Davíð Wonka og sælgætisverksmiðjan

 

willy-wonka-in-chocolate-factory

 

Segjum að Davíð Wonka framleiði sælgæti í verksmiðju. Ekki bara eitthvað sælgæti. Heldur besta sælgæti í heimi. Hann verður skelfilega ríkur og fólk kaupir sælgætið og étur af mikilli græðgi. Fyrr en varir verður fólkið sem elskar nammið feitt og slappt, en getur samt ekki stoppað að fá sér eitt súkkulaðistykki, brjóstsykurpoka eða íspinna.

Þá tekur sá allra feitasti, Jón Átgeir, sem vegur nú 305 kíló eftir því að Davíð er ekki feitur. Hann spriklar um heilbrigður og nýtur þess að framleiða nammið, enda trúir hann eins og flestir, að góður árangur sé í sjálfu sér af hinu góða. Jón Átgeir þessi sér að nammið hefur hvorki gert honum né þjóðinni gott, en hann getur ekki hætt að borða nammi, þannig að hann ákveður að sjá til þess að Davíð fái ekki að njóta afrakstur árangurs síns. Hann skal verða ósæll og helst hataður af þjóð og umheimi.

Því kaupir Jón Átgeir sér fjölmiðlafyrirtæki sem rekur dagblað, sjónvarp og útvarp. Hann gefur þá fyrirskipun til starfsmanna að þeir skuli vanda vinnu sína og engum hlífa í gagnrýni sinni, ekki einu sinni sjálfum sér. En þegar ummæli birtast um Jón Átgeir á eigin fjölmiðlum missir viðkomandi starf sitt, því að á Átlandi gilda þau lög að ef yfirmanni líkar ekki af einhverri ástæðu við starfsmann sinn, sama hver sú ástæða er, þá má hann segja viðkomandi upp. Þannig að eftir standa þeir sem aldrei hafa fjallað um Jón Átgeir á gagnrýninn hátt. Fullkomið kerfi!

Hins vegar hefur Davíð tekið eftir Jóni Átgeiri og finnst ómaklega að honum vegið þegar fréttir fara að birtast um að sykurinn í sælgæti Davíðs sé óhollari en annar sykur, að brjóstsykurinn sé harðari og festist ævilangt í líkamanum, og að ísinn hans bráðni hraðar en eðlilegur ís. Davíð að óvörum hlusta aðrir nammineytendur á Jón Átgeir, og þeir sjá að þeir eru sjálfir orðnir feitir og frekar ógeðslegir eftir allt nammiátið, og sjá þá í þykkum lófum sínum að Davíð er vondur maður, og að það þurfi að skilja hann frá verksmiðju sinni.

Smám saman verður Davíð að óvinsælli manni, vegna stanslausra sögusagna fjölmiðla um hvernig hann virðist vera að vissa vitið, eigi við geðlæg vandamál að stríða, að hann komi betur fram við vini sína en óvini, og að hann borðar ekki eigið nammi.

Kemur nú að því að Davíð er heimsóttur á skrifstofu sína einn daginn af mönnum í hvítum sloppum, og hann lokaður inni í Geðlabankanum þar sem að hann á að hafa hægt um sig, og engin áhrif út í hinn stóra heim. 

Taka nú aðrir við sælgætisverksmiðjunni, og í stað þess að hugsa um bragðgæði sælgætisins, er ákveðið að auka við magn til þess að auka sölu og markaðshlutdeild. Það gengur eftir, og fólk er farið að éta miklu meira af sælgæti en nokkurn tíma áður. Nú eru fjölmargir orðnir 305 kíló að þyngd, en Jón Átgeir er farinn að nálgast tonnið.

Þá gerist það að heimsmarkaðsverðið á sykri rýkur upp úr öllu valdi. Til að stytta sér leið ákveða nýir stjórnendur verksmiðjunnar að spara, og í stað sykurs kaupa þeir salt, sem er mun ódýrara og lítur hvort eð er alveg eins út. Eftir fyrstu sendinguna með breyttri uppskrift áttar fólk sig fyrst á því hverslags ógeð það var að éta, borðar nammið samt en arkar með kröfuspjöld niður að Geðlabankanum og mótmælir Davíð fyrir að hafa vanið sig á þetta ógeð.

Davíð er sparkað út úr Geðlabankanum og fær ekki að nálgast sælgætisverksmiðjuna. Hann grunar hvað hefur gerst og segir frá því, en orðum hans er lipurlega snúið gegn honum af fjölmiðlum Átgeirs, sem allir landsmenn fylgjast dolfallnir með eins og hraðlygnum manni sem segir flottar sögur, svolítið litaðar af sannleikanum, en helst til þess fallnar að hafa áhrif.

Davíð situr nú heima hjá sér, dapur og vinalaus. Hann veltir fyrir sér hvernig heimurinn hefur snúist gegn honum, og hvort hann hafi virkilega gert eitthvað rangt. Það vita allir að sælgæti skal borða í hófi. Hvernig er hægt að kenna honum um græðgi þeirra sem keyptu nammið og gátu ekki hætt að éta?

Nú hlakkar í Jóni Átgeiri. Hann hefur ekki bara hrakið Davíð frá fyrirtæki sínu, heldur hefur hann líka eignast sælgætisverksmiðjuna og alla stjórnarmenn þess. Þar að auki situr hann uppi með allar birgðar verksmiðjunnar sem enn hafa sykur og bragðast vel, og hann nýtur þess að narta í nammið daginn út og daginn inn, á meðan fólk heldur enn áfram að kaupa saltaða nammið, sem það er farið að venjast.

Davíð er ekki viss, en hann grunar að Jón Átgeir hafi staðið að baki aðförin gegn honum, og veltir fyrir sér hvernig hann geti svarað fyrir sig, óvinsælasti maður Átlands. Hann átti ennþá hluta af dagblaðinu Morgundeginum, og ef hann gæti fundið sér pláss til að segja sína hlið málsins, þá gæti Átland enn átt sér von um að fræðast um hvað gerðist í raun og veru. 

Hefði fólkið, velti Davíð fyrir sér, sem er nú búið að fá ógeð á namminu áhuga á að hlusta á aðrar hliðar málsins, eða voru þau einfaldlega búin að fá nóg af honum, þar sem sjónvarp, útvarp og dagblöð voru löngu búin að sannfæra þau um að hann væri upphafsmaður ástandsins, hann stofnaði sælgætisverksmiðjuna og hann stjórnaði henni í 18 ár, og svo þykist hann enga ábyrgð bera á að stjórna því hversu gráðugt fólk var í nammið hans?

Eitthvað alvarlegt hafði gerst. Breytingar framundan. Óróleg framtíð að hefjast. Davíð Wonka gæti sagt sína hlið málsins og sú frásögn gæti breytt trú fólks á veruleikann, og gæti sýnt að hann var saklaus af ásökunum fjölmiðla Jóns Átgeirs.

"Slíkt má aldrei gerast!" öskraði Jón Átgeir yfir fjölmiðlamönnum sínum. "Finnið eitthvað um hann! Hvað sem er! Það þarf að hafa sannleikskorn, því að hliðrun á sannleikanum er miklu öflugri en helber lygi. Við verðum að sannfæra fólk um að það var hann sem stofnaði sælgætisverksmiðjuna, það var hann sem innleiddi græðgina. Þetta var allt honum að kenna!"

Blaðamaður að nafni Sókrateles rétti þá upp hönd og bað um orðið. Hann fékk það.

"Getur verið", spurði blaðamaðurinn, "að Davíð beri ekki ábyrgð á allri græðgi Átlendinga?"

Næsta dag var Sókratelesi vikið úr starfi og hann leiddur til dyra af yfirmanni sínum, sem skrifaði grein þar sem fram kom að Sókrateles hefði ákveðið að hætta störfum og leita sér nýrra tækifæra annars staðar.

Davíð er kominn aftur.

Daginn sem tilkynnt var að Davíð yrði ritstjóri Morgundagsins ætlaði allt um koll að keyra. Algjör upplausn. Bílar keyrðu á ljósastaura. Fólk festist í dyragættum. Lyftur stoppuð á milli hæða. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 26.9.2009 kl. 13:27

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta hljómaði nú eins og premisið að Lazytown.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.9.2009 kl. 16:30

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þá er spurningin hvort Davíð er Glanni glæpur líka?  Hver skyldi svo vera Íþróttaálfurinn?  Er það kannski þessi á sönduælunum í seinni hluta Biblíunnar?

Þetta er orðið snúið.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.9.2009 kl. 16:42

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Don, hefur þú ekki allt of mikinn tíma til þess að blogga?  Pistlarnir þínir undanfarna daga hafa verið skemmtilegir og greinilega kveikt í allskonar fólki.  Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.9.2009 kl. 23:12

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Steinar: Sókrateles er að sjálfsögðu íþróttaálfurinn: blaðamaðurinn sem leitar sannleikans hvað sem það kostar. :)

Jóna Kolbrún: Of mikinn tíma til að blogga? Reyndar tek ég að hámarki klukkutíma á dag til að skrifa grein, og kíki svo á athugasemdir þegar ég hef tíma. Hins vegar horfi ég aldrei á sjónvarp, nokkuð sem gefur mér töluverðan aukatíma.

Hrannar Baldursson, 27.9.2009 kl. 08:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband