Hvað er svona merkilegt við Harry Potter? (Bækur 1-7) ***1/2

Árið 2001 las ég fyrstu Harry Potter bókina áður en fyrsta kvikmyndin kom út. Mér þótti hún mjög góð og spennandi, og mun betri en kvikmyndin. Síðan hef ég lesið allar hinar bækurnar og kláraði þá síðustu í gær. Nú vil ég einfaldlega gera grein fyrir hvað mér finnst um þessar bækur. Ég vil taka það fram að ég las þær allar á ensku og hef ekki kynnt mér íslensku þýðinguna. Hægt er að segja að J.K. Rowling hafi unnið mikið þrekvirki með þessum bókum, en 765 persónur eru nafngreindar í þeim, þannig að ekki er ofsagt að hún hafi skapað með þessum skáldsögum heilan heim.

Harry Potter and the Philosopher's Stone (1997) fjallar um upphafið á sögu Harry Potter. Hinn illi galdramaður Voldemort myrti foreldra hans og ætlaði að myrða hann, vegna þess að spádómur sá fyrir að þessi drengur væri það eina sem gæti staðið í vegi fyrir því að Voldemort næði heimsyfirráðum í galdraheiminum. Þegar hann reyndi að drepa drenginn sundraðist hann sjálfur og varð að nánast engu. Það tekur Voldemort mörg ár að ná fullum kröftum á nýjan leik. Þegar vinir foreldra Harry Potters koma á staðinn og sjá að þau hafa verið myrt, þurfa þau að finna honum einhvern stað. Þau fara með hann til systur móður hans og biðja hana að gæta hans næstu árin. Hún gerir það, en Harry Potter verður stöðugt fyrir andlegu ofbeldi frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Hann er látinn gista í kytru undir stiga og fær ekki almennilegt herbergi fyrr en hann er orðinn of stór fyrir kytruna.

Árin líða og Harry uppgötvar að hann er ekki eins og önnur börn. Til dæmis stendur hárið alltaf í allar áttir og þó að það sé klippt af vex það aftur á ofurhraða. Hann uppgötvar líka að hann getur hreyft sig á ofurhraða, sérstaklega þegar hann er á flótta undan jafnöldrum sínum. Og síðast og ekki síst uppgötvar hann að hann getur talað við slöngur.

Þegar Harry er kominn á aldur er honum boðið að fara í Hogwarts, skóla fyrir börn með galdrablóð í æðum. Hann þiggur boðið með þökkum, þrátt fyrir mótmæli fósturforeldranna. Þar kynnist hann góðum vinum, Ron Weasley og Hermoine Granger, sem eiga eftir að fylgja honum gegnum öll hans ævintýri næstu sjö árin. Einnig kynnist hann hinum illkvittna Draco Malfoy, sem virðist vera náttúrulegur óvinur Harry.

Kennarar skólans eru einnig mjög skrautlegir og of margir til að telja upp. Fremstur þeirra er Albus Dumbledore, skólastjóri og magnaður galdramaður. Helsti aðstoðarmaður hans er svo Minerva McGonagall sem getur skipt um ham eftir geðþótta. Besti vinur Harry á meðal starfsmanna er hinn hálfmennski og hálfur risi Hagrid, en galdrar hans misheppnast oftast, en hann hefur mikla þekkingu á meðhöndlun skrímsla og annarra galdravera. Harry er meinilla við Severus Snape, kennara sem virðist holdgerving hins illa, en er annað hvort hliðhollur Dumbledore eða Voldemort, nokkuð sem kemur ekki í ljós fyrr en í síðustu bókinni.

Í ljós kemur að Voldemort er aftur kominn á kreik og er á höttunum eftir heimspekisteininum (Philosopher's Stone) og Harry tekur að sér það verkefni að koma í veg fyrir að Voldemort nái aftur fullum styrk. Næstu fimm bækur fjalla um það nákvæmlega sama, nema að Voldemort og Harry eru á höttunum eftir ólíkum hlutum, og skemmtilegum persónum fjölgar stöðugt, þar til að stríðið á milli Dauðahers Voldemorts og Fönix-reglan (Order of the Phoenix - leynisamtök hinna góðu) takast á í síðustu bókinni, þá hríðfækkar þeim enda að minnsta kosti fimmtíu manns drepnir á síðustu hundrað blaðsíðum sögunnar, og af þeim nokkrir sem komið hafa mikið við sögu. Ég ætla ekki að gefa upp hvað verður um Harry Potter og félaga hans, en endirinn er nokkuð óvæntur sama hvað maður hefur reiknað með.

Ekki má gleyma Qudditch, sem er knattleikur spilaður á fljúgandi kústsköftum. Mér finnst alltof mikið gert úr þessum leik í bókunum, þó að hugmyndin sé vissulega sniðug.

Í Harry Potter and the Chamber of Secrets (1998) berst Harry og félagar við gríðarlega stóran snák sem sloppið hefur úr leyniherbergi með hjálp Ginny Weasley, en hún er andsetin af minningum Voldemorts sem geymdar voru í dagbók Tom Riddle, sem hún fann og las, en Voldemort hét Tom Riddle áður en hann tók sér illmennisnafnið.

Í Harry Potter and the Prisoner of Azkaban (1999) stækkar heimur Harry Potter enn meira þegar í ljós kemur að guðfaðir hans, Sirius Black, hefur sloppið úr fangageymslum Azkaban, en Sirius þessi hefur löngum verið talinn svikarinn sem sveik foreldra Harry í hendur Voldemort, og nú er óttast um að hann ætli að myrða Harry sjálfan. Besti vinur Black er varúlfurinn Remus Lupin, og ljóst að þeir hafa mikinn áhuga á Harry Potter. Til að vernda Potter og félaga eru Dementors (Afhugarar) fengnir til að umkringja skólann og gæta þess að enginn skaði nemendurnar, en þessi afhugarar sjúga sálir úr líkömum þeirra sem þeir ná. Ætlun Voldemorts er að þessir Afhugarar nái Potter, en Sirius Black hefur komist að þessu tilræði og vill gera allt sem hann getur til að bjarga Harry Potter. Það er skemmtilega unnið með tímaflakk í þessari sögu.

Í Harry Potter and the Goblet of Fire (2000) er haldið alþjóðlegt mót í Hogwarts þar sem Harry Potter er meðal þátttakenda þrátt fyrir að vera of ungur til að keppa. Keppa skal í þremur greinum. Í ljós kemur að Voldemort hefur komið að skipulagi keppninnar, sem er gildra til að drepa Harry Potter.

Í Harry Potter and the Order of the Phoenix (2003) kemst Harry að því að leynisamfélagið Fönix-reglan hefur verið stofnuð til að veita Voldemort mótspyrnu, þar sem að völd hans og áhrif vaxa stöðugt. Í ljós kemur að Voldemort og Harry hafa órjúfanlega tengingu, þannig að Voldemort getur lesið hug Harry og öfugt. Með þessari tengingu leiðir Voldemort Harry í enn eina gildruna, sem verður góðum manni að bana.

Í Harry Potter and the Half-Blood Prince (2005) finnur Harry bók með upplýsingum sem hjálpa honum að blanda töfraseiði á óaðfinnanlegan hátt. Hann þarf að komast að því hver þessi Half-Blood Prince er. Dumbledore hefur á sama tíma áttað sig á hvernig mögulega er hægt að sigrast á Voldemort, en til þess þarf að finna sjö hluti. Voldemort hefur öðlast ódauðleika með því að skipta sál sinni í sjö hluta, og eina leiðin til að drepa hann, er með því að útrýma fyrst þessum sjö hlutum, sem kallaðir eru horkrossar (horcrux). Voldemort hefur lagt gildrur fyrir þá sem nálgast þessa hluti, en þeir Harry og Dumbledore fara saman í leit að þeim. Ein af þessum leitum endar með ósköpum, þegar einn af þeim einstaklingum sem er Harry kærastur er myrtur af einum kennara skólans, og ljóst að Dauðaher Voldemorts hefur opinberað sig.

Í Harry Potter and the Deathly Hallows (2007) er reynt að fela Harry fyrir Voldemort, en þegar Harry nær 17 ára aldri hverfa verndargaldrar af heimili hans, og hann verður auðveldara skotmark fyrir Voldemort og dauðaherinn. Harry Potter leggur á flótta ásamt Ron og Hermoine, og snýr vörn í sókn þar sem hann leitar að horkrossum Voldemorts og eyðileggur þá einn af öðrum, þar til í ljós kemur að aðeins tveir horkrossar standa í vegi fyrir Voldemort, snákur sem fylgir honum alltaf og örið sem er fast á enni Harry Potter. Dauðaherinn nær völdum í galdraheimum og ofsækja alla þá sem eru ekki með hreint galdrablóð í æðum, og kúga alla til samvinnu sem sýna hana ekki að fyrra bragði. Harry Potter verður að tákni frelsisbaráttu og sameiningarafl fyrir hið góða, sem leiðir til mikils bardaga undir lok sögunnar, sem lýkur með dramatískum hætti, þar sem Severus Snape leikur lykilhlutverk.

Það má segja að þessar bækur séu vel lestursins virði. Þær eru ekki hugsaðar sem barnabækur, heldur fantasíur sem hafa börn í margbrotnu þroskaferli, í aðalhlutverkum. Ég mæli sérstaklega með bókum 1 og 7, en finnst hinar hafa of mikið af uppfyllingarefni, þó að margar skemmtilegar persónur og aðstæður séu skapaðar í þeim.

Ég held að það væri vel þess virði að kvikmynda aftur þessar sögur í heild sinni, og gera þá þrjár kvikmyndir: Þá mætti byrja á forsögunni, og sýna hvernig Tom Riddle breytist í Voldemort og drepur Lily og James Potter til þess að öðlast enn meiri krafta. Í lok þeirrar sögu mætti sýna hvernig Harry Potter er komið fyrir hjá fjölskyldu sinni, hvernig hann uppgötvar að hann er öðruvísi en annað fólk og fyrstu ferðinni til Hogwarts, ásamt fyrsta ævintýrinu. Kvikmynd tvö mætti svo fjalla um allt sem gerist í bókum 2-6. Þriðja og síðasta kvikmyndin mætti svo taka á síðustu skáldsögunni, sem er afar gott efni í spennandi kvikmynd. Reyndar er ætlunin að skipta The Deathly Hallows upp í tvær kvikmyndir sem báðar verða frumsýndar á árinu 2010.

Stjörnugjöf fyrir bækurnar (af fjórum mögulegum):

Harry Potter and the Philosopher's Stone ****

Harry Potter and the Chamber of Secrets **1/2

Harry Potter and the Prisoner of Azkaban ***

Harry Potter and the Goblet of Fire ***

Harry Potter and the Order of the Phoenix **1/2

Harry Potter and the Half-Blood Prince ***

Harry Potter and the Deathly Hallows ****


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Fyrstu bækurnar voru frábærar. Þær síðustu einfaldlega hrútleiðinlegar. Hún hefði átt að hætta eftir 3. eða 4. bókina að mínu mati.

Júlíus Valsson, 16.3.2008 kl. 21:24

2 Smámynd: Ómar Ingi

Tja hérna hér

Ómar Ingi, 16.3.2008 kl. 22:02

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Mjög fróðleg lesning. Hef hvorki lesið bækurnar né séð myndirnar (fyrir utan hluta af einni).

Ótrúlega skemmtilegur penni, Hrannar

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 16.3.2008 kl. 23:00

4 identicon

Hef lesið allar bækurnar, á íslensku reyndar. Finnst þessar bækur alger snilld allar sem ein. Sammála þér um 1 og 7 bókina, en fannst samt allar hinar bækurnar nauðsynlegar. Fannst t.d. bók nr. 6 frábær, ekki sammála um bara 3 stjörnur þar.

Las þær á íslensku og Dementors var þýtt sem vitsugur, horcrux sem helkrossar og  heimspekisteinninn var viskusteinninn

Annars skemmtilegur pistill og þýðingar! 

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 00:15

5 identicon

Góður pistill,

hef lesið þær allar fyrst á ensku og svo íslensku og sumar oftar en einu sinni. Þarf varla að taka það fram að ég hef séð myndirnar! Alger snilld þ.e. bækurnar! það besta við þær er að ég og sonur min höfum átt sameiginlegan áhuga á þessum bókum frá því sú fyrsta kom út og ég þýddi hana á íslensku fyrir hann jafn óðum og ég las, hann þá 6 ára. Sá siður hefur haldist að ég hef lesið Harry með honum þrátt fyrir að hann sé kominn til vits og ára, sem er alveg ótrúlega dýrmætt.

kveðja

ofurskutlan

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 00:27

6 identicon

Stórgóður pistill, nema það hvað bækur 2-6 finnst mér eiga fleiri stjörnur skilið! Þær eru allar nauðsynlegar til þess að kynnast betur mikilvægi sem og fortíð lykil persónanna.

Hef síðustu já, 8 ár beðið spennt eftir jólunum vegna þess eins að ég vissi það að mín biði Harry Potter bók undir jólatrénu!;)

Hef ekki enþá lokið síðustu bókinni, og reynt að draga það sem lengst því ég hreinlega veit ekki hvað é gá að gera nú þegar bækurnar eru á enda!

meistaraverk, eigðu góðan dag:) 

Eva Kristín (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 09:43

7 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég er einlægur Harry Potter aðdáandi og mun sakna þess að fá ekki bók um þann mæta dreng í ár.

Steingerður Steinarsdóttir, 17.3.2008 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband