Heimildamynd: Lost in La Mancha (2002) ****

LostInLaMancha01

Um daginn var ég á vappi í London. Í Virgin Megastore sá ég áhugaverða DVD mynd. Hét hún Lost in La Mancha, og fjallaði samkvæmt kápunni um misheppnaða tilraun Terry Gilliam til að kvikmynda söguna The Man Who Killed Don Quixote. Einhvern tíma hafði ég heyrt eitthvað um þetta mál, en fannst það nógu áhugavert til að kaupa diskinn. Ég sé ekki eftir þeim kaupum.

Í síðustu viku horfði ég á Brazil eftir Terry Gilliam, og er eiginlega búinn að koma mér í hálfgerðan Gilliam ham. Mig langar að horfa á fleiri myndir eftir hann á næstunni, án þess þó að sleppa vikulegum pistli mínum um Óskarsverðlaunamyndir frá upphafi. Ég var í stuði til að horfa á þessa heimildarmynd.

LostInLaMancha03

Þegar hér er komið sögu, árið 2000, hefur Gilliam verið með söguna um Don Quixote í kollinum og haft áhuga á að kvikmynda hana. Hann skrifaði handritið The Man Who Killed Don Quixote ásamt Tony Grisoni, sem hefur, samkvæmt þeim sem hafa lesið það, þvílíkan húmor og dýpt að það jafnast á við aðrar Gilliam myndir og er byggt á það traustu efni að menn eiga von á miklu meistaraverki þegar og ef honum tekst að ljúka við hana. Johnny Depp átti að leika leikstjóra í auglýsingum, sem var að gera auglýsingu með vísun í Don Quixote, en leikstjóri þessum er varpað inn í tíma og sögusvið Don Quixote, og tekur við hlutverki Sancho Panza. 

Þessi heimildarmynd fjallar um hvernig Gilliam verður fyrir hverju áfallinu á fætur öðru og fær engu við ráðið, þrátt fyrir að hann hafi verið með allt sitt á hreinu. Fyrst lendir hann í því að einn þeirra sem fjárfesti í kvikmyndinni var hálfgerður þýskur Don Quixote, hafði lofað um 18 milljónum dollara en gaf ekki neitt. Gilliam tekst að koma saman glæsilegum leikmyndum, búið er að sauma flotta búninga, búið er að ráða leikara og velja tökustaði á Spáni; en þá fer ólánið að elta hann.

LostInLaMancha04

Stúdíóið sem tengiliðir hans á Spáni höfðu fundið fyrir hann var verksmiðja með hræðilegum hljómburði, tökustaðir í náttúrunni voru rétt við NATO flugstöð og á meðan tökur stóðu var sprengjum varpað úr F16 flugvélum, og þær flugu hjá með svo mikilli tíðni að ekki var hægt að taka upp hljóð. Þá skall á undarlegur bylur, sem engin veðurspá hafði gert ráð fyrir, með rigningu og élum á stærð við tennisbolta, og í kjölfarið fylgdi flóð sem eyðilagði mikið af tökubúnaðinum. Og ekki nóg með það, einn af aðalleikurum myndarinnar, sá sem átti að leika Quixote sjálfan, Jean Rochefort, fékk ristilsýkingu, og átti í fyrstu erfitt með að sitja á hestbaki en þurfti síðan að leggjast inn á spítala. Með fráhvarfi hans hrundi verkefnið, þrátt fyrir að allir leikarar voru tilbúnir að fara heim, slá verkinu á þriggja mánaða frest og taka á sig tapið, en tryggingafélagið sem tryggði myndina ákvað að gera handrit myndarinnar upptækt fyrir allt tjónið sem þeir höfðu þurft að borga. Því varð verkið veruleikans bráð.

LostInLaMancha06

Þessi harmsaga um Terry Gilliam er sögð með þeirri von að honum takist einhvern daginn að ljúka myndinni um manninn sem drap Don Quixote.

Samkvæmt Wikipedia, heldur Gilliam áfram að berjast fyrir draumum sínum og tókst loks í fyrra að kaupa aftur handritið af tryggingarfélaginu þýska. Johnny Depp er ennþá spenntur fyrir að leika í myndinni, en líklegt er að þurfi að finna einhvern annan til að leika Don Quixote de La Mancha, enda Jean Rochefort kominn á aldur.

LostInLaMancha02

Þetta eru góðar fréttir og maður getur ekki annað en vonað það besta og beðið spenntur eftir að þessi mynd verði að veruleika, því að þetta er sú kvikmynd sem Gilliam þráir að gera meira en nokkuð annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Börkur Gunnarsson

blessaður kall! long time no seeing!

ég á eftir að sjá la mancha en hef lengi langað til að sjá hana. var meira að segja næstum búinn að sjá hana á kvikmyndahátíð fyrir mörgum árum, en það kom svolítið uppá þannig að það klikkaði.

og þú ert á íslandi, loksins.

ég líka, loksins, þannig að við verðum að taka kaffi!

 b.

Börkur Gunnarsson, 22.3.2007 kl. 00:44

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Við verðum að gera það gamli vinur.

Hrannar Baldursson, 22.3.2007 kl. 08:05

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm...það lá við að Munchausen færi sömu leið.  Kallinn er þrjóskur og ég vona að honum takist að klára þetta. Kvikmyndagerð hans er stöðuugtstríð við náttúruöfl og mannlegar takmarkanir.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.3.2007 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband