Vilt þú starfa sem ráðherra?

Fínt starf á góðum launum. Bónusar undir borðið þegar það á við og líka þegar það á ekki við frá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum sem þurfa á stuðningi þínum að halda.

Hæfniskröfur: Þú þarft ekkert að kunna og ekkert að vita. Mikilvægt er þó að þú hafir einhverjar skoðanir á málunum og getir staðið á þeim. Skiptir engu máli hvort að skoðanirnar séu skynsamlegar eða ekki, ef þú getir talað um þær án þess að segja nokkurn skapaða hlut, ertu líklegri til að halda starfinu lengur. Hafirðu skoðanir sem stangast á við skoðanir flokksins þarftu að vera liðtækur lygari. Slíkir hæfileikar skerpast með reynslunni.

Þú þarft ekki að kunna neitt tungumál. Ekki einu sinni íslensku. Hins vegar þarftu að geta skrifað undir bréf, og því nauðsynlegt að þú kunnir að gefa eiginhandaráritun. Lestur, skrift og reikningur er annars ekki nauðsynlegt skilyrði. Nema þú verðir fjármála- eða viðskiptaráðherra. Þá þarftu að kunna að lesa úr flóknum skjölum sem starfsmenn láta þig fá. Ekki hafa áhyggjur, þú færð hjálp.

Óskað er eftir einstaklingi sem vill takmarka gagnrýna umræðu, enda getur slík umræða haft áhrif á ógrundaðar skoðanir. Sérstaklega viljum við baráttumanneskju gegn nafnlausu bloggi. Fyrst þarf að setja lög gegn því, og síðan gegn nafngreindu bloggi þar sem hægt verður að refsa fólki fyrir að hafa rangar skoðanir. Þetta blogg er gott dæmi um slíkt. Þó að skoðanir séu reistar á brauðfótum þýðir ekki að megi gagnrýna þær. Þú verður við völd þegar þú ert ráðherra og orð ráðherra eru lög á Íslandi, eða geta að minnsta kosti orðið það nokkuð auðveldlega.

Þú þarft að geta sýnt staðfestu. Ef einhver er þér ósammála, þarftu að geta notað tilfinningar þínar, móðgast og reiðst, yfir að einhver sem er þér lægra settur í samfélaginu geti vogað sér að sýna yfirvaldinu óvirðingu, en yfirvaldið ert þú.

Til að fá starfið þarftu að standast ákveðið próf. Fyrst þarftu að velja stjórnmálaflokk sem hentar hæfilega skoðunum þínum. Það er nóg að þið séuð sammála í 51% tilfella, og þú lýgur bara um hitt þar til þú kemst til valda. Reyndar geturðu líka, ef þú hefur áhuga á, gengið í stjórnmálaflokk þar sem þú ert ósammála flestu, en það er erfiðara að ná árangri í slíkum flokki.

Veldu þér samt helst flokk sem er að koma vel út úr skoðanakönnunum, þá áttu meiri séns, því að þó þú lendir neðarlega í prófkjöri geturðu vel komist inn, bara ef þú ert með í prófkjörinu. Stefndu samt alltaf á fyrsta sætið og notaðu öll tækifæri til að gera þig að sýnilegum stjórnmálamanni. Farðu í öll viðtöl sem þú getur, búðu til ný vandamál þar sem enginn sá vandamál áður, og gagnrýndu Silfur Egils fyrir að bjóða ekki minnihlutahópum í sjónvarpsþáttinn sinn. 

Eftir að hafa sigrað glæsilega í prófkjöri, eða lent ofarlega, enda hefur þér vonandi tekist að rægja flesta andstæðinga þina og sýnt fram á að skoðanir þeirra stangast á við skoðanir flokksins, auk þess að þetta fólk hefur sjálfsagt skuggalega fortíð af einhverjum ástæðum. Skiptir ekki máli hvað það er. Fáðu flokksfélaga til að treysta þér og stingdu það svo miskunnarlaust í bakið. Mundu að nota hanska til að fingraför þín verði ekki eftir á hnífnum. Lygarnar mega þó ekki vera augljósar, smá kryddaður sannleikur virkar best þar sem erfitt er að afsanna slíkt.

Vinnustaður þinn verður ráðherraskrifstofa þar sem þú þarft í rauninni að geta gert tvennt: skrifað nafnið þitt og lagt kapal í tölvunni. Þú færð nýja og flotta fartölvu og getur farið með hana í bílinn, en þú hefur líka bílstjóra þannig að þú þarft aldrei að hætta í miðju spili. Þar að auki geturðu ráðið þér aðstoðarmann til að skrifa undir skjölin þín ef þú vilt ekki tengjast ákveðnum málefnum með eigin nafni. Þannig að í raun þarftu ekki að kunna neitt, geta neitt, eða vera neitt. Lúxusjobb!

Þetta er reyndar ekki alveg jafn einfalt og það sýnist, því þú munt einnig þurfa að sýna þig á hinu háa Alþingi, þar sem að mest áberandi starfsfólkið er oft í ræðupúlti. Þú þarft að kunna að gera lítið úr pólitískum andstæðingum þínum fyrir framan alla hina starfsmennina, og takist þér að móðga viðkomandi vegna vaxtarlags, útlits, kynþáttar, en alls ekki kyns, ertu vís til að skora vinsældarpunkta hjá ýmsum í þjóðfélaginu. Þú þarft aftur að geta talað lengi um sem minnst, og best væri til að fá sem mesta athygli að biðja um orðið alltaf þegar það er laust, sama hvort þú hefur eitthvað til málanna að leggja eða ekki. Það hlustar enginn í alvöru á þig hvort eð er. Talirðu í hringi heldur fólk náttúrulega að það sjálft sé að hugsa í hringi. 

Það er auðvelt að verða ráðherra á Íslandi.

Viljirðu verða forsætisráðherra þarftu að kunna eitt til viðbótar, að nota myndhverfingar til að styðja mál þitt, því að myndhverfingar geta þýtt svo margt. Hver skilur til dæmis hugtak eins og "skjaldborg" utan um heimili landsins? Skjaldborg getur náttúrulega þýtt ýmislegt. Castro og Mao settu til dæmis skjaldborg utan um landa sína með því að hleypa þeim ekki úr landi, dreifa eignum þegna jafnt þeirra á milli, og varði heimilin þannig fyrir árásum erlendis frá. Myndhverfingar má túlka á svo marga vegu og fólk getur hneykslast endalaust á merkingu þeirra, og tapað þannig orku sinni í vitleysu, á meðan þú getur búið til nýja myndhverfingu. Þannig er starf forsætisráðherra eins og ljóðagerð.

 

E.S. ef þig skortir þolinmæði til að að bíða eftir næstu kosningum, geturðu sjálfsagt ráðið verkefnalítinn listamann til að skipuleggja fjöldamótmæli. Það virkar sérstaklega vel á viðkvæmum tímum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Góður

Marteinn Unnar Heiðarsson, 21.10.2009 kl. 07:40

2 Smámynd: Smjerjarmur

Það er synd að VG hafi ekki komist í stjórn fyrr.  Þeir eru með fullt af fólki í þetta. 

Smjerjarmur, 21.10.2009 kl. 14:11

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hrannar, þetta er hreint frábær pistill. Læt ógert að sálgreina hann eða minn skilning nánar, þakka bara fyrir. :)

Kolbrún Hilmars, 22.10.2009 kl. 00:43

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Já takk, ég vil gjarnan verða ráðherfa!!!  Svona auðvelt starf hlýtur að vera draumur hverrar húsmóður....   Er það ekki????   Ég held að ég hafi meira vit á þessu starfi en frú Jóhanna!!!  Ég meina það, ég tala líka fleiri tungumál en hún!!!

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.10.2009 kl. 01:57

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar. Hef velt fyrir mér þessum starfsvettvangi en held að mér myndi leiðast. Held að Þráinn Bertelsson sé ágætis dæmi um mann sem á alls ekki heima á Alþingi. Hann er alltof greindur fyrir þetta.  

Hrannar Baldursson, 22.10.2009 kl. 05:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband