Hugleiðing um muninn á fréttum og fölskum fréttum

CalvinHobbesTruth

Fréttir eru frásagnir af staðreyndum sem hafa gerst og hafa ákveðið mikilvægi, sem þýðir að oft þarf að setja fréttirnar í samhengi við aðra hluti sem eru að gerast.

Falskar fréttir eru frásagnir af skoðunum sem fólk hefur, og látið er eins og þessar skoðanir séu staðreyndir. Það að setja þessar skoðanir í samhengi við aðra hluti sem eru að gerast er líkast til litað af þessum skoðunum, og verður að samsæriskenningum frekar en frétt.

Þegar fréttamenn segja til dæmis frá stjórnmálamanni sem lýgur, þá er það frétt, þar sem slíkt er atlaga að sannleikanum, en sannleikurinn er bundinn, ekki aðeins fréttamennsku heilögum böndum, heldur samfélagssáttmálanum öllum. Án sannleikans veit fjöldinn ekki hvað er upp eða niður, á erfiðara með að átta sig á hvað er satt og hvað ósatt, sem getur skapað óvissu og sundrung. 

En hvað er sannleikurinn? Reynum að svara því.

Sannleikurinn er sambandið milli allra staðreynda sem eiga sér stað í heiminum og hvernig við hugsum um heiminn. Engin ein manneskja getur vitað af öllu sem hefur gerst, þannig að við þurfum að átta okkur á lögmálum sem hafa áhrif á það sem gerist. Til dæmis er mikilvægt fyrir okkur að skilja þyngdaraflið til að átta okkur á hvernig áhrif slys hafa á einstaka líf. Eins er mikilvægt fyrir okkur að skilja samfélagssáttmálann til að átta okkur á hvernig ósannindi þeirra sem hafa völdin hafa áhrif á líf þeirra sem lifa eftir sáttmálanum.

Við hugsum á ólíkan hátt. Öll hugsum við, en misdjúpt og misvel. Því dýpra sem við förum og því betur sem við þekkjum reglur rökhugsunar, og öll þau brögð og brellur sem virka til að rugla fólk í rýminu, því betra. Það er munur á fólki sem notar þessa þekkingu til að veita sannleikanum vegferð og þeim sem nota þessa þekkingu til að blekkja. Það er mikilvægt að skilja þennan greinarmun, og átta þig á hver reynir að blekkja þig og hver reynir að leiða sannleikann í ljós, því einum geturðu treyst en hinum ekki.

Ég ber gríðarlega virðingu fyrir stétt fréttafólks, sem vinnur að því hörðum höndum, nótt sem nýtan dag, að deila með okkur staðreyndum sem skipta máli fyrir okkur, afhjúpun blekkinga, útskýringu að samhengi, og vangaveltum um mögulegar afleiðingar. Þetta fólk heldur sannleikanum lifandi, rétt eins og læknar styðja að almennu heilbrigði. 

Svo eru það hinir sem flytja samsæriskenningar. Það er mikilvægt að hugsa djúpt og gagnrýnið, og skilja hverjir það eru sem flytja samsæriskenningar, sem hafa enga dýpri sönnunarbirgði en að einhver trúi kenningunni. 

Til dæmis er það samsæriskenning að CNN, BBC, Washington Post, New York Times og RÚV séu falsfréttastofur, enda vinna þær að því að finna sannleikanum farveg. Hins vegar gerist það stundum að fréttamenn gera mistök, og þá er mikilvægt fyrir viðtakendur að nýta virka gagnrýna hugsun. CNN hefur verið ásakað fyrir að vera falsfréttastofa fyrir það að benda á orð sem valdamenn hafa sagt, skoða þau í samhengi og velta fyrir sér hvað þau þýða fyrir framhaldið. Svo framarlega sem að stutt er við góða rökhugsun, og það viðmið að finna sannleikanum farveg, er slíkt ekki fölsk frétt. Hins vegar að kalla slíkar fréttar falskar fréttir, eru skoðanir, en ekki fréttir, og þá skoðanir sem tengjast hagsmunum og takmörkuðu samhengi frekar en víðara samhengi.

Sannar fréttir eru óþægilegar þeim sem reyna að fela hlutina, og reyna að spinna sögur sem henta eigin hagsmunum, því að sannleikurinn spillir lygafléttum. Það fer gríðarleg orka og peningur í að spinna sögur, semja pólitísk leikrit, til að fela sannleikann, skapa óvini og sundrung, til þess að viðhalda eigin hagsmunum og völdum. Því miður virkar þetta og hefur hræðileg áhrif á líf einstaklinga sem lifa í samfélögum þar sem slík spilling nær rótfestu.

Þessi spurning um muninn á fréttum og fölskum fréttum er gríðarlega mikilvæg, og hún er áberandi. Ef þú veifar henni í burtu og veitir henni ekki athygli, munu skoðanir þínar til framtíðar litast jafnt af sannindum sem ósannindum, en fyrir þá sem hugsa djúpt og gagnrýnið er markmiðið að hafa skoðanir sem eru einungis byggðar á því sem satt reynist, en útrýma hinu úr eigin hugarheimi, eða að minnsta kosti flokka það sem hyllingar, ímyndun eða sögur, frekar en eitthvað sem skynsamlegt er að lifa eftir.

 

Mynd: Twitter Calvin & Hobbes


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hlutlaus fréttaskrif eru ekki til, því allir blaðamenn hafa einhverjar skoðanir á því sem þeir skrifa um.

Þeir ákveða til að mynda hverju þeir segja frá í viðkomandi frétt og hverju þeir sleppa.

Í fréttinni byrja þeir á að nefna það sem þeir telja aðalatriði fréttarinnar og segja síðast frá því sem þeir telja skipta minnstu máli.

Að lokum er fyrirsögn fréttarinnar skrifuð og blaðamaðurinn skrifar hana útfrá því sem hann telur vera aðalatriði fréttarinnar.

Þar að auki gæti fréttastjóri breytt fyrirsögninni og stytt fréttina, og þannig breytt henni verulega samkvæmt sinni skoðun á málinu, sem gæti farið eftir stjórnmálaskoðunum hans.

Annar blaðamaður gæti skrifað allt öðruvísi frétt um nákvæmlega sama málefni og engir tveir menn hafa nákvæmlega sömu skoðanir á öllum hlutum.

Og ritstjórinn getur tekið ákvörðun um hvaða fréttir eru birtar á forsíðu blaðsins.

Fréttastjóri getur beðið blaðamann um að skrifa fréttaskýringu um ákveðið málefni og hún byggist einnig á skoðunum viðkomandi blaðamanns á því hvað telst vera aðalatriði málsins.

Fjölmargt sem telst vera sannindi er það ekki lengur eftir til dæmis tvo áratugi og þannig er sífellt verið að breyta kennslubókum.

Það sem almennt var talið í lagi hér á Íslandi að segja um til að mynda svart fólk og fatlaða fyrir nokkrum áratugum er það ekki lengur.

Tveir ljósmyndarar geta einnig tekið tvær gjörólíkar myndir af mannfjölda í mótmælum á Austurvelli, þannig að á annarri myndinni virðist vera margt fólk en á hinni tiltölulega fáir.

Eru margar eða fáar verslanir á Laugaveginum hér í Reykjavík, koma þangað margir eða fáir og eru mörg eða fá verslunarrými laus í götunni?

Á Laugavegi eru 140 verslunar- og þjónusturými f
rá Bankastræti að Snorrabraut og ef 7 þeirra eru laus eru þau 5% af heildarfjöldanum.

Eru 5% mikið eða lítið? Laugavegurinn er mesta verslunargata landsins og árið 2017 gengu eða hjóluðu neðst á Laugaveginum 17 þúsund manns á dag að meðaltali, um sex milljónir manna á ári. Er það mikið eða lítið hér á Íslandi?

Upphæð húsaleigu verslunarhúsnæðis fer eftir eftirspurninni á viðkomandi svæði og er hún há eða lág á Laugaveginum?

Þorsteinn Briem, 20.6.2020 kl. 09:32

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 20.6.2020 kl. 09:41

3 Smámynd: Örn Einar Hansen

CNN, Washington Post og þá sérstaklega New York TImes eru fals fréttastofur. Þær flytja ekki fréttir, heldur pólitískan áróður ... Fox dansar á línunni, með að hafa "báðar hliðar" í fluttningi sínum ... BBC, er ríkisrekið og eins og RÚV, ekki lengur hlutlaust. BBC, í dag myndi aldrei leifa Monty Python, til dæmis.

Menn hugsa alltaf um "sannleika", sem absolutum.  Það finnst enginn alheims sannleikur ... það sem þú upplifir að sé sannleikur, er subjective truth ... subjectio sem í raun þýðir "rangt, eða svindl".

Örn Einar Hansen, 20.6.2020 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband