Færsluflokkur: Kvikmyndir
Chugyeogja (2008) ****
23.2.2010 | 17:30
Hörkuspennandi tryllir eins og þeir gerast bestir, persónusköpunin trúverðug og illmennið verulega fúlt, og hetjan ekkert sérstaklega góð manneskja í upphafi sögunnar. Það að myndin er frá Kóreu og betri en flestar spennumyndir sem koma frá Hollywood segir okkur kannski eitthvað um að miðpunktur menningarinnar sé að færast í austur.
Joong-ho Eom (Yun-seok Kim) hefur verið rekinn úr rannsóknarlögreglu Seoul fyrir að þiggja mútur og hefur stofnað sitt eigið fyrirtæki. Hann gerir út vændiskonur, sem hefur fækkað hratt upp á síðkastið. Hann grunar að þær hafi einfaldlega strokið frá honum og vinni fyrir einhvern annan, en grunar engan veginn þann hrylling sem liggur að baki hvarfi kvennanna.
Þegar aðeins ein af stúlkunum hans er eftir, einstæða móðirin Mi-jin Kim (Yeong-hie Seo), fær hann hana til að sinna viðskiptavini þrátt fyrir að hún liggi heima í flensu. Joong-ho áttar sig á að allar stúlkurnar sem hurfu höfðu áður farið á fund manns með þetta símanúmer. Hann lætur Mi-jin vita, en hún er þegar á leið heim til viðskiptavinarins og er í bílnum með Young-min Jee (Jung-woo Ha), þegar hún fær símtalið. Hún lofar að láta Joong-ho fá heimilisfangið þegar hún kemst inn. En eitthvað fer úrskeiðis.
Joong-ho fer að lengja eftir hringingu frá Mi-jin og ákveður að leita hennar og sýnir að hann er snjall rannsóknarlögreglumaður, sem því miður hefur ekki nægilega mikla samvinnu frá lögreglunni, sem virðist samansafn af spilltum hálfvitum, skriffinnskupúkum og pólitíkusum sem hugsa meira um eigin frama en að réttlætið sigri. Þegar Joong-ho kemst að hinu sanna og nær fyrir einskæra heppni að handsama fjöldamorðingjann, er sagan rétt að byrja, þar sem hann hefur ekki handtökuheimild og engar sannanir sem leiða hann til Mi-jin, sem hann þráir að bjarga eftir að hann kynnist ungri dóttur hennar.
Myndin er gífurlega vel leikin og leikstýrð, sagan sannfærandi og ofbeldið miskunnarlaust, þó að flest af því eigi sér ekki stað fyrir framan myndavélina.
Rotten Tomatoes: 81%
IMDB: 7.9
The Lovely Bones (2009) **
15.2.2010 | 21:03
Peter Jackson, leikstjóri "The Lord of the Rings" og "King Kong" snýr aftur og bregst loks bogalistin.
"The Lovely Bones" er ein af þessum myndum sem hefði getað verið frábær. Auðvitað reiknar maður með að þetta sé saga með þéttri atburðarrás þar sem málið snýst um að myrt unglingsstúlka reyni að stoppa morðingjann frá því að myrða systur hennar og hjálpa föður sínum að koma upp um gauurinn, en hann hefur þegar gengið frá dágóðum hópi kvenna..., en nei. Myndin fjallar um söknuð og kossinn sem aldrei var kysstur.
Mér finnst þetta ekki alveg nógu sniðug umgjörð. Það hefði verið heppilegra að láta stúlkuna deyja í bílslysi eða rafmagnslosti eða einhverju slíku, því að fjöldamorðingjafléttan hefur í raun ekkert með kjarna myndarinnar að gera.
Hamingjusamri fjölskyldu er sundrað þegar hin 14 ára Susie Salmon (Saoirse Ronan) er myrt af frekar klikkuðum nágranna sem heitir hinu skuggalega nafni George Harvey (Stanley Tucci) og satt best að segja er hann það langbesta við þessa mynd, þó að hlutverk hans sé ekki jafn merkilegt og það hefði getað verið.
Mark Wahlberg leikur pabbann sem getur ekki sætt sig við dauða dóttur sinnar og í einhvers konar sturlun ásakar hann nánast alla í hverfinu um morðið, og virðist fyrirmunað frá upphafi til enda myndarinnar að hugsa eina rökrétta hugsun. Spennandi karakter eða hitt þó heldur. Kona hans, leikin af Rachel Weisz, sem er nánast óþekkjanleg frá fyrri hlutverkum, sjálfsagt eftir fegrunaraðgerðir, virkar eitthvað svo venjuleg núna, fer á taugum og hypjar sig í kartöflutínslu eða eitthvað slíkt til Mexíkó, á meðan fjöldamorðinginn hefur augastað á næstu dóttur í röðinni, Lindsey, sem er vel leikin af Rose McIver.
Málið er að það er ekkert samband á milli hins skrautlega og tölvugerða limbóheims Susie og veruleikans, annað en að kannski hefur hún áhrif á ímyndunarafl eða hugsanir þeirra sem enn halda í minningu hennar. Og kannski ekki. Ekki nógu góð tenging finnst mér. Hér saknaði ég draugsins sem Patrick Swayze gerði svo eftirminnilegan í "Ghost" þegar hann lagði sig allan fram við að sparka í Pepsídollu og hreyfa til smápening, og náttúrulega hafa virk samskipti við miðil sem gat bjargað eiginkonu hans frá skúrkinum skapvonda.
Ekkert svoleiðis hérna. Peter Jackson reynist væminn. Ótrúlegt en satt. Karlinn varð frægur á splattermyndum þar sem persónurnar þurftu að hafa áhyggjur af smáatriðum eins og líma höfuðkúpuna fasta til að heilinn rúllaði ekki út. Síðan gerði hann "Heavenly Creatures" sem fékk mikið lof margra gagnrýnenda, þó að ég hafi ekkert verið sérstaklega hrifinn, en eftir það gerði hann snilldina "The Frighteners" með Michael J. Fox og fylgdi eftir með Hringadróttinssögu, sem stimplaði nafn hans endanlega sem alvöru leikstjóra. Síðan klikkar hann núna.
Vonandi heldur hann ekki uppteknum hætti með "Tinna" og "The Hobbit", en hann mun reyndar ekki leikstýra þeirri síðarnefndu, heldur verður það Guillermo del Toro sem á það til að gera bráðskemmtilegar myndir, en á það líka til að floppa svolítið. Steven Spielberg mun síðan leikstýra annarri Tinnamynd á móti Jackson. Ég held að Tinni geti ekki klikkað í þeirra höndum.
Ég varð fyrir vonbrigðum með "The Lovely Bones," og það í fyrsta sinn frá því ég byrjaði að fylgjast með Peter Jackson eftir "Bad Taste". Mér datt einfaldlega ekki í hug að hann ætti þessa væmni til.
Enginn virðist fullkominn þessa dagana, fyrir utan James Cameron.
Invictus (2009) ***1/2
14.2.2010 | 07:50
"Invictus" er vel heppnað drama frá Clint Eastwood um fyrstu ár Nelson Mandela sem forseti Suður Afríku og hvernig hann notar íþróttir til að sameina þjóðarsálina. Sem íþróttamynd er "Invictus" ekki jafn vel heppnuð, þar sem afar erfitt er að fylgjast með framgangi íþróttamanna á vellinum.
Morgan Freeman leikur Nelson Mandela og túlkar hann sem hálfgerðan dýrling sem hefur nýtt 25 ár í fangelsi til að dýpka eigin skilning á heiminum, manneskjunni og lífinu, og kemst til valda sem vitur maður, sem er umhugað um samfélag sitt umfram allt annað. Hann áttar sig á að hatrið milli hvítra og svartra er afar beitt, og finnur ólíklegan samnefnara fyrir báða hópana í ruðningsliði Suður Afríku, sem lengi hefur verið þjóðaríþrótt hinna hvítu, á meðan hinir svörtu hafa verið meira fyrir knattspyrnu.
Nýtt íþróttasamband Suður Afríku vill leggja ruðningsliðið niður, en Mandela telur að slíkar aðgerðir muni dýpka á óvildinni milli hópanna tveggja, og fær til liðs við sig fyrirliða ruðningsliðsins, Francois Pienaar (Matt Damon).
Samskiptin á milli lífvarða Mandela eru sérstaklega vel leikin, en það er blandaður hópur hvítra og svarta sem þurfa að slíðra sverðin til að gæta forsetans í sameiningu. Smám saman bræðast þessir hópar saman og verða að einni heild þegar ruðningsliðið kemst í úrslitakeppni heimsmeistarakeppni árið 1995.
Framtíðarsýn, stóuspeki og fortíð Nelson Mandela er afar vel lýst. Allra besta atriðið er þegar ruðningsliðið heimsækir fangaeyjuna þar sem Mandela sat inni í 25 ár, og Matt Damon skoðar klefa hans, og ímyndar sér líf hans í fangavistinni. Ljóðið "Invictus" var Mandela leiðarljós í fangavistinni, og verður að innblæstri fyrir fyrirliða ruðningsliðsins sem áttar sig á að framtíðin er í höndum þeirra sem vita að þeir geta haft áhrif á hana með því að hafa áhrif á sjálfa sig og nærstadda.
"Invictus" minnti mig á ferðalag mín með Salaskólabörnum og vini mínum Tómasi til Namibíu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þar heimsóttum við fjölda skóla til að kynna skák. Þar sáum við sams konar fátækrahverfi og sjást í myndinni, sem og lífsgleðina sem sjá má í augum barnanna.
Invictus, eftir William Ernest Henley (18491903)
Out of the night that covers me,
Black as the pit from pole to pole,
I thank whatever gods may be
For my unconquerable soul.
In the fell clutch of circumstance
I have not winced nor cried aloud.
Under the bludgeonings of chance
My head is bloody, but unbowed.
Beyond this place of wrath and tears
Looms but the Horror of the shade,
And yet the menace of the years
Finds and shall find me unafraid.
How charged with punishments the scroll,
I am the master of my fate:
I am the captain of my soul.
Kvikmyndir | Breytt 13.2.2010 kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Up In The Air (2009) ****
6.2.2010 | 09:09
George Clooney situr í þægilegu sæti á fyrsta farrými og flugfreyjan spyr hann: "Would you like a can, sir?"
Hann svarar undrandi: "Why would I want a cancer?"
Hún sýnir honum dós og hann fattar misskilninginn.
Þetta er lýsandi dæmi fyrir "Up In The Air" í heild. Maður sem telur sig vera með afar traust tök á lífinu, og kennir fólki hvernig það nær slíkum tökum, uppgötvar að trú hans um hans eigið líf er byggt á misskilningi og falsvonum, nákvæmlega því sem hann flúði undan þegar hann breytti um stefnu upphaflega.
Clooney leikur Ryan Bingham, afar orðheppinn og vel gefinn einstakling sem hefur atvinnu af því að segja upp fólki. Markmið fyrirtækis hans er að selja þjónustu. Markmið hans er að sinna starfi sínu það vel að þeim sem sagt verður upp finni ný tækifæri í uppsögninni. Og þá erum við ekki að tala um gamlan frasa, heldur leggur hann sig fram við að skoða starfsferil fólks og les þannig í ferlana að honum tekst að grafa upp gamla drauma þeirra sem missa starfið, og finna að líf þeirra þarf ekki að vera bundið einu fyrirtæki alla ævi.
Heimspeki Clooney er einföld. Ef þú þarft á einhverju fleiru að halda en því sem þú kemur ofan í bakpoka, þá ertu orðinn að einhvers konar þræl. Þetta á við um bæði hluti og manneskjur. Myndin fjallar um hvað gerist ef þú hugsar um manneskjur eins og hluti, og þá uppgötvun að sama spekin á ekki við um fjölskyldu þína og eigur þínar.
Það merkilegasta við þessa mynd er hvernig hún grípur augnablik í lífi manns sem telur sig hafa mótað pottþétta lífsspeki, er það viss um að hann hafi rétt fyrir sér að hann tekur þátt í að móta heilar kynslóðir í samræmi við þessa speki, og hvað hann gerir þegar rennur upp fyrir honum að spekin hans ristir grunnt og hefur í raun ekkert með lífið að gera, heldur fyrst og fremst hhvernig fólk vinnur.
Hugsaðu þér manneskju sem lifir fyrir starf sitt og hefur að starfi að segja upp fólki. Er ekki mótsögn í þessari setningu sem áhugavert er að rannsaka?
"Up In The Air" fjallar ekki bara um Clooney, heldur tekur á mjög merkilegri spurningu um tengsl samskiptatækninnar og mannlegra samskipta. Spurningin er hvort að tölvusamskipti geti komið í staðinn fyrir mannlega nærveru.
Í staðinn fyrir að ferðast um heiminn, er nóg að photoshoppa sig inn í ólík umhverfi? Er hægt að kerfisbinda mannleg samskipti? Hvaða munur er á að sitja í sama herbergi og manneskjan sem þú ræðir við um viðkvæm málefni, og að sitja í næsta herbergi með samskipti gegnum tölvuskjá?
Þetta gerir kvikmyndin vel. Afar vel.
Hún sýnir hvernig tilhneiging okkar til að kerfisbinda hið mannlega, gerir okkur ómanneskjulegri og í raun að verra fólki, þó svo að við séum hugsanlega fluggáfuð og vel meinandi. Þetta er viðeigandi pæling fyrir fjarnám og rafræna kennslu, þar sem stóra spurningin er:
Getur hugbúnaður nokkurn tíma leyst af manneskju sem væri á staðnum? Geta samskipti í gegnum tölvu nokkurn tíma komið í stað manneskju sem er á staðnum?
Þetta er eins og með misskilninginn í upphafi myndar, þetta með dósina. Hefðu þessi samskipti átt sér stað í gegnum tölvu er spurning hvort að flugfreyjan hefði getað sýnt farþeganum dósina. Nálægð skiptir máli.
Ekki nóg með að myndin fjalli um allt þetta, heldur líka um það limbó sem það er að missa vinnuna. Hvernig lifirðu áfram í sátt eftir uppsagnabréfið ógurlega? Persóna George Clooney er í raun stödd þarna í þessu limbó; alltaf á milli vinnustaða og hvergi rótföst, en það er þessi rótfesta sem margir þrá og aðrir hræðast.
Afar góðar pælingar og ég verð að viðurkenna að George Clooney og þessi mynd eiga skilið að fá fullt af óskarstilnefningum, þrátt fyrir að ég geti varla talist mikill Clooney aðdáandi, þar sem að hann rústaði Batman í "Batman & Robin". Það eru reyndar liðin 13 ár síðan. Ætli maður geti ekki farið að fyrirgefa manninum.
Aðrir leikarar koma við sögu, en allir í smærri hlutverkum. Þetta er fyrst og fremst mynd Clooney og Jason Reitman, sem leikstýrði einnig hinum ágætu "Juno" og "Thank You For Smoking". hann er sonur Ivan Reitman, sem var um tíma afar vinsæll og leikstýrði meðal annars hinum skemmtilegu grínmyndum "Ghostbusters" og "Twins".
Law Abiding Citizen (2009) ***
5.2.2010 | 16:18
"Law Abiding Citizen" er afdráttarlaus hefndarkvikmynd þar sem réttarkerfið er skrímsli sem hinn löghlýðni borgari vill umbreyta. Undirtónninn er svolítið merkilegur, því að hetja myndarinnar er í raun ekkert annað en hryðjuverkamaður sem álítur verkefni sitt heilagt, að fræða lögmann um að hann sé í raun spilltur af gölluðu kerfi, einfaldlega vegna þess að hann fórnar réttlætinu til að vinna sjálfan sig upp í betri stöðu.
Innbrotsþjófar brjótast með valdi inn á heimili hins löghlýðna borgara, Gerald Butler, drepa og nauðga eiginkonu hans og dóttur, og skilja hann eftir í blóði sínu. Hann lifir af. Lögreglan finnur morðingjana. Hann fer í mál. Saksóknarinn í málinu, leikinn af Jamie Foxx, ákveður að semja við annan morðingjann til að tryggja sér prik í réttarkerfinu, og er nákvæmlega sama um réttlætistilfinningu hins særða föður. Ekki grunar hann að þessi særði faðir er sérfræðingur í leynivígjum úr fjarlægð og starfar fyrir einhverja leynilega leyniþjónustu sem sér um að ryðja úr vegi óheppilegum einstaklingum víða um heim.
Nú hefur bandaríska réttarkerfið skapað sér hættulegan óvin og verður aðal skotmarkið Jamie greyið Foxx, sem gerir lítið annað en að hlaupa um alla myndina eins og leynilögga í flottum frakka. Gerald Butler er jafn sannfærandi sem grimmur hefndarengill og hann er ósannfærandi í rómantískum gamanmyndum. Þessi maður á að vera grimmur á svipinn. Alltaf.
Ég skemmti mér ágætlega yfir myndinni, en hún ristir ekkert dýpra en "Death Wish" með Charles Bronson eða "Payback" með Mel Gibson, fyrir utan að hún er um eitthvað. Hún fjallar um hversu ómanneskjulegt og óréttlátt sjálft réttarkerfið getur verið, að manneskjur eru orðnar að forritum í þessu stóra kerfi sem ráða engan veginn við það þó það sé orðið að andhverfu sinni. Hafirðu þörf á virkilega góðri hefndarmynd, þá geturðu alltaf kíkt á "Cape Fear" með Gregory Peck og Robert Mitchum eða endurgerðina með Robert DeNiro og Nicke Nolte.
Ég sé þessa mynd sem frumspekilega gagnrýni á kerfi alls konar, og er viðeigandi þegar rætt er um hagkerfi eða stjórnkerfi þar sem allir hugsa um hvernig eiga að leysa málin, en enginn veltir lengur fyrir sér af hverju, og hvernig markmiðin tengjast lausnunum. Það er nefnilega miklu auðveldara að læra ferli og festast í sömu hjólförum alla ævi, heldur en að hugsa stöðugt gagnrýnið um forsendur kerfisins, og passa upp á að manneskjur hafi ennþá eitthvað að segja, en að kerfið ráði sér ekki sjálft og stjórni þannig stjórnendum sínum.
Sjálfsagt er ég að lesa heldur mikið út úr þessari einföldu spennumynd, en þannig eru kvikmyndir. Til að njóta þeirra verður maður að gefa eitthvað af sjálfum sér og átta sig á hvernig þær tengjast eigin lífi. Ég nenni varla að minnast á hversu ólíklegur, ósennilegur og sjálfsagt ómögulegur söguþráðurinn er, en það er algjört aukaatriði fyrir svona myndir.
Kannski þetta sé tilraun til að gera umfjallanir mínar um kvikmyndir örlítið heimspekilegri.
Sjáðu hvernig James Cameron bjó til Avatar (myndband)
3.2.2010 | 11:03
Eftir að Cameron kláraði Titanic árið 1997 hvarf hann úr heimi kvikmynda. Hann kannaði undur dýpisins næstu fimm árin, en ákvað svo að gera geimkvikmynd sem yrði betri og vinsælli en Star Wars. Honum tókst það!
Sjá myndband hér.
Sjá nánar: WIRED
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Cape Fear (1962) ***1/2
2.2.2010 | 07:27
"Cape Fear" er mögnuð spennumynd með flottum leikurum, ógleymanlegri tónlist og söguþræði sem gengur fullkomlega upp. Það er freistandi að gefa þessari mynd lægri einkunn en endurgerð Scorcese frá 1991 þar sem Robert DeNiro fór á kostum, en það væri ósanngjarnt. Ég geri það samt.
Lögmaðurinn Sam Bowden (Gregory Peck) sem fyrir átta árum bar vitni gegn ofbeldisfullum brjálæðingi er heimsóttur af þessum sama brjálæðingi nú þegar hann hefur setið í steininum síðustu 8 ár, með tvær hugsanir í kollinum, þá fyrri hvað hann langaði að drepa Bowden, og sú seinni, hvernig hann gæti drepið hann hægt og kvalið að hætti kínverskrar pyntingartækni. Max Cady (Robert Mitchum) hefur lært lögfræði á bak við lás og slá, og kemur afar vel undirbúinn til leiks. Ætlun hans er augljós, hann ætlar að byrja pyntinguna á að nauðga dóttur Bowden.
Bowden leitar úrræða hjá lögreglunni, sem getur lítið gert til að koma í veg fyrir hugsanlega glæpi, þannig að hann ræður til sín einkaspæjarann Charles Sievers (Telly Savalas), sem staðfestir grun hans um illar fyrirætlanir Cady. Einkaspæjarinn mælir með að Bowden fái aðstoð frá mafíunni, en að sjálfsögðu hikar lögmaðurinn heiðarlegi og hafnar slíku ráði í fyrstu. En hvað er maður ekki tilbúinn að gera til að vernda eigin fjölskyldu gegn slíkri ógn?
Ákveður Bowden að leggja gildru fyrir Cady á Cape Fear ánni í Florida.
Bæði Gregory Peck og Robert Mitchum eru stórgóðir í sínum hlutverkum, og Mitchum sérstaklega, en samt verður hann að hálfgerðum kettlingi til samanburðar við túlkun Robert DeNiro á sama karakter 29 árum síðar.
Into the Wild (2007) ***1/2
31.1.2010 | 11:49
"Into the Wild" er vel heppnuð mynd um ferðalag flækings sem kallar sig Alexander Supertramp (Emile Hirsch), en hann hefur hafnað uppruna sínum og leggur út í guðsgræna náttúruna í leit að hamingju. Hann áttar sig á að frægð, frami og ríkidæmi er 20. aldar fyrirbæri og hefur engan áhuga á að festast í hlutverki samtímans, og vill þess í stað skrifa sína eigin sögu, lifa sínu eigin lífi.
Á ferðalagi hans burt frá foreldrum sínum, hittir hann og hefur djúp áhrif á manneskjur sem eru á sínum eigin stöðuga flækingi í þessu lífi. Þetta fólk uppgötvar að þessi ungi maður er djúpvitur og með hjartað á réttum stað, þrátt fyrir óvenjulegar ákvarðanir. Umfram allt kallar náttúran sjálf á hann og hann vill gera allt til að lifa eftir eigin sannfæringu.
Það er ekki annað hægt að velta fyrir sér eftir að hafa horft á þessa mynd, hversu margir eru fastir í eigin tíðaranda, kerfi sem fólk flýtur eftir og reynir kannski að grípa í grein á árbakkanum til að berjast á móti. En flestir munu hrapa þennan foss sem er framundan, því allar greinar trjábakkans hafa verið rifnar upp með rótum.
Kannski þú verðir að komast snemma upp úr fljótinu til að komast upp úr straumnum. Kannski þarftu ómælanlegt hugrekki, sjálfstæðu og visku til. Og sjálfsagt munu þeir sem fljóta í straumnum hrópa upp úr sínum votu draumum að einungis bilað fólk fari sína eigin leið.
Góð mynd í leikstjórn Sean Penn, en hann hefur fengið góðan hóp aukaleikara til að styrkja söguna. Þarna koma til sögunnar stórleikarar eins og Marcia Gay Harden, William Hurt, Hal Holbrock, Catherine Keener, grínarinn Vince Vaughn og hin áhugaverða Kristen Stewart sem slegið hefur í gegn sem Bella í Twilight myndunum, að ógleymdum hinum stórgóða Emile Hirsch í aðalhlutverkinu.
A Good Year (2006) **1/2
27.1.2010 | 18:06
Ég geri mitt besta til að sjá allar myndir með Russell Crowe. Oftast er ég meira en sáttur við afurðina. Síðustu árin hefur hann varla klikkað. "A Good Year" kom mér svolítið á óvart. Þarna koma hinn goðsagnakenndi leikstjóri Ridley Scott og Maximus sjálfur, Russell Crowe, saman á ný, og útkoman er svona frekar klén. Stærsti plússinn við þessa mynd er hin gullfallega og hæfileikaríka franska leikkona Marion Cotillard.
Scott virðist ætla sér að gera einhvers konar Jacques Tati mynd, þar sem aðalhetjan er svolítill klaufi með pípu og tekur sjálfan sig alvarlega. Stíllinn passar bara ekki við Scott. Hann er epískari en þetta.
Russell Crowe leikur bankamann í fjármálahverfi Lundúna sem er að sjálfsögðu klárari en allir aðrir bankamenn og kann að græða milljarða á fáeinum mínútum með því að snúa aðeins út úr kerfinu. Nokkurn veginn fyrirmynd sökudólgsins sem kom Íslandi á hausinn. Maðurinn hefur þráhyggju. Hann verður að vinna. Ekki bara sigra, heldur vinna öllum stundum, nótt og dag, taka sér aldrei frí. Vinnuhólisti dauðans. Sjálfsagt ekkert ósvipuð týpa og Ridley Scott og Russell Crowe.
Jæja, sem krakki fór þessi frekar þunni karakter oft í heimsókn til frænda síns sem hélt úti vígarði einhvers staðar í Frakklandi. Þar ræddi hann og lék heilmikið við kallinn, sem leikinn er af Albert Finney eins og honum væri borgað fyrir að leika hlutverkið, og að sjálfsögðu lærir strákurinn ekki neitt og verður kaldrifjaður bankaræningi, innan frá, en samt löglega, svona næstum. Þú veist.
Jæja, skíthællinn fer til Frakklands þegar gamli frændi deyr til þess eins að hirða arfinn og selja víngarðinn. Málið flækist þegar í ljós kemur að Frakkar hafa fattað þau grundvallarsannindi að fólk skiptir meira máli en peningar, og smám saman lærir bankagreifinn þetta líka. Fer að taka til heima hjá sér. Verður ástfanginn. Fattar að peningar eru ekki allt. Og lifir hamingjusamur til æviloka.
Skíthællinn.
Ég játa að mér stökk bros á vör nokkrum sinnum, en það var yfirleitt þegar Cotillard birtist og framkvæmdi einhverja ómetanlega snilldartakta, eins og að brosa fallega.
Sagan gengur svosem upp, og myndin er fagmannlega gerð, en þarna eru þeir Crowe og Scott langt, langt, langt frá sínu besta.
Samt bíð ég spenntur eftir Hróa Hetti frá þeim félögum, þó að ég þekki þá sögu afturábak og áfram. Eða kannski vegna þess að ég þekki þá sögu afturábak og áfram og vonast samt til að mér verði komið á óvart. Það er nefnilega fátt skemmtilegra en að heyra sömu söguna sagða aftur, sérstaklega ef hún er góð. "A Good Year" var ekkert sérstaklega góð saga.
Kvikmyndir | Breytt 28.1.2010 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Orphan (2009) ***1/2
26.1.2010 | 19:25
Er hægt að búa til vel heppnaða spennumynd um fallega níu ára stúlku sem er í raun ekki falleg níu ára stelpa?
"Orphan" er vel heppnuð spennumynd með frekar hrollvekjandi undirtón, þar sem illmennið er dulbúið sem 9 ára stúlka að nafni Esther (Isabelle Fuhrman), sem laumar sér inn í saklausa fjölskyldu sem munaðarleysingi, og notfærir sér alla þá sálfræðilegu veikleika sem upp geta komið í hjónabandi sem þolað hefur þurft erfiða tíma, til þess eins að drepa þau öll.
John (Peter Sarsgaard) og Kate Coleman (Vera Farmiga) hafa átt erfitt uppdráttar í hjónabandinu eftir að hafa misst barn í móðurkviði. Hvorugt þeirra er fullkomið. Kate er alkóhólisti sem hefur ekki snert vín í heilt ár og þjökuð af sorg vegna barnsins sem dó, og John hefur það vandamál að vera svo yfirmáta venjulegur og skyni skorpinn af skilningi, þrátt fyrir að telja sig leika föðurhlutverkið vel, að maður getur ekki trúað öðru en að þarna sé raunveruleg persóna.
Þau eiga tvö börn fyrir, áður en þau ákveða að ættleiða Esther, soninn Daniel (Jimmy Bennett) sem finnur strax á sér að eitthvað alvarlegt er að þegar Esther kemur inn á heimilið, og dóttirin heyrnarlausa Max (Aryana Engineer) sem áttar sig fljótt á hlutunum en á skiljanlega erfitt með að tjá sig um það. Esther lumar á mögnuðu leyndarmáli sem útskýrir nokkuð vel af hverju öll þessi geðveiki á sér stað.
Leikararnir standa sig allir afburðavel, en leikstjórnin klikkar aðeins með of ýktri notkun á speglum og skrapandi málmhljóðum til að bregða áhorfendum. Það magnar vissulega upp stemmingu, en hefði verið hægt að koma þessu inn án þess að augljóst væri að leikstjórinn léki sér að áhorfendum.
Þrátt fyrir að vera með ansi frumlegan undirtón og góðan leik, er þetta ósköp venjuleg spennumynd, klisja sem hefur verið gerð góð skil á hvíta tjaldinu. Sambærilegar kvikmyndir eru seinni útgáfan af "Cape Fear" þar sem Robert DeNiro og Nick Nolte fóru á kostum, og "Omen" þar sem afkvæmi skrattans tekur upp á að hreiðra um sig meðal manna og drepa fólk í leiðinni.
Mér líkaði við tóninn í myndinni. En það er snjór yfir öllu og svolítið grátt, en með aðeins betri tónlist og hljóðbrellum hefði þessi mynd getað orðið klassísk.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)