Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 18. sæti: Blade Runner
6.11.2007 | 22:35
18. sætinu nær Blade Runner í leikstjórn Ridley Scott. Kolsvört og drungaleg framtíðarsýn þar sem risastór auglýsingaskilti og fljúgandi bílar leika aukahlutverk innan um manneskjur í eltingarleik við vélmenni.
Blade Runner (1982) ***1/2
Blade Runner er gerð eftir smásögunni 'Do Androids Dream of Electric Sheep?' (Dreyma vélmenni rafrollur?) eftir Philip K. Dick, þann sama og skrifaði smásöguna sem Total Recall er gerð eftir, 'We Can Remember it For You Wholesale' (Við munum það fyrir þig á heildsöluverði). Kvikmyndin er drungaleg framtíðarsýn. Vélmenni, sem hönnuð hafa verið til að líkjast manneskjum nákvæmlega eru notuð sem þrælar til að vinna erfiðisstörf. Þessi vélmenni geta ekki lifað lengur en fjögur ár í senn.
Nú gerist það að nýjustu útgáfurnar af vélmenna sem kallast 'replicants' taka upp á því að hugsa sjálfstætt, og þroska með sér tilfinningar eins og ást og þrá til að lifa. Þessi þrá til að lifa verður til þess að nokkur vélmennin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að framlengja eigin líf. Það kostar blóðug átök. Roy Batty (Rutger Hauer) er leiðtogi þessara rafrænu vera, en Rick Deckard (Harrison Ford) er þeirra helsta hindrun. Hann er fenginn til að leita vélmennin uppi og útrýma þeim. Í rannsókn sinni uppgötvar hann að hugsanlega hefur líf þeirra meira gildi en hann hafði áður gert sér grein fyrir, og þarf að takast á við undirstöðu trúar sinnar um lífið og tilveruna.
Segjum að mannkynið slysist til að búa til vél sem hefur sams konar tilfinningar, hugsanir, þrár og vilja til að lifa að eilífu, rétt eins og manneskja og gæti hugsanlega verið með sál, hefðum við rétt til að taka slíka vél úr sambandi þegar okkur þóknast, bara vegna þess að við bjuggum hana til?
Ef við höfum þennan rétt, hefur skapari okkar þá ekki rétt til að taka okkur úr sambandi þegar honum sýnist, án þess að velta sér upp úr samviskubiti og væli?
Ridley Scott skapar framtíðarsýn þar sem tæknin hefur farið langt fram úr mannfólkinu og það er farið að gjalda fyrir það. Hvert einasta atriði er skemmtilega útfært. Það er stutt í að út komi endanleg útgáfa Ridley Scott á Blade Runner, en hana er til dæmis hægt að panta á amazon.co.uk.
Blade Runner er góð mynd, en frekar drungaleg og þunglyndisleg á köflum. Harrison Ford og Rutger Hauer eru eftirminnilegir í hlutverkum sínum, og þá sérstaklega Hauer, sem hið ofurmannlega vélmenni. Önnur eftirminnileg persóna er lögreglumaðurinn Gaff (Edward James Olmos) sem býr stöðugt til og skilur eftir sig pappírsdýr út um allt.
Nokkrar spurningar:
- Ef þú starfaðir við að framkvæma skítverk fyrir lögregluna, að útrýma vélmennum sem hafa alla sína stuttu ævi unnið skítverk fyrir annað fólk, og unnið sér til dauðadóms að þau leita eftir leið til að komast lífs af, færi þá eins fyrir þér ef þú uppgötvaðir að þú værir vélmenni, forritað til að deyja eftir ákveðinn dagafjölda?
- Hvað myndir þú gera ef þú vissir að líf þitt myndi fjara út eftir viku, af mannavöldum?
- Myndriðu láta það yfir þig ganga eða gera eitthvað í málinu?
- Er réttlætanlegt að grípa til vopna þegar verið er að verja eigið líf?
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:
18. sæti: Blade Runner
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Kvikmyndir | Breytt 8.11.2007 kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
The Manchurian Candidate (1962) ****
6.11.2007 | 01:01
Í Kóreustríðinu árið 1952 er bandarísk herdeild svikin af leiðsögumanni sínum í hendur kommúnista. Með lyfjum og samráði rússneskra og kínverskra stjórnmálamanna, sálfræðinga og vísindamanna eru Bandaríkjamennirnir dáleiddir, allir sem einn. Kommúnistum gengur sérstaklega vel að dáleiða liðsforingja hópsins, Raymond Shaw (Laurence Harvey), sem hefur alla tíð verið illa liðinn af sínum mönnum og virðist alltaf geta fundið eitthvað að öllu og öllum. Í dáleiðslu myrðir hann tvo af undirmönnum sínum fyrir framan alla hina félagana, án þess að finna fyrir samviskubiti eða trega. Spurning hvort að það sé manngerðarinnar vegna eða þeirrar staðreyndar að hann er dáleiddur hermaður sem hefur vanist á að drepa.
Hermennirnir eru heilaþvegnir. Þeim er talin trú um að Raymond Shaw hafi einn síns liðs sigrast á óvinaherflokki andstæðinganna og bjargað þeim úr klóm óvinarins. Þeir eru forritaðir til að halda því fram að Raymond Shaw sé í miklu áliti meðal manna sinna, og nánast dýrkaður af þeim, á meðan andstæðan er hið sanna í málinu. Fyrir vikið fær Raymond heiðursorðu bandaríska þingsins, en hann trúir ekki að hann eigi hana skilið og heldur að móðir hans, Mrs. Iselin (Angela Lansbury) og stjúpi, öldungadeildarþingmaðurinn John Yerkes Iselin (James Gregory) hafi hagað málum þannig til að auka stjúpanum vinsældir fyrir komandi kosningar. Kenning hans reynist alls ekki svo galin.
Foringi í hópnum dáleidda, Bennett Marco (Frank Sinatra) fer að fá matraðir þar sem hann dreymir sig og hina í herflokknum á fundi með húsmæðrum í New Jersey, en jafnframt finnst honum að sömu manneskjur séu svarnir óvinir sem ætla að nota hermennina til illvirkja heima fyrir, sem leynivopn. Marco fer með málið til yfirmanna sinna sem halda í fyrstu að hann hafi einfaldlega verið undir of miklu álagi og taugar hans séu að gefa sig. Þegar hann kemst að því að hann er ekki einn um að fá þessar martraðir ákveður hann að leggja harðar að sér og komast að sannleikanum.
Á meðan eru óvinirnir að nota Raymond sem morðtæki, að honum óafvitandi, en þeir geta gefið honum skipun um að gera hvað sem er með því að sýna honum tíguldrottningu úr spilastokk. Þegar hann sér tíguldrottningu er hægt að gefa honum hvaða skipun sem er og hann framkvæmir skilyrðislaust það sem honum er sagt að gera. Ljóst er að áætluð fórnarlömb eru pólitískir óvinir einhverra leppa meðal heimamanna.
Marco fær tækifæri til að brjótast inn í harða skel Raymonds, og kemst að því að hann á sér ljúfa hlið og að það sé von um að brjóta dáleiðsluna á bak aftur án þess að skaða Raymond eða aðra í kringum hann, og afhjúpa um leið þá sem eru að nota hann, en Raymond er yfir sig hrifinn af Jocelyn Jordan, dóttur eins af pólitískum andstæðingum foreldra hans. Óvæntir atburðir og mannleg mistök verða ti að hleypa af stað keðjuverkun atburða sem ekkert fær stöðvað nema hetjudáðir þeirra sem þekkja til málsins.
Myndinni er vel leikstýrt af John Frankenheimer og standa þeir Frank Sinatra og Laurence Harvey sig afar vel í sínum hlutverkum. Einnig er Angela Lansbury mögnuð sem hin kaldrifjaða og framagjarna móðir. Myndin var endurgerð árið 2004 af Jonathan Demme, þar sem Denzel Washington, Meryl Streep og Liev Schreiber fóru með aðalhlutverkin. Sú mynd var langt frá þeirri klassík sem frumgerðin er.
Ég mæli eindregið með The Manchurian Candidate frá 1962. Betri skemmtun er erfitt að finna á DVD í dag.
The Manchurian Candidate var tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna árið 1963:
- Besta leikkona í aukahlutverki: Angela Lansbury
- Besta klipping og samskeyting atriða: Ferrist Webster
Stutt atriði úr The Manchurian Candidate:
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 19. sæti: Total Recall
4.11.2007 | 23:04
19. sætið skipar Schwarzenegger myndin Total Recall. Hún leynir svolítið á sér, því undir hasarnum og blóðbaðinu má finna dýpri spurningar um tengsl drauma og veruleika. Ég met skemmtanagildi mynda mikið á þessum lista. Ef mér finnst mynd leiðinleg, þó að hún sé gífurlega vel gerð og innihaldi magnaðar hugmyndir sem fær mann til að pæla í lífinu og tilverunni alveg upp á nýtt, þá mæli ég ekkert endilega með henni. Ég vil að bíómyndir séu skemmtilegar og fullar af spennandi hugmyndum; ekki bara annað hvort.
Ég viðurkenni fúslega að það er miklu meira af hugsunarlausri skemmtun en djúpum pælingum í Total Recall; en í henni er sköpuð áhugaverð framtíð, þar sem er líf á mars, mörghundruðþúsund geimverur blandast inn í söguna, hugarferðalög, efasemdir um uppbyggingu veruleikans, spurningar um sjálfsmynd, val á milli góðs og ills, stökkbreyttar manneskjur, sönn ást. Þetta eru umfjöllunarefni rússíbanareiðarinnar Total Recall.
Total Recall (1990) ***1/2
Douglas Quaid (Arnold Schwarzenegger) dreymir oft sama drauminn. Hann er á gönguferð um plánetuna Mars ásamt fagurri konu, en honum strikar fótur og hann rúllar niður fjall. Hjálmur hans brotnar og augu hans springa úr tóftunum vegna súrefnisskorts. Þegar Doug vaknar í svitakófi við hlið eiginkonu sinnar Lori (Sharon Stone) fyllist hann einkennilegri löngun. Hann vill fara til Mars.
Doug starfar sem verkamaður og leiðist líf sitt. Honum finnst að lífið mætti hafa upp á eitthvað meira að bjóða. Þegar hann sér auglýsingu frá ferðaskrifstofu sem selur draumaferðir, í bókstaflegri merkingu, fer hann á staðinn og óskar eftir að fá í heilann tveggja vikna minningu um ferð til Mars. Honum er ekki aðeins boðin ferðin til Mars, heldur líka að skipta um persónuleika í ferðinni. Doug ákveður að vera leyniþjónustumaður og velur lýsingu af konunni úr draumnum sem viðhald.
Annað hvort fer allt úrskeiðis eða eftir áætlun. Það fær áhorfandinn aldrei að vita. Svo virðist sem að innsetning draumsins hafi mistekist þegar Doug einfaldlega tryllist í stólnum. Hann er svæfður, honum endurgreitt og komið fyrir meðvitundarlausum í leigubíl. Frá þeirri stundu er hann hundeltur af leyniþjónustumönnum sem hafa greinilega ekki áhuga á neinu öðru en að drepa hann, enda fer þar fremstur í flokki Richter (Michael Ironside), hægri hönd Vilos Cohaagen (Ronny Cox), en hann svífst einskis til að drepa Doug þar sem að Lori er í raun kona Richters.
Doug sleppur frá nokkrum tilræðum, en fjölmargir saklausir áhorfendur og illmenni eru drepin á flótta hans. Allt ofbeldi í Total Recall er mjög ljótt. Það er mikið af blóði og það er eldrautt. Sum atriði eru svo grafísk og óaugnalega nákvæm að þau voru klippt úr kvikmyndaútgáfunni á Íslandi þegar hún kom fyrst í bíó. Samt jafnast hún sjálfsagt ekkert á við gróft ofbeldið í myndum eins og Saw og Hostel.
Doug heldur til Mars eftir hjálp frá Hauser, en það var hann sjálfur áður en minni hans var þurrkað út og nýju komið inn í staðinn. Þar finnur hann Melina (Rachel Ticotin) sem er lykilmaður uppreisnarmanna á Mars; en Cohaagen stjórnar öllu á þeirri plánetu, er ríkastur og frekastur - hann ræður yfir lögreglunni og leyniþjónustunni, og getur líka slökkt á loftræstikerfinu og kæft alla íbúa plánetunnar langi hann til þess. Og hann langar til þess.
Þegar Doug fær svo minnið aftur og áttar sig á að hann var aðeins handbendi síns fyrra sjálfs og Cohaagen, verður hann að gera upp við sig hvort að hann vilji gera út um uppreisnarmennina eða hjálpa þeim. Hann gæti hugsanlega hjálpað þeim með því að koma af stað risarafali sem fannst neðanjarðar, sem talinn er vera búinn til af geimverum og vera um hálfs milljón ára gamlan. Kenningin er sú að ef kveikt verður á honum mun annað hvort súrefni vera dreift um alla plánetuna og gera öllum fært að bjarga sér sjálfum, eða þá að losað verður um efni sem drepur alla íbúa Mars.
Total Recall er bráðskemmtileg. Ég kann betur að meta myndir sem hafa töluvert skemmtanagildi um leið og þær kynna hugmyndir sem gaman er að pæla í. Arnold Schwarzenegger er í fullu fjöri. Doug veit ekki sjálfur hvort að hann vaki eða dreymi draum sem virðist raunverulegur, en þeirri spurningu þarf hver áhorfandi að svara fyrir sig.
En hvernig er það, hefur þig einhvern tíma dreymt eitthvað sem þú trúðir að væri veruleiki á meðan þig var að dreyma? Ef svo er, hvernig geturðu vitað með vissu að það sem þig dreymdi var ekki veruleiki?
Sýnishorn úr Total Recall
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:
19. sæti: Total Recall
20. sæti: Pitch Black
Kvikmyndir | Breytt 5.11.2007 kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
The Matador (2005) ***1/2
3.11.2007 | 23:00
Julian Noble (Pierce Brosnan) er leigumorðingi að atvinnu. Líf hans er algjörlega innantómt. Í raun má segja að Noble sé James Bond sem búinn er að skipta um atvinnurekanda og tapa sjálfsvirðingunni. Hann á sér ekki heimili, stundar kynlíf án þess að ná sambandi við konurnar, og drekkur alltof mikið. Þegar hann áttar sig á að hann er algjörlega vinalaus fer hann að þrá samband við aðra manneskju, einhvern sem hann getur talað við og hlustað á, hann þarf vináttu.
Danny Wright (Greg Kinnear) er ósköp venjulegur og ljúfur maður sem fer til Mexíkó í viðskiptaerindum. Viðskiptin ganga hins vegar ekki alveg smurt fyrir sig.
Þeir Noble og Wright hittast á hótelbar í Mexíkóborg og spjalla saman um daginn og veginn. Í ljós kemur að Noble virðist algjörlega tilfinningasnauður þegar Wrigth segir honum frá dauða sonar síns, en hann er niðurbrotinn maður eftir að hafa misst djásn lífs síns í rútuslysi þremur árum áður. Neisti kviknar á milli þeirra félaga. Eðli þessa neista kemur ekki í ljós fyrr en í lok myndarinnar.
Noble býður Wright á eftirminnilegt nautaat, og útskýrir eigin sín á virðinguna sem felst í drápinu á nautinu, þessu sérstaka sambandi milli þess sem drepur og þess sem er drepinn. Síðan trúir hann honum fyrir við hvað hann starfar.Í fyrstu trúi Noble honum ekki, en Wright sannfærir hann með því að láta Noble velja fórnarlamb meðal áhorfenda og sýnir honum hversu auðvelt getur verið að taka líf hvers sem er og komast upp með það. Sambandi þeirra virðist ljúka þegar Wright neitar að taka þátt í launmorði á næsta fórnarlambi Noble, eða áhorfandanum er talið trú um það þar til meira kemur í ljós.
Leiðir skilja og báðir halda sinni iðju áfram, þar til sá dagur kemur að Noble getur ekki lengur drepið. Þá þarf hann að leggja á flótta undan yfirmönnum sínum. Eina afdrepið sem honum dettur í hug er heima hjá Wright.
Húmorinn er góður, og Pierce Brosnan er betri en nokkurn tíma fyrr. Greg Kinnear er sannfærandi og áhugaverður sem venjulegi fjölskyldufaðirinn. Ljóst er að það mun borga sig að fylgjast með leikstjóranum, Richard Shepard, í náinni framtíð; því honum tekst að vekja forvitni áhorfandans og koma skemmtilega á óvart þegar leyndarmálið er afhjúpað, um hvað gerðist milli þeirra félaga á hótelherbergi um miðja nótt í Mexíkóborg.
The Matador er ein af betri myndum sem ég hef séð um vináttu. Það vill svo skemmtilega til að hún minnir mig nokkuð á aðra mjög góða mynd um launmorðingja og vináttu, The Killer í leikstjórn John Woo, og spurning hvort að það sé tilviljun að The Matador og The Killer sé sama hugtakið á tveimur ólíkum tungumálum?
The Matador er mynd sem óhætt er að mæla með, en þó með þeim fyrirvara að það er nokkuð um nekt og gróft orðbragð, enda tilheyrir heimur vændis og örvæntingar öllu því sem Julian Noble stendur fyrir.
VEGGSPJALD
Vel heppnað veggspjald.
LJÓSMYNDIR
Harrison Ford í sæmilegu formi þrátt fyrir að vera nýorðinn 65 ára gamall.
Shia LaBeouf, heitasta ungstirnið í Hollywood og Harrison Ford.
Karen Allen lítur út fyrir að vera tvítug, enda ekki nema 56 ára gömul, sem er ekkert fyrir Hollywoodstjörnur. Spielberg troðar puttanum í eyrað af gömlum vana.
Shia LaBeouf, Steven Spielberg, Ray Winstone (snilldarleikari), Karen Allen og Harrison Ford.
MYNDBÖND
Ónefndur aðdáandi gerði þetta flotta myndband fyrir Indiana Jones 4. Einu mistökin eru í titli myndarinnar sem birtist í lokin, sem mér finnst reyndar flottari en sá sem varð á endanum fyrir valinu:
Hvað gerist þegar eitt besta atriði kvikmyndasögunnar úr Raiders of the Lost Ark, með þeim Harrison Ford of Alfred Molina í aðalhlutverkum, fær smá undirspil frá Ennio Morricone? Sjáðu það hér fyrir neðan:
The Chronicles of Riddick (2004) ***
1.11.2007 | 19:33
Fimm ár hafa liðið síðan örfáir ferðalangar voru til frásagnar eftir geimskipsbrotið í Pitch Black.
Riddick er enn á flótta undan mannaveiðurum, og loks komumst við að því hvers vegna hann er eftirlýstur og hvað það er sem gerir hann hættulegan. Leiðtogi hinna illu Dauðaganga (Colin Feore), The Necromongers, trúir því að þeim stafi hætta af aðeins einum manni, Riddick. Ástæðan er sú að spáð var fyrir endalokum hans fyrir hendi manns af Furian kynstofninum, en Riddick er sá eini sem lifir enn af þessum hópi, enda hafa Dauðagöngurnar gereytt öllum hinum.
Þarna er komin ástæðan fyrir því af hverju Riddick var fangi í Pitch Black og af hverju hann er enn á flótta í The Chronicles of Riddick. Til að gera langa sögu stutta, þá nær Riddick valdi á geimskipi mannaveiðarana og reynir að fá út úr þeim upplýsingar um það hverjir það eru sem vilja borga fyrir að ná honum. Þegar hann kemst loks að sannleikanum, og vinur hans sem komst lífs af úr fyrri myndinni er myrtur, ákveður hann að grípa til sinna ráða og taka á þessum Dauðagöngum, þó svo það gæti kostað hann lífið.
En Dauðagöngurnar eru illar í eðli sínu og eru því sífellt að pukra og leita eftir tækifærum fyrir sjálfar sig. Dame Vako (Thandie Newton) og eiginmaður hennar Vaako (Karl Urban) leggjast í plott sem eiginkona Macbeth hefði verið stolt af. Þau sjá loks tækifæri birtast sem gæti gefið þeim færi á að ná völdum þegar Riddick birtist, tilbúinn að drepa allt og alla, hvort sem viðkomandi er dauður fyrir eða ekki.
Áætlun Riddick til hefnda, að ana beint af augum og drepa alla sem koma of nálægt honum, gengur ekki upp. Hann er handsamaður, fyrst af Dauðagöngunum, en tekst að sleppa og er þá handsamaður aftur, nú af mannaveiðurum. Hann er fluttur í neðanjarðarfangelsi á plánetu sem hitnar upp í mörghundruð gráður þegar sólin skín. Málið er að hann ætlaði alltaf að láta ná sér og ætlaði að láta flytja sig á þessa plánetu til þess að hann gæti bjargað kærustunni sinni og flúið úr fangelsinu og af plánetunni með hana sér við hlið.
Tæknibrellurnar eru fínar, en Riddick er hreint frábær. Hann er þessi hallærislega flotta hetja, yfirfullur af sjálfstrausti og vöðvastæltur, en líka eitthvað svo týndur og einmana. The Chronicles of Riddick er skemmtileg vísindaskáldsaga þó svo að hún hafi ekki komist á topp 20 listann hjá mér.Kvikmyndir | Breytt 2.11.2007 kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)