Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 20. sæti: Pitch Black
30.10.2007 | 22:37
Þá er listinn yfir ofurhetjumyndirnar búinn, og sá næsti tekur við. Sérstakar þakkir fá þeir Arnar og Hafliði Sancho fyrir að plata mig út í þetta. Nú eru það bestu vísindaskáldsögur í kvikmyndum sem taka við. Þessi listi endurspeglar fyrst og fremst mínar eigin skoðanir og smekk á vísindaskáldsögum. Sumar af þeim myndum sem almennt teljast meðal allra bestu vísindaskáldsagna komast ekki inn á þennan lista. Aðal mælikvarði minn fyrir gæði slíkra mynda er hvort að ég sé tilbúinn að horfa á viðkomandi mynd aftur, og hugsanlega aftur og aftur.
Vísindaskáldsögur fá mann til að hugsa um heiminn á nýstárlegan hátt; sumar, þeirra kanna endamörk alheimsins, framtíð mannkyns, möguleikann um líf á öðrum hnöttum, hugsanlegar tilfinningar vélmenna, tímaflakk, og þar fram eftir götunum. Til eru fjölmargar góðar vísindaskáldsögur sem komast ekki inn á listann, og vonandi heyrist í lesendum sem hafa ólíkar skoðanir og verða jafnvel svekktur yfir að mér hafi yfirsést einhver gersemi.
Ég ætla að nota tækifærið og horfa á allar mínar uppáhalds vísindaskáldsögur, og fjalla svo aðeins um þær. Þannig að vel má vera að þessi listi verði gerður á nokkrum mánuðum. Ég vona bara að mér takist að klára hann eins og aðra kvikmyndalista sem ég hef byrjað á.
Pitch Black (2000) ***1/2
Flutningageimskip lendir í loftsteinaregni sem drepur meirihluta farþega og áhafnar um borð. Skipið brotlendir á plánetu þar sem þrjár sólir skína. Meðal þeirra sem lifa af eru flugkonan Carolyn Fry (Radha Mitchell), mannaveiðarinn William J. Johns (Cole Hauser), heilagi maðurinn Abu al-Walid (Keith David) og unglingsstúlka sem þykist vera strákur og kallar sig Jack (Rhiana Griffith). Þeim stafar öllum mikil ógn af fanganum Richard B. Riddick (Vin Diesel) sem var hlekkjaður um borð í skipinu á leiðinni í rammgirt fangelsi eftir misheppnaða flóttatilraun.
Hópurinn upplifir margar ógnir. Fyrst þurfa þau að finna skjól yfir höfuðið og næringu. Þau finna yfirgefnar búðir og fara þá að hafa áhyggjur af Riddick. En þá kemur fram enn meiri ógn. Á plánetunni búa verur sem halda sig aðeins í skugga og myrkri. Vogi sér nokkur inn á svæði þeirra er viðkomandi samstundis étinn með húð og hári. Það sem verra er, er að plánetan er við það að ganga inn í fyrstu nóttina í 22 ár; nótt sem mun vara í mánuð. Þessi óargadýr sleppa engu lifandi úr klóm sínum og kjafti, og þau eru virkilega svöng.
Þegar myrkrið skellur á snýr hópurinn sér að Riddick, þar sem hann virðist sérstaklega útsjónarsamur og jafnvel minna illmenni en Johns, maðurinn sem handsamaði hann og ætlar sér að græða vel á honum. Riddick er þeim eiginleika gæddur að hann getur séð í myrkri og verður þannig að augu hópsins sem þráir ekkert heitar en að sleppa lifandi af plánetunni. Til þess þarf hópurinn að koma eldsneyti úr skipinu sem fórst yfir í annað skip sem þau finna í búðunum, en þau eru að falla á tíma, myrkrið er við það að skella á og óvættirnar búnar að finna af þeim nasaþefinn.
Pitch Black er vel leikstýrt, tæknibrellur flottar og passa inn í söguna, leikurinn góður og samtölin oft snjöll. Sérstaklega er Riddick vel heppnaður karakter, en ljóst er að eitthvað meira býr í honum en grimmdin ein.
Kvikmyndir | Breytt 2.11.2007 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10 bestu ofurhetjumyndirnar: 1. sæti: Batman Begins (2005) ****
29.10.2007 | 22:37
Komið er að lokafærslunni um bestu ofurhetjumyndirnar að mínu mati. Vonandi verður þörf á að uppfæra listann fljótlega þar sem von er á kvikmyndum innan skamms um Iron Man, Thor, framhald af Batman og Superman, og þeirri athyglisverðustu: The Watchmen.
Ég vil þakka tryggum lesendum kærlega fyrir sinn þátt í að gera þennan lista að veruleika, og sérstaklega vil ég þakka hvatningu Ásdísar Sigurðardóttur sem ýtti mér yfir síðasta hjallann.
Batman Begins er besta ofurhetjumynd sem ég hef séð og langbest allra þeirra kvikmynda sem gerðar hafa verið um Batman, fyrir utan kannski teiknimyndirnar snilldargóðu Batman: Mask of the Phantasm (1993) og Batman Beyond: Return of the Joker (2000), en þær voru gerðar fyrir sjónvarp og vídeó, þannig að þær teljast varla með sem kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndin um Leðurblökumanninn er frá 1943, en hún heitir einfaldlega The Batman.
Vinsælir sjónvarpsþættir voru gerðir á 6. áratugnum sem gerðu í raun grín að teiknimyndaforminu og tóku sig alls ekki alvarlega. Þetta voru litríkir þættir og höfðu töluvert skemmtanagildi, en náðu alls ekki þeim anda sem Bob Kane, höfundur persónunnar, reyndi að draga fram í teiknimyndasögum sínum.
Árið 1989 leikstýrði Tim Burton Batman þar sem tókst að skapa spennandi andrúmsloft í kringum aðalpersónuna, en Jack Nickolson tókst hinsvegar að draga meginhluta myndarinnar niður á sama plan og þættina frá 6. áratugnum. Þetta var þó þróun í rétta átt. Batman var að einhverju leyti tekinn alvarlega. Í Batman Returns hélt Burton áfram fyrri háttum og endurskapaði þar meðal annars Mörgæsina og Kattarkonuna. En Kattarkonan var sérlega vel heppnuð í hlutverki Michelle Pfeiffer. Gallinn við myndina var hins vegar sá að það var allt of mikið af illmennum út um allt og Batman sjálfur fékk nánast enga athygli. Í Batman Forever tók Joel Schumacher við taumunum og hélt húmornum áfram með því að fá þá Jim Carrey og Tommy Lee Jones til að ýkja sín hlutverk. Heimur persónunnar hrundi síðan í Batman & Robin sem var ofhlaðin ofurillmennum, en þar fór Arnold Schwarzenegger í broddi fylkingar sem Herra Frystir og Uma Thurman sem Eitraða Jurt.
Nú eru breyttir tímar. Í fyrsta sinn er Batman tekinn alvarlega, nú af leikstjóranum Christopher Nolan og handritshöfundunum David S. Goyer og bróður Christopher, Jonathan Nolan. Farið er djúpar í persónusköpun Batman en áður hefur verið gert í kvikmyndum. Rakin er sagan af morði foreldra Bruce Wayne (Christian Bale) og þeirri biturð sem hann upplifir sem barn, og þeirri hlýju sem þjónninn hans Alfred (Michael Caine) veitir honum þegar hann gengur honum í föður stað. Þegar Bruce Wayne mistekst að hefna foreldra sinna, þar sem annar aðili er fyrri til að drepa morðingja þeirra, leggur hann í leiðangur út í heim, fyrst og fremst til að hafa upp á illmennum sem hann vill taka reiði sína út á og síðar meir til að læra bardagalistir undir stjórn Ra's Al Ghul (Liam Neeson).
Dregin er upp biksvört mynd af Gothamborg, þar sem æskuást Bruce, Rachel Dawes (Katie Holmes) er orðin að saksóknara og í stöðugri lífshættu stöðu sinnar vegna, undan ofsóknum mafíósans Carmine Falcone (Tom Wilkinson) og Dr. Jonathan Crane (Cillian Murphy).
Þegar Bruce Wayne snýr aftur til Gotham eftir mörg ár í útlegð kemst hann að því að stjórnarformaður Wayne samsteypunnar (Rutger Hauer) ætlar að sölsa undir sig stjórnina og halda áfram framleiðslu á útrýmingarvopnum; sem er þvert gegn hugmyndum Wayne fjölskyldunnar um mannúðarstörf fyrirtækisins. Wayne finnur einstaklinga sem tilbúnir eru til að leggja honum lið í baráttu sinni gegn glæpum sem Batman. Helstir þeirra eru lögreglufulltrúinn Jim Gordon (Gary Oldman) og uppfinningamaðurinn Lucius Fox (Morgan Freeman).
Allir þessir klassaleikarar taka hlutverk sín alvarlega og standa sig gríðarlega vel. Þeir ýkja ekki hlutverk sín eins og fyrri Batman leikarar; og það er einmitt lykillinn að velgengni Batman Begins. Manni stendur ekki á sama um þessar persónur og samskipti þeirra og í ljós kemur að heilmikið býr þeim að baki og samband þeirra reynist margbrotið og spennandi.
Hasarinn er aukaatriði. Spennandi persónur og góð samtöl er helsti styrkleiki Batman Begins. Samt er hasarinn vel útfærður þegar að honum kemur, og er hann hæfilega í takt við söguna.
Ég bíð spenntur eftir framhaldinu sem kemur út 2008, The Dark Knight, sem verður leikstýrt og skrifuð af sömu einstaklingum og gerðu Batman Begins. Leikarahópurinn verður ekkert síðri, en meðal leikara í framhaldinu verða Heath Ledger, Maggie Gyllenhaal (sem tekur við Katie Holmes í hlutverki lögfræðingsins Rachel Dawes), William Fichtner sem hefur verið að gera góða hluti sem spilltur FBI rannsóknarmaður í Prison Break, Anthony Michael Hall, Aaron Eckhart og Eric Roberts.
10 bestu ofurhetjumyndirnar:
1. sæti: Batman Begins (2005)
2. sæti: The Incredibles (2004)
3. sæti: Spider-man (1999-2003)
4. sæti: The Matrix (1999-2003)
6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)
Kvikmyndir | Breytt 2.11.2007 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Kvikmyndahugur, nýr vefur um kvikmyndir
28.10.2007 | 15:28
Hefurðu einhvern tíma rölt út á vídeóleigu án þess að hafa hugmynd um hvað þig langar til að horfa á? Hvað ef þú gætir kíkt á vefinn og fundið meðmæli um kvikmyndir úr öllum flokkum kvikmynda. Ef þig langar til dæmis að sjá skemmtilega grínmynd skrifarðu orðið 'grínmynd' í leitarvél og færð lista af misjafnlega góðum grínmyndum, sem er reynar búið að gagnrýna og gefa einkunn. Eftir stutta leit á vefnum geturðu svo labbað út í vídeóleigu með góðar hugmyndir í kollinum og tryggt þér góða skemmtun.
Einnig geturðu leitað að dómum um mynd sem þig langar að sjá. Til að byrja með er gagnagrunnurinn frekar rýr, en smám saman mun safnast saman góður og áreiðanlegur gagnagrunnur um bíómyndir.
Um daginn ákvað ég að taka til hendinni og safna saman þeirri kvikmyndagagnrýni sem ég hef á síðustu misserum og setja á vefinn, og í leiðinni henda upp kerfi sem getur haldið utan um nýja gagnrýni. Einnig geta þeir sem það vilja skráð sig á vefinn og sent inn eigin gagnrýni og athugasemdir.
Nýjasta gagnrýnin fjallar um Mýrina en hana skrifaði notandi sem kallar sig "dur". Gestir geta gefið myndum stjörnur og gert sýnar uppáhalds kvikmyndir þannig sýnilegri.
Kíktu endilega í heimsókn og fáðu þér kaffi.
Varúð! Hörmuleg mynd: BloodRayne (2005) 0
25.10.2007 | 20:38
Það sem fær mig til að skrifa þessa grein var auglýsing frá BT sem kom með póstinum í gær. Þar er BloodRayne auglýst til sölu á DVD fyrir kr. 2299,- (Gos og snakk fylgir).
Ég sá BloodRayne fyrir nokkrum mánuðum en skrifaði ekkert um hana þar sem hún virtist ekki vera til á íslenskum vídeóleigum né hafa komið í bíó.
Í gær skrifaði ég um mjög slaka mynd, The Seven Swords, sem var í leikstjórn Tsui Hark, reyndar var mér tjáð í athugasemdum að sú útgáfa sem ég sá hafi verið sundurklippt vitleysa unnin úr mun lengri sjónvarpsþáttum. Ég væri tilbúinn til að kíkja á sjónvarpsþættina ef eitthvað er til í þessu. En til samanburðar, þá er The Seven Swords snilldarverk við hliðina á BloodRayne, og ég er alls ekki að gefa í skyn að The Seven Swords hafi mikla kosti.
BloodRayne er ein af þessum myndum sem er svo léleg að það er ekki einu sinni fyndið. Ef þú tækir með þér hóp af félögum til að gera grín að því hversu léleg þessi mynd er væri kvöldið ónýtt, þar sem vonlaust er að halda sér vakandi yfir þessum leiðindum.
Rayne er vampíra sem hatar allar aðrar vampírur og setur sér það mark í lífinu og drepa vampíruna sem nauðgaði og át síðan móður hennar þegar hún var lítil stúlka, en það vill þannig til að vonda vampíran er pabbi hennar. En þessi aðal og vonda vampíra er leikin af engum öðrum en sjálfum Ben Kingsley, sem hefur aldrei verið jafn lélegur og í þessari mynd.
Aðrir ágætis leikarar taka þátt í hörmungunum og standa sig allir jafn hörmulega. Þarna eru Michael Madsen, Meat Loaf, Billy Zane og Michelle Rodriguez; en þau virðast því miður öll vera uppdópuð og rugluð í þessu samsulli sem snýst ekki um neitt annað en dráp, hefnd og ofbeldi; þar sem mannslíf er einskis virði í huga nokkurs, ekki einu sinni leikstjórans.
En aðeins um leikstjórann, Uwe Boll. Hann hefur fengið það orð á sig að vera versti núlifandi leikstjórinn. Hann er arftaki Ed Wood. Ed Wood er þekktur fyrir að hafa gert Plan 69 from Outer Space, sem nær á neðsta sæti fjölmargra lista yfir lélegustu kvikmynd sem gerð hefur verið og gefin út.
Uwe Boll virðist ekki bera neitt skynbragð á eigin smekkleysi, sem útskýrir kannski hversu smekklausar og lélegar myndirnar hans eru að einhverju leyti. En getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig hann fer að því að fá öll þessu þekktu nöfn í leikhópinn? Ég trúi því ekki að hann geti borgað þeim sæmileg laun. Ég einfaldlega trúi ekki að það sé markaður fyrir þessar hörmungar sem hann hefur leikstýrt.
Til að styðja mál mitt get ég bent á að BloodRayne fékk 2.6 af 10 í einkunn á IMDB.com. Einnig fékk hún sex tilnefningar, öll á Bláu hindberjahátíðinni árið 2005, sem ég tel hér með upp:
- Versta leikkona - Kristanna Loken
- Versti leikstjóri - Uwe Boll
- Versta kvikmynd
- Versta handrit
- Versti leikari í aukahlutverki - Ben Kingsley
- Versta leikkona í aukahlutverki - Michelle Rodriguez
Til gamans langar mig að telja upp þær kvikmyndir sem Uwe Boll hefur leikstýrt og birta einkunnir þeirra af IMDB.com, þannig að nú lesandi góður, lærir þú eitthvað um það hvernig hægt er að forðast lélegar bíómyndir - athugaðu hver leikstjórinn er og leitaðu að umsögnum um aðrar myndir eftir hann.
Ég hef séð aðra mynd eftir Uwe Boll, sem gerð er eftir einum af mínum eftirlætis tölvuleikjum, Alone in the Dark, en hún er álíka slæm og BloodRayne. Uwe Boll hefur sýnt og sannað að það þarf ekki listamannsauga til að meika það í bíóheiminum. Hann nær einfaldlega að semja um not á nöfnum tölvuleikja sem hafa verið vinsælir, og getur þannig tryggt sér sölu á myndinni. Hann græðir alltaf, sama hversu lélegar myndirnar eru.
Hæsta mögulega einkunn er 10. Lægsta mögulega einkunn er 1.
- German Fried Movie (1991) - 1.3
- Barschel - Mord in Genf? (1993) - 1.4
- Amoklauf (1994) - 1.6
- Das Erste Semester (1997) - 2.0
- Sanctimony (2000) - 3.0
- Blackwoods (2002) - 2.6
- Heart of America (2003) - 4.5
- House of the Dead (2003) - 2.0
- Alone in the Dark (2005) - 2.2
- BloodRayne (2005) - 2.6
- In the Name of the King: A Dungeon Siege Tale (2007) - 3.8
- Seed (2007) - 2.5
- Postal (2007) - 4.4
- BloodRayne II: Deliverance (2007) - 4.1
Kvikmyndir | Breytt 26.10.2007 kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Chat Gim (The Seven Swords) (2005) *
25.10.2007 | 00:57
Chat Gim er misheppnuð bardagamynd, þrátt fyrir góð bardagaatriði.
Keisarinn hefur gefið fyrirskipan um að sérhver dauður bardagalistamaður sé 300 silfurpeninga virði. Herskár hópur um héröð og slátrar heilu þorpunum til að græða sem mest, sama hvort að viðkomandi kunni eitthvað fyrir sér í bardagalistum eða ekki. Það er nefnilega ekkert auðvelt að skilgreina hver er bardagamaður og hver er það ekki.
Nú vantar hetjur til að stoppa illmennin. Til eru sjö sverð sem gera þá sem þau munda nánast að ofurhetjum. Kynntar eru til sögunnar sjö manneskjur, en þó það illa að maður veit aldrei hver er hver né hvaðan þær koma, þrátt fyrir og hugsanlega vegna endalausra endurleiftra úr fortíð þeirra.
Persónurnar eru svo slitróttar að þær eru ekki einu sinni flatar. Flatt er slæmt. Þetta er stigi verra.
Leikstjórinn, Tsui Hark, sem oft hefur gert spennandi og vel gerðar myndir missir hér algjörlega marks. Hann er svo upptekinn við að hræra í grautnum að hann áttar sig aldrei á því að hráefnin eru ónýt. Hann hefur tekið að sér verkefni sem hann ræður engan veginn við, en hann hefur tekið þátt í að gera snilldarmynd eins og The Killer og A Better Tomorrow, ásamt John Woo, auk þess að hann gerði Time and Tide, Black Mask og sitthvað fleira sem má hafa gaman af. Reyndar eru myndirnar hans alltaf fallegar á að horfa, enda sérlega litríkar.
Chat Gim er tvær og hálf klukkustund að lengd, en manni finnst hún vera fimm.
Nú er búið að vara þig við.
Sýnishorn á kínversku:
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
The Exorcism of Emily Rose (2005) ***1/2
23.10.2007 | 22:09
Kaþólskur prestur (Tom Wilkinson) er ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Ákærandinn telur hann hafa drepið unga stúlku þegar hann reyndi að særa úr henni illan anda, en læknar höfðu gefist upp á að finna leiðir gegn kvillum hennar, og því var leitað til prests.
Verjandi hans er trúlaus lögfræðingur (Laura Linney) sem hefur áhuga á fáu öðru en eigin frama. Við rannsókn málsins fara dularfullir hlutir að gerast sem vekja hana til umhugsunar um eigin trúleysi.
Í málsvörn prestsins er fjallað um heim þar sem púkar, englar, Guð, píslarganga og andsetning eru raunverulegir hlutir; en þessi hugmyndaheimur tekst á við veruleika réttarins sem fjallar um sannleika, trú, sannfæringu, persónulegar og faglegar ákvarðanir.
Það er spennandi að fylgjast með hvernig þessir tveir heimar takast á í leit að sameiginlegum umræðugrundvelli. Var stúlkan í raun og veru andsetin, eða er presturinn bara einhver klikkaður gaur sem drap stúlkuna við að framkvæma vafasamar særingar? Getur verið að presturinn hafi bjargað sál stúlkunnar með því að losa hana undan þrælkun líkamans? Hvort er meira virði, sál eða líkami? Eru sál og líkami kannski eitt og hið sama?
Til að auka við spennuna verður ekki aðeins presturinn, heldur lögfræðingurinn skotmark þessa illa anda, hvort sem hann er raunverulegur eða sálrænt fyrirbæri.
Laura Linney og Tom Wilkinson leika sín hlutverk sérlega vel. Myndinni er leikstýrt af Scott Derrickson. Þetta er önnur mynd hans í fullri lengd. Sú fyrsta hét Hellraiser: Inferno, og fékk frekar slaka dóma. En næsta mynd hans mun líklega ákvarða feril hans, en hún verður jólamynd árið 2008 með Keanu Reeves í aðalhlutverki, en það er endurgerð hinnar klassísku The Day the Earth Stood Still.
The Exorcism of Emily Rose er alls ekki fyrir börn og viðkvæmar sálir.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Curious George (2006) ***1/2
20.10.2007 | 22:33
Smelltu hér til að sjá sýnishorn úr Curious George
Í frumskógum Afríku býr api sem hefur gaman af listum og skemmtilegum uppátækjum. Hann þráir ekkert meira en að hafa leikfélaga og vin.
Einhvers staðar hinumegin við hafið starfar Ted (Will Ferrell) sem leiðsögumaður á safni sem er við það að fara á hausinn, enda eru fyrirlestrar hans með eindæmum þurrir og leiðinlegir. Honum tekst að snúa áhugaverðum staðreyndum um sögu mannkyns í augnablik þar sem þolinmæði er við það að bresta hjá áhorfendum, öllum nema Maggie (Drew Barrymore), kennara sem kemur í hverri viku með bekkinn sinn að heimsækja safnið, en sjálf hefur hún meiri áhuga á Ted heldur en því sem hann hefur að segja.
Safninu er ógnað af nútímanum. Gestir hafa ekki gaman af því að heimsækja það, þar sem allt er ósnertanlegt og þeim sífellt fjarlægara. Herra Bloomsberry (Dick Van Dyke) stofnandi og eigandi safnsins vill allt gera til að halda því við, en hann er orðinn of gamall fyrir ævintýraferðir og leiðangra, og þar að auki hefur sonur hans (David Cross) áhuga á að leggja safnið niður og byggja bílastæði í staðinn, þar sem það er arðvænlegra.
Málin æxlast þannig að Ted er sendur til Afríku þar sem þessi litli og frumlegi api finnur og tekur ástfóstri við hann. Það er ekki alveg gagnkvæmt, en eftir að Ted hefur fundið minjagrip til að fara með heim, eltir apinn hann í stórborgina og alla leið heim í íbúð.Nú taka við fjölmörg ævintýri þar sem Ted lærir ýmislegt af apanum, sem hann ákveður að nefna George, eftir George Washinton.
Umfjöllunarefni myndarinnar er mjög áhugavert, en það snýr helst að vandamálinu sem felst í ófrumlegum og formbundnum kennsluháttum, - þar sem upplýsingum er mokað upp í nemendur án þess að þeir hafi nokkuð að gera sjálfir, og þeim í raun bannað að nálgast viðfangsefnið þar sem því verður að vera haldið við; og á móti þessu kemur prógressíva aðferðafræðin, þar sem börn eru hvött til að prófa sig áfram, gera hlutina og átta sig á frá eigin sjónarhorni á því hvernig heimurinn er. Þegar börn eru leidd um heim þekkingar þurfa þau að fá eitthvað til að leika sér með, eitthvað til að snerta.
Hver einasti rammi er gullfallegur og teiknimyndagerðin í hæsta gæðaflokki. Sagan er góð og persónur lifandi og skemmtilegar. Börnin mín höfðu mjög gaman að Curious George, sem er algjörlega án ofbeldis og virkilega frumleg á marga vegu. Ég hafði líka mjög gaman að henni.
Curious George er stjórgóð mynd fyrir alla fjölskylduna.
Heimildir og myndir:
http://imdb.com
Yahoo! Movies
IMP Awards
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
19.10.2007 | 19:20
Áðan skrapp ég í Bónus við Smáralind. Það var mikil örtröð á bílastæðinu. Fólk þurfti lífsnauðsynlega að berja sér leið inn í Toys'R'Us enda sjálfsagt fullt af merkilegum vörum þar í hillum sem þurfa að komast upp í hillur heima.
Inni í Bónus hjó ég sérstaklega eftir því að ég heyrði ekki eina einustu manneskju tala íslensku, en samt var búðin troðfull. Þegar ég kom að kassanum spurði ég afgreiðslustúlkuna hvort hún ætti rafhlöður. Hún hristi höfuðið og yppti öxlum og sagði með sterkum austur-evrópskum framburði,
"I don't speak."
Ég benti á rafhlöðu í rakvélapakka og spurði á ensku. Hún hristi höfuðið, til merkis um að þær væru ekki til, held ég.
Þegar út kom streymdi fólk inn og út úr Toys'R'Us og ég vissi ekki alveg hvernig mér átti að líða. Ég hef ferðast mikið um heiminn, en alltaf haft á tilfinningunni að hvar sem ég kom, þá væri ég staddur í viðkomandi landi. En núna þegar ég skrepp út í búð á Íslandi finnst mér ég ekki vera staddur á Íslandi. Í dag, öðrum dögum fremur, finnst mér heimurinn vera að breytast.
Mér verður hugsað til bernskuáranna þegar frændi minn var kaupmaður á horninu í miðbænum, og þegar ég þekkti afgreiðslufólkið í KRON með nafni og þau mig. Það þótti jafnvel merkilegt að einn í bekknum var ættaður að einhverju leyti frá Bandaríkjunum og annar danskur í aðra ættina. Við höfum aðeins þroskast síðan þá. Það er sjálfsagt stutt í það að íslenskan deyr dauða sínum og við verðum enskumælandi þjóð.
Best að ljúka þessum pistli á ljóði eftir Jónas Hallgrímsson sem spratt fram í huga minn þegar ég horfði á risastórt Toys'R'Us skiltið fyrir utan Bónus í Smáralind.
ÍSLAND
Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir, sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu,
austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héröð, og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginnn heim.
Það er svo bágt að standa' í stað, og mönnunum munar
annaðhvurt aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur, og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvurt ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Bóndinn sem seldi nautgripina - dæmisaga um framtíðarblindu
9.10.2007 | 22:42
Fyrir tveimur áratugum áraði illa. Fimm bændur ákváðu að kaupa sér eina belju og eiga hana saman. Einhvers staðar varð kýrin að vera, því ein kú á fimm bæjum gæfi varla af sér mikla mjólk. Bændurnir ræddu í þaula um hver skyldi geyma skepnuna. Einn þeirra hafði engan áhuga á því, þannig að fjórir voru eftir í hópnum. Þeir skeggræddu um hver hefði bestu aðstöðuna og hver væri ábyrgastur og hvernig farið yrði að skiptingu mjólkurinnar. Varð ofan á að Vilhjálmur bóndi var kosinn til að gæta kýrinnar.
Liðu nú árin. Bændurnir fengu áætlaðan mjólkurskammt þegar kýrin gaf meira af sér en ætlast var til, en minna annars. Vilhjálmur bóndi fékk samþykki um að kýrin fengi tudda í heimsókn. Ólust undan henni fínir kálfar sem urðu síðar mestu graðtuddar landsins og hinar bestu mjólkurkýr.
Vilhjálmur bóndi græddi mjög á þessari æxlun mála og gaf hinum bændunum fjórum ávextina með sér. Liðu nú árin og bændurnir urðu sælir og feitir höfðingjar. Kom að því að synir þeirra og dætur tóku við bústörfum. Vilhjálmur yngri tók við búskapnum af föður sínum og voru allir sáttir við það, þar til ári eftir yfirtökuna tilkynnti hann að selja skyldi allan búfénaðinn vinum hans sem voru tilbúnir að borga vel fyrir og höfðu skýrar hugmyndir um hvernig hægt væri að láta búið vaxa enn frekar.
Börn hinna bændanna mótmæltu harðlega, en allt kom fyrir ekki. Vilhjálmur yngri hafði yfirráð um meðferð á skepnunum og stóð hart á sinni ákvörðun. Hann seldi dýrin og dreifði peningunum til hinna bændanna, en fékk loforð um greiða hjá vinum sínum þegar áætlun þeirra hefði gengið eftir.
Kaupendurnir voru fljótir að selja búfénaðinn til bandarísks auðkýfings sem hafði óskað sérstaklega eftir þeim á E-bay, hann vildi kaupa þessar frábæru kýr og þessi eðal-naut. Hann ætlaði reyndar ekki að nota dýrin til ræktunar, heldur vildi hann efna til dýrindis veislu þar sem höfðingjum héðan og þaðan úr heiminum yrði boðið, og aðeins væri boðið upp á besta nautakjötið. Sérfræðingar hans höfðu reiknað út að skepnur Vilhjálms væru þær bestu í heiminum.
"En fáum við ekki að halda einni kýr?" spurði 10 ára sonur eins bóndans á bloggsíðu sinni. "Eigum við að lifa á peningunum einum saman? Hvað ef við verðum svöng? Hvað ef okkur vantar mjólk?"
"Ekki hafa áhyggjur af því," svaraði Vilhjálmur yngri með SMS fjölsendingu og án frekari útskýringa.
Bloggar | Breytt 19.10.2007 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10 bestu ofurhetjumyndirnar: 2. sæti: The Incredibles (2004)
1.10.2007 | 21:15
Ótrúlega fjölskyldan innheldur fimm meðlimi, fjölskylduföðurinn, Herra Ótrúlegan (Craig T. Nelson) sem hefur ofurkrafta, móðurina, Teygjustúlku (Holly Hunter) sem getur teygt líkama sinn nánast óendanlega langt, og svo börnin Fjólu (getur gert sig ósýnilega og búið til skjöld utan um sig og sína), Skot (getur hlaupið ótrúlega hratt) og Jóa Jóa (getur skipt um ham).
Vegna skaðabótamála og óvinsælda hefur ofurhetjum verið bannað að klæðast ofurhetjubúningum og lifa nú hversdagslegu lífi. Herra Ótrúlegur starfar í tryggingabransanum sem ráðgjafi sem ekki má gefa góð ráð, því að þá tapar fyrirtækið. Hann tollir hvergi í starfi því hann hefur hugarfar hetjunnar sem lætur sér annt um þá sem veikir eru fyrir. Það gengur ekki í samfélagi þar sem vinnuferlar og ósnertanleg fagmennska skipta öllu máli.
Þegar ofurhetjur taka upp á því að hverfa er ljóst að ekki er allt með felldu. Ofurskúrkurinn Sjúkdómseinkenni (Jason Lee) hefur tekið upp á því að tæla til sín ofurhetjur og drepa þær með fullkomnum vélmennum sem hann hefur hannað. Herra Ótrúlegur gengur í gildruna, en tekst að sigrast á vélmenninu sem ætlað er að drepa hann. Þegar verkefninu lýkur er honum boðið í kvöldverð og starf; að berjast við svona vélmenni. Það sem hann veit ekki er að vélmennin safna upplýsingum um hann þannig að næsta útgáfa verður sífellt líklegri til að sigrast á honum.
Kemur að því að hann ræður ekki við ofurskúrkinn, sem fangar hann og gefur skúrksræðuna sem er svo ómissandi í James Bond bíómyndum. Teygjustúlkan kemst að því að eiginmaður hennar er í vanda staddur og fer í björgunarleiðangur, Skot og Fjóla smygla sér með. Flugvél þeirra er skotin niður, en þau komast lífs að og halda ótrauð í átt að eyjunni þar sem fjölskylduföðurnum er haldið nauðugum.
Tæknibrellur og þrívíddargrafíkin er með því besta sem sést hefur á tjaldinu. Persónurnar eru hver annarri betri, samtölin smellpassa og hasaratriðin koma adrenalíninu í gang; sérstaklega þar sem Skot hleypur undan fleygum illmennum á einhvers konar þyrlum.
Leikstjóra The Incredibles, Brad Bird, tekst það sem fáum teiknimyndaleikstjórum hefur tekist síðustu árin, fyrir utan japanska snillinginn, Hayao Miyazaki og Pixargúrúinn John Lasseter; hann gerir sína aðra mynd að meistaraverki, og sem er ekkert síðri en hans fyrsta mynd, The Iron Giant (1999). Einnig sló hann aftur í gegn með Ratatouille (2007). Brad Bird er nafn sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.
Hvernig get ég varið það að næstbesta ofurhetjumyndin að mínu mati skuli vera teiknimynd? Ég ver það ekki, kíktu bara á þessa mynd, helst með pottþéttri upplausn, pottþéttu hljóði og á stórum skjá - og þú sérð ekki eftir þessum 115 mínútum.
Þýðingar á ofurhetjunöfnum:
Mr. Incredible = Herra Ótrúlegur
Elastigirl = Teygjustúlka
Violet = Fjóla
Dash = Skot
Jack Jack = Jói Jói
Syndrome = Sjúkdómseinkenni
10 bestu ofurhetjumyndirnar:
2. sæti: The Incredibles (2004)
3. sæti: Spider-man (1999-2003)
4. sæti: The Matrix (1999-2003)
6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)