Rush Hour 3 (2007) **1/2

Þó að Rush Hour 3 sé illa uppbyggð, með órökréttri atburðarrás, og persónum sem eru á engan hátt trúverðugar, fannst mér hún bara nokkuð skemmtileg. Það er hreint kraftaverk að hægt sé að gera sæmilega skemmtilega kvikmynd upp úr handriti sem er einskis virði, en það sem gerir Rush Hour 3 skemmtilega eru tvær persónur leiknar af Jackie Chan og Yvan Attal.

Lee lögregluforingi (Jackie Chan) fer með Sendiherranum Han á alþjóðlega glæpadómsráðstefnu í Los Angeles þar sem hann ætlar að uppljóstra fyrir opnum tjöldum hver er leiðtogi kínversku alþjóðamafíunnar. Áður en honum tekst að ljúka ræðunni hefur hann verið skotinn úr launsátri og Jackie Chan stokkinn út um gluggann og farinn að hoppa og hlaupa eins og andskotinn sjálfur á eftir leigumorðingjanum, sem síðar kemur í ljós að er gamall æskuvinur, Kenji (Hiroyuki Sanada) sem Jackie Chan vill að sjálfsögðu ekki skaða en umbreyta í betri manneskju.

Lögreglumaðurinn agalausi og fordómafulli James Carter (Chris Tucker) heyrir tilkynningu um tilræðið á kínverska sendiherranum og þeysir af stað til að hjálpa Jackie Chan. Leigumorðinginn sleppur, en aðeins þar sem Jackie vildi ekki þurfa að skjóta hann. Sem þýðir samkvæmt mínum skilningi að Jackie er starfi sínu ekki vaxinn.

Í ljós kemur að dóttir sendiherrans, Soo Yung (Jingchu Zhang) hefur aðgang að upplýsingunum sem sendiherrann ætlaði að uppljóstra, en Jackie og Tucker komast að því að kínverska mafían hefur þegar náð skjölunum. En þeir eru orðnir að skotmarki og vilja einnig bjarga lífi Han sendiherra og dóttur hans frá byssuglöðum bófunum, og fara því til Parísar, þar sem að fram fer innan tveggja daga innvígsla nýjustu foringja mafíunnar.

Það tekur því varla að rekja söguþráðinn, sem er einfaldlega of vitlaus til að borgi sig að velta sér fyrir honum, en Max von Sydow þráleikur mikilvægt hlutverk í myndinni án nokkurrar áreynslu. Franski leigubílstjórinn George (Yvan Attaf) er langskemmtilegasti þátturinn í þessari mynd, sérstaklega þegar hann ákveður að haga sér eins og ofurnjósnari það sem eftir er myndarinnar, þá sýnir hann viðhorf sem vantar alltof oft í svipaðar myndir - ævintýrahug, hugrekki og húmor sem gaman er að fylgjast með.

Jackie Chan er alltaf að eldast en er samt margfalt fimari en flestir yngri menn í heiminum. Hann er ekki nema svipur hjá sjón miðað við hvað hann var þegar hann var upp á sitt besta. Jackie er 53 ára gamall, aldur sem maður reiknar með að menn standi kyrrir og í mesta lagi láti sig detta í sófa, en nei, hann er á hlaupum yfir götur, stekkur yfir bíla, forðast fljúgandi hnífa, og stekkur af Eiffelturninum á nokkuð sannfærandi hátt.

Jackie Chan er hreint ótrúlegur leikari - hann er sjaldan trúverðuglegur þegar hann reynir að taka sig alvarlega, kann ekki að syngja en gerir það samt, en hefur slík yfirráð yfir líkamlegri tjáningu, þar sem húmor, fimi og bardagalistir renna saman í eitt, að það er sífellt yndi að fylgjast með honum. Ef hægt er að tala um líkamlegar gáfur, þá er Jackie Chan fyrirmyndar fulltrúi fyrir þann flokk greindar.

Fyrsta Rush Hour (1998) myndin var stórskemmtileg og frumleg, og þá var Jackie Chan líka í fantaformi, enda ekki nema 43 ára, persónurnar sæmilega trúverðugar og sagan heilsteypt. Rush Hour 2 (2001) ( var lakari, en samt nokkuð skemmtileg, og Rush Hour 3 enn lakari en önnur myndin, en samt gaman að henni, svo framarlega sem að kröfurnar eru í lægri kantinum.

 

Myndir frá IGN.COM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Þessi var horbjóður einn beygluð stjarna.

Ómar Ingi, 9.3.2008 kl. 16:24

2 identicon

Sammála þér að hinar myndirnar voru fínasta skemmtun en mér leiddist að horfa á þessa. Fannst hún vægast sagt hrikaleg.

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 20:32

3 Smámynd: Billi bilaði

Fín gagnrýni.

Annars kemur fram í æfisögu Jacky Chan að hann lærði söng jafnframt öðru í kínverska óperuskólanum sem hann var í í 10 ár, og þykir bara nokkuð góður söngvari í Hong Kong.  (En þar er náttúrlega ekki sami tónlistarsmekkur og á Vesturlöndum. ;-)

Billi bilaði, 10.3.2008 kl. 07:17

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir skemmtilegar athugasemdir. Ég stend algjörlega við þessa gagnrýni.

Hrannar Baldursson, 10.3.2008 kl. 21:41

5 Smámynd: Einar Jón

Það er nú illa sagt að einhver sé ekki starfi sínu vaxinn ef hann getur ekki uppfyllt skyldur sínar vegna vina- eða fjölskyldutengsla við einhvern.

Þetta kallast að vera vanhæfur, sem má ekki rugla saman við að vera óhæfur. 

Annars fín gagnrýni á ómerkilega, en vel ásættanlega, mynd.

Einar Jón, 12.3.2008 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband