Er baráttan gegn einelti fyrirfram töpuð?

Við vitum að einelti er eitthvað slæmt. Þegar börn eru beitt einelti lenda þau í áhættuhóp yfir þá ólánsömu einstaklinga sem geta villst á þjóðvegum lífsins.

Ég skilgreini einelti sem hvaða form ofbeldis sem átt getur sér stað og er síendurtekið beitt gegn einstaklingi eða hópi. Ofbeldi getur verið misjafnlega harkalegt og valdið misjafnlega miklum skaða, en ofbeldi ber ávallt að taka alvarlega.

Ég hef rætt við fólk sem lítur á einelti sem sjálfsagðan þátt í tilveru barna. Það sé rétt eins og íslenska veðrið. Börnin verða að standa þetta af sér, herðast gegn því, læra að þola það. Þetta er slæm leið.

Ég er á þeirri einföldu skoðun að rót alls hins illa í heiminum felist í ofbeldi og að ofbeldi nærist á fávisku og heimsku. Það að þekkingu og visku þurfi til að koma í veg fyrir ofbeldi þýðir að hér er um vandasamt mál að fást. 

Við teljum réttlætanlegt að beita ofbeldi við ákveðnar aðstæður. Til dæmis eru lögreglumenn og hermenn þjálfaðir til að beita ofbeldi á agaðan hátt. Afbrotamenn eru beittir ofbeldi þar sem þeir eru útilokaðir frá samfélaginu, en þetta ofbeldi þykir réttlætanlegt þar sem það fylgir ströngum ferlum kerfisins og samfélagsins.

Allir vita að ofbeldi er rangt, en átta sig ekki alveg á hvað "einelti" þýðir og af hverju það er líka rangt.

Dæmi um líkamlegt ofbeldi er þegar einhver er laminn. Dæmi um andlegt ofbeldi er þegar einhver er kallaður illum nöfnum eða skilinn útundan. Einelti er hins vegar þegar einhver er stöðugt laminn, stöðugt kallaður illum nöfnum, stöðugt skilinn útundan. Þannig er einelti í raun jafn djúpt og alvarlegt fyrirbæri og ofbeldi, án þess að ég vilji gera lítið úr ofbeldi, sem getur verið það harkalegt að það skilur þolandann eftir örkumla og jafnvel lífvana. Það getur einelti reyndar líka gert, það er bara erfiðara að sjá það.

Merki eineltis eru sjaldnast sýnileg, enda algengasta form þeirra sprottið úr illskuverkum sem erfitt er að sanna: úr andlegu ofbeldi. Það þekkja flestir þá tilfinningu að hafa einhvern tíma verið skilinn útundan. Hvernig verður sú tilfinning þegar hún er endurtekin fimmtíu sinnum á mánuði? 

Við þekkjum þá tilfinningu sem fylgir því að hafa verið refsað fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert. Hvernig tilfinning ætli það sé að vera refsað reglulega fyrir eitthvað sem maður hefur ekki gert?

Við þekkjum þá tilfinningu sem fylgir því að lítið sé gert úr manni, að gert sé grín að einhverju í fari manns. Það er óþægilegt einu sinni. En hvað ef slíkt gerist ekki bara daglega, heldur oft á dag?

Listinn hér fyrir neðan er dæmi um einelti, og alls ekki tæmandi:

EINELTI SEM ANDLEGT OFBELDIEINELTI SEM LÍKAMLEGT OFBELDI
 Stríðni sem þolanda finnst ekki fyndin
 Að sparka í einhvern
 Að uppnefna einhvern
 Að berja einhvern
 Að hóta einhverjum
 Að neyða einhvern til að gera hluti gegn vilja
 Að stela hlutum frá einhverjum
 Að neyða einhvern til að borga pening eða eigur  fyrir að vera látinn í friði
 Að eyðileggja hluti einhvers
 Að níðast á einhverjum vegna trúarbragðaskoðana
 Að gera óvinsamlegt grín að einhverjum
 Að níðast á einhverjum vegna húðlits
 Að láta einhvern finna fyrir óþægindum
 Að níðast á einhverjum vegna þjóðernis
 Að hræða einhvern
 Að níðast á einhverjum vegna tungumáls
 Að hunsa einhvern eða skilja útundan
 Að níðast á einhverjum vegna fötlunar (t.d. nærsýni)
Að baktala einhvern 
Að dreifa gróusögum um einhvern 
Að segja eða skrifa illkvittna hluti um einhvern 

Langvarandi einelti er líklegt til að vekja eftirfarandi tilfinningar, sérstaklega ef þolanda vantar stuðningsnet fjölskyldu, og jafnvel þó að viðkomandi hafi það:

  • Þunglyndi
  • Minnimáttarkennd
  • Feimni
  • Áhugaleysi gagnvart verkefnum
  • Einmanaleika
  • Sjálfsvígshugleiðingum

Af hverju leiðist fólk út í að stunda einelti?

  • Hegðun sem allir hinir stunda
  • Sjálfsvörn gegn mögulegu einelti frá öðrum
  • Vilja frekar vera gerendur en fórnarlömb
  • Lélegt sjálfsálit
  • Vilja vera töff
  • Finnst allt í lagi að særa aðra
  • Annað...

Og nú er það spurningin sem enginn virðist geta svarað í verki:

Er baráttan gegn einelti fyrirfram töpuð?

Hvernig útrýmum við einelti og ofbeldi?

Í eitt skipti fyrir öll?

Einu atviki í einu?

Horfum í kringum okkur.

Upplifum daginn í dag án ofbeldis.

Lifum lífinu án eineltis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

WOW það er aldeilis

Ómar Ingi, 15.3.2008 kl. 13:27

2 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Frábært hjá þér! Einelti og andlegt ofbeldi á sér stað alls staðar í samfélaginu. Þolendur draga sig í hlé. Það þyrfti að fjalla mikið meira um þetta í fjölmiðlum og fræða fólk.

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 15.3.2008 kl. 14:58

3 identicon

Ég er sammála þér, ég upplifi að fólk sé að gefast upp á baráttunni gegn einelti. Það þykir mér miður.

Ef við gefumst upp og förum að tala  um að einelti sé bara sjálfsögð þá mun eineltið (ofbeldið) þrífast best.

Ég er á því að við eigum að halda baráttunni áfram og leita leiða til að efla þessa baráttu gegn einelti og ofbeldi almennt.

Fræðsla, góðar fyrirmyndir, sjálfstyrking, umræða um tilfinningar og þá þætti manneskjunnar sem snúa að hlýju, umönnun og þrá okkar eftir því að vera samþykkt, þrá okkar eftir því að tilheyra, ræða um það að það sé eftirsóknarvert og mikil viðurkenning í því að hjálpa öðrum og styðja. Gætu komið okkur áleiðis

Ég held að einmitt svona staðhæfingar eins og Laissez-Faire orðar hér að ofan vinni með einelti en ekki gegn því.

Takk fyrir góðan pistil

Díana (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 15:16

4 identicon

Hver segir að þetta sé vondur hlutur, natural selection, þetta flýtir bara fyrir þróun ef eitthvað er.

Joe Boxer (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 23:46

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Frábær grein Hrannar, má ég vitna í hana?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.3.2008 kl. 09:04

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir góðar og oft áhugaverðar athugasemdir.

Heimir, að sjálfsögðu máttu vitna í greinina.

Það sem mér finnst áhugaverðast við athugasemdirnar er hvernig þær virðast skiptast í ólíka heimssýn. Sumum finnst einelti vera eðlilegur hlutur sem einfaldlega sker úr um hverjir eru hæfastir, og að svona sé einfaldlega mannlegt eðli og því verði ekki breytt. 

Ég er reyndar sammála því að mannlegu eðli verði ekki breytt, en hins vegar ætti að vera hægt að krefjast þess af börnum og öðru fólki að það temji eðli sitt, í stað þess að það stjórnlaust ráðist á þá sem virðast minni máttar. 

Ég er hræddur um að sífellt fleiri Íslendingar séu á þessari skoðun, að fólk eigi bara að vera eins og það er, og ekkert vera að stýra því til betri vegs. Þetta endurspeglast í viðhorfi til kennarastéttarinnar, sem fólk virðist halda að eigi að passa börnin þeirra og kenna þeim að lesa, skrifa og reikna - búið. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því hvernig menntamálin standa á Íslandi í dag, og sýnist þeim fara hratt hnignandi enn frekar.

Þetta er náttúrulega bara eitthvað sem ég hef tekið eftir undanfarið, en ekki byggt á fræðilegum rannsóknum - heldur reynslu af vinnu með börnum. Kannski ein ástæðan sé sú að ég fékk alla mína kennaramenntun í Bandaríkjunum og Mexíkó, og því sé ég þetta svolítið skakkt (eða rétt) hérna.

Fyrir þá sem trúa því að ennþá sé hægt að berjast fyrir hinu góða, þ.e.a.s. að einelti fái ekki þryfist, held ég að þessi hópur verði að sameinast og láta heyra í sér, í stað þess að láta hinn hópinn ráða, hópinn sem vill einfaldlega leyfa hinum sterkari að níðast á hinum veikari í friði, því að þannig er það og þannig hefur það alltaf verið. 

Hrannar Baldursson, 16.3.2008 kl. 10:27

7 identicon

Sæll Hrannar,

Áhugavert að lesa þessa grein frá þér.  Hún vekur mig til umhugsunar.  Ég kenni nemendum í 4. bekk sem eru yndisleg börn.  Ég hef það nú samt á tilfinningunni að það sé undirliggjandi stríðni hjá þeim aðilum sem telja sig ráða yfir mannskapnum.  Ég veit að þessi stríðni myndi ekki flokkast undir einelti en engu að síður finnst mér mikilvægt eftir að hafa lesið greinina þina og vekja mína nemendur til umhugsunar um hversu alvarlegt og ljótt það er að leggja í einelti, ekki síður til að koma í veg fyrir að nemendur mínir leggi einhvern í einelti seinna á lífsleiðinni. 

Takk fyrir mig. 

Grunnskólakennari (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 10:58

8 identicon

Námsráðgjafar skólanna eru sérmenntaðir í meðferð eineltis þó þetta sé í námi grunnskólakennara. Að vinda ofan af einelti sérlega langvinnu tekur langan tíma. Stundum þarf jafnvel að skipta hópi upp. Barátta gegn einelti tekur aldrei enda.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 12:22

9 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

FLottur pistill Hrannar

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 16.3.2008 kl. 13:22

10 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Góð og þörf fræðsla.

Steingerður Steinarsdóttir, 16.3.2008 kl. 20:10

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég þakka kærlega fyrir mig. Gaman að heyra hvað þið hafið um málið að segja. Ég er sérstaklega hrifinn af athugasemdinni frá Grunnskólakennara, þar sem hann/hún bendir á mikilvægi þess að ræða þessi mál meðal nemenda.

En ekki má gleyma að kennarar eru líka mannlegir og til eru dæmi um kennara sem hafa tekið þátt í einelti gagnvart nemendum, til dæmis með því að hlífa þeim sem eineltinu valda, og til eru dæmi um kennara sem hafa beinlínis niðurlægt nemendur af offorsi. En til allrar hamingju heyrir það til undantekninga.

Guðrún! Ég vissi ekki að þú værir byrjuð að blogga! Bið að heilsa Kötu! 

Hrannar Baldursson, 16.3.2008 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband