Loks hjólað í fjármagnseigendur?

Við Hrunið (Guð blessi Ísland) var fjármagnseigendum lofað að innistæður þeirra í bönkum væru tryggðar 100%. Ekki nóg með það, þeir sem áttu pening á verðtryggðum reikningum nutu um 20% vaxta af innistæðum sínum vegna stýrivaxtabreytinga. Á móti kom að þeir sem skulduðu í húseignum þurftu að borga um 25% af lánum sínum, sem undir eðlilegum kringumstæðum ættu aldrei að fara yfir 10%. Þarna var beinlínis verið að dæla fé frá skuldurum inn á reikninga fjármagnseigenda.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á þetta. Fólk með vott af almennri skynsemi hefur bent á þetta. Um er að ræða magnað óréttlæti, þar sem óvarið fólk er neytt til að borga undir þá sem varðir eru í bak og fyrir. Skapast hefur gjá á milli fjármagnseigenda og skuldara, þó að einungis brot af fjármagnseigendum og skuldurum séu óábyrgir einstaklingar. Sjálfur myndi ég flokka mig sem skuldara, einungis vegna þess að ég fjárfesti í íbúð þegar ég flutti til Íslands 2004 og keypti mér gamlan bíl þar sem strætósamgöngum var ekki treystandi.

Mér hefur þótt blóðugt að sjá lán mín rjúka upp úr öllu valdi um mörghundruð þúsund á mánuði og vera síðan boðin greiðsluaðlögun af ríkisstjórn sem þýðir ekkert annað en að greiðslur af láninu munu líklega lækka í þrjú til fimm ár, en síðan rjúka upp úr öllu valdi eftir það, og ekki nóg með það, höfuðstóllinn mun hækka margfalt. Ég get ekki samþykkt slíka lausn, því ég mun aldrei geta staðið við hana.

Ég vil leiðréttingu.

Ég vil fá að borga lánið sem ég samdi um, ekki okurlán þar sem forsendur brustu algjörlega vegna fjármálasvika, bæði innan bankastofnana og utan þeirra, þar sem leikið var fjárhættuspil með krónuna.

Ég hef rætt þetta við fjölda fólks. Afstaða skiptist í tvennt. Það var þessi afstöðumunur sem sannfærði mig endanlega um að flytja af landi brott, sem ég gerði síðasta apríl. Þessi afstaða var í einföldun þannig:

Skuldarar (ábyrgir einstaklingar): Það er blóðugt og ósanngjarnt að sjá lán rjúka upp. Leiðrétting er nauðsynleg. Fólk mun aldrei ráða við þetta. Ríkisstjórnin hlýtur að koma til móts við þetta blóðuga tap. Upplifun þeirra: ríkisstjórnin kemur fram með hugmyndir í glanspappír sem eru lausnir í anda þeirra sem fíkniefnaneytendur hugsa upp til að svala eigin fíkn. Skammtímalausnir þar sem fólk fær frest til að greiða, en öllum frestinum er staflað upp og bætt við aftan á lánið, er engin lausn. Slíkt er einfaldlega íþyngjandi til lengri tíma fyrir skuldara sem setur þá í óviðráðanlega stöðu til frambúðar. Hvar er réttlætið í því?

Fjármagnseigendur (ábyrgir einstaklingar): Tala títt um óábyrga skuldara sem á ekki að bjarga, en virðast ekki átta sig á því ábyrga fólki sem hefur lent í þessari svakalegu stöðu. Þegar talað er um leiðréttingu hef ég heyrt viðbrögð eins og: "Ef það verður gert verður allt brjálað! Gripið verður til vopna! Fjármagnseigendur eiga ekki að borga fyrir fólk sem hefur tekið á sig of háar skuldfestingar!"

Þetta er gjáin. 

Sannleikurinn er hins vegar sá að 99% fólks er ábyrgt og gott. Um 0.5% af fjármagnseigendum virðast hafa komið þjóðinni í djúp vandræði með fjárhættufíkn sinni, og 0.5% af skuldurum virðast hafa séð leik á borði til að græða á ástandinu. Þessir örfáu ranglátu einstaklingar eru að hafa gífurleg áhrif á stöðugleika heillrar þjóðar, og hafa hrundið af stað spilaborg sem ekkert virðist geta stöðvað.

Nú er svo komið að fjármagnseigendur þurfa loks að blæða. Það er þegar í ljós kemur að peningur skuldara er ekki nóg til að halda fjármálakerfinu gangandi. Hvort að þeir auknu skattar sem kynntir hafa verið muni gera það eitthvað frekar, er nokkuð sem á eftir að koma í ljós, en mér sýnist málið vera sáraeinfalt: fjármagnseigendur eru komnir í þá stöðu sem skuldarar voru í fyrir nokkrum mánuðum og skuldarar orðnir algjörlega örvæntingarfullir.

Ekki hjálpar það til þegar í ljós kemur að einn helsti ráðgjafi félagsmálaráðuneytis kemur hugsanlega úr hópi þeirra 0.5% Íslendinga sem tóku þátt í að velta landinu um koll, en ráðamenn þar á bæ virðast hafa þá grunnhyggnu afstöðu að fólk sem tölustafir og að best væri að ráðast gegn lægstu tölustöfunum sem standa algjörlega varnarlausir, því að hærri tölustafir gætu falið í sér meiri pólitíska áhættu og hefðu hvort eð er engan ávinning.

Ég er farinn að halda að stjórnmálamenn hugsi svona: "Hvernig græða ég og mínir mest á ástandinu? Mér er ekki sama um almenning, ég veit að fólk skiptir máli, en þetta er fólk sem ég þekki ekki og kemur mér í raun ekkert við. Það hljómar kannski kalt, en þetta eru bara tölur í kerfi."

Í gær voru kynntir nýir skattar á næstum öllu sem hægt er að skattleggja, og það þrátt fyrir að skattstofnar flestra hafa dvínað og jafnvel hrunið, þannig að auknir skattar munu ekkert endilega skila inn meiri pening, heldur fyrst og fremst meira hlutfalli af einhverju sem stendur í stað eða fer síminnkandi vegna gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja, eða fólks eins og mín sem hefur fengið nóg af þessari vitleysu og flutt af landi.

Ég sá ekki fram á að Ísland væri réttlátt land, og vil ekki að börn mín þurfi að alast upp í ranglátu ríki, því þá myndu þau sjálf lenda í vandræðum með að skilja á milli hins rétta og ranga, þar sem engin viðmiðun fyrir réttlæti er jafn sterk og það að eigin landslögum sé fylgt eftir, og tryggt sé að réttlæti ríki. Mörg önnur lönd í heiminum þjást vegna eigin spillingar, og ég taldi þegar ég flutti aftur til Íslands árið 2004 að Ísland væri eitt af þeim, að þetta yrði góður staður fyrir börn mín, að Íslendingar stæðu saman og væru réttlátir, að það væri ákveðin samheldni á milli Íslendinga sem erfitt var að finna erlendis.

Þessi bjarta sýn um Ísland og Íslendinga hefur því miður hrunið fyrir augum mínum síðustu misserin, og þó ég hafi ekki snúist til bölsýnis, þá hefur veruleikinn einfaldlega hrunið yfir mig og mína fjölskyldu eins og hlass af mold úr vörubíl og ég þurft að taka mig allan á til að koma börnum mínum undan þessu fargi. Því hver er ábyrgð mín, ef ekki fyrst og fremst að gæta barna minna?

Geti maður ekki sinnt slíkri ábyrgð í landinu sem ól mann, þá er eitthvað alvarlegt að. Þegar viðhorfin sem maður heyrir er að fólk hafi komið sér í þennan vanda sjálft með að taka alltof há lán, þá er eitthvað alvarlegt að. Ég gerðist sekur um að kaupa undir fjölskyldu mína íbúð á lánum, enda lifað við það lengi að hafa leigt frá ári til árs, sem er óviðunandi ástand fyrir fjölskyldur. Þak yfir höfuðið! Flokkast slíkt virkilega undir óábyrga eyðslu?

Það hlakkar ekki í mér nú þegar 99% þjóðarinnar þarf að horfa á eignir sínar brenna upp á báli sem fáir hafa séð fyrir. Og brennan er rétt að byrja.

Helsti vandinn á Íslandi er að lítill hópur manna með mikinn auð náði völdum, og tókst að breyta Íslandi úr lýðræði í auðræði. Afleiðing slíks er alltaf, og ekki bara í sögulegum skilningi, heldur einnig röklegum, að harðstjórn kemst til valda og í kjölfarið einræði. Þetta er allt rakið nokkuð skýrt í Ríkinu eftir Plató sem skrifað var fyrir um 2400 árum. Spurningin er bara hvar við séum í ferlinu akkúrat núna. Erum við ennþá í auðræðinu, og á leið inn í harðstjórnina, eða erum við komin í harðstjórnina?

Mig grunar að ríkisstjórn Íslands haldi sér fast í bjargbrún auðræðisins, en sé að missa tökin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Don: Ég vil fá að borga lánið sem ég samdi um, ekki okurlán þar sem forsendur brustu algjörlega vegna fjármálasvika, bæði innan bankastofnana og utan þeirra, þar sem leikið var fjárhættuspil með krónuna.

Verðtryggð fasteignalán eru fáránlega ósanngjörn, en svo að maður leiki "devils advocate" í smástund:  Þú ert að fá nákvæmlega það sem þú samdir um. Forsendur hafa breyst gríðarlega, en ekki brostið því það voru engir fyrirvarar í flestum fasteignalánum. Klásúla um hámarks ársvexti hefði verið sniðug, en enginn var með svoleiðis - og því þjást lántakendur á kostnað lánveitenda...

Umhverfið var hannað af bankamönnunum og öðrum lánveitendum. Ef þú skrifaðir undir ertu bundinn af samningnum - sama hversu ósanngjarn hann er.

Einar Jón, 19.11.2009 kl. 08:32

2 identicon

Það sem gerir þetta enn vitlausara er, að þeir sem geta raunverulega kallast fjármagnseigendur, þ.e. það fólk, sem á mikla peninga, þá er ég að meina þá sem eiga 100 milljónir eða meira í okkar ónýtu krónum talið, það fólk geymir ekki peningana sína á Íslandi, það er algjörlega stikkfrí. Innlendu fjármagnseigendurnir eru fyrst og fremst fólk sem er komið á enda starfsaldurs eða þar yfir, krakkar sem geyma fermingarpeningana sína þangað til þau kaupa bíl eða íbúð og svo ég og þú, sem leggjum smáræði til hliðar til að eiga sem varasjóð ef þvottavélin bilar eða eitthvað annað ófyrirséð kemur upp á.

Sauðarhaus (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 09:35

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Vel skrifuð grein  Hrannar og sönn/mikið sammála henni /Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 19.11.2009 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband