Hvernig tekið var við mér þegar ég kom á bandaríska heilsugæslustöð með kóngulóarbit

Heldurðu að ég hafi verið rukkaður um mikla fjármuni? Þurfti ég að kaupa rándýr lyf? Var handleggurinn skorinn af við olnboga? Var læknirinn þurrt og tilfinningalaust vélmenni? Var þetta eitt af því versta sem ég hef upplifað á ævinni?

Alls ekki.

Ég var bitinn af kónguló og handleggurinn stokkbólgnaði. Bólgan var rétt undir vinstri olnboganum. Þar voru tvær litlar holur, sem gáfu í skyn að þetta var kóngulóarbit, en skepnan hafði hakkað í mig á meðan ég svaf. Bólgan var álíka stór og ef fiskibollu hefði verið troðið undir húðina.

Fór á næstu heilsugæslustöð. Þurfti ekki að bíða lengi. Læknirinn tók vel á móti mér, smurði bólginn handlegginn og gaf mér lyf til að eyða eitrinu. Ég þurfti ekkert að borga og bólgan sjatnaði eðlilega á næstu dögum.

Ekki nákvæmlega það sem maður heyrir í fjölmiðlum um heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum eða frá Michael Moore, en það er ekki allt slæmt í Bandaríkjunum frekar en annars staðar í heiminum.

Fullt af góðu fólki.

Reyndar trúi ég því að meirihluti mannkyns sé afar gott fólk sem vill öðrum vel. Það ber bara svo mikið á þessum minnihluta sem vill öðrum ekki vel. Svo eru það sumir sem vita einfaldlega ekki betur, sem virðist eiga erfitt með að hugsa út fyrir eigin langanir eða hefðir. Menntun snýst að mínu mati fyrst og fremst um að fólk átti sig á því hvernig fer ef gildi þeirra snúast annars vegar um eigin hag, eða hins vegar aðeins um hag einhvers hóps, sama hvaða hópur það kann að vera, trúarhópur, hagsmunahópur, knattspyrnufélag, klíka. Vandinn er að fólk lifir frekar samkvæmt því sem því finnst eðlilegt en því sem er réttlátt gagnvart öllum. Það eru sumir sem fá að vera með. Aðrir mega éta það sem úti frýs.

Það er mikilvægt að útrýma eigin fordómum, nokkuð sem fordómafullir trúa ekki að þeir hafi, og því erfitt að útrýma slíkum skoðunum hjá þeim sem viðurkenna ekki að þeir hafi þær. Eina leiðin er að manneskjan rannsaki eigin skoðanir, hvaðan þær koma og sé tilbúin að viðra þær fyrir opnum tjöldum. Láta blása um þær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Richter

Þetta er akkurat mín reynsla af USA læknisþjónustu.  Maðurinn minn fékk slæmt þursabit. Við á næstu læknastofu þar sem hann fékk strax aðstoð, myndatöku og allskonar próf og sýni allt á staðnum og tók litla stund.  Þurftum reyndar að borga, en það var ekki mikið og þegar við reiknuðum saman hvað við hefðum þurft að borga hérna heima fyrir samskonar þjónustu þá hefði hún verið dýrari hérna auk þess sem allt hefði tekið miklu meiri tíma.

María Richter, 20.11.2009 kl. 13:10

2 identicon

Hef ekkert nema gott segja um heilbrigðisþjónustuna í USA. Búið hér í mörg ár og lifað af nokkrar spítalavistir ásamt öðrum í fjölskyldunni, magnað;)

Sigbjörn. (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 18:54

3 Smámynd: Davíð Pálsson

Viðmót Bandaríkjamanna er almennt mjög gott. Ég er nýkominn frá Seattle og þar voru t.d. þeir sem voru við vegabréfseftirlitið afar jákvæðir. Grínuðust t.a.m. við krakkana mína og fannst íslenska nafnakerfið frábært!

Annað viðmót tók við þegar lent var í Keflavík. Hér eru þeir sem um vegabréfaeftirlitið sjá, eins og þeir séu að sinna leiðinlegasta starfi í heimi.

Kannski er okkur Íslendingum bara eðlislægt að vera svona hrikalega þungum og alvarlegum?

Davíð Pálsson, 20.11.2009 kl. 22:17

4 Smámynd: Eygló

Hafði gaman að pælingum þínum um manneskjuna.

Hef sem betur fer aldrei meitt mig eða lasnast í útlöndum en flestir sem maður umgengst í almennum störfum eru einstaklega alúðlegir, elskulegir og hjálplegir.

Það eru nú reyndar margir Íslendingar líka. Sumir eru þó svo utanveltu, feimnir og óöruggir að þeir setja á sig þvílíkan alvöru- og sjáðu-hvað-ég-er-mikilvæg svip að hallærislegt er á að horfa og í að komast.

Eygló, 21.11.2009 kl. 01:05

5 identicon

Læknis og spítalaþjónusta er yfirleitt mjög góð í US og kannski best í heimi, en gallinn er sá að ekki hafa allir aðgang að henni. Það sem Michael Moore segir í sinni mynd er meira satt en logið. Hvað skyldu margir Íslendingar verða gjaldþrota á ári vegna skulda við íslenska heilsukerfið? Sennilega enginn, en það er algengt fyrirbæri í US. Ég kannast vel við ameríska kerfið og hef margar sögur af því að segja, góðar og slæmar, og er sannfærður að ameríska kerfið er ekkert fyrir Íslendinga að apa upp.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 06:55

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sjálfur hef ég heyrt margar ljótar sögur um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, en þetta er mín eina persónulega upplifun. Það þýðir ekki að allt sé í lagi fyrir alla, þó að hlutirnir hafi verið í lagi fyrir mig sjálfan. Það er nefnilega hægt að fordæma í báðar áttir - halda að hlutirnir séu alvondir af því að þeir eru það fyrir suma, eða halda að hlutirnir séu algóðir af því að þeir eru það fyrir suma.

Hrannar Baldursson, 21.11.2009 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband