2012 (2009) ****

Unknown

2012 er frábær kvikmynd. Hún er Independence Day (1996) með góðu atriðunum en það er enginn tölvuvírus sem bjargar deginum gegn illum geimverum, Titanic (1997) án asnalegs illmennis og syndaflóðið úr Genesis með Nóa í aukahlutverki. Það eru vissulega illmenni í þessari mynd, og flest eru þau það vegna stöðu sinnar í þjóðfélaginu og auðs. Aðal illmennið, Anheauser, sem er vel leikið og áhugavert í höndum Oliver Platt er skýrt í höfuð á einu af fyrirtækjunum sem bandaríska ríkið þurfti að bjarga með gífurlegu fjármagna á kostnað bandarískra þegna. Hann selur jafnvel mömmu sína í skondnu atriði.

2012_01

Roland Emmerick leikstýrir myndinni, greinilega endurnærður og ferskur eftir að hafa skilað af sér einni ömurlegustu kvikmynd allra tíma, 10.000 BC (2008). Ég hef yfirleitt haft mjög gaman af myndum hans, fyrir utan 10.000 BC að sjálfsögðu, en upp úr standa Universal Soldier (1992) þar sem Jean Claude Van Damme og Dolph Lundgren leika hermenn sem hafa verið uppfærðir með tölvuheila og líkamsstyrk, en heilaþvotturinn virkar ekki nógu vel og góðmennið Damme þarf að taka á stóra sínum gegn illmenninu Lundgren. Einnig leikstýrði hann Independence Day, þar sem Will Smith kýldi geimverur kaldar og Jeff Goldblum fann upp tölvuvírus sem hægt er að hlaða inn í lélegan eldvegg geimveranna.

2012_02

Ekki má gleyma hinni hötuðu en skemmtilegu Godzilla (1998), þar sem Matthew Broderick og íbúar New York flýja undan risavaxinni eðlu, þar til Broderick fattar að þetta er bara stórt dýr. Fyrst ég er byrjaður að telja upp, þá gerði hann einnig Stargate (1994) um vísindamanninn James Spader og hóp hermanna sem Kurt Russell leiðir sem ferðast um heimsins víddir gegnum stjörnuhlið. Fullt af sjónvarpsþáttum hafa verið framleiddir í framhaldi. Einnig gerði hann The Patriot (2000) sem kom Heath Ledger á framfæri í Hollywood, þar sem hann lék son og skyggði á Mel Gibson, en það skapaði ákveðið ójafnvægi í myndinni. Einnig gerði hann The Day After Tomorrow (2004) þar sem Jake Gyllenhall og Dennis Quaid þurfa að takast á við heljarfrost sem skellur á og frystir heiminn, með skelfilegum afleiðingum. Engin af ofantöldum myndum jafnast samt á við 2012.

2012

Sagan er sáraeinföld, og virkar vel hugsanlega vegna þess að rammi hennar er nokkuð sem allir þekkja, mýtan um syndaflóðið og örkina hans Nóa úr Genesis Biblíunnar. Það er gert nokkuð ljóst að Guð er ekki sáttur við nútímamanninn, en vísbending um það er þegar sprunga aðskilur fingur Adams og Guðs í frægu listaverki Leonardo Da Vinci í lofti rómverskrar kirkju. Mig grunar að leikstjórinn hafi slíka tilfinningu vegna ógurlegrar spillingar í stjórnmálum og fyrirtækjum, eins og Íslendingar hafa einnig þurft að upplifa síðustu ár, að hann telur þörf á að hreinsa svolítið til. Byrja upp á nýtt. Hljómar kunnuglega, ekki satt?

2012_05

Sagan er einföld. Indverskur vísindamaður, Dr. Satnam Tsurutani (Jimi Mistry) uppgötvar samband sólgosa og aukins hita í kjarna Jarðarinnar, og fræðir vísindaráðgjafa forseta Bandaríkjanna, Dr. Adrian Helmsley (Chiwetel Ejiofor) um stöðu mála. Helmsley fer á fund með starfsmannastjóra Hvíta Hússins Carl Anheuser (Oliver Platt) sem kemur honum í beint samband við forseta bandaríkjanna, Thomas Wilson (Danny Glover). Þeir hafa þrjú ár til að undirbúa áætlun sem bjarga á mannkyninu frá glötun.

2012_06

Rithöfundurinn Jackson Curtis (John Cusack) uppgötvar að eitthvað er ekki í lagi þegar hann fer í útilegu með börnum sínum, Nóa (Liam James) og Lilly (Morgan Lily) til Yellowstone Park, en þar hefur eftirlætis stöðuvatnið hans þornað upp. Áður en hann getur skoðað svæðið almennilega hefur hann verið umkringdur af alvopnuðum hermönnum Bandaríkjahers. Hann er færður fyrir Dr. Adrian Helmsley, sem reynist vera einn af örfáum aðdáendum hans, en Curtis hafði skrifað skáldsögu um endalok Jarðar og viðbrögð stjórnvalda við slíkum hamförum. Curtis er fylgt út af svæðinu, en furðulegur dómsdagsspámaður með útvarpsþátt hefur sínar eigin kenningar um hvað er á seyði, og kemur Curtis á sporið um samsæri sem er í gangi til að fela hörmungarnar sem ógna heiminum. Þessi klikkaði spámaður, Charlie, er leikinn snilldarlega af hinum stórskemmtilega Woody Harrelson.

2012_04

Það tekur Curtis smá tíma að melta upplýsingarnar, en tekst að púsla brotunum saman þegar fyrrverandi eiginkona hans Kate (Amanda Peet) og kærasti hennar Gordon Silberman (Thomas McCarthy) lenda í því að stórmarkaður þar sem þau versla klofnar í tvennt, og Curtis sem hefur aukastarf  sem bílstjóri lúxuskerru, kemst að því að ríkisbubbar eru að flýja svæðið og sonur Yuri Karpovs (Zlatko Buric), rússnesks boxara og auðkýfings, segir honum hreint út að hann muni fljótlega deyja eins og allir aðrir í heiminum nema útvaldir.

2012_07

Allt smellur þetta saman í huga Curtis, og þetta er bara á fyrstu mínútum myndarinnar, og hann ákveður að leita arkarinnar og bjarga fyrrum eiginkonu sinni og börnum, ásamt lýtalækninum Gordon sem kom í hans stað, leigja flugvél og flýja áður en heimurinn hrynur. Og hann er byrjaður að hrynja. Curtis nær fjölskyldu sinni nokkrum sekúndum áður en borgin tekur að falla saman, og ekur á lúxuskerrunni gegnum borg sem hrynur saman fyrir augum hans. Hefst þar einn skemmtilegasti eltingarleikur sem ég hef séð í kvikmynd, náttúran sjálf gegn fráskilinni kjarnafjölskyldu.

2012_08

George Seagal kemur einnig sterkur til leiks sem gamli söngvarinn Tony á risasnekkjunni Genesis, og aðrar eftirminnilegar aukapersónur eru flugmaðurinn Sasha (Johann Urb) sem á eitt augnablik sem minnir á atriði úr Indiana Jones and the Temple of Doom (1984) og kynbomban Tamara (Beatrice Rosen) sem reynist aðeins flóknari persóna en mann grunaði þegar hún fyrst birtist. Einnig eiga kínverskir verkamenn fulltrúa í hetjunni Tenzin (Chin Han), sem reynist úrræðagóður þegar í ljós kemur að verkamennirnir sem unnu að gerð arkarinnar fá ekki farmiða, en hann er bróðir búddamunksins Nima (Osric Chau) sem hefur fengið tækifæri til að bjarga afa sínum og ömmu undan hamförunum. Thandie Newton er svo dóttir forseta Bandaríkjanna.

2012_09

Tæknibrellurnar eru án vafa það besta sem ég hef séð. Taktu fallegustu útsýnismyndir sem þú getur hugsað þér og fáðu þær til að hrynja innanfrá í fullkomnu samræmið við lögmál eðlisfræðinnar, og þá kemstu nálægt því að ímynda þér hvað þú munt sjá í þessari mynd. Þó að þetta sé hörmungarmynd, þá er hún ekki sorglegur harmleikur, heldur meira léttmeti - ævintýri venjulegs fólks við afar óvenjulegar aðstæður.

Sagan er full af klisjum, en persónur og leikarar það góðar, og húmorinn settur það skemmtilega fram, eins og þegar hæna ein á skondið augnablik undir öxi kínverskrar ömmu, ásamt ógleymanlegum tæknibrellum, og hnyttnum skotum á samtímastjórnmál, spillingu og vinargreiða, að hún hittir beint í mark.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sá myndina the day after tomorrow  og var lítið hrifinn, þannig að það var með blendnum huga að ég fór á þessa mynd í gær. Ég verð þó að segja að hún náði tökum á mér og þótti mér hún hin besta skemmtun. Húmorinn góður eins og þegar sprungan skildi að fingurna og svo atriðið með hænuna, sem var alveg frábært. Tæknibrellurnar frábærar svo hitta klíku og vinagreiðarnir beint í mark, eins og handritið hafi verið skrifað af íslenskum útrásarvíking úr bankaelítunni.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 13:17

2 Smámynd: Ómar Ingi

Fínasta skemmtun , brellurnar með þeim betri og þær bestu í stórslysasmynd ever, myndin var þó of löng enda of mikið af US dramatík og leiðindavæli inná milli en skemmdi þó ekki heildarmyndina það mikið að 3 stjörnur eru við hæfi af fjórum.

Ómar Ingi, 15.11.2009 kl. 13:55

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst hugmyndin sjálf, eins konar syndafall, ógeðfelld og hafa leiðinlega a trúarlega skírskotun, eitthvað fyrir trúarnötta. Annars hef ég ekki séð myndina en er miki fyrir stórslysamydnir, því hrikalegri slys því meira gaman. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.11.2009 kl. 23:50

4 Smámynd: Don Hrannar

Sigurður: þessi mynd tekur sig ekki alvarlega. Ekki hafa neinar áhyggjur af því. Engar trúarhnetur hérna. Hetjur myndarinnar eru vísindamaður og rithöfundur. Það er aðeins gefið í skyn í laumi að það sé verið að hreinsa til á jörðinni vegna synda fólks, og eini trúarbrjálæðingurinn er í raun ekki trúaður, heldur svona gagnrýninn efasemdamaður og samsæriskenningagaur sem fær ákveðna fullnægingu út frá því að hafa loksins rétt fyrir sér.

Ómar: Á skala yfir bestu kvikmyndir er ég sammála, 3 af 4. En fyrir bestu  stórslysamyndir: 4 af 4.

Rafn: Nákvæmlega.

Don Hrannar, 16.11.2009 kl. 06:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband