Tíminn og Guð

1024px-Utrecht_Moreelse_Heraclite

"Þú gætir ekki stigið tvisvar í sama fljótið," sagði Heraklítus fyrir löngu síðan og það er reyndar eins með þessa setningu hans, maður les hana aldrei tvisvar með sama huga.

Út frá sjónarhorni manna og skepna líður lífið hratt. Heimurinn breytist og mennirnir með. Við verðum til, þroskumst og deyjum. Lifum áfram gegnum afkomendur okkar. Gegnum þá vinnu sem við höfum lagt á okkur og framtíðin fær kannski að njóta.

Þetta líður allt, eins og fljótið. 

En manneskjan er þrjósk og getur ekki sætt sig við að það sé ekkert meira en þetta, að tíminn sé það sem stjórnar okkur meira en nokkuð annað fyrirbæri í veröldinni. Þess vegna þurfum við að leita einhvers sem er æðra en tíminn, eitthvað sem tíminn getur ekki bitið, við þurfum að endurskrifa söguna til að vera sannfærð um að við séum sigurvegarar í þessum heimi.

Þegar við skoðum hugtakið 'tími' aðeins betur, sjáum við að það er hugmynd um mælistiku á allar breytingar sem eiga sér stað í heiminum. Allar þessar breytingar lúta ákveðnum lögmálum og við viljum mæla þær, og þannig kannski stjórna þeim eða áhrifum þeirra. Hvílík völd sem við þráum.

Þegar við skoðum breytingar í sjálfu sér, sjáum við fljótt að allir náttúrulegir hlutir breytast, manneskjur, skepnur, gróður, fjöll, eyðimerkur, plánetur og sólin; en við höfum fundið eitthvað sem breytist ekki, þann sannleika að allt er breytingum háð, fyrir utan þann sannleika að allt sé breytingum háð.

Það eru hugsanleg fyrirbæri æðri tímanum. Spurningin er hver þessi fyrirbæri eru og hversu mörg þau eru. Það skiptir ekki máli hvort þau eru til eða ekki, það sem skiptir máli er hvort að þau séu varanleg í hugum okkar. Hvort við getum öll skilið þau og gripið. 

Þannig skiljum við hugtakið Guð. Einhvern veginn finnst okkur við vita hvað það þýðir þegar við heyrum það, hin fullkomna vera sem stjórnar öllu, svona nokkurn veginn það sem manneskjur virðast vilja vera. Guð er tímanum æðri, fyrir honum eða henni eða því líður dagur eins og þúsund ár og þúsund ár eins og einn dagur. Næstum eins og Google Deep Mind, gervigreind sem getur lært hvað sem er á ógnarhraða og bætt við þekkingu mannkyns með því einu að læra grundvallarlögmál eða reglur um hvað sem er. Er Guð kannski gervigreind og við persónur í gerviveröld?

Guð er eins og tíminn. Hugtak sem allir virðast skilja umsvifalaust, en þegar farið er að velta því fram og til baka flækjast hlutirnir gríðarlega. Mér hefur lengi þótt merkilegt að þeir sem hafna algjörlega tilvist Guðs, skuli hafa það skýra mynd um hvað Guð er að þeir geti hafnað þeirri tilvist. Því hvernig geturðu neitað tilvist einhvers nema þú vitir fullkomlega um hvað þú ert að tala og sjáir engar vísbendingar um fyrirbærið nokkurs staðar? Þar að auki er það ekkert aðalatriði hvort að Guð sé til eða ekki, aðalmálið er hvort fyrirbærið Guð sé til staðar í huga okkar eða lífi. Hvort að slík nærvera sé góð eða slæm til lengri tíma er önnur pæling. 

Ef við afneitum tilvist tímans, sem er að sjálfsögðu ekki til, enda bara fyrirbæri í huga okkar, þýðir ekki að hlutirnir hætti að breytast. Á sama hátt skiptir engu máli þó að við afneitum tilvist Guðs, enda er Guð fyrst og fremst fyrirbæri í hugum okkar sem gefur þeim sem trúa öðruvísi strúktúr en þeim sem ekki trúa. Eins og með tímann, þeir sem trúa á tímann lifa öðruvísi en þeir sem velta honum aldrei fyrir sér.

Þú hefur örugglega ekki fengið tæmanleg svör við spurningum um tímann og Guð, en hefur kannski fengið svolítið af eldsneyti til að komast í gang. Kannski hefur einum litlum steini verið velt. 

 

Mynd: Utrecht Moreelse Heraclite (Wikipedia)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er ekki síður mikilvægt að velta fyrir sér MIÐJUNNI og tilvist GUÐS.

Hvar á hjarta GUÐS að slá sterkast hér á jörðu?

Býr presturinn í Hallgrímskirkjunni t.d. yfir meiri VISKU OG MÆTTI

heldur en páfinn í róm?

Jón Þórhallsson, 26.11.2018 kl. 10:00

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Eins og allir vita að þá getur bara verið 1 HVÍTUR KÓNGUR  

á öllum venjulegum skákborðum.

=Hvar er heimareitur hvíta kóngsins á skákborði lífsins 

hér á jörðu?

Jón Þórhallsson, 26.11.2018 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband