Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

100 ára kreppa?

 

Peningar í lausu lofti, frá College Scholarships

 

Þar sem ekki verður hægt að klára greiðslur á Icesave árið 2024 eins og fyrirvarar gerðu áður ráð fyrir, þá væri áhugavert að vita hversu langan tíma tekur að borga þessa reikninga, þessa reikninga sem er ein af grunnforsendum þess að ég ákvað að flytja úr landi, enda vil ég ekki taka þátt í að borga skuldir óreiðumanna, né að börn mín lendi í sömu súpunni.

Ennþá skil ég ekki af hverju þessari ríkisábyrgð er ekki algjörlega hafnað og farið á eftir þeim sem að græddu óhóflega á þessu, enda augljóst að peningarnir sem lánaðir voru bankanum hafa ekki bara gufað upp, þó að þeir sem haldi þeim í dag takist að leyna þeim og virðist ætla að komast upp með glæpinn á kostnað íslensku þjóðarinnar, að minnsta kosti í bili.

Peningar gufa ekki bara upp, frekar en að þeir vaxa á trjánum.

Ríkisstjórnir ólíkra landa eiga ekki að deila um hver borgar. Þær eiga að rannsaka hvert peningurinn fór og draga þá til ábyrgðar sem hafa svikið þessar háu fjárhæðir út úr saklausu fólki víða um heim. Mistök fyrri ríkisstjórnar var að tryggja skuldbindingar á innlendum innistæðum allra reikninga bankanna, sem gerði kröfur erlendra innistæðueigenda réttlætanlega. 

Það er búið að borga íslenskum innistæðueigendum til baka á kostnað skuldara, á kostnað ríkisstofnana, með hærri sköttum og með ófyrirsjáanlegum samdrætti næstu árin, með sköpun vinstri ríkisstjórnar sem virðist því miður engu skárri en sú hægri. Það er mikil skriða óréttlætis í gangi og það virðist erfitt að spyrna við henni.

Þessi skriða virðist hafa hafist með óstjórnlegri græðgi meðal þeirra sem áttu mikið og vildu ekki bara meira, heldur margfalt meira. Henni var haldið við eftir að bankarnir hrundu með því loforðið ríkisstjórnarinnar að þetta fólk myndi ekki tapa peningum sínum af innlendum reikningum, og hefur orðið til þess að erlendir eigendur geri að sjálfsögðu sömu kröfu, enda afar varhugavert að gera upp á milli fólks í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi vegna þjóðernis þess eða búsetu.

Það sem vantar er réttlæti, kalt og hart. 


mbl.is Icesave-fyrirvörum breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sjónvarpsgláp skaðlegt?

1393553920_e22c948f90
 

Þegar þú horfir á sjónvarp er hugur þinn óvirkur að öðru leyti en að hann meðtekur stöðugt upplýsingar. Hugurinn gerir það hvort eð er. Ef þú vinnur ekki úr þessum upplýsingum, sitja þessar upplýsingar óunnar inni á harða disknum þínum. Ef þú notar þessar upplýsingar ekki og gerir ekkert úr þeim verða þær aldrei neitt annað en grafnar minningar.

Áður en lengra er haldið, langar mig fyrst að svara af hverju ég tel sjónvarpsgláp annars vegar vera heilaþvott og hins vegar af hverju ég tel slíkan heilaþvott skaðlegan, og þá fyrir hvern.

Við lifum í heimi sem er háður skilningi okkar á honum. Sé þessi skilningur yfirborðskenndur og óunninn, verður heimur okkar einfaldlega grynnri og ómerkilegri fyrir vikið. Við sköpum heim okkar upp á ákveðnu marki, en síðan má deila um hvort að einhver hafi skapað okkur eða hvort við höfum þróast. Það er önnur umræða.

Við sköpum heiminn með því að fylgjast með, skilja, greina, nota, taka saman meginhugmyndir og meta. Þannig myndum við skoðanir. Þannig sköpum við þekkingu. Sumir halda að við mótum skoðanir okkar með því einu að fylgjast með og skilja. Það er misskilningur. Við öðlumst fordóma með því að fylgjast með og vinna ekki úr upplýsingunum á gagnrýninn hátt, sem er óhjákvæmilegt fyrsta skref að mótaðri skoðun. Skoðanir geta síðan virkað sem hvati til að grafa upp raunverulega þekkingu. Fæst öðlumst við þessa raunverulegu þekkingu, enda er ferlið sem það krefst óþolandi erfitt og langdregið. Vísinda- og fræðimenn stunda oft þá vinnu, en aðrir láta sér duga að hafa skoðanir. Sumir reyna jafnvel að hafa engar skoðanir.

Þegar þú fylgist með ertu að safna upplýsingum, og þó að þú skiljir þær, skipta þær engu máli nema þú beitir þeim, lifir eftir þeim og skapar heiminn í kringum þig útfrá þeim.

Hinn týpíski sjónvarpsglápari situr uppi í sófa eða í hægindastól með fjarstýringu á nálægu borði. Það eina sem hann gerir er að kveikja eða slökkva á sjónvarpstækinu, og síðan skipta um stöðvar í leit að betra efni. Reyndu að tala við svona manneskju á gagnrýninn hátt um það sem verið er að horfa á. Það er eina leiðin til að brjótast í gegnum hinn heilaþvegna múr. Sjónvarpsgláparinn mun líka halda því fram að þú sért vitleysingur að halda því fram að sjónvarpsgláp sé heilaþvottur, og værir kannski með vott af einhvers konar brjálæði og ættir kannski helst heima á hæli fyrir fólk með samsæringarkenningaáráttu (langt orð, en ég varð að nota það).

Sama hversu gott efnið er, eða lélegt, er áhorfandinn fyrst og fremst að fylgjast með. Hann fær ekki tíma til annars. Sérstaklega ef viðkomandi horfir stöðugt á sjónvarpið án þess að ræða upplýsingar við aðra manneskju eða tjá þær á einhvern hátt til að melta þær og meta á eigin forsendum. Það er spurning hvort þú lærir meira um heiminn með því að horfa á fréttir í sjónvarpinu eða með því að horfa á þvottavél vinda þvottinn þinn.

Ekki misskilja mig. Sjónvarpsgláp getur verið afar öflugt tól fyrir lýðræðislega umræðu, en þá þarf hin lýðræðislega umræða að fara fram og tengjast því sem þú ert að glápa á. Skiluru? Ég held að það sé algjör undantekning að fólk ræði um það sem það horfir á eða tjáir það á einhvern hátt. Helst að bloggarar, rithöfundar, listamenn og fjölmiðlamenn geri það. Kannski líka prestar á sunnudögum. Ef fólk horfir á efnið af gagnrýni, þá, og einungis þá, getur það sloppið undan hinum ógurlega heilaþvætti.

Nú gætir þú verið löngu komin á sömu eða allt aðra skoðun skoðun og spurt í framhaldi hvort það sama eigi við um tölvuleiki. Svarið er jákvætt, með einni undantekningu. Sá sem spilar tölvuleiki er ekki aðeins að fylgjast með (reyndar í sýndarveruleika og fær ósannar upplýsingar frekar en sannar til að vinna úr), en viðkomandi lærir að skilja og nota þær upplýsingar sem fást úr leiknum til að ná ákveðnum markmiðum.

Ef hægt væri að gera fréttaefni og fræðslu að spennandi leik sem endurtekur ekki aðeins í sífellu nákvæmlega sama hlutinn, þá værum við hugsanlega að tala saman.

Platón náði þessu vel með Hellislíkingu sinni, þar sem hann lýsti heilli þjóð fanga sem hlekkjuð var upp við vegg og neydd með afli til að horfa á skuggamyndir daginn út og inn, og héldu meira að segja keppni í því að greina skuggamyndir. Svona svipað og að fylgjast með knattspyrnu af áhuga, þar sem að upplýsingarnar skipta nákvæmlega engu máli fyrir þroska heimsins. Það er einungis sá sem kemst út úr þessum heimi skuggamynda og aflar sér raunverulegrar þekkingar, og ákveður að koma til baka og sýna fólki að heimurinn er eitthvað meira og merkilegra en það trúir að hann sé, þrátt fyrir að það muni kosta viðkomandi óþolandi þjáningar og hugsanlega lífi, það er einungis slík manneskja sem er í raun og veru einhvers virði í þessum heimi okkar. Órannsakað líf er ekki þess virði að það sé lifað, sögðu þeir Sókrates og Plató, og ég er sammála þeim.

Internetið er nýjasta bólan, þar sem á áhugaverðan hátt hefur verið reynt að komast í gegnum heilaþvottastigið, sem almennt er kallað Vefur 1.0 og færa það yfir í samfélagslega gagnvirkni, sem kölluð hefur verið Vefur 2.0. Meðal verkfæra Vefs 2.0 er blogg og Facebook, þar sem fólk getur tjáð sig og skipst á skoðunum. Til að mynda ert þú, lesandi góður, fórnarlamb heilaþvottar ef þú lest þessa grein án þess að tjá þig nokkuð um hana. Mæli ég því með að þú skrifir eitthvað í athugasemdaboxið, eða ræðir þessi mál við aðra manneskju til að sjá muninn á því að vera óvirkur móttakari og virkur hugur.

Vefurinn 2.0 er ekki fullkominn frekar en annað. Samskiptin á vefnum takmarkast því miður að því að öll sambönd verða allt í einu platónsk. Þú nærð ekki líkamlegu sambandi við aðra manneskju, getur ekki tjáð þið með samskiptum, né getur ekki kysst þá manneskju sem þú elskar gegnum Vef 2.0. Eitt af því mikilvægasta við nálæg mannleg samskipti er að sumir einstaklingar virðast þurfa á nærveru annarar manneskju að halda til að fara ekki hamförum og festast í misskilningi sem er hugsanlega búinn til í einhverri óendanlegri lúppu í hugum þeirra sem komast ekki út fyrir eigin hugsanir og geta ekki skynjað skoðanir annarra öðruvísi en út frá eigin takmarkaðri reynslu og sjálfum sér sem fullkomnustu veru sem viðkomandi þekkir. (Viðurkenndu það bara. Þekkir þú einhverja manneskju sem er fullkomnari en þú?)

Það eina sem enn er öflugra en Vefur 2.0 eru venjuleg mannleg samskipti og samræða. En hún virðist vanmetin í dag, ekki inni, ekkert hægt að græða á henni. Að minnsta kosti ekki pening. Jafnvel menntun virðist snúast um að taka við upplýsingum í stað þess að uppgötva þær og vinna úr þeim. 

Við græðum á mannlegri samræðu þar sem hún hjálpar okkur að móta og þroska heiminn, gera heiminn að heilbrigðari og betri stað. Við lærum að skilja að "ég" er ekki miðja heimsins, né heldur "við", heldur eitthvað sem er þarna á milli og allt í kring, sem er jafnvel enn stærra en þeir sem eru í herberginu með þér. Sumir kalla þetta "Guð" eða "heimsandann". Ég veit ekki hvað hægt er að kalla þetta, en ég held að þetta sé heilagt fyrirbæri. Þetta fyrirbæri er allt fólkið sem nokkurn tíma hefur haft áhrif á viðkomandi, og slík áhrif ná aftur í aldir, allar aðstæður sem hafa haft áhrif og mótað skoðanir alls þessa fólks, sem geymdar eru í okkur sjálfum og brjótast ekki út nema við aðstæður sem eru hvetjandi til þess.

Það virðist koma þessari grein lítið við að ég hef upplifað fellibyl með eiginkonu og börnum, tapað öllum eigum mínum í flóði af saur og þvagi sem náðu tveggja metra dýpi (upp á vegg), en þetta eru lykilatriði sem gera mér mögulegt að skynja heiminn af aðeins meiri dýpt, og hugsanlega meira þakklæti ef ekkert hefði nokkurn tíma komið fyrir í mínu lífi. Ég hef séð hvernig fólk horfir á fréttir um fellibyli og flóð, og hvernig það skilur engan veginn hvað þessi fyrirbæri eru þrátt fyrir að hafa horft á myndir og heyrt fólk segja hvað þetta eru hrikaleg fyrirbæri. Einhvern veginn þarftu að virkja eigin huga til að átta þig. 

Vonandi hef ég nú skýrt af hverju ég tel sjónvarpsgláp vera eina tegund af heilaþvotti, en slíkt gláp stuðlar að óvirkni hugans, og óvirkur hugur er ekki hugur sem er að skapa, heldur að taka við og láta að stjórn. Í margar aldir hafa kenningar um ræktun hugans tekist á. Sumir halda að hugurinn sé virkt verkfæri, og aðrir að þetta sé óvirkt geymslupláss. Ég er af fyrri skólanum. Og hef á tilfinningunni að flestir lifi því miður eftir seinni hugmyndinni, jafnvel þó að viðkomandi geti vel samþykkt að hugurinn sé ekki bara geymslupláss. Hann er það bara fyrir sumt fólk.

Hvað hugur þinn er fer að miklu leyti eftir hvernig þú hefur mótað hann og þroskað frá barnæsku. Hafi hann verið stöðugt fylltur af staðreyndum og þú meðtekið þær og verið verðlaunað fyrir, þá ertu einfaldlega meðlimur í meirihluta mannkyns. Sértu hins vegar þannig að þér finnist þú verða að vinna úr öllum sköpuðum upplýsingum, leggja þitt eigið mat á þær, skilja þær, sannreyna, tengja þær við aðrar hugmyndir, og leita frekari upplýsinga, þá ertu án vafa í mínum hópi. Góðu fréttirnar eru að þetta er flottur hópur. Slæmu fréttirnar eru að við erum fámenn og erum nokkuð fjarri því að hafa skilvirk áhrif á samfélag okkar, þannig að gagnrýnum einstaklingum fjölgi og staðreyndargámum fækki. 

Við þurfum ekki að líta annað en á hugmyndir um lýðræði og hvernig það virkar til að sjá í hendi okkar hversu hættuleg slík óvirkni getur verið ef hún verður að vana, nokkuð sem ég tel að gerist í raun og veru. Við tölum um sjónvarpssjúkt fólk og tölvuleikjafíkla í gríni, en erum í raun að tjá áhyggjur sem við einhvern veginn áttum okkur á, en skiljum ekki alveg að fullu, enda er hugur okkar óvirkur, og þar af leiðandi erfitt og hugsanlega útilokað fyrir óvirkan huga að sjá eða viðurkenna hvernig óvirkni í kjölfar sjónvarpsgláps getur verið skaðleg.

Óvirkni er hættuleg öllum samfélögum, af þeirri einföldu ástæðu að það eru til staðar virkir einstaklingar og stofnanir sem munu misnota sér óvirkni fjöldans til að ná eigin markmiðum fram, hvort sem að það sé heildinni til góða eða ekki, hvort sem að það sé rétt eða ekki, einungis ef viðkomandi trúir því að það komi sjálfum sér og sínum til góða, en getur verið það takmarkaður að hann skilji ekki hvað það er sem kemur manni til góða.

"Careful what you wish for, it may turn into reality," segja þeir stundum á enskunni.

Þetta höfum við upplifað á Íslandi í nafni Baugs, Björgúlfa, hjarðmenningar stjórnmála. Óvirkni hugans er það sem gefur spillingu líf og kraft. Spillingin veit að óvirkir hugar gera ekki neitt, því að þeir trúa ekki á sjálfa sig og geta þar af leiðandi ekkert framkvæmt. Spilling verður að ásættanlegum veruleika, en ekki óásættanlegu óréttlæti sem krefjandi siðferðisvitund berst gegn með allri sinni sannfæringu.

Þetta er ekki nýtt vandamál.

Fólk leitar sér svölunar í heilaþvotti. Svona hefur þetta alltaf verið og verður sjálfsagt alltaf. Þetta virðist vera rótgróin þörf hjá manninum, að trúa hlutum sem skipta ekki máli, að ramma inn hlutina þannig að þeir líti vel út, óháð því að sannleikurinn er sjálfsagt frekar skítugur og erfiður.

Við viljum að hlutirnir séu auðveldir. Að lífið sé létt. Það er ekki þannig. Ef þú trúir því, þá lifirðu í blekkingu. Blekkingu sem verður að sjálfhverfum veruleika.

Þess vegna er heilaþvottur sjónvarpsgláps skaðlegur.

Og svaraðu nú. Annars verður þú fórnarlamb heilaþvottastöðvar Don Hrannars.

brain-wash

(Skrifað á siglingu frá Nasoddentangen til Akerbrygge í Osló)


Hvað langar þig að sjá í bíó?

Ég er búinn að þýða nokkrar greinar eftir Roger Ebert sem þú getur nálgast með einum músarsmelli. Af þeim sem ég hef þegar þýtt og þú getur lesið meira um eru:

 

Fame (2009) **

bilde?Site=EB&Date=20090923&Category=REVIEWS&ArtNo=909249997&Ref=AR&Maxw=438

 

Surrogates (2009) **1/2

bilde?Site=EB&Date=20090923&Category=REVIEWS&ArtNo=909279998&Ref=AR&Profile=1023&Maxw=438

 

The Ugly Truth (2009) **

bilde?Site=EB&Date=20090722&Category=REVIEWS&ArtNo=907229983&Ref=AR&Maxw=438

 

Orphan (2009) ***1/2

bilde?Site=EB&Date=20090722&Category=REVIEWS&ArtNo=907229993&Ref=AR&Maxw=438

Væntanlegar seinna í dag:

Up (2009) ****
Funny People (2009) ***1/2
9 (2009) ***


Hafðu samband við mig í tölvupósti ef þú vilt kaupa birtingarrétt af grein eftir Roger Ebert.


Þýðingarverkefni með Roger Ebert

rogerebert_922192Þegar Roger Ebert veiktist af krabbameini fyrir nokkrum árum og þurfti að fara í aðgerð hófust samskipti okkar, þegar ég sendi honum einfalt stuðningsbréf með þeirri von að hann næði sér og kæmi aftur á ritsviðið fullur af krafti. Hann gerði það og skrifar jafnvel enn betri greinar í dag en hann gerði áður, og það er þó nokkuð fyrir mann sem hefur unnið til Pulitzer verðlauna fyrir ritstörf.

Síðan áhugi minn á kvikmyndum vaknaði fyrir alvöru hef ég stöðugt fylgst með kvikmyndagagnrýni Roger Ebert. Smekkur okkar á kvikmyndum er ekki nákvæmlega eins, en hann rökstyður smekk sinn og skoðanir af slíkri færni að maður getur ekki annað en dáðst að. Ef einhver hefur haft áhrif á hvernig ég hugsa og skrifa um kvikmyndir, þá er það Roger Ebert.

Hann hefur nú gefið mér leyfi til að þýða greinar hans og birta á íslensku. Ég hef byrjað starfið með því að birta þýðingar nýlegra greina á rogerebert.blog.is

Ég er reiðubúinn til að selja birtingarrétt á einstaka greinum, eða gera samning um vinnu við fjölda greina með útgefanda sem hefur áhuga á samvinnu. Með þessu móti er hægt að fá vitræna kvikmyndagagnrýni sama dag og áberandi kvikmynd er frumsýnd. Ef þú þekkir einhvern sem hefði áhuga á að birta slíkar greinar, láttu viðkomandi endilega fá nafn mitt og netfang HBaldursson "hjá" gmail.com eða bentu þeim á bloggsíðuna rogerebert.blog.is.


Hver ætli græði mest á því að koma íslensku þjóðinni á hausinn?

Í hringleikahúsi fáránleikans gerast ótrúlegir hlutir á hverjum einasta degi. Bara í dag er þingmaður búinn að ásaka forsætisráðherra um landráð, og ljóst að fólk er sárt vegna slíkra orðaskipta. Málið er að ef tekst að veikja málstað hins aðilans virðist eigin málsstaður verða sterkari, þó að hann standi á brauðfótum. Þetta er svona svipað og auga fyrir auga dæmið sem skilur alla jarðarbúa eftir ráfandi og blinda eftir nokkur ár.

Ég vil leyfa mér að ímynda mér hvað ákveðnir hópar gætu grætt á að dýpka kreppuna sem hefur nú loks hafist á Íslandi, enda árið sem Ísland fékk í frí liðið undir lok. Takið eftir að þetta eru bara vangaveltur, sem hafa vaknað af þeim sökum að ég furða mig stöðugt á af hverju við viljum ekki spila í sama liði, öll sem eitt, heldur frekar rífa flekann í sundur sem heldur okkur þó enn á floti.

Ég játa að þessar pælingar eru sjálfsagt frekar grunnar, en þetta eru hugsanir sem leita á mig öðru hverju, og væri einfaldlega gott ef mér væri bent á að þetta væri allt bara bull í mér, og þá einnig bent á af hverju þetta er bara tómt bull. En hér kemur listinn:

  • VG: allir Íslendingar verði öreigar og Ísland þar af leiðandi loks kommúnistaríki. Lausn sem leiðir til stöðugleika.
  • Samfylkingin: þjóðin mun sjá sig tilneydda til að sækja um ESB aðild, sama hvað tautar og raular. Lausn sem leiðir til stöðugleika.
  • Sjálfstæðisflokkurinn: sönnun á því að vinstriflokkar geti ekki stjórnað fjármálum þjóðarinnar á ábyrgan hátt. Kjósum D aftur til að fá stöðugleika.
  • Framsóknarflokkurinn: óbein sönnun á því að þeir hafa alltaf haft rétt fyrir sér. Kjósum B til að ná aftur stöðugleika.
  • Hreyfingin: Hver veit? Hún virðist því miður vera tilvistarkreppa innan í kreppunni.
  • Þráinn: Betri bíómyndir. Samþykkt.
  • Útrásarvíkingar: Bankarnir taka yfir eigur þeirra og þeir kaupa þær til baka á útsöluverði. Allir græða! Þ.e.a.s. allir græða sem hafa stöðu til að græða. Þó þeir séu tæknilega gjaldþrota.
  • Erlendir kröfuhafar: hægt verður að semja um að "leigja" auðlindir þjóðarinnar út úr landi, eða með einum og öðrum hætti tryggja að íslenska þjóðin bjóði upp á ódýra framleiðslu í framtíðinni, verði þriðja heims ríki sem hægt verður að nota í þrældóm. Hver veit? Kannski verður ódýrara að framleiða leikföng á Íslandi en í Kína? 
  • Íslenskur þegn: Getur þetta fólk ekki leyft mér að lifa lífinu í friði án þess að plotta stanslaust á minn kostnað? 
Er eitthvað til í þessu?


Er Ísland ennþá besta land í heimi?

 


 

Árið 2007 kom út áhugverð skýrsla frá Sameinuðu þjóðunum þar sem Ísland komst á efsta sæti yfir besta stað í heimi til að búa á. Getur ástæðan fyrir þessari fögru ímynd verið einfaldlega sú að Íslendingum tókst að blekkja allan heiminn og sjálf sig í leiðinni?

Þrátt fyrir Hrunið er Ísland í þriðja sæti á nýjasta listanum sem kom út í gær, en Ástralía er í 2. sæti og Norðmenn í því fyrsta. Tölurnar sem unnið er útfrá eru frá 2007, sem útskýrir sjálfsagt hversu hátt við erum á listanum, en segir okkur aftur á móti hversu fallvaltir slíkir listar eru sem byggja á tölum úr veruleikanum sem reynast síðan allt annað en sannar.

Getur verið að ómur af þessari sjálfsblekkingu lifi ennþá í því tómarúmi sem hefur skapast með bankahruninu, gengisfallinu, stórsvindli, upplýsingu rætinnar spillingar og stjórnmálakreppunni, sem allt hefur flotið upp á yfirborðið smám saman frá 6. október 2008, eins og leifar og hræ úr kafbát sem liggur einhvers staðar ónýtur á hafsbotni?

Mig langar að þýða tveggja ára frétt frá Fox News. Ekki það að ég treysti Fox News eitthvað betur en öðrum fréttamiðlum, en þeim er sjálfsagt jafnvel treystandi og öðrum þeim fjölmiðlum sem bundnir eru í hagsmuni ráðandi þjóðfélagsafla. 

Árið 2007 heimsótti ég Namibíu, sem er land sunnan Sahara, og þykir mér svolítið merkilegt að sjá slík lönd lenda í neðstu sætum, því að Namibía er sannkölluð paradís. Það vantar bara vatn þar.

Það verður áhugavert að sjá hvar Ísland verður á listanum þegar næstu tvær skýrslur koma út, enda geri ég ráð fyrir að tekjur á hvern íbúa hafi hrunið, og held að áhugavert væri að rannsaka hvort að það hafi einhver áhrif á menntunarstig og lífslíkur.

Ég er samt nokkuð viss um að óháð lífslíkum, menntunarstigi eða launum, þá er alltaf best að búa þar sem þekkir best til, á fjölskyldu og vini, og þar sem maður ræktar garðinn sinn. Það er hægt að gera hvar sem er á jarðkringlunni, óháð vísitölum.

 

Hér er fréttin á ensku.

28. nóvember 2007

Ísland er heimsins besti staður til að lifa á, samkvæmt árlegri skírslu Sameinuðu Þjóðanna sem raðaði Afríkulöndum sunnan Sahara í verstu sætin fyrir mögulegt heimili.

Eylandið skaust uppfyrir Noreg, sem hefur haldið efsta sætinu síðustu sex árin. Bandaríkin runnu aftur í 12. sætið frá 8. sæti á síðasta ári.

Mannþróunarvísitala Sameinuðu Þjóðanna notaði tölur frá 2005 fyrir lífslíkur, menntunarstig og raunverulegar tekjur á hvern íbúa til að raða 175 þjóðum heimsins - auk Hong Kong og palestínskum svæðum - til að meta hversu gott er að búa þar. Rík, frjálshyggju hagkerfi voru í efstu sætum með Ástralíu, Kanada og Írlandi meðal þeirra fimm efstu.

Smelltu hérna til að skoða skýrsluna fyrir 2009.

Afrískar þjóðir lentu á botni listans, þar sem í 10 löndum munu tvö af fimm börnum ekki ná 40 ára aldri. Öll 22 lægstu löndin eru sunnan Sahara í Afríku, með Sierra Leone í síðasta sæti. Skýrsla síðasta árs útskýrði að HIV/AIDS hefði haft "hörmuleg áhrif" á lífslíkur innan þessa svæðis.

Mismunurinn á milli hæstu þjóða og lægstu þegar kemur að tekjum á einstakling er yfirþyrmandi. Launin á Íslandi eru 45 sinnum hærri en í Sierra Leone.

Vísitalan, sem hefur verið birt árlega frá 1990, inniheldur ekki 17 lönd, þar með talin Írak, Afganistan og Sómalíu, þar sem gögn skortir.

Noregur lenti í 2. sæti þetta árið vegna nýrrar spár um lífslíkur og uppfærðar tölur um þjóðarframleiðslu, eða GDP, segir skýrslan.

Embættismenn Sameinuðu Þjóðanna gerðu lítið úr breytingunni milli efstu sæta, þar á meðal Bandaríkjanna, þar sem þeir sögðu að ef gögn hefðu verið aðgengileg, þá hefðu Bandaríkin verið í 10. sæti, en ekki því áttunda.

Bandaríkin fá góða einkunn fyrir raunveruleg laun á íbúa GDP, sem eru 41.890 dollarar á mann, sem er aðeins í öðru sæti á eftir Luxemborg (60.228), en lífslíkur Bandaríkjamanna eru verri - í síðasta sætinu af efstu 26 þjóðunum ásamt Danmörku og Suður Kóreu, sem eru 77.9 ár.

Japanir hafa hæstu lífslíkurnar, um 82.3 ár, og Sambíumenn þær lægstu, 40.5 ár.

Mannþróunarvísitalan hefur hækkað síðustu 30 ár fyrir flestar þjóðir, fyrir utan 16 sem höfðu lækkað frá 1990, og þrjú - Lýðræðisríkið Kongó, Zambía og Zimbabwe - sem eru lægri í dag en árið 1975.

 


Árás á heiðarleg og lýðræðisleg vinnubrögð?

Rök Ögmundar og Guðfríðar Lilju eru pottþétt. Þau krefjast lýðræðislegrar umræðu og samvinnu allra þingmanna til að taka á málunum, og gagnrýna harðlega að hlutir séu ákveðnir í klíku og þvingaðir í gegn, eins og tíðkaðist í fyrri ríkisstjórnum.

Ég sé ekki betur en að þau séu að gera hárrétt, fara ekki aðeins eftir eigin skoðunum um málefni, heldur einnig um vinnubrögð. Vinnubrögðin skipta engu minna máli en skoðanirnar þegar kemur að stjórnmálum.

Þetta er heiðursfólk.


mbl.is Var ekki heppilegur talsmaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Krónan mannorð Íslendinga?

 


 

Mér leið í morgun eins og ég hefði rekist á dánarfregn um gamlan og góðan vin.

Ég fór inn á norska heimabankann minn í dag og skoðaði erlendar greiðslur, en tók þá eftir ansi sérstökum texta neðst á síðunni:

 Important information about payments to and from Iceland
The Icelandic authorities have placed the country's banks under administration. Due to the uncertain situation, we urge our customers to double check before sending payments to ensure that the payee still wants the funds to be sent to the specified account in an Icelandic bank.
 
Payments from Iceland/Icelandic banks will be credited our customers' accounts as usual as they are credited to the bank's account. Since the Icelandic crown (ISK) is still suspended, transactions cannot be executed in that currency.

Í raun erum við þjóð án gjaldmiðils, þannig að allt rifrildi um að hætta með eða halda í krónuna er tóm della, þar sem krónan er einfaldlega ekki lengur til. Krónan er dáin. Hún er lítið annað en minning um sjálfstæði okkar. Draugur efnishyggjunnar. 

Spurningin er ekki hvort við tökum upp gjaldmiðil í staðinn fyrir krónuna, heldur hvort að við ætlum að taka upp einhvern gjaldmiðil yfir höfuð. 

Mér leið virkilega illa yfir þessum stutta og snubbótta texta, enda líður mér eins og þetta sé vantraustsyfirlýsing yfir þjóðinni okkar, þó að meiningin sé líklega ekki sú, enda er ekki minnst á neinn annan gjaldmiðil sem alþjóðlegt vandamál annan en íslensku krónuna.

Ég hef tilhneigingu til að tengja saman gjaldmiðil okkar og mannorð þjóðarinnar, tilfinning sem kemur sjálfum mér töluvert á óvart. 

Krónan hefur alla mína tíð verið eins og bros eða handarband, einhvers konar sjálfsagt traust milli vina; sem nú er horfið og hugsanlega glatað.

Hver getur treyst þjóð eða þegnum þjóðar sem hefur ekki efni á handarbandi?


Mun þjóðin sundruð steypast fyrir björg eins og læmingjar, eða getum við fundið samstöðu gegn þeim öflum sem ógna tilvist íslenskrar þjóðar?

Þegar bankarnir hrundu voru sett neyðarlög til að tryggja innistæður í bönkum og bjarga gífurlegu fjármagni sem ekki var fyrirfram ríkistryggt í peningamarkaðssjóðum og bankabókum. Slík trygging varð til með vanhugsuðnum neyðarlögum sem sett voru í október 2008. Einhvern veginn gleymdist að þessi trygging myndi ná yfir bæði íslenska og erlenda kröfuhafa, og hefur til að mynda leitt okkur út í ICESAVE hörmungar, en hefði þessi björgun einungis átt við Íslendinga hefðum við komist í gegnum Hrunið á skammri stundu, en þar sem erlendir kröfuhafar nýttu sér tækifærið og við sendum vanhæfa samninganefnd til að semja um málið, erum við að tala um djúpa efnahagskreppu sem gæti varið í áratugi og sundrað þjóðinni pólitískt.

Þetta þýðir gífurlegan kostnað fyrir íslenska ríkið og íslenskan almenning, við að endurgreiða þá milljarða sem höfðu tapast í Hruninu. Sjóðir ríkisins voru tæmdir fyrir þessa aðgerð, og ekki nóg með það, tekin voru lán til að þetta gæti gengið upp. En þetta gengur ekki upp, getur ekki gengið upp, og mun ekki ganga upp! Þetta er skákþraut um mát, en það vantar kóngana á borðið.

Fyrstir til að borga meira eru þeir sem minnst mega sín. Það virðist vera lögmál mennskra hörmunga. Hungraðir svelta fyrst. Aðrir síðar.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, skrifar góða grein um vanda heimilanna og hvernig þeim sem skulda neytenda- og húsnæðislán hefur verið fórnað á kostnað sjóðseigenda og banka. Hagsmunasamtök heimilanna hafa til þessa ekki lagt sérstaka áherslu á jafnræðisrök þegar kemur að kröfum um leiðréttingu skulda, en Gísli Tryggvason bendir réttilega á að erfitt sé að fylgja slíkum rökum eftir fyrir dómstólum, en þau gætu hins vegar reynst beitt pólitískt vopn til að koma sjónarmálum heimilanna á framfæri. 

Kostnaðurinn við að endurgreiða þessa fjármuni til fjármagnseigenda þýðir hærri skatta á alla þjóðfélagsþegna, hærri verðbólgu sem skilar sér í hærra verðlagi, gengisfellingu og mögnun skulda þeirra sem skulduðu fyrir. Í stuttu máli sagt eru neyðarlögin til þess gerð að þeir sem skulda og eru í neyðarstöðu, verða að borga meira til að þeir sem eiga eitthvað tapi  ekki sínu. Salvör Gissurardóttir skrifar góða grein um spillinguna í kringum skjaldborg um fjármagnseigendur, hér.

Hvert barn sér í hendi sér að þetta er bæði ósanngjarnt og óréttlátt.

 

060509sandbox

 

Tökum dæmi. 

Tvö börn eru úti að leika sér í sandkassa. Annað þeirra er með gröfu sem það fékk að gjöf frá foreldrum sínum, en hitt barnið á enga slíka gröfu, enda foreldrar þess bláfátækir. Nú tapast grafan á meðan börnin bregða sér í rólurnar um stund og barnið sem átti gröfuna fer að skæla. Fátæka barnið sem enga gröfu átti vorkennir barninu sem tapaði gröfunni, en bæði fara þau heim. Daginn eftir bankar lögreglan upp á hjá fjölskyldu fátæka barnsins og segir að grafa ríka barnsins hafi horfið, og til þess að barnið fái gröfuna sína aftur, þá verður fátæka fjölskyldan að borga helminginn í gröfunni, en Ríkið muni borga hinn helminginn. Fátæka fjölskyldan reynir að mótmæla, en fær þá þau svör að kröfunum verði miskunnarlaust fylgt eftir, og ekki nóg með það, að kostnaðurinn við að fá lögfræðinga í dæmið verði alltof mikill, þannig að þeim er ráðlagt að borga helminginn í gröfunni strax. Þau gera það. Allt fellur í dúnalogn. Barn ríka fólksins fær aftur gröfu, en fátæka barnið situr enn uppi gröfulaust og foreldrar þess með enn minna svigrúm en áður til að kaupa leikföng handa eigin barni. 

Þetta er smækkuð mynd af fáránleika núverandi stöðu, því að skuldarar hafa verið að greiða upp fjármagnstap fjármagnseigenda og stýrivextir, verðbólga og gengisfelling, hlutir sem fáir skilja; sérstaklega þeir sem vinna við aðra hluti en að velta þessum hugtökum fyrir sér; hafa verið notuð sem kröfutækni gagnvart skuldurum. Þeir hafa séð höfuðstól vaxa upp úr öllu valdi, mánaðarlegar afborganir af lánum sínum hækka ógurlega, hafa séð smávörur hækka, misst yfirvinnutíma og fá lægri laun, eru rukkaðir um hærri skatta og fá slakari þjónustu frá hinu opinbera vegna sparnaðar.

 

amazing,basejumping,cliff,dangerous,daring,fall-5cf5ac74a9375a6cd71d6e935f40e8b7_h

 

Það sem flækir náttúrulega málið er að fjármagnseigendurnir eru ekki bara Íslendingar sem stilla sér upp gegn skuldurum, heldur eru kröfuhafarnir úti um allan heim og þeir stilla sér upp gegn Íslendingum, bæði fjármagnseigendum og skuldurum, og upphæðirnar eru ekki bara ein lítil grafa, heldur heilar borgir með háhýsum, íbúðarhverfum, stjórnkerfi og öllu því sem tilheyrir stórborg, og ekki nóg með það, þessar borgir fara vaxandi á meðan Íslendingar fara smækkandi, og það eru lánaneytendur sem eiga að borga þessar borgir til að byrja með og taka sífellt á sig meira, og næst eru það allir Íslendingar sem verða að taka þátt í grieðslunni. Með því að bjarga fjármagnseigendum er verið að leiða þjóðina alla fram af bjargi háu og fyrir neðan er ekkert annað en hyldýpi. Kannski finnst einhverjum fólksfækkun vera nauðsynleg við þessar aðstæður og ásættanlegt að einungis örfáir hrapi ekki fyrir björg.

Skuldarar virðast fremstir í hópnum, næst brúninni, en sumir þeirra berjast gegn kröfuhöfum sem sífellt ýta þeim nær hengifluginu, aðrir skuldarar ýta á hina skuldarana því þeir telja það betra en að berjast gegn þeim sem eru augljóslega sterkari. Svíkja þannig lit. Í miðju hópsins eru íslenskir kröfuhafar að ýta á skuldarana og átta sig ekki á því að með meiri árangri, þá henda þeir ekki bara skuldurum fram af brúninni, heldur færast þeir sjálfir nær henni, með erlenda kröfuhafa sem þrýsta síðan á þá. En einstaka Íslendingar sem standa vel hafa hins vegar áttað sig á hvert stefnir og reyna máttlausir að berjast gegn aflinu sem ógnar þeim sjálfum.

 


 

Er ekki kominn tími til að Íslendingar standi saman og berjist í samstöðu gegn því að nokkur samherji falli fram af bjarginu? Af hverju skilur fólk ekki að þegar einn er fallinn verður mótstaðan minni gegn kröfuhöfum og að lokum verður einfaldlega öllum hópnum ýtt fram af brúninni?

Þessari læmingjahegðun Íslendinga verður að linna. (Læmingjar eru norsk smádýr sem árlega fremja hópsjálfsvíg með því að steypa sér fram af björgum í hafið). Það verður að berjast fyrir því að Íslendingar sjái heildarmyndina skýrar og taki höndum saman, í stað þess að stöðugt berjast innbyrðis, skipta sér í tvö lið, og níðast á þeim sem eru veikari fyrir og líklegri til að tapa. Það skiptir ekki máli með hvoru liðinu þú heldur. Það sem skiptir máli er að það eru öflugir einstaklingar í báðum hópum sem eiga að geta unnið vel saman, en eru ekki að því.

Þeir sem eru sterkari fyrir þurfa að átta sig á því að innan skamms, þegar hinir veikari eru ekki lengur fyrirstaða, þá kemur að þeim að spyrna á móti - og þegar að því kemur er ég hræddur um að það verði of seint.

Ég hef í öðrum pistlum velt fyrir mér sameiningarafli sem gæti fengið Íslendinga til að vinna saman, og stakk í minni einfeldni upp á að nota trúarbrögð til þess, en var harkalega gagnrýndur fyrir af sumum, en hugmyndin fékk einnig hljóðbyr frá öðrum. Hugmynd Gísla um að nota jafnræðisrök eru ekki slæm, og sjálfsagt bjartsýnni heldur en mín tillaga, því að ég er farinn að leiðast til að trúa því að fjöldinn sé einfaldlega ekki tilbúinn til að hlusta á rök.

 


 

Hvernig er hægt að ná til þeirra sem trúa að þeir standi enn vel og sýna þeim að við erum öll í sama liði?

Gerist það ekki verða línurnar á milli hópanna tveggja sífellt skýrari og geta snúist upp í öfgar, eins og baráttu á milli kapítalista og kommúnista, nokkuð sem hefur liðað þjóðir í sundur, eins og til dæmis Norður og Suður Kóreu, Norður og Suður Víetnam, eða þjappað þeim saman á vafasömum forsendum, eins og Kína, Sovétríkjunum og Kúbu. Það er ekkert sem mælir gegn því að Ísland gæti orðið kommúnistaríki innan tíðar. Það er vonandi enn svigrúm til að láta það tímabil standa stutt, en ég er hræddur um að það sé óumflýjanlegt.

Mótrök sem ég hef heyrt gegn neytendum lána er að fjölmargir þeirra séu einfaldlega að misnota sér ástandið, ætli sér að græða á kostnað hinna. Þessir hrægammar eru því miður til. Það er þetta fólk sem er á milli hópanna tveggja og reyna að græða á þeim báðum, sem eru að valda aukinni sundrung. 

 


 

Hins vegar er heilt og gott fólk meginuppistaðan í báðum hópunum, bæði þeim sem skulda alltof mikið vegna óeðlilegs ástands og þeirra sem nutu verndar ríkisins gagnvart eigum sínum. Þeir sem eiga vilja ekki tapa eigum sínum og eru tilbúnir að gera nánast hvað sem er til að verja þær, og þessi hópur stendur í mun betri stöðu en hinir sem hafa tekið húsnæðislán og eiga hugsanlega ekki neitt vegna þess. Sá hópur er nánast varnarlaus nema þessir tveir hópar komist yfir hindranir og taki höndum saman, gegn þeim sem svikið hafa þjóðina og gegn þeim sem eru að misnota sér ástandið.

Við verðum að standa saman því að það er risastór flóðbylgja á leiðinni, sem getur auðveldlega skollið yfir bjargið háa og dregið okkur öll út í hyldýpið, alla Íslendinga og jafnvel einhverja af erlendu kröfuhöfunum líka.

 

tsunami_sm

 

 

Læmingjahegðun afhjúpuð:


Hvað kemur það okkur við þó að Davíð haldi framhjá konu sinni reglulega?

alg_david_letterman

Ég sá þetta á Eyjunni áðan. Bókstafsmaðurinn Davíð viðurkenndi í gærkvöldi fyrir framan myndavélar að hann hefði haft kynmök með konum sem hafa starfað fyrir hann. Allt varð brjálað. Hvílíkt hneyksli! Hvílík karlremba! Hvílíkt hitt og þetta!

Nú er Davíð frekar frægur maður og þekktur fyrir sinn húmor, en honum virðist hafa verið alvara. Einhver óvandaður einstaklingur hafði nefnilega reynt að kúga út úr honum tvær milljónir dollara, annars myndi hann skrifa kvikmyndahandrit og gefa út bók um framhjáhöld Davíðs.

Ekki beint stysta leiðin eða trúverðug saga, enda lítur Davíð út eins og Gúffi. Hins vegar veltir maður fyrir sér hvort að sumar konur komist áfram með kynlífi við valdamikla menn, og þá einnig, til að vera pólitískt á réttum meiði, hvort að karlar komist áfram með kynlífi við valdamiklar konur, og til að vera enn pólitískt réttari hvort að samkynhneigðir komist áfram með kynlífi við samkynhneigða.

Hinn pólitísk rétti heimur er orðinn það flókinn að ég er farinn að velta fyrir mér alvarlega að vera pólitískt rangur hér eftir.

Davíð svaf hjá fullt af stúlkum sem vildu sjálfsagt nota tækifærið og komast áfram í atvinnulífinu? Er eitthvað að því á tímum þar sem getnaðarvarnir koma hæglega í veg fyrir getnað og engin áhætta fylgir þar með athæfinu? Eða þýðir þetta að Davíð hafi brotið gegn trúnaði við konu sína, og ef hann hefur brotið gegn trúnaði við konu sína, að honum sé ekki treystandi lengur?

Treystandi til hvers?

Jú, hann segir brandara og gerir sitt besta til að láta ekki taka sig of alvarlega. Ef við hlæjum, er það trúnaðaryfirlýsing? Ef við hlæjum ekki, hvað þá?

Þurfum við að treysta þeim sem segir brandarann til að hann sjálfur verði ekki brandarinn?

 

Hér er myndbandið af játningu Bókstafsmannsins Davíðs:


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband