Gullkorn frá Ómari Ragnarssyni - fyrir 12 árum

Er að fara yfir gamlar bloggfærslur.

Ég hef síðan ég man eftir mér haft gaman af Ómari Ragnarssyni, hlustaði á plöturnar hans sem krakki, hitti hann stundum og spjallaði við á skákmótum þar sem hann fylgdist með (efast um að hann muni eftir því - kæmi mér á óvart), og hef fylgst með sjónvarpsævintýrum hans, og dáðst að ljóðum og söngtextum hans. Síðast þegar ég sá hann var það á Ellý í Borgarleikhúsinu þar sem Ragnar Bjarnason tók lagið í lokin og heiðraði vin sinn Ómar með fallegum orðum, sjálfur sat ég ásamt kærustunni aftarlega í salnum.

Það var fyrir um 12 árum að ég skrifaði kvikmyndarýni um Bond myndina "Quantum of Solace", og hafði einhvern veginn misst af virkilega góðri athugasemd frá Ómari, algjöru gullkorni. Svona hljómar það:

 

Ég hef ekki séð þessa nýjustu Bond-mynd og skal því ekki dæma um hana. Ég vil hins vegar benda á eitt atriði í sagnalist sem er það að ákveðin atriði megi ekki vanta í þáttaröðum eða sagnaröðum.

Það er runnið öllum í merg og bein frá barnæsku og felst í bón barnsins: "Segðu mér söguna aftur."

Dæmi um þetta er hið sígilda atriði úr Colombo-þáttunum þar sem hann fer út og krimminn andar léttara, en kemur síðan aftur og ergir hann og æsir.

Í sjónvarpsþáttum Jackie Gleason hér í gamla daga var alltaf eitt atriði þar sem ein týpan á við hann orðræðu sem endaði alltaf með því sama, að Gleason missti þolinmæðina eftir að hafa þurft að hlusta of lengi á bullið og hrópaði æstur: "All-right !!! "

Í myndunum um bleika pardusinn voru föst atriði sem ekki máttu missa sín.

Maður beið alltaf eftir þessum augnablikum og hafði alltaf jafn gaman af.

Það er að mínu viti mjög misráðið að fella slíka klassík út úr þáttaröðum. Setning Björgvins Halldórssonar, - "bolurinn vill helst sjá og heyra það sem hann þekkir" hefur nefnilega mikið til síns máls.

Þótt örfá klassísk augnablik fái að halda sér í Bond-mynd gefast nóg tækifæri í bíómynd af fullri lengd til að koma með nýjungar.

Ómar Ragnarsson, 9.11.2008 kl. 14:36

 

Ég er þakklátur fyrir alla þá bloggvini sem ég eignaðist á árunum sem ég skrifaði reglulega á Moggabloggið, en hef eins og flestir aðrir sogast inn á Facebook þar sem ég skrifa reyndar mest á ensku þar sem vinir mínir eru alls staðar að og ég bý erlendis. Held mig langi til að byrja aftur að feta mig áfram á blog.is - fæ mikið út úr því.

Langar að senda Ómari kærar þakkir fyrir þessa athugasemd. Það er margt af henni að læra, og ég er sammála, að þessi endurteknu augnablik eru gríðarlega mikilvæg, kannski kjarni í sögum sem geta gleymst vegna kröfu um frumleika eða kannski skort á viskunni sem felst í orðum Ómars.  

Og þessi setning Björgvins Halldórs er tær snilld: "Bolurinn vill helst sjá og heyra það sem hann þekkir"

Takk Ómar, þú ert gersemi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnarsson er öfgakarl á öllum sviðum og þar að auki mesti hrakfallabálkur landsins. cool

Þorsteinn Briem, 8.6.2020 kl. 01:55

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnarsson er til að mynda hið dæmigerða "fórnarlamb", er í stöðugum vandræðum og fátt honum sjálfum að kenna. cool

Karlinn tekur þátt í nær öllum mótmælum og er mesti hrakfallabálkur landsins, miðað við þær sögur sem hann segir af sjálfum sér hér á Moggablogginu.


En árangurinn af öllum þessum mótmælum er nær enginn.

Íslenskir menn hrella karlinn á erlendum veitingastöðum og í millilandaflugvélum, stolið er af honum myndavélum, fartölvum, bensíni, dekkjum og bílum, lögreglan handtekur hann í Gálgahrauni og fyrir að stela sínum eigin bíl, hann lendir í umferðarslysum og flugslysum, og menn ráðast á hann í umferðinni, svo eitthvað sé nefnt. cool

Þorsteinn Briem, 8.6.2020 kl. 02:12

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þorsteinn: er ekki málið að Ómar er svo mikill athafnamaður að hann hlýtur að lenda í vandræðum, öðruvísi en allir þeir sem sitja heima í sófa án þess að voga sér út í svipuð ævintýri?

Hrannar Baldursson, 8.6.2020 kl. 06:52

4 identicon

Ómar er þjóðargersemi en sussum ekki gallalaus sem slíkur.

Ég ætlaði að fara að hnýta í Steina fyrir innslagið en sá svo að þetta er náttúrulega allt satt. 

Einni sögu man ég eftir úr bloggi frá Ómari þar sem hann var næstum búinn að drepa mótorhjólamann með því að keyra fyrir hann við Skeiðavegamót. 

Vegamót sem ég fer oft um og upplifi ekki sem hættuleg, bara að stoppa og gá áður en maður keyrir inn á hringveginn. 

Ástæðan hjá Ómari, skilti skyggði á mótorhjólamanninn. 

En auðvitað er Ómar frábær. Frjósemin á blogginu með ólíkindum. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.6.2020 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband