Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Eftir að hafa heyrt kröfur frá fólki héðan og þaðan um að reka ætti Davíð Oddsson úr Seðlabankanum fyrir viðtal sem hann tók þátt í á þriðjudaginn var í Kastljósi, og fyrir að standa sig illa í stjórn Seðlabankans, verð ég að viðurkenna að ég tel þessa heift í garð Davíðs á misskilningi byggð.
Reiðin í garð Davíðs virðist byggð upp á sögusögnum og ærumeiðingum sem haldið hefur verið uppi af fyrrum eigendum Glitnis og fjölmiðlum sem þeir hafa undir hælnum, um að Davíð hafi verið að hefna sín á Jóni Ásgeiri með því að þjóðnýta Glitni. Davíð svaraði þessari ásökun á mjög sannfærandi hátt, í Kastljósviðtalinu á þriðjudag þar sem hann segist hafa krafist þess að hinir bankastjórar Seðlabankans væru með í ráðum, og að reynt hefði verið að hjálpa eigendum Glitnis með því þó að taka ekki allan bankann af þeim.
Bankinn var kominn í greiðsluþrot og var þar af leiðandi gjaldþrota. Ef Seðlabankinn hefði lánað 84 milljarða króna, hefði sá peningur sjálfsagt bara gufað upp og verið tapað fé, á meðan þjóðin hefði setið uppi með miklar skuldir. Önnur leið var farin sem við þekkjum vel.
Davíð varaði í mars síðastliðnum við árásum á íslenska hagkerfið, og það var reyndar fyrst þá sem ég fékk mikinn áhuga á að fylgjast með þessum málum, og hef gert það vandlega síðan. Ég sé ekki betur en að Davíð Oddsson hafi komið heiðarlega fram við annað fólk, en að hann hafi verið ataður aur úr öllum áttum, en eins og gefur að skilja er erfitt að hreinsa sig af aur sem aðrir skjóta á mann, nema með mjög traustum karakter. Það eina sem að mínu mati hefur veikt orðspor og trúverðugleika Davíðs var ráðning Þorsteins sonar hans sem dómari fyrir norðan, og þætti mér vænt um að vita hvort að hann hafi komið að því máli, sem mér finnst reyndar afar ólíklegt þar sem slíkt passar einfaldlega ekki við karakter Davíðs.
Öll spjót standa á honum. Það er vinsælt að vera óvinur Davíðs núna. Hann segir nákvæmlega það sem hann meinar og hann virðist segja satt og rétt frá því sem hann má segja frá.
Ég er sammála þeirri fullyrðingu hans að við stöndum betur í dag en fyrir þremur vikum, einfaldlega vegna þess að í dag þekkjum við betur okkar stöðu. Ef vandamál er til staðar er mun verra að vita ekki af því, en að þekkja það.
Þeir einstaklingar sem vilja nornabrennu vegna Davíðs, ég bið þá að hugsa sig tvisvar um og telja upp að tíu. Hann er ekki í öfundsverðri stöðu, og hefur reyndar varað þjóðina við - oftar en einu sinni, og oftar en tvisvar- það var einfaldlega ekki hlustað á hann, fyrst og fremst vegna þess óorðs sem menn hafa verið að rembast við að hella yfir hann, og þar að auki af því að fólk trúði um of á efnishyggjuna og virðist ekki átta sig á að efni eru ekki endalaus í þessum heimi.
Ég er hvorki dýrkandi Davíðs né sjálfstæðismaður, en ber mikla virðingu fyrir þeim heilindum sem hann sýnir í sínu framferði. Ég er viss um að sagan mun dæma hann mun betur en nútíminn.
Þó að Davíð hafi komið frjálshyggjunni inn í íslenskt samfélag ásamt Hannesi Hólmsteini og fleiri félögum, þá bera þeir varla ábyrgð á svikunum og prettunum sem fjárglæframenn hafa stundað með því að eigna sér hlutfall af lánum, eins og ef um hreinan hagnað væri að ræða. Það er eins og að ásaka foreldri fyrir að gefa unglingi bíl, sem hann svo notar til að keyra á 150 km hraða með hörmulegum afleiðingum.
Mikilvægasti greinarmunurinn sem fram hefur komið er að bankarnir eru fyrirtæki sem farnir eru á hausinn, og rétt eins og önnur fyrirtæki er gjaldþrot þeirra ekki á ábyrgð fólksins í landinu, eða Ríkisins.
Mikilvægt er að Davíð Oddsson haldi sínu striki í stjórn Seðlabankans þrátt fyrir stöðugar árásir á hann. Ég vona að honum og hans starfsfélögum verði veittur vinnufriður. Það er verið að ráðast á rangan aðila.
Ef ég leyfi mér að segja það, og án þess að ég telji mig vera að taka djúpt í árinni, þá tel ég Davíð Oddsson satt best að segja vera eina af fáum frelsishetjum íslensku þjóðarinnar gegnum tíðina. Nútíminn er að dæma manninn alltof harkalega.
Kíkið á viðtalið við Davíð Oddsson í Kastljósi 7.10.2008, og hlustið vandlega á það sem hann hefur að segja og hvernig það tengist samhengi sögunnar síðustu fjögur árin, og jafnvel síðustu tuttugu árin, en ekki hugsa bara um síðustu viku.
Það er erfitt að hugsa um Davíð Oddson án þess að gera sér fordómafulla mynd af manninum. Hann hefur verið það mikilvæg persóna í íslensku samfélagi og það umdeildur af mörgum aðilum, að hann mun sjálfsagt aldei fá sanngjarna meðferð af núlifandi Íslendingum, sérstaklega þegar haft er í huga að hann hefur ekki fyrir því að leggjast á sama plan og þeir sem kasta hann auri.
Frekar en að ásaka Davíð vil ég þakka honum kærlega fyrir að koma hreint fram og segja einfaldlega satt, þó svo að sannleikurinn geti verið mörgum óþægilegur, og fólk muni nota hann til að ýfa upp enn meiri illindum.
Sagan mun dæma. Nú er bara spurningin hver skrifar hana.
Samtal við Árna réð úrslitum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Einkareknir bankar riða til falls. Kreppa er í sjónmáli. Þeir vilja fá pening til að bjarga sér á þessum gjalddaga í dag.
Góðu fréttirnar eru að lífeyri þjóðarinnar er borgið í erlendri mynt. Vondu fréttirnar eru þær að þessu síðasta hálmstrái hins venjulega launamanns er ógnað, þar sem stjórnendur og stjórnmálamenn vilja skipta einhverju af þessum sjóði yfir í krónur á tíma þegar enginn kaupir krónur, til að redda bönkunum út úr krísu sem þeir bjuggu til sjálfir með alltof miklum tengslum og hreinni græðgi.
Ég treysti ekki stjórnmálamönnum Íslands í dag til að vera réttlátir gagnvart lífeyrissjóðum.
Þeir hafa:
- Veitt uppreist æru manni sem var dæmdur fyrir brot í opinberu embætti, til að hann geti komist aftur á þing.
- Veitt einstaklingum dómaraembætti með afar vafasömum hætti.
- Veitt laun fyrir opinber störf á meðan viðkomandi er erlendis í námi.
- Sjálfur fjármálaráðherra er eigandi í bankastofnun og sér ekkert athugavert við það.
Ég treysti heldur ekki stjórnendum í bönkum sem:
- Eru ráðnir til starfa fyrir mörg hundruð milljóna í eingreiðslu, sem er náttúrulega meiri peningur en nokkur hefur þörf fyrir og hærri en ævitekjur flestra Íslendinga.
- Eru á mánaðarlaunum sem jafnast á við eða eru hærri en árslaun verkamanna.
- Eru á árangurstengdum launum þegar árangurinn getur snúist um að hafa sem mest fé að lánþegum og koma í eigin vasa.
- Eiga inni starfslokasamning sama hversu vel eða illa þeir stjórna.
Hins vegar treysti ég á að fólkið í landinu reyni að rífa sig upp. Það sem getur bjargað okkur núna er öflugt siðferðisþrek. Það er nokkuð sem við getum lært af forfeðrum okkar og við teljum kannski úrelt fræði, en menning okkar geymir hins vegar mun dýpri fjársjóði en nokkuð gull og glingur hefur upp á að bjóða - sanna reisn við hvaða aðstæður sem er, sama þó að aðstæðurnar séu þær að laun standi í stað á meðan vöruverð hækkar um helming, sama þó að erlend lán hækki um helming og verðtryggð lán um fimmtung eða fjórðung. Við verðum að standa saman.
Það sem þarf að heyrast:
- Samstaða gegn spillingu.
- Samstaða með fólkinu í landinu.
- Lausn undan vaxtafangelsi vegna heimiliskaupa.
- Ríkidæmi er ekki virðingarvert í sjálfu sér.
- Búum til betri heim.
- Við erum undir, en leikurinn er ekki búinn.
Mynd: Town of Beloit
Vonarglæta í svartasta skammdeginu?
3.10.2008 | 19:19
Krónan hefur fallið eins og steinn framan af háum hamri síðustu daga, og ekki hefur verið séð fyrir hvar hún lendir. Allt í einu er allt þjóðfélagið komið á endann í einhverri múgsefjun sem tengist þeirri hugmynd að himnarnir séu að hrynja.
Góðu fréttirnar eru þær að himnarnir eru ekki að hrynja og enginn hefur látið lífið í þessum fellibyl krónunnar.
Slæmu fréttirnar eru þær að fólk sér fram á erfiða afborgunartíma, en það er reyndar nákvæmlega það sem fjöldi bloggara hefur séð fyrir síðan í mars.
Um daginn spurði ég hvað myndi gerast fyrir þriðja ársfjórðung bankanna í ár, en gengisfall varð fyrir síðustu tvo ársfjórðunga, og við vitum öll hvað er að gerast núna. Mig grunar, þó að erfitt sé að fullyrða um það þar sem margt fer leynt, að ríkisstjórnin sé loksins að gera eitthvað af viti. Það einfaldlega kostar.
Ríkinu hefur tekist að vekja athygli á þeirri stjórnlausu gróðahyggju sem hefur verið að auðga fáa en safna skuldum fyrir afgang þjóðarinnar.
Þessi viðbrögð eru að skila árangri. Fyrst hríðfellur krónan af því að viðurkennt hefur verið að vandamál sé til staðar. En nú er einnig verið að vinna í næsta skrefi, að sjá fyrir sér velmegun á ný en samkvæmt betri leikreglum.
Krónan hætti að falla í dag, og stóð ekki í stað, heldur flaut upp um 0.2%. Þetta eru góðar fréttir. Þetta getur þýtt að botninum sé náð.
Aðrar góðar fréttir eru þær að fólk um allt land er að sýna þessu máli skilning, og heyrst hefur að skuldarar og skuldunautar eru að ræða sín mál og endursemja um greiðslur.
Ég heyri ekki betur en að Íslendingar séu að standa saman í þrengingunum, þó að háværustu fréttirnar séu vissulega frekar neikvæðar eins og venjulega.
Ég er einfaldlega feginn því að loksins er öllum ljóst að gróðahyggjan er vandamál. Ef við hefðum ekki áttað okkur á því, hefðum við bara komið okkur í enn meiri vanda.
Stjórnendur þessa lands hafa samt verið undarlega treggáfaðir að átta sig á vandanum og gera eitthvað af viti í málunum, kannski af hræðslu við afleiðingarnar.
Mynd: LCS The Illustration News Portal
Gengi krónunnar styrktist um 0,2% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hver er áhættan fyrir þjóðina og ábyrgð okkar há í milljörðum fari Glitnir á hausinn?
30.9.2008 | 21:19
Fari Glitnir á hausinn, tekur fyrirtækið þá íslenska Ríkið og þjóðina með sér í fallinu, nú þegar við höfum yfirtekið og gengist í ábyrgð við 75% allra skulda fyrirtækisins, hvað svo sem þær eru háar?
Ef rétt er að Glitnir hafi verið við það að fara á hausinn, fyrirtæki sem hefur haft yfir gífurlegu fjármagni að ráða og sýnt hefur hagnað upp á marga milljarða síðustu ársfjórðunga, getur þá ekki vel verið að þessir 84 milljarðar sem þjóðin er að leggja til fyrir bankann gufi upp eins og allir hinir milljarðarnir sem hafa verið að gufa upp fyrir augum Glitnismanna?
Án þess að ég sé nokkuð að spá að það gerist, er ég knúinn til að spyrja hvað muni gerast ef Glitnir fer á hausinn í þessari stöðu. Tapar þjóðin einfaldlega þessum 84 milljörðum eða verður hún einnig skuldbundin til að greiða alla þá tugi eða hundruði milljarða sem Glitnir hugsanlega skuldar til viðbótar?
Þýða þessi kaup að héðan í frá sé þjóðin ábyrg fyrir öllum viðskiptum Glitnis?
Ég bara verð að spyrja. Mér finnst þetta knýjandi spurningar og hef ekki nógu miklar upplýsingar til að svara þessu sjálfur.
Moody's lækkar einkunn Glitnis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvernig útskýrum við kaup Ríkisstjórnar Íslands á Glitni fyrir 84 milljarða króna?
29.9.2008 | 12:00
COPY / PASTE
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íslensk stjórnvöld afrita hugmyndir eða gleypa hrátt það sem kemur frá George W. Bush og riddurum hans.
Ég hefði frekar viljað sjá íslenskar fjölskyldur í forgangi sem hafa reynt að eignast þak yfir höfuðið, heldur en þá sem hafa verið að eyða um efni fram með óskynsamlegum fjárfestingum og smásukki.
Til hamingju Ísland!
Heimildir:
CNN: Bush Confident 'bold' bailout will pass
Myndir:
Ríkið eignast 75% í Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
BLEKKING
Venjulegt fólk sem ekkert vit hefur á fjármálaheiminum og treyst hefur 'sérfræðingum' í bönkum er allt í einu komið í þá stöðu að það hefur málað sig út í horn. Þrátt fyrir að fylgja eftir áætlun um afborganir á lánum hækkar höfuðstóllinn margfalt á við það sem þeim var lofað í upphafi.
Á áætlunum er yfirleitt reiknað með 2.5% verðbólgu, sem þýðir að lán upp á 5% vexti verður að 7.5% láni. Þar sem verðbólgan verður líkast til 14% um áramót eða meiri, þýðir það að vextir á húsnæðislánum verða að minnsta kosti 19% og munu þessi 19% leggjast á höfuðstól lánsins.
Þar sem að fólk fékk lán í samræmi við greiðslugetu, þýðir þetta að greiðslubyrðin verður um 19% meiri á næsta ári ef hlutirnir ganga eðlilega fyrir sig. Þetta gerist án þess að laun hækki, og á meðan flestallar vörur og þjónusta hafa hækkað um 30%.
Úr bönkunum heyrast gáfuleg ummæli eins og "Hver er sinnar gæfu smiður," og maður hefur á tilfinningunni að mönnum standi nokkuð á sama um þessa greiðsluerfiðleika. Því það sem gerist ef fólk getur ekki borgað lánin, þá eignast bankinn húsnæðið, sem á endanum verður hægt að selja aftur eða leigja út, þannig að sá gróði verður einfaldlega tvöfaldur. Hugsanlega lítur þetta svona út í reiknilíkani, en veruleikinn getur orðið allt annar ef fjöldi fólks fer á höfuðið vegna skulda sinna og áttar sig á að aleigan hefur verið hafin af þeim með blekkingum.
RÍKI
Þegar svona er komið, að skrímsli hefur tekið á sig mynd og ógnar undirstöðum fólks, þá leitar það hjálpar. Helst er litið til ríkisins, en því miður virðist hefðin á Íslandi vera sú að ekkert er gert fyrir fólkið nema það muni líta vel út fyrir næstu kosningar. Fólk á Íslandi er nefnilega svo fljótt að gleyma. Það er nefnilega snjallt að bíða með bestu útspilin þar til á síðustu stundu. Það er svosem allt í lagi að fjöldi fjölskylda fari á hausinn, bara að útspilið komi þegar allir skilja að neyð sé í gangi þannig að það verði ekki gagnrýnt af hörku.
Þessi hugsanagangur gengur því miður upp, sé farið eftir leiðbeiningum Machiavelli um hvernig halda skal völdum, en er þetta það sem gera skal fyrir fólkið á 21. öldinni? Af hverju ekki að bregðast við áður en Titanic skellur á ísjakann? Af hverju auka hraðann og sýna veikasta punktinn? Hafa stjórnvöld virkilega efni á því?
Stærsti veikleiki ríkisstjórnarinnar virðist felast í mesta styrk hennar. Hún situr nokkuð örugg í sessi, með mikinn meirihluta sem erfitt er að rjúfa. Þetta þýðir að allir eru öruggir í sínum sætum og enginn vill rugga bátnum. Hins vegar er sá möguleiki í stöðunni að stjórnin verði rofin af öðrum flokkinum og henni komið saman undir mörgum flokkum, en það er einfaldlega enn verri staða, því að duttlungar fárra gætu þá ráðið framtíð þjóðarinnar, rétt eins og gerst hefur hjá Reykvíkingum í borgarstjórnarmálum síðustu misseri. Að slíta samstarfi væri að fara úr öskunni í eldinn.
Það er samt augljóst að mikil spilling ríkir hjá ríkisstjórninni. Menn eru frýjaðir ábyrgð af glæpum, tengdu fólki er komið í þægilegar stöður, þingmenn og ráðherrar eiga jafnvel stóra hluti í bönkunum, og vilja því ekkert gera gegn þeim. Ríkisstjórnin gerir ekkert af viti þegar á reynir, og virðist ekki skilja að fólkið þurfi á henni að halda - að hún sé ekki bara stöður upp á punt, heldur úrræði til að setja góð lög og leysa vandamál þjóðarinnar þegar þau knýja dyra.
SÖNN DÆMISAGA
Ríkisstjórnin minnir mig á skák sem ég tefldi eitt sinn við einn af núverandi ráðherrum hennar. Þegar ég hafði unnið skákina nokkuð auðveldlega vegna passívrar taflmennsku ráðherrans, þá rauk hann á dyr og hætti í skákmótinu. Hann tefldi illa og var tapsár, en hefur sjálfsagt verið sagt af vinum sínum að hann tefldi ágætlega, og hann virðist hafa trúað því. Ég er hræddur um að sami einstaklingur sé einmitt að tefla pólitíska skák sína jafn illa, og muni einfaldlega gefast upp í stað þess að berjast til þrautar og ganga á dyr. Skákin á það til að opinbera innri karakter fólks á skemmtilegan hátt. Mér var ekki skemmt þegar ég sá hinn sama komast til valda á Íslandi. Gott stjórnmálavit kemur ekki að sjálfu sér frekar en góð taflmennska.
Staðan er semsagt þannig: ríkisstjórnin er í þægilegri stöðu. Þarf ekkert að óttast. Ráðamenn eru á nógu góðum launum til að vera skuldlausir, og sjá því varla ástandið eins og það er í raun og veru. Þeir eru vanir gagnrýnisröddum og vita að þær líða hjá, enda hafa þær alltaf gert það, og helsti vandinn sem steðjar að þjóðinni er fallandi króna og há verðbólga. Alltof fáir ráðherrar og þingmenn virðast skilja hvað það þýðir til lengri tíma litið.
VANDAMÁL
Ég held að stærsta vandamálið í dag sé það að ríkisstjórnin sér ekkert vandamál. Hún sér bara fullt af fólki blogga af krafti um málin og stjórnarandstöðuna kvarta. Sama hvernig staðan er, það eru alltaf einhverjir að kvarta.
Jæja. Ég er ekki að kvarta.
Það er stórt vandamál í uppsiglingu og því fyrr sem gripið er inn í af ríkisvaldinu, því betra fyrir fólkið. En það verður að viðurkennast að ríkið mun fá miklu meira kredit ef það bregst ekki við vandamálinu fyrr en það er orðið nánast óviðráðanlegt, og gerir eins og Bush ætlaði að gera núna rétt fyrir kosningar, að grípa ekki inn í fyrr en á elleftu stundu og sjá þannig til að repúblikanar vinni kosningarnar þar sem fólk verður honum svo þakklátt. Þetta er vel útreiknað plan, sem getur reyndar snúist í höndunum á honum. Ég vona bara að ráðamenn okkar séu ekki að hugsa á þessum nótum.
ÚRRÆÐI
Við höfum úrræði til staðar, en erum ekki að nýta þau. Úrræðið felst meðal annars í íbúðalánasjóði og gífurlega öflugri stöðu ríkisins, sem er algjörlega skuldlaust. Í stað þess að eyða á hefðbundinn hátt í fleiri störf og stofnanir, auk sendiherrabústaða í fjarlægum löndum upp á einhverja milljarða, gæti Ríkið brugðist við vandanum áður en hann verður raunverulegur, og hjálpa þeim sem vilja hjálpa sér sjálfir?
Ég er ekki að benda á neina töfralausn, heldur raunverulega von og möguleika fyrir skuldsetta Íslendinga. Okkar mesti styrkur gegnum aldirnar hefur falist í samvinnu og stuðningi hvert við annað, en þessi gildi eru í hættu.
Hvernig væri að gefa fólki tækifæri á að borga upp bankalánin og fá hagstæðari lán hjá ríkissjóði í staðinn, helst án verðtryggingar og á föstum vöxtum, eins og 7%? Og tryggja það í leiðinni að fjármálahákarlarnir misnoti ekki úrræðin til að finna fleiri smugur í kerfinu til að hagnast enn frekar, heldur gefa raunverulegum fjölskyldum sem hafa keypt sitt fyrsta húsnæði þetta tækifæri, því að þetta fólk er fólkið sem þarf hjálpina fyrst.
Síðar væri hægt að færa úrræðin til fólks sem hefur verið að stækka við sig húsnæði, en þó koma þeim einnig til aðstoðar ef stærð húsnæðis er í samræmi við stærð kjarnafjölskyldunnar, en reynslan sýnir að hafa skal ofarlega í huga ráðstafanir til að koma í veg fyrir að húsnæðisbraskarar og aðrir fjármálasnillingar sem virðast geta nýtt sér minnstu breytingar í eigin hag á kostnað þeirra sem þörfina hafa, geti misnotað þetta úrræði.
GRUNNÞARFIR
Það er nú þannig að eign á húsnæði er ekki lúxus.
Það er þrennt sem allir þjóðfélagsþegnar ættu að geta gengið jafnt að: húsnæði, klæðum og fæði. Aðrar þarfir eru til staðar, en þessum grunnþörfum þarf að fullnægja áður en farið er út í aðrar þarfir.
Það ættu allir þjóðfélagsþegnar að geta átt húsnæði án þess að þurfa í áratugi að hafa áhyggjur af síhækkandi afborgunum. Því miður hefur þessi grunnþörf fyrir húsnæði verið misnotuð á Íslandi, og ætlast er til þess af komandi kynslóðum að þær eigi ekki sitt húsnæði, heldur leigi það bara. Þegar fólk er ekki öruggt um grunnþarfir sínar er stutt í óhamingju og böl.
VON
Skuldlaus ríkisstjórn hlýtur að geta hjálpað fólki að eignast eigið húsnæði skuldlaust.
Eftir að hafa fylgst náið með ríkisstjórninni síðan hún tók við völdum, fær sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig falleinkunn, sérstaklega fyrir að taka þátt í mörgum spillingarmálum fyrir opnum tjöldum og reyna svo að fela gjörninginn með orðskrúði jámanna. Samfylkingin fær líka falleinkunn, en henni til vorkunnar, ekki fyrir spillingarmál sem ekkert hefur borið á hjá þeim til þessa, heldur fyrir agaleysi æðstu stjórnenda.
Hins vegar eru tveir einstaklingar í ríkisstjórninni sem ég bind vonir við, en sérstaklega þau Jóhanna félagsmálaráðherra og Björgvin viðskiptaráðherra hafa verið að gera góða og sýnilega hluti, á meðan formaður flokksins hefur verið á vappi um allan heim sem utanríkisráðherra, í stað þess að einbeita sér að mikilvægum málum heima fyrir.
Mér sýnist reyndar að Ingibjörg Sólrún taki starf sitt sem utanríkisráðherra mjög alvarlega og að hún sé frábær utanríkisráðherra, en því miður er það starf að fá alla athygli hennar og hún virðist hafa gleymt öðrum skyldum sínum, þar sem að hennar mikilvægasta starf er sem formaður stjórnmálaflokks sem þarf nauðsynlega á styrkri stjórn að halda, frekar en veraldarvafri.
Ég bind von mína við alþingismenn og ráðherrar sem vilja vinna fyrir kaupi sínu og er ekki sama um þjóðina sem kaus þau, og hvet þau til að finna leiðir til úrlausna, og vonandi í anda þeirra sem ég mæli með í þessum stutta pistli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Heimskreppan og Íslandskreppan eru ekki sami hluturinn, en það hentar vel þeim sem bera ábyrgð á Íslandskreppunni að benda á heimskreppuna sem aðal orsakavald. Sú er samt ekki raunin, þó að heimskreppan hafi vissulega einhver áhrif á Íslandskreppuna.
Græðgin
Þetta er náttúrulega afar flókið mál allt saman, sem mér finnst reyndar frekar einfalt í eðli sínu, en það er svo mikið af misvísandi upplýsingum á fleygiferð að fólk getur ekki annað en ruglast í rýminu og týnt áttum. Þessi grein fjallar einfaldlega um það hvernig ég sé þetta útfrá bæjardyrum leikmanns sem hefur engra hagsmuna að gæta, en er forvitinn um þessi mál og hef áhuga á að fá skýra mynd af stöðunni, þannig að venjulegt fólk eins og ég geti dregið betri ályktanir.
Ég held að megin orsakavaldurinn felist í óstjórnlegri græðgi og aðstæðum sem hafa verið skapaðar þar sem fáum er gert mögulegt að hafa gífurlegt fé af mörgum, á hátt sem mér sýnist óheiðarlegur, þrátt fyrir að vel geti verið að hann sé löglegur. Það fannst einfaldlega glufa í kerfinu.
Fyrst þurfum við að hafa í huga að hvað gerist þegar viðskiptavinur banka fær lán, en hann þarf að taka á sig ábyrgð til að endurgreiða lánið, ef honum tekst það ekki verða allar eigur hans gerðar upptækar og hann lýstur gjaldþrota. Afarkostir heitir þetta á dramatísku máli.
Þetta þýðir í raun að viðskiptavinur hefur lagt inn ákveðna upphæð, en verður að standa við innlögnina smám saman. Fyrir þessa innlögn gat bankinn, áður en heimskreppan skall á, tekið lán sem er tíu sinnum sú upphæð sem hann lánar sjálfur. Þannig verða meiri peningar til í fjármálakerfinu - og því miður án innistæðu, nema hægt verði að knýja þá sem skulda til að greiða á réttum tíma.
100% húsnæðislán og ofurlaun
Ég geri ráð fyrir því að hluti af hagnaðartölum bankans eru af þeim lánum sem hann hefur útistandandi, og að lánin sem bankinn fær inn teljist til hagnaðar. Ég sé ekki hvernig hægt er að borga ofurlaun á öðrum forsendum. Því meira sem bankinn lánar, því meira getur hann fengið lánað. Ekki má gleyma að laun fjölmargra bankamanna eru árangurstengd, þannig að eftir því sem að bankinn fær meiri lán, fá viðkomandi meiri pening í eigin vasa.
Af þessum sökum er varhugavert að treysta greiningardeildum banka, því að starfsmenn þeirra geta haft mikilla hagsmuna að gæta. Þeir eru sjálfsagt líka greiðendur skulda og þurfa sitt.
Þegar 100% lán fóru í gang og leikreglurnar voru svona, þá græddu þeir einstaklingar gríðarlega sem fengu bónus af hagnaði bankans, þó að hægt sé að deila um það hvort að fengið lán sé hagnaður. Viðkomandi starfsmenn gátu tekið út hreinar krónutölur fyrir sinn árangur, án þess að þurfa að hafa nokkrar áhyggjur af endurgreiðslu lánanna.
Viðkomandi geta hætt í sínum störfum eftir að hafa þegið einhverjar milljónir eða hugsanlega milljarða sem prósentur af hagnaðartölum og geta eftir það verið lausir alla mála, og jafnvel flutt erlendis til að þurfa ekki að lifa við óþægilega fortíð. Hins vegar stendur bankinn og skuldarar eftir með þá ábyrgð að greiða upp lánin, og uppgötva þá að það getur verið erfitt vegna þess að peningurinn er farinn úr bankanum með árangurstengdum launum.
Þetta er ennþá í gangi, því að fjölmargir starfsmenn hjá bönkum eru á bónusgreiðslum og fá greitt í samræmi við þann hagnað sem viðskiptaferli þeirra sýna. Þannig getur óbreyttur, og jafnvel ómenntaður bankastarfsmaður verið á kr. 200.000 í grunnlaun en náð yfir milljón í laun á mánuði eða meira ef viðkomandi ferli sýnir nægilegan hagnað.
Það er eins og við föttum ekki hvaðan þessi peningur kemur og hvert hann fer, því að hann fer fyrst og fremst beint í vasa einstaklinga sem eru að maka krókinn, en úr vösum skuldara sem verða sífellt órólegri vegna hækkandi höfuðstóla og reglulegum greiðslum af lánum, og þeir vita að takist þeim ekki að borga, tapa þeir öllu. Það er engin undankomuleið fyrir skuldara.
Komið að skuldadögum
Nú þarf bankinn að finna leiðir til að borga upp þessi lán, og þeir sjá að vandi stendur fyrir höndum þegar leikreglum hefur verið breytt, og þeir geta ekki lengur fengið tífalt lán fyrir öll lán sem þeir veita. Því neyðast þeir til að hætta að greiða út lán og finna aðrar leiðir í staðinn.
Þessar aðrar leiðir sem farnar hafa verið er það sem valdið hefur kreppunni, því að engin leið jafnast á við þá fyrri. Bankarnir hafa starfsmenn á launum sem eru 10 sinnum klókari í þessum málum en ég get nokkurn tíma vonast til að verða, og þeir verða að finna leiðir til að sýna hagnað á hverjum og einasta ársfjórðungi til að vernda ímynd bankans og greiða eigendum hagnað.
Þeim tekst að finna þessar leiðir, en fólkið í landinu finnur fyrir þeim með sífellt léttari pyngju. Afleiðingar aðgerðanna má finna til dæmis í hærri stýrivöxtum, meiri verðbólgu, lægra gengi; sem veldur hærri afborgunum skuldara mánaðarlega, og stærri höfuðstól um næstu áramót heldur en um þau síðustu, þó að ekki hafi verið tekið frekari lán. Þetta gæti einnig valdið því að verð á húsnæði falli, en ef það gerist, þá verður fjöldi einstaklinga bundinn við að borga lán sem eru miklu hærri en verðmæti eigna þeirra - og þegar sú staða er komin upp gæti fólk valið frekar gjaldþrot en að lifa við þrælkun. Einhvern tíma brestur boginn, sem hefur þegar verið þaninn til ýtrasta.
Stutt minni
Fáum einstaklingum hefur tekist að hafa mikið af íslensku þjóðinni og komist upp með það. Við eigum þetta líklega skilið, því að minni okkar er frekar stutt og gagnrýnin hugsun okkar frekar lin, og svo hefur okkur bara langað til að vera með í braskinu til að skera okkur væna sneið.
Það er ennþá von
Eftir stendur þó von sem Íslendingar eiga í öflugum framleiðslufyrirtækjum sem orðin eru ráðandi á heimsmarkaði og afla raunverulegra tekna með því að skapa raunveruleg verðmæti, og sem geta raunverulega komið í veg fyrir hrun. Þetta eru fyrirtæki eins og Össur, Bakkavör, CCP, Actavis, Latibær og Marel Food Systems. Fjármálafyrirtækjum er ætlað að tryggja þann auð sem þessi fyrirtæki skapa, en hafa því miður verið að dreifa sem hagnaði því sem er ekkert annað en lánsfé.
Á endanum er ljóst að við þurfum að standa saman. Það þarf að hjálpa skuldurum að komast á réttu brautina og koma í veg fyrir alltof mikinn áhætturekstur fjárfestingafyrirtækja. Skuldurum er hægt að hjálpa með því að bjóða þeim óverðtryggð lán á lágum vöxtum í stað þeirra verðtryggðu, sem eru að skila af sér lánum upp á 19-25% okurvöxtum í dag, og hægt er að setja reglur um það að starfsmenn banka geti ekki hagnast á lánum sem bankinn tekur án þess að taka þátt í að borga þau til baka.
Getur þetta verið rétt hjá mér?
Forsenda þessarar greinar felur í sér þá hugmynd að lán sem banki fær erlendis frá teljist til hagnaðar við ársfjórðungsskýrslu og að af þessum hagnaði fái sumir starfsmenn vænan bónus og eigendur góðan skerf. Ég óska eftir að þessi grunnforsenda þessarar greinar sem rituð er snemma á sunnudagsmorgni verði leiðrétt sé hún röng, og staðfest sé hún rétt.
Reyndar hefur mér þótt áhugavert hversu oft ég hef átt kollgátuna í málum sem þessum þrátt fyrir að vera hvorki sérfræðingur á þessu sviði né þátttakandi í slíkum viðskiptum, og fengið sterkar undirtektir frá fólki sem vinnur við þessa hluti, sem og frá öðrum leikmönnum og aðeins með gagnrýna hugsun, dómgreind og skilning að vopni, auk Google leitarvélarinnar sem er ómetanleg til að finna lykilupplýsingar úr ársskýrslum og fréttum bæði á Íslandi og víðar, sem leiða að forsendum þessarar sunnudagshugvekju.
Myndir:
Minnislausi fiskurinn: Wallpaperlink.com
Bjargvætturinn: Sanity, Insanity, and Moi
E.S. Ég er annars ennþá í bloggfríi, tók mér bara smá frí frá bloggfríinu á þessum fagra sunnudagsmorgni.
Hvernig tengjast trúarbrögð og stjórnmál í hugum Sarah Palin, John McCain, Barack Obama og Joe Biden?
10.9.2008 | 22:56
Það er til fólk sem telur að kosningarnar í Bandaríkjunum snúist fyrst og fremst um það hvort að Bandaríkin sé Kristið ríki eða ekki. Repúblikanar standa vörð við Kristna trú, og það af slíku offorsi að sumum þykir nóg. Demókratar aftur á móti halda því fram að Bandaríkin séu ekki lengur Kristin þjóð, að runnir séu upp nýir tímar með nýjum áherslum.
Þetta held ég að verði sá þáttur sem skilur á milli sigur og ósigurs í næstu kosningum: trúmálin. Þannig að mig langar að skoða aðeins hvað frambjóðendur hafa að segja um trú. Sarah Palin virðist vera öfgafyllst frambjóðendana, sem er stolt yfir því að hafa son sinn með tattóveraðan Jesús á holdi sínu á meðan hann berst í miðausturlöndum, og viðurkennir að hún hafi verið frelsuð, rétt eins og George Bush.
Ljóst er að allir frambjóðendurnir eru Kristnir, en repúblikanar vilja þvinga trúarbrögðum sínum yfir á alla þjóðina og hafa siðferðilegt vit fyrir henni með forsjárhyggju; á meðan Obama virðist vera trúlaus þó að hann sé opinberlega Kristinn, og Biden er Kristinn en innilega opinn til að bera virðingu fyrir öðru fólki, og tjáir það skýrar en ég hef áður heyrt frá forsetaframbjóðenda.
Sarah Palin (*)
Áhugaverð myndbönd sem sýna trú Sarah Palin, en hún virðist meðal annars trúa því að stríðið í Írak sé undir verkefnastjórn hjá Guði.
Ræða Sarah Palin um kirkju sína (1. hluti)
Ræða Sarah Palin um kirkju sína (2. hluti)
John McCain (***)
John McCain skilgreinir kosningabaráttuna sem baráttu Kristni gagnvart öðrum trúarbrögðum, og virðist taka nokkuð skynsamlega nálgun á trúmálin.
John McCain viðurkennir þróunarkenninguna án þess að afneita Guði.
John McCain telur mikilvægt að kenna börnum ólíka strauma hugsunar, og með því meinar hann að kenna börnum kenninguna um sköpun heimsins jafnframt þeim að kenna þeim vísindaleg sjónarmið. Ég er sáttur við þetta viðhorf, svo framarlega að sjónarmiðum sé ekki þröngvað upp á börn og fjölskyldur þeirra. McCain veit nákvæmlega hvað hann er að gera.
Barack Obama (**)
Barack Obama bendir á að Bandaríkin séu ekki einfaldlega Kristið ríki lengur. Reyndar sýnist mér á lestri hans að hann sé ekki að lesa sín eigin orð, heldur eitthvað sem hefur verið skrifað fyrir hann. Ég velti fyrir mér hvort að hann sé einfaldlega góður flytjandi af ræðum, og lítið annað?
Joe Biden (****)
Joe Biden, varaforsetaefni demókrata er strangtrúaður kaþólikki, en trúir að mikilvægt sé að virða trú allra, sama hverrar trúar þeir eru, og það væri rangt af honum að yfirfæra eigin trú yfir á aðra í krafti stjórnmála. Joe Biden er minn maður, enda virkilega skýr í sínum gildum, annað en ég hef séð hjá öðrum frambjóðendum. Hann minnir mig töluvert á John Kerry og Al Gore.
Myndbönd: Youtube
Myndir:
Krossfesting:Religion-Cults.com
Frambjóðendur: Wikipedia
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.9.2008 kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Í frétt visir.is kemur fram að Árni Mathiesen fjármálaráðherra, er á meðal stofnfjáreigenda í Byr. Byr er sparisjóður. Sparisjóðir eru fjármálafyrirtæki. Um sparisjóði gilda einhverjar aðrar reglur en um banka, en í eðli sínu eru sparisjóðir bankar. Aðeins bókstafstrúarmaður gæti hafnað slíkum sannleik.
Þegar Árni Mathiesen var spurður í þættinum Silfur Egils um vorið 2008 hvort að ríkisstjórnin ætlaði ekki að koma almenningi til hjálpar vegna gengisfellingarinnar sem varð í vetur og árásinnar á íslenska hagkerfið, svaraði hann því til að fyrst og fremst bankarnir gætu treyst á ríkið. Hann minntist ekkert á fólkið í landinu.
Mér fannst þetta afar furðuleg afstaða og skildi hana ekki. En nú hafa komið fram upplýsingar sem útskýra þetta dularfulla viðhorf, og sýna að málið er svo einfalt að erfitt er að sjá það.
Árni er nefnilega einn af eigendum Sparisjóðsins Byr. Ég veit ekki hvort hann hafi átt í fjármálafyrirtæki þegar hann lét þessi ummæli falla í vetur, en það er afar vafasamt af fjármálaráðherra að eiga hlut í banka - því skoðanir hans verða hlutdrægar og ljóst er að vegna þessarar hlutdrægni munu fjármálafyrirtæki fá meiri stuðning en fólkið í landinu. Hagsmunaárekstrar sem þessir eru afar ófagmannlegir og ættu að vera bannaðir með lögum, þar sem þeir valda óhjákvæmilega hagsmunaárekstrum.
Málið er að fjármálaráðherra sem á hluta í fjármálafyrirtæki hlýtur að huga fyrst og fremst um hag eigin fyrirtækis, og leyfa hagi þjóðarinnar að mæta aðgangi. Annað væri einfaldlega óskynsamlegt í stöðunni.
Á meðan kreppir að vegna verðbólgu og gengisfellingar hjá alþýðunni sem er á föstum launum sýna fjármálafyrirtæki gífurlegar hagnaðartölur sem skila sér til eigenda þeirra, og þegar í ljós kemur að fjármálaráðherrann sjálfur er einn af þessum eigendum, þá fer heildarmyndin að skýrast.
Eigendur fjármálafyrirtækja hljóta að hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Það myndi ég sjálfur gera. Það myndu allir gera. Þannig er mannlegt eðli. Þess vegna eiga stjórnmálamenn ekki að eiga í fyrirtækjum sem tengjast ákvörðunum þeirra í stjórnsýslunni. Fátt er verra en hagsmunaárekstrar í stjórnsýslu, einfaldlega vegna þess að þeir valda óréttlæti í stað þess að koma í veg fyrir það.
Þetta er slíkur hagsmunaárekstur að maður hlýtur að spyrja hvort að það sé löglegt af fjármálaráðherra að eiga hlut í fjármálafyrirtæki? Eru virkilega ekki til lög sem banna stjórnmálamönnum að höndla málefni sem snerta þá sjálfa náið?
Nú hljótum við að spyrja hvort að það sé regla frekar en undantekning að ráðherrar þjóðarinnar eigi svona mikið í fjármálafyrirtækjum eða öðrum rekstri sem verða fyrir beinum áhrifum af ákvörðunum þeirra við stjórnsýslu, og hvort að þetta útskýri ástæður fyrir einkavæðingu á ríkisstofnunum sem sinna fjármálum, samskiptum og orku.
Getur verið að stjórnvöld séu það gjörspillt, bæði hér heima og víðar um heim, að ákvarðanir ráðamanna snúist fyrst og fremst um að tryggja sér og sínum hagstæða framtíð, og að þetta sé orðið að hefð í stjórnmálum?
Það er ljóst að ef það er hagkvæmara fyrir ráðherra að gera ekki neitt heldur en að gera eitthvað, sama þó að það kosti ókunnuga þegna óþægindi og valdi einhverjum leiðindum, þá er það skárri kostur (fyrir þá) en að hugsanlega styggja þá sem láta peninginn vaxa á trjánum.
Það væri áhugavert að vita meira um bein hagsmunatengsl ráðherra og þingmanna, sem og skýr hagsmunatengsl gegnum maka, fjölskyldu og vini. Eru slík hagsmunatengsl og vinabönd skrímsli sem útilokað er að sigrast á? Eitthvað sem hefur alltaf fylgt okkur og mun alltaf fylgja okkur?
Aðrar færslur um sama mál:
Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?
Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu?
Heimildir og mynd af fjármálaráðherra: visir.is
Mynd af Agli Helgasyni: Eyjan.is
Logo Byr Sparisjóðs: Viðskiptablaðið
Mynd af ríku barni: Day by Day - Every day is a Saturday
Táknmynd af réttlæti: I'm Trying to Wake Up
Mynd af heilögum Georgi og drekanum: Illusions Gallery
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.8.2008 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hvernig ríkisstjórnin getur komið skuldurum til hjálpar þrátt fyrir verðtryggingar, gengisfellingu og verðbólgu
29.8.2008 | 19:04
Skammbyssur drepa ekki. Fólk drepur.
Þannig hljómar frægur frasi félags skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum.
Það sama má segja um hvaða tól og tæki sem er: það er ekki tækið sem slíkt sem er slæmt, heldur er raunin sú að hægt er að misnota öll tæki. Hægt er að nota bíl til að hringspóla á skólalóð. Hægt er að nota hamar til að brjóta rúður í verslunum.
Hægt er að misnota hvað sem er.
Verðtryggingin er slíkt tæki.
Verðtryggingin var upphaflega búin til sem svar við óðaverðbólgu, en óðaverðbólga er þegar kostnaður á vörum, þjónustu og launum hækkar stjórnlaust. Vilji fólks var ekki nægilega gott tæki til að stoppa verðbólguna, og því bjuggu einhverjir snillingar til verðtrygginguna, sem þýddi einfaldlega að þeir sem lánuðu pening, fengu aftur jafnverðmætan pening til baka, sama þó að verðgildi peningsins hefði breyst.
Þetta var sanngjarnt og gott ráð.
Gekk þetta vel í nokkra áratugi, en ekki lengur. Verðbólgan er farin af stað aftur, þrátt fyrir verðtrygginguna, og hugsanlega vegna hennar - þar sem hún tryggir að eigendur sparifjár tapi engu þó að þeir leiki sér svolítið með hagkerfið. Þeir sem eru tryggðir með verðtryggingum, geta einfaldlega ekki tapað. Hins vegar geta skuldarar tapað öllu sínu á einu bretti vegna verðtryggingar.
Þetta er frekar snúið, en jafnframt sáraeinfalt. Spurningin er einföld: hvort viljum við að eigendur taki á sig þá áhættu að tapa eigum sínum, eða að skuldarar sökkvi einfaldlega dýpra í skuldafenið? Valið er skýrt. Eigendur eru ekki í hættu, en skuldarar eru það. Vegna verðtryggingar.
Það versta við ástandið er ekki verðtryggingin sem slík, heldur sú staða sem komið hefur upp, að skuldarar eiga enga kosti í stöðunni aðra en að hafa lán sín verðtryggð. Íslendingar geta ekki tekið lán á sömu kjörum og aðrir Evrópubúar, því að steypueignir á Íslandi eru ekki metnar jafn mikils á alþjóðamarkaði og þær eru metnar innanlands.
Vandinn er sá að það eru engin úrræði fyrir skuldara, á meðan eigendur hafa endalaus úrræði. Af hverju hjálpa eigendur ekki skuldurum upp úr súpunni?
Jú, svarið virðist frekar einfalt. Besta hugsanlega verkfærið á þessari jörð eru manneskjur, og því meira sem manneskjan skuldar, því meira þarf hún að vinna. Þetta er reyndar algjörlega þvert á grundvallarkennisetningar kristinnar trúar þar sem manneskjan er óendanlega verðmæt og skal ekki notuð sem tól eða tæki, heldur borin óendanleg virðing fyrir henni sem vitundarveru í sjálfri sér, og þar af leiðandi er manneskja allt annað og miklu meira en tól eða tæki.
Fyrir hverja vinnur manneskjan? Fyrir eigendur. Og hvert fer hagnaðurinn? Fer hann til þeirra sem vinna eða þeirra sem eiga? Ef þú værir eigandi myndirðu vilja henda frá þér þeim drifkrafti sem gefur þér sífellt meiri auð? Að sjálfsögðu ekki.
Þannig að hugsanlega er dýpsti vandinn við efnahagsástandið á Íslandi í dag sá að ekki er vilji til staðar til að jafna aðstöðu eigenda og skuldara. Og það er ljóst að ef ríkið reyndi að jafna þennan mun yrði hún strax upphrópuð sem ættjarðarsvikari og kommúnisti.
Þetta er ekki ný saga, og engin auðveld lausn til staðar.
Ef ríkisstjórnin gæti bara hjálpað skuldurum sem vilja losna við skuldir sínar upp úr þeim, og finna leið fyrir þetta fólk sem mun ekki kosta það alla sína ævi, þá væri ríkið á réttri leið. En það er erfitt fyrir ríkisstjórnina að finna leiðir fyrir fólkið, því það eru alltof margir hagsmunaaðilar með puttana á stöðum þar sem puttar eiga ekki að vera.
Ef ríkisstjórnin eða Seðlabankinn gæti boðið almenningi lán á kjörum sem eru ekki háð íslensku krónunni, hugsanlega í Evrum, og opnaði þannig fólki leið út úr húsnæðiskrísunni sem gæti skollið á árið 2009, og leið út úr síhækkandi skuldum vegna verðbólgu og verðtryggingar, þá væri þessi ríkisstjórn búin að tryggja sér mitt atkvæði í næstu kosningum, sama hvað á undan hefur gengið.
Þetta er hægt.
Myndir:
Björgunarhringur:Google Image Listing
Fen: Sparrowflight13: Magic in the Air
Glöð manneskja: American Chronicle
Þumalfingur: Blacknight Soluctions
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.8.2008 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)