Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er Gísli Marteinn að sýna okkur starfslýsingu borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins með námsskreppi sínu til Skotlands?

 

gislibatman.jpg

 

Á meðan sumir stjórnmálamenn í Reykjavík berjast fyrir heiðri sínum og orðspori með kjafti og klóm skreppur Gísli Marteinn erlendis í nám á launum og tekur fjölskylduna með. Hann hefur reyndar hætt í einhverjum nefndum, en mun fylgjast með á Netinu og skreppa heim til að sitja fundi.

Þá veit maður um hvað starf borgarfulltrúa snúast. Sitja á fundi á tveggja vikna fresti, auk þess að vera í síma- og netsambandi. Ég gæti meira að segja unnið svona starf. Fyrst það fer enginn tími í þetta ætti maður kannski að skella sér í pólitík í aukavinnu.

Reyndar skil ég vel að Gísli Marteinn hafi viljað flýja farsann í borginni. Að sjálfsögðu væri eðlilegast að maðurinn tæki sér leyfi við eðlilegar aðstæður, en þar sem aðstæður eru ekki eðlilegar í borginni og flestir stjórnmálamenn sem þar starfa í vondum málum, var þetta kannski bara besti leikurinn í stöðunni?

Hvað finnst þér?

 

Óviðeigandi tilvitnun úr The Dark Knight: Lt. James Gordon:

Because he's the hero Gotham deserves, but not the one it needs right now...and so we'll hunt him, because he can take it. Because he's not a hero. He's a silent guardian, a watchful protector...a dark knight.


Var borgarstjórinn peð sem mátti fórna?

 

 

 

 

Skákskýring

Það er ljóst að einhverjir innan sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kunna að plotta á bak við tjöldin eða eins og við skákmennirnir orðum það: þeir kunna aðeins meira en mannganginn. Gísli Marteinn Baldursson hreinsar hendur sínar og fer úr landi í nám nokkrum dögum áður en Ólafi F. er sagt upp störfum. Sjálfsagt heldur hann einhverri virðingu eftir fyrir næstu kjörtímabil með því að þykjast ekki hafa verið með í mótinu. Í stað viðurkenningar fyrir heilindi fær Ólafur háðung fyrir "hálfindi". Hann missir sætið á sama hátt og hann vann það. Sá sem berst með sverði fellur með sverði.

Þjóðin öll virðist halda að þetta snúist allt um persónu Ólafs F. Magnússonar, enda hefur hann ekki komið vel fyrir í sjónvarpi, á erfitt með að vera gagnrýninn á eigin gerðir og telur sig hafa verið að gera góða hluti. Hann greip bara tækifærið þegar það gafst til að ná fram sínum sjónarmiðum, sem var lagalega rétt, en siðferðilega vafasamt þar sem atkvæði hans voru of fá til að réttlæta þvílík völd.

 

 

 

 

 

Byrjunin

Þetta er vissulega skrípaleikur, en hann varð ekki til af sjálfu sér. Þetta ber með sér þau merki að hafa verið vel undirbúin leikflétta af sjálfstæðismönnum, og hugsanlega einhverjum framsóknarmönnum. Rifjum aðeins upp söguna.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var einn óvinsælasti borgarstjóri Reykjavíkur frá upphafi þegar í ljós kom að hann ætlaði að selja hlut Reykjavíkur í Orkuveitunni í hendur einkaaðila, og málið komst upp á afar klaufalegan hátt. Vilhjálmur var staðinn að ósannindum og orðspor hans hlaut mikla hnekki, það mikla að fulltrúi sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Björn Ingi Hrafnsson, ákvað að hrinda atburðarrás í gang sem enn sér ekki fyrir endan á. Þetta sá enginn fyrir og margir fóru að tala um að Björn Ingi hefði stungið þá í bakið, á meðan ljóst virðist vera að hann hafi unnið af heilindum. Guðjón Ólafur Jónsson gagnrýndi síðan opinberlega Björn Inga fyrir alltof mikil fatakaup, sem varð til þess að hann þurfti að segja af sér.

 

 

 

 

Sjálfstæðismenn vissu að sá sem sviki tjarnarkvartettinn væri fyrirfram dauðadæmdur í pólitík, sem er jafneinfalt að skilja og að hrókur er dýrmætari en biskup, sama hver það er og hvað hann gerir. Hann yrði að háðung og spotti það sem eftir er. Ólafur F. Magnússon beit á agnið og fékk þess í stað borgarstjórasætið. Allir nema hann sáu óréttlætið og spillinguna, og því upplifir Ólafur F. óánægju fólks sem skipulagt einelti.

Og hann hefur rétt fyrir sér, Ólafur F. hefur verið beittur einelti á sama hátt og þúsundir Íslendinga, eineltishópurinn er hins vegar erfiðari í hans tilviki, þar sem nánast öll íslenska þjóðin virðist meðvirk í eineltinu, og gerir einfaldlega grín að honum fyrir að halda þessu fram, sem er einmitt eitt af einkennum eineltis, að ekki er tekið mark á fórnarlambinu. Það vill oft gleymast að í eineltismálum er eins og í öðrum deilum: sökin liggur ekki bara hjá þeim sem veldur eineltinu. Ef svo væri, væri miklu sjálfsagt auðveldara að koma auga á slík mál og meiri vilji til að leysa þau. Í einelti er fórnarlambið nefnilega oft líka gerandi í öðrum eineltismálum.

 

 

bullying

 

 

Miðtaflið

Ólafur byrjar sína tíð sem borgarstjóri með því að kaupa tvo ónýta kofa fyrir 500 milljónir. Nú ætti að hlakka í fólki. Hvernig gæti maðurinn nokkurn tíma náð sér á strik eftir svona hrikaleg mistök og slaka dómgreind?

En síðan leikur Ólafur F. afar góðan leik. Hann ræður Jakob Frímann Magnússon sem miðborgarstjóra og fær sérfræðinga til að hjálpa honum að bjarga ímyndinni, og það er að virka. Borgarstjórinn þykir vera að gera ágæta hluti. Þá tekur hann þá ákvörðun að víkja úr starfi manneskju sem hann gat ekki treyst. Hann rökstuddi ákvörðun sína, en ekki var hlustað á hann.

Þetta mál var magnað upp þannig að það fór að snúast um persónu Ólafs F. og endaði með því að hann rauk reiður úr sjónvarpssal eftir viðtal þar sem gert var úr því að koma honum úr jafnvægi. Þjóðin öll tók eftir þessu og almenningsálitið var greinilega gegn Ólafi F., enda gat enginn gleymt hvernig hann komst upphaflega til valda. Nú þurfti bara að magna upp þessar óánægjuraddir þar til hljómgrunnurinn yrði það mikill að hægt væri að skipta um skipstjóra í brúnni. Rétti tíminn til að gera svona lagað er þegar stórviðburðir eins og Ólympíuleikarnir eru í gangi, og sérstaklega þegar íslenska landsliðið í handbolta er að standa sig vel. Þá nennir enginn að velta sér upp úr valdabrölti pólitíkusa.

 

 

 

 

Endataflið

Nú hefur Óskar Bergsson tekið við hlutverki Ólafs F., en munurinn er sá að Óskar er í hlutverki bjargvættar sem sameinar og bjargar borginni frá tilburðum einræðisherra. 

Nú geta fulltrúar sjálfstæðisflokksins einbeitt sér aftur að því hvernig þeir ætla að selja Orkuveituna úr höndum Reykjavíkur. (og hagnast aðeins á sölunni í leiðinni?)

Ég vil taka það fram að ég er ekki flokksbundinn og lít ekkert endilega á þetta sem ofurplottaða samsæriskenningu, heldur sýnist mér þetta vera sagan á bakvið atburðina sem eru að gerast, og fólki finnst eðlilega erfitt að átta sig á þeim. Ég tel mig einfaldlega skilja hvað er í gangi, og í stað þess að nota orðin harmleik eða skrípaleik, vil ég reyna að skilja hvatirnar sem liggja að baki því sem gert hefur verið.

Ég er ekki að halda því fram að sjálfstæðisflokkurinn sé einhver snilldar skákmeistari, þeir eru bara aðeins betri en hinir sem eru greinilega ekkert annað en viðvaningar og byrjendur í pólitískri skák, og einfaldlega ekki nógu góðir til að tefla einfaldlega besta leiknum. Þess í stað þurfa þeir að sparka í andstæðinginn undir borðið, reyna að færa kalla til á borðinu á meðan andstæðingurinn er að fylgjast með Ólympíuleikunum á risaskjá og þykjast vita hvað þeir eru að gera, á meðan sannleikurinn er sá að þeir eru lítið skárri en þeir sem tapa skákinni. 

 

 

 

 

Um pólitíska skák almennt

Marínó G. Njálsson skrifaði annars ágætis grein 8.8.8 um hvernig pólitíkusar um allan heim misnota sér stórviðburði eins og Ólympíuleikana til að komast upp með vafasama hluti: Er verið að notfæra sér að heimsbyggðin er að horfa á Ólympíuleikana?

 

 

Myndir:

Ólafur F: Silfur Egils

Niccolo Machiavelli:Religion and Secrecy in the Bush Administration

Björn Ingi Hrafnsson: bb.is

Einelti: Bullying Advice

Handbolti: sport.is

Skák: John C Fremont Library District Weblog


mbl.is Orkuveitan áfram í útrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VANDAMÁLIÐ VIÐ VERÐTRYGGINGU: Af hverju einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki tapa á meðan bankarnir græða

Þegar tekin voru 80-100% húsnæðislán árin 2004 og 2005 fengu viðskiptavinir pappíra í hendurnar með útreikningum á hvernig mánaðarlegar greiðslur færu fram. Lánið var á kjörunum 4.3% sem þótti nokkuð gott, en verðtryggt. Útskýringar fylgja um að lánið væri verðbólgutengt, og að verðbólguviðmið Seðlabanka Íslands væri um 2.5%. Þú gast fengið tvenns konar útreikninga í hendurnar. Annars vegar ef verðbólga yrði 1% og hins vegar ef hún yrði í versta falli 3.5%.

Þremur árum síðar er veruleikinn allt annar en viðskiptavinum var boðið af bankanum. Þeir eru að borga þessi 4.3% eins og áður, en í stað þess að borga 2.5% eins og gert var ráð fyrir vegna verðtryggingar eru þeir að borga 15.5%. Samanlagt er lánið því á ársgrundvelli með vextina 19.8%, í stað 6.8%. Þessir vextir bætast síðan við höfuðstólinn á 12 mánaða fresti lögum samkvæmt, þannig að höfuðstóllinn eftir árið í ár á eftir að verða óviðráðanlegur. Í dag eru ný og endurnýjuð húsnæðislán á 6.5% vöxtum sem þýðir að nýir viðskiptavinir þyrftu að borga 22% í vexti árlega af nýjum lánum. Engin furða að staðan sé hæg á húsnæðismarkaði í dag.

Þetta er einföld stærðfræði.

Viðskiptavinir hafa verið sviknir af þremur aðilum í þessu máli.

Fyrst af eigin viðskiptabanka fyrir að kynna tölur sem sérfræðingar þeirra höfðu bent á, og voru kolrangar.

Einnig af Seðlabanka Íslands fyrir að hækka stýrivexti upp í 15.5%, sem þýðir að þeir sem skulda þurfa að blæða meira en nokkurn tíma áður, á meðan þeir sem lánuðu maka krókinn sem aldrei fyrr. Niðurstöðurnar af þessu óréttlæti má finna í launum stjórnenda hjá bönkunum, þeir eru að hagnast gífurlega á breyttum stýrivöxtum, á meðan einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki eru að fara á hausinn.

Það finnst mér óréttlátt.

Í þriðja lagi finnst mér ég svikinn af ríkisstjórn Íslands, sem hefur nákvæmlega ekkert gert til að vernda fólkið í landinu gegn þeim ofurkláru fjármálaspekúlöntum sem stjórna hagkerfinu sjálfu úr tryggum stöðum innan bankanna. Þegar í ljós kom að árás var gerð á íslenska hagkerfið sagði Árni Mathiesen í Silfri Egils að ríkið myndi standa með bönkunum. Þegar hann var spurður um fólkið í landinu, endurtók hann að bankarnir yrðu studdir. En hvað ef það voru bankarnir sem réðust á íslenska hagkerfið? Á þá samt að styðja þá frekar en fólkið í landinu?

Það finnst mér rangt.

Í apríl síðastliðnum tilkynnti forstjóri Seðlabanka Íslands að árás hefði verið gerð á íslenska fjármálakerfið, sem þýddi að hækka þurfti stýrivexti - sem hefur mest áhrif á blæðingu lána í dag - en það sem gerðist í raun og veru var að bankarnir keyptu inn gífurlegt magn af erlendum gjaldeyri og hættu að lána hann, þeir segja til að fyrirbyggja sína stöðu vegna erfiðleika sem þeir sáu fyrir í náinni framtíð, en sannleikurinn er sá að bankar í dag eru fyrirtæki sem þurfa að sýna eigendum sínum hagnað, og farið var í aðgerðir til að tryggja hagnað við ársfjórðungsuppgjör. Áhrifin: þessi aðgerð bjó til erfiðleika sem þýddi að allt nema laun hefur hækkað um 30%, auk þess að afborgun af öllum lánum, bæði bíla og húsnæðislánum sem tekin hafa verið með verðtryggingu, hafa aukist mikið.

now_you_can_have_any_type_of_loan

Þetta hefur verið aðal orsakavaldurinn í þeirri gjaldþrotahrinu sem er að skella á, auk þeirrar hagræðingar innan fyrirtækja sem veldur því að fyrirtæki hafa neyðst til að segja upp starfsfólki. Ekki skánar þetta þegar haft er í huga að það er einnig erfið staða víða um hinn vestræna heim vegna hækkandi olíuverðs, sem er hugsanlega hægt að rekja til meiri neyslu í Indlandi og Kína, eða spákaupmennsku hjá OPEC. Einnig hefur fall banka í Bandaríkjunum vegna gjaldfallinna húsnæðislána verið stór orsakavaldur.

Gífurleg lántaka bankanna í erlendri mynt olli gengisfellingu, en hún hafði þau áhrif að allar innkeyptar vörur hækkuðu, og Seðlabankinn sá sig tilneyddan til að hækka stýrivexti, til þess að bankarnir réðu við að greiða erlendar skuldir sínar - en þeir fengu að sjálfsögðu nauðsynlega aukningu tekna með hækkun stýrivaxta. Bankarnir hafa hætt útlánum um sinn, sem þýðir að fyrirtæki eiga ekki jafn auðvelt með að nálgast lausafé og áður, sem þýðir að spilaborgin fellur verði engu breytt.

Er efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að rannsaka þetta mál?

Getur það verið satt, að bankarnir hafi tekið þessi gífurlega háu erlendu lán, og haldið þessum peningunum fyrir sig, og í stað þess að neyðast til að borga sjálfir af sínum eignum, hafi þeir leitað í vasa allra þeirra sem eiga þegar lán hjá þeim, með því að leika sér að íslenska hagkerfinu?

Hvernig stendur á því að bankarnir græða á meðan allir hinir tapa?

Ég er ekki nógu lögfróður til að vita hvort að okurlán upp á minnst 19.8% séu ólögleg eða ekki á Íslandi, en mér finnst að svo ætti að vera.

Málið er að hugsanlega er verið að okra á skuldurum innan ramma lagana, en alls ekki í anda þeirra. Þeir einu sem geta gert eitthvað í þessu máli, er ríkisstjórnin, en þeim er mikill vandi á höndum og í raun óleysanlegur. Því hugsum okkar að ríkisstjórnin gerði það sem er rétt: hún fellir allar verðtryggingar úr gildi. Umsvifalaust færu allir viðskiptabankarnir á hausinn og hagkerfið yrði með því lagt í rúst, og þar sem Ríkið hefur verið að taka erlend lán og lánað bönkunum, er hætta á að það sama kæmi fyrir íslensku þjóðina. Sá sem vogaði sér að snerta við þessum verðtryggingum yrði sjálfsagt samstundis stimplaður sem geðveikur kommúnisti. En hvað getur ríkisstjórnin gert í dag?

Að mínu mati er aðeins eitt sem ríkið getur gert. Ef hún ætlar að halda höfði og gefa Íslendingum von, verður hún að tilkynna að hún standi fyrst og fremst með fólkinu í landinu, en ekki fyrst og fremst með bönkunum. Við verðum að vinna saman. Ríkið verður að kalla á þjóðarsátt, það verður að finna leiðir til að gera Íslendingum mögulegt að búa áfram á Íslandi.

 

Eldri bloggfærslur mínar tengdar þessum málum:

  1. Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? 25.3.2008 | 22:14
  2. Íslenskt réttlæti: Erum við að borga alltof mikið í skatta og af lánum vegna bankarána og skattsvika sem við botnum ekkert í? 12.4.2008 | 09:46
  3. Á íslenska þjóðin að redda bönkunum? 9.5.2008 | 22:46
  4. Til hvers þarf ríkið heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán? 30.5.2008 | 07:47
  5. Getur verið að vörubílstjórar noti trukka en ríkið löggur á meðan hinn sanni sökudólgur glottir í kampinn? 24.4.2008 | 19:03
  6. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu? 30.3.2008 | 19:36
  7. Dystópía eða veruleiki: Hvað ef Ísland verður gjaldþrota? 2.4.2008 | 08:48
  8. Hvar eru Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á meðan neyðarástand ríkir á fjármálamarkaði? 1.8.2008 | 06:25
  9. Af hverju hlusta ráðamenn lýðræðisþjóðar ekki á lýðinn? 4.4.2008 | 08:57
  10. Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn vinsælasti og besti stjórnmálaflokkur Íslands í dag? 8.5.2008 | 22:14
  11. Af hverju eru Íslendingar svona fljótir að gleyma? 31.1.2008 | 19:17
  12. Bóndinn sem seldi nautgripina - dæmisaga um framtíðarblindu 9.10.2007 | 22:42
  13. Hvernig verður Ísland eftir 100 ár? 23.6.2008 | 13:30
  14. Af hverju er mikilvægt að sýna frumkvæði? 3.4.2008 | 22:48
  15. Gætir þú hugsað þér að búa í gámi? 26.3.2008 | 19:48
  16. Tollurinn: með okkur eða á móti? 8.2.2008 | 18:06
  17. Hvernig stendur á því að þegar heimsmarkaðsverð á olíu lækkar, krónan styrkist og hlutabréf erlendis hækka, berast engar fréttar af lækkandi bensínverði á Íslandi? 29.7.2008 | 22:39
  18. Af hverju er eldsneyti allt í einu orðið svona dýrt? 26.6.2008 | 00:15
  19. Hvað er ábyrgð? (30 tilvitnanir) 23.3.2008 | 13:24

 

 

 

Myndir:

Loanshark: Foreclosure Educationa and Strategy

Get a Loan Through Us: IBER-Mortgages

Lánsgleði: BuckMoon.com

Vog: Brooklyn College Pre-Law



Þögnin og svefninn (smásaga um ofbeldi og ást)

1.

Ég bauð mig fram í pólitískt embætti og tapaði. Mig grunar að þeir hafi svindlað. Ég mótmælti. Barátta mín fyrir betri menntun og hjúkrun var á enda. Sjálfur hafði ég unnið við þróunarstarf og kynntist þar ljúfasta fólki í heimi, frá smáeyju við Norðurpólinn, Íslandi. Íslendingar völdu að hjálpa okkur frekar en að standa aðgerðarlaus eins og hinar þjóðirnar. Ég kann þeim miklar þakkir fyrir.

Ég mótmælti kosningasvindlinu opinberlega, og fyrir vikið var ég hnepptur í varðhald hjá ríkislögreglunni og pyntaður í heila viku. Mig langar ekki til að lýsa þessum kvalarfullu dögum og nóttum, en þegar ég gaf loks eftir og sagðist ætla að þegja var mér sleppt. Málið er að þeir sem hafa völdin í dag, eru þeir sem vilja bara völd, ekki betra líf fyrir þjóðina. Þeim stendur á sama svo framarlega sem þeirra eigin hagsmunum er borgið. Þetta eru villidýr sem nærast á okkur jurtaætunum, því þeir vita að við munum aldrei grípa til vopna gegn þeim. Þetta er sjúkt. Þeir vilja bara völd og peningana sem koma frá skattinum.

Soffía beið eftir mér heima. Á meðan ég sat á þessum trékolli í 7 daga og 7 nætur hafði hún farið í apótek og keypt óléttupróf. Það skilaði bleiku. 

 

2.

Nótt eina vakti Soffía mig og spurði hvort ég hefði heyrt eitthvað. Svo var ekki, en ég læddist niður til að sjá hvað væri í gangi. Útidyrahurðin stóð opin. Áður en ég lokaði horfði ég út í myrkrið. Ég sá ekki neinn, en fannst eins og einhver væri að fylgjast með mér. Hárin risu á hnakkanum.

Ég fór aftur inn og greip símann. En hikaði. Ég gat ekki hugsað mér að hringja í lögregluna. Þess í stað hringdi ég í Samúel, hann hafði verið félagi minn frá barnaskóla. Eiginkona hans Júní svaraði. Hún sagði lögregluna hafa tekið hann fyrir tveimur vikum. Hún hafði á tilfinningunni að hann væri farinn, fyrir fullt og allt. Hún sagði mér frá fleirum sem höfðu horfið sporlaust.

Þegar hún lagði á stóð ég stjarfur um stund, en heyrði þá andað í símtólið. Ég passaði að draga ekki andann, en hlustaði því betur. Jú, þetta var greinilegur andardráttur.

"Hver er þetta?" spurði ég.

"Klikk" var eina svarið. Einhver hafði lagt á.

Ég hringdi í gamlan samstarfsfélaga minn, Stefán. Hann er frá Íslandi, landi hinna frjálsu og góðu, landi þar sem fólk getur gengið úti bæði að nóttu sem og degi án ótta við að fá kúlu í bakið, landi þar sem lýðræði og kærleikur ríkir, mannúð og gæska. Þar eru næstum allir kristnir og lifa eftir fordæmi Krists í einu og öllu. Íslendingar fara samt ekki mikið í kirkju. Þeir líkna sjúka, þeir fræða fáfróða, þeir umbera hina óumburðarlyndu. 

Þegar ég útskýrði ástandið fyrir Stefáni var hann fljótur að redda mér flugi næsta dag. Sólarhringi síðar vorum við lent í Mílanó, og ekki nema 36 stundum eftir að hafa fengið þennan óvænta gest heim vorum við lent á litlum og vinalegum flugvelli í Keflavík, smábæ sem er í klukkustundar fjarlægð frá Reykjavík, höfuðborg Íslands. 

 

3.

Við Soffía höfðum aldrei séð svona mikið hvítt, en maðurinn sem tók á móti okkur, Kjartan frá Þróunarsamvinnustofnun, stoppaði í vegakantinum og leyfði okkur að ganga um í snjónum og snerta hann. Þetta fyrirbæri er að sjálfsögðu ískalt og blautt, en það er svo mikið af því að það virðist þekja allt landið. Ímyndið ykkur bara ef blá rykkorn féllu yfir allt landið okkar og á einni nótt yrði allt blátt, og gula slikjan hyrfi.

Stefán tók á móti okkur, fann fyrir okkur íbúð og lét mig fá pening fyrir mat. Hann ráðlagði okkur að sækja um hæli sem pólitískir flóttamenn. Hann setti okkur í samband við lögmann. Hún heitir Ragnheiður. Okkur yrði örugglega tekið vel. 

Það er sárt að skilja eftir húsið og allar okkar eigur heima. Nú höfum við flutt í litla íbúð sem er álíka stór og sjónvarpsherbergið okkar var. En það er samt betra að vera öruggur með lífið, heldur en fangi óttans.

 

4.

Ég fékk vinnu við að aðstoða fatlaða einstaklinga við vinnu. Ísland er stórkostlegt land. Konur hafa mikil völd og fatlaðir fá störf við hæfi. Soffía hefur hins vegar ekki fundið neitt starf, og leigan er heldur dýr. Við eigum rétt fyrir mat eftir leigu og skatta. Það er útilokað að kaupa íbúð hérna, því lítil kytra á Íslandi kostar á við 10 einbýlishús með sundlaug heima. Reikningar mínir voru frystir, þannig að ekki get ég notað það sem ég hef aflað mér um ævina.

Ragnheiður lögfræðingur sagði mér að hún hafi sótt um hæli fyrir okkur sem pólitískir flóttamenn. Hún var bjartsýn á góðar niðurstöður í fyrstu, en nú hafa liðið 3 mánuðir og hún hefur ekki fengið nein svör. Hún hefur farið niður í ráðuneyti, sent þeim tölvupósta og bréf, en við fáum engin svör. Skriffinnskan er bara svona. Ég kannast við þetta að heiman, suma daga getur maður þurft að bíða heilan dag bara til að ganga frá einhverjum pappírum. Svona er þetta bara.

 

5.

Í gær var hamingju varpað inn í líf okkar. Dóttir mín er fædd. Hún er með augu móður sinnar og krullaða lokka pabba síns. Hún er þó óhult, þar sem að samkvæmt alþjóðlegum lögum fær barn ríkisborgararétt í því landi sem það fæðist. Mér léttir mikið.

 

6.

Í fyrradag var bjöllunni hringt heima snemma um morguninn. Ég fór til dyra. Þar stóð kona í lögreglubúningi sem rétti mér bréf og spurði hvort að ég væri ég. Ég sagði svo vera, og þá var hurðinni sparkað upp og mér ýtt upp að veggnum. Dóttir mín byrjaði að gráta og Soffía kom fram með tárin í augunum og spurði hvað væri að gerast. Ég hef aldrei séð hana hrista höfuðið jafn lengi í vantrú og nákvæmlega á þessari stundu, þetta var verra en þegar lögreglan tók mig og pyntaði mig. Þeir höfðu þó ekki handjárnað mig og höfðu gefið mér tíma til að kveðja.

Mér var ýtt út í lögreglubíl og ég heyrði Soffíu hrópa á eftir mér. Hvað átti hún að gera? Við höfðum ekki farið í Bónus. Hún var ekki með pening og lítill matur til heima. Ég reyndi að biðja lögreglumann númer 142 um að fara með pening til hennar. Hann hlustaði ekki á mig, lokaði bara hurðinni eins og ég væri ekki þarna.

Þessi nótt í fangaklefanum var erfiðari en allt sem erfitt er. Ég fékk ekki að hringja og fékk engar skýringar á því af hverju mér var haldið þarna, aðrar en að ég hafði gert eitthvað ólöglegt. Ég vissi bara ekki hvað það gat verið.

Síðan skildi ég þegar leiðin lá til Keflavíkur að verið var að færa mig á flugvöllinn. Það átti að senda mig úr landi. Heim!

Ég bið til Guðs að Soffía og Lovísa verði öruggar á Íslandi, að einhver komi þeim til hjálpar, að einhver hjálpi þeim að borga leiguna, mat og fæði. Ég bið til Guðs að þeir loki mig frekar í fangelsi en senda mig aftur heim, því ég veit að þar verð ég pyntaður aftur og stungið í dýflissu og látinn rotna þar, nema ég verði það heppinn að þeir spanderi byssukúlu handa mér.

Ég bið um það eitt að þögnin verði rofin og að fólkið í heiminum vakni.


Til hvers þarf ríkið heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán?

113_1

Svarið virðist einfalt: ef bankarnir lenda í vandræðum, verður þetta lán tekið til að "hjálpa" þeim. Nú er spurningin sú: hversu alvarleg þarf staða bankana að vera til að þetta lán verði tekið. Ég er hræddur um að viðmiðin séu huglæg og pólitísk og þar af leiðandi vonlaust að rökstyðja eða þræta gegn þessu.

Íslensku einkabankarnir eru þar af leiðandi tryggðir af íslensku þjóðinni, en hugmyndin með sölu bankanna var einmitt að losna undan nákvæmlega þessari skuldbindingu. 

Þetta þýðir að alþingi metur fjármálamarkaðinn sem grundvöll íslenska hagkerfisins. En lítið hagkerfi eins og okkar er engan veginn öruggt gagnvart spákaupmennsku. Það verða einhverjir fljótir að finna leiðir til að eigna sér eitthvað af þessum 500 milljörðum, rétt eins og einhverjir urðu fljótir að finna sér leiðir til að hagnast á hækkuðu húsnæðisverði vegna 100% lána bankanna um árið.

Þegar svona heimild er til staðar þá er afar líklegt að hún verði notuð, reyndar held ég að líkurnar séu 99.99%. Það mun enginn mannlegur máttur geta komið í veg fyrir að þetta lán verði fengið, því að þá þarf að berjast gegn því náttúruvaldi sem virðist ráða mestu á Íslandi síðustu misserin: græðgi.

Dinosaurs17

Hvort sem að það verður nauðsynlegt eða ekki, og miðað við það sem á undan er gengið, er ég viss um að aðstæður verði skapaðar til að þetta lán verði tekið, því að þetta er tækifæri fyrir suma til að græða miklu meira og lagfæra hagnaðarskortinn sem orðið hefur á fyrsta ársfjórðungi 2008. 

Þetta lán getur orðið þjóðinni dýrt, sérstaklega ef bönkunum er ekki treystandi, en bönkunum virðist stýrt af græðgi og græðgi er ekki treystandi til neins annars en að eigna sér sem mest, og því held ég að þjóðin sjálf þurfi að blæða.

Ég vildi frekar sjá alþingi gera róttæka hluti til að hjálpa venjulegu fólki sem lifir ekki í neinum lúxus við að minnka skuldir sínar, því að aðstæður eru þannig að sama hvað borgað er af skuldum til íslensku bankanna, hækkar höfuðstóllinn stöðugt vegna verðtryggingar.

Með þessu er í raun verið að gera áætlun um enn frekari skuldsetningu á íslensk heimili lægri stétta og millistétta, nema vel sé haldið utan um málið. Eftir síðustu mánuði hef ég einfaldlega ekki trú á að vel verði haldið á spöðunum. 

Vonandi hef ég rangt fyrir mér. 

3classes


mbl.is Þingi frestað fram í september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn vinsælasti og besti stjórnmálaflokkur Íslands í dag?

icarta-ipod-toilet-dock-123

Borgarmálin eru farsi út af fyrir sig sem enginn hugsandi maður getur tekið alvarlega. Það er ljóst að ráðningin á Jakobi Frímanni er engan veginn jafn alvarlegt vandamál og rándýr kaup á ónýtum kofum, eða uppboð á borgarstjórastól, enda Jakob mikill hæfileikamaður og skemmtikraftur sem ætti að geta rifið upp borgarmálin ef einhver gæti það. Verst að málið skuli lykta af spillingu og leiðindum, sérstaklega fyrir svona skemmtilegt fólk. Ég er feginn að búa í Kópavogi.

Monopoly-Man

Hægriflokkar hafa verið við völd á Íslandi nánast látlaust frá sjálfstæði þjóðarinnar. Með hægriflokki á ég við flokka sem leggja áherslu á auðsöfnun fyrst og fremst - þessir flokkar eru oft kenndir við kapítalisma (auðhyggju) og hafa þann ókost að vera framsæknir og safna upp miklum skuldum, en meiri auður verður til skiptanna; en vinstriflokkar leggja meiri áherslu á að dreifa auðsöfnun þjóðarinnar jafnt og af sanngirni - þessir flokkar eru oft kenndir við kommúnisma (samfélagshyggju) og hafa þann ókost að stöðva auðsöfnun ríkja og halda að sér höndum - sem aftur veldur því að minni auður verður til skiptanna.

Þjóðinni hefur vegnað vel fjárhagslega, tekist að verja sjálfstæðið og gerast jafnvel alþjóðlegur frumkvöðull. Hins vegar gleymir enginn að einhvern tíma í fyrnskunni fengu vinstrimönn völdin í landinu. Afleiðingin, samkvæmt því sem þeir hafa sagt mér sem upplifðu ástandið, var stanslaus spilling - vinagreiðar og vitleysa - ranglæti og leiðindi - og fjármál ríkisins og heimila landsins fór á öfugan enda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar verið þekktari fyrir stöðugleika og öryggi, fyrir að skipta sér ekki of mikið af fjármálalífinu frekar en náttúruöflunum, að leyfa hlutunum að gerast eins og þeir þurfa að gerast, þróast eðlilega.

Sumir einstaklingar í Sjálfstæðisflokknum líta illa út eins og staðan er í dag, en flokkurinn virðist samt traustari en nokkur bankastofnun (eins og bankar voru þekktir fyrir traust fyrir nokkrum árum). Sjálfstæðismenn eru sem þjóðhetjur við hlið Samfylkingarmanna, en hinir síðarnefndu virðast  uppteknir, með undantekningum þó, við að gera allt aðra hluti en þeir voru ráðnir til að framkvæma.

Sjálfstæðismenn lofuðu að standa við bakið á fyrirtækjum og auðmönnum. Þeir gera það og gera það vel. Samfylkingin lofaði að standa við bakið á fjölskyldum þjóðarinnar. Hjálpa þeim við að lækka ósanngjarnar álögur sem koma verst við þá sem eiga minnst. Samfylkingin er engan vegin að standa við gefin loforð. Ég er hræddur um að Samfylkingin verði að engu í næstu kosningum haldi þetta svona áfram, en hef engar áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn haldi velli.

FamilyStudies

 

 

Öfgar auðhyggju? 


 

Öfgar samfélagshyggju?


Hver verður næsti forseti Skáksambands Íslands?

Æsilegur slagur er í uppsiglingu. Kosningar á morgun. Tveir öflugir frambjóðendur stíga í pontu og bjóða sig fram ásamt hópi valinna félaga til forseta Skáksambands Íslands. Ég styð þá báða heilshugar og vona að annar þeirra verði forseti og hinn varaforseti, sama hvernig kosningarnar fara. Ég blæs á það slúður sem segir að einhverjar annarlegar hvatir aðrar en brennandi áhugi á velferð skákarinnar sé þeim báðum efstur í huga.

Ég hef þekkt Björn Þorfinnsson frá því að hann var smágutti og veit að þar fer heill einstaklingur. Einnig þekki ég Óttar Felix ágætlega, en við sátum saman í stjórn Taflfélags Reykjavíkur þegar ég var enn unglingur. Óttar Felix er mikið ljúfmenni og eins góður vinur minn sem kallar sig Sancho í Bloggheimum hefur sagt um hann Óttar, þá fer þar toppmaður.

Framboðsræður þeirra fóru fram á Skákhorninu, þar sem helstu samræður íslenskra skákmanna fara fram. Þetta skákhorn hefur tekið þeim sérstöku framförum nýlega að dónum og ruddum var vikið frá í 20-60 daga, til að viðhalda almennri háttsemi. Í fyrstu var ég í vafa um réttmæti þess, en eftir að hafa séð gáfulegri samræður á Skákhorninu nú en nokkurn tíma áður, er ég sannfærður um að rétt leið var farin.

4104

Guðfríður Lilja vann gott og óeigingjarnt starf sem forseti Skáksambands Íslands. Ég þakka henni fyrir mína hönd, og sérstaklega stuðninginn sem hún og hennar sýndu okkur úr Salaskóla fyrir ferðina á heimsmeistaramótið, meðal annars með tíðum heimsóknum í skólann þegar við óskuðum eftir því, og eftir þá ferð, þegar við höfðum hampað titlinum. Ég hef ekki sömu pólitísku skoðanir og Lilja, en kann vel að meta hana bæði sem persóna og framkvæmdagleði. Kærar þakkir Lilja! 

Stefnuræður þeirra félaga eru báðar svolítið langar, en ég ætla að birta þær hér í heilu lagi.

 

Stefnumál, eftir Björn Þorfinnsson 

 hunninn

Eins og fram hefur komið á skak.is og fjörugum umræðum hér á skákhorninu þá hef ég ákveðið að bjóða mig fram til embættis forseta Skáksambands Íslands. Í þessu skeyti vil ég koma því á framfæri hverjar ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun minni eru.

1. Persónulegar aðstæður
Eins og margoft hefur komið fram þá tekur Skákakademía Reykjavíkur brátt til starfa og hef ég verið beðinn um að vera í forsvari fyrir það frábæra framtak. Markmið Skákakademíunnar verður að halda utan um og efla skákkennslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar sem og að skipuleggja athyglisverða alþjóðlega viðburði í borginni. Þetta þýðir það að ég verð í fullu starfi við að þjóna duttlungum Caissu og okkar á milli þá held ég að menn verði ekki heppnari með starfsvettvang. Óneitanlega verða gríðarlega samlegðaráhrif af því að sinna þessu starfi sem og að sinna forsetaembætti SÍ og ég held að sjaldan myndi forseti hafa verið í jafn góðri aðstöðu til að sinna skyldum embættisins. Forsetar Skáksambandsins hafa ætíð verið í krefjandi starfi meðfram embættinu og þótt að það sama muni gilda um mig þá er ég svo heppinn að bæði störfin hafa sameiginlegt markmið, eflingu skáklistarinnar. Ég hef einna helst velt því fyrir mér hvort um hagsmunaárekstur væri að ræða og ég væri að tylla mér "beggja vegna borðsins". Ég hef þó komist að þeirri niðurstöðu að slíkt sé af og frá. Skákakademía Reykjavíkur mun, eins og áður segir, snúast um aukna skákkennslu innan grunnskólanna í Reykjavík og hið metnaðarfulla markmið að gera Reykjavík að skákhöfuðborg heimsins. (Síðar skal ég útskýra þetta markmið nánar enda hvá menn yfirleitt við!). Akademían og SÍ munu því fyrst og fremst hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta en vinna að því markmiði úr afar ólíkum áttum. Það að vera forseti Skáksambandsins mun einnig gera mér kleift að beina sjónum mínum í vaxandi mæli að eflingu skáklistarinnar á landsbyggðinni. Það er málefni sem ég hef mikinn áhuga á en hef því miður ekki getað sinnt að ráði. Ég reikna með að sinna þessu starfi í 2-3 ár og á þessum 2-3 árum get ég liðsinnt skákhreyfingunni sem best. Áhugi minn á að sitja í stóli forseta er takmarkaður ef ég verð í hefðbundinni 9-5 vinnu því þá mun ég ekki geta sinnt embættinu eins vel og mig langar til.

2. Framtíðarsýn og stefnumál
Allir sem starfa að félagsmálum í skákhreyfingunni leiðast út í þau af mismunandi ástæðum. Áhugi minn á skákmótahaldi, jafnt innlendu sem alþjóðlegu, og stuðningur við þá íslensku skákmenn sem hyggjast ná alþjóðlegum metorðum eru þau málefni sem ég hef helst starfað að.  Ég neita því ekki að þessi áhugamál eru frekar sjálfhverf! Hér fyrir neðan ætla ég að nefna þau mál sem ég hyggst berjast fyrir innan stjórnar Skáksambands Íslands, hljóti ég brautargengi í kosningunum: 

a) Alþjóðlegt skákmótahald
Eitt stærsta verkefni á næsta ári, sem og næstu ár á eftir, verður skipulagning árlegs alþjóðlegs Reykjavíkurskákmóts. Árlegt mót af slíkum styrkleika er mikil lyftistöng fyrir íslenskt skáklíf enda hlýtur enginn innlendur viðburður jafnmikla athygli og þessi. Þetta er atburður sem á að vera haldinn af slíkri reisn að ungir skákmenn hugsi: "Á þessu móti vil ég tefla". Það tel ég hafa tekist síðustu ár. Vinnan á bak við þetta mót er hinsvegar gífurleg og það er afar mikilvægt að vinnan verði samræmd og kerfisbundin svo að þekkingin verði
til staðar þegar aðrir taka við keflinu. Það hefur ekki verið raunin þegar að mótið hefur verið haldið á tveggja ára fresti og það þýðir að sífellt er verið að finna upp hjólið.
Uppbygging tengsla við alþjóðlega skáksamfélagið (tölvupóstlistar o.s.frv.) og helstu skákfjölmiðla er mikilvægur þáttur í undirbúningnum sem og ráðleggingar vegna fjáröflunar mótsins sem að núverandi forseti hefur sinnt með ótrúlegum árangri og ekki síst áður óþekktum vinnubrögðum innan okkar hreyfingar. 

Að auki tel ég að skoða eigi þá möguleika að halda alþjóðlegar skákhátíðir á landsbyggðinni og þá helst í samvinnu við Skákskóla Íslands. Keppendur í slíku móti geta komið að kennslu, ásamt fulltrúum Skákskóla Íslands og sinnt hinum ýmsu kynningarstörfum (fjöltefli, fyrirlestrar o.s.frv.). Slíkar hátíðir geta staðið í viku og sé vel að þeim staðið er ég viss um að slíkt yrði mikil innspýting í skáklíf viðkomandi bæjarfélaga. Sé áhugi heimamanna til staðar þá getur Skáksambandið séð um skipulagningu slíkra viðburða, gert fjárhagsáætlun, útvegað reynda menn til að sinna skákstjórn og netútsendingum og hjálpað til eins og mögulegt er. Að minnsta kosti mun ég leggja ríka áherslu á það að metnaðarfull skákfélög eða skákáhugamenn á landinu öllu geti óhikað ráðfært sig við Skáksambandið varðandi útfærslu hinna ýmsu hugmynda. Skáksambandið á að vera þekkingarbrunnur fyrir slíkt starf sem að auðvelt á að vera fyrir öll taflfélög að leita í.

b) Barna- og unglingastarf
Það eru blikur á lofti varðandi barna- og unglingastarf í Reykjavík þegar skákkennsla í skólum verður gerð markvissari með tilkomu Skákakademíu Reykjavíkur. Órjúfanlegur hluti af því starfi verður að beina þeim allra áhugasömustu inná æfingar taflfélaganna í Reykjavík (nú eða í nágrannabæjarfélögum) sem og á námskeið Skákskóla Íslands. Ég tel það hlutverk Skáksambandsins að sjá til þess að unglingamótin á vegum sambandsins verði haldin af áframhaldandi glæsibrag, víðsvegar á landinu, og að kröftum sambandsins verði í auknum mæli beint að því að aðstoða taflfélögin á landsbyggðinni við að halda úti öflugu barna- og unglingastarfi. Ég held að einn mikilvægasti þátturinn sé að kenna krökkum á notkun skákgagnagrunna og skákforrita – þannig getur hver sem er bætt sig verulega að sjálfsdáðum. Öfluga andstæðinga er svo hægt að nálgast á hinum ýmsu skákklúbbum á netinu. Í dag er það líka orðin viðtekin venja erlendis að kennarar sinni þjálfun í gegnum netið. T.d. sér sænskur vinur minn, IM Emil Hermansson, um þjálfun Nils Grandelius, sem er sænskur strákur sem er á fleygiferð upp fyrir 2400 FIDE-stig og náði IM-áfanga á nýafstöðnu Reykjavik Open. Þrátt fyrir að fjarlægðin á milli heimila þeirra í Svíþjóð sé innan við 1 klukkustund þá fer þjálfunin að mestu leyti fram á ICC og með netsímanum Skype. Ég myndi vilja sjá SÍ halda námskeið í að kenna þessa tækni og beita sér fyrir því að hún fái aukið vægi innan Skákskóla Íslands ef mögulegt er. Aðgengið að hæfum þjálfurum myndi líka stóraukast því ógrynni erlendra titilhafa sinna slíkri kennslu t.d. á ICC gegn vægu gjaldi.

c) Þjálfun og uppbygging afreksmanna
Þetta er það atriði sem að verið hefur í sem mestum lamasessi í íslensku skáklífi. Íslenskir skákmenn í fremstu röð kunna einfaldlega ekki vinnubrögðin sem að aðrir kollegar þeirra hafa jafnvel alist upp við.  Þessari þróun verður að snúa við og að mínu mati hafa þegar verið stigin skref í þessa átt, t.d. með nýlegum heimsóknum GM Kveinys og GM Lazarev (sem þó komu ekki á vegum SÍ til landsins) en betur má ef duga skal. Allar lausnir á þessu vandamáli munu hinsvegar kosta peninga og það er algjör forsenda fyrir framförum að þeirra verði aflað.  Þær hugmyndir og vonir sem ég el í brjósti eru í stuttu máli þessar:
- Athugað verði með áhuga FIDE á að halda hér þjálfunarnámskeið sem lýkur með útnefningu þátttakenda sem FIDE Trainer. 
- Erlendur þjálfari sem kæmi að undirbúningi íslensku ÓL-liðanna fyrir mót og myndi jafnframt fylgja liðunum á mótið.
- Erlendur þjálfari sem myndi dveljast hérlendis í nokkra mánuði í senn og starfa að kennslu efnilegustu unglinga og sterkustu skákmeistara landsins í fullu samstarfi við Skákskóla Íslands. 

d) Kvennaskák
Kvennaborðstillagan svokallaða verður lögð fyrir komandi aðalfund eins og skáksamfélagið hefur ekki farið varhluta af. Ég tel rétt að útskýra mína afstöðu og ég held að ég geri það best með þessari setningu: "Ég styð stríðið en ekki þessa tilteknu orrustu." Þökk sé frábæru starfi er skákhreyfingin svo farsæl að loksins er komin upp kjarni af stúlkum sem að tefla af miklum krafti og t.d. má benda á nýlega ferð ungra valkyrja á Ladies Open-mótið í Stokkhólmi og þegar þessi orð eru skrifuð eru hvorki fleiri né færri en 9 stúlkur að ljúka þátttöku á NM stúlkna í Noregi. Það er gríðarlega mikilvægt að þessar stúlkur hljóti allan þann stuðning sem að við getum mögulega veitt þeim og þær virkilega finni hversu mikilvægar þær eru hreyfingunni. Þessi mót sem stúlkurnar hafa sótt nýverið efla án efa áhuga þeirra og ekki síður eflir þetta án nokkurs vafa vináttuna og samkenndina innan hópsins. Þannig eru þær líklegri til að halda áfram taflmennsku og sé stór virkur hópur skákkvenna til staðar mun það hafa keðjuverkandi áhrif á fjölda kvenkynsiðkenda. Ég hef margoft haft orð á því að það sem hélt mér mest í skákinni á unglingsárunum var félagsskapurinn og umgjörðin sem Taflfélag Reykjavíkur og Ólafur H. Ólafsson sköpuðu í kringum skákina og það er þessi félagsþáttur sem að íslensk skákhreyfing má bæta og á það við um bæði kynin. Kvennaborðstillöguna á þó íslensk skákhreyfing að hafa í huga og ég tel það skynsamlegt að starfa að tillögunni sem markmiði innan einhvers tiltekins tíma en hana á ekki að festa í bindandi lög.  Mikilvægast er þó að íslensk skákhreyfing hlusti á hvað stúlkurnar sjálfar vilja og frekara starf verði unnið í samráði við þær.

e) Hinn almenni skákáhugamaður
Að mínu mati vantar hinn almenna skákáhugamann á innlendu skákmótin og hef ég gríðarlegar áhyggjur af því að þeim fari fækkandi. Við þurfum að hjálpast að til að komast að því hvernig sé hægt að gera þessum hóp til hæfis. Fjölbreytnin skiptir öllu á skákmótum og að þátttakendur hafi tækifæri til að tefla við skákmenn á víðu styrkleikabili. Öðlingamótin, sem eru haldin af frumkvæði Taflfélags Reykjavíkur og Ólafs Ásgrímssonar, er dæmi um frábæra hugmynd sem að hefur skilað sér í því að margir skákmenn sem hafa verið svo gott sem óvirkir lengi láta loksins sjá sig á skákmóti. Fyrirkomulagið er líka sérstakt – ein skák í viku og auðvitað enginn yngri en 40 ára! Kannski er þessi árangur með öðlingamótið dæmi um að mót annarra taflfélaga séu of einsleit?  En hvað sem öðru líður þá þurfum við að fá fleiri slíkar hugmyndir og hugsanlega er svarið að finna hjá sjálfum skákmönnunum.

f) Útgáfumál
Núverandi stjórn Skáksambandsins hefur ákveðið að taka frá ákveðna upphæð á næsta starfsári til þess að koma Tímaritinu Skák aftur á laggirnar. Íslenska skáksögu þarf að varðveita og ég mun beita mér fyrir því. Brýnasta verkefið er að ráða öflugan ritstjóra sem að hefur tíma og þekkingu til að inna verkefnið vel af hendi.

f) Fjáröflun
Þetta er án efa langmikilvægasta verkefnið á næsta starfsári. Skv. fjárhagsáætlun núverandi stjórnar fyrir næsta kjörtímabil þá er reiknað með að næsta stjórn SÍ þurfi að brúa um 2 mkr. bil með sérstakri fjáröflun en þá hefur verið gert ráð fyrir kostnaðarsömum liðum eins og "Þjálfun" og "Tímaritið Skák" sem og þátttaka íslenskra keppenda í fjölda móta erlendis. Allt aukalegt mun kosta peninga sem ekki eru til staðar og þeirra þarf að afla. Ástandið í efnahagslífinu gerir það að verkum að fjáröflunin verður enn meira krefjandi en áður og þarfnast mikillar vinnu af hálfu forseta og stjórnar.  

3. Um meinta vanhæfni
Skáksamfélagið á Íslandi er afar lítið og það væri mikil firring að halda að úr okkar röðum væri hægt að kjósa aðila sem væri laus við öll hagsmunatengsl. Hjá þeim verður ekki komist en að mikilvægast er að láta þau ekki hafa áhrif á sig. Síðan ég byrjaði í stjórn Skáksambands Íslands þá hefur það verið ófrávíkjanleg regla að meðlimir stjórnarinnar víki af fundi þegar að eitthvað sem tengist þeim sérstaklega ber á góma. Þannig vík ég alltaf ef bróðir minn, Bragi Þorfinnsson, er til umræðu útaf einhverju máli og aðrir gera slíkt hið sama. Einnig hef ég heyrt það sem rök gegn kjöri mínu að ég megi ekki hætta eða minnka eigin taflmennsku. Það er best að koma því algjörlega á hreint ég hyggst ekki minnka taflmennsku nema að litlu leyti hljóti ég kjörgengi til að sinna þessu embætti. Helst myndi ég draga úr taflmennsku á minni innlendum mótum en ég mun aldrei sleppa alþjóðlegum skákmótum hérlendis né Skákþingi Íslands – ef ég uppfylli skilyrði um þátttöku. Að auki myndi ég undir öllum kringumstæðum gefa kost á mér í Ólympíulið Íslands enda velur forseti ekki einn og sér í liðið. Núverandi forseti tefldi til dæmis á Ólympíumótinu í Tórínó! Ég treysti fulltrúum á aðalfundi til að meta hvort að slíkt sé merki um vanhæfni eða ekki.

4. Um félagaríginn
Undanfarin ár hafa raddir gerst háværari um að "valdajafnvægið" innan stjórnar SÍ sé óeðlilegt og að alltof margir fulltrúar í stjórn SÍ komi frá einu og sama taflfélaginu. Ég kýs að kalla þetta annarlegar raddir því að þessi málflutningur er í allt í senn móðgandi og hreinlega skemmandi fyrir íslenskt skáklíf. Það er algjör firra að horfa á félagsskírteini stjórnarmanna – það sem mestu máli skiptir er að viðkomandi sé tilbúinn til að leggja á sig mikla vinnu fyrir íslenskt skáklíf og ekki skemmir fyrir ef viðkomandi getur komið með aðra sýn á hlutina innan stjórnarinnar. Núverandi stjórn hefur á að skipa, fyrir utan öflugasta forseta í seinni tíð og frambjóðendurna tvo, tveimur foreldrum efnilegustu skákkrakka landsins, stúlku og stráks, skólastjóra í öflugasta "skákskóla" landsins sem hefur veitt stjórninni mikilvæga innsýn í skólastarfið,  duglegasta skákstjóra landsins sem hefur varla átt fría helgi á árinu, tveir fulltrúar landsbyggðarinnar, annar virkur skákmaður en hinn æskulýðsfrömuður sem með dyggri hjálp félaga sinna er án efa  að vinna eitt mesta þrekvirki seinna ára hvað varðar barna- og unglingastarf á landsbyggðinni  og að endingu fulltrúa hins almenna skákáhugamanns sem er hagyrtur að auki! Það má aldrei fórna því að hafa á að skipa virkri og öflugri stjórn til þess eins að uppfylla einhvern félagskvóta – slíkt væru herfileg mistök sem íslenskt skáklíf þyrfti að borga fyrir. Stjórnarmenn í skáksambandi Íslands eiga ekki að sitja í stjórninni til þess eins að verja hagsmuni síns félags en slíkt hefur alltof oft verið raunin. Ef að menn ætla að halda áfram þessum málflutningi þá bið ég gjarnan um eitt dæmi um það að taflfélagið sem hefur átt flesta fulltrúa í stjórn undanfarin ár hafi verið hyglað umfram önnur taflfélög. Eitt dæmi um slíkt ætti nú að vera auðvelt eftir alla þessa valdatíð og þann skandal sem hefur viðgengist að bróðurpartur fulltrúanna kemur frá einu taflfélagi. Kaldhæðnistónninn skín því miður í gegn en ég er einfaldlega búinn að fá algjörlega nóg af þessum ólíðandi málflutningi.

Að því sögðu þá vil ég ítreka þá ósk mína að kosningabaráttan haldi áfram að vera  málaefnaleg og drengileg. Umræðurnar og sú naflaskoðun sem íslenskt skáksamfélag er að fara í gegnum útaf væntanlegum kosningum verður án efa hreyfingunni til hagsbóta í framtíðinni. Ég hvet alla sem hafa áhuga á málefnum skákhreyfingarinnar til að velta þessum atriðum fyrir sér og taka afstöðu eftir eigin sannfæringu. Sjáumst á aðalfundi Skáksambands Íslands þann 3.maí!

 

 

Verkefni íslenskrar skákforystu, eftir Óttar Felix Hauksson

_ttar_felix_hauksson_2005_bor_i
1. Samsetning skáksambandsstjórnarinnar
Framundan eru kosningar til stjórnar Skáksambands Íslands. Fyrst skal kosið um embætti forseta, síðan sex meðstjórnanda og fjögurra í varastjórn. Einhvern hefur það æxlast svo á síðustu áratugum að samsetning stjórnar hefur ekki nægjanlega náð að að endurspegla  félagaaðild að Skáksambandinu. Þó er það svo, að lögum samkvæmt er Skáksamband Íslands landsamband íslenskra skákfélaga. Fyrsta markmið skáksambandsins er að vera samtakaheild og yfirstjórn allra skákfélaga á Íslandi. Stjórn Skáksambands Íslands má ekki með neinu móti missa sjónar af þessu meginatriði og kjörinn forseti verður að líta á sig sem þjón skákfélaganna en ekki ríkjandi yfir þeim.

Í ljósi framangreinds hef ég ákveðið, nái ég kjöri í embætti forseta, að bjóða sterkustu og virkustu skákfélögunum að eiga aðild að stjórn og varastjórn SÍ. Aðeins með þeim hætti tel ég að lögbundnum markmiðum skáksambandsins verði náð, þ.e. að efla íslenska skáklist og og standa vörð um hagsmuni íslenskra skákmanna innan lands og utan, ásamt því að efla og treysta samskipti sambandsfélaganna innbyrðis. Ég mun fara þess á leit við forystumenn taflfélaga/skákfélaga (í stafrófsröð) Akureyrar, Bolungarvíkur, Fjölnis, Hauka og Hellis að þeir auk TR skipi fulltrúa í aðalstjórn Skáksambandsins, en í varastjórn verði fulltrúar Austurlands og Norð-Austurlands, Garðabæjar, skákdeildar KR, Sunnlendinga og Vestmannaeyinga. Með slíkri breidd á landsmælikvarða tel ég að SÍ nái því með réttu að vera það landssamband, sem kveður á um í lögum þess.

2. Skákþing Íslands
Það er deginum ljósara að Skákþing Íslands hefur sett verulega niður á síðustu tveimur áratugum. Deildakeppnin gamla, sem ég, í stjórnarsetu minni í SÍ í byrjun níunda áratugarins, og Garðar Guðmundsson komum í það skipulag sem hún býr enn við. Íslandsmót skákfélaga er, eins og Jón Torfason benti á í grein í lok síðustu aldar, orðin „sterkasta innanlandsmótið og, eins og einhver hafði á orði á dögunum, eiginlega Íslandsmótið í skák.”  Enn í dag eru þetta orð að sönnu. Þó er það nú svo, að Skákþing Íslands er framar í skáklögum SÍ. Þar eru Íslandsmeistarar í öllum flokkum krýndir og ber skákforystunni að sýna Skákþinginu, þessu elsta landsmóti skákhreyfingarinnar, tilhlýðilega virðingu. Ég gef Jóni Torfasyni aftur orðið úr grein hans í tímaritinu Skák: “ Í gamla daga var Íslandsmótið veisla allra skákmanna, bæði þeirra sterkustu og þeirra sem minna máttu sín. Það kemst ekki aftur í lag fyrr en landsliðskeppnin verður tefld um leið og keppni í öðrum flokkum mótsins”. Þetta er kjarni málsins.

Undanlátssemi við þrýsting vegna persónulegra einkahagsmuna frá einstökum skákmönnum hefur aðeins haft það í för með sér að los komst á Skákþingið og hefur vegur þess farið minnkandi með árunum. Á Norðurlöndum eins og lengst af á Íslandi hefur skákgyðjan Cassia verið dýrkuð um páska. Þá hafa Skákþing landanna verið haldin í öllum flokkum og ekki brugðið út af. Danir voru með u.þ.b. 400 keppendur nú um páskana og Færeyingar milli 30-40 (svarar til 200 manna móts hér). Það á ekki að hlaupa á eftir duttlungum iðkenda heldur að halda öllu í horfinu í hofi skákgyðjunnar Cassiu. Á árinu 1983 var ákveðið að færa landsliðsflokkinn að ósk keppenda. Tókst vel til með þátttöku en strax næsta ár, þrátt fyrir góðan aðbúnað og verðlaunafé voru vonbrigði með þátttökuna! Páskarnir eru einnig mun betri tími en síðsumar hvað getuna varðar. Skákmenn eru oftast í mun betri æfingu um þetta leyti ársins og ætti því Skákþingið að vera hápunktur vetrarstarfsins. Skákforystan á að stefna að gera veg Skákþings Íslands um páska að stórhátíð skákmanna á nýjan leik þar sem teflt er í öllum flokkum.

3. Skákfélögin, skólaskákin og Skákskóli Íslands
Í upphafi formannsferils míns í Taflfélagi Reykjavíkur kom ég á fundi forystumanna þeirra taflfélaga í Reykjavík er höfðu barna- og unglingaæfingar á sinni könnu og kastaði þeirri hugmynd fram, að félögin stofnuðu með sér Skákráð Reykjavíkur. Innan þess ráðs myndu félögin, í samvinnu við Íþrótta- og tómstndaráð Reykjavíkur, skipuleggja skákkennslu í skólum og skipta bróðurlega á milli sín bæjarhlutunum og beina börnunum í félögin til æfinga eftir búsetu þeirra. Þeir sem sátu fundinn auk mín voru Gunnar Björnsson frá Helli, Helgi Árnason úr Fjölni og Hrafn Jökulsson frá Hróknum. Ágætlega var tekið í þessar hugmyndir á fundinum en ekki var þeim fylgt neitt eftir við borgaryfirvöld á þessu stigi og lá þetta því allt í láginni þangað til Hrafn Jökulsson tók þetta mál á upp aftur upp á eigin spýtur fyrir rúmu ári síðan. Fékk til liðs við sig borgarstjórnarmeirihlutann og nokkur stór atvinnufyrirtæki, klæddi málið í nýjan búning og  jók verulega við verksviðið. Hér er á ferðinni Skákakademía Reykjavíkur.

Það er ljóst að Reykjavíkurfélögin hafa nú þegar notið þessara umsvifa Hrafns í auknum fjárstyrk frá Reykjavíkurborg og er það mikið gleðiefni. Skákakademían, mun ætla að ráða Björn Þorfinnsson sem framkvæmdastjóra og mun að öllum líkindum koma að skipulagningu skólaskákarinnar í Reykjavík í samvinnu við við taflfélögin og skákskólann, auk annarra verkefna sem heyrst hefur að séu á verkefnaskrá Skákakademíunnar (árlegt Reykjavíkurskákmót og Reykjavík-skákhöfuðborg heimsins!)

Skákakademían hefur ekki enn hafið störf og ekki hafa enn borist nein drög að lögum eða stefnuskrá, en vonandi rætist fljótlega úr því og að Skákademían finni sér fljótlega réttan farveg í skáklífi höfuðborgarinnar. Hvað varðar verkefnin almennt í skólunum þá er heppilegast að skákfélögin (Skákakademían hvað Reykjavík viðkemur) í samvinnu við skólayfirvöld (skólastjóra) í hverjum skóla skipuleggi skákkennslu og æfingar í skólum og beini börnum í til æfinga í félögum eftir búsetu. Úti á landsbyggðinni þar sem oftast er aðeins eitt taflfélag til staðar skal sami háttur hafður á . Stuðningur öflugs atvinnufyrirtækis eða fleiri auk stuðnings sveitafélagsins er nauðsynlegur til að fjárhagslegur grundvöllur kennslunnar sé tryggður.

Skákskóli Íslands á að vera í nánum tengslum við þetta skipulag og sjá um samhæft þjálfunarprógram fyrir leiðbeinendur taflfélaganna og styðja við þau með því að senda erindreka sína út á land.

Skólaskákmótin öll þ.e. landmót og héraðsmót í sveita- og einstaklingskeppni eiga að vera undir Skólaskáknefnd og hafa sérstaka reglugerð og fjárreiður.    

4. Tengslin við landsbyggðina – landsbyggðasjóður.
Í anda eins af meginmarkmiðum Skáksambandsins, sem er að efla og treysta samskipti sambandsfélaganna innbyrðis, er á döfinni hjá Taflfélagi Reykjavíkur að fara með ungmennasveit félagsins í helgarferð til Akureyrar, þar sem att verður kappi við sterka sveit Skákfélags Akureyrar á átta borðum. Taflfélag Garðabæjar hefur um hríð haldið úti árlegri bikarkeppni, Hellir séð um hraðskákkeppni og svo mætti lengi telja.  Skákmenn á Snæfellsnesi efna til árlegrar skákveislu, sem félagar úr hinum ýmsu félögum vilja helst ekki missa af- aldrei! Skákmót eru nú haldin með glæsilbrag á Bolungarvík, í Þingeyjarsýslu, Skagafirði og víðar. Þetta þarf að efla, ekki síst úti á landsbyggðinni.

Í gamla daga var það oftar en einu sinni að reykvískir skákmenn fóru um helgi í bíltúr austur á Stokkseyri og tefldu við heimamenn. Það er ekki langt í dag fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu að aka austur fyrir fjall og tefla við Sunnlendinga á Selfossi,  Stokkseyri eða Hvolsvelli. Akureyringar gætu skipulagt heimsókn til Goðans eða á Sauðárkrók og svona mætti lengi telja og þetta er allt fyrir utan Íslandsmót skákfélaga.

Eitt mál sem mjög er brýnt og lagt er fram í fjárhagsáætlun nýrrar stjórnar, en það er landsbyggðarsjóður - ferðasjóður til að jafna að aðstöðu landsbyggðarmanna á að sækja skákmót. Þetta er löngu tímabært og verður verkefni nýrrar stjórnar að smíða sjóðnum reglur. Þær þurfa að vera bæði skýrar og sanngjarnar. Sérstaklega ber að hafa skólaskákina í huga því þar hefur oft farið svo að skólar hafa ekki getað sent sveitir til keppni á landsmóti í Reykljavík vegna kostnaðar. Það þarf að reyna að koma til móts við landsbyggðina  með ýmsum hætti og einnig huga að því að færa mót út á land og efla með því móti skáklífið á staðnum. Landsbyggðarsjóðurinn er eitt skref og í rétta átt.

5.  Samheldni og samstaða
Verkefni skákhreyfingarinnar eru ærin. Mikilvægast er að koma á góðu skipulagi í skákkennslu og þjálfun barna og unglinga. Samhæfa þá vinnu með sveitarfélögum, skólayfirvöldum og atvinnulífinu og tryggja með þeim hætti grundvöll skákiðkunar í landinu til lengri tíma litið. Við sem skipum forystu SÍ eigum að hlúa að lögbundnum skákmótum SÍ, s.s. Skákþingi Íslands og Íslandsmóti skákfélaga,  gera þau að árvissum stórviðburðum í islensku menningarlífi. Til þess að svo megi verða þarf samstöðu og samheldni aðildarfélaga Skáksambandsins og forystumanna þeirra.

Tap eða sigur í komandi forsetakosningum skiptir engu annar hvor verður undir. Tap eða sigur skákhreyfingarinnar felst í hvernig við bregðumst við úrslitunum. Ég lýsi mig reiðubúinn til að starfa heilshugar með Birni Þorfinnssyni, ef hann reynist sigurvegari komandi kosninga og kjósi að notast við krafta mína, og vonast til að hann sé sama sinnis, ef kosningar fara á hinn veginn.

Gens una sumus – Við erum ein fjölskylda.

 

Það kæmi mér ekki á óvart þó að Björn kysi Óttar og að Óttar kysi Björn. 


mbl.is Guðfríður Lilja lætur af embætti forseta Skáksambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu?

Egill Helgason spurði þessarar spurningar nokkrum sinnum í Silfri Egils í dag og einu svörin sem hann fékk frá viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra voru:

  • Við erum með nefndir í gangi sem eru við það að skila svörum.
  • Við ætlum að gera fræðilega rannsókn á þessum málum.
  • Við þurfum að sjá hvernig málin þróast og skoða þau vandlega.
Vandinn er sá að í dag er einn af þessum sjaldgæfu dögum þegar fólkið í landinu þarf á aðgerðum frá ríkisstjórninni að halda.  

hands

Spurningar sem ég vildi óska að teknar væru alvarlega: 

1. Af hverju er verið að tala um að ríkið þurfa að standa betur við bankana þegar rökstuddur grunur er  um að bankarnir stóðu fyrir gengisfellingunni, sem fólkið í landinu þarf að borga?

2. Bankarnir liggja nú á þúsundum milljörðum króna eins og drekar á gulli. Af hverju gefa þeir fólki ekki tækifæri til að lækka höfuðstóla á lánum þeirra fyrst þeim gengur svona vel og eru svona vellauðugir?

3. Af hverju gerir ríkisstjórnin ekki neitt í þessum málum? 

4. Af hverju er ekki aðgerðum til að skattalækkana launa flýtt?

5. Af hverju er ekki enn búið að afmá stimpilgjöld, mál sem Björgvin G. Sigurðsson barðist mikið fyrir í stjórnaraðstöðu? 


    Tollurinn: með okkur eða á móti?

    Það er ánægjulegt þegar svona fréttir berast, að þýfi hafi verið stöðvað á leið frá Íslandi af tolli og lögreglu. Þetta er það sem tollurinn á að einbeita sér að: að uppræta glæpi. Ekki ofsækja túrista. Til hamingju tollur!

    En...

    Á síðustu misserum hef ég heyrt mikið kvartað undan tollinum fyrir að níðast á einstaklingum fyrir litlar sakir, aðrar en að kaupa sér aðeins of mikið af dóti. Reyndar er frekar við tollalögin að sakast en tollverðina sjálfa, þar sem tollalögin takmarka innkaup á vörum erlendis. 

    Ég vil segja stutta sögu. Hún er sönn. Þegar ég var í námi í Bandaríkjunum keypti ég mér fartölvu. Eftir námið kom ég með hana heim, og þar sem ég var ekki með mikil verðmæti önnur fór ég beint í gegnum græna hliðið. Ég sagði meira að segja tollverði frá því að ég var með þessa tölvu á mér. Svo leið ár. Ég fór utan og tók tölvuna með. Þegar ég kom heim aftur var ég stoppaður í tollinum og rukkaður um virðisaukaskatt fyrir þessa sömu fartölvu, sem ég viðurkenndi að sjálfsögðu að ég hafði keypt í Bandaríkjunum ári áður.

    Mér fannst sárt að þurfa að borga þennan pening og mér fannst þetta óréttlát meðferð, að einstaklingur sem er með vinnutæki á sér skuli vera rukkaður fyrir það í tollinum, á meðan mér fannst að áherslan ætti að vera á glæpamönnum, frekar en fólki sem hefur gert það eitt af sér að kaupa hlut sem var nokkrum þúsundköllum of dýr samkvæmt íslenskum lögum.

    Ég skil ekki af hverju við sættum okkur við þetta enn þann dag í dag. Fólki finnst það mikil niðurlæging þegar það kemur til Íslands og tollverðir horfa á það með grunsamlegu augnaráði, og geta með einni bendingu beðið fólk um að opna töskur sínar. Þetta væri gott og gilt ef rökstuddur grunur væri á að viðkomandi væri að smygla inn fíkniefnum eða þýfi; en þegar málið er farið að snúast um hvort að viðkomandi hafi keypt vörur fyrir fleiri þúsundkalla en má samkvæmt íslenskum lögum, þá eru tollverðir farnir að skjóta sig í fótinn og tapa virðingu landans.

    Ég veit um fólk sem þorir ekki að taka myndavélar sínar eða fartölvur með í frí til útlanda af ótta við að tollurinn taki þær af þeim þegar heim er komið, nema það geti sýnt kassakvittun um hvar það keypti gripinn. Ég hef heyrt að það sé viðhorf flestra tollvarða að viðkomandi einstaklingur sé sekur þar til sakleysi sannast. Ef það er satt, þá er þetta ekki í lagi, og með slíkri háttsemi fær tollurinn almenning á móti sér, - og í stað þess að koma með vinsamlegar ábendingar sem gætu hjálpað, þorir enginn að segja neitt af ótta við að vera tekinn fyrir.

    Alþingi mætti taka tollalögin alvarlega til endurskoðunar, sérstaklega þegar kemur að innflutningi einstaklinga á vörum til persónulegra nota, bæði úr ferðum og þegar þær eru keyptar á netinu.  

     


    Tollurinn og lögreglan eiga einmitt að einbeita sér að því að vernda hinn almenna borgara gegn þrjótum sem vinna samfélaginu mein. Ég held að þeir geri þjóðinni lítið gagn með því að fara í gegnum persónulegar eigur fólks og spyrja hvað þær hafi kostað eða hvar þær hafi verið keyptar.

    Hver er þín upplifun af tollinum á Íslandi? 

    Myndir af vefsetrinu tollur.is 


    mbl.is Erlend þjófagengi í sókn
    Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

    Er Hillary Clinton sætasta stelpan á ballinu?

    Eftir að hafa tekið skoðanakönnunina Select a Candidate 2008 kemur í ljós að í skoðunum á ég mesta samleið með Hillary Clinton, en þeir Barack Obama og Mike Gravel fylgja fast á eftir. En hver er eiginlega þessi Mike Gravel, sem virðist eiga fullt tilkall til forsetaefnisins, en hefur kannski ekki nógu mikla fjármuni á bakvið sig til að keppa við Hollywoodmyndir eins og Clinton og Obama. (Reyndar finnst mér áhugavert að Huckabee og McCain eru mér algjörlega ósammála um öll málefnin nema eitt).

    Það er búið að fjalla heilmikið um þau Clinton og Obama, en hér eru upplýsingar um Gravel sem ég þýddi úr Wikipedia:

    Maurice Robert Gravel, fæddur 13. maí 1930, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður frá Alaska frá 1969-1981. Hann tók skýra afstöðu gegn herskyldu í Víetnamstríðinu og lagði sjálfan sig í mikla hættu við að koma Pentagonskjölunum á framfæri árið 1971, en þau fjölluðu um innra skipulag og spillingu í tengslum við skipulagningu á Víetnamstríðinu. Eftir að Gravel hætti í pólitík 1980, fór hann í viðskipti en bæði fyrirtæki hans og hann sjálfur fóru á hausinn, auk þess að hann bjó við heilsubrest.

    Hann hefur verið þekktastur fyrir hugmyndir sínar um beint lýðræði og þjóðarfrumkvæði, en þar gefst lýðræðisþegnum mögulegt að taka virkan þátt í lagasetningum, endurskoðunum, tillögum og kosningu um einstök mál. Hann hefur hvorki náð miklu fylgi í skoðanakönnunum né forkosningum, og því afar ólíklegt að hann verði forseti Bandaríkjanna. Hann kveðst hafa verið lesblindur sem barn, og er af fátæku fólki kominn. Hann ólst upp kaþólskur en hafnaði síðar meir hinni kaþólsku trú.

    Hann var njósnari í kalda stríðinu, staðsettur í  Vestur Þýskalandi til frá 1951-1954. Hann er með háskólapróf í hagfræði, en borgaði námið með því að starfa sem barþjónn á hóteli og keyra leigubíl í New York.

     

    Annars eru þetta stigin sem ég fékk í þessari könnun: 


    Hillary Clinton
    Score: 67



    Barack Obama
    Score: 60


    Mike Gravel
    Score: 60

     


    Ron Paul
    Score: 28

     


    Mitt Romney
    Score: 19

     


    Mike Huckabee
    Score: 7

     


    John McCain
    Score: 7


    « Fyrri síða | Næsta síða »

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband