Hugleiðing um rökvillur

poster

Að þekkja rökvillur er ein af undirstöðum gagnrýnnar hugsunar. Þær spretta stöðugt fram í samræðum og sérstaklega í pólitískum umræðum. Þær eru hannaðar til að sannfæra aðra um ágæti hugmynda, án þess að hugmyndin sé nauðsynlega ágæt. Þær eru blekkingar, sjónhverfingar tungumálsins, og gríðarlega áhrifaríkar. Í huga fræðimanns er notkun rökvillu sambærileg við þjófnað, þær eru röng leið til að hugsa og hegða sér. Samt er erfitt að komast hjá því að nota þær, og eitt af því sem er svo erfitt við fræði og vísindi er að það má ekki stytta sér leið, það þarf allt að vera rétt, og hið ranga smám saman veitt út úr umræðunni.

Af þessum sökum finnst mörgum fræðimál frekar leiðinlegt og langdregið, enda ljúga fræðimenn ekki, nema kannski lélegir fræðimenn, sem eru þá í raun ekki fræðimenn.

Það eru til gríðarlega langir listar um rökvillur, en það eru nokkrar sem vert er að benda á sem eru algengar í umræðunni. Hér eru örfá dæmi um rökvillur:

"Farið í manninn" (argumentum ad hominem) - í knattspyrnu er þetta kallað að fara í manninn frekar en boltann, sem þykir hættulegt á vellinum, og er alveg jafn rangt í umræðu. Þetta lýsir sér yfirleitt þannig að opinber manneskja lýsir yfir skoðun eða áliti, og þá eru viðbrögðin þannig að annað hvort sé skoðunin rétt eða röng vegna þess hvernig manneskjan kemur fram eða hvað hún hefur gert eða sagt áður. Réttast væri að meta málið út frá staðreyndum og reyna að átta sig á með skynsamlegum rökum hvað er satt og rétt, og mynda sér þannig skoðun. En það getur þótt auðvelt að dæma hratt út frá því hver talar eða hvernig er talað, og þannig er hægt að mynda sér ekki aðeins eina slaka skoðun, heldur mýgrút af þeim, sérstaklega ef sama aðferð er notuð margoft. 

"Strámaðurinn" - þetta er mjög algengt í umræðunni, að dregin er upp einfölduð mynd af einhverju máli og síðan rætt út frá einföldu myndinni, í stað þess að draga upp sanna og rétta mynd. Til dæmis þegar rætt er um hægri eða vinstri fólk, þá er verið að ofureinfalda fyrir hvað manneskjan stendur, eins og það séu ekki blæbrigði milli þess hvaða skoðanir og skilning fólk hefur óháð stjórnmálaskoðunum eða jafnvel trúarbrögðum?

"Að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram" - þetta er líka mjög algengt, og reyndar sýnist mér hún vera forsenda stjórnmálamenningar víða um heim. Fólk flokkar sér í ólíka hópa þar sem ákveðnar tilhneigingar til skoðana tengir það saman. Síðan reynir þetta fólk að vera samkvæmt sjálfu sér, eins og það að vera samkvæmur sjálfum sér með fyrirfram ákveðna skoðun sé mikilvægara en að líta fyrst og fremst á staðreyndir og rök hvers máls fyrir sig.

"Hál brekka" - það er algengt að þegar forsenda í umræðu er röng, en umræðan heldur áfram og gerir ráð fyrir að hún sé sönn og rétt, þá munu afleiddar niðurstöður líka vera rangar. Þannig verður ekki aðeins ein afstaða röng, heldur fjöldi þeirra sem byggir á upphaflegu afstöðunni. Þetta er eitt af því sem gerir það svo erfitt að skýra eigin hug, að hreinsa eigin hug af villum og rangtrú, það er svo margt rangt sem hefur síast inn frá barnsaldri, og ef aldrei er tekið til í hugarskotinu, stækka ranghugmyndirnar endalaust og ekkert fær þær bætt nema dauðinn og nýjar kynslóðir fólks sem hugsar betur.

Veltu þessu aðeins fyrir þér. Hefur einhver reynt að sannfæra þig frekar en að leiðbeina þér? Hefur þú reynt að sannfæra um hluti sem þú veist ekki, en heldur og hefur sterka skoðun um að séu réttir, frekar en að kafa dýpra í málin og velta þeim fyrir þér með rökum? Hefur þú stytt þér leið og viðtekið skoðanir með því að velja það sem þér líkar frekar en að velja það sem þú veist að er rétt?

Ég velti þessu oft fyrir mér, og samt tek ég eftir að inn í hugmyndaheim minn læðast ranghugmyndir sem ég þarf svo að uppræta, stundum stytti ég mér leið frekar en að grafast fyrir um hvað er satt og rétt. En hins vegar er ég meðvitaður um þennan veikleika, og held reyndar að þetta sé veikleiki í okkur flestum, ef ekki öllum, mannlegt fyrirbæri, og það að vita um þennan veikleika og vinna í honum, skiptir máli þegar maður myndar sér afstöðu um hvaða mál sem er.

 

Smelltu hér til að finna frekari upplýsingar um rökvillur á Wikipedia

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Öflugasta tækið sem ég þekki til að finna og forðast rökvillur er kallað "Categories of Legitimate Reservations", hluti af greiningaraðferð sem Eli Goldratt þróaði á áttunda áratug 20. aldar. Sjá t.d. hér: https://www.goalsys.com/systemsthinking/documents/Part-7-LogicalThinking-TheCLR.pdf

Þorsteinn Siglaugsson, 30.6.2020 kl. 12:45

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dæmi um góða rökhugsun: cool

Ef fíkngenið væri tekið úr okkur öllum myndu öll hagkerfi heimsins hreinlega hrynja, því þetta gen stjórnar allri fíkn, til dæmis fíkn í áfengi, kynlíf, eiturlyf, sígarettur, skrif hér á Moggablogginu, sjónvarp, fótbolta, útivist, súkkulaði, ferðalög og skemmtanir.

Fíkn getur því birst í ýmsum myndum og við verðum að læra að hafa stjórn á okkar fíknsortum.

Maður sem er sólginn í útivist getur líka verið mikill kynlífsunnandi og þetta getur farið ágætlega saman en náttúrlega farið úr böndunum, eins og dæmin sanna.

Og sumir verða að láta útivist alveg eiga sig, sem og áfengi. cool

Þorsteinn Briem, 30.6.2020 kl. 13:28

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þorsteinn Siglaugsson: ágæt greining, en vandinn getur verið tengdur 'fullvissu'. Það er hægt að vera fullviss um eitthvað án þess að hafa réttar forsendur, og maður getur haft rangt fyrir sér þegar maður er fullviss um eitthvað, sérstaklega ef maður á í vanda með að hugsa rökrétt, og átta sig á hvað eru góð rök og hvað ekki. Greinin sem þú bendir á gefur sér að sá sem tekur ákvarðanir geri það af skynsemi. Vandinn er sá að við höldum flest að við beitum skynsemi, en það þarf alls ekki að vera veruleikinn.

Þorsteinn Briem: Kannski fíknin sé hluti af ófullkomleika okkar, frekar en ófullkomleikinn hluti af fíkninni? 

Hrannar Baldursson, 30.6.2020 kl. 15:00

4 identicon

Með rökum mátti pína Sókrates til að drekka eitur.

Síðan hafa árþúsundir liðið og "nýjar kynslóðir" lifað og dáið, lifað og dáið og siðfræðilegur þroski homo sapiens lítt, ef nokkuð, vaxið.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 30.6.2020 kl. 15:44

5 identicon

Þ.e. menn beita rökfræði - og rökvillum hennar - til að skapa sér vald-stöðu yfir þeim sem þeir ætla að sigra, eða fella.  Þetta er oft grimmur leikur, en stundum saklaus og skemmtilegur.  Og ætíð kemur nýr dagur og nýtt karp um keisarans skegg.  Í besta falli hugarleikfimi orða.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 30.6.2020 kl. 16:10

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Einn þáttur í greiningunni er einmitt sá að grandskoða hvort það sem maður gefur sér sem staðreyndir er í raun og veru rétt. Þú getur líka skoðað samantekt um þetta hér: https://thorsteinnsiglaugsson.files.wordpress.com/2020/02/ltp-process-1.pdf

Þorsteinn Siglaugsson, 30.6.2020 kl. 16:27

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Nei Þorsteinn Briem ekki Moggamblog,fótbolti,súkkulaði og skemmtanir,útivist,ferðalög ég endur tek ekki fíkn! Í mínum huga er þetta skemmtileg afþreying. En það er annað sem ég reyni að temja mér,því hef stundum rúman tíma.Það að minna mig á,gæti kallast að tala við sjálfa sig dæmi; Hvað ert þú að hugsa góða? Hefur þú ekki farið í fýlu og strunsað eins og nafna þín úr fundi(já en hún er þingkona;mmm),alveg sama þótt á fundinum séu ekki nein sérstök fyrirmenni.--gömul vinkona sagði oft:
       gott eiga þeir sem gleyma.   

Helga Kristjánsdóttir, 30.6.2020 kl. 16:29

8 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Flestar rökvillur ganga bara út á að stytta sér leið: þetta virkar oftast... þarf ekki að virka alltaf.  Nógu gott.

Ad hominem er ágætt dæmi - ef þú hittir mann sem hefur rangt fyrir sér í 90% tilfella, þá er tendens að segja bara "af því hann segir það er það örugglega rangt."  Og þá hefur þú rétt fyrir þér í 90% tilfella.

Ásgrímur Hartmannsson, 30.6.2020 kl. 17:02

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eins og Helga bendir á fer því fjarri að allar langanir séu fíkn. Það eru vissulega til kynlífsfíklar, matarfíklar, sjónvarpsfíklar ...

En það merkir ekki að allir sem stunda kynlíf, borða mat eða horfa stundum á íþróttir í sjónvarpinu séu fíklar.

Þetta er því ekki dæmi um góða rökhugsun eins og nafni minn heldur fram, heldur um hið gagnstæða. 

Þorsteinn Siglaugsson, 30.6.2020 kl. 17:09

10 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Vel skrifuð grein hjá þér.  Guðmundur Franklín varð mikið fyrir "ad hominem", baktal frekar en í umræðuþáttum. Úr því að hann hafði tengsl við Hægri græna og flokka á jaðri litrófsins voru býsna margir sem afskrifuðu hann fyrirfram án þess að hlusta á hann. Slíkt nær náttúrulega engri átt en tíðkast mjög oft. Allar þessar aðferðir eru væntanlega notaðar í stjórnmálastarfi. 

Það sem ég hef reynt er að temja mér er að hugleiða málin ein og sér, ekki út frá skoðun fjöldans eða því sem flestir vilja gefa sér. Hitt þarf að játa, að maður hneigist til að hallast á ákveðna sveif, velja það sem maður er sammála, eða staðreyndir sem manni líkar vel við. Að viðurkenna að eitthvað sé rangt getur verið mikilvægt. Ég vil þó halda því fram að meginstraumsfjölmiðlarnir geti flutt falsfréttir, því þeir fylgja ákveðinni stjórnmálalínu, og það er mjög augljóst, sú lína er harðlínujafnaðarmennska sem er á köflum býsna fasísk þegar ekki er tekið tilllit til annarra upplýsinga eða skoðana. Þegar maður viðurkennir villur hjá sjálfum sér er maður að opna leið að samræðum þar sem eitthvað nýtt kemur í ljós, annars ríkir hreintrúarstefnan sem oft leiðir til deilna, stríða.

Ingólfur Sigurðsson, 1.7.2020 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband