Færsluflokkur: Kvikmyndir
Food, Inc. (2008) ****
25.1.2010 | 18:42
Ef við erum það sem við étum, þá erum við í djúpum skít.
Heimildarmyndin Food, Inc. virðist í upphafi ætla að vera einhvers konar einfalt skólaverkefni, þar sem krakkar gætu hugsanlega valið einhverja vöru úti í búð, og síðan rakið uppruna þeirra. Samkvæmt myndinni er afar ólíklegt að börnin kæmust að sannleika málsins.
Ýmsar áhugaverðar hugmyndir birtust, og sérstaklega frá bónda nokkrum sem hélt því fram að það væri ekki bara óheilbrigt, heldur óheiðarlegt að framleiða mat eins og risafyrirtækin gera í dag. Hann hélt því fram að í dag snerist allt um vinnubrögð, ferla og árangur, allt um spurninguna hvernig hlutirnir eru gerðir, en fáir nenntu að velta fyrir sér af hverju. Ég hef til dæmis ekki velt því alvarlega fyrir mér hvort að kjötið sem ég borða sé ræktað á heilbrigðan hátt, eða það úttroðið af maís á meðan það lifir stuttu offitulífi, en eftir að hafa séð þessa mynd er ég líklegri til að velta fyrir mér því sem ég kaupi úti í búð, og enn líklegri til að forðast skyndibitastaði.
Ástæðan er einföld. Dýr eru víðs vegar alin upp í verksmiðjum, þau troðin út af mat sem þau hefðu aldrei látið í sig úti í guðsgrænni náttúrunni, og fyrir vikið truflast melting þeirra og kjötið verður að einhverju leyti úrkynjað. Þegar grasætur eru látnar éta maís allt sitt líf, er ekki von á góðu. Einnig eru aðstæður við ræktunina hörmulegar, en sagt er í myndinni frá ræktunarverksmiðjum þar sem dýrin troða nánast marvaða í eigin saur, síðan eru dýrin slátruð, þar á eftir hreinsuð og síðan hökkuð.
Sýnt var frá risaverksmiðjum þar sem svínum og kjúklingum er slátrað í massavís, þannig að það minnir helst á lýsingar frá Auswitch í seinni heimstyrjöldinni. Það er magnað hvað þegar er búið að úrkynja dýrin sem við borðum. Það er vonlaust að átta sig á hvort að dýrin hafi verið ræktuð á heilbrigðan hátt, eða hvort genum þeirra hafi verið breytt, eða hvort þau séu klónuð. Og ekki er fyrirséð um afleiðingar þess að borða úrkynjuð dýr. Maður er víst það sem maður étur, ekki satt?
Það er ekki bara hollt að horfa á þessa mynd, hún er líka áhugaverð og hefur þannig skemmtigildi að áhorfanda hlýtur að koma á óvart það sem fyrir augu ber.
Hafir þú aldrei velt fyrir þér af hverju matur er framleiddur á færibandi og hvort að það sé hollt og hverjar afleiðingarnar gætu verið, þá verðurðu að sjá þessa mynd. Hafirðu þegar áttað þig á þessu fyrirbæri, þá mæli ég með að þú mælir með þessari mynd.
Það er ekki þannig orðað í myndinni, en þú getur í raun dregið þá ályktun, að þegar þú kaupir þér hamborgara á skyndibitastað, þá sértu að kaupa blöndu af kjöti, beinum, blóði og skít.
Spurning hvort ég fari ekki að ráði dóttur minnar og gerist grænmetisæta, eða í það minnsta passa mig betur á matnum sem ég kaupi ofan í mig, að maður sé ekki að setja ofan í sig mat sem einungis fylgir stífum stöðlum sem hafa ekkert með heilindi að gera, heldur afköst. Að þetta sé allt sama tóbakið og að allir éti það.
Einnig þótti mér merkileg umfjöllunin um Soja-baunarækt í Bandaríkjunum. En flestar baunir hafa verið erfðaræktaðar og búið að eigna fyrirtæki þær með höfundarrétt. Ef Soja-baunir með þessu erfðaefni finnast á bæjum sem rækta baunir, og bændur borga ekki "stef-gjald" til eigendanna, þá fer þetta risafyrirtæki í mál við bændur, sem geta ekki varið sig vegna þess hversu dýrt er að verjast í slíkum málum.
Þannig virðast stórfyrirtæki vera farin að ryðjast yfir litla manninn, mannréttindi og það sem þeim sýnist, án þess að bera nokkra virðingu fyrir þeim sem standa í vegi þeirra. Það er þessi hugsunarháttur sem olli Hruninu á Íslandi, og hann er að festa rætur enn á ný á meðan ráðþrota ríkisstjórn reynir að bregðast við, en áttar sig ekki á að innan hennar eigin raða er fólk sem vill innleiða þennan skort á hugsunarhætti, því að ákveðinn hópur mun öðlast forréttindi gagnvart þeim sem minna mega sín.
Það er eins og þeir sem eiga gífurlega mikið af peningum, eignist með því réttarkerfið, fjármálakerfið, stjórnmálin og landið. Sjálfsagt heiminn líka. Og troða mat sínum í heimskan almúgann: mig og alla hina.
Ef þessi mynd gerir mig pirraðan með því að fjalla um mín eigin nánu samskipti við matinn sem ég læt ofan í mig, og tengist íslenska efnahagshruninu á skýran hátt, þá ættirðu að hafa nokkuð skýra grein um hvort þig langi til að sjá þessa mynd.
Þessi kvikmynd hefur breytt viðhorfum mínum til eigin matarræðis. Ef heimildarmynd nær það sterkt til manns og sannfærir mann svo algjörlega um að eitthvað alvarlegt sé að í heiminum, og ef maður samþykkir rökin og mótar þannig skoðun sem maður var ekki meðvitaður um áður en horft var á myndina, þá er nokkuð ljóst að viðkomandi kvikmynd fær fullt hús fyrir.
Kannski ekki fimm stjörnur eins og "Avatar". Fjórar stjörnur duga.
The Imaginarium of Doctor Parnassus (2009) ***1/2
20.1.2010 | 19:30
Terry Gilliam er einn af eftirlætis leikstjórum mínum. Hann gerir oft frekar skrítnar myndir þar sem skilin á milli veruleika og ímyndunar eru afar óljós. Ég held að lykillinn að flestum myndum hans felist í að hann gerir þær út frá sjónarhorni ákveðnar persónu í myndinni, og lætur sér ekki nægja skynjun hennar og orðræðu, heldur verða hugarórar og ímyndun óaðskiljanlegur hluti af heildarmyndinni.
Þannig fjallaði "The Fischer King" um mann með geðklofa, og við sáum það sem hann óttaðist og kynntumst af hverju hann óttaðist það. "12 Monkeys" fjallar um mann sem sér sjálfan sig myrtan í annarri persónu, en annað hvort hefur sú persóna sem var myrt verið hann sjálfur í tímaflakki úr fortíðinni, eða þá að hann hefur verið að ímynda sér þetta allt saman. "Monty Python and the Holy Grail" fjallar um leitina að hinum heilaga kaleik, en allar persónur virðast meðvitaðar um að þær eru leikskoppar í gamanmynd. "The Brother Grimms" fjallar svo um ævintýri Grimms bræðranna sjálfra, en ekki sögur þeirra.
Maður hlýtur að minnast á Heath Ledger, en þetta var síðasta kvikmyndin sem hann lék í áður en hann dó. Hann vann Óskarinn í fyrra fyrir hlutverk sitt sem Jókerinn í "The Dark Knight", en hér er hann varla svipur hjá sjón. Persóna hans er ekkert sérstaklega eftirminnileg í hans meðferð, og það er ekki fyrr en Colin Farrell tekur við honum að eitthvað fútt má finna í honum. Bestur allra er Christopher Plummer í titilhlutverkinu, en hann sýnir afar góða takta sem hinn ólánsami öldungur sem lifir við þá furðulegu bölvun að hafa atvinnu af leiksýningum, en geta aldrei klárað neina sögu.
Þar kemur túlkun mín til sögunnar. Það má líta á hana sem spillitexta, þannig að ef þú ætlar að sjá myndina, slepptu því að lesa það sem eftir er gagnrýninnar þar til þú hefur séð myndina.
Túlkunin:
Ég vil túlka "The Imaginarium of Doctor Parnassus" sem draum heimilislauss manns (Christopher Plummer) sem þráir að eiga sér sögu og vera merkilegri en hann er, en þessi draumur hjálpar honum að sættast við sjálfan sig. Í draumnum er Dr. Parnassus yfir þúsund ára gamall, enda gerði hann fyrir löngu síðan samning við djöfulinn. Hann endurnýjaði samninginn fyrir nokkrum árum, þar sem hann bað um að skipta á eilífu lífi og æsku. Skrattinn fellst á samninginn en laun hans verða að fá dóttur Dr. Parnassus á 16. afmælisdegi hennar. Dr. Parnassus fellst á þetta, enda átti hann enga dóttur og hafði ekki hugsað sér að eignast eina. Hann hafði rangt fyrir sér.
Þegar hér er komið sögu í þessum draumi, er Valentina dóttir hans (Lily Cole) þremur dögum frá afmæli sínu. Skrattinn (Tom Waits) virðist sjá aumur á doktornum og gefur honum séns, ef honum tekst að koma fimm sálum til helvítis á þremur dögum, með því að tæla fimm illar manneskjur inn í töfraspegil, þá fær dóttir hans að sleppa undan örlögum sínum.
Á leið um London finnur leikhópur Dr. Parnassus mann sem hangir á hálsinum undir brú, en leikhópurinn samanstendur af fjórum einstaklingum, Parnassus sjálfum, Valentina, hinum unga Anton (Andrew Garfield), og smávaxna Percy (Verne Troyer), sem einnig er helsti vinur og ráðgjafi Dr. Parnassus. Þessi maður er auðmaðurinn Tony (Heath Ledger) sem frægur hefur orðið fyrir góðgerðarstarfsemi, en hann virðist vera minnislaus og ákveður að hefja nýtt líf með leikhópnum.
Hann tekur virkan þátt í að laða áhorfendur að sýningunni sem hefur verið í gangi síðustu þúsund árin eða svo, næstum óbreytt, og poppar hana svolítið upp. Tony slysast til að nota spegilinn nokkrum sinnum, og í hvert sinn sem hann fer inn í hann, breytist hann í útliti. Sundum lítur hann út eins og Johnny Depp, stundum eins og Jude Law, og stundum eins og Colin Farrell, en sá síðastnefndi fer vel með stærsta hlutverkið í heiminum innan spegilsins.
Þessi spegill er merkilegt fyrirbæri. Þegar einhver fer inn í hann, þá hverfur viðkomandi inn í heim ímyndunar sem er bæði ímyndun Dr. Parnassus og þeirrar manneskju sem fer inn í hann. Fari fleiri en ein manneskja inn í spegilinn er ómögulegt að segja til um hvaða ímyndaði heimur verður ofan á. Þessi ímyndaði heimur er að miklu leyti dreginn í anda meistara Salvador Dali, nema hvað hann er stöðugt á hreyfingu.
"The Imaginarium of Doctor Parnassus" krefst þess að áhorfandi fari á hana með opnum hug. Hún er ekki eitthvað sem rennur ljúft í gegn eins og "Avatar", heldur er hún full af hugmyndum og gagnrýni um hluti sem eru ekki allir þar sem þeir sýnast.
Myndir: Wikipedia
Af hverju slær íslenska ríkið vopnin úr eigin höndum?
11.1.2010 | 21:43
Við verðum ekki vitur af því að minnast fortíðar okkar, heldur með ábyrgð gagnvart framtíð okkar.
- George Bernard Shaw:
Ólína Þorvarðardóttir og Björn Valur Gíslason sökuðu Evrópuþingmanninn Alain Lipietz um að misskilja lög Evrópusambandsins um ábyrgð um skyldur til endurgreiðsla úr tryggingarsjóði innlána. Lesið sjálf greinar þeirra með því að smella á nöfn þeirra og gerið upp hug ykkar sjálf. Væri ekki gáfulegra að leita fleiri ráða virtra ráðgjafa og Evrópuþingmanna áður en að gefa slíkar yfirlýsingar með hraði? Getur verið að ríkisstjórnin sé ekki að átta sig á umfangi málsins?
Hvor hefur rétt fyrir sér, sá sem tekur málstað Íslendinga, Alain Lipietz eða ríkisstjórnin, sem er afar fljót að gefa út yfirlýsingu gegn málstaði Íslendinga?
Ætlar þessi ríkisstjórn að endurtaka öll sömu mistökin og forverar þeirra? Eru þau föst í sömu hjólförum og vilja þau kannski bara sitja föst og láta skola sér í burtu með tíð og tíma? Málið er miklu stærra en íslensk lög segja til um, Hrun fjármálakerfis er afar sérstakt fyrirbæri og staðan í dag er afar viðkvæm.Yfirlýsingagleði gegn málstaði íslensku þjóðarinnar er ekki til bóta.
"Trúðu þeim sem leita sannleikans; efastu um þá sem þegar hafa fundið hann."
- Andre Gide
Það koma fram afar misvísandi upplýsingar um hvort að Íslendingar geti borgað þá skuld sem samþykkt á ICESAVE kallar yfir þjóðina, sem ég tel reyndar vera aukaatriði, því að geta og skal eru tvö afar aðskilin hugtök, og talað er um að endurgreiðslur muni taka frá 14 til 30 ár, við verstu hugsanlegu aðstæður. Þá er ljóst að verstu hugsanlegu aðstæður í huga þeirra sem meta þetta taka ekki með í reikninginn að fyrir 15 mánuðum síðan hrundi íslenskt fjármálakerfi, og slíkt getur auðveldlega gerst aftur á næstu 15 mánuðum, enda eru sífellt fleiri að flytja úr landi, sífellt fleiri að missa vinnuna, sífellt fleiri að missa heimili sín, enda standa spjót út úr skjaldborg heimilanna sem reka þennan venjulega Íslending beint í gegnum hjartað, á meðan snjóboltinn stækkar í brekkunni.
Þar að auki virka sjálfsagt fæst nákvæm hagfræðileg mælitæki á dag þar sem skortir á stöðugleika til að meta stöðuna vel, að hluta til vegna ráðstafana sem hafa verið gerðar til að ýta vandanum á undan sér, í stað þess að taka á honum strax.
Leitt að allt fólkið sem virkilega veit hvernig stjórna á þjóð er upptekið við að keyra leigubíla og klippa hár.
- George Burns
Ég vil taka það sérstaklega fram að ég hef endurskrifað þessa grein, og orðalagið í fyrsta uppkasti var uppfullt af einhvers konar heift sem réttlætiskennd mín kom í gang, en ég tamdi reiðina, hugsaði betur um það sem ég skrifaði, las aftur rök þeirra sem að málinu koma, og reyndi að temja þetta mál í hógvært málfar; en þess má geta að myndmálið í fyrsta uppkasti var afar ríkt, þar sem uppúr stóð skjaldborg með spjótum sem beint er að hjörtum íslenskra heimila. En reiðin hefur verið tamin, þannig að engar slíkar myndhverfingar birtast á þessari síðu í dag.
Hér er viðtalið við Alain Lipietz í Silfri Egils.
Hér hafnar Alain Lipietz ásökunum um misskilning.
Hér er fréttin af Eyjunni (smelltu á tengilinn til að sjá viðbrögð fólks) og fyrir neðan yfirlýsing forsætisráðuneytis:
Með aðild sinni að EES-samningnum gerðist Ísland hluti af innri markaði Evrópu. Samkvæmt tilskipunum ESB sem Ísland hefur tekið upp með lögum frá Alþingi gildir eftirfarandi:
· Banki sem er með höfuðstöðvar í EES ríki stofnar útibú í öðru EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkisins, þar sem höfðustöðvar (sic) bankans eru.
· Banki sem er með höfuðstöðvar í ríki utan EES stofnar útibú í EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs gistiríkisins, þar sem útibúið starfar.Ljóst er af þessu að þar sem Ísland er EES ríki féllu skyldur vegna trygginga á innlánum í útibúum íslenskra banka í öðrum EES ríkjum á íslenska tryggingasjóðinn. Þótt meginreglan sé einnig sú að eftirlit með því að fjármálastofnun geti greitt út innlán hvíli á heimaríki hefur af hálfu Íslands samt sem áður verið bent á að eftirlitsstofnanir gistiríkis séu ekki undanþegnar eftirlitsskyldum.
Samkvæmt tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi sem Ísland hefur tekið upp er það skylda sérhvers aðildarríkis EES að tryggja að á yfirráðasvæði þess sé komið á fót innlánatryggingakerfi, sem nái til fjármálastofnana með höfuðstöðvar í því ríki sem og útibúa þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin kveður skýrt á um að útibú í öðrum aðildarríkjum EES falli undir innlánatryggingakerfi heimaríkisins.
Íslensk stjórnvöld hafa á öllum stigum Icesave-málsins haldið því fram gagnvart Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu að um lagalega óvissu væri að ræða varðandi ábyrgð ríkissjóða við kerfishrun á lágmarkstryggingum innstæðueigenda. Jafnframt var strax í upphafi lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól, en öllum tilraunum til þessa hefur verið hafnað af öðrum samningsaðilum en það er meginregla í þjóðarétti að ríki geta ekki leyst úr ágreiningi sín á milli fyrir dómstólum nema allir aðilar samþykki. Þessi fyrirvari sem áréttaður er í 2. gr. l. nr. 1/2010 breytir þó engu um þá niðurstöðu að ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkis gildir um útibú banka innan EES þótt annað hafi verið fullyrt undanfarna daga.
Lipietz vísar gagnrýni á bug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
The Hangover (2009) ***1/2
11.1.2010 | 18:01
"The Hangover" virkar á mig sem frekar lúmsk snilld. Hún er oft fyndin og þá sérstaklega í meðförum senuþjófsins Zach Galifianakis sem frekar klikkaður en velviljaður vandræðagemlingur. Að sjálfsögðu er myndin skylduáhorf fyrir þá sem höfðu gaman af Skaupinu 2009, sem notaði nokkrar senur úr þessari mynd á vel heppnaðan hátt.
Sagan er einföld. Fjórir vinir fara til Las Vegas í steggjapartý, en þeir detta svo hrikalega í það að þeir vakna minnislausir og með hausverk daginn eftir. Aðal skipuleggjandi ferðarinnar, Phil Wenneck (Bradley Cooper) er kennari í barnaskóla sem ætlar svo sannarlega að sjá til þess að vinur hans fái eftirminnilega skemmtun, og leigir flottasta og dýrasta herbergið sem hægt er að fá í borginni, að sjálfsögðu með kreditkorti vinar síns, tannlæknisins Stu Price (Ed Helms) sem vaknar með horfna tönn og gjörbreyttar framtíðarhorfur. Alan Garner (Zach Galifianakis) er svo hinn léttgeggjaði svili, sem olli minnisleysi allra félaganna, að sjálfsögðu óvart.
Félagarnir vakna í hótelherbergi sem hefur verið lagt í rúst. Það er tígrisdýr inni á baði og svo virðist sem að rúmi hafi verið kastað út af svölum, að ógleymdu barni inni í fataskáp. Og vinur þeirra Doug (Justin Bartha) hefur horfið og þeir hafa ekki nema um sólarhring til að koma honum í brúðkaupsveisluna hans. Í leitinni að vini sínum komast þremenningarnir smám saman að því hvað gerðist þessa örlagaríku nótt, og hvernig þeim tókst að koma við á spítala, stela lögreglubíl, lenda í návígi við snarklikkaðan mafíósa og Mike Tyson og súludanskonu leikna af Heather Graham.
Prýðileg skemmtun.
Mynd: Wikipedia
Sherlock Holmes (2009) **
8.1.2010 | 18:02
Robert Downey Jr. er frábær "Sherlock Holmes", Jude Law frekar dapur Dr. Watson í frekar slakri leikstjórn Guy Ritchie, í handriti sem virðist hafa verið illilega misþyrmt eftir að hafa verið samþykkt til að létta tóninn í mynd sem hefði mátt vera myrk og svöl.
Hugsaðu þér:
Sherlock Holmes er vel túlkaður sem dópisti, ömurlegur fiðluleikari og kung-fu meistari, þar sem snilligáfa hans og ofvirk athyglisgáfa hans fær að njóta sín umfram mannleg samskipti.
Í nokkrum slagsmálaatriðum í upphafi kvikmyndar er skyggnst inn í huga Holmes, þar sem sýnt er hvernig hann reiknar út af nákvæmni hverja einustu hreyfingu sína og andstæðingsins, með eðlisfræði og sálfræði algjörlega á hreinu, áður en hann rotar andstæðinginn. Það hefði getað verið sniðugt að nota þetta í fleiri atriðum og láta hann hafa misreikna sig svolítið líka.
Því miður er handritið frekar klisjukennt, og minnir satt best að segja meira á Scooby Doo teiknimynd en Sherlock Holmes sögu, þar sem dularfullt illmenni að nafni Lord Blackwood (Mark Strong) ætlar að nota sér frímúrarareglu í Englandi til að ná auknum völdum. Hann þarf að komast í gegnum ýmsar þjáningar á leið sinni til valda: dúsa í fangelsi, láta hengja sig, deyja, rísa upp frá dauðum, allt þetta gamla góða.
Dularfullur og vel klæddur en enginn sérstakur herramaður ræður konuna sem Holmes elskar, Irene Adler (Rachel McAdams) til að fá honum verkefni. Þessu sambandi er ætlað að bæta smá kómedíu í myndina, og þar að auki er troðið í söguna að Dr. Watson (Jude Law) hefur trúlofast og hefur því engan sérstakan áhuga á að lenda í frekari ævintýrum með Holmes.
Það er hrein synd hvað Robert Downey Jr. er framúrskarandi góður í þessari mynd. Allt annað fölnar í samanburði. Stóru mistökin er að bæta léttleika í myndina sem passar einfaldlega alls ekki inn í sögu handritsins og skemmir frekar fyrir mynd sem hefði getað orðið góð, því Holmes er einfaldlega ódrepanlegasti karakter í heimi bókmenntanna, sem sannast á því að höfundur hans drap hann, en neyddist til að lífga hann við nokkrum árum síðar vegna áreitis aðdáenda.
Sjáðu þessa í sjónvarpi eða DVD. Langi þig í bíó, farðu frekar aftur á "Avatar".
Avatar (2009) *****
21.12.2009 | 07:04
"Avatar" ætti að fá 15 tilnefningar til Óskarsverðlauna og vinna þær allar. Hugsaðu "Lord of the Rings", "Star Wars", "Lord of the Rings," og svo aftur um "Star Wars". Bættu síðan við góðum skammti af "Terminator" og "Aliens" hasar, og síðan smá rómantík og stórfengleika í anda "Titanic". Þá kemstu kannski nálægt því að ímynda þér hvernig mynd "Avatar" er. Efast samt um það. Kíktu á sýnishornið neðst á þessari síðu til að sjá hversu flottar brellurnar eru í tvívídd, en þær ná ekki að grípa þá fegurð og dýpt sem þrívíddin gefur myndinni. Þú verður að sjá þessa í bíó.
Ég hef aldrei áður gefið kvikmynd fimm stjörnur hérna á blogginu, þó að vissulega séu til kvikmyndir sem jafnast á við "Avatar" í gæðum og hugmyndaauðgi.
Þetta er fyrsta kvikmynd James Cameron síðan "Titanic" sló algjörlega í gegn árið 1997. Reyndar hefur hann leikstýrt einhverjum sjónvarpsþáttum og heimildarmyndum sem fjallað hafa um neðansjávarrannsóknir hans, en hann hefur unnið þrekvirki í rannsóknum á dýpi hafsins og þeim furðuverum sem hrærast þar.
Ljóst er að þessi einstaka reynsla nýtist vel við gerð "Avatar" sem umfram allt fjallar um þá virðingu sem náttúran verðskuldar sem dularfull lífvera í sjálfri sér, og þann hroka mennskra afæta sem ógnar þessu jafnvægi til þess eins að sækja verðmæta steintegund.
Sam Worthington stimplar sig almennilega inn sem stórstjarna, en hann stal senunni eftirminnilega í sumar frá Christian Bale í "Terminator: Salvation" og er greinilega kominn á hörkuskrið. Tölvubrellurnar eru það flottasta sem sést hefur og gegna í hverju einasta atriði mikilvægi hlutverki í hinu stóra samhengi. Þar að auki er myndin í þrívídd sem virkar ekki þreytandi, heldur magnar upp reynsluna, þannig að maður finnur fyrir verulegum hæðum og getur auðveldlega misst jafnvægið þar sem maður telur sig öruggan í sæti sínu.
Gaman er að sjá Sigourney Weaver aftur í hlutverki sambærilegu við Ripley úr Alien seríunni, og einnig gaman að því hvernig þessi heimur passar fullkomlega í heim þeirra ágætu mynda, þar sem aðal illskan sprettur úr "Fyrirtækinu" sem ræður til starfa málaliða stjórnaða af hinum miskunnarlausa, vöðvastælta og helþrjóska hershöfðingja Miles Quaritch (Stephen Lang) og hvítflibbanum Parker Selfridge (Giovanni Ribisi), en þessir tveir berjast pólitísku stríði gegn vísindamanninn Grace Augustine (Sigourney Weaver) sem hefur meiri áhuga á að læra um heim plánetunnar og íbúa hennar, en að ryðja þeim miskunnarlaust úr vegi.
Jake Sully (Sam Worthington) kemur til sögunnar þegar tvíburabróðir hans er myrtur. Jake er lamaður fyrir neðan mitti og fyrrum hermaður, og lendir því í þeirri stöðu að taka hlutverk bróður síns, sem er að stjórna svipmynd (avatar) sem ræktuð hefur verið með samspili hans eigin gena og gena úr Na'vi, þeim verum sem eru ráðandi á plánetunni Pandora og lifa í sátt við náttúruna. En rétt eins og sumir íslenskir stjórnmálamenn og auðkýfingar vita, að sama er hvaðan gott kemur, á að ryðja þessum Na'vi kynþætti úr vegi til að ná valdi á náttúruauðlindum plánetunnar.
Jake Sully fer inn í þennan heim sem hálf mannvera og hálfur Na'vi, en hann stjórnar huga verunnar frá nokkurs konar líkkistu þar sem hann tengist ræktaða risanum með einhvers konar þráðlausu neti. Jake er rétt lentur á plánetunni þegar risavaxin dýr reyna að drepa hann, og er bjargað af Na'vi prinsessunni Neytiri (Zoe Saldana), og fær þannig aðgang að þekkingu þessa kynþáttar, sem hann að sjálfsögðu notar til að gefa hinum mennska her mikilvægar upplýsingar.
Þegar kemur að vali hans til að velja á milli eigin kynþáttar og Na'vi, upplifir hann sig sem geimveru fasta á milli tveggja heima. Hann þarf að endurmeta alla þá þekkingu sem hann hefur nokkurn tíma aflað sér sem mannvera og bera hana saman við þetta nýja líf, og velja á milli þeirra. Ekki allar manneskjur eru góðar eða illa, né eru allir Na'vi góðar eða illar verur, heldur eru sambönd milli allra þessara ólíku persóna vel upp byggðar og manni stendur alls ekki á sama um hvað verður um þær.
Við kynnumst hinum kalda og tæknisýrða heimi mannvera og berum saman við hinn undraverða og náttúrusýrða heim Na'vi, og sjáum að þetta er sami hluturinn, fyrir utan að mennirnir þurfa að eyðileggja til að byggja upp eigin auð, en Na'vi viðheldur til að byggja upp sameiginlegan auð allrar plánetunnar.
Mannkynið er í hlutverki útrásarvíkinga, en Na'vi eru mótmælendur sem hafa ekki bara pottar og pönnur í höndunum, heldur vinna með furðuverum eins og drekum, risavöxnum nashyrningum með hamarstrýni, og eru í beinu netsambandi við guð plánetunnar, sem inniheldur upplýsingar frá örófi alda, eins og lífrænt Internet.
Hasarinn, hinn nýi heimur Pandoru, persónusköpunin, handritið, leikstjórnin, leikurinn, tónlistin, förðunin, litirnir, takturinn, skrímslin, drekarnir og þrívíddin, tæknibrellurnar; allt gengur fullkomlega upp. James Cameron hefur jafnað þau afrek sem ég hef verið hrifnastur af frá hans hendi: "The Terminator" og "Aliens".
Ég valdi að sjá myndina ótextaða í þrívídd. Sat á fremsta bekk og fannst það gott í troðfullu kvikmyndahúsinu. Aldrei þessu vant var frekar þægilegt að sitja á fremsta bekk, enda hægt að halla sætinu aftur. Myndin er tveir tímar og 42 mínútur að lengd. Mér fannst hún nákvæmlega jafn löng og hún átti að vera. Þetta er ein af þessum myndum sem maður þarf að sjá aftur og aftur.
Ég meina, kvikmynd þar sem aðalhetjan flakkar hálfsofandi og þunglyndur milli staða í hjólastól og verður síðan að blárri og málaðri frelsishetju í anda William Wallace, sitjandi á fljúgandi dreka með gríðarstóra vélbyssu, stekkur af drekanum og upp á hann aftur til að koma fyrir handsprengjum á vel völdum stað, og að maður sættir sig við þennan söguheim og getur tekið hann alvarlega, er afrek í leikstjórn sem seint verður endurtekið.
Viðbót: Nóttina eftir áhorfið dreymdi mig marga litríka og skemmtilega drauma, sem ég tel að séu "Avatar" að þakka. Annars var ég að velta fyrir mér eyjunum sem fljóta í skýjunum, og varð þá hugsað til Gulliver's Travels og eyjunnar Laputa sem hann heimsótti í einu af ferðalögum sínum. Þessi hugmynd birtist aftur í teiknimynd eftir Hayao Miyazaki "Laputa: Castle in the Sky" þar sem tvö ungmenni þurfa að fljúga gegnum þykkt skýjaþykkni til að nálgast svífandi eyju. Einnig minntu skrímslin og skepnurnar, auk umfjöllunarefnisins á myndheima Miyazaki, og er ég nokkuð viss um að James Cameron hljóti að vera mikill aðdáandi þessa meistara teiknimyndanna, án þess að ég viti það frá fyrstu hendi.
Um 30 milljarðar í kassann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hvernig dóm fær auðmaðurinn og teiknimyndafígúran Skröggur frá Roger Ebert?
24.11.2009 | 07:10
Komin er út íslensk þýðing á kvikmyndadómi Roger Ebert um Disney myndina "A Christmas Carol" sem gerð er eftir klassískri sögu Charles Dickens, og fær hún afar góða dóma.
Rökstuðningurinn er það góður að nú langar mig líka að sjá hana.
Smelltu hérna til að lesa dóminn.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 07:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ný styrjöld hafin sem enginn tekur eftir?
23.11.2009 | 08:13
Þetta er tilraun til að leggja heiminn í rúst. Að gera eitthvað sambærilegt í raunheimum væri samstundið úthrópað sem hryðjuverk, en sjálfsagt réttlætt af snjöllum pólitíkusum og spunameisturum sem réttlætanleg aðgerð í styrjöld. Það vill kannski gleymast að almannaheill allrar veraldar liggur undir, en góðar upplýsingar eru lykilþáttur í að byggja upp raunverulega þekkingu í baráttu við fordóma. Án þeirra verður heimsmynd okkar skakkari og í samræmi við hugmyndir þeirra fáu sem vilja ráða yfir heiminum með þeim völdum sem þeir trúa að fjármunir gefi þeim.
Styrjöldin um upplýsingar er hafin. Barist er um mannlega þekkingu. Annar aðilinn vill ná völdum yfir mannlegri hegðun, hinn aðilinn vill græða á henni eins og hún er.
Stóra spurningin er: Eiga upplýsingar að vera frjálsar, ókeypis og óháðar?
Microsoft er í viðræðum við fjölmiðlafyrirtæki Ruperts Murdoch, News Corp., um að fjarlægja fréttir af fréttavefjum News af vef Google. Myndi Microsoft greiða News fyrir það samkvæmt heimildum fjölmiðla í gær og í dag. Eru viðræðurnar á byrjunarstigi en upphafsmaður þeirra er Murdoch, samkvæmt Washington Post. Er þetta enn einn liðurinn í stríði leitarvéla um aðgang að vefsíðum og býr til þrýsting á Google að greiða fyrir efni á vefsvæði sínu, samkvæmt frétt Financial Times í dag.
Google hefur gjörbreytt upplýsingaheiminum og hefur jafnvel verið bætt inn í enskar orðabækur sem sögnin "to google", sem þýðir að nota google.com til að leita upplýsinga á vefnum. Þetta er öflugt tæki fyrir venjulegt fólk. Þú getur fundið hvaða upplýsingar sem er kunnirðu að nota leitarvélina rétt.
Google hefur tekjur af auglýsingum sem tengjast leitarvélinni. Fyrirtæki greiða google fyrir að koma fréttum til fólks sem leitar ákveðinna hugtaka. Þetta svínvirkar og hefur gert Google að heimsveldi í heimi upplýsingatækninnar.
Svo virðist þó að velgengni Google hafi vakið upp öfund hjá einhverjum sem skilgreina eigin tilvist út frá hlutfallslegum völdum í heiminum. Rupert Murdoch stjórnar nánast heimi fjölmiðla, eins og útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum. Hann hefur ekki náð stjórn á internetinu, og finnst það sjálfsagt frekar pirrandi.
Google er að vissu leyti öryggistæki fyrir venjulegt fólk, þar sem aðgangur þess að áreiðanlegum upplýsingum, þeim að kostnaðarlausu, getur verið afar fróðlegur og gagnlegur. Þetta er raunverulegt gildi. Þetta veit Murdoch, sem hefur í áratugi fengið að matreiða upplýsingar ofan í almenning, og náð jafnvel að stjórna hvernig það lifir, hvað það kaupir, hvað því finnst merkilegt.
Mér finnst ekki ólíklegt að Murdoch reyni að fá flest fjölmiðlafyrirtæki heims í lið með sér, þar sem aukin og strangari áhersla verður lögð á höfundarétt, þannig að ef vefsíða birtir til dæmis frétt án þess að greiða fyrir heimildirnar, verður hægt að sækja hana til saka og rukka um peninginn. Þetta þýðir að fyrirtæki eins og Google, sem lítur á fréttir og aðrar upplýsingar sem ókeypis efni þegar það hefur komið einu sinni birst gjaldfrítt á Internetinu, gætu verið kærð fyrir gífurlega fjármuni fyrir það eitt að auka upplýsingaflæðið.
Ef þetta ráðabrugg Murdoch og Microsoft gengur upp, þýðir það breytingu á hvernig við lítum á frelsi upplýsinga. Frelsi upplýsinga verður ekki lengur gjaldfrí, og þeir sem reyna að miðla upplýsingum án þess að borga fyrir þær gætu fengið á sig ákæru.
Viljum við að upplýsingaheimurinn verði takmarkaður til þess eins að auðmenn stjórni hvernig múgurinn kaupir neysluvörur?
-Ekki ég.
Er líklegt að þessi brella gangi upp hjá innrásarvíkingunum?
-Já.
Ræða um að útiloka Google | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2012 (2009) ****
15.11.2009 | 12:00
2012 er frábær kvikmynd. Hún er Independence Day (1996) með góðu atriðunum en það er enginn tölvuvírus sem bjargar deginum gegn illum geimverum, Titanic (1997) án asnalegs illmennis og syndaflóðið úr Genesis með Nóa í aukahlutverki. Það eru vissulega illmenni í þessari mynd, og flest eru þau það vegna stöðu sinnar í þjóðfélaginu og auðs. Aðal illmennið, Anheauser, sem er vel leikið og áhugavert í höndum Oliver Platt er skýrt í höfuð á einu af fyrirtækjunum sem bandaríska ríkið þurfti að bjarga með gífurlegu fjármagna á kostnað bandarískra þegna. Hann selur jafnvel mömmu sína í skondnu atriði.
Roland Emmerick leikstýrir myndinni, greinilega endurnærður og ferskur eftir að hafa skilað af sér einni ömurlegustu kvikmynd allra tíma, 10.000 BC (2008). Ég hef yfirleitt haft mjög gaman af myndum hans, fyrir utan 10.000 BC að sjálfsögðu, en upp úr standa Universal Soldier (1992) þar sem Jean Claude Van Damme og Dolph Lundgren leika hermenn sem hafa verið uppfærðir með tölvuheila og líkamsstyrk, en heilaþvotturinn virkar ekki nógu vel og góðmennið Damme þarf að taka á stóra sínum gegn illmenninu Lundgren. Einnig leikstýrði hann Independence Day, þar sem Will Smith kýldi geimverur kaldar og Jeff Goldblum fann upp tölvuvírus sem hægt er að hlaða inn í lélegan eldvegg geimveranna.
Ekki má gleyma hinni hötuðu en skemmtilegu Godzilla (1998), þar sem Matthew Broderick og íbúar New York flýja undan risavaxinni eðlu, þar til Broderick fattar að þetta er bara stórt dýr. Fyrst ég er byrjaður að telja upp, þá gerði hann einnig Stargate (1994) um vísindamanninn James Spader og hóp hermanna sem Kurt Russell leiðir sem ferðast um heimsins víddir gegnum stjörnuhlið. Fullt af sjónvarpsþáttum hafa verið framleiddir í framhaldi. Einnig gerði hann The Patriot (2000) sem kom Heath Ledger á framfæri í Hollywood, þar sem hann lék son og skyggði á Mel Gibson, en það skapaði ákveðið ójafnvægi í myndinni. Einnig gerði hann The Day After Tomorrow (2004) þar sem Jake Gyllenhall og Dennis Quaid þurfa að takast á við heljarfrost sem skellur á og frystir heiminn, með skelfilegum afleiðingum. Engin af ofantöldum myndum jafnast samt á við 2012.
Sagan er sáraeinföld, og virkar vel hugsanlega vegna þess að rammi hennar er nokkuð sem allir þekkja, mýtan um syndaflóðið og örkina hans Nóa úr Genesis Biblíunnar. Það er gert nokkuð ljóst að Guð er ekki sáttur við nútímamanninn, en vísbending um það er þegar sprunga aðskilur fingur Adams og Guðs í frægu listaverki Leonardo Da Vinci í lofti rómverskrar kirkju. Mig grunar að leikstjórinn hafi slíka tilfinningu vegna ógurlegrar spillingar í stjórnmálum og fyrirtækjum, eins og Íslendingar hafa einnig þurft að upplifa síðustu ár, að hann telur þörf á að hreinsa svolítið til. Byrja upp á nýtt. Hljómar kunnuglega, ekki satt?
Sagan er einföld. Indverskur vísindamaður, Dr. Satnam Tsurutani (Jimi Mistry) uppgötvar samband sólgosa og aukins hita í kjarna Jarðarinnar, og fræðir vísindaráðgjafa forseta Bandaríkjanna, Dr. Adrian Helmsley (Chiwetel Ejiofor) um stöðu mála. Helmsley fer á fund með starfsmannastjóra Hvíta Hússins Carl Anheuser (Oliver Platt) sem kemur honum í beint samband við forseta bandaríkjanna, Thomas Wilson (Danny Glover). Þeir hafa þrjú ár til að undirbúa áætlun sem bjarga á mannkyninu frá glötun.
Rithöfundurinn Jackson Curtis (John Cusack) uppgötvar að eitthvað er ekki í lagi þegar hann fer í útilegu með börnum sínum, Nóa (Liam James) og Lilly (Morgan Lily) til Yellowstone Park, en þar hefur eftirlætis stöðuvatnið hans þornað upp. Áður en hann getur skoðað svæðið almennilega hefur hann verið umkringdur af alvopnuðum hermönnum Bandaríkjahers. Hann er færður fyrir Dr. Adrian Helmsley, sem reynist vera einn af örfáum aðdáendum hans, en Curtis hafði skrifað skáldsögu um endalok Jarðar og viðbrögð stjórnvalda við slíkum hamförum. Curtis er fylgt út af svæðinu, en furðulegur dómsdagsspámaður með útvarpsþátt hefur sínar eigin kenningar um hvað er á seyði, og kemur Curtis á sporið um samsæri sem er í gangi til að fela hörmungarnar sem ógna heiminum. Þessi klikkaði spámaður, Charlie, er leikinn snilldarlega af hinum stórskemmtilega Woody Harrelson.
Það tekur Curtis smá tíma að melta upplýsingarnar, en tekst að púsla brotunum saman þegar fyrrverandi eiginkona hans Kate (Amanda Peet) og kærasti hennar Gordon Silberman (Thomas McCarthy) lenda í því að stórmarkaður þar sem þau versla klofnar í tvennt, og Curtis sem hefur aukastarf sem bílstjóri lúxuskerru, kemst að því að ríkisbubbar eru að flýja svæðið og sonur Yuri Karpovs (Zlatko Buric), rússnesks boxara og auðkýfings, segir honum hreint út að hann muni fljótlega deyja eins og allir aðrir í heiminum nema útvaldir.
Allt smellur þetta saman í huga Curtis, og þetta er bara á fyrstu mínútum myndarinnar, og hann ákveður að leita arkarinnar og bjarga fyrrum eiginkonu sinni og börnum, ásamt lýtalækninum Gordon sem kom í hans stað, leigja flugvél og flýja áður en heimurinn hrynur. Og hann er byrjaður að hrynja. Curtis nær fjölskyldu sinni nokkrum sekúndum áður en borgin tekur að falla saman, og ekur á lúxuskerrunni gegnum borg sem hrynur saman fyrir augum hans. Hefst þar einn skemmtilegasti eltingarleikur sem ég hef séð í kvikmynd, náttúran sjálf gegn fráskilinni kjarnafjölskyldu.
George Seagal kemur einnig sterkur til leiks sem gamli söngvarinn Tony á risasnekkjunni Genesis, og aðrar eftirminnilegar aukapersónur eru flugmaðurinn Sasha (Johann Urb) sem á eitt augnablik sem minnir á atriði úr Indiana Jones and the Temple of Doom (1984) og kynbomban Tamara (Beatrice Rosen) sem reynist aðeins flóknari persóna en mann grunaði þegar hún fyrst birtist. Einnig eiga kínverskir verkamenn fulltrúa í hetjunni Tenzin (Chin Han), sem reynist úrræðagóður þegar í ljós kemur að verkamennirnir sem unnu að gerð arkarinnar fá ekki farmiða, en hann er bróðir búddamunksins Nima (Osric Chau) sem hefur fengið tækifæri til að bjarga afa sínum og ömmu undan hamförunum. Thandie Newton er svo dóttir forseta Bandaríkjanna.
Tæknibrellurnar eru án vafa það besta sem ég hef séð. Taktu fallegustu útsýnismyndir sem þú getur hugsað þér og fáðu þær til að hrynja innanfrá í fullkomnu samræmið við lögmál eðlisfræðinnar, og þá kemstu nálægt því að ímynda þér hvað þú munt sjá í þessari mynd. Þó að þetta sé hörmungarmynd, þá er hún ekki sorglegur harmleikur, heldur meira léttmeti - ævintýri venjulegs fólks við afar óvenjulegar aðstæður.
Sagan er full af klisjum, en persónur og leikarar það góðar, og húmorinn settur það skemmtilega fram, eins og þegar hæna ein á skondið augnablik undir öxi kínverskrar ömmu, ásamt ógleymanlegum tæknibrellum, og hnyttnum skotum á samtímastjórnmál, spillingu og vinargreiða, að hún hittir beint í mark.
Hvað er í bíó, núna?
8.11.2009 | 21:38
Það er fullt af skemmtilegum myndum í bíó, og nokkrar sem komið hafa mjög á óvart og slegið í gegn. Sérstaka athygli vekur Woody Harrelson sem uppvakningabani og hræódýr draugamynd sem virðist hræða líftóruna úr flestum þeim sem voga sér að sjá hana. Síðustu dagar Michael Jackson koma einnig á óvart og þriðja ísöldin skemmtilegri en fyrstu tvær til samans.
Ég hef verið að þýða greinar eftir kvikmyndarýninn Roger Ebert, sett þær inn á rogerebert.blog.is og miðað við þær myndir sem eru í bíó. Kíktu á listann hérna fyrir neðan til að fræðast um þær myndir sem eru enn í sýningu.
Smelltu á titlana til að lesa dómana.
This Is It (2009) ****
Vel gerð og skemmtileg heimildarmynd um síðustu mánuði hins nýlátna Michael Jackson þar sem hann sýnir á sér óvæntar hliðar. Leikstýrð af Kenny Ortega, sem gerði High School Musical myndirnar, en til gaman má geta að vinnuheiti High School Musical var Grease 3.
Roman Polanski: Wanted and Desired (2008) ***1/2
Áhugaverð heimildarmynd um erfitt líf Roman Polanski, hvernig hann lifði seinni heimstyrjöldina af sem pólskur drengur og missti meðal annars móður sína sem myrt var í útrýmingarbúðum nasista, hvernig hann varð frægur kvikmyndaleikstjóri í Hollywood, hvernig fylgjendur Charles Manson myrtu eiginkonu hans og ófætt barn, hvernig hann nauðgaði og var sóttur til saka, fangelsaður og síðan flúði Bandaríkin, en segir ekki frá því hvernig hann var handsamaður á dögunum og mun líklega verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem yfir honum vofir hugsanlega fimmtíu ára dómur fyrir að hafa flúið réttvísina.
Orphan (2009) ***1/2
Hrollvekja um stúlku sem lætur Damien í Omen myndunum, son skrattans, líta út eins og leikskólakrakka.
Nokkurs konar gamanmynd með Matt Damon sem byggð er á súrrealískum en jafnframt sönnum atburðum um fyrirtækja- og fjármálaspillingu. Ef þér fannst barnalánin hjá Íslandsbanka eitthvað til að hneykslast yfir, kíktu þá á þessa til að hneykslast ennþá meira.
Zombieland (2009) ***
Woody Harrelson leiðir hóp uppvakningaslátrara í þessari gamanhrollvekju gegnum Bandaríkin sem hafa orðið uppvakningum að bráð. Aðeins örfáar manneskjur hafa lifað óbreyttar af, og gefa áhorfendum ráð í léttum dúr um hvernig lifa skuli af uppvakningaplágur.
Law Abiding Citizen (2009) ***
Gerald Butler leikur fjöldamorðingja sem myrðir fólk utan fangelsisveggja á meðan hann er lokaður í einangrunarklefa innan í fangelsinu, enda fólk svo útreiknanlegt þessa dagana, sérstaklega þegar fólk flest eru flatar persónur í svona spennutrylli.
Couples Retreat (2009) **
Misheppnuð gamanmynd um fólk sem fer á paradísareyju til að leysa persónuleg vandamál sín. Geisp.
Fame (2009) **
Misheppnuð söngvamynd byggð á snilldarsöngvamynd.
Up (2009) ****
Ef þú hefur gaman af bíómyndum um gamlan kall og unga skáta sem svífa um í húsi sem haldið er uppi af milljón blöðrum eða svo, og hefur gaman af gömlu Indiana Jones myndunum, þá áttu eftir að skemmta þér vel á þessari. Fyrstu tíu mínúturnar eru með því besta sem gert hefur verið í heimi teiknimynda, og sjálfsagt kvikmynda yfir höfuð. Algjört listaverk. Og skemmtileg.
Toy Story (1995) ****
Ef þú hefur ekki séð Toy Story ertu ekki viðræðuhæf(ur).
Ice Age: Dawn of the Dinosaurs (2009) ***1/2
Betri en fyrstu tvær Ice Age myndirnar til samans. Kemur skemmtilega á óvart, sérstaklega þar sem henni tekst að víkka út heim sem áður virtist heldur takmarkaður. Simon Pegg blæs nýju lífi í myndina með persónu sem er hálfur Tarzan og hálfur Ahab skipstjóri, í eilífðarbaráttu við stærsu risaeðlu í heimi. Svona eins og barátta Scrat við akornið, sem ætti reyndar að fá sérstök verðlaun fyrir góðan leik.
9 (2009) ***
Gífurlega vel gerð mynd sem gerist í heimi þar sem mannkynið hefur verið máð af yfirborði jarðarinnar, og eftir sitja 9 litlar tuskudúkkur og eitt stykki gjöreyðingarvélmenni.