn á veitingahús og undir verndarvæng hins hæfileikalausa pokastráks Linguini (Lou Romano), en þar sem Remy hefur mikið vit á kryddi og matreiðslu byrjar hann samvinnu og ólíklegt vináttusamband með Linguini sem gjörbreytir á einni nóttu orðspori veitingahússins.

Það er gaman að fylgjast með þessu samspili rottu og stráks. Einnig ber að minnast á skemmtilega persónu, matargagnrýnandann Skinner (Ian Holm) sem er þvengmjór því honum líkar illa flestur matur. Það verður verkefni þeirra Remy og Linguini að gleðja bragðlauka hans.

Ratatouille snýst algjörlega um mat og matargerð, og er spennandi að því leiti að hún vekur með áhorfandanum ákveðna forvitni um leyndardóma góðrar eldamennsku. Teikningarnar eru óaðfinnanlegar eins og má reikna með frá Pixar, og maturinn sem framreiddur er virðist svo girnilegur að hann kitlar næstum bragðlauka áhorfenda.

Illmennið í myndinni er ekkert voðalega illt, bara kokkur sem vill hætta klassískri matreiðslu á kostnað hraðsoðins pakkamatar; en rottan Remy og pokastrákurinn Linguini eru þeir einu sem geta staðið í vegi fyrir hans illa ráðabruggi, að nota uppskriftir veitingastaðarins í skyndibitamat í stað fágaðra rétta. Fyrir utan það að aðalhetjan og fjölskylda hans er rotta, er furðumargt sem er sannfærandi í þeim heimi sem leikstjórinn Brad Bird töfrar fram úr tölvuheilunum. Eldhúsið er trúverðugt sem eldhús fram í minnstu smáatriði.

Ratatouille er mjög flott mynd og fjölskylduvæn. Hún er ekki mesta snilld sem sést hefur á skjánum, en hún er notaleg og skemmtileg í þær 111 mínútur sem hún endist, en mér finnst hún engan veginn ná þeim hæðum sem fyrri myndir Brad Birds hafa náð, og þá er ég að tala um The Incredibles og The Iron Giant.

 

Sýnishorn:


Beowulf (2007) ****

Beowulf (2007) ****

Beowulf er fjórða myndin sem ég hef séð árið 2007 sem maður verður að sjá í bíó. Hinar þrjár voru Meet the Robinsons (í þrívídd), Hot Fuzz og 300. Til eru þrjár útgáfur af þessari Beowulf mynd; í venjulegri tvívídd, gerða fyrir IMAX kvikmyndahús í þrívídd, og síðan í þrívídd þar sem nota þarf þrívíddargleraugu sem fylgja miðanum. Sambíóin í Kringlunni bjóða upp á síðastnefnda kostinn og mæli ég eindregið með að hann verði notaður til að sjá þessa mynd á Íslandi, fyrst við höfum ekki neitt IMAX bíó á landinu.

Ég hef lesið ljóðið Bjólfskviðu nokkrum sinnum, og síðast í nútímaþýðingu og stafsetningu Seamus Heaney. Rétt eins og Peter Jackson tókst að grípa andrúmsloft The Lord of the Rings eftir Peter Jackson, tekst hér leikstjóranum Robert Zemeckis að ná andrúmslofti ljóðsins eins og það birtist manni í útgáfu  Nóbelskáldsins Heaney. Snillingurinn Neil Gaiman sem meðal annars hefur skrifaði hinar mögnuðu Sandman bækur á framtíðina fyrir sér í Hollywood. Hans magnaða og myndræna ímyndunarafl skilar sér fullkomlega á tjaldið. Nú bíð ég spenntur eftir að aðrar sögur hans eins og American Gods og Good Omens verði gerðar að bíómyndum af hendi góðra leikstjóra.

Í meginatburðum fylgir myndin ljóðinu nokkuð nákvæmlega, þó að í smáatriðum og sambandi milli persóna hafa höfundar tekið sér skáldlegt leyfi, sem mér finnst sérlega vel heppnað. Rétt eins og ljóðinu er kvikmyndinni skipt í þrjá kafla; bardaga Beowulf við tröllið Grendel, og síðan móður hans og þar á eftir eldspúandi dreka. Tæknibrellurnar eru algjörlega óaðfinnanlegar, og í fyrsta sinn sér maður dreka í bíó sem flýgur á sannfærandi hátt og er jafn óhugnanlegur og drekar eiga að vera.

Ray Winstone stendur sig hreint frábærlega í titilhlutverkinu, en mér hefur þótt hann spennandi leikari síðan ég sá hann í hinni mögnuðu The Proposition (2005), í að mörgu leyti sambærilegu hlutverki. Tölvutækni gerir hinn fimmtuga Winstone það íþróttamannlegan í útliti að hann gefur Schwarzenegger ekkert eftir frá því hann var upp á sitt besta. Anthony Hopkins og Angelina Jolie skila sínum hlutverkum vel, en Hopkins leikur Hrothgar konung, en Jolie er móðir Grendels. John Malcowitch og Robin Wright Penn skapa einnig eftirminnilegar persónur.

Minntist ég á að Beowulf er teiknimynd? Hún er það samt ekki í hefðbundnum skilningi. Leikarar leika sín hlutverk, en síðan eru þeir og umhverfi þeirra teiknuð í tölvu til að ná fram nákvæmlega þeirri mynd sem leikstjórinn vill fá á skjáinn. Þetta er gífurlega spennandi tækni, sem hefur þróast skemmtilegasta síðustu árin. Reyndar hefur hugtakið verið til lengi. Mjallhvít (1937) var upphaflega teiknuð af Walt Disney og félögum  með svipaðri hugmynd, og síðan muna sjálfsagt margir eftir Final Fantasy: The Spirits Within (2001) þar sem reynt var að ná fram raunverulegum andlitsdráttum í framandi umhverfi, og þar á eftir kom The Polar Express (2004) sem ofnotaði Tom Hanks í alltof mörgum hlutverkum.

Loksins smellur tæknin saman og úr verður þessi eftirminnilega klassík sem á í fyrsta lagi eftir að skila gífurlegum hagnaði í kvikmyndahúsum, og þar á eftir spái ég því að hún muni eiga mikinn þátt í því hvort High Definition DVD eða BlueRay DVD verði ofaná í baráttu staðlanna., Fólk mun mæla með Beowulf, þrátt fyrir töluvert ofbeldi og frekar ógeðslegt skrímsli (Grendel), enda var klappað í lok sýningarinnar sem ég var á, sem maður upplifir sjaldan á Íslandi,

Beowulf er að mínu mati mesti kvikmyndaviðburður síðan Hringadróttinssaga kom út þrjú skemmtileg jól í röð, og verður líklega ekki toppuð fyrr en Peter Jackson færir okkur The Hobbit í bíó eftir nokkur ár.

En aftur að sögunni sjálfri. Beowulf er ein af fyrstu ofurhetjum bókmenntanna, en hann berst klæða- og vopnalaus gegn ógurlegum skrýmslum, sem vekur reyndar töluverða kátínu og minnir á upphafsatriði Austin Powers: The Spy Who Shagged Me (1999), þar sem fjölskyldudjásn Beowulf eru sífellt meistaralega falin sýn áhorfenda. Beowulf er mikill víkingur sem kemur frá Geatlandi til Danmerkur þar sem hann hefur heyrt sögur af skrímslinu Grendel. Hann ætlar að vinna sér inn frægð og frama fyrir að drepa skrímslið. Þegar það tekst er sagan þó ekki búin. Beowulf þarf að borga dýrt gjald fyrir eigin hégóma og mannlegan breyskleika, sem blæs sál í þessar teiknuðu persónur. Þegar hann biður konu sína að minnast sín sem manneskju með veikleika en ekki óstöðvandi hetju, komumst við í snertingu við kjarna málsins, hvað virðing og heiður snýst í raun um.

Texti úr þýðingu Seamus Heaney á Bjólfskviðu, þar sem lýst er heiðri víkingsins á snilldarlegan hátt.

                               It is always better
To avenge dear ones than to indulge in mourning.
For every one of us, living in this world
Means waiting for our end. Let whoever can
Win glory before death. When a warrior is gone,
That will be his best and only bulwark.
[1384–9]

 

Þessa mynd verðurðu að sjá í bíó!

 

Hvorki kvikmyndin né sýnishornið hér á eftir er ætlað börnum eða viðkvæmum:


Er Kasparov fórnarlamb einveldistilburða Pútíns eða er hann bara sérvitringur með lausa skrúfu?

Þetta mál með Kasparov og stjórnvöld í Rússlandi er afar áhugavert, en Kasparov hefur sagt að barátta hans snúist fyrst og fremst um það að fá að bjóða sig fram með sínum flokki í lýðræðislegum kosningum í Rússlandi; nokkuð sem hvaða stjórnmálaflokkur sem er á Íslandi þarf ekki að hafa áhyggjur af hérna heima.

Viðtalið hér á eftir hefur vakið mikla athygli, en þar fer Kasparov á kostum í sjónvarpsviðtali hjá Bill Maher, þar sem hann skýtur jafn harkalega á Pútín og Bush, af dýpt og sannfæringu sem vekur umhugsun.

Ljóst er að þróun mála í Rússlandi hlýtur að vera töluvert áhyggjuefni fyrir vesturlönd. Nokkuð ljóst er að það er ekki Kasparov sem er með lausa skrúfu, ef eitthvað er að marka þetta viðtal.


mbl.is Kasparov í 5 daga fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekkir þú muninn á fordómum og þekkingu?

Halla Rut gerði athugasemd við síðustu færslu mína: Hver vill losna við eigin fordóma og fyrirfram mótaðar hugmyndir?

 

Spurning Höllu Rutar:

"Hvenær  umbreytist fyrirbærið úr fordómum yfir í þekkingu. Hver er mælistikan á því?"


Spurningin er mjög spennandi, en ég hef ekkert einfalt svar við henni. Hún sýnist mér kalla á skilgreiningu þekkingar, sem er hægara sagt en gert. Ég geri mér í mesta lagi vonir um að varpa ljósi á eina hlið hennar.

Sókrates benti á hvað þekking er vandmeðfarin og stutt í fordómana. Véfréttin í Delfí hafði sagt hann vitrastan allan manna. Eftir langar rannsóknir og viðtöl við fjölda fólks, komst Sókrates á þá skoðun að véfréttin hafði rétt fyrir sér. Ekki dæma Sókrates sem hrokafullan eða merkikerti fyrir þessa skoðun. Sókrates trúði því að hann vissi ekki neitt.

Samkvæmt hans rannsóknum, þegar fólk hefur þá trú að það hafi yfir áreiðanlegri þekkingu að ráða, einmitt þá byrji það að þykjast vita hluti sem það getur í raun ekki vitað, og er því fyrir vikið ekkert sérlega viturt. Sá sem þykist vita meira en hann veit er ekkert sérlega vitur, er það nokkuð?

Samkvæmt þessu er spurning hvort að maður geti nokkurn tíma öðlast fullkomna þekkingu á nokkrum sköpuðum hlut.


 
Við hljótum því að setja okkur mælikvarða um hvenær sú þekking sem við höfum yfir að ráða um ákveðna hluti sé ásættanleg. Sumir rannsaka hlutina af dýpt, aðrir láta sér nægja að heyra um þá og sumir hafa kannski engan áhuga á að vita um þessa hluti, en gera sér samt upp einhverjar hugmyndir.
 
Mín reynsla er sú að eftir því sem bætist við þekkingu mína, því betur geri ég mér grein fyrir hversu takmörkuð hún er. Ég geri mér stöðugt grein fyrir því að það er margfalt meira um það sem ég ekki þekki, en það sem ég þekki.
 

 
Við getum sagt að þekkingarheimur okkar sé eins og sápukúla. Sápukúlan springur hins vegar ekki þegar við bætum við þekkingu,  heldur stækkar hún stöðugt, jafnvel þegar við höldum að lengra verði ekki komist. Þegar sápukúlan okkar rekst á aðrar sápukúlur, í stað þess að springa, þá sameinast hún hinum sápukúlunum sem sameiginlega verða mun stærri. 
 
Þó að við tökum þátt í að blása þekkingu inn í sápukúluna áttum við okkur vonandi á að okkar framlag er á endanum afskaplega lítið þegar á heildina er litið, og við uppgötvum að ef við viljum þekkja forsendur allrar þeirrar þekkingar sem er í sápukúlunni, þurfum við að fræðast sérstaklega um þær.
 
Þannig að þekking okkar er í eðli sínu þannig að þegar nýjar upplýsingar bætast við, þá hafa þær áhrif á þær upplýsingar sem eru fyrir, og það þarf stöðuga vinnu við að læra um, átta sig á og skilja þessa þekkingu við nýjar aðstæður.
 
Síðan er það viðfangsefnið, til dæmis heimurinn sjálfur, kvikmyndir, eigin hugur, hið góða; nefndu það. Upplýsingarnar um sérhvert fyrirbæri virðast óendanlegar og í stað þess að hafa endanlega þekkingu á þessum hlutum, hefur maður aðeins skoðanir. Hvort þær eru vel mótaðar eða ekki fer eftir hverjum og einum, þeim heilindum sem þeir hafa og þeirri vinnu sem lögð er í að kynnast eigin þekkingu.
 
Þannig að mitt svar við spurningu Höllu Rutar er þessi: þessi mælistika er ekki til. Við hins vegar búum til okkar eigin mælistiku um hvenær okkur finnst okkar þekking orðin ásættanleg, og svo finnum við okkur eitthvað viðmið. Þeir sem trúa því að sú þekking sem er ásættanleg sé fordómalaus fara villu vegar, en þeir sem átta sig á að mælistikan er ekki fullkomin, og alltaf er hægt að uppfæra eigin þekkingu, það fólk er líklegra til að vera meðvitað um takmarkanir eigin þekkingar í daglegum samskiptum og samtölum.
 
Síðan er það spurning hvernig fólk tekur á þessari þekkingu um þekkinguna. Gefst það upp vegna þess að erfiðara er að festa sér eigin þekkingarleysi í hugarlund, og fer auðveldari leiðina: það að nóg sé að þekkja hlutina betur en aðrir, eða að nóg sé að trúa því sem þér er sagt að trúa? Ég hef á tilfinningunni að vinsæl mælistika á Íslandi í dag sé  einmitt að gera samanburð á eigin þekkingu og annarra, sem mér finnst reyndar langt frá því að vera áreiðanleg aðferð, og lítið skárri en að leyfa sér að trúa öllu því sem predikað er ofan í mann. 
 
Heimspekingar hafa stungið upp á fleiri mælistikum fyrir þekkingu, Plató til dæmis að við verðum að bera hlutina saman við raunverulega mynd hlutana. Til að vita hvort að við séum góðar manneskjur þurfum við að átta okkar á því hvað hið raunverulega góða er. Þetta flokkast undir hughyggju. Síðan eru aðrir heimspekingar sem telja betra að miða við reynsluheiminn og allt það sem við skynjum og lærum, sem flokkast undir raunhyggju; og kvíslast í fjölda hugmynda um hvernig reynsla og hugur tengjast þekkingu. 
 
Ég fer ekki dýpra í þessari bloggfærslu, en get vel hugsað mér að pæla meira í hughyggju og raunhyggju, og skrifa um þær í færslum framtíðarinnar.
 
Mjög áhugavert myndband á ensku þar sem heimspekingurinn Barbara Forrest útskýrir grundvöll þekkingar og jarðfræðingurinn James L. Powell fjallar um muninn á fólkinu sem þykist allt vita og þeim sem eru enn að leita svara: 
 
 

Hver vill losna við eigin fordóma og fyrirfram mótaðar hugmyndir?

Um daginn stóð ég í biðröð við Bónuskassa. Karlmaður fór fram fyrir mig í röðina án þess að segja orð; hafði reyndar aðeins einn hlut sem hann ætlaði að kaupa. Ég gerði ekkert. Ég lét hann vaða yfir mig. Mér fannst það í lagi þar sem að mér lá ekkert á og hann var bara með einn hlut. En hann hafði ekki beðið mig um leyfi.

Nokkrum dögum síðar átti ég samræðu við góða manneskju og sagði henni frá upplifun minni í Bónus.  Henni fannst að ég hefði ekki átt að leyfa manninum að komast upp með þetta og kenna honum betri siði. Þá minntist ég á að ég hafi hugsanlega ekkert gert í málinu vegna ótta við mögulega fordóma hjá sjálfum mér og hugsaði með mér að það hefði einnig verið af ótta við að vera úthrópaður sem fordómafullur kynþáttahatari ef ég gerði athugasemd við manninn, sem var greinilega innflytjandi, sem ég greindi bæði á hegðun hans og hvernig hann tjáði sig við konu sína, sem hafði slæðu fyrir andliti.

Við ræddum þetta dágóða stund, og svo barst talið að pælingum um eðli fordóma. Ég hélt því fram að til væru tvær gerðir fordóma, þeir sem við könnumst við úr daglegu tali og bundnir eru neikvæðri merkingu og hins vegar það sem hægt væri að kalla fyrirfram dóma, sem væru þá ekkert endilega neikvæðir. Sú sem ég ræddi við taldi mig vera að rugla saman hugtökum, að ég væri að þýða hugtök úr ensku sem væru illþýðanleg yfir á íslensku: "predjudices" og "preconceptions". Ég er ekki viss um hvort ég hafi gert það, og ef svo er, þá er ég ekki sannfærður um að þegar kafað er ofan í hugtökin að þau merki ólíka hluti.

Ég hélt því fram að öll okkar þekking byrji með fordómum. Við sjáum, heyrum eða skynjum eitthvað í fyrsta sinn, og dæmum það strax. Við smökkum til dæmis ís í fyrsta sinn og finnum að hann er góður. Með aukinni þekkingu á sykri og þeim sjúkdómum sem hann veldur komumst við hins vegar að því að ís er ekki algóður. Við sjáum manneskju í fyrsta sinn, hún brosir til okkar, og þá væntum við þess að þetta sé góð manneskja og jafnvel áhugaverð. Síðan lærum við meira ef við leitum eftir því.

Við getum lært um hugmyndir, eins og kommúnisma, þar sem allir eru jafnir og deila öllu jafnt. Stundum áttum við þó okkur ekki á því að það er greinarmunur á milli þess sem við getum ímyndað okkur og reiknað út, og veruleikans sem skeytir ekkert um hugmyndir eða áætlanir og skiptir sér af öllu sem okkur langar að gera á ruddalegan hátt. Sagan sýnir okkur að kommúnisminn gengur ekki upp í mannlegu samfélagi, þó svo að hann geri það kannski sem huglægt reikningsdæmi.

Jöfnuður verður aldrei fullkominn og ef tækist að ná slíkum jöfnuði eitt andartak væri hann farinn það næsta. Það sama má segja um eignir; það er voðalega fallegt að hugsa sér að skipta öllum eignum jafnt á milli; en hvað ef þú þarft að skipta úrinu sem langafi gaf þér í afmælisgjöf og inniheldur ljósmynd af ömmu á blómaskeiði sínu, eða hvað ef þú erfðir íbúð sem þarf svo að deila með öðrum, klósettinu og sturtunni líka, bara til þess að allir verði jafnir?

Ég held að fyrirfram mótaðar hugmyndir og fordómar séu sami hluturinn; og að hver einasta hugsun sem við framkvæmum með tjáningu af einhverju tagi sé dómur. Það er ómögulegt að vera fordómalaus, en mögulegt að vera meðvitaður um eigin breyskleika og óhjákvæmilega fordóma, sama hvert tilfellið er.

Það getur verið erfitt að vera fordómalaus manneskja í fordómafullum heimi, en sú ein manneskja getur verið án fordóma sem tilbúin er að taka á allri þeirri áreitni sem hún verður fyrir og vinna með hana, þar til fyrirbærið umbreytist úr fordómum yfir í þekkingu.

 

Aukaefni:

Áhugaverð bandarísk teiknimynd, gerð sem áróður gegn kommúnisma. Reyndu að horfa á þessa teiknimynd fordómalaust. Það er ekki auðvelt.


Inland Empire (2006) *1/2


Það er nánast hægt að kalla mig aðdáanda David Lynch. Ég hef séð flestar hans myndir og verið mjög hrifinn af mörgum þeirra, eins og Wild at Heart, The Lost Highway, Mulholland Dr., Blue Velvet  og The Straight Story, auk sjónvarpsþáttaraðarinnar Twin Peaks. Inland Empire hitti ekki í mark hjá mér.

Inland Empire gerist í huga einhverrar manneskju, en það er aldrei ljóst í hvers huga það er. Sigaunakona (Grace Zabriskie) heimsækir leikkonuna Nikki Grace (Laura Dern), fær kaffisopa hjá henni og segir henni frá því hvernig hún muni sjá eftir morgundeginum. Spúkí hugmynd sem vekur eftirvæntingu.

Grace fær hlutverk í kvikmynd sem gerð verður eftir handriti sem trúað er að bölvun hvíli á. Fólk tekur þessari bölvun sæmilega alvarlega, en leikstjórinn Kingsley Stewart (Jeremy Irons) og handritshöfundurinn Freddie Howard (Harry Dean Stanton) segja ekki aðalleikurunum frá þessu fyrr en þau hafa byrjað undirbúning og geta ekki hætt við.  Ennþá er hugmyndin spennandi.

Grace lifir sig inn í hlutverk sitt af það miklu afli að hún hættir að gera greinarmun á sjálfri sér og Susan Blue, persónunni sem hún leikur, þar til á endanum að hún hverfur algjörlega inn í hugarheim hennar, og ekki er lengur ljóst hvort að leikkonan fari með hlutverk persónunnar eða persónan með hlutverk leikkonunnar. Grace fer að upplifa hluti sem virðast tengjast öðrum konum sem hún hefur leikið, og konum sem hafa lent í sama manni og þeim sem Susan lendir í.

 

Hugmyndin er fín og minnir töluvert á Mulholland Dr. og The Lost Highway, en það er bara alltof margt sem klikkar í framkvæmd.  Í fyrsta lagi er ekkert sérstaklega skemmtilegt að horfa á myndina sem er líka alltof löng fyrir efni sem gæti rúmast í hálftíma stuttmynd, en hún er 180 mínútur að lengd. Það er að hluta til vegna þess hversu leiðinleg kvikmyndatakan og klippingin er. Þar að auki ofleika leikararnir um of. Yfirleitt notar David Lynch ofleik með snilldarlegum jöfnuði milli veruleika sögunnar og ástands persóna; hann hittir bara einfaldlega ekki í mark hérna.

Ljóst er að það þyrfti að leggja á sig töluverða vinnu í til að skilja Inland Empire og persónur hennar fyllilega, en málið er að hún er ekki nógu áhugaverð til að gefa réttlætanlegt tilefni til þess. Ég hef ekki hugmynd um hvað eitthvað fólk með kanínuhausa er að gera í hugarheimi Lynch, né hvers vegna Lynch ákveður að steypa mynd sem endurtekur senur úr eldri myndum hans, eins og þegar læðst er inn í myrkrað herbergi, farið er fyrir horn og tónlistin á að magna upp einhverjar tilfinningar.

Málið er að Lynch getur gert þetta meistaralega vel, en mistekst í þetta skiptið. Það eru vissulega eftirminnileg atriði í myndinni, sem vekja mann til umhugsunar um hvað maðurinn hafi eiginlega verið að pæla; en það er of lítið af þeim, of langt á milli þeirra og maður hefur aldrei á tilfinningunni að þessar pælingar séu nokkurs virði.

Inland Empire reynir því miður meira á þolinmæðina en nokkuð annað.

 

Sýnishorn úr Inland Empire:


Predator 2 (1990) **

Síðasta mynd sem ég fjallaði um var Predator frá 1987. Hún hefur getið af sér tvö afkvæmi og það þriðja er á leiðinni. Fyrsta afkvæmið var hin alltof obeldisfulla og ósmekklega Predator 2, sem fjallað er um hér fyrir neðan. Næst kom hin hrykalega lélega Aliens vs. Predator (2004) og næsta jóladag verður framhaldið, Aliens vs. Predator: Requiem, frumsýnd. 


Predator 2 er sjálfstætt framhald. Það er minnst á atburði fyrstu myndarinnar í framhjáhlaupi.

Ófremdarástand ríkir í Los Angeles. Glæpaklíkur vaða uppi drulludópaðar og þrælvopnaðar. Margir lögreglumenn eru drepnir á dag og allt í upplausn. Það er engu líkara en að við séum stödd í heimi Robocop eins og hann birtist okkur í Paul Verhoeven útgáfunni.

Danny Glover leikur ofurlögguna Mike Harrigan. Hann veður inn í hóp glæpamanna sem drita eins og brjálæðingar úr öllum hugsanlegum byssutegundum. Danny Glover teppir gluggana á bílnum sínum með skotheldum vestum, brýtur af bílstjórahurðina og laumar sér þannig upp að þeim til að bjarga tveimur föllnum félögum. Honum tekst að komast aftan að bófunum og plaffar þá alla í spað.

Veiðivera úr geimnum fylgist spennt með hvernig Danny Glover leysir úr málunum. Þar hefur hún fundið verðugan andstæðing, finnst henni, en áhorfandinn á bágt með að trúa því. Veran drepur nokkur bófagengi á sinn yfirnáttúrulega hátt og þegar hún hefur drepið nokkrar löggur sem eru félagar Glovers, þá ákveður hann að þetta sé orðið persónulegt, og ætlar heldur betur að taka í lurginn á kvikindinu.

FBI fulltrúinn Peter Keyes (Gary Busy) truflar stöðugt rannsóknina, ásamt hópi þrjóta sem inniheldur meðal annarra Garber, sem leikinn er af Adam Baldwin, stórskemmtilegum leikara sem hefur ekki fengið nóg af góðum tækifærum. FBI gaurarnir vilja ná skrýmslinu lifandi og að sjálfsögðu renna aðgerðir þeirra úr í sandinn og reynast hið versta klúður, sem aðeins Danny Glover getur reddað.

Fínir leikarar birtast í aukahlutverkum, sem standa sig reyndar misjafnlega vel. Þar er væntanlega frægastur Bill Paxton, sem brá reyndar einnig fyrir í The Terminator sem pönkari, en hann ofleikur löggu sem hefur alltof mikið sjálfsálit. Maria Conchita Alonso og Ruben Blades eru hins vegar nokkuð góð sem aðstoðarmenn Danny Glover, en Danny kallinn stendur sig best þeirra allra. Hann sýnir flotta takta, þó svo að hann sé langt frá því að vera trúverðugur í sínu hlutverki.

Predator 2 er ekki jafn spennandi og hún er óhugnanleg. Það er alltof mikið af tilgangslausu drápi og tilviljunarkenndum augnablikum. Stundum er eins og geimskrýmslinu takist að vera á tveimur stöðum samtímis, sem gengur náttúrulega engan veginn upp. Það að skrýmslið leggi Danny Glover í einelti af öllum þeim vopnuðu gaurum sem birtast í myndinni er líka frekar ósennilegt.

Tæknilega er Predator 2 óaðfinnanleg, en hún hefur bara ekki upp á neitt nýtt að bjóða. Reynt var að blanda saman Lethal Weapon og Alien, en það gengur bara ekki alveg upp. Hugmyndin ágæt svosem, en sjálfsagt of erfið í framkvæmd.


Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 16. sæti: Predator

Af fimm fyrstu myndunum sem ég hef tekið fyrir á þessum lista hafa þrjár þeirra verið með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Ég vissi ekki til þess að ég væri sérstakur aðdáandi ríkisstjóra Kaliforníu, en ljóst er að sumar myndir hans hafa heldur betur hitt í mark hjá mér.

Predator er einhvers konar blanda af Alien og Rambo, en tekst samt að skapa sinn eigin spennandi heim, sem kemur ímyndunaraflinu í gang, enda hafa verið gerðar tvær framhaldsmyndir og sú þriðja á leiðinni. Engin þeirra hefur þó náð hæðum Predator. Hún er dúndurspennandi og stundum óhugnanleg, en Schwarzenegger stendur sig býsna vel í hlutverki sínu. Það er ekki hverjum sem er sem tekst að vekja samúð með vöðvatrölli í sérsveit Bandaríkjahers sem drepur fólk á þeirra eigin landssvæði. Geimveran sem Arnold tekst á við er eitt vel heppnaðasta skrýmsli kvikmyndasögunnar.  

 

Predator (1987) ***1/2

Sveit hæfustu sérsveitarmanna bandaríkjahers eru sendir inn í Suður-Amerískan frumskóg án þess að vita nákvæmlega hvert verkefni þeirra er. Leyniþjónustumaðurinn Dillon (Carl Weathers) hefur nokkuð skýrar hugmyndir um tilgang ferðarinnar. Skæruliðar hafa komið sér upp herbúðum og safnað að sér gífurlegu magni vopna. Bandaríkjamenn reikna með að þeir ætli sér stóra hluti. Þeir vita ekki nákvæmlega hvað, en bara það að áætlanir séu í gangi þýðir að það verður að stoppa þær.

Dutch (Arnold Schwarzenegger) fer fyrir sérsveitarhópnum en meðlimir hans eru meðal þeirra skrautlegri sem sést hafa í bíómynd. Fremstur þeirra fer Blain (Jesse Ventura), skrotyggjandi hörkutól sem svarar eftir að félagi hans bendir á að hann hafi orðið fyrir skoti: "I ain't got time to bleed." Annar eftirminnilegur sérsveitarmaður er leiðsögumaðurinn Billy (Sonny Landham) en hann er sá fyrsti sem áttar sig á hversu hættulegur hinn raunverulegi óvinur er.

Þegar sérsveitin mætir í regnskóginn finna þeir leyfar af fyrri sveit, sem hefur öll verið slátruð á ómanneskjulegan hátt. Þegar Schwarzenegger njósnar um búðir skæruliðanna sér hann þá taka Bandaríkjamann af lífi. Það er nóg til að sveitin stormar inn í búðirnar og slátrar þar öllum nema Önnu (Elpidia Carrillo). Leyniþjónustumaðurinn Dillon er ánægður með árangur ferðarinnar og haldið er af stað til þyrlunnar sem sækja mun hópinn.

Á leiðinni að þyrlunni verður hópurinn óþægilega var við einhverja dularfulla veru í skóginum, sem getur hulist sjáandi augum, slóð hennar er órekjanleg og vopnin öflugri en nokkuð sem sérsveitarmennirnir hafa áður kynnst. Þegar veran byrjar að drepa hermennina einn af öðrum verður Dutch ljóst að það voru ekki skæruliðarnir sem drápu fyrri sérsveitina, heldur þessi undarlega vera sem virðist vera að veiða hina hættulegu mannskepnu sér til skemmtunar. Anna segir að þessar verur komi í skóginn á tíu ára fresti og drepi bestu hermennina, að hún sé einfaldlega að safna verðlaunagripum.

Einn af öðrum týna sérsveitarmennirnir tölunni þar til Schwarzenegger stendur einn eftir gegn þessari veru, sem kemur utan út geimnum betur vopnuð en nokkur jarðarbúi. Tekst honum að ráða niðurlögum hennar og hvernig þá? Hvaða vera er þetta? Hvaðan kemur hún? Til hvers er hún að þessu?

Það er skemmtilegt hvernig sérsveitarmönnunum er komið í stöðu dýra sem sífellt verða veiðiþjófum að bráð. Yfirleitt eru veiðiþjófar vel undirbúnir og eru aldrei í hættu, og drepa dýrin sér til gamans. Hvað gerist hins vegar ef eitt af dýrunum fær nóg af þessari vitleysu og leggur gildrur fyrir veiðiþjófinn?

Predator er leikstýrð undir sterkri leiðsögn John McTiernan, en hann átti tvö mjög góð ár, 1987 og 1988, en síðara árið leikstýrði hann Die Hard með Bruce Willis. Því miður tókst honum ekki að halda dampi, gerði hina ágætu The Hunt for Red October (1990) og síðan urðu verkefnin innihaldslausari og lélegri með hverju árinu. Síðasta mynd sem hann leikstýrði var Basic, árið 2003, sem var ansi léleg.

 

Tilnefning til Óskarsverðlauna

Bestu tæknibrellur

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

 
16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 17. sæti: Terminator 2: Judgment Day

Næsta mynd á listanum er vísindatryllirinn Terminator 2: Judgment Day sem leikstýrð var af "konungi heimsins", James Cameron. Arnold Schwarzenegger endurtók hlutverk sitt sem gjöreyðandinn en fékk að gera vélmennið sem hann leikur mun mannlegra en í frummyndinni, þar sem hann var vél sem ekkert gat stöðvað. Vél kemur í vélar stað þegar nýjasta gerðin af gjöreyðundum, T-1000, er sendur aftur í tímann til að drepa frelsishetjuna John Connor á unglingsaldri, en nú þarf gamla útgáfan að vernda stráksa.

 

Terminator 2: Judgment Day (1991) ***1/2

Sarah Connor (Linda Hamilton) hefur verið í sjálfskipaðri útlegð síðustu 12 árin.  Hún hefur notað tímann til að þjálfa son sinn í skæruhernaði og áttað sig á hvað hún þarf að gera til að stoppa vélarnar frá því að ná heimsyfirráðum. Hún er handsömuð þegar hún reynir að sprengja höfuðstöðvar tölvuþróunar þar sem hún taldi að verið væri að þróa tæknina sem gefur vélmennum eigin vilja. Henni er komið fyrir á geðveikraspítala þar sem starfsmenn keppast um að misnota hana og gera lítið úr hennar sögu.

Þegar hún fréttir að sonur hennar, John Connor (Edward Furlong) er horfinn og fóstuforeldrar hans hafa verið myrtir, veit hún nákvæmlega hvað er í gangi. Hún ákveður að gera flóttatilraun samdægurs. Þegar hún er næstum sloppin út mætir hún gjöreyðandanum sjálfum (Arnold Schwarzenegger) fyrir utan lyftu og er strax gripin mikilli skelfingu. Hún leggur á flótta.

Gjöreyðandinn hefur verið sendur endurforritaður af John Connor framtíðarinnar til þess að vernda unglinginn John Connor (sjálfan sig) gegn morðtilraun nýjustu uppfærslu gjöreyðandans, T-1000 (Robert Patrick), sem búinn er til úr fljótandi málmi, getur tekið á sig form allra manneskja sem hann hefur snert. Hann getur einnig breytt sér í einföld verkfæri og eggvopn.

Sagan er í raun endurtekning á The Terminator, fyrir utan að persónurnar hafa allar gjörbreyst og gegna ólíkum hlutverkum. Sarah Connor er nú þjökuð af lífsreynslu og biturð, og verður nánast að tortýmanda sjálf þegar hún kemst að því hver hannaði gervigreindina sem gaf vélunum eigin vilja. Sá er uppfinningamaðurinn Miles Dyson (Joe Morton), en hann hefur notað afganga úr gjöreyðandanum sem gengið var frá í fyrri myndinni til að stökkva yfir í næsta stig gervigreindar. Miles Dyson og John Connor gegna því báðir hlutverki fórnarlambsins sem verður að sleppa undan gjöreyðanda. Gjöreyðandinn hann Arnold er kominn í hlutverk Kyle Reese sem verndarinn göfugi.

Árið 1991 vakti Terminator 2: Judgment Day mikla athygli fyrir byltingarkenndar tæknibrellur, sem reyndar eru farnar að láta svolítið á sjá í dag. Það var nýleg og dýr tækni að umbreyta einni manneskju í aðra á sannfærandi hátt, en það tekst mjög vel hérna. Allar tæknibrellur, gervi og hljóðbrellur eru til mikillar fyrirmyndar, og ekki er verra að þau Linda Hamilton og Arnold Schwarzenegger eru bæði í fantagóðu formi.

Reyndar er tónn Terminator 2: Judgment Day mun léttari en frummyndarinnar. John Connor reynir að kenna vélmenninu eitthvað um mannlega þáttinn. Vélmennið spyr til dæmis hvað tár séu, og af hverju fólk grætur. Hann fær kennslustund í mannlegum samskiptum og lofar að drepa engan, sem náttúrulega stríðir algjörlega gegn eðli gjöreyðanda. Smám saman fær gjöreyðandinn samúð með samferðarfólki sínu og tekur afstöðu gegn vélunum, kynbræðrum sínum; og reynist á endanum skilja fullkomlega hvað það þýðir að vera fórnfús hetja.

Sagan er stundum svolítið væmin og myndin er heldur löng, en hún nær 137 mínútum.  Samt sem áður er Terminator 2: Judgment Day fantagóð skemmtun sem gaman er að horfa á öðru hverju.

 

Óskarsverðlaun Terminator 2: Judgment Day

 

Vann:

Besta hljóð

Bestu tæknibrellur

Bestu hljóðbrellur

Besta föðrun

 

Tilnefnd:

Besta klipping

Besta kvikmyndataka

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black

 

Sýnishorn úr Terminator 2: Judgment Day 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband