Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Hvernig tekið var við mér þegar ég kom á bandaríska heilsugæslustöð með kóngulóarbit

Heldurðu að ég hafi verið rukkaður um mikla fjármuni? Þurfti ég að kaupa rándýr lyf? Var handleggurinn skorinn af við olnboga? Var læknirinn þurrt og tilfinningalaust vélmenni? Var þetta eitt af því versta sem ég hef upplifað á ævinni?

Alls ekki.

Ég var bitinn af kónguló og handleggurinn stokkbólgnaði. Bólgan var rétt undir vinstri olnboganum. Þar voru tvær litlar holur, sem gáfu í skyn að þetta var kóngulóarbit, en skepnan hafði hakkað í mig á meðan ég svaf. Bólgan var álíka stór og ef fiskibollu hefði verið troðið undir húðina.

Fór á næstu heilsugæslustöð. Þurfti ekki að bíða lengi. Læknirinn tók vel á móti mér, smurði bólginn handlegginn og gaf mér lyf til að eyða eitrinu. Ég þurfti ekkert að borga og bólgan sjatnaði eðlilega á næstu dögum.

Ekki nákvæmlega það sem maður heyrir í fjölmiðlum um heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum eða frá Michael Moore, en það er ekki allt slæmt í Bandaríkjunum frekar en annars staðar í heiminum.

Fullt af góðu fólki.

Reyndar trúi ég því að meirihluti mannkyns sé afar gott fólk sem vill öðrum vel. Það ber bara svo mikið á þessum minnihluta sem vill öðrum ekki vel. Svo eru það sumir sem vita einfaldlega ekki betur, sem virðist eiga erfitt með að hugsa út fyrir eigin langanir eða hefðir. Menntun snýst að mínu mati fyrst og fremst um að fólk átti sig á því hvernig fer ef gildi þeirra snúast annars vegar um eigin hag, eða hins vegar aðeins um hag einhvers hóps, sama hvaða hópur það kann að vera, trúarhópur, hagsmunahópur, knattspyrnufélag, klíka. Vandinn er að fólk lifir frekar samkvæmt því sem því finnst eðlilegt en því sem er réttlátt gagnvart öllum. Það eru sumir sem fá að vera með. Aðrir mega éta það sem úti frýs.

Það er mikilvægt að útrýma eigin fordómum, nokkuð sem fordómafullir trúa ekki að þeir hafi, og því erfitt að útrýma slíkum skoðunum hjá þeim sem viðurkenna ekki að þeir hafi þær. Eina leiðin er að manneskjan rannsaki eigin skoðanir, hvaðan þær koma og sé tilbúin að viðra þær fyrir opnum tjöldum. Láta blása um þær.


Loks hjólað í fjármagnseigendur?

Við Hrunið (Guð blessi Ísland) var fjármagnseigendum lofað að innistæður þeirra í bönkum væru tryggðar 100%. Ekki nóg með það, þeir sem áttu pening á verðtryggðum reikningum nutu um 20% vaxta af innistæðum sínum vegna stýrivaxtabreytinga. Á móti kom að þeir sem skulduðu í húseignum þurftu að borga um 25% af lánum sínum, sem undir eðlilegum kringumstæðum ættu aldrei að fara yfir 10%. Þarna var beinlínis verið að dæla fé frá skuldurum inn á reikninga fjármagnseigenda.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á þetta. Fólk með vott af almennri skynsemi hefur bent á þetta. Um er að ræða magnað óréttlæti, þar sem óvarið fólk er neytt til að borga undir þá sem varðir eru í bak og fyrir. Skapast hefur gjá á milli fjármagnseigenda og skuldara, þó að einungis brot af fjármagnseigendum og skuldurum séu óábyrgir einstaklingar. Sjálfur myndi ég flokka mig sem skuldara, einungis vegna þess að ég fjárfesti í íbúð þegar ég flutti til Íslands 2004 og keypti mér gamlan bíl þar sem strætósamgöngum var ekki treystandi.

Mér hefur þótt blóðugt að sjá lán mín rjúka upp úr öllu valdi um mörghundruð þúsund á mánuði og vera síðan boðin greiðsluaðlögun af ríkisstjórn sem þýðir ekkert annað en að greiðslur af láninu munu líklega lækka í þrjú til fimm ár, en síðan rjúka upp úr öllu valdi eftir það, og ekki nóg með það, höfuðstóllinn mun hækka margfalt. Ég get ekki samþykkt slíka lausn, því ég mun aldrei geta staðið við hana.

Ég vil leiðréttingu.

Ég vil fá að borga lánið sem ég samdi um, ekki okurlán þar sem forsendur brustu algjörlega vegna fjármálasvika, bæði innan bankastofnana og utan þeirra, þar sem leikið var fjárhættuspil með krónuna.

Ég hef rætt þetta við fjölda fólks. Afstaða skiptist í tvennt. Það var þessi afstöðumunur sem sannfærði mig endanlega um að flytja af landi brott, sem ég gerði síðasta apríl. Þessi afstaða var í einföldun þannig:

Skuldarar (ábyrgir einstaklingar): Það er blóðugt og ósanngjarnt að sjá lán rjúka upp. Leiðrétting er nauðsynleg. Fólk mun aldrei ráða við þetta. Ríkisstjórnin hlýtur að koma til móts við þetta blóðuga tap. Upplifun þeirra: ríkisstjórnin kemur fram með hugmyndir í glanspappír sem eru lausnir í anda þeirra sem fíkniefnaneytendur hugsa upp til að svala eigin fíkn. Skammtímalausnir þar sem fólk fær frest til að greiða, en öllum frestinum er staflað upp og bætt við aftan á lánið, er engin lausn. Slíkt er einfaldlega íþyngjandi til lengri tíma fyrir skuldara sem setur þá í óviðráðanlega stöðu til frambúðar. Hvar er réttlætið í því?

Fjármagnseigendur (ábyrgir einstaklingar): Tala títt um óábyrga skuldara sem á ekki að bjarga, en virðast ekki átta sig á því ábyrga fólki sem hefur lent í þessari svakalegu stöðu. Þegar talað er um leiðréttingu hef ég heyrt viðbrögð eins og: "Ef það verður gert verður allt brjálað! Gripið verður til vopna! Fjármagnseigendur eiga ekki að borga fyrir fólk sem hefur tekið á sig of háar skuldfestingar!"

Þetta er gjáin. 

Sannleikurinn er hins vegar sá að 99% fólks er ábyrgt og gott. Um 0.5% af fjármagnseigendum virðast hafa komið þjóðinni í djúp vandræði með fjárhættufíkn sinni, og 0.5% af skuldurum virðast hafa séð leik á borði til að græða á ástandinu. Þessir örfáu ranglátu einstaklingar eru að hafa gífurleg áhrif á stöðugleika heillrar þjóðar, og hafa hrundið af stað spilaborg sem ekkert virðist geta stöðvað.

Nú er svo komið að fjármagnseigendur þurfa loks að blæða. Það er þegar í ljós kemur að peningur skuldara er ekki nóg til að halda fjármálakerfinu gangandi. Hvort að þeir auknu skattar sem kynntir hafa verið muni gera það eitthvað frekar, er nokkuð sem á eftir að koma í ljós, en mér sýnist málið vera sáraeinfalt: fjármagnseigendur eru komnir í þá stöðu sem skuldarar voru í fyrir nokkrum mánuðum og skuldarar orðnir algjörlega örvæntingarfullir.

Ekki hjálpar það til þegar í ljós kemur að einn helsti ráðgjafi félagsmálaráðuneytis kemur hugsanlega úr hópi þeirra 0.5% Íslendinga sem tóku þátt í að velta landinu um koll, en ráðamenn þar á bæ virðast hafa þá grunnhyggnu afstöðu að fólk sem tölustafir og að best væri að ráðast gegn lægstu tölustöfunum sem standa algjörlega varnarlausir, því að hærri tölustafir gætu falið í sér meiri pólitíska áhættu og hefðu hvort eð er engan ávinning.

Ég er farinn að halda að stjórnmálamenn hugsi svona: "Hvernig græða ég og mínir mest á ástandinu? Mér er ekki sama um almenning, ég veit að fólk skiptir máli, en þetta er fólk sem ég þekki ekki og kemur mér í raun ekkert við. Það hljómar kannski kalt, en þetta eru bara tölur í kerfi."

Í gær voru kynntir nýir skattar á næstum öllu sem hægt er að skattleggja, og það þrátt fyrir að skattstofnar flestra hafa dvínað og jafnvel hrunið, þannig að auknir skattar munu ekkert endilega skila inn meiri pening, heldur fyrst og fremst meira hlutfalli af einhverju sem stendur í stað eða fer síminnkandi vegna gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja, eða fólks eins og mín sem hefur fengið nóg af þessari vitleysu og flutt af landi.

Ég sá ekki fram á að Ísland væri réttlátt land, og vil ekki að börn mín þurfi að alast upp í ranglátu ríki, því þá myndu þau sjálf lenda í vandræðum með að skilja á milli hins rétta og ranga, þar sem engin viðmiðun fyrir réttlæti er jafn sterk og það að eigin landslögum sé fylgt eftir, og tryggt sé að réttlæti ríki. Mörg önnur lönd í heiminum þjást vegna eigin spillingar, og ég taldi þegar ég flutti aftur til Íslands árið 2004 að Ísland væri eitt af þeim, að þetta yrði góður staður fyrir börn mín, að Íslendingar stæðu saman og væru réttlátir, að það væri ákveðin samheldni á milli Íslendinga sem erfitt var að finna erlendis.

Þessi bjarta sýn um Ísland og Íslendinga hefur því miður hrunið fyrir augum mínum síðustu misserin, og þó ég hafi ekki snúist til bölsýnis, þá hefur veruleikinn einfaldlega hrunið yfir mig og mína fjölskyldu eins og hlass af mold úr vörubíl og ég þurft að taka mig allan á til að koma börnum mínum undan þessu fargi. Því hver er ábyrgð mín, ef ekki fyrst og fremst að gæta barna minna?

Geti maður ekki sinnt slíkri ábyrgð í landinu sem ól mann, þá er eitthvað alvarlegt að. Þegar viðhorfin sem maður heyrir er að fólk hafi komið sér í þennan vanda sjálft með að taka alltof há lán, þá er eitthvað alvarlegt að. Ég gerðist sekur um að kaupa undir fjölskyldu mína íbúð á lánum, enda lifað við það lengi að hafa leigt frá ári til árs, sem er óviðunandi ástand fyrir fjölskyldur. Þak yfir höfuðið! Flokkast slíkt virkilega undir óábyrga eyðslu?

Það hlakkar ekki í mér nú þegar 99% þjóðarinnar þarf að horfa á eignir sínar brenna upp á báli sem fáir hafa séð fyrir. Og brennan er rétt að byrja.

Helsti vandinn á Íslandi er að lítill hópur manna með mikinn auð náði völdum, og tókst að breyta Íslandi úr lýðræði í auðræði. Afleiðing slíks er alltaf, og ekki bara í sögulegum skilningi, heldur einnig röklegum, að harðstjórn kemst til valda og í kjölfarið einræði. Þetta er allt rakið nokkuð skýrt í Ríkinu eftir Plató sem skrifað var fyrir um 2400 árum. Spurningin er bara hvar við séum í ferlinu akkúrat núna. Erum við ennþá í auðræðinu, og á leið inn í harðstjórnina, eða erum við komin í harðstjórnina?

Mig grunar að ríkisstjórn Íslands haldi sér fast í bjargbrún auðræðisins, en sé að missa tökin.


Útskýrir þetta atlögu félagsmálaráðuneytisins gegn heimilum og almennum þegnum landsins?

Egill Helgason skrifar um fyrrverandi framkvæmdarstjóra úr Landsbankanum sem gerir kröfur á gamla Landsbankann upp á 229 milljónir króna. Þessi sami maður er helsti ráðgjafi félagsmálaráðherra!

Félagsmálaráðuneytið hefur komið fólki sem fylgist vel með afar illilega á óvart þar sem lokum er skotið fyrir eyrun þegar kemur að hagsmunamálum íslenskra heimila og almennings. Þess í stað er haldið í greiðslubyrði heimilanna og reiknað út að fólk sem skuldar í íbúð eða húsi muni halda uppi bönkunum, í það minnsta nógu lengi til að hægt sé að borga kröfuhöfunum. 

Það er augljóst að þarna eru miklir hagsmunaárekstrar, og spurningar hljóta að vakna um hvort að nú séu peningar farnir að flæða í réttu vasana.

Það sést úr flugvél hvað þetta er rangt.

Félagsmálaráðherra á að segja af sér strax vegna dómgreindarbrests, en gerir það sjálfsagt ekki vegna þess að honum ætti eins og dæmið sýnir að bresta dómgreind til að taka slíka ákvörðun. Geri hann það ekki munu efasemdir vaxa afar hratt um að hann hafi eitthvað óhreint í pokahorninu, og ekki bara hann, heldur ríkisstjórnin öll.

Þarna er skýrt dæmi um hagsmunaárekstur þar sem hagsmunaárekstrar eiga ekki að vera til staðar. Slíkt skapar kjörástæður fyrir spillingu, nákvæmlega það sem þessi ríkisstjórn ætlaði að berjast gegn, en virðist síðan vera nákvæmlega sami maðkur í nákvæmlega sömu mysu og var á boðstólnum fyrir Hrun.


Stafir íslenskrar tungu

Áði ég óður í óvissu túr

týndur, þögull, æfur, ör

Önug æra þín ýkt úr móð

Íslands þoku, vé


Bannað að senda pening heim eða illa skrifuð frétt?

Súrrealískt!

Getur það verið að fólki sé bannað að senda peninga til Íslands af reikningum erlendis? Þetta þýðir sjálfsagt að þeir sem fluttir eru úr landi geta ekki greitt skuldir sínar á Íslandi lengur. 

Ef þetta er satt og rétt, er þetta skýr vísbending um að Ísland sé orðið að kommúnistaríki (ég nota kommúnisma ekki sem blótsyrði, heldur raunverulega hugmyndafræði) sem hefur einangrað sig frá fjármálamörkuðum heimsins, en þetta eru sams konar aðgerðir og Fidel Castro stóð fyrir þegar kommúnisminn var innleiddur á Kúbu.  

Samfylkingin virðist vilja opna Ísland gagnvart Evrópu, en aðrir virðast vilja loka fyrir Ísland gagnvart öllum heiminum.

Vonandi er ég að misskilja eitthvað. 

Hvernig getur verið að ekki megi senda pening til Íslands?

Ég botna ekkert í þessu...


mbl.is Aflandskrónur ónothæfar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2012 (2009) ****

Unknown

2012 er frábær kvikmynd. Hún er Independence Day (1996) með góðu atriðunum en það er enginn tölvuvírus sem bjargar deginum gegn illum geimverum, Titanic (1997) án asnalegs illmennis og syndaflóðið úr Genesis með Nóa í aukahlutverki. Það eru vissulega illmenni í þessari mynd, og flest eru þau það vegna stöðu sinnar í þjóðfélaginu og auðs. Aðal illmennið, Anheauser, sem er vel leikið og áhugavert í höndum Oliver Platt er skýrt í höfuð á einu af fyrirtækjunum sem bandaríska ríkið þurfti að bjarga með gífurlegu fjármagna á kostnað bandarískra þegna. Hann selur jafnvel mömmu sína í skondnu atriði.

2012_01

Roland Emmerick leikstýrir myndinni, greinilega endurnærður og ferskur eftir að hafa skilað af sér einni ömurlegustu kvikmynd allra tíma, 10.000 BC (2008). Ég hef yfirleitt haft mjög gaman af myndum hans, fyrir utan 10.000 BC að sjálfsögðu, en upp úr standa Universal Soldier (1992) þar sem Jean Claude Van Damme og Dolph Lundgren leika hermenn sem hafa verið uppfærðir með tölvuheila og líkamsstyrk, en heilaþvotturinn virkar ekki nógu vel og góðmennið Damme þarf að taka á stóra sínum gegn illmenninu Lundgren. Einnig leikstýrði hann Independence Day, þar sem Will Smith kýldi geimverur kaldar og Jeff Goldblum fann upp tölvuvírus sem hægt er að hlaða inn í lélegan eldvegg geimveranna.

2012_02

Ekki má gleyma hinni hötuðu en skemmtilegu Godzilla (1998), þar sem Matthew Broderick og íbúar New York flýja undan risavaxinni eðlu, þar til Broderick fattar að þetta er bara stórt dýr. Fyrst ég er byrjaður að telja upp, þá gerði hann einnig Stargate (1994) um vísindamanninn James Spader og hóp hermanna sem Kurt Russell leiðir sem ferðast um heimsins víddir gegnum stjörnuhlið. Fullt af sjónvarpsþáttum hafa verið framleiddir í framhaldi. Einnig gerði hann The Patriot (2000) sem kom Heath Ledger á framfæri í Hollywood, þar sem hann lék son og skyggði á Mel Gibson, en það skapaði ákveðið ójafnvægi í myndinni. Einnig gerði hann The Day After Tomorrow (2004) þar sem Jake Gyllenhall og Dennis Quaid þurfa að takast á við heljarfrost sem skellur á og frystir heiminn, með skelfilegum afleiðingum. Engin af ofantöldum myndum jafnast samt á við 2012.

2012

Sagan er sáraeinföld, og virkar vel hugsanlega vegna þess að rammi hennar er nokkuð sem allir þekkja, mýtan um syndaflóðið og örkina hans Nóa úr Genesis Biblíunnar. Það er gert nokkuð ljóst að Guð er ekki sáttur við nútímamanninn, en vísbending um það er þegar sprunga aðskilur fingur Adams og Guðs í frægu listaverki Leonardo Da Vinci í lofti rómverskrar kirkju. Mig grunar að leikstjórinn hafi slíka tilfinningu vegna ógurlegrar spillingar í stjórnmálum og fyrirtækjum, eins og Íslendingar hafa einnig þurft að upplifa síðustu ár, að hann telur þörf á að hreinsa svolítið til. Byrja upp á nýtt. Hljómar kunnuglega, ekki satt?

2012_05

Sagan er einföld. Indverskur vísindamaður, Dr. Satnam Tsurutani (Jimi Mistry) uppgötvar samband sólgosa og aukins hita í kjarna Jarðarinnar, og fræðir vísindaráðgjafa forseta Bandaríkjanna, Dr. Adrian Helmsley (Chiwetel Ejiofor) um stöðu mála. Helmsley fer á fund með starfsmannastjóra Hvíta Hússins Carl Anheuser (Oliver Platt) sem kemur honum í beint samband við forseta bandaríkjanna, Thomas Wilson (Danny Glover). Þeir hafa þrjú ár til að undirbúa áætlun sem bjarga á mannkyninu frá glötun.

2012_06

Rithöfundurinn Jackson Curtis (John Cusack) uppgötvar að eitthvað er ekki í lagi þegar hann fer í útilegu með börnum sínum, Nóa (Liam James) og Lilly (Morgan Lily) til Yellowstone Park, en þar hefur eftirlætis stöðuvatnið hans þornað upp. Áður en hann getur skoðað svæðið almennilega hefur hann verið umkringdur af alvopnuðum hermönnum Bandaríkjahers. Hann er færður fyrir Dr. Adrian Helmsley, sem reynist vera einn af örfáum aðdáendum hans, en Curtis hafði skrifað skáldsögu um endalok Jarðar og viðbrögð stjórnvalda við slíkum hamförum. Curtis er fylgt út af svæðinu, en furðulegur dómsdagsspámaður með útvarpsþátt hefur sínar eigin kenningar um hvað er á seyði, og kemur Curtis á sporið um samsæri sem er í gangi til að fela hörmungarnar sem ógna heiminum. Þessi klikkaði spámaður, Charlie, er leikinn snilldarlega af hinum stórskemmtilega Woody Harrelson.

2012_04

Það tekur Curtis smá tíma að melta upplýsingarnar, en tekst að púsla brotunum saman þegar fyrrverandi eiginkona hans Kate (Amanda Peet) og kærasti hennar Gordon Silberman (Thomas McCarthy) lenda í því að stórmarkaður þar sem þau versla klofnar í tvennt, og Curtis sem hefur aukastarf  sem bílstjóri lúxuskerru, kemst að því að ríkisbubbar eru að flýja svæðið og sonur Yuri Karpovs (Zlatko Buric), rússnesks boxara og auðkýfings, segir honum hreint út að hann muni fljótlega deyja eins og allir aðrir í heiminum nema útvaldir.

2012_07

Allt smellur þetta saman í huga Curtis, og þetta er bara á fyrstu mínútum myndarinnar, og hann ákveður að leita arkarinnar og bjarga fyrrum eiginkonu sinni og börnum, ásamt lýtalækninum Gordon sem kom í hans stað, leigja flugvél og flýja áður en heimurinn hrynur. Og hann er byrjaður að hrynja. Curtis nær fjölskyldu sinni nokkrum sekúndum áður en borgin tekur að falla saman, og ekur á lúxuskerrunni gegnum borg sem hrynur saman fyrir augum hans. Hefst þar einn skemmtilegasti eltingarleikur sem ég hef séð í kvikmynd, náttúran sjálf gegn fráskilinni kjarnafjölskyldu.

2012_08

George Seagal kemur einnig sterkur til leiks sem gamli söngvarinn Tony á risasnekkjunni Genesis, og aðrar eftirminnilegar aukapersónur eru flugmaðurinn Sasha (Johann Urb) sem á eitt augnablik sem minnir á atriði úr Indiana Jones and the Temple of Doom (1984) og kynbomban Tamara (Beatrice Rosen) sem reynist aðeins flóknari persóna en mann grunaði þegar hún fyrst birtist. Einnig eiga kínverskir verkamenn fulltrúa í hetjunni Tenzin (Chin Han), sem reynist úrræðagóður þegar í ljós kemur að verkamennirnir sem unnu að gerð arkarinnar fá ekki farmiða, en hann er bróðir búddamunksins Nima (Osric Chau) sem hefur fengið tækifæri til að bjarga afa sínum og ömmu undan hamförunum. Thandie Newton er svo dóttir forseta Bandaríkjanna.

2012_09

Tæknibrellurnar eru án vafa það besta sem ég hef séð. Taktu fallegustu útsýnismyndir sem þú getur hugsað þér og fáðu þær til að hrynja innanfrá í fullkomnu samræmið við lögmál eðlisfræðinnar, og þá kemstu nálægt því að ímynda þér hvað þú munt sjá í þessari mynd. Þó að þetta sé hörmungarmynd, þá er hún ekki sorglegur harmleikur, heldur meira léttmeti - ævintýri venjulegs fólks við afar óvenjulegar aðstæður.

Sagan er full af klisjum, en persónur og leikarar það góðar, og húmorinn settur það skemmtilega fram, eins og þegar hæna ein á skondið augnablik undir öxi kínverskrar ömmu, ásamt ógleymanlegum tæknibrellum, og hnyttnum skotum á samtímastjórnmál, spillingu og vinargreiða, að hún hittir beint í mark.


Páll Andrason Íslandsmeistari!

Í dag varð Páll Snædal Andrason Íslandsmeistari 15 ára og yngri í skák. Hann hafði samband við mig á MSN, himinlifandi eftir 2-0 sigur í úrslistaeinvígi gegn hinum ágæta skákmanni Erni Leó Jóhannssyni sem er sonur hins öfluga skákmanns og vinar míns Jóhanns Ingvasonar.

Palli var í hópi þeirra nemenda Salaskóla sem urðu heimsmeistararar í Tékklandi árið 2007 og fóru í eftirminnilegt ferðalag til Namibíu þar sem við heimsóttum fjölmarga skóla ásamt þeim Ómari Salama og Henrik Danielsen.

Vonandi fagnar Salaskóli og Kópavogur þessum nýja Íslandsmeistara á viðeigandi hátt.


Er Greiðslujöfnun eitthvað annað en lán sem tekið er til að borga lán?

Mér líður hálf illa yfir þessu. Úrræði ríkisstjórnarinnar er hræðilegt. Þetta er svona 2006 lausn. Þá var hægt að taka lán til að borga ekki bara lán, heldur heilu fyrirtækin, svo að þau gætu keypt enn önnur fyrirtæki og þannig koll af kolli. Það var svona svikamylla sem gat aldrei gengið upp.

Greiðslujöfnunin er líka mylla. Kannski ekki svikamylla. Meira í líkindum við að-mála-sig-út-í-horn-mylla. 

Ég fæ þúsundkall að láni hjá Geira. Hann segist ætla að rukka mig um 10% vexti á hverjum mánuði af höfuðstóli þúsundkallsins. Ég ákveð að borga hundraðkall á mánuði, en fatta ekki að lánið hækkar um höfuðstóllinn hækkar um 100 krónur um leið og ég borga, þannig að það stendur i stað. Þannig líða árin.

Dag einn hrynja bankar. Þá fer Geiri í frekar vont skap og vegna ytri aðstæðna ákveður hann að rukka mig um 250 kall á mánuði í stað hundraðkalls. Ekki nóg með það, um 150 krónur leggjast við höfuðstólinn á hverjum mánuði. Ég verð væntanlega fúll, en þar sem allir kröfuhafar landsins hafa gert það sama, kemst Geiri upp með þetta og telst þetta þar með eðlileg hegðun.

Nú á ég ekki lengur fyrir þessu og óska eftir að fá greiðslur frystar í eitt ár, bara af því að ég er svo heiðarlegur og góður strákur. Allt í lagi. Geiri fellst á það, en hins vegar þýðir þetta að 25% af höfuðstól leggst ofan á höfuðstólinn í hverjum mánuði. Eftir árið skulda ég Geira kr. 4000,- og þá er ég farinn að reita hárið af höfðinu.

Kemur þá ríkisstjórnin og ætlar að skakka leikinn. Henni finnst þetta komið út í vitleysu, og leggur nú til að ég fái nógu hátt lán hjá Geira til þess að lækka mánaðarlega útborgun mína niður í 100 krónur. Hins vegar er mánaðarlega greiðslan komin upp í kr. 1000,- á mánuði og mun ég fá að borga þann pening eftir einhver ár, ef mér tekst að borga hitt lánið, kannski þremur árum eftir að greiðslum á hinu láninu lýkur.

Þetta dæmi er kannski svolítið ýkt.

En þetta er nákvæmlega það sem hefur gerst í bíla- og húsnæðislánum Íslendinga. Og Greiðslujöfnunaráætlunin er ekkert annað en lán til að greiða inn á annað lán. 

Ég vorkenni starfsmönnum í bönkum sem geta ekki boðið viðskiptavinum sínum upp á betri leiðir, og ég vorkenni þeim sem hafa tekið lán og skulda upp í íbúð eða bíl - ég vorkenni ekki þeim sem hafa keypt sér hundrað bíla og þrjú einbýlishús, sundlaug og lúxustjald fyrir þrátíu. Enda er ég kaldhjartaður maður. 

Staðan er þannig: bankaræningjar stálu öllum peningum landsins og miklu meira til. Ríkið lofaði að þeir sem áttu peninga í bönkum töpuðu ekki neinu. Þeir sem borga fyrir þetta eru þeir sem áttu ekki neitt, en skulduðu þeim sem áttu eitthvað í bönkum, eftir einhverjum flóknum leiðum, og þurfa fyrir vikið að borga miklu meira en upphaflega stóð til. Þetta fólk er með lægri laun, borgar fljótlega hærri skatta, og þarf að greiða hærra verð fyrir nauðsynjar - og að sjálfsögðu meira fyrir lánin, annars verður þeim hent út á götu og látin leika litlu stúlkuna með eldspýtuna næstu jól, fyrir framan Hótel Borg á meðan vitringar spjalla í beinni útsendingu með vínglas, innbakað gómsæti og kertaljós.

Fljótlega fara þeir sem eiga peningana sem áður voru varðir, að fatta plottið, að peningar þeirra verða sjálfkrafa minna virði þegar þörfin hinna sem minna eiga eykst, og það fólk getur ekki lengur sett markaðinn á hreyfingu með því að kaupa leikföng í Toys 'R Us.

Stundum langar mig til að taka ræður félagsmálaráðherra og rökgreina þær, en gefst fyrirfram upp einfaldlega vegna þess að ég finn þar hvergi heilan þráð. Nái einn þráður inn í næsta herbergi, er næsta víst að herbergið er lokað. Ég skora á rökfræðinemendur við heimspekideild Háskóla Íslands að greina þessar ræður og birta í fjölmiðlum. Takið hvaða ræðu sem er og berið saman við klassískar þversagnir og rökvillur. Ég er viss um að það verður lærdómsríkt verkefni.

Ég ætla að hætta þessu röfli en enda með því að leggja áherslu á að maður tekur ekki lán til að borga lán, nema maður sé að taka kennitölulán. Það er alltof hættulegt að gera svoleiðis á eigin nafni, en algjörlega siðlaust, en samt sjálfsagt löglegt að gera þetta með nýrri kennitölu. Hef ekki kannað það, en það kæmi mér ekki á óvart.


Hver er maðurinn?

Í dag fletti ég gegnum tímarit sem kom í póstkassann minn hérna í Noregi. Í tímaritinu er mynd af Íslendingi, sem er þekktur fyrir góðan húmor, félagslyndi og hefur sjálfsagt verið gagnrýndur meira en nokkur annar Íslendingur fyrir innsláttavillur. 

Hver er maðurinn og hvar er hann staðsettur á myndinni?

gunnibjnorge_002.jpg

Vísbending: hann er skákmaður.


Hvað er í bíó, núna?

zombieland-movie-image-woody-harrelson

Það er fullt af skemmtilegum myndum í bíó, og nokkrar sem komið hafa mjög á óvart og slegið í gegn. Sérstaka athygli vekur Woody Harrelson sem uppvakningabani og hræódýr draugamynd sem virðist hræða líftóruna úr flestum þeim sem voga sér að sjá hana. Síðustu dagar Michael Jackson koma einnig á óvart og þriðja ísöldin skemmtilegri en fyrstu tvær til samans.

Ég hef verið að þýða greinar eftir kvikmyndarýninn Roger Ebert, sett þær inn á rogerebert.blog.is og miðað við þær myndir sem eru í bíó. Kíktu á listann hérna fyrir neðan til að fræðast um þær myndir sem eru enn í sýningu.

 

Smelltu á titlana til að lesa dómana.

This Is It (2009) ****
Vel gerð og skemmtileg heimildarmynd um síðustu mánuði hins nýlátna Michael Jackson þar sem hann sýnir á sér óvæntar hliðar. Leikstýrð af Kenny Ortega, sem gerði High School Musical myndirnar, en til gaman má geta að vinnuheiti High School Musical var Grease 3.

Roman Polanski: Wanted and Desired (2008) ***1/2
Áhugaverð heimildarmynd um erfitt líf Roman Polanski, hvernig hann lifði seinni heimstyrjöldina af sem pólskur drengur og missti meðal annars móður sína sem myrt var í útrýmingarbúðum nasista, hvernig hann varð frægur kvikmyndaleikstjóri í Hollywood, hvernig fylgjendur Charles Manson myrtu eiginkonu hans og ófætt barn, hvernig hann nauðgaði og var sóttur til saka, fangelsaður og síðan flúði Bandaríkin, en segir ekki frá því hvernig hann var handsamaður á dögunum og mun líklega verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem yfir honum vofir hugsanlega fimmtíu ára dómur fyrir að hafa flúið réttvísina.

Orphan (2009) ***1/2
Hrollvekja um stúlku sem lætur Damien í Omen myndunum, son skrattans, líta út eins og leikskólakrakka.

The Informant! (2009) ****

Nokkurs konar gamanmynd með Matt Damon sem byggð er á súrrealískum en jafnframt sönnum atburðum um fyrirtækja- og fjármálaspillingu. Ef þér fannst barnalánin hjá Íslandsbanka eitthvað til að hneykslast yfir, kíktu þá á þessa til að hneykslast ennþá meira.

Zombieland (2009) ***
Woody Harrelson leiðir hóp uppvakningaslátrara í þessari gamanhrollvekju gegnum Bandaríkin sem hafa orðið uppvakningum að bráð. Aðeins örfáar manneskjur hafa lifað óbreyttar af, og gefa áhorfendum ráð í léttum dúr um hvernig lifa skuli af uppvakningaplágur.

Law Abiding Citizen (2009) ***
Gerald Butler leikur fjöldamorðingja sem myrðir fólk utan fangelsisveggja á meðan hann er lokaður í einangrunarklefa innan í fangelsinu, enda fólk svo útreiknanlegt þessa dagana, sérstaklega þegar fólk flest eru flatar persónur í svona spennutrylli. 

Couples Retreat (2009) **
Misheppnuð gamanmynd um fólk sem fer á paradísareyju til að leysa persónuleg vandamál sín. Geisp.

Fame (2009) **
Misheppnuð söngvamynd byggð á snilldarsöngvamynd.

Up (2009) ****
Ef þú hefur gaman af bíómyndum um gamlan kall og unga skáta sem svífa um í húsi sem haldið er uppi af milljón blöðrum eða svo, og hefur gaman af gömlu Indiana Jones myndunum, þá áttu eftir að skemmta þér vel á þessari. Fyrstu tíu mínúturnar eru með því besta sem gert hefur verið í heimi teiknimynda, og sjálfsagt kvikmynda yfir höfuð. Algjört listaverk. Og skemmtileg.

Toy Story (1995) ****
Ef þú hefur ekki séð Toy Story ertu ekki viðræðuhæf(ur).

Ice Age: Dawn of the Dinosaurs (2009) ***1/2
Betri en fyrstu tvær Ice Age myndirnar til samans. Kemur skemmtilega á óvart, sérstaklega þar sem henni tekst að víkka út heim sem áður virtist heldur takmarkaður. Simon Pegg blæs nýju lífi í myndina með persónu sem er hálfur Tarzan og hálfur Ahab skipstjóri, í eilífðarbaráttu við stærsu risaeðlu í heimi. Svona eins og barátta Scrat við akornið, sem ætti reyndar að fá sérstök verðlaun fyrir góðan leik.

9 (2009) ***
Gífurlega vel gerð mynd sem gerist í heimi þar sem mannkynið hefur verið máð af yfirborði jarðarinnar, og eftir sitja 9 litlar tuskudúkkur og eitt stykki gjöreyðingarvélmenni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband