5. Óskarsverðlaunin: Grand Hotel (1932) ***

Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. Grand Hotel frá 1932 er sú fimmta í röðinni. 

Grand Hotel er drama um líf og örlög fimm manneskja sem fléttast saman þegar þau dvelja á glæsihóteli í einn sólarhring. Líf þeirra allra mun gjörbreytast eftir þennan stutta tíma, vegna þess hver þau eru, hvað þau vilja og hvað þau gera.

Barón Felix von Geigern (John Barrymore) er svikahrappur og þjófur með rómantískt hjarta. Þegar hann laumast inn á hótelherbergi listakonunnar heimsfrægu Grusinskaya (Greta Garbo) til að stela dýrmætri hálsfesti, verður hann þess í stað ástfanginn af þessari fögru en óhamingjusömu konu. Baróninn átti stefnumót, sem hann svíkur, við Flaemmchen (Joan Crawford), fagra stúlku sem starfar sem einkaritari fyrir framkvæmdamanninn moldríka Preysing (Wallace Beery) sem þráir ekkert heitar en að fá einkaritarann í bólið með sér. Inn í söguna fléttast líf hins ólánsama Otto Kringelein (Lionel Barrymore) sem er einn af starfsmönnum Preysing en hefur nýlega fengið að vita að hann sé með krabbamein og eigi stutt eftir ólifað.

Þó að sagan sé áhugaverð á pappírnum nær myndin ekki að koma henni nógu skemmtilega til skila. Greta Garbo og John Barrymore eru skráð sem aðalleikarar, en ofleika bæði.  Joan Crawford, Wallace Berry og þá sérstaklega Lionel Barrymore standa sig vel í sínum hlutverkum.

Grand Hotel fjallar fyrst og fremst um áhrif peninga á líf fólks, hvernig þeir ráða úrslitum í örlögum þess, sama hverjir mannkostir þess eru. Grusinskaya á alltof mikið af peningum og er sama um þá. Preysing er forríkur en vill vera ennþá ríkari. Kringelein hefur safnað alla ævi en vill losna við peninginn áður en hann deyr. Flaemmchen er tilbúin í að selja líkama sinn fyrir peninga. Geigern gerir allt sem hann getur; svíkur, lýgur og prettar, til að fá pening. Og aðeins gestir með peninga geta gist á Grand Hotel.

Allar eru persónurnar að leita eftir breytingu í lífinu, og halda að þær geti náð þessari breytingu fram á einu kvöldi. Grusinskaya er leið á lífinu, en telur sig finna mögulega fyllingu þegar hún verður ástfangin af Geigern baróni. Geigern barón heldur að hann geti leyst öll sín vandamál með því að stela verðmætum, sem hann ætlar síðan að nota til að borga fjárhættuskuldir; en handrukkarar eru á hælum hans sem hóta lífi hans og limum borgi hann ekki fljótlega. Meðal þeirra sem gætu útvegað Geiger baróni pening er Otto Kringelein, sem er nákvæmlega sama um peninga, en vill bara skemmta sér almennilega áður en hann hrekkur upp af. 

Flaemmchen er að leita eftir betri stöðu í lífinu og vonast til að geta bætt erfiða stöðu sína með því að sofa hjá yfirmanni sínum, en Preysing er þreyttur á eigin reglubundna líferni og vill lofta aðeins út með því að sofa hjá Flaemmchen. 

Þessi leit að skyndilausnum endar að sjálfsögðu með ósköpum, og liggur einn hótelgestanna í valnum við sögulok.

Ég mæli með þessari mynd vegna handritsins, sem er vel skrifað; en finnst að það mætti svosem endurgera hana með leikurum eins og Jack Nickolson, Johnny Depp, Robin Williams, Nicole Kidman og kannski Scarlet Johansson.

 

Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:

Wings (1928) **** 

The Broadway Melody (1929) *1/2

All Quiet on the Western Front (1930) ****

Cimarron (1931) ***1/2

 

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mikið rosalega er gaman að lesa síðuna þína og þvílík snilldarhugmynd að horfa á allar Óskarsverðlaunamyndirnar! Gaman að sjá Evróvisjónmyndbandið með Cliff, franska Idol-gaurinn með allar raddirnar og umsagnir um bíómyndir. Takk kærlega fyrir mig!

Guðríður Haraldsdóttir, 2.4.2007 kl. 00:16

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þetta, Guðríður.

Hrannar Baldursson, 2.4.2007 kl. 00:19

3 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Snjallt að horfa á allar Óskarsmyndirnar, en það verður að hafa í huga að stundum ræður pólitíkin för og það kemur ósjaldan í veg fyrir að besta myndin hljóti Óskar sem besta myndin. Nýlegt dæmi er The Departed sem fráleitt er besta myndin, en ástæðan fyrir því að hún fékk styttuna er sú að leikstjórinn hafði ekki fengið hana áður, ef ég man rétt. Engu að síður góð fyrirætlan og ég segi: Góða skemmtun.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 4.4.2007 kl. 10:13

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þetta Sigurgeir. Ég er þér innilega sammála með The Departed og er meðvitaður um að þetta eru oft kosningar um vinsældir og viðurkenning á aldri og fyrri störfum frekar en dómur um mestu gæði. Ég gagnrýndi einmitt myndina í febrúar: The Departed (2006) ***

Hrannar Baldursson, 4.4.2007 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband