Færsluflokkur: Bloggar

Endurholdgun og karmalögmálið

Jón Þórhallsson gerði athugasemd við greinina Fyrirbærin sem skipta máli og spurði “Lítur þú svo á að endurholdgunar og karmalögmálið sé 100% staðreynd eða ekki? Y/N? (Jón Þórhallsson). Kærar þakkir fyrir spurninguna, Jón. 

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að ég er enginn sérfræðingur um endurholdgun eða karmalögmálið, en get velt þeim fyrir mér út frá þeim forsendum sem ég hef: reynslu og fyrri störfum, og vonandi get ég beitt gagnrýnni hugsun á viðeigandi hátt.

Endurholdgun má skilja á tvo vegu, annars vegar að þegar efnisleg lífvera deyr verði hún síðar að annarri lífveru. Það er auðvelt að ímynda sér þetta ferli. Ímyndum okkur lamb uppi á fjalli sem deyr af slysförum. Krummi kemur og kroppar í lambið, smám saman rotnar holdið og rennur ofan í svörðinn. Bitarnir sem krumminn gleypti verða hluti af honum og rotnandi líkaminn hluti af jörðinni. Þessir hlutar eiga það sameiginlegt að næra annars vegar krummann og hins vegar jörðina. Með tíð og tíma mun krumminn hverfa frá einhvern veginn, og gróður vaxa í jörðinni þar sem dauða lambið rotnaði sem síðar verður hugsanlega étinn af öðrum dýrum, og þannig heldur þetta efnislega líf áfram þrátt fyrir dauða. Út frá þessu sjónarhorni gæti ég samþykkt að endurholdgun sé staðreynd, og sjálfsagt væri hægt að sannreyna þetta ferli út frá vísindalegum kenningum og tilraunum.

En svo er það hin leiðin, sú trú að þegar manneskjan deyr endurfæðist hún í öðrum líkama, hugsanlega sem dýr, önnur manneskja eða sem himnesk vera, og að vitund þessarar manneskju lifi í þessu næsta lífi, og hafi í raun lifað í mörgum fyrri lífum. Þetta þýðir að hugur eða sál flakkar yfir í næsta líf og ber vitundina með sér. Þetta er erfiðara að sannreyna með endurteknum hætti, vísindalegum aðferðum og prófunum, og á ég því erfiðara með að samþykkja þetta sem staðreynd. Betra væri að kalla þetta hugmynd þar sem bæði hugur og sál eru fyrirbæri frekar en efnislegar verur. Það þýðir samt engan veginn að staðreynd hafi meira gildi en hugmynd eða fyrirbæri. Slíkt gildi hlýtur að vera bundið ólíkum heimsmyndum.

Getum við sagt að það sé staðreynd að við höfum öll huga? Til þess að átta okkur á því þurfum við að gera okkur grein fyrir því hvað hugur er. Er hugurinn eitthvað sem er til staðar? Á hann heima í heilanum, eða kannski í maganum? Er hann í fótum knattspyrnuknappa og í úlnliðum tennisstjörnunnar? Það er miklu auðveldara að sannreyna að við höfum öll heila, heldur en að við höfum öll huga. Samt höfum við líkast til langflest bæði heila og huga. Það er hægt að fullyrða að tungumálið og hvernig við tjáum okkar séu eiginleiki hugsunar, og þannig sönnun á að við séum með huga. Ég gæti samþykkt það að hugurinn sé staðreynd út frá slíkum rökum, en hvort að hann geti flakkað úr einu lífi í annað er önnur saga. Held að það sé meiri hugmynd um hvernig fyrirbærið hugur og endurholdgun virka.

Svo er það sálin. Er hún til? Er sálin sjálf staðreynd? Höfum við öll sál? Birtist sálin í einhverju sem við gerum, á svipaðan hátt og hugurinn birtist í tungumálinu og því sem við segjum? Getur verið að góðmennska og gjafmildi séu dæmi um birtingarmyndir sálarinnar?

Það er hægt að deila heilmikið um hvort að sálin sé til, hvort að það sé munur á sálinni og líkamanum, hvort að sálin stjórni líkamanum eða líkaminn sálinni. Einnig er hægt að halda því fram að sálin sé eitthvað sem verður til út frá menningarlegum og samfélagslegum aðstæðum, að sálin sé samansafn alls sem við erum og höfum lært. 

Hvort að sálin sem erfitt er að skilgreina og vera sammála um hvað er geti flakkað úr einu lífi í annað get ég ekki kallað staðreynd. Það sama á við um huga og sál þegar við tölum um flakk frá einu lífi til annars. Það er ekkert mál að gera sér það í hugarlund, en að kalla það staðreynd krefst sönnunargagna sem hægt verður að prófa frá ólíkum sjónarhornum þannig að sama niðurstaða endurtaki sig. Ég sé það ekki gerast. 

En svo að karmalögmálinu, hvort að það sé staðreynd. Karmalögmálið er sú hugmynd að ef við gerum eitthvað gott eða slæmt, þá fáum við það á endanum til baka á einhvern hátt. Þetta er trú á æðri máttarvöld sem sjá til þess að allir fái það sem þeir eiga skilið út frá því hvernig þeir hafa hagað sér í lífinu. Þetta er ekki staðreynd, heldur fyrirbæri sem við sjáum aðeins í huga okkar, en ekki eitthvað sem við getum sannreynt. Samt getur þetta fyrirbæri haft gríðarlegt gildi í menningu þar sem flestir trúa á karma, að líf okkar í næsta lífi verði betra en í þessu ef við högum okkur vel, en geti sokkið á neðra stig ef við högum okkur illa. 

Karma er keimlík hugmyndinni um réttlæti. Réttlætið er fyrirbæri sem manneskjur í vestrænum menningarheimi krefjast. Það þýðir ekki að réttlætið sé til, heldur að lögð sé gríðarleg vinna í að manneskjan geti upplifað réttlæti í lífinu. Lögregla, lögmenn, dómarar, þingmenn og fullt af aðstoðarfólki vinnur statt og stöðugt að því að setja saman og fylgja eftir mannanna lögum, til að búa til umhverfi sem heldur utan um fyrirbærið réttlæti. Skrifuð lög og framkvæmd þeirra getur verið staðreynd, en réttlætið sjálft er það ekki, það er fyrirbæri.

Samt hefur sú hugmynd að viðhalda réttlætinu gríðarlegt gildi fyrir flest samfélög, og þegar við sjáum réttlætinu ógnað bregðast sum okkar við og berjast fyrir því með kjafti og klóm, þó að það sé ekki staðreynd.


Fyrirbærin sem skipta máli

Staðreyndir eru ekki fyrirbæri. Þær eru bara. Það er hægt að skoða þær frá óteljandi sjónarhornum, en alltaf er staðreyndin sú sama.

Skoðun er fyrirbæri. Það flækist um huga okkar. Við höfum jafnvel skoðanir um staðreyndir, sem gerir þá staðreyndina í huga okkar að annars stigs fyrirbæri. Samt er staðreyndin ennþá þarna einhversstaðar úti. Hún breytist ekki. Skoðunin tifar eins og tíminn. Ekkert sem heldur henni kyrri.

Rökhugsun er fyrirbæri í huga okkar sem hefur þann ofurkraft að stoppa tímann. Við tengjum rökin í staðreyndir og sjáum að þessi bönd eru traust, en þegar við tengjum rökin í fyrirbæri, teygjast þau og slitna fljótt. 

Samsæriskenningar eru líka fyrirbæri - þær víxla staðreyndum og skoðunum, og rökin sem eru í raun veik virðast eins og marmarasúlur sem halda uppi musterum í skýjaborgum.

Þegar við lítum á sannleikann, þennan hlutlæga sannleika, það sem við sjáum öll út frá okkar eigin sjónarhorni, þá vitum við að hann er eitthvað miklu meira en fyrirbæri, en vitum líka að sjónarhorn okkar á honum er fyrirbæri í sjálfu sér. 

Það sem mig langar að segja er ansi fjarri því sem ég skrifaði hér að ofan. Mig langar að minnast á fyrirbæri sem skiptir máli. Það er að viðurkenna aðra manneskju, ekki bara fyrir það sem hún hefur gert, það sem hún getur, eða það sem hún mun geta gert, heldur fyrir það sem hún er, fyrir það eitt að vera til. Það eitt er nóg til að hún skipti máli. 

Það er staðreynd að manneskjan er til staðar, en það er fyrirbæri að bera nógu mikla virðingu fyrir henni til að viðurkenna hana fyrir það sem hún er.

Hvaða önnur fyrirbæri skipta máli sem ekki eru staðreyndir?


Hvernig greinum við milli falsfrétta og sannra upplýsinga?

Það er gríðarlega mikið af röngum upplýsingum á gangi víða um netið. Þær virðast smitast hraðar en Covid-19. En sannleikurinn er ennþá til staðar, við þurfum bara að beita gagnrýnni hugsun vel til að greina á milli þess sem er satt og ósatt, þess sem er byggt á staðreyndum og þess sem er byggt á skoðunum.

1. Gættu þín á sterkum tilfinningum

Þegar eitthvað truflar þig sérstaklega í fréttum, þegar þú fyllist annað hvort ótta eða reiði, þá skaltu spyrja þig: hvað er þetta? hvað er í gangi?

2. Kannaðu heimildir

Veltu fyrir þér hver er að segja frá og af hverju. Þú þarft ekki að finna nema eina lygi eða eitthvað eitt ósatt í því sem er sagt til að leyfa þér efasemdir. Ósannindi geta verið sögð með góðum tilgangi, en þegar kemur að sannleikanum mundu að tilgangurinn helgar ekki meðalið. Gott er að spyrja reglulega: "hvaðan koma þessar upplýsingar", hvort sem það er þegar þú ert að lesa eða hlusta á fréttina, eða spjalla um hana við vini og kunningja. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem allir geta birt skoðanir sínar eða sögur á netinu. Þetta á líka við um mig.

Þegar þú hefur lært hvaðan upplýsingarnar koma, leitaðu að frekari upplýsingum um manneskjuna og veltu fyrir þér hvort hún standi fyrir ákveðna hagsmuni, eða hafi sterkar skoðanir sem byggja á veikum grunni.

Ef fréttin er sérstaklega stuðandi, athugaðu hvernig hún er borin fram á öðrum miðlum. Skoðaðu málið frá fleiri hliðum en bara þeim sem þér líkar best. 

Athugaðu líka hvort að vefslóð fréttarinnar sé vafasöm, það er nefnilega töluvert um að róbótar semji falskar fréttir sem höfða til fólks út frá 'Like' sem það hefur merkt á samfélagsmiðla, eða jafnvel út frá vörum eða upplýsingum sem það hefur leitað eftir á netinu.

3. Áttaðu þig á áróðri

Áróður er þegar rökin eru einsleit og styðjast við rökvillur, eins og að einfalda hlutina of mikið, reynt að styðja við skoðun út frá vinsældum eða óvinsældum manneskju eða hóps, og þar fram eftir götunum. Með áróðri er reynt að vekja upp tilfinningar. Áróðurstækni er mikið notuð í auglýsingum hvern einasta dag, eins og til dæmis er Coca Cola oftast tengt við gleði og sælu, tannkrem tengt við bros, og þar fram eftir götunum. Þegar kemur að pólitískum áróðri er yfirleitt reynt að vekja óhug, eins og þegar nasistar lýstu gyðingum sem gráðugum og nískum rottum, eða þegar sagt er að hinn pólitíski andstæðingur muni gera líf þitt verra á einhvern hátt. 

Áróður er yfirleitt svarthvítur og flatur. Sannleikurinn er hins vegar í lit og þrívídd.

4. Passaðu þig á nettröllum

Nettröllin hafa minni áhuga á að ræða málin, heldur meiri áhuga á að trufla samræður og reita fólk til reiði. Ekki gefa tröllunum að éta, ekki láta þig trufla þig. Áttaðu þig á hver þau eru og láttu eins og þau séu ekki til. Þá hverfa þau.

5. Passaðu þig á samsæriskenningum

Samsæriskenningar hafa það sameiginlegt að sagt er frá einhverju svakalegu plotti einhvers hóps eða einstaklings sem ætlar svo sannarlega að gera einhverja hræðilega hluti. Yfirleitt eru þetta skemmtilegar sögur, en ekki samþykkja þær eða forsendur þeirra sem sannar, nema þær sannarlega séu það. Tilgangurinn með samsæriskenningum er yfirleitt að auka óöryggi fólks, en stundum er tilgangurinn einfaldlega sá að segja sögu. 

 

Mikilvægast af öllu er að átta þig á hvaðan þú færð upplýsingarnar sem þú færð, vera tilbúin(n) til að greina hvort að þínar eigin skoðanir og trú séu byggðar á því sem satt reynist, og vera sífellt reiðubúin(n) til að endurskoða og læra. 

Hver einasti dagur gefur okkur nýjar upplýsingar í heimi þar sem bæði þekking og veruleiki breytast hratt. Ef þú heldur í gamlar upplýsingar sem hugsanlega voru einhvern tíma viðteknar sem sannleikur, þarf ekki að vera að þær séu það lengur, þar sem við höfum öðlast dýpri þekkingu og skilning, eða þar sem heimurinn hefur breyst.

 

Þetta blogg er innblásið ef grein Alexander Slotten hjá NRK.


Kári og Covid

Íslensk erfðagreining tryggði að Íslendingar komu betur út úr fyrstu bylgju Covid-19 en flestar aðrar þjóðir, með því að skima Íslendinga, sem gerði stjórnvöldum fært að rekja fólk með appi og lögreglurannsóknarvinnu, aðskilnaði og einangrun.

Heilbrigðiskerfið fékk þar mikinn stuðning. Læknar og hjúkrunarfræðingar gátu brugðist við ástandinu án þess að kerfið félli saman, eins og gerst hefur í Svíþjóð, á Ítalíu og Spáni, Bandaríkjunum, Brasilíu og víðar.

Forsenda þess að halda veirunni niðri er að skima, rekja og einangra eftir þörf. Ef einn þáttinn vantar getur kerfið brugðist.

Kærar þakkir Kári og ÍE fyrir einstaka gjöf til þjóðarinnar sem hefur örugglega kostað fyrirtækið gríðarlegar fjárhæðir og tíma, en grætt mikið þegar kemur að velvild. Þessi gjöf er grundvöllur þess frelsis sem Íslendingar hafa upplifað frá 15. júní.

Vona að heilbrigt samband haldi áfram sem heldur Íslandi á farsælli braut, til þess að við sigrumst öll á erkifjendunum: fávisku, hroka og Covid-19.


Hugleiðing um rökvillur

poster

Að þekkja rökvillur er ein af undirstöðum gagnrýnnar hugsunar. Þær spretta stöðugt fram í samræðum og sérstaklega í pólitískum umræðum. Þær eru hannaðar til að sannfæra aðra um ágæti hugmynda, án þess að hugmyndin sé nauðsynlega ágæt. Þær eru blekkingar, sjónhverfingar tungumálsins, og gríðarlega áhrifaríkar. Í huga fræðimanns er notkun rökvillu sambærileg við þjófnað, þær eru röng leið til að hugsa og hegða sér. Samt er erfitt að komast hjá því að nota þær, og eitt af því sem er svo erfitt við fræði og vísindi er að það má ekki stytta sér leið, það þarf allt að vera rétt, og hið ranga smám saman veitt út úr umræðunni.

Af þessum sökum finnst mörgum fræðimál frekar leiðinlegt og langdregið, enda ljúga fræðimenn ekki, nema kannski lélegir fræðimenn, sem eru þá í raun ekki fræðimenn.

Það eru til gríðarlega langir listar um rökvillur, en það eru nokkrar sem vert er að benda á sem eru algengar í umræðunni. Hér eru örfá dæmi um rökvillur:

"Farið í manninn" (argumentum ad hominem) - í knattspyrnu er þetta kallað að fara í manninn frekar en boltann, sem þykir hættulegt á vellinum, og er alveg jafn rangt í umræðu. Þetta lýsir sér yfirleitt þannig að opinber manneskja lýsir yfir skoðun eða áliti, og þá eru viðbrögðin þannig að annað hvort sé skoðunin rétt eða röng vegna þess hvernig manneskjan kemur fram eða hvað hún hefur gert eða sagt áður. Réttast væri að meta málið út frá staðreyndum og reyna að átta sig á með skynsamlegum rökum hvað er satt og rétt, og mynda sér þannig skoðun. En það getur þótt auðvelt að dæma hratt út frá því hver talar eða hvernig er talað, og þannig er hægt að mynda sér ekki aðeins eina slaka skoðun, heldur mýgrút af þeim, sérstaklega ef sama aðferð er notuð margoft. 

"Strámaðurinn" - þetta er mjög algengt í umræðunni, að dregin er upp einfölduð mynd af einhverju máli og síðan rætt út frá einföldu myndinni, í stað þess að draga upp sanna og rétta mynd. Til dæmis þegar rætt er um hægri eða vinstri fólk, þá er verið að ofureinfalda fyrir hvað manneskjan stendur, eins og það séu ekki blæbrigði milli þess hvaða skoðanir og skilning fólk hefur óháð stjórnmálaskoðunum eða jafnvel trúarbrögðum?

"Að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram" - þetta er líka mjög algengt, og reyndar sýnist mér hún vera forsenda stjórnmálamenningar víða um heim. Fólk flokkar sér í ólíka hópa þar sem ákveðnar tilhneigingar til skoðana tengir það saman. Síðan reynir þetta fólk að vera samkvæmt sjálfu sér, eins og það að vera samkvæmur sjálfum sér með fyrirfram ákveðna skoðun sé mikilvægara en að líta fyrst og fremst á staðreyndir og rök hvers máls fyrir sig.

"Hál brekka" - það er algengt að þegar forsenda í umræðu er röng, en umræðan heldur áfram og gerir ráð fyrir að hún sé sönn og rétt, þá munu afleiddar niðurstöður líka vera rangar. Þannig verður ekki aðeins ein afstaða röng, heldur fjöldi þeirra sem byggir á upphaflegu afstöðunni. Þetta er eitt af því sem gerir það svo erfitt að skýra eigin hug, að hreinsa eigin hug af villum og rangtrú, það er svo margt rangt sem hefur síast inn frá barnsaldri, og ef aldrei er tekið til í hugarskotinu, stækka ranghugmyndirnar endalaust og ekkert fær þær bætt nema dauðinn og nýjar kynslóðir fólks sem hugsar betur.

Veltu þessu aðeins fyrir þér. Hefur einhver reynt að sannfæra þig frekar en að leiðbeina þér? Hefur þú reynt að sannfæra um hluti sem þú veist ekki, en heldur og hefur sterka skoðun um að séu réttir, frekar en að kafa dýpra í málin og velta þeim fyrir þér með rökum? Hefur þú stytt þér leið og viðtekið skoðanir með því að velja það sem þér líkar frekar en að velja það sem þú veist að er rétt?

Ég velti þessu oft fyrir mér, og samt tek ég eftir að inn í hugmyndaheim minn læðast ranghugmyndir sem ég þarf svo að uppræta, stundum stytti ég mér leið frekar en að grafast fyrir um hvað er satt og rétt. En hins vegar er ég meðvitaður um þennan veikleika, og held reyndar að þetta sé veikleiki í okkur flestum, ef ekki öllum, mannlegt fyrirbæri, og það að vita um þennan veikleika og vinna í honum, skiptir máli þegar maður myndar sér afstöðu um hvaða mál sem er.

 

Smelltu hér til að finna frekari upplýsingar um rökvillur á Wikipedia

 


Hugleiðing um muninn á fréttum og fölskum fréttum

CalvinHobbesTruth

Fréttir eru frásagnir af staðreyndum sem hafa gerst og hafa ákveðið mikilvægi, sem þýðir að oft þarf að setja fréttirnar í samhengi við aðra hluti sem eru að gerast.

Falskar fréttir eru frásagnir af skoðunum sem fólk hefur, og látið er eins og þessar skoðanir séu staðreyndir. Það að setja þessar skoðanir í samhengi við aðra hluti sem eru að gerast er líkast til litað af þessum skoðunum, og verður að samsæriskenningum frekar en frétt.

Þegar fréttamenn segja til dæmis frá stjórnmálamanni sem lýgur, þá er það frétt, þar sem slíkt er atlaga að sannleikanum, en sannleikurinn er bundinn, ekki aðeins fréttamennsku heilögum böndum, heldur samfélagssáttmálanum öllum. Án sannleikans veit fjöldinn ekki hvað er upp eða niður, á erfiðara með að átta sig á hvað er satt og hvað ósatt, sem getur skapað óvissu og sundrung. 

En hvað er sannleikurinn? Reynum að svara því.

Sannleikurinn er sambandið milli allra staðreynda sem eiga sér stað í heiminum og hvernig við hugsum um heiminn. Engin ein manneskja getur vitað af öllu sem hefur gerst, þannig að við þurfum að átta okkur á lögmálum sem hafa áhrif á það sem gerist. Til dæmis er mikilvægt fyrir okkur að skilja þyngdaraflið til að átta okkur á hvernig áhrif slys hafa á einstaka líf. Eins er mikilvægt fyrir okkur að skilja samfélagssáttmálann til að átta okkur á hvernig ósannindi þeirra sem hafa völdin hafa áhrif á líf þeirra sem lifa eftir sáttmálanum.

Við hugsum á ólíkan hátt. Öll hugsum við, en misdjúpt og misvel. Því dýpra sem við förum og því betur sem við þekkjum reglur rökhugsunar, og öll þau brögð og brellur sem virka til að rugla fólk í rýminu, því betra. Það er munur á fólki sem notar þessa þekkingu til að veita sannleikanum vegferð og þeim sem nota þessa þekkingu til að blekkja. Það er mikilvægt að skilja þennan greinarmun, og átta þig á hver reynir að blekkja þig og hver reynir að leiða sannleikann í ljós, því einum geturðu treyst en hinum ekki.

Ég ber gríðarlega virðingu fyrir stétt fréttafólks, sem vinnur að því hörðum höndum, nótt sem nýtan dag, að deila með okkur staðreyndum sem skipta máli fyrir okkur, afhjúpun blekkinga, útskýringu að samhengi, og vangaveltum um mögulegar afleiðingar. Þetta fólk heldur sannleikanum lifandi, rétt eins og læknar styðja að almennu heilbrigði. 

Svo eru það hinir sem flytja samsæriskenningar. Það er mikilvægt að hugsa djúpt og gagnrýnið, og skilja hverjir það eru sem flytja samsæriskenningar, sem hafa enga dýpri sönnunarbirgði en að einhver trúi kenningunni. 

Til dæmis er það samsæriskenning að CNN, BBC, Washington Post, New York Times og RÚV séu falsfréttastofur, enda vinna þær að því að finna sannleikanum farveg. Hins vegar gerist það stundum að fréttamenn gera mistök, og þá er mikilvægt fyrir viðtakendur að nýta virka gagnrýna hugsun. CNN hefur verið ásakað fyrir að vera falsfréttastofa fyrir það að benda á orð sem valdamenn hafa sagt, skoða þau í samhengi og velta fyrir sér hvað þau þýða fyrir framhaldið. Svo framarlega sem að stutt er við góða rökhugsun, og það viðmið að finna sannleikanum farveg, er slíkt ekki fölsk frétt. Hins vegar að kalla slíkar fréttar falskar fréttir, eru skoðanir, en ekki fréttir, og þá skoðanir sem tengjast hagsmunum og takmörkuðu samhengi frekar en víðara samhengi.

Sannar fréttir eru óþægilegar þeim sem reyna að fela hlutina, og reyna að spinna sögur sem henta eigin hagsmunum, því að sannleikurinn spillir lygafléttum. Það fer gríðarleg orka og peningur í að spinna sögur, semja pólitísk leikrit, til að fela sannleikann, skapa óvini og sundrung, til þess að viðhalda eigin hagsmunum og völdum. Því miður virkar þetta og hefur hræðileg áhrif á líf einstaklinga sem lifa í samfélögum þar sem slík spilling nær rótfestu.

Þessi spurning um muninn á fréttum og fölskum fréttum er gríðarlega mikilvæg, og hún er áberandi. Ef þú veifar henni í burtu og veitir henni ekki athygli, munu skoðanir þínar til framtíðar litast jafnt af sannindum sem ósannindum, en fyrir þá sem hugsa djúpt og gagnrýnið er markmiðið að hafa skoðanir sem eru einungis byggðar á því sem satt reynist, en útrýma hinu úr eigin hugarheimi, eða að minnsta kosti flokka það sem hyllingar, ímyndun eða sögur, frekar en eitthvað sem skynsamlegt er að lifa eftir.

 

Mynd: Twitter Calvin & Hobbes


Hugleiðing um auðmýkt og stolt

Ég hef verið að velta fyrir mér leiðtogum. Suma met ég sem slæma og aðra sem góða. Þeir slæmu held ég að séu fullir stolts, en hinir góðu fullir af auðmýkt. Ég tengi stolt við fáfræði og skort á mannúð, en auðmýkt við visku og mannúð.

Ef þú gætir valið um hvernig þú bregst við öllum aðstæðum í þínu lífi, og þú hefur sannarlega þetta val, hvort gæfi þér farsælla líf, að bregðast við og framkvæma með auðmýkt eða stolti? Hvort væri líklegra til að veita þér hamingju?

Hugsaðu þér tvo kennara. Annar er stoltur, hinn er auðmjúkur. Sá stolti flytur fyrirlestra af miklum móð og útvarpar eigin hugarheimi, sá auðmjúki hlustar á nemendur sína og reynir að skilja veröld þeirra. Sá stolti veit hlutina með fullvissu, en sá auðmjúki leyfir sér að efast. Fullvissan er þó aðeins trú, jafnvel blindgata, og efasemdin upphafið að leit, jafnvel leiðangri.

Hugsum okkur mann sem nær glæsilegum árangri, á hvaða sviði sem er, í viðskiptum, listum, íþróttum, frægð, hverju sem er. Það er ekkert auðveldara en fyrir hann en að fyllast stolti, þykjast fyrir sjálfum sér og heiminum að hann sé betri en allir aðrir, og segjum að hann komi þannig fram, eins og hann sé sá besti og allir aðrir verri. Sumir munu dýrka og dásama þennan merka mann, aðrir munu sjá í gegnum hann og andvarpa með vorkunn. Að sjá sjálfan sig í hyllingum er ósönn mynd sem fyrr eða síðar mun valda vonbrigðum.

Segjum að þessi einstaklingur átti sig á að hann hafi ekki sýnt viðeigandi auðmýkt, að hann hafi verið í skýjunum, og ákveði að jarðtengja sig, og jafnvel gera lítið úr eigin afrekum, en því meira úr árangri þeirra sem eru í kringum hann. Þegar honum er hælt, bendir hann á að aðrir hafi nú afrekað meira, eða jafnvel að þetta sé bara tímabundinn sigur, að innan aldar verði hann hugsanlega ekkert annað en mold, aska, gufa eða andardráttur, og spyr jafnvel hvort raunverulegur munur sé á honum í dag og því fyrirbæri sem verði eftir af honum eftir hundrað eða þúsund ár.

Hvernig áhrif ætli stoltið eða auðmýktin hafi á heimsmynd, hugarheim og líf manneskjunnar, og hvernig áhrif hefðu þessi viðmót á fólkið í kring?


Gullkorn frá Ómari Ragnarssyni - fyrir 12 árum

Er að fara yfir gamlar bloggfærslur.

Ég hef síðan ég man eftir mér haft gaman af Ómari Ragnarssyni, hlustaði á plöturnar hans sem krakki, hitti hann stundum og spjallaði við á skákmótum þar sem hann fylgdist með (efast um að hann muni eftir því - kæmi mér á óvart), og hef fylgst með sjónvarpsævintýrum hans, og dáðst að ljóðum og söngtextum hans. Síðast þegar ég sá hann var það á Ellý í Borgarleikhúsinu þar sem Ragnar Bjarnason tók lagið í lokin og heiðraði vin sinn Ómar með fallegum orðum, sjálfur sat ég ásamt kærustunni aftarlega í salnum.

Það var fyrir um 12 árum að ég skrifaði kvikmyndarýni um Bond myndina "Quantum of Solace", og hafði einhvern veginn misst af virkilega góðri athugasemd frá Ómari, algjöru gullkorni. Svona hljómar það:

 

Ég hef ekki séð þessa nýjustu Bond-mynd og skal því ekki dæma um hana. Ég vil hins vegar benda á eitt atriði í sagnalist sem er það að ákveðin atriði megi ekki vanta í þáttaröðum eða sagnaröðum.

Það er runnið öllum í merg og bein frá barnæsku og felst í bón barnsins: "Segðu mér söguna aftur."

Dæmi um þetta er hið sígilda atriði úr Colombo-þáttunum þar sem hann fer út og krimminn andar léttara, en kemur síðan aftur og ergir hann og æsir.

Í sjónvarpsþáttum Jackie Gleason hér í gamla daga var alltaf eitt atriði þar sem ein týpan á við hann orðræðu sem endaði alltaf með því sama, að Gleason missti þolinmæðina eftir að hafa þurft að hlusta of lengi á bullið og hrópaði æstur: "All-right !!! "

Í myndunum um bleika pardusinn voru föst atriði sem ekki máttu missa sín.

Maður beið alltaf eftir þessum augnablikum og hafði alltaf jafn gaman af.

Það er að mínu viti mjög misráðið að fella slíka klassík út úr þáttaröðum. Setning Björgvins Halldórssonar, - "bolurinn vill helst sjá og heyra það sem hann þekkir" hefur nefnilega mikið til síns máls.

Þótt örfá klassísk augnablik fái að halda sér í Bond-mynd gefast nóg tækifæri í bíómynd af fullri lengd til að koma með nýjungar.

Ómar Ragnarsson, 9.11.2008 kl. 14:36

 

Ég er þakklátur fyrir alla þá bloggvini sem ég eignaðist á árunum sem ég skrifaði reglulega á Moggabloggið, en hef eins og flestir aðrir sogast inn á Facebook þar sem ég skrifa reyndar mest á ensku þar sem vinir mínir eru alls staðar að og ég bý erlendis. Held mig langi til að byrja aftur að feta mig áfram á blog.is - fæ mikið út úr því.

Langar að senda Ómari kærar þakkir fyrir þessa athugasemd. Það er margt af henni að læra, og ég er sammála, að þessi endurteknu augnablik eru gríðarlega mikilvæg, kannski kjarni í sögum sem geta gleymst vegna kröfu um frumleika eða kannski skort á viskunni sem felst í orðum Ómars.  

Og þessi setning Björgvins Halldórs er tær snilld: "Bolurinn vill helst sjá og heyra það sem hann þekkir"

Takk Ómar, þú ert gersemi!


Hvernig hugsar þú?

thinking-in-a-foreign-language-e1479154410182

Ég hef verið að lesa mér til gagns og gamans "How we Think" eftir John Dewey. Hann veltir fyrir sér ólíkum hugsunarháttum, áður en hann fer að velta fyrir sér hvernig þessir ólíku hugsunarhættir hafa áhrif á hvernig við lifum lífi okkar, ákvarðar hvað við gerum og hvernig við höfum áhrif á heiminn og annað fólk, útfrá því hvernig við hugsum.

Hægt er að skilja þessa hugsunarhætti sem fjögur lög. Efsta lagið er yfirborðskenndast, en fjórða lagið ristir dýpst og líklegast til að ná taki á kjarna málsins.

Ímyndum okkur fjórar manneskjur. Þær fæðast inn í ákveðna fjölskyldu og samfélag, og eru menntaðar til að passa fullkomlega í kerfið, því að þannig er það bara.

 

1. Flæði

Hugsun er ekkert annað en það sem birtist manni af einhverri ástæðu, það sem manni dettur í hug, það sem streymir gegnum hugann. Þessi hugsunarháttur hefur enga meðvitað stjórnun, er frekar tilviljanakenndur og fer úr einu í annað. Manneskja sem lifir lífinu eftir þessum hætti er svolítið eins og fiskur. Leitar eftir eftir æti, skjóli og kynlífi, og fátt annað skiptir máli. Hlutirnir reddast af sjálfu sér. 

Segjum að einhver sem hugsar svona kafi aldrei dýpra í hugsun, og er spurð spurningarinnar: hugsar þú?

Svar hennar er, 'já, að sjálfsögðu'.

 

2. Tengingar

Hugsun er ekkert annað en þegar eitt tengist einhverju öðru. Til dæmis hlustum við á sögu og spyrjum hvort hún hafi átt sér stað í veruleikanum. Svarið skiptir litlu máli í sjálfu sér. Manneskja sem hugsar í tengingum veltir mikið fyrir sér hvernig manneskjur tengjast saman, skyldleikum og samböndum. Þessi manneskja gæti hugsanlega staldrað við í þessum hugsunarhætti og aldrei farið dýpra. Kannski yrði slík manneskja góður miðill eða almannatengill. 

Segjum að einhver sem hugsar svona kafi aldrei dýpra í hugsun, og er spurð spurningarinnar: hugsar þú?

Svar hennar er, 'já, að sjálfsögðu'.

 

3. Samþykki eða höfnun

Hugsun er að samþykkja eða hafna skoðunum og trú, óháð hvernig þessi fyrirbæri síast inn í hugann. Til dæmis er manneskja sem fæðist inn í trúaða fjölskyldu líkleg til að trúa líka, því að hugsunarhátturinn sem felst í að meðtaka trúna er hluti af því sem er ásættanlegt í viðkomandi umhverfi. Það sama gildir um ólík trúarbrögð eða trúleysi. Það eru alls konar hlutir sem við ómeðvitað samþykkjum eða höfnum, og tökum aldrei til í huga okkar til að komast að hvaða hugmyndir okkar eru sannarlega sannar eða ósannar. Hefð og þrjóska geta verið ríkjandi í þessum hugsunarhætti.

Trúarbrögð og stjórnmálaskoðanir byggja á þessum hugsunarhætti, þar sem flestir virðast enda á þessu stigi án þess að nauðsynlega vilja kafa dýpra. Þess vegna eru stjórnmálaflokkar yfirleitt reistir á viðteknum skoðunum, og ætlast er til að allir í flokknum styðji þessar skoðanir og vinni að því að gera þær að veruleika í samfélaginu. Mig grunar að það sé rökvilla í forsendum stjórnmálaflokka, að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram, en það er önnur saga. 

Segjum að einhver sem hugsar svona kafi aldrei dýpra í hugsun, og er spurð spurningarinnar: hugsar þú?

Svar hennar er, 'já, að sjálfsögðu'.

 

4. Gagnrýnin hugsun

Þetta er dýpsta stigið, sem innifelur að sjálfsögðu öll þau fyrri, en í stað þess að leyfa hugsunum aðeins að fljóta að feigðarósi, er þeim stýrt af færum skipstjóra. Í stað þess að tengja saman hluti á tilviljunarkenndan hátt, er reynt að finna út hvernig þessar tengingar virka og hafa áhrif á stóru myndina, og hvort þessar tengingar skipti í stóra samhenginu einhverju máli. Í stað þess að trúa blint vegna þess að við höfum alist þannig upp, spyrjum við af hverju við trúum því sem við trúum, við spyrjum okkur af hverju við höfum þá skoðun sem við höfum. Þetta er ekki einfalt ferli, þetta krefst umhugsunar, þetta krefst þess að maður læri um regluverk hugsunarinnar: rökhugsun, að maður átti sig á gildrunum, rökvillunum, að maður skilji hvernig þversagnir hjálpa okkur til að kafa dýpra, að við skiljum að þegar við áttum okkur ekki á hlutunum, er tækifæri til að læra.

Segjum að einhver sem hugsar svona er spurð spurningarinnar: hugsar þú?

Svar hennar er, 'það fer eftir hvað þú meinar með hugsun'.

 

Og nú spyr ég þig lesandi góður: hvernig hugsar þú?

 

Mynd: Homer Simpson eftir Matt Groening


Þegar kjörnir stjórnmálamenn brjóta af sér

Það er ekki hægt að krefja stjórnmálamann um afsögn eða reka hann úr starfi, sama hvað á dynur. Það verður að bíða í nokkur ár þangað til kosið verður að nýju. 

Ætti þetta að vera svona?

Er hægt að laga biluð kerfi?

Þegar þú stendur ekki við kosningaloforð þín er sjálfsagt að þú fáir ekki kosningu aftur. Samt gerist það oft. Lítið við því að gera.

En þegar stjórnmálamaður brýtur gegn siðareglum eða lögum er málið mun alvarlegra. Þegar stjórnmálamaður brýtur gegn alvarlegri siðareglu, gengur bókstaflega fram af fólki, þá er engin leið til að losna við viðkomandi önnur en að þvinga hann eða hana til að segja af sér, sem annað hvort gerist eða ekki. Sé viðkomandi siðspilltur og eigingjarn, mun hann sitja sem fastast. Hafi hann smá vit í kollinum, segir hann af sér og fer að gera eitthvað betra við tíma sinn.

Væri ekki betra að hafa ferli fyrir svona lagað?

Það er áhugaverður stigsmunur, og kannski eðlismunur á siðareglum annars vegar og lögum hins vegar, og það má spyrja hvort sé mikilvægara fyrir þá sem setja okkur reglur, að hafa siðferðið í lagi eða fara eftir lögum. Kannski bæði. Siðferðið er nefnilega alltaf grundvöllur laganna.

Það er ljóst að með siðferðilega vafasamri hegðun tapa stjórnmálamenn trausti umbjóðenda sinna. Það er svo augljóst að ekki þarf að útskýra það. Það sést úr flugvél. Þegar stjórnmálamaður er ásakaður um slíka hegðun, væri þá ekki réttast að senda málið til umfjöllunar siðanefndar, sem fjallar um málið af hlutleysi, og getur síðan metið hvort að viðkomandi verði hugsanlega vikið úr stjórnmálum, og þá með lýðræðislegum hætti, hugsanlega með sérstökum kosningum? Stjórnmálamaður sem brýtur lög ætti ekki að geta setið áfram af eigin vilja, af sömu ástæðu. 

Myndi slíkt ferli hefta frjálsa tjáningu, eða gera það að verkum að fólk í leiðtogastöðu gætti sín aðeins betur, talaði betur um annað fólk? Myndi það byrja á að forðast spillingu og berjast gegn henni í stað þess að falla í meðvirkni?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband