Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Svínin á Alþingi (2. þáttur um Vilhjálm og Konung)

Tímaferðalög eru ekki þægilegur ferðamáti, sama hvað hver segir. Þú sest ekki upp í tímaferðabíl og á næsta augnabliki hefurðu skotist 20 ár aftur eða fram í tíma. Þú sest ekki í þægilegan stól þar sem þú sérð umhverfið breytast og hrörna þegar þú ferðast fram á við, sérð jafnvel styrjaldir rústa umhverfi þínu, og einhvers konar risaeðlur verða til á ný eftir að mannkynið hefur gjöreytt sér og pólarnir bráðnað. Nei, tímaferðalög eru ekki þægileg. Þetta vissi Vilhjálmur ósköp vel og þetta fékk Konungur að reyna í sinni fyrstu ferð, sem var ekki bara nokkur þúsund ár inn í framtíðina, heldur einnig úr fantasíuheimi inn í veruleikann.

Ferðin tók þá um sex daga í rauntíma. Fyrsta daginn þjáðist Konungur af tímaveiki. Honum var stöðugt flökurt og við það að æla, en gerði það ekki. Það var hvergi klósett, en samt þurftu þeir að gera þarfir sínar í þessu síbreytilega tímarúmi sem þeir ferðuðust um. Ég fjalla ekki um það í smáatriðum. Vilhjálmur hafði haft vit á því að taka með sér mat, sem hann deildi með Konungi í litlum skömmtum þessa sex daga sem ferðin tók. 

Umhverfi þeirra var skrítið. Þeir hvorki stóðu, sátu né lágu, heldur flutu um í einhvers konar þyngdarleysi og allan tímann umkringdir jarðvegi sem var sífellt á hreyfingu. Mold, steinar, málmar, vökvi og gufa virtust ekki fylgja neinum reglum. Sumt flaut upp, annað niður, og annað til hliðar, og síðan þversogkross út um allt. Eftir tvo daga fór Konungur þó að greina ákveðna reglu í óreiðunni. Ljós skein úr einni átt gegnum þennan síhrynjandi jarðveg, en ef þú horfir í þetta ljós blindastu fljótt. Skruðningarnir í jarðveginum eru hreint óþolandi. Ef þú ætlast til að ná sæmilegum samræðum við ferðafélaga þinn meðan á tímaferðalagi stendur, þá skjátlast þér hrapalega.

Rýmið var ekki stórt. Það var samt nógu stórt til að breiða út öllum öngum og gera leikfimisæfingar. Hins vegar gætirðu ekki sveiflað ketti í kringum þig án þess að hann færi í jarðveginn, og myndi sjálfsagt hvæsa að þér meira en mjálma upp frá því.

En þetta var sérstök upplifun fyrir Konung, því allt hans líf hafði verið svo þægilegt, og hann  búinn í slíkan bómull, að hann var að reynslu og gáfum eins og tveggja ára barn. Nú máttu ekki vanmeta gáfur tveggja ára barns. Ef hlustað væri meira á þann hóp einstaklinga væri heimurinn hugsanlega betri, hafirðu í huga að meirihluti þeirra nær ekki að hugsa út fyrir eigið sjálf. Hin sem geta það, reynast hins vegar mestu vitringar Jarðar.

Þeir Konungur og Vilhjálmur reyndu að tala saman, en þar sem þetta var fyrsta tímaferðalag Vilhjálms með farþega, vissi hann ekki hvernig þeir gætu bætt tjáskiptin. Hins vegar áttaði Konungur sig á að þegar hann þrýsti á eyrnalokurnar, þá gat hann hlustað á hrópin í Vilhjálmi. Hann hafði ekki heyrt neitt vegna skruðninganna, en loks tókst honum að nema ákveðnar upplýsingar.

"Ekki þægilegt!" hrópaði Vilhjálmur.

Konungur hristi höfuðið og langaði helst til að kirkja Vilhjálm, en þetta var á fyrsta degi og hann var svo máttlaus að hann hefði ekki einu sinni getað löðrungað manninn með hanska.

"Af hverju?" hrópaði Konungur.

Vilhjálmur yppti öxlum og brosti vandræðalega. Hann sagði nokkur orð, en það eina sem Konungur heyrði var, "... við fæðumst..."

Á öðrum degi spurði Konungur hvert ferðinni væri heitið.

Aftur yppti Vilhjálmur öxlum. Hann virtist ekkert vita. Konungur var ekki alveg sáttur. Hann hafði gert ráð fyrir að Vilhjálmur hefði einhverja þekkingu um hvert förinni væri heitið, hver tilgangur ferðarinnar væri, en hafi Vilhjálmur vitað eitthvað, hefur sú þekking verið byggð á reynslu, útreikningum, pælingum, gildum og visku - og lítið haft með staðreyndir að gera. Svona eins og lífið sjálft.

Á fjórða degi voru þeir alveg hættir að reyna samskipti og voru báðir svo skapvondir og pirraðir út í hvorn annan, fyrir það eitt að vera í sama rými svona lengi, og fyrir að lykta af þvagi, svita og skít, og fyrir að vera krímugir í framan og með hárið fullt af jarðvegi. Þeir þurftu líka að anda inn í ermar sínar, og áttu orðið erfitt með andardrátt þegar jarðvegurinn umhverfis þá fór að þynnast, og ljósið að skína skýrar í gegn. 

Það var svo á sjötta degi að jarðvegurinn hvarf og þeir stóðu úti á túni í grenjandi rigningu við styttu á torgi sem umkringt var fallegum byggingum. Vilhjálmur þekkti umhverfið og lýsti því fyrir Konungi. Hann sagði að þeir væru staddir á Íslandi.Styttan að baki þeim væri af Jóni Sigurðssyni forseta, sem hafði verið einn af forystumönnum sjálfstæðisbaráttunnar samkvæmt sögubókum, en það væri svolítil einföldun á lífi hans, og að húsið fyrir framan væri Alþingi, við hlið þess Dómkirkjan, á bakvið tjörnin, og svo lýsti hann öðrum byggingum sem hann hafði komið í, Hótel Borg og Silfrinu, Cafè Paris, og gamla pósthúsinu.

Þar sáu þeir sýn sem þeim þótti ótrúlegri en jafnvel þessi ferð sem hafði tekið þá alltof langan tíma. Út úr Dómkirkjunni streymdi svínahjörð sem fór rakleiðis inn í Alþingishúsið. Konungur reyndi að telja skinkurnar og sýndist þær vera um það bil sextíu talsins. 

"Mig grunar að ég viti hvert verkefni okkar er hérna," sagði Vilhjálmur.

"Hvað meinarðu? Grunar verkefni?" spurði Konungur.

"Ég hef ferðast víða síðustu sextán ár," sagði Vilhjálmur. "Það myndi æra óstöðugan að heyra um öll þau ævintýri sem ég hef lent í frá því þetta byrjaði allt saman, en það eina sem ég hef lært og veit með vissu, er að þegar ég hef fundið raunverulegt vandamál og leyst það, þá kemst ég í annað ferðalag."

"Af hverju viltu komast í fleiri svona ferðalög?" spurði Konungur.

"Ætli ég vilji ekki bara komast heim," sagði Vilhjálmur. "Mig grunar að þú eigir að taka við starfi mínu og ég eigi að kenna þér til verka, og þannig komist ég aftur heim."

"En hvað um mig?" spurði Konungur. 

"Ég veit ekki hvernig þetta virkar, ég veit bara hverju ég trúi," sagði hann. "Ég held að Óðinn hinn eineygði hafi eitthvað með þetta að gera, og að hann sé að fylgja einhverju Guðlegu plani."

"Um hvað ertu að tala?"spurði Konungur.

Vilhjálmur útskýrði fyrir honum hvernig þetta hafði allt saman byrjað með draumum hans um þrjár nornir og ferðir hans í Goðheima, og áður en hann vissi voru draumarnir orðnir að veruleika og veruleikinn að draumi, og hvernig hann hafði leitað að föður sínum heitnum og fundið hann látinn á vígvelli þar sem menn börðust gegn skrímslum, séð hvernig valkyrjurnar höfðu vakið hann aftur til lífsins, og hvernig hann hafði frelsað föður sinn úr þessum álögum. Hvernig þeim hafði tekist að finna látna móður hans í gríðarstóru eldhúsi goðanna, og einnig frelsað hana. Hvernig honum hafði verið refsað af Óðni fyrir afskipti hans með því að vera sendur á vígvöll án reglna, í óræðnum tíma og óræðnu rúmi. Eina verkfærið sem hann hefði með sér væri altækur skilnningur á grunnmálinu, sem er lagið á milli hugsana og tungumáls, þannig að hann skildi tungumál viðkomandi menningar eftir að hafa heyrt um tíu orð.

Hann sagði þetta of langa sögu til að tjá hér og nú, að þegar tími gæfist myndi hann setjast niður og skrifa hana alla. En nú væri nokkuð ljóst hvert næsta verkefni yrði: að reka svínin út úr Alþingishúsinu.


Hagar eða heimilin: ól þjóðin fúskara og ræningja sem krefjast óttablandinnar virðingar frekar en vináttu?

Spillt samfélög eiga það sameiginlegt að ef hið eðlilega stangast á við heiðarleikann, þá skuli hið eðlilega ráða ferðinni. Hið eðlilega á nefnilega heima í veruleikanum, en heiðarleiki og réttlæti eru bara einhverjar hugmyndir í skýjunum sem hafa engin bein áhrif.

Það er óheiðarlegt að fella niður skuldir þeirra sem urðu ríkir vegna misnotkunar á kerfinu, á meðan heimilin fá engar niðurfellingu skulda, þrátt fyrir að myntkörfulán hafi verið ólögleg og beinlínis ráðist inn á heimilin með ósýnilegri og grimmri hönd ranglætis.

En það er eðlilegt að Hagar fái afskrift. Ástæðan er einföld: Annars fengi bankinn hugsanlega ekki neitt eða miklu minna en ef allar kröfur verði innheimtar miskunnarlaust. Skiptir þá litlu hvort að aðgerðin væri óheiðarleg, því eins og við vitum græðir enginn á heiðarleika. Af sömu ástæðu innheimta bankar látlaust þegar kemur að heimilum, ástæðan er einföld: það er engu að tapa. Heimilin munu aldrei nokkurn tíma geta staðið saman gegn óréttlætinu. Það er ekki glæta. Samstaða mun aldrei nást. 

Er þetta rétt mat, að það felist meiri áhætta fyrir bankana í því að styggja Haga heldur en heimilin? Að íslensk heimili muni aldrei ná raunverulegri samstöðu og geti barist saman fyrir réttlæti?

Getur þetta kalda mat falist í þeirri staðreynd að Borgarahreyfingin er ekki lengur til, en hún átti að vera helsta rödd heimilanna á þingi, sem virðist því miður hafa verið þögguð niður á undarlegan hát sem enginn skilur. Og getur verið að ekki nógu margir standi saman, einfaldlega vegna þess að þeir skilja ekki að allir Íslendingar eiga heimili, og að með því að ráðist sé á hluta heimila, sé ráðist á þau öll?

Er matið kalda kannski þannig að fyrst fjármagnseigendur fengu sína vernd, og skuldarar enga, þá eru heimili landsins sjálfkrafa í tveimur ólíkum hagsmunahópum og hægt að skipta í þá sem eiga og þá sem eiga ekki, eða eigendur og öreiga?

Segir matið kalda að það skipti engu máli þó að fólk flytji bláfátækt og skuldum hlaðið úr landi, að við þurfum hvort eð er ekki á slíku fólki að halda, að þjóðin hafi alveg efni á því að skreppa svolítið saman, fjölga fyrst fátækum með því að leggja á þá óbærilegar skuldir og losna síðan við þá, enda eru þetta að sjálfsögðu ekkert annað en óskipuleg úrhrök sem engu ógna?

Ég geri ráð fyrir skuldir Haga verði felldar niður að einhverju leyti, vegna þess að það hljómar skynsamlega fyrir þá sem hugsa í tölustöfum. Fyrir þá sem hugsa hins vegar í manneskjum hljómar þetta hins vegar eins og ný opnun útrýmingarbúða á Íslandi.


mbl.is Tugmilljarða afskriftir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan sem hófst þegar fólkið hvarf

Einu sinni var Konungur í ríki sínu. Hann var frekar einmana því að allir sögðu alltaf já við hann. Hins vegar hafði hann ekki hugmynd um að þessar tilfinningar sem sóttu á hann voru einmanaleiki og þunglyndi, og taldi sig einfaldlega vera hamingjusaman, þar sem að hann átti allt sem hugur hans girntist og allir hlýddu óskum hans skilyrðislaust. Fólkið í hirðinni hélt að það gæti lækkað í tign fyrir að mótmæla honum. Almúginn hélt að hausar fengju að fjúka ef það vogaði sér að ávarpa hann.

Helsti ráðgjafi hans var slóttugur, en það var hann sem kom þeim orðrómi af stað að Konungur vildi ekki heyra nein mótrök, enga neikvæðni, engar fyrirstöður. Og hann var allra manna bestur í að skjalla Konung og eigna honum hugmyndir sem njósnarar hans hleruðu víða um borg og bý. Það var því ráðgjafinn sem fór með hin raunverulegu völd, ekki Konungur.

Dag einn var Konungur á gangi úti í garði, einn með hugsunum sínum, að velta fyrir sér hvort hann ætti að láta mála herbergið sitt grátt, eða hvort hann ætti að fá bestu listamenn landsins til að keppast um verkefni við að mála herbergið hans, grátt. 

Hann fór til ráðgjafa síns og sagði honum frá ósk sinni, að hann vildi að færasti listamaður landsins málaði herbergið hans grátt. Ráðgjafinn var eitthvað illa upp lagður þennan dag og gerði þau mistök að spyrja Konung spurningar: "Hvernig eigum við að finna slíkan mann?"

Konungur var ekki lengi að svara. "Við getum haldið samkeppni, og sá sem málar fegursta gráa flötinn á striga, fær þann heiður að mála herbergið mitt."

"Og hvernig, minn hávirti, eigum við að meta hvaða verk er fegurst?"

"Ég met það," sagði Konungur.

Samkeppnin var haldin. Þúsund og eitt málverk fóru í keppnina. Fyrir óvön augu litu þau öll eins út, grár flötur með ramma. Hins vegar hafði Konungur undirbúið sig vel, skoðað vandlega alla þá hluti náttúrunnar sem voru gráir, hvort sem það var steypa, steinar, eða litur augna hans eins og hann kom fyrir í spegli. Hann ætlaði að nota útilokunaraðferð til að finna rétta listamanninn. Sá þyrfti að hafa vit á að finna rétta konunglega tóninn, með þessu bliki sem hann kannaðist svo vel við, sérstaklega þegar hann hugsaði djúpt um litatóna.

Málverkin voru af öllum stærðum og gerðum. Sum voru jafnlítil og barnslófi, og önnur jafnvel stærri en hallarveggirnir. Flestir listamennirnir lögðu líka mikla vinnu í rammana, og sumir þeirra skreyttir demöntum og aðrir gulli. 

Það var á laugardagsmorgni að Konungur gekk af stað til að skoða málverkin, en listamenn stóðu við hlið þeirra um alla borg. Konungur þurfti að þræða alla stíga og allar götur og öll öngstræti borgarinnar ásamt ráðgjafa og lífvörðum. Við hvert einasta málverk spurði hann ráðgjafa sinn og lífverði, "Hvernig finnst ykkur?" 

Einhvern veginn tókst þeim hverjum og einum að svara engu fyrr en Konungur var búinn að segja sitt álit. En öll þessi gráu málverk voru listilega vel gerð, og var Konungur afar hrifinn af góðum smekk þegna sinna. 

Þá kom hann að verki sem var öðru vísi en öll hin. Fyrir miðri mynd var gulur hringur og inn í honum brúnn kjarni. Neðri hluti bakgrunnsins var grænn, sá efri blár. Það var ekkert grátt að finna í myndinni. Enginn rammi. 

Konungur nam staðar og starði á gripinn. Ráðgjafi hans var fljótur á sér og tók upp svipu, en gamall maður sat við hlið verksins, og hafði ekki einu sinni staðið upp Konungi til dýrðar. 

"Hvað á þetta að þýða," þrumaði ráðgjafinn út úr sér. "Sýnir þú ekki konungi vorum tilhlýðilega virðingu? Myndin stenst ekki kröfur og þú situr eins og þú værir jafningi hans."

"En ég er jafningi hans," sagði gamli maðurinn og gerði sig ekki líklegan til að standa á fætur. Hann leit á svipuna í hendi ráðgjafans. "Ætlarðu að nota þetta?"

Þegar Konungur sá ráðgjafann reiða svipuna til höggs benti hann lífvörðum sínum að stöðva hann. Þeir stukku á ráðgjafann sem átti þar ekki von á slíkri útreið. Konungur hins vegar settist á götuna við hlið gamla mannsins. Hann hafði aldrei áður hitt manneskju sem fór ekki algjörlega eftir óskum hans. Þetta vakti forvitni hans.

"Sæll," sagði Konungur og rétti manninum hönd sína. "Konungur heiti ég." 

"Blessaður," sagði gamli maðurinn. "Vilhjálmur." 

"Hvernig stendur á, ef ég má spyrja, að þú stendur ekki upp fyrir konungi þínum og sýnir verk sem er alls ekki í samræmi við óskir hans?"

"Jú," svaraði Vilhjálmur. "Ég hef þá trú að allir menn séu fæddir jafnir og ættu að lifa jafnir. Til að jöfnuður sé mögulegur þarf fólk að geta rætt hlutina, og það er ekki hægt að ræða hlutina án þess að skiptast á skoðunum, og þar sem við höfum öll ólíka reynslu og höfum íhugað ólíka hluti erum við misjafnlega á veg komin með að móta þekkingu okkar. Ég geri ráð fyrir að jafnvel konungur þroskist frá því að vera barn í að vera eitthvað annað, ekki satt?"

Konungur varð ringlaður á þessum óvæntu upplýsingum. Að allir væru jafnir? Að hann væri ekki æðri en allir hinir? Að hann vissi ekki betur en allir hinir? Hann langaði til að segja 'hvernig vogarðu þér?' en þess í stað varð forvitnin honum yfirsterkari, og hann spurði: "Hvernig vogarðu þér, vinur?"

Vilhjálmur stóð á fætur og hneigði sig fyrir Konungi. 

"Þú ert ekki fyrsti konungurinn sem verður á vegi mínum, og hef ég fundið á ferðalögum mínum fleiri menn sem hafa talið sig æðri öðrum og endað lægri öllum, ég hef komist í kynni við furðuverur og vætti á mínum ferðum, fundið fjársjóði og tapað þeim, barist við hóp hermenna jafnvel vígalegri en þessara sem standa þér við hlið. Ég er kominn til að flytja þér fréttir, og hafði reynt að ná samskiptum við þig í fáeina mánuði, án árangurs vegna þess hversu vel þú ert verndaður af þínum góðu ráðgjöfum og lífvörðum. Þegar þessi keppni var auglýst vissi ég hvernig ég gæti náð sambandi við þig. Og það hef ég nú gert."

"Áhugavert," sagði Konungur. "Nú hefurðu náð sambandi við mig. Hvað viltu fá að vita?"

"Það er ekki hvað ég vil fá að vita," sagði Vilhjálmur. "Heldur hvort að þú sért tilbúinn til að lifa áður en þú deyrð? Ofvernduð manneskja sem á allt sem hún vill, heyrir engan mótmæla sér, lærir ekki neitt sem er þess virði að læra í lífinu. Þú þarft að kynnast sjálfum þér, og ég er hér kominn til að benda þér á þessa einföldu staðreynd."

Ráðgjafinn hafði stigið á fætur. "Ekki hlusta á hann, yðar hágöfgi," hvæsti hann út úr sér. En það var of seint. Fræjunum hafði verið sáð í frjóa jörð. Athygli Konungs var vakin. Hann bað verðina að þagga niður í ráðgjafanum.

"Hvað þarf ég að vita?" spurði Konungur. 

"Það er margt," sagði Vilhjálmur. "Í fyrsta lagi þarftu að vita að allir hafi ólíkar skoðanir. Í öðru lagi að þú ert ekki vinsæll, að þú ert í raun með hötuðustu konungum sem uppi hafa verið, einfaldlega vegna þess að þú ert ekki í sambandi við fólkið þitt?"

"Er þetta satt?" spurði Konungur og leit í kringum sig og reyndi að ná augnsambandi við verði sína og þá þegna sem fylgdust með. Allir sem einn litu þeir undan, allir nema ráðgjafinn sem stóð fastur á milli tveggja varða. 

"Af hverju lítið þið undan?" spurði Konungur. Eina svarið sem hann heyrði var skrækjandi kráka einhvers staðar í fjarska. Þá rann upp fyrir honum ljós. Hann fann að þessi einmanaleiki og þetta þunglyndi sem hann vissi ekki hvað var, að það var raunverulegt, og hann vildi finna leið til að takast á við þetta merkilega vandamál.

"Getur þú hjálpað mér," spurði hann Vilhjálm. 

Vilhjálmur kinkaði kolli. "Það verður hættulegt. Þú munt lenda í ævintýrum, berjast við skrímsli og aðra óvætti, upplifa svik og pretti, sorg og meiri depurð en þú hefur nokkurn tíma fundið, þú munt finna nokkuð sem er þess virði að lifa fyrir og jafnvel deyja fyrir, ef þú aðeins kemur með mér."

Konungur klappaði á öxl Vilhjálms og hló. "Þú ert ekki bara öðruvísi, þú ert fyndinn. Þú hefur unnið keppnina."

"Þú munt ekki sjá eftir þessu," sagði Vilhjálmur og hvarf. Augnabliki síðar hvarf Konungur með honum, rétt eftir að hafa starað inn í ekkertið sem Vilhjálmur hafði horfið í, því að einmitt í ekkertinu var þetta gráa og heillandi blik sem hann kannaðist svo vel við og þótti svo eftirsóknarvert.

 

Framhald síðar...

 

Þessi saga er skrifuð til heiðurs þeim bloggurum sem gufað hafa upp af Moggablogginu undanfarið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband