Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018
Godless (2017) ****
26.11.2018 | 21:54
"I have seen my death." (Frank Griffin)
Vestrar hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér, sérstaklega vestrarnir eftir Sergio Leone: "For a Few Dollars More," "The Good, The Bad, and The Ugly", "A Fistful of Dollars" og "Once Upon a Time in the West". Clint Eastwood var aðalhetjan í fyrstu þremur myndunum, en Charles Bronson og Henry Fonda gerðu snilldarlega hluti í þeirri síðastnefndu.
"Godless" virkaði á mig eins og þú tækir þessar fjórar myndir, tækir þær í sundur og settir svo aftur saman sem nýja kvikmynd. Persónurnar eru hver annarri eftirminnilegri.
Jeff Daniels, sem er betur þekktur fyrir að leika geðþekka gaurinn, slær algjörlega í gegn sem hið hreinrækta ofsatrúaða illmenni og fjöldamorðingi Frank Griffin. Það er líklega engin tilviljun að annað frábært illmenni vestranna, var leikið af hinum geðþekka Henry Fonda, og karakter hans hét líka Frank. Hvor Frankinn er verri má sjálfsagt deila um.
Ástæða þess að Frank tapar algjörlega vitinu er að fóstursonur hans Roy Goode (Jack O'Connell) hefur ákveðið að skilja við glæpagengið hans og stelur frá honum stórri peningasummu. Það versta við svikin er að Roy hefur lært af Frank allt sem hann kann, fyrir utan illskuna. Roy gerir uppreisn og leggur á flótta undan Frank og hans 30 mönnum sem leggja heilu bæina í eyði til þess eins að seðja reiði Franks.
Roy er gríðarlega góður með framhleypuna og hesta, og finnur sér hæli á bóndabæ ekkjunnar Alice Fletcher (Michelle Dockery) sem býr þar ásamt syni og Iyovi (Tantoo Cardinal), dularfullri eldri konu af indíánaættum. Bóndabærinn er skammt frá námubæ, La Belle, en þar búa nánast einungis ekkjur eftir að flestir karlmenn bæjarins fórust í námuslysi tveimur árum fyrr.
Þar fara fremst lögreglustjórinn Bill McNue (Scott McNairy) og systir hans bæjarstjórinn Mary Agnes (Merritt Wever), en Bill var mikil skytta sem er smám saman að missa sjónina og nánast blindur í upphafi sögunnar, en systir hans er ekkert síðri skytta og með hjartað á réttum stað.
Sérstaklega góður er ungi fógetinn Whitey Winn (Thomas Brodie-Sangster) sem minnir hér á ungan Leonardo de Caprio, rómantískan kúreka sem stígur reyndar ekkert alltof mikið í vitið, en tekur að sér verndarhlutverk þegar Bill ákveður að leita Franks og manna hans, eftir að hörkutólið og lögreglumaðurinn John Cook (Sam Waterston) ákveður að elta uppi sama gengið.
Fleiri persónur eru eftirminnilegar og skemmtilegar. Mikið er af klassískum vestraatriðum, sem eru virkilega vel útferð og hafa því meira gildi eftir því sem persónurnar skipta meira máli.
Þættirnir eru að mestu byggðir eins og "High Noon", mynd þar sem lögreglustjóri í smábæ bíður eftir að glæpagengi kemur til þess eins að drepa hann. Þessir þættir svíkja engan, og ekki allt fer eins og maður vonar eða reiknar með, sem eykur á styrkleika þessara virkilega fínu þátta.
Scott Frank á mikinn heiður skilið fyrir handrit og leikstjórn, og tónlistin eftir Carlos Rafael Rivera gefur sögunni skemmtilega dýpt.
Mynd: AV Club
Bloggar | Breytt 27.11.2018 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tíminn og Guð
25.11.2018 | 11:20
"Þú gætir ekki stigið tvisvar í sama fljótið," sagði Heraklítus fyrir löngu síðan og það er reyndar eins með þessa setningu hans, maður les hana aldrei tvisvar með sama huga.
Út frá sjónarhorni manna og skepna líður lífið hratt. Heimurinn breytist og mennirnir með. Við verðum til, þroskumst og deyjum. Lifum áfram gegnum afkomendur okkar. Gegnum þá vinnu sem við höfum lagt á okkur og framtíðin fær kannski að njóta.
Þetta líður allt, eins og fljótið.
En manneskjan er þrjósk og getur ekki sætt sig við að það sé ekkert meira en þetta, að tíminn sé það sem stjórnar okkur meira en nokkuð annað fyrirbæri í veröldinni. Þess vegna þurfum við að leita einhvers sem er æðra en tíminn, eitthvað sem tíminn getur ekki bitið, við þurfum að endurskrifa söguna til að vera sannfærð um að við séum sigurvegarar í þessum heimi.
Þegar við skoðum hugtakið 'tími' aðeins betur, sjáum við að það er hugmynd um mælistiku á allar breytingar sem eiga sér stað í heiminum. Allar þessar breytingar lúta ákveðnum lögmálum og við viljum mæla þær, og þannig kannski stjórna þeim eða áhrifum þeirra. Hvílík völd sem við þráum.
Þegar við skoðum breytingar í sjálfu sér, sjáum við fljótt að allir náttúrulegir hlutir breytast, manneskjur, skepnur, gróður, fjöll, eyðimerkur, plánetur og sólin; en við höfum fundið eitthvað sem breytist ekki, þann sannleika að allt er breytingum háð, fyrir utan þann sannleika að allt sé breytingum háð.
Það eru hugsanleg fyrirbæri æðri tímanum. Spurningin er hver þessi fyrirbæri eru og hversu mörg þau eru. Það skiptir ekki máli hvort þau eru til eða ekki, það sem skiptir máli er hvort að þau séu varanleg í hugum okkar. Hvort við getum öll skilið þau og gripið.
Þannig skiljum við hugtakið Guð. Einhvern veginn finnst okkur við vita hvað það þýðir þegar við heyrum það, hin fullkomna vera sem stjórnar öllu, svona nokkurn veginn það sem manneskjur virðast vilja vera. Guð er tímanum æðri, fyrir honum eða henni eða því líður dagur eins og þúsund ár og þúsund ár eins og einn dagur. Næstum eins og Google Deep Mind, gervigreind sem getur lært hvað sem er á ógnarhraða og bætt við þekkingu mannkyns með því einu að læra grundvallarlögmál eða reglur um hvað sem er. Er Guð kannski gervigreind og við persónur í gerviveröld?
Guð er eins og tíminn. Hugtak sem allir virðast skilja umsvifalaust, en þegar farið er að velta því fram og til baka flækjast hlutirnir gríðarlega. Mér hefur lengi þótt merkilegt að þeir sem hafna algjörlega tilvist Guðs, skuli hafa það skýra mynd um hvað Guð er að þeir geti hafnað þeirri tilvist. Því hvernig geturðu neitað tilvist einhvers nema þú vitir fullkomlega um hvað þú ert að tala og sjáir engar vísbendingar um fyrirbærið nokkurs staðar? Þar að auki er það ekkert aðalatriði hvort að Guð sé til eða ekki, aðalmálið er hvort fyrirbærið Guð sé til staðar í huga okkar eða lífi. Hvort að slík nærvera sé góð eða slæm til lengri tíma er önnur pæling.
Ef við afneitum tilvist tímans, sem er að sjálfsögðu ekki til, enda bara fyrirbæri í huga okkar, þýðir ekki að hlutirnir hætti að breytast. Á sama hátt skiptir engu máli þó að við afneitum tilvist Guðs, enda er Guð fyrst og fremst fyrirbæri í hugum okkar sem gefur þeim sem trúa öðruvísi strúktúr en þeim sem ekki trúa. Eins og með tímann, þeir sem trúa á tímann lifa öðruvísi en þeir sem velta honum aldrei fyrir sér.
Þú hefur örugglega ekki fengið tæmanleg svör við spurningum um tímann og Guð, en hefur kannski fengið svolítið af eldsneyti til að komast í gang. Kannski hefur einum litlum steini verið velt.
Mynd: Utrecht Moreelse Heraclite (Wikipedia)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvernig greinum við á milli falsfrétta og sannleikans?
22.11.2018 | 20:12
Síðustu tvö ár hefur mikið verið öskrað, ekki rætt, um falsfréttir, að fjölmiðlar eins og Washington Post, CNN, New York Times, og sjálfsagt líka Eyjan, Mogginn, Útvarp Saga og Vísir séu fullir af falsfréttum.
Það virðist vefjast fyrir okkur flestum að átta okkur á hvað er falsfrétt og hvað er sannleikur, en hér er ein aðferð.
Falsfréttir, óháð miðli, eiga það sameiginlegt að þær eru byggðar á skoðunum, tilfinningum eða trú. Þær byggja á hvað hinum og þessum finnst um hitt og þetta. Það er hægt að deila endalaust um slíka hluti og aldrei komast að niðurstöðu. Það getur verið áhugavert að ræða málin og hugsa um þau, en þegar rót málsins snýst um hvað fólki finnst, þá er ekki lengur um frétt að ræða.
Sannleikurinn finnst samt hugsanlega í sumum samræðum, en slíkar samræður þurfa að fylgja mjög ströngu ferli, þar sem forsendur eru skýrar, byggðar á staðreyndum, og pælingar eru tengdar saman með gildum rökum. Það eru því miður ekki margir sem hafa mikla færni í að greina góð rök frá slæmum, og er það frekar vandasöm iðja.
Það er nefnilega miklu auðveldara að mynda sér skoðanir út frá því hvað manni finnst, hvernig mælandi kemur fyrir, hversu sannfærandi viðkomandi virðist, og þar eftir götunum.
Hér erum við enn og aftur komin í togstreitu milli þess sem Platón kallaði sófista annars vegar og heimspeking hins vegar. Sófistinn, eins og flestir pólitíkusar, og þá sérstaklega popúlistar, reyna að sannfæra múginn um hitt og þetta, og beita til þess alls konar mælskulistarbrögðum, sjónhverfingum sem virðast sannfærandi, en eru þó ekki gildar út frá lögmælum rökréttrar hugsunar.
Heimspekingarnir, eða fréttamiðlar sem byggja á staðreyndum og ræða svo tengingar á rökréttan hátt, eru hins vegar alls ekkert endilega sannfærandi, og hugsanlega miklu leiðinlegri en þeir sem vekja tilfinningar okkar, þar sem mestu skiptir að vera eins hlutlaus í umfjöllun og mögulegt er.
Það er áhugavert að skoða fréttir, og þá sérstaklega þegar stjórnmálamenn reyna að sannfæra aðra út frá eigin skoðun hvað er rétt og hvað er rangt, eða satt og ósatt.
Til dæmis er ágætt að hlusta þegar viðkomandi segir að eitthvað sé "algjörlega fráleitt", "mjög dapurlegt", "skítlegt", eða þar fram eftir götunum, til að greina að þar fer manneskja sem reynir frekar að sannfæra en komast nær sannleikanum.
Vinir sannleikans fara sér hægar og velta hlutunum fyrir sér fram og til baka, þannig að fólki fer kannski að leiðast heldur fljótt. Lygar að sannfæringakraftur ferðast hins vegar margfalt hraðar en sannleikurinn, þó að sannleikurinn sigri yfirleitt á endanum.
Aðferðin er semsagt sú að greina hvenær reynt er að höfða til tilfinninga áheyrenda, og hvenær reynt er að höfða til skynseminnar. Að greina þarna á milli krefst ákveðinnar visku, þekkingar og góðrar rökhugsunar; nokkuð sem flestir þegnar lýðræðissamfélags ættu að búa yfir, en gera því miður sjaldan.
---
Mynd af vefsíðunni Comics, Beer, and Shakespeare
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þú þarft að taka ákvörðun fyrir alla þjóð þína, ákvörðun sem hefur ekki bara áhrif á fjárhagslega framtíð þess, heldur á menningu og karakter landsins til framtíðar, hvernig tekurðu slíka ákvörðun?
Ættirðu að hafa í huga þá hugmynd að allir séu jafnir, allir jafn verðmætir, allir jafn mikilvægir fyrir samfélagið, þannig að það að fórna einum eða fáum fyrir heildina verður viðstöðulaust dæmt sem ill nauðsyn, ef ekki af þeim sem upplifa ákvörðunina, ill framkvæmd í sjálfri sér?
Eða ættirðu að dæma út frá þeirri hugmynd að kerfið þurfi að virka, sama hvað það kostar, þó það kosti kannski einhver mannslíf, að einhverjir tapi öllu sínu, það þyrfti allt að gera til að kerfið lamaðist ekki, því ef það gerðist, þá myndi hugsanlega miklu meira tapast en ef allir væru í sama bát?
Þetta hefur maður séð í kafbátamyndum, þar sem leki kemur á eitthvað hólf í kafbátnum, og valið stendur um að loka hólfinu og bjarga þannig áhöfninni sem slíkri, á kostnað nokkurra sem munu að sjálfsögðu drukkna. Þessi hugmynd er tengd við nytjahyggju í siðferði. Ekki eru allir sammála um að hún sé réttlætanleg, aðallega vegna þeirrar hugmyndar að engin ein manneskja ætti að hafa slík völd, að hún geti ákveðið örlög annarra, og hvað þá skipt þeim í hópa eftir mikilvægi þeirra.
Er réttlætanlegt að skilgreina hættustigið sem sambærilegt, að yfirvofandi gjaldþrot Íslendinga hafi verið til jafns við lekandi kafbát?
Þegar ríkisstjórnin tók ákvörðun um að bjarga innistæðueignum þeirra sem meira mega sín, á kostnað þeirra sem minna mega sín, var ákvörðunin tekin út frá nytjahyggjusjónarmiðum. Það átti að bjarga kerfinu fyrst og fremst, tryggja það að fjármagnseigendur ættu nógan auð til að halda þjóðfélaginu gangandi, borga laun næstu mánaðarmót. Því var ekki treyst að öll þjóðin myndi taka saman höndum og vinna saman út úr vandanum.
Á þeim tíma sáu fjölskyldur sem skulduðu húsnæðislán höfuðstól lánsins stökkva upp fyrir allt sem gert hafði verið ráð fyrir, örvænting greip um sig, fólk fór að missa vinnu, fjölskyldur voru neyddar út af heimilum sínum, mikill fjöldi flutti úr landi. Þessi lán eru enn þann dag í dag alltof há og verðtryggðir vextir ennþá jafn skelfilegir og áður. Lítið hefur breyst þar.
Ákvörðunin um að bjarga sumum í stað þess að fá alla þjóðina til að berjast saman, hefur valdið siðrofi milli þings og þjóðar, milli þeirra sem eiga og þeirra sem skulda, og þessi gjá hefur aðeins stækkað á síðustu 10 árum, og lítur út fyrir að stækka enn frekar á næstu 10 árum.
Kostnaðurinn við þessa ákvörðun, að bjarga innistæðueignum, hefur hugsanlega verið ósýnilegur, sérstaklega þeim sem áttu innistæðurnar, og er eitthvað sem við áttum okkur kannski ekki á svona dags daglega. Erfitt getur verið að greina hver kostnaðurinn var, og hvort að björgun þeirra sem bjargað var hafi verið þess virði, en ef þjóðin væri einstaklingur, hefði sá einstaklingur hugsanlega samviskubit sem nagaði hann árum saman, eða kannski væri honum sama, hugsaði ekki um svona hluti, þetta væri eitthvað sem tilheyrði fortíðinni, og skipti ekki lengur máli.
Hefði hin leiðin verið farin, þjóðin upplifað að allir væru í sama bát, og allir þurft að vinna saman að því að bjarga því sem bjargað var, án þess að skipta þjóðinni í fylkingar, hvernig hefðum við komið út úr því sem þjóð?
Hefðum við, eins og sumir hafa spáð, með slíku hugrekki tapað öllu okkar og orðið algjörir öreigar í samfélagi þjóða, eða hefðum við fundið kraft til að vinna saman og í sameiningu unnið okkur út úr vandanum, og þannig verið áfram sátt við hvert annað, og virt hvert annað af þeirri dýpt sem góðar manneskjur virða hverja aðra?
Þetta eru ekki tómar spurningar. Þær eru mikilvægar því að slíkar ákvarðanir verða áfram teknar, hugsanlega í dag, á morgun eða á næstu árum. Munum við alltaf velja að bjarga kerfinu á kostnað þeirra sem minna mega sín? Hvað kostar slík leið, hver verður menningararfur slíkrar þjóðar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bohemian Rhapsody (2018) ****
17.11.2018 | 18:22
Hafir þú gaman af tónlist Queen er "Bohemian Rhapsody" mynd sem þú verður að sjá í kvikmyndasal. Af gagnrýnendum hefur hún verið gagnrýnd töluvert fyrir að vera ekki eitthvað annað en hún er. Einhverjir vildu dökka sýn í sálarlíf Freddy Mercury, gera þetta að tragedíu þar sem Freddy verður á endanum að gefast upp gegn banvænum sjúkdómi. Þetta er ekki þannig mynd.
"Bohemian Rhapsody" er meira í anda tónlistarkvikmynda Alan Parker, sérstaklega "The Committments (1991) og Evita (1996), sem gera meira af því að gefa áhorfandanum flotta tónlist undir einföldu drama, með fullt af rómantík og húmor í bland.
Dramað fjallar um stofnun hljómsveitarinnar Queen þar sem kafað töluvert í líf og þrár Freddy Mercury (Rami Malek), ekki sem leiðtoga hljómsveitarinnar, heldur sem einn af þeim meðlimum sem gaf henni líf. Malek er stórgóður í sínu hlutverki, nær Freddy sjálfsagt betur en Freddy sjálfur hefði gert, bæði í persónulega drama, sem ein stærsta rokkstjarna allra tíma á sviði, og eins þegar hann tapaði áttum um stund.
Aðrir leikarar standa sig ljómandi vel, þá sérstaklega Lucy Boynton sem fyrsta ástin Mary, akkerið í lífi Freddy, en samband þeirra er miðsvæðis í sögunni, og miðað við þunga ástarsögunnar hefði myndin betur heitið "Love of my Life". Gwylim Lee og Ben Hardy eru einnig stórgóðir sem Brian May og Roger Taylor. Aðdáendur "Wayne's World" (1992) fá líka eitthvað fyrir sinn snúð í skemmtilegu smáhlutverki Mike Myers.
Myndin byrjar og endar á Live Aid tónleikunum þar sem Queen sló rækilega í gegn um allan heim, og klárar söguna á sterkum tón.
Ef þig langar í rómatíska sýn á Queen og hlusta á frábæra tónlist, skelltu þér í bíó.