Orphan (2009) ***1/2

Er hægt að búa til vel heppnaða spennumynd um fallega níu ára stúlku sem er í raun ekki falleg níu ára stelpa?

orphan-poster

"Orphan" er vel heppnuð spennumynd með frekar hrollvekjandi undirtón, þar sem illmennið er dulbúið sem 9 ára stúlka að nafni Esther (Isabelle Fuhrman), sem laumar sér inn í saklausa fjölskyldu sem munaðarleysingi, og notfærir sér alla þá sálfræðilegu veikleika sem upp geta komið í hjónabandi sem þolað hefur þurft erfiða tíma, til þess eins að drepa þau öll.

John (Peter Sarsgaard) og Kate Coleman (Vera Farmiga) hafa átt erfitt uppdráttar í hjónabandinu eftir að hafa misst barn í móðurkviði. Hvorugt þeirra er fullkomið. Kate er alkóhólisti sem hefur ekki snert vín í heilt ár og þjökuð af sorg vegna barnsins sem dó, og John hefur það vandamál að vera svo yfirmáta venjulegur og skyni skorpinn af skilningi, þrátt fyrir að telja sig leika föðurhlutverkið vel, að maður getur ekki trúað öðru en að þarna sé raunveruleg persóna.

Þau eiga tvö börn fyrir, áður en þau ákveða að ættleiða Esther, soninn Daniel (Jimmy Bennett) sem finnur strax á sér að eitthvað alvarlegt er að þegar Esther kemur inn á heimilið, og dóttirin heyrnarlausa Max (Aryana Engineer) sem áttar sig fljótt á hlutunum en á skiljanlega erfitt með að tjá sig um það. Esther lumar á mögnuðu leyndarmáli sem útskýrir nokkuð vel af hverju öll þessi geðveiki á sér stað.

Leikararnir standa sig allir afburðavel, en leikstjórnin klikkar aðeins með of ýktri notkun á speglum og skrapandi málmhljóðum til að bregða áhorfendum. Það magnar vissulega upp stemmingu, en hefði verið hægt að koma þessu inn án þess að augljóst væri að leikstjórinn léki sér að áhorfendum.

Þrátt fyrir að vera með ansi frumlegan undirtón og góðan leik, er þetta ósköp venjuleg spennumynd, klisja sem hefur verið gerð góð skil á hvíta tjaldinu. Sambærilegar kvikmyndir eru seinni útgáfan af "Cape Fear" þar sem Robert DeNiro og Nick Nolte fóru á kostum, og "Omen" þar sem afkvæmi skrattans tekur upp á að hreiðra um sig meðal manna og drepa fólk í leiðinni.

Mér líkaði við tóninn í myndinni. En það er snjór yfir öllu og svolítið grátt, en með aðeins betri tónlist og hljóðbrellum hefði þessi mynd getað orðið klassísk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband