Hvað er heiðarleiki? (53 tilvitnanir)

Þegar ég var pjakkur sagði móðir mín mér að segja alltaf satt, og faðir minn að vernda það sem er gott. Ég áleit sannleikann vera eitthvað gott og ákvað því að bæði vernda hann og segja alltaf satt. Þessi heiðarleiki kom mér oft í vandræði, því að ekki var vinsælt þegar einn daginn skólastjórinn kom inn í stofu og spurði hvort einhver hefði séð hver kastaði grjóti gegnum rúðu á skólastofu, og ég rétti upp hönd og sagði satt frá, enda hafði ég séð atburðinn.

Varð ég fyrir ofsóknum næstu frímínútur og þurfti að leggja á flótta undan stórum hópi af krökkum, sem töldu mig hafa gert rangt með því að segja satt. Það var ekki fyrr en ég hætti að flýja og tók upp grjót, og hótaði að henda í þann sem nálgaðist mig að þau hættu þessum ofsóknum. Þetta gerðist allt á tveimur klukkustundum fyrir mörgum árum, en ég man það eins og gerst hefði í gær og er enn stoltur af að hafa náð að segja satt og verndað sannleikann, eins og foreldrar mínir höfðu kennt mér. Samt er spurning hvort að gott sé að finna til stolts vegna slíkra hluta.

Árin liðu og enn trúði ég þessu. Einn af félögum mínum dó þegar við vorum unglingar og fólk í kringum mig talaði um hversu tilgangslaus þessi dauði var. Ég trúði því ekki að nokkur dauði væri tilgangslaus, nema við lifðum í samræmi við þá trú að hann væri tilgangslaus. Því ákvað ég á þessu augnabliki að lfia mínu lífi með það til hliðsjónar að tilgangur verði með lífi og dauða þess fólks sem tengist mér á einhvern hátt.

Í námi í Bandaríkjunum bjó ég í fátæklegu New Jersey hverfi á Orange Road, sömu götu þar sem Thomas Edison hafði verið með rannsóknarstofu hundrað árum áður. Ég leigði íbúð ásamt Íranum Ken, eiginkonu hans Felicity frá Zimbabwe, Finnanum Hannu, og Brasilíumanninum Rigoni. Við vorum allir nema Felicity að nema kennslufræði í heimspeki fyrir börn. Okkur varð tíðrætt um sannleikann og fengum oft fjörugar samræður út úr þeim. Ken hélt því fram að ekki væri til heiðarleg manneskja í heiminum, og ég svaraði honum því að sú manneskja væri til, og að ég viss það enda væri ég það og það væri nóg fyrir mig til að vita að heiðarleg manneskja væri til í heiminum. 

Spólum nokkrum árum fram í tímann, þar sem ég er að kenna heimspeki í FB. Einn af nemendum mínum, Jens, hefur komið með fullyrðingu sem hann síðan áttar sig á að hann getur ekki staðið við. Hann réttir upp hönd og viðurkennir að hafa haft rangt fyrir sér. Hann gerði þetta tvisvar sinnum í námskeiðum hjá mér og fannst það greinilega mjög erfitt í bæði skiptin, en launin voru ríkuleg. Hann komst aðeins nær sannleikanum.

Í dag er ég að velta fyrir mér dygðum. Í gær tók ég fyrir virðingu, og í dag er það heiðarleikinn. Ég tel allar þessar dygðir vera forsendur fyrir góðu lífi sem hefur merkingu útfyrir líf og dauða, ríkidæmi og fátækt, og málefni líðandi stundar.  

Ég er með tíu grundvallardygðir í huga sem mig langar að velta fyrir mér á næstu dögum.

 

Heiðarleiki 

 

"Ef þú segir alltaf satt þarftu ekki að muna neitt." (Mark Twain)

 

 

"Heiðarleiki er fyrsti kaflinn í bók viskunnar." (Thomas Jefferson)

 
 
"Heiðarleikinn er lofaður en síðan skilinn eftir skjálfandi." (Juvenal)
 
 
"Heiðarleiki er góður en ekki hagkvæmur fyrir notandann nema honum sé vel stjórnað." (Don Marquis)
 
 
"Þú skalt ekki byggja heiðarleika þinn á trúarbrögðum og reglum. Bæði trúarbrögð þín og reglur skulu byggja á heiðarleika þínum." (John Ruskin)
 
 
 "Spilling er ekki sigursælari en heiðarleiki." (William Shakespeare - Henry VIII)
  
 
"Hugsanlega eru engar aðstæður jafn hættulegar fyrir heilindi eigin heiðarleika en þær... að vita að maður er elskaður af stúlku sem maður næstum því elskar sjálfur." (Anthony Trollope.)
 
 
"Heiðarleiki er besta reglan, en sá sem lætur stjórnast hugsunarlaust af þessari reglu er ekki heiðarleg manneskja." (Richard Whately)
 
 
"Það er erfitt að trúa því að manneskja sé að segja satt þegar þú veist að þú myndir ljúga í hans sporum." (Henry Louis Mencken)
 
 
"Sá sem lýgur fyrir þig mun ljúga gegn þér." (Bosnískt spakmæli)
 
 
"Engin manneskja er með nógu gott minni til að ná góðum árangri sem lygari." (Abraham Lincoln)
 
"Hálfur sannleikur er heil lygi." (Jiddískt spakmæli) 
 
 
"Þeir sem telja ásættanlegt að nota hvítar lygar verða fljótlega litblindir." (Austin O'Malley)
 
 
"Hættulegustu lygarnar eru smávægilegar hagræðingar á sannleikanum." (Georg Christoph Lichtenberg)
 
 
"Með lygum kemstu kannski áfram í lífinu - en þú kemst aldrei til baka." (Rússneskt spakmæli) 
 
 
"Lygar hafa hraða, en sannleikurinn hefur úthald." (Edgar J. Mohn)
 
 
"Sannleikurinn er það dýrmætasta sem við höfum, því reyni ég að varðveita hann." (Mark Twain)
 

"Við ljúgum þegar við erum hrædd... hrædd við það sem við þekkjum ekki, hrædd við hvað aðrir hugsa, hrædd við hvað uppljóstrast um okkur. En í hvert sinn sem við ljúgum, verður þetta sem við óttumst enn öflugra." (Tad Williams)
 
 
"Sannleikurinn óttast engar spurningar." (NN)
 
 
"Stundum hrasa menn yfir sannleikanum, en flestir eru fljótir að koma sér á fætur og flýta sér í burtu eins og ekkert hefði í skorist." (Winston Churchill) 
 
 
"Sannleikurinn er mikilvægari en staðreyndirnar." (Frank Lloyd Wright)
 
 
"Ef lygar, eins og sannleikurinn, hefðu aðeins eitt andlit, þá værum við í sömu stöðu. Því að við myndum álíta andstæðu þess sem lygarinn segir sem fullvissu. En andstæða sannleikans hefur hundrað þúsund andlit og óendanlegan völl." (Michel de Montaigne)
 
 
"Þegar manneskja lýgur, myrðir hún hluta af heiminum." (Rospo Pallenberg og John Boorman)
 
 
"Þeir sem eru heiðarlegir af hörku fá meira út úr hörkunni en heiðarleikanum." (Richard J. Needham)
 
 
"Ef við fengjum öll þann töframátt að geta lesið hugsanir hvert annars, reikna ég með að fyrstu áhrifin yrðu þau að öll vinátta yrði að engu." (Bertrand Russell)
 

"Gættu þín á hálfum sannleikanum. Þú gætir verið með ranga helminginn." (NN)
 
 
"Sannleikur er svo sjaldgæfur, það er unaður að segja hann." (Emily Dickinson)
 

"Sannleikurinn er mikill og mun sigra að lokum. Það er ekkert að þessu, nema að svona er þetta ekki." (Mark Twain) 
 
 
"Veruleikinn er nógu slæmur. Af hverju ætti ég að segja sannleikann?" (Patrick Sky)
 
 
"Segðu sannleikann, en flýttu þér í burtu strax og þú ert búinn." (Slóvenskt spakmæli)
 
 
"Grimmilegustu lygarnar eru oft sagðar í þögn." (Adlai Stevenson)
 

"Það er ekki án góðrar ástæðu sagt að sá sem hefur slakt minni skuli aldrei venja sig á lygar." (Michel de Montaigne)
 
 
"Manneskja er síst hún sjálf þegar hún talar frá eigin hjarta. Láttu hana fá grímu og hún mun segja þér sannleikann." (Oscar Wilde)
 

"Lygi getur ferðast yfir hálfan heiminn á meðan sannleikurinn er enn að setja á sig skóna." (Mark Twain)
 
 
"Smá ónákvæmni getur stundum komið í veg fyrir heljarinnar útskýringar." (Saki)
 
 
"Sumt fólk þolir ekki tilfinningalegan heiðarleika í samskiptum. Það myndi frekar verja óheiðarleika með þeim rökum að heiðarleikinn geti sært aðra. Þar af leiðandi, eftir að hafa rökstutt fals sem eitthvað göfugt, sættir það sig við yfirborðskennd sambönd." (NN)
 

"Það þarf tvo til að ljúga. Einn til að ljúga og annan til að hlusta." (Matt Groening - Hómer Simpson)
 

"Það er hægt að komast að því hvort að manneskja sé heiðarleg - spurðu hana. Ef svarið er "Já", þá veistu að hún er það ekki." (Groucho Marx)
 
 
"Segðu alltaf sannleikann. Ef þú getur ekki alltaf sagt sannleikann, ekki ljúga." (NN)
 
 
"Samkvæmni er að segja sjálfum mér sannleikann. Heiðarleiki er að segja öðrum sannleikann." (Spencer Johnson)
 
 
"Ef það er ekki rétt, gerðu það ekki. Ef það er ekki satt, segðu það ekki." (Markús Árelíus)
 

"Heiðarleg hjörtu framkvæma heiðarlega." (Brigham Young)
 
 
"Allar athafnir framkvæmdar af óheiðarleika hafa að minnsta kosti tvö fórnarlömb: þann sem maður telur að sé fórnarlambið, og gerandann líka. Sérhver ögn af óheiðarleika býr til annan rotinn blett einhvers staðar í sál gerandans." (Lesley Conger)
 
 
"Heiðarleiki er hornsteinn alls árangurs, en án heiðarleika myndu traust og geta til framkvæmda verða að engu." (Mary Kay Ash)
 

"Besta leiðin til að lifa með heiðri í þessum heimi er að vera sá sem við þykjumst vera." (Sókrates)
 
 
"Baktal og níð geta ekki eyðilagt heiðarlega manneskju - þegar flóðið gengur til baka er kletturinn ennþá til staðar." (Kínverskt spakmæli)
 
 
"Að vera ósammála á heiðarlegum forsendum er oft merki um góða þróun." (Mahatma Gandhi)
 
"Ég hræðist ekki hótanir þínar, Cassius, því að ég er vel undirbúinn, með heiðarleikann að vopni, þannig að hótanir þínar fjúka framhjá mér eins og stefnulaus vindur, nokkuð sem ég ber enga virðingu fyrir." (Williams Shakespeare - Julius Caesar)
 
 
"Öll lifum við aðeins einu sinni; ef við erum heiðarleg, þá er nóg að lifa einu sinni." (Greta Garbo)
 
 
"Ég á mér sex heiðarlega þjóna: þeir kenndu mér allt sem ég kann. Þeir heita Hvað og Hví og Hvenær og Hvernig og Hvar og Hver." (Rudyard Kipling)
 
 
"Eitt af því erfiðasta í þessum heimi er að viðurkenna þegar þú hefur rangt fyrir þér." (Benjamin Disraeli)
 
 
"Við þurfum að gera heiminn heiðarleikann áður en við getum af heiðarleika sagt við börn okkar að heiðarleiki sé besta reglan." (George Bernard Shaw)
 
 
"Heiðarleiki er að mestu leiti óhagkvæmari en óheiðarleiki." (Platón)
 
Myndir: Wikipedia.org og fleiri. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Skemmtilegt. Takk fyrir þetta. Þú ættir kannski að hafa könnun. Hvað finnst ykkur skemmtalegasta tilvitnunin?

María Kristjánsdóttir, 21.3.2008 kl. 23:13

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær pistill og frábærar tilvitnanir Sannleikurinn er alltaf sagna bestur

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.3.2008 kl. 01:14

3 identicon

Stórgóð lesning - þessi síða er komin í uppáhaldið.  Gleðilega páska.

Anna (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 08:24

4 Smámynd: Brattur

... gaman að þessu... mér finnst það sem hún Greta Garbo sagði best...

Brattur, 22.3.2008 kl. 13:54

5 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábærar tilvitnanir og verðugt umhugsunarefni. Gleðilega páska.

Steingerður Steinarsdóttir, 22.3.2008 kl. 20:48

6 Smámynd: Ómar Ingi

Gleðilega Páska kallinn minn

Ómar Ingi, 23.3.2008 kl. 12:19

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar. Gaman að fleiri skuli hafa gaman að þessu en ég.

Hrannar Baldursson, 23.3.2008 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband