Færsluflokkur: Kvikmyndir

Loksins virkar þrívídd í bíó: Meet the Robinsons (2007) ***1/2

Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar til að koma kvikmyndum í þrívídd. Hugmyndin er einföld. Í stað þess að vera meðvitaður um að maður sé að horfa á flatan skjá, er tilfinning um raunverulega fjarlægð endursköpuð; þannig að áhorfandi hafi á tilfinningu að sumir hlutir séu í seilingarfjarlægð en aðrir mjög langt í burtu. Þessi tækni hefur verið þróuð frá því um 1920, en gengið illa að vinna henni brautargengi.

Ég minnist þess þegar ég sá Jaws 3D í Laugarásbíó fyrir allmörgum árum. Þá fékk ég gleraugu úr pappa, annað augað var hulið með rauðum plastfilter, en hitt með bláum. Þetta gekk engan veginn upp. Gleraugun runnu til og ég man eftir að hafa bæði fengið hausverk af þessu og sá fátt merkilegt í þrívíddinni. Samt var ljóst að þessi tækni gæti gengið upp. Við vorum einfaldlega ekki komin nógu langt.

Teiknimyndaveri Disney hefur loks tekist það sem reynt hefur verið að gera frá 1922. Framleidd hefur verið teiknimynd, sérstaklega hugsuð frá upphafi til enda fyrir raunverulega þrívídd. Tæknin styður söguna, og öfugt. Og það sem meira er: þrívíddartæknin er að virka! 

Við fengum Disney 3D gleraugu þegar við keyptum miðana. Þau líta út eins og dökk sólgleraugu, þannig að maður skammast sín ekkert fyrir að hafa þau á nefinu. Þau sitja þægilega, og það sem meira er - þau virka! Ég á ennþá bágt með að trúa því. Ég sá heila kvikmynd í bíó, í þrívídd! Hún var alltaf flott. Ég fékk ekki hausverk. Og ég hef upplifað bíó sem virkar betur en nokkuð sem ég hef áður þorað að vonast eftir. Trúðu mér.

Samt er tæknin ennþá í þróun. Ég var ekki sannfærður þegar hlutir áttu að skjótast hratt í átt að áhorfendum. Aftur á móti var gífurlega gaman að sjá hægfara hreyfingar í þrívídd sem léku sér að augnsviðinu öllu.  Mér fannst sérstaklega vel heppnað hvernig tæknin var notuð til að skapa andrúmsloft. Til að mynd rigndi í nokkrum atriðum. Mér fannst ég vera staddur í rigningunni. Þegar bæði hljóð og mynd sannfæra mann um að maður sé umkringdur regni, er ekki hægt annað en að trúa því. Ég bíð spenntur eftir næsta skrefi með þessari tækni; þá er ég ekki að tala um úðakerfi.

Athugið að hægt er að sjá Meet the Robinsons í tvívídd, en hún er einungis sýnd með þessari nýju tækni í Kringlubíói. 


Meet the Robinsons fjallar um Lewis, dreng sem skilinn er eftir af móður sinni á munaðarleysingjahæli. Hann er gríðarlega greindur og getur fundið upp tæki til að leysa nánast hvaða vandamál sem er. Eitt þeirra er vél sem getur flakkað með minningar einstaklinga um tíma og sýnt á skjá hvað gerðist á ákveðnum tímapunkti einhvern tíma í fortíðinni. Vandamálið sem hann vill leysa með þessu tæki er að hann langar til að rifja upp andlit móður sinnar sem hann sá aðeins þegar hann var ungabarn. Skemmdarvargur með kúluhatt, Michael Yagoobian, kemur úr framtíðinni með tímavél og ætlar sér að eyðileggja framtíðina með því að stela þessari vél.

Það er mikið af eftirminnilegum persónum í Meet the Robinsons, sem flestar leika stutt hlutverk. Íþróttaþjálfari sem tekur eftir öllu, pizzasendill sem minnir á ofurhetju, risaeðla með minnimáttarkennd og sjálft illmennið hann Michael, sem er greinileg eftirmynd Robbie Rotten úr Latabæ.
 

Strákur úr framtíðinni, Wilbur, eltir kallinn með kúluhattinn til nútíðarinnar og varar Lewis við. Lewis trúir honum að sjálfsögðu ekki fyrr en hann hefur fengið sönnun um að tímaflakk sé til, en þegar hann hefur fengið sönnunina er hann strandglópur í framtíðinni með ónýta tímavél. Þannig að nú þurfa þeir félagar að laga tímavélina og koma í veg fyrir að kallinn með kúluhattinn eyðileggi framtíðina.


Á leiðinni hittir Lewis Robinson fjölskylduna, sem er uppbyggð af stórfurðulegum einstaklingum, en öll hafa þau það viðhorf og sannfæringu að mistök séu af hinu góða vegna þess að hægt er að læra af þeim. Góður árangur í fyrstu tilraun er ekki jafn spennandi því að þá er málið bara dautt.

Megin ástæðan til að fara á þessa mynd, og þá í Kringlubíói, er þrívíddin. Sagan og teiknimyndin sem slík eru yfir meðallagi, en eru þó engin snilld. Tæknin er aftur á móti það sem selur Meet the Robinsons Ég er viss um að börn muni dýrka þessa tæknilegu byltingu, og flestir fullorðnir verði svo yfirhrifnir að þeir finni barnið í sjálfum sér, að minnsta kosti stundarkorn.

Myndin er þó nógu góð til að fólk geti haft gaman af henni, hvort sem er í þrívídd eða ekki. 

E.S.  Það eru syngjandi froskar í þessari mynd. Hér er myndband frá YouTube sem sýnir fram á gagnsemi syngjandi froska: 


5. Óskarsverðlaunin: Grand Hotel (1932) ***

Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. Grand Hotel frá 1932 er sú fimmta í röðinni. 

Grand Hotel er drama um líf og örlög fimm manneskja sem fléttast saman þegar þau dvelja á glæsihóteli í einn sólarhring. Líf þeirra allra mun gjörbreytast eftir þennan stutta tíma, vegna þess hver þau eru, hvað þau vilja og hvað þau gera.

Barón Felix von Geigern (John Barrymore) er svikahrappur og þjófur með rómantískt hjarta. Þegar hann laumast inn á hótelherbergi listakonunnar heimsfrægu Grusinskaya (Greta Garbo) til að stela dýrmætri hálsfesti, verður hann þess í stað ástfanginn af þessari fögru en óhamingjusömu konu. Baróninn átti stefnumót, sem hann svíkur, við Flaemmchen (Joan Crawford), fagra stúlku sem starfar sem einkaritari fyrir framkvæmdamanninn moldríka Preysing (Wallace Beery) sem þráir ekkert heitar en að fá einkaritarann í bólið með sér. Inn í söguna fléttast líf hins ólánsama Otto Kringelein (Lionel Barrymore) sem er einn af starfsmönnum Preysing en hefur nýlega fengið að vita að hann sé með krabbamein og eigi stutt eftir ólifað.

Þó að sagan sé áhugaverð á pappírnum nær myndin ekki að koma henni nógu skemmtilega til skila. Greta Garbo og John Barrymore eru skráð sem aðalleikarar, en ofleika bæði.  Joan Crawford, Wallace Berry og þá sérstaklega Lionel Barrymore standa sig vel í sínum hlutverkum.

Grand Hotel fjallar fyrst og fremst um áhrif peninga á líf fólks, hvernig þeir ráða úrslitum í örlögum þess, sama hverjir mannkostir þess eru. Grusinskaya á alltof mikið af peningum og er sama um þá. Preysing er forríkur en vill vera ennþá ríkari. Kringelein hefur safnað alla ævi en vill losna við peninginn áður en hann deyr. Flaemmchen er tilbúin í að selja líkama sinn fyrir peninga. Geigern gerir allt sem hann getur; svíkur, lýgur og prettar, til að fá pening. Og aðeins gestir með peninga geta gist á Grand Hotel.

Allar eru persónurnar að leita eftir breytingu í lífinu, og halda að þær geti náð þessari breytingu fram á einu kvöldi. Grusinskaya er leið á lífinu, en telur sig finna mögulega fyllingu þegar hún verður ástfangin af Geigern baróni. Geigern barón heldur að hann geti leyst öll sín vandamál með því að stela verðmætum, sem hann ætlar síðan að nota til að borga fjárhættuskuldir; en handrukkarar eru á hælum hans sem hóta lífi hans og limum borgi hann ekki fljótlega. Meðal þeirra sem gætu útvegað Geiger baróni pening er Otto Kringelein, sem er nákvæmlega sama um peninga, en vill bara skemmta sér almennilega áður en hann hrekkur upp af. 

Flaemmchen er að leita eftir betri stöðu í lífinu og vonast til að geta bætt erfiða stöðu sína með því að sofa hjá yfirmanni sínum, en Preysing er þreyttur á eigin reglubundna líferni og vill lofta aðeins út með því að sofa hjá Flaemmchen. 

Þessi leit að skyndilausnum endar að sjálfsögðu með ósköpum, og liggur einn hótelgestanna í valnum við sögulok.

Ég mæli með þessari mynd vegna handritsins, sem er vel skrifað; en finnst að það mætti svosem endurgera hana með leikurum eins og Jack Nickolson, Johnny Depp, Robin Williams, Nicole Kidman og kannski Scarlet Johansson.

 

Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:

Wings (1928) **** 

The Broadway Melody (1929) *1/2

All Quiet on the Western Front (1930) ****

Cimarron (1931) ***1/2

 

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

Hot Fuzz (2007) ****

Leikstjórinn Edgar Wright hefur ásamt Simon Pegg og Nick Frost skilið eftir sig slóð frábærrar skemmtunar, en þeir Edgar og Simon skrifa handritin að öllu þeirra efni saman. Fyrst gerðu þeir Spaced, stórfyndna gamanþætti sem léku sér að því að troða stíl bandarískra stórmynda inn í breskan hversdagsleika. Þeir fylgdu þáttunum eftir með Shaun of the Dead, rómantískri gamanmynd með uppvakningum, en þar tengdi hún saman fjölmarga stíla bandarískra Zombie-kvikmynda og annarra hrollvekja, og fléttaði inn í söguþráð af starfsmanni í raftækjaverslun sem lifði það innihaldslausu lífi að hann minnti helst á uppvakning sjálfur. Hinn finnur loks tilgang í lífinu með því að flýja undan og berjast gegn heilaladauðum uppvakningum.

Hot Fuzz tekur aftur á móti fyrir það sérstaka form kvikmynda sem mætti á góðri íslensku kalla löggu- og bófamyndir. Vísanir úr Hot Fuzz í slíkar myndir eru óteljandi, sem dýpkar einfaldlega áhuga minn fyrir kvikmyndargerðarmönnunm. Þegar maður áttar sig á tengslunum koma stundum í ljós hugmyndir sem kitla hláturtaugarnar. Helsti styrkur myndanna eftir þá félaga er að þær fara aldrei út í tóma vitleysu, þó að þær séu kannski byggðar á tómri vitleysu.

Þeir nota ógurlegt magn skota úr öðrum myndum. Til dæmis gera þeir svolítið skemmtilegt grín að Michael Bay og John Woo skotum. Simon Pegg hefur Bruce Willis og Chow Yun Fat taktana á hreinu, það eru atriði þarna beint úr Kill Bill, Bad Boys, The Killer, Point Break, The Frighteners, Bad Taste, Twin Peaks, The French Connection, Beverly Hills Cop, Scream, Dirty Harry myndunum, Spaghetti vestrum Sergio Leoni; og þannig má lengi telja, reyndar svo lengi að mig langar helst að hlusta á greiningu frá þeim Edgar Wright og Simon Pegg sjálfum.

Nicholas Angel (Simon Pegg) er ofurlögga í London. Hann handtekur 400% fleiri glæpamenn en venjuleg lögga, er snillingur með skotvopn, hefur ályktunargáfu á við Sherlock Holmes (eða Ace Ventura Pet Detective), getur keyrt eins og Popey Doyle í French Connection; er vinsæll meðal fólksins þar sem hann heldur öllu í röð og reglu; en er öfundaður af starfsfélögunum sem finnst hann setja alltof há viðmið, sem þeir geta ómögulega fylgt eftir. Þess vegna er Angel hækkaður í tign og sendur gegn hans vilja til lítils landsbyggðarþorps sem hefur í mörg ár verið valið besta þorp Englands, enda hefur ekkert markvert gerst þar í tuttugu ár. Það er friðsælla en friðsælustu þorp geta verið. Aftur á móti er slysatíðnin í þorpinu frekar há.


Fólk á það til að deyja af slysni við ólíklegustu aðstæður, og engan virðist gruna að eitthvað skuggalegt gæti verið á seyði, nema Angel. Hann fær lögreglumanninn Danny Butterman (Nick Frost) sem starfsfélaga, þybbinn og vinalegan gaur sem getur ekki beðið eftir að komast í spennandi kringumstæður. Hann biður Angel stöðugt um að segja sér sögur frá ævintýrum hans í London, og brátt verða þeir félagar hinir mestu mátar.

En þegar líkin fara að hrannast upp í þessu vinalega þorpi, rétt fyrir úttekt frá þeim sem mæla bestu þorpin, kemst Angel á snoðir um samsæri sem ógnar orðspori bæjarins. Hann grunar að verslunareigandinn Simon Skinner (Timothy Dalton) hafi eitthvað gruggugt í pokahorninu, og ákveður að rannsaka málið upp á eigin spýtur þegar blaðamaður er myrtur á subbulegan hátt. Hann reynir að fá rannsóknarlögreglumenn bæjarins í lið með sér, en þeir gera bara grín að honum, halda að hann sé að missa vitið þar sem að aldrei hafi nokkuð gerst í þessum bæ á meðan þeir hafa starfað þar.

Þemað sem liggur undir niðri er líka stórsnjallt, en það snýst um hversu hættulegar öfgar, forsjárhyggja, fasismi og nytjahyggja geta verið, þegar hópur venjulegs fólks kemur saman og myndar stjórnmálaafl sem ekki er tilbúið til að hlusta á andstæð sjónarmið. Þetta minnir mig svolítið á öfgarnar sem maður hefur verið að heyra fyrir kosningabaráttuna hjá einstaklingum úr sumum flokkum, sem hafa sannfært mig um að kjósa þá ekki. Róttækir og öfgafullir feministar, umhverfisstjórnun sem miðar að því að stoppa vöxt fyrirtækja, bætt útlit umhverfisins á kostnað annarra gilda, vanhæfni og heimska - allt passar þetta inn í það sem Hot Fuzz gagnrýnir á frekar smekklegan en jafnframt blóðugan hátt.  

Ég mæli sterklega með Hott Fuzz fyrir alla þá sem gaman hafa af spennumyndum og fylgjast eitthvað með kvikmyndagerð. Viðkvæmum gæti þótt hún of ógeðsleg, jafnvel viðbjóðsleg, á köflum, og nokkuð ljóst að hún er ekki ætluð hverjum sem er. Það munu ekki allir fatta þennan húmor, en þeir sem gera það, eiga eftir að koma af sýningunni uppfullir af svolítið óhreinni ánægju. 

Ég fór út af myndinni skælbrosandi og var farið að verkja í brosvöðvana klukkustundu síðar. 

Kíktu á sýnishorn úr Hot Fuzz:



Smelltu hér til að lesa gagnrýni um miklu fleiri kvikmyndir.

Tónleikar Sir Cliff Richard 28.3.2007

2006c_cover Það var um miðjan áttunda áratuginn að söngvamyndin “Summer Holiday” var sýnd á Ríkissjónvarpinu. Ég tók hana upp á spólu, en systir mín komst yfir hana og spilaði nánast daglega næstu árin. Hún er ennþá með alla textana á hreinu.

Fyrr í vetur var mér boðið að fara með fjölskyldu minni á tónleika með Cliff Richard. Ég var fljótur að segja “Nei, takk,” enda datt mér ekki í hug að borga um kr. 12.000 til að sjá kallinn á sviði. Þó að hann hafi átt nokkur fín lög, þá var ég langt frá því að leita þau uppi og kallast aðdáandi. Þá setti bróðir minn fram boð sem ég einfaldlega gat ekki hafnað. Hann bauðst til að borga brúsann. Ég var samt efins, en samþykkti að lokum að skella mér með.

Af þessu tilefni gaf ég foreldrum mínum diskinn “Cliff Richard - Two’s Company: The Duets,” í jólagjöf, en hann kom út fyrir áramót. Síðan gaf ég þeim safndisk með gaurnum, en móðir mín hefur alltaf verið mikill aðdáandi.

Cliff Richard hefur verið að frá því á dögum Elvis Presley og Bítlanna. Þá var hann stjarna. Hann er það enn í dag fyrst hann fyllti Laugardalshöllina.

Komið var að kvöldinu mikla, og ég gat varla stillt mig af tilhlökkun, því að daginn eftir myndi ég fara á forsýningu kvikmyndarinnar Hot Fuzz, eftir þá sömu og gerðu snilldarsjónvarpsþættina Spaced og rómantísku uppvakningagrínmyndina Shawn of the Dead. Mig hlakkar enn til, því ég fer á Hot Fuzz núna á eftir.

cliffrEn hvað um það. Fjölskyldan fór út að borða á Red Chili. Þar fékk ég mér Chicken Fajitas, eða það sem á spænsku kallast Fajitas de pollo, en það sem kom mér helst á óvart var að maturinn bragðaðist meira eins og austurlenskur réttur en mexíkóskur, þar sem að kjúklingurinn hafði legið í súrsætri sósu. Hrísgrjón fylgdu með og ég er ekki frá því að tortillabrauðið hafi verið búið til úr hrísgrjónadeigi.

Maturinn var samt mjög góður.

Við gengum frá Suðurlandsbraut að Laugardalshöllinni. Cliff byrjaði á mínútunni átta - engin upphitun, ekkert svoleiðis, bara Cliffarinn sjálfur mættur á sviðið. Hann er fæddur 14. október árið 1940 og er því kominn á besta aldur. Í stað þess að birtast á sviðinu, hægfara og skakkur eins og hrum gamalmenni eiga að haga sér, gaf hann náttúrulögmálunum byrginn, stökká sviðið, dillaði sér eins og unglingur og hélt slíku fjöri í næstum þrjár klukkustundir.

Cliff Richard  hafði ekki tapað flauelsmjúkri röddinni, né sjarmerandi brosinu. Á milli laga sagði hann stuttar sögur og blandaði smá heimspekilegum pælingum inn á milli, sem voru það góðar að ég gat varla beðið eftir að lögunum lyki til að ég gæti hlustað á manninn.


Þegar Cliff flutti "Summer Holiday" ætlaði allt að verða vitlaust í Höllinni!

Frammistaða Cliff Richard og hljómsveitar var afar góð. Þó að áhorfendur, sem margir voru komnir á efri árin, hafi oft verið svoleitið sein til að klappa (vegna gigtar hélt systir mín elskuleg fram), þá sýndu þeir kappanum mikinn stuðning, og var ljóst að flestum í salnum leið bara nokkuð vel. Ég hefði þó sjálfsagt litið nokkuð oft á klukkuna ef ég hefði tekið hana með, en það er meira vegna eigin áhuga en ágæti þeirra sem á sviðinu voru.

Upp komu nokkrir skemmtilegir atburðir sem gaman væri að segja frá. Samt er þetta kvöld í þannig móki að áreiðanleika þess sem ég upplifði má svosem draga í efa.

Fyrst og fremst, þá dáðist ég að fagmennsku Cliff Richard, og hversu vel hann flutti lögin sín. Það var eftirtektarvert hversu tignarlegur hann er og fullur virðingar. Í ræðum hans milli söngatriða hafði maður á tilfinningu að þar færi maður sem ber mikla virðingu fyrir heilindum eins og hreinskilni, trúfestu, samkvæmni og slíku. Þarna var dygðugur maður á sviðinu, gott fordæmi, sem er mjög sjaldgæft að sjá meðal vinsælla skemmtikrafta. Vel útreiknaðir mjaðmahnykkir hans og dansspor komu mér einnig á óvart, og skammaðist ég mín nánast fyrir að viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég hefði ekki haldið út klukkutíma sjálfur á því tempói sem kallinn var á.

Það voru einhverjar grúppíur uppi við sviðið, sem köstuðu til hans rósum, en hann týndi þær samviskusamlega upp og fleygði þeim undir borð. Einnig kastaði einhver hvítri peysu upp á sviðið. Eða það hélt ég þar til útskýrt var fyrir mér að það væri hefð fyrir því að kvenkyns aðdáendur kappans köstuðu nærfatnaði upp á svið til hans. Miklir aðdáendur þar.


Hér flytur Cliff Richard 'Congratulations' í Eurovision árið 1968, en hann tók þetta lag í Laugardalshöll við mikinn fögnuð áheyrenda, sem létu ekki sitt eftir liggja og sungu með.

Ræður Sir Cliff voru góðar. Sérstaklega fannst mér áhugavert þegar hann bar saman tónlistarbransann frá því að hann byrjaði og þess sem er að gerast í dag. Hann minntist fyrst á að tækninni hefði fleygt það ógurlega fram að nú væri hægt að gera nánast hvað sem er í stúdíói fyrir frekar lítinn pening. En svo minntist hann á hvernig bisnessinn hafði breyst; að í dag birtust margar ungstjörnur, brunnu hratt út og væru horfnar alltof fljótt. Hann sagði frá því þegar hann var að byrja, að fyrsta lagið hans náði 2. sæti á vinsældarlista - en önnur lög á næstu plötum náðu ekki nálægt því jafn góðum árangri - og sífellt virtust vinsældir hans dala. En framleiðandinn hvatti hann áfram og loks á fimmtu plötu náði hann 1. sæti í fyrsta sinn. Hann hélt því fram að framleiðendur nútímans gæfust of fljótt upp á þeim sem næðu ekki alltaf toppárangri, og það væri miður.

Einnig talaði hann svolítið um ástina og lífið; að ástin væri stundum erfiðari en lífið sjálft, þar til að maður áttaði sig á því að ástarsambönd - sama hvernig þau færu, væru vel þess virði að upplifa þau, - þau væru aldrei mistök, mistök væru ekki til þegar ástin væri annars vegar, heldur að brestir komi á ástarsambönd sem við mannfólkið ráðum ekkert við - og þá væri ekkert betra en að læra á þeirri erfiðu kennslustund sem við upplifum eftir slík rof. Ég hef á tilfinningunni að Cliff hafi brennt sig illilega á ástinni snemma á lífsleiðinni.

Ég sé ekki eftir að hafa farið.


Söngvari syngur með þremur eða fjórum röddum í einu!


Vinnufélagi minn sendi mér þetta í dag. Hugsanlega hefur þetta gengið lengi á netinu, en þetta kom mér sannarlega í gott skap og er tengt síðustu færslu minni: You-Tube verðlaunin: myndböndin og örstuttar umsagnir þannig að ég ákvað að leyfa þessu að fljóta.
 
Þetta myndband er hrein snilld! 
 
Ég reikna með að þetta sé úrtökukeppni fyrir franska ædolið, en hér kemur keppandi sem slær allt út sem maður hefur nokkurn tíma séð eða heyrt. 
 
Takið eftir hvað dómarinn lengst til hægri er undrandi yfir þessu, og segist hafa talið þrjár eða fjórar raddir koma frá manninum á sama augnabliki. Þetta er náttúrulega ekkert annað en hrein snilld. 

You-Tube verðlaunin: myndböndin og örstuttar umsagnir

You-Tube verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn í gær, en You-Tube er vefsíða þar sem notendur hvar sem þeir eru staddir í heiminum, geta deilt myndböndum með öðrum netverjum. Þetta er orðin gífurlega vinsæl þjónusta og hefur reynst hæfileikaríkum einstaklingum góður stökkpallur til frægðar, þar sem að ekki er nauðsynlegt að borga margar milljónir til að geta verið svolítið fyndinn, frumlegur, frábær og duglegur. 

Þrefalt húrra fyrir JúTjúb!

 

Frumlegasta myndbandið:  OK Go - Here It Goes Again

Tónlistarmyndband með fjórum gaurum á göngubrettum. Frekar hressandi að horfa á þetta. Happy

Stjörnugjöf Donsins: *** 

Fyndnasta myndbandið: Smosh Short 2: Stranded

Ég verð að viðurkenna að ég næ ekki alveg þessum húmor. Crying

Stjörnugjöf Donsins: **



Besta frásögnin: Hotness Prevails / Worst Video Ever

Þessi er ótrúlega fyndinn. "I don't even know what a dog smells like."
"I'm the naked Internet Guy!"
Wizard

Svolítið langt. 8 mínútur og 20 sekúndur en vel þess virði.

Stjörnugjöf Donsins: ****



Besta þáttaröðin: Ask A Ninja: Special Delivery 1 "What is Podcasting?"

Ég hef mikið heyrt talað um þessa þætti sem þykja ógurlega vel heppnaðir. Þeir ganga út á það að áhorfendur geta spurt hvaða spurninga sem er, síðan birtist náungi klæddur í Ninja búning og útskýrir á fyndinn, skemmtilegan og skýran hátt hvað fyrirbærið er, með töluverðum útúrsnúningum þó, sem gerir þetta bara enn betra. Ninja

Stjörnugjöf Donsins: ****

Besta tónlistarmyndbandið: Say It's Possible

Einfalt, gott og virkilega vel flutt. Stórgott lag! Betra en öll íslensku Eurovisionlögin til samans. Whistling

Stjörnugjöf Donsins: ****



Besta íhugunin: Free Hugs Campaign (tónlist eftir Sick Puppies og kemur út 3. apríl)

Minnir á mikilvægi mannlegrar snertingar á skemmtilegan hátt.  Minnir mig á hvað erfitt getur verið að knúsa Íslendinga, en ég vandist á þennan sið í Mexíkó, og sé eftir honum. InLove

Stjörnugjöf Donsins: ***



Sætasta myndbandið: Kiwi!

Vel gerð og frumleg teiknimynd um ráðríkan og vinnusaman fugl, sem dreymir um að vera eitthvað sem hann er ekki. Þetta er eins og ljóð sem hver og einn má túlka á sinn hátt. Ætli megi ekki segja að þetta örstutta myndband fjalli um frelsið sem við getum búið okkur til, en að við megum búast við alvarlegum afleiðingum í staðinn. Woundering

Mikil snilld! 

Stjörnugjöf Donsins: ****



Gaman að þessum myndböndum. Sjálfur er ég spenntastur yfir því hvort að mér takist að setja myndböndin á bloggsíðuna svo að þetta komi sæmilega út fyrir lesendur mína.

Apocalypto (2006) ***1/2

Apocalypto01Apocalypto er meðal betri spennumynda sem gerðar hafa verið. Hún gerist í fornum frumskógum Maya þjóðflokksins í Guatemala og Mexíkó, lítur út fyrir að hafa gerst fyrir um 1000 árum, en í lokaatriði myndarinnar kemur í ljós að hún gerðist aðeins fyrir um 500 árum.

Jaguar Paw (Rudy Youngblood) er ungur hrekkjalómur sem gaman hefur af að gantast með félögum sínum. Meðal annars leggja þeir bróður hans, Blunted (Jonathan Brewer) stöðugt í einelti, og á meðan sá síðarnefndi þjáist mikið fyrir það, hafa hinir bara gaman af.

Jaguar Paw á ólétta eiginkonu, Seven (Dalia Hernandez) og ungan son, Turtles Run (Carlos Emilio Baez). Þegar stærri og illvígari hópur stríðsmanna ræðst inn í þorpið hefst barátta upp á líf og dauða, sem endar með því að flestir þorpsbúar eru teknir í þrældóm, Seven og Turtle Run, sem Jaguar Paw tókst að fela í djúpum brunni áður en hann sjálfur var handsamaður. Vandamálið er að þau komast ekki úr brunninum og þegar rigningartímabilið hefst mun hann fyllast af vatni og drekkja þeim.

Jaguar Paw hefur því skýrt verkefni fyrir höndum: fyrst þarf hann að losna úr þrældómnum og komast síðan heim til að bjarga Seven og Turtles Run áður en þau verða villidýrum, hungri eða rigningu að bráð.

Hópur þeirra handsömuðu er leiddur inn í forna borg Mayanna, þar sem ætlunin er ekki að nýta fólkið til vinnu, heldur einfaldlega fórna þeim til að halda guðunum rólegum. Með guðlegri forsjón eða ótrúlegri heppni tekst Jaguar Paw að brjótast úr hlekkjum óvinarins og í leiðinni drepa son foringja þessa illa herflokks; en faðirinn tryllist og sver þess eið að elta Jaguar Paw uppi og drepa þó að það verði hans síðasta verk.

Þannig hefst æsispennandi eltingarleikur um frumskóginn, þar sem villidýr, náttúruöfl og klókindi og ástríða Jaguar Paw leika aðalhlutverkið. Eltingarleikurinn er vel kvikmyndaður og spennandi, sem og sagan öll.

Apocalypto02Apocalypto snýst að miklu leyti um heimsku og fordóma fólks sem tilbúið er að fórna saklausum lífum til þess eins að setja sjálfa sig á hærri stall en aðrir. Þeir sterku ráðast á þá veikari til þess eins að gera lítið úr þeim. Þannig má segja að meginþema Apocalypto sé einelti. 

Í upphafi myndar er Jaguar Paw sá sterki sem leggur þann veikari í einelti, en síðan kemur sterkari aðili á svæðið og leggur Jaguar Paw í einelti. Fórnarlamb Jaguar Paw lét niðurlægja sig og tók þessu með harmi og í þögn. Jaguar Paw aftur á móti berst á móti og gerir allt sem í hans veldi stendur til að láta ekki vaða yfir sig. Hann heldur virðingu sinni með því að berjast fyrir því sem hann elskar.

En síðan í lok myndarinnar, þegar evrópsk skip birtast í fjörunni, er nokkuð ljóst að ennþá sterkari aðili er kominn til sögunnar - einhver sem á eftir að leggja viðkomandi þjóð í einelti næstu 500 árum. Spurning hvort að stríð snúist stundum um þetta mál fyrst og fremst?

Getur verið að helsta ástæðan fyrir stríði tveggja ríkja sé sú að önnur þjóðin telur sig sterkari en hina og vill sanna það til að setja sig á hærri stall? Er stríð bara einelti þar sem huglausar sálir ráðast með miklu afli á þá veikari vegna þess að þeir trúa ekki að þeir veiku geti svarað fyrir sig?

Hvað gerist þá þegar hetjur eins og Jaguar Paw verða fyrir barðinu á hervaldinu, hetjur sem gefast ekki upp og finna ótal leiðir til að berjast á móti því þeir þekkja heimavöllinn eins og lófann á sér?

calendar_maya

Apocalypto er stórgóð skemmtun og flutt á fornu tungumáli Maya, sem er ekki mállýska eins og sumir vilja halda fram, heldur heilt tungumál sem kennt er í skólum á Yucatanskaganum. Enn þann dag í dag talar fjöld fólks Maya, en tungumálið á í vök að verjast þar sem að fólk nær ekki langt kunni það ekki spænsku. Stjórnvöld í Yucatan berjast fyrir að halda tungumálinu á lífi, og styðja vel við fræðimennsku tengdri því, auk þess að sendir eru út kennsluþættir í sjónvarpi um Maya málið. Fyrir þetta landsvæði hefur Apocalypto mikla þýðingu. Hún er viðurkenning á tungumáli sem á í stríði við fjölþjóðamenningu nútímans.

Þessi gagnrýni er skrifuð sem svar við skrifum Davíðs Loga Sigurðssonar: Apocalypto: gölluð söguskýring?

 


4. Óskarsverðlaunin: Cimarron (1931) ***1/2

Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. Cimarron frá 1931 er sú fjórða í röðinni.

Cimarron02

Hinn ævintýraþyrsti Yancey Cravat (Richard Dix) tekur þátt í Oklahoma kapphlaupinu um landskika árið 1889. Hann nær ekki landinu sem hann ætlaði sér, því hann tefst við að hjálpa konu úr ógöngum. Sú kona svíkur hann og hrifsar landið til sín, og byggir síðan vændishús á staðnum sem hann hafði dreymt um fyrir fjölskyldu sína. 

Yancey er kvæntur Sabra (Irene Dunne) og eiga þau saman kornungan son. Þau hafa komið sér fyrir í borg. Eiga nóg af pening og gætu lifað þar í friði til æviloka. Slíkt líf stríðir hins vegar gegn persónuleika Yancey. Hann vill vera þar sem hlutirnir eru að gerast, og ekki bara það - hann vill verja miðjan og áhrifavaldur, þar sem að fæstir vilja vera, í hringiðu breytinga og vandamála. En hann þráir að berjast fyrir frelsi og réttlæti, og þá ekki bara fyrir sinn vinahóp, heldur fyrir alla. Þrátt fyrir þessar miklu hugsjónir þjáist Yancey af því sem kalla mætti rótleysi.

Cimarron07

Yancey flytur fjölskyldu sína í glænýjan landnemabæ, Osage, sem breytist úr eyðimörk í 10.000 manna bæ á sex vikum. Yancey er lögfræðingur að mennt, en ákveður að setja á laggirnar dagblað; þar sem markmið hans er að leita sannleikans og síðan berjast réttlæti. 

Þegar hann kemst skuggalega nálægt því að leysa morðgátu og hefur ákveðið að ljóstra upp um hver morðinginn er, leggur hann eigið líf og annarra í hættu; en tekst að leysa málið með skammbyssum, á meðan hann flytur fagnaðarerindið fyrir fullu húsi.

Yancey, rétt eins og Lukku Láki, er skjótari en skugginn að skjóta. Hann útrýmir til að mynda glæpagengi í miklum byssubardaga á götum bæjarins. Það sem gerir þetta erfitt fyrir hann er að meðlimir í genginu eru gamlir vinir hans, sem rötuðu ekki rétta leið í lífinu. Hann drepur þá ekki án samúðar.

Cimarron17Þetta ofurmenni er samt alls ekki gallalaust. Hann lifir fyrir hugsjónir sínar, en getur ómögulega gefið sig fjölskyldu sinni. Hann er einfaldlega þannig gerður að hann getur aldrei verið kyrr á einum stað í langan tíma, rétt eins og kindahjörð sem sífellt þarf að leita eftir betra æti annars staðar.

Sabra tekur að sér ritstjórn dagblaðsins sem Yancey stofnaði, þegar hann ákveður að halda út í heim og berjast fyrir réttlæti og frelsi einhvers staðar fjarri heimaslóðum. Sabra vex stöðugt að virðingu, en sögur um ævintýri Yancey berast henni endrum og eins. Þegar hann kemur aftur í bæinn, nokkrum árum síðar og sér dóttur sína í fyrsta sinn, heyrir hann að Sabra og siðfágaðar konur í bænum hafa ákært vændiskonuna sem í upphafi myndar rændi hann landareigninni fyrir að hafa siðspillandi áhrif á umhverfið. Yancey bregst æfur við og ákveður að verja vændiskonuna gegn eiginkonu sinni, og leggur mikla áherslu á að mannvirðing sé fyrir alla - sama hversu ólánsamir viðkomandi geta verið í lífinu.

Cimarron25

Yancey finnur sér hluti til að berjast fyrir og skellir sér í pólitík. Þegar hann hefur fengið nóg af henni lætur hann sig aftur hverfa, og ekkert spyrst til hans fyrr en mörgum árum síðar þar sem hann drýgir sína síðustu hetjudáð við olíuborun. Hann er hetja samfélagsins en skúrkur eigin fjölskyldu. 

Cimarron er epískur vestri sem skilur mikið eftir sig. Richard Dix og Irene Dunne eru stórgóð í sínum hlutverkum. Sagan er spennandi og djúp. Myndin spannar heil 40 ár í lífi þeirra Yancey og Sabra, og segir um leið frá merkilegri þróun; hvernig landauðn verður að mikilli borg á stuttum tíma.

Ég mæli með Cimarron og finnst hún afar góð skemmtun. Reyndar er hún komin svolítið til ára sinna útlitslega séð og hljóðið ekki jafn skarpt og ef hún væri kvikmynduð í dag. Sagan hefur aftur á móti fullt erindi til samtímans.

 

Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:

Wings (1928) **** 

The Broadway Melody (1929) *1/2

All Quiet on the Western Front (1930) ****

 

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

Um Eurovision: Að vera eða vera ekki búinn að lesa týndan Valentínus úr lófa þínum

Í dag las ég að Kristján Hreinsson, sá sem samdi upphaflega textann við íslenska Eurovision lagið í ár, hafi verið búinn að snúa honum yfir á ensku með tilvísun í Hamlet, en lagið átti að heita í hans þýðingu, "To be or not to be", sem mér finnst nú talsvert áhugaverðara heiti en "Valentine Lost," sem er hryllileg þýðing enda hefur hugtakið "Valentine" nákvæmlega enga þýðingu fyrir okkur Íslendinga. 

Mig langar að gera samanburð á textunum tveimur, svona rétt til gamans: 

Ég les í lófa þínum, leyndarmálið góða
Ég sé það nú, ég veit og skil
Það er svo ótalmargt sem ætla ég að bjóða
Já, betra líf, með ást og yl

Upphafserindið í þýðingu Kristjáns fjallar um von og ást. Hægt er að sjá fyrir sér tvær manneskjur sem í miklum trúnaði tjá ást sína. En stökkvum í ensku þýðinguna á sama erindi:

I’ll let the music play while
love lies softly bleeding
in heavy hands
on shadow lands
As thunder clouds roll the sunset is receding
no summerwine
no Valentine
   

Hér eru aðstæður gjörólíkar. Þarna eigum við að sjá fyrir okkur mynd af ást sem liggur blæðandi í þungum höndum (blönduð myndhverfing sem gengur engan veginn upp), en það er frekar erfitt þar sem að ást er frekar ómyndrænt hugtak. Þannig að ljóst er að þýðingin er strax komin út í eitthvað abstrakt dæmi sem fjallar um tilfinningaflækjur einhvers þungarokkara, á meðan upphaflegi textinn virkar sem ástarjátning tveggja manneskja.

Næsta erindi:

Í lófa þínum les ég það
Að lífið geti kennt mér að
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Það er lítið um þetta að segja, en ljóst er að ástarjátningin er ennþá í gangi og maður finnur að mælandinn hefur sterka þrá til að lifa með elskuðu manneskjunni alla sína ævi. 

Og nú að þýðingunni á sama erindi:

A tiger trapped inside a cage
an actor on an empty stage
Come see the show
Rock and roll can heal your soul
when broken hearts lose all control

Þarna má sjá tígrisdýr lokað inn í búri og athyglissjúkan leikara á auðu sviði, sem vísar svo í sigurvegara síðustu Eurovisionkeppni með að koma inn orðunum 'Rock and roll'. Eina orðið sem kemur í huga mér núna til að lýsa þessu erindi: 'pathetic' - þarna er einhver aumingi að öskra vegna þess að hann fær ekki nóga athygli. Eru menn að missa það?

Kristján: 

Það er svo augljóst nú að allir draumar rætast
Við höldum tvö, um höf og lönd
Um lífið leikum við og lófar okkar mætast
Þá leiðumst við
Já, hönd í hönd

Enn heldur sama mynd áfram, en nú mætast hendurnar sem gætu þá táknað hversu vel þessir tveir einstaklingar passa saman - að ástin sé gagnkvæm og þau vilji bæði vera saman að eilífu.

En nú aftur að þýðingunni:

Some rivers still run dry and jungles burn to embers
gold autumn days
must fade to gray
There is a reason why a haunted man remembers
one frozen night his darkest day

Uppþornuð fljót og brenndir skógar, haust verður að vetri (dauðaminning). Og enn fer mælandinn að vorkenna sjálfum sér og sekkur sér nú í sjálfsvorkun og volæði þegar hann minnist dags þegar enginn vildi vísast hlusta á hann, frekar en núna. Þannig heldur textinn áfram. Á meðan íslenska útgáfan fjallar um ást, von og lífið - er þýðingin um vonleysi, sjálfsvorkun og dauða.

Þegar ég heyrði fyrst ensku útgáfuna náði ég ekki textanum. Núna þegar ég hef náð honum óska ég þess að ég hefði ekki gert það. Hann er nefnilega verri þegar maður botnar í honum en ekki. Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvers vegna ensk þýðing Kristjáns var ekki notuð, þar sem að hann er þátttakandi í gerð upphaflega hugverksins og ekki skyldi gera lítið úr hans hlutverki.

En hér að neðan eru textarnir í heild (vonandi rétt skráðir):

 

 

 

Ég les í lófa þínum (Smelltu hér til að sjá myndband við lagið)

Söngvari: Eiríkur Hauksson
Höfundur lags: Sveinn Rúnar Sigurðsson
Höfundur texta: Kristján Hreinsson

Ég les í lófa þínum, leyndarmálið góða
Ég sé það nú, ég veit og skil
Það er svo ótalmargt sem ætla ég að bjóða
Já, betra líf, með ást og yl

Í lófa þínum les ég það
Að lífið geti kennt mér að
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Það er svo augljóst nú að allir draumar rætast
Við höldum tvö, um höf og lönd
Um lífið leikum við og lófar okkar mætast
Þá leiðumst við
Já, hönd í hönd

Í lófa þínum les ég það
Að lífið geti kennt mér að
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Ég ætla að fara alla leið
Með ást á móti sorg og neyð
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Í lófa þínum les ég það
Að lífið geti kennt mér að
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

Ég ætla að fara alla leið
Með ást á móti sorg og neyð
Ég fæ aldrei nóg
Ég vil fara frjáls með þér
Og fljúga yfir land og sjó

 

Valentine Lost (Smelltu hér til að sjá myndband við lagið)

Söngvari: Eiríkur Hauksson
Höfundur lags: Sveinn Rúnar Sigurðsson
Höfundur texta: Peter Fenner

I’ll let the music play while
love lies softly bleeding
in heavy hands
on shadow lands
As thunder clouds roll the sunset is receding
no summerwine
no Valentine   

A tiger trapped inside a cage
an actor on an empty stage
Come see the show
Rock and roll can heal your soul
when broken hearts lose all control

Some rivers still run dry and jungles burn to embers
gold autumn days - must fade to gray
There is a reason why a haunted man remembers
one frozen night his darkest day

A tiger trapped inside a cage
an actor on an empty stage                 
Come see the show
Rock and roll will heal your soul
when broken hearts lose all control

A passion killed by acid rain
a rollercoaster in my brain

But how would you know
In your satin silk and lace
another time another place
A tiger trapped inside a cage
an actor on an empty stage

Come see the show
Rock and roll will heal your soul
when broken hearts lose all control
A love that loose and painted black
a train stuck on a broken track

I’ll let it go
Rock and roll has healed my soul
the stage is set on with the show       


mbl.is Kristján Hreinsson vill hvorki játa né neita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimildamynd: Lost in La Mancha (2002) ****

LostInLaMancha01

Um daginn var ég á vappi í London. Í Virgin Megastore sá ég áhugaverða DVD mynd. Hét hún Lost in La Mancha, og fjallaði samkvæmt kápunni um misheppnaða tilraun Terry Gilliam til að kvikmynda söguna The Man Who Killed Don Quixote. Einhvern tíma hafði ég heyrt eitthvað um þetta mál, en fannst það nógu áhugavert til að kaupa diskinn. Ég sé ekki eftir þeim kaupum.

Í síðustu viku horfði ég á Brazil eftir Terry Gilliam, og er eiginlega búinn að koma mér í hálfgerðan Gilliam ham. Mig langar að horfa á fleiri myndir eftir hann á næstunni, án þess þó að sleppa vikulegum pistli mínum um Óskarsverðlaunamyndir frá upphafi. Ég var í stuði til að horfa á þessa heimildarmynd.

LostInLaMancha03

Þegar hér er komið sögu, árið 2000, hefur Gilliam verið með söguna um Don Quixote í kollinum og haft áhuga á að kvikmynda hana. Hann skrifaði handritið The Man Who Killed Don Quixote ásamt Tony Grisoni, sem hefur, samkvæmt þeim sem hafa lesið það, þvílíkan húmor og dýpt að það jafnast á við aðrar Gilliam myndir og er byggt á það traustu efni að menn eiga von á miklu meistaraverki þegar og ef honum tekst að ljúka við hana. Johnny Depp átti að leika leikstjóra í auglýsingum, sem var að gera auglýsingu með vísun í Don Quixote, en leikstjóri þessum er varpað inn í tíma og sögusvið Don Quixote, og tekur við hlutverki Sancho Panza. 

Þessi heimildarmynd fjallar um hvernig Gilliam verður fyrir hverju áfallinu á fætur öðru og fær engu við ráðið, þrátt fyrir að hann hafi verið með allt sitt á hreinu. Fyrst lendir hann í því að einn þeirra sem fjárfesti í kvikmyndinni var hálfgerður þýskur Don Quixote, hafði lofað um 18 milljónum dollara en gaf ekki neitt. Gilliam tekst að koma saman glæsilegum leikmyndum, búið er að sauma flotta búninga, búið er að ráða leikara og velja tökustaði á Spáni; en þá fer ólánið að elta hann.

LostInLaMancha04

Stúdíóið sem tengiliðir hans á Spáni höfðu fundið fyrir hann var verksmiðja með hræðilegum hljómburði, tökustaðir í náttúrunni voru rétt við NATO flugstöð og á meðan tökur stóðu var sprengjum varpað úr F16 flugvélum, og þær flugu hjá með svo mikilli tíðni að ekki var hægt að taka upp hljóð. Þá skall á undarlegur bylur, sem engin veðurspá hafði gert ráð fyrir, með rigningu og élum á stærð við tennisbolta, og í kjölfarið fylgdi flóð sem eyðilagði mikið af tökubúnaðinum. Og ekki nóg með það, einn af aðalleikurum myndarinnar, sá sem átti að leika Quixote sjálfan, Jean Rochefort, fékk ristilsýkingu, og átti í fyrstu erfitt með að sitja á hestbaki en þurfti síðan að leggjast inn á spítala. Með fráhvarfi hans hrundi verkefnið, þrátt fyrir að allir leikarar voru tilbúnir að fara heim, slá verkinu á þriggja mánaða frest og taka á sig tapið, en tryggingafélagið sem tryggði myndina ákvað að gera handrit myndarinnar upptækt fyrir allt tjónið sem þeir höfðu þurft að borga. Því varð verkið veruleikans bráð.

LostInLaMancha06

Þessi harmsaga um Terry Gilliam er sögð með þeirri von að honum takist einhvern daginn að ljúka myndinni um manninn sem drap Don Quixote.

Samkvæmt Wikipedia, heldur Gilliam áfram að berjast fyrir draumum sínum og tókst loks í fyrra að kaupa aftur handritið af tryggingarfélaginu þýska. Johnny Depp er ennþá spenntur fyrir að leika í myndinni, en líklegt er að þurfi að finna einhvern annan til að leika Don Quixote de La Mancha, enda Jean Rochefort kominn á aldur.

LostInLaMancha02

Þetta eru góðar fréttir og maður getur ekki annað en vonað það besta og beðið spenntur eftir að þessi mynd verði að veruleika, því að þetta er sú kvikmynd sem Gilliam þráir að gera meira en nokkuð annað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband