Munum við alltaf velja að bjarga kerfinu á kostnað þeirra sem minna mega sín?

983355

Þú þarft að taka ákvörðun fyrir alla þjóð þína, ákvörðun sem hefur ekki bara áhrif á fjárhagslega framtíð þess, heldur á menningu og karakter landsins til framtíðar, hvernig tekurðu slíka ákvörðun? 

Ættirðu að hafa í huga þá hugmynd að allir séu jafnir, allir jafn verðmætir, allir jafn mikilvægir fyrir samfélagið, þannig að það að fórna einum eða fáum fyrir heildina verður viðstöðulaust dæmt sem ill nauðsyn, ef ekki af þeim sem upplifa ákvörðunina, ill framkvæmd í sjálfri sér?

Eða ættirðu að dæma út frá þeirri hugmynd að kerfið þurfi að virka, sama hvað það kostar, þó það kosti kannski einhver mannslíf, að einhverjir tapi öllu sínu, það þyrfti allt að gera til að kerfið lamaðist ekki, því ef það gerðist, þá myndi hugsanlega miklu meira tapast en ef allir væru í sama bát?

Þetta hefur maður séð í kafbátamyndum, þar sem leki kemur á eitthvað hólf í kafbátnum, og valið stendur um að loka hólfinu og bjarga þannig áhöfninni sem slíkri, á kostnað nokkurra sem munu að sjálfsögðu drukkna. Þessi hugmynd er tengd við nytjahyggju í siðferði. Ekki eru allir sammála um að hún sé réttlætanleg, aðallega vegna þeirrar hugmyndar að engin ein manneskja ætti að hafa slík völd, að hún geti ákveðið örlög annarra, og hvað þá skipt þeim í hópa eftir mikilvægi þeirra.

Er réttlætanlegt að skilgreina hættustigið sem sambærilegt, að yfirvofandi gjaldþrot Íslendinga hafi verið til jafns við lekandi kafbát?

Þegar ríkisstjórnin tók ákvörðun um að bjarga innistæðueignum þeirra sem meira mega sín, á kostnað þeirra sem minna mega sín, var ákvörðunin tekin út frá nytjahyggjusjónarmiðum. Það átti að bjarga kerfinu fyrst og fremst, tryggja það að fjármagnseigendur ættu nógan auð til að halda þjóðfélaginu gangandi, borga laun næstu mánaðarmót. Því var ekki treyst að öll þjóðin myndi taka saman höndum og vinna saman út úr vandanum.

Á þeim tíma sáu fjölskyldur sem skulduðu húsnæðislán höfuðstól lánsins stökkva upp fyrir allt sem gert hafði verið ráð fyrir, örvænting greip um sig, fólk fór að missa vinnu, fjölskyldur voru neyddar út af heimilum sínum, mikill fjöldi flutti úr landi. Þessi lán eru enn þann dag í dag alltof há og verðtryggðir vextir ennþá jafn skelfilegir og áður. Lítið hefur breyst þar.

Ákvörðunin um að bjarga sumum í stað þess að fá alla þjóðina til að berjast saman, hefur valdið siðrofi milli þings og þjóðar, milli þeirra sem eiga og þeirra sem skulda, og þessi gjá hefur aðeins stækkað á síðustu 10 árum, og lítur út fyrir að stækka enn frekar á næstu 10 árum.

Kostnaðurinn við þessa ákvörðun, að bjarga innistæðueignum, hefur hugsanlega verið ósýnilegur, sérstaklega þeim sem áttu innistæðurnar, og er eitthvað sem við áttum okkur kannski ekki á svona dags daglega. Erfitt getur verið að greina hver kostnaðurinn var, og hvort að björgun þeirra sem bjargað var hafi verið þess virði, en ef þjóðin væri einstaklingur, hefði sá einstaklingur hugsanlega samviskubit sem nagaði hann árum saman, eða kannski væri honum sama, hugsaði ekki um svona hluti, þetta væri eitthvað sem tilheyrði fortíðinni, og skipti ekki lengur máli.

Hefði hin leiðin verið farin, þjóðin upplifað að allir væru í sama bát, og allir þurft að vinna saman að því að bjarga því sem bjargað var, án þess að skipta þjóðinni í fylkingar, hvernig hefðum við komið út úr því sem þjóð? 

Hefðum við, eins og sumir hafa spáð, með slíku hugrekki tapað öllu okkar og orðið algjörir öreigar í samfélagi þjóða, eða hefðum við fundið kraft til að vinna saman og í sameiningu unnið okkur út úr vandanum, og þannig verið áfram sátt við hvert annað, og virt hvert annað af þeirri dýpt sem góðar manneskjur virða hverja aðra?

Þetta eru ekki tómar spurningar. Þær eru mikilvægar því að slíkar ákvarðanir verða áfram teknar, hugsanlega í dag, á morgun eða á næstu árum. Munum við alltaf velja að bjarga kerfinu á kostnað þeirra sem minna mega sín? Hvað kostar slík leið, hver verður menningararfur slíkrar þjóðar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hver er lærdómurinn af þessu bankaævintýri?

=AÐ það geti verið kostur að RÍKÐ eigi 1 viðskiptabanka

sem að einka-aðilar geti ekki braskað með:

https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2207328/

Jón Þórhallsson, 19.11.2018 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband