Hvernig hugsar þú?

thinking-in-a-foreign-language-e1479154410182

Ég hef verið að lesa mér til gagns og gamans "How we Think" eftir John Dewey. Hann veltir fyrir sér ólíkum hugsunarháttum, áður en hann fer að velta fyrir sér hvernig þessir ólíku hugsunarhættir hafa áhrif á hvernig við lifum lífi okkar, ákvarðar hvað við gerum og hvernig við höfum áhrif á heiminn og annað fólk, útfrá því hvernig við hugsum.

Hægt er að skilja þessa hugsunarhætti sem fjögur lög. Efsta lagið er yfirborðskenndast, en fjórða lagið ristir dýpst og líklegast til að ná taki á kjarna málsins.

Ímyndum okkur fjórar manneskjur. Þær fæðast inn í ákveðna fjölskyldu og samfélag, og eru menntaðar til að passa fullkomlega í kerfið, því að þannig er það bara.

 

1. Flæði

Hugsun er ekkert annað en það sem birtist manni af einhverri ástæðu, það sem manni dettur í hug, það sem streymir gegnum hugann. Þessi hugsunarháttur hefur enga meðvitað stjórnun, er frekar tilviljanakenndur og fer úr einu í annað. Manneskja sem lifir lífinu eftir þessum hætti er svolítið eins og fiskur. Leitar eftir eftir æti, skjóli og kynlífi, og fátt annað skiptir máli. Hlutirnir reddast af sjálfu sér. 

Segjum að einhver sem hugsar svona kafi aldrei dýpra í hugsun, og er spurð spurningarinnar: hugsar þú?

Svar hennar er, 'já, að sjálfsögðu'.

 

2. Tengingar

Hugsun er ekkert annað en þegar eitt tengist einhverju öðru. Til dæmis hlustum við á sögu og spyrjum hvort hún hafi átt sér stað í veruleikanum. Svarið skiptir litlu máli í sjálfu sér. Manneskja sem hugsar í tengingum veltir mikið fyrir sér hvernig manneskjur tengjast saman, skyldleikum og samböndum. Þessi manneskja gæti hugsanlega staldrað við í þessum hugsunarhætti og aldrei farið dýpra. Kannski yrði slík manneskja góður miðill eða almannatengill. 

Segjum að einhver sem hugsar svona kafi aldrei dýpra í hugsun, og er spurð spurningarinnar: hugsar þú?

Svar hennar er, 'já, að sjálfsögðu'.

 

3. Samþykki eða höfnun

Hugsun er að samþykkja eða hafna skoðunum og trú, óháð hvernig þessi fyrirbæri síast inn í hugann. Til dæmis er manneskja sem fæðist inn í trúaða fjölskyldu líkleg til að trúa líka, því að hugsunarhátturinn sem felst í að meðtaka trúna er hluti af því sem er ásættanlegt í viðkomandi umhverfi. Það sama gildir um ólík trúarbrögð eða trúleysi. Það eru alls konar hlutir sem við ómeðvitað samþykkjum eða höfnum, og tökum aldrei til í huga okkar til að komast að hvaða hugmyndir okkar eru sannarlega sannar eða ósannar. Hefð og þrjóska geta verið ríkjandi í þessum hugsunarhætti.

Trúarbrögð og stjórnmálaskoðanir byggja á þessum hugsunarhætti, þar sem flestir virðast enda á þessu stigi án þess að nauðsynlega vilja kafa dýpra. Þess vegna eru stjórnmálaflokkar yfirleitt reistir á viðteknum skoðunum, og ætlast er til að allir í flokknum styðji þessar skoðanir og vinni að því að gera þær að veruleika í samfélaginu. Mig grunar að það sé rökvilla í forsendum stjórnmálaflokka, að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram, en það er önnur saga. 

Segjum að einhver sem hugsar svona kafi aldrei dýpra í hugsun, og er spurð spurningarinnar: hugsar þú?

Svar hennar er, 'já, að sjálfsögðu'.

 

4. Gagnrýnin hugsun

Þetta er dýpsta stigið, sem innifelur að sjálfsögðu öll þau fyrri, en í stað þess að leyfa hugsunum aðeins að fljóta að feigðarósi, er þeim stýrt af færum skipstjóra. Í stað þess að tengja saman hluti á tilviljunarkenndan hátt, er reynt að finna út hvernig þessar tengingar virka og hafa áhrif á stóru myndina, og hvort þessar tengingar skipti í stóra samhenginu einhverju máli. Í stað þess að trúa blint vegna þess að við höfum alist þannig upp, spyrjum við af hverju við trúum því sem við trúum, við spyrjum okkur af hverju við höfum þá skoðun sem við höfum. Þetta er ekki einfalt ferli, þetta krefst umhugsunar, þetta krefst þess að maður læri um regluverk hugsunarinnar: rökhugsun, að maður átti sig á gildrunum, rökvillunum, að maður skilji hvernig þversagnir hjálpa okkur til að kafa dýpra, að við skiljum að þegar við áttum okkur ekki á hlutunum, er tækifæri til að læra.

Segjum að einhver sem hugsar svona er spurð spurningarinnar: hugsar þú?

Svar hennar er, 'það fer eftir hvað þú meinar með hugsun'.

 

Og nú spyr ég þig lesandi góður: hvernig hugsar þú?

 

Mynd: Homer Simpson eftir Matt Groening


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband