Færsluflokkur: Kvikmyndir

Skoðanakönnun um Árna Johnsen

Vinstra megin á síðunni er hægt að svara könnuninni. Ekki verður gert upp á milli einstaklinga á neinn hátt, hvorki sem tengist aldri, þjóðerni eða stjórnmálaflokki. Ég er einfaldlega forvitinn að vita hver skoðun fólks er á þessu máli, því að hugsanlega er meirihlutinn þögull. 
mbl.is 22% strikuðu yfir Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í gamladaga: The Amazing Spider-Man í Stjörnubíó

Ég ákvað að svara Kalla sem spurði um gömlu Spider-Man myndirnar í grein sinni Hvað varð um gömlu Spiderman myndirnar? Eftir frekar stutta leit komst ég að því og mér að óvörum var búið að framleiða mun meira af þessu efni en mig grunaði. Annars langar mig að benda á að teiknimyndasögurnar sem tengjast borgarastyrjöld ofurhetjanna hjá Marvel er sérstaklega skemmtileg lesning. Hægt er að sjá mynd af kápu sem tengist þessari stóru sögu, sem byggir á þeirri forsendu að skrásetja skuli alla sem hafa ofurkrafta til að stjórnvöld geti nýtt sér þessa krafta við verkefni sín. Helmingur ofurhetjanna styður frumvarpið og fær það verkefni að handsama þá sem eru á móti. Við það brýst út ofbeldisalda milli ofurhetjanna, og allt í einu eru góðu gaurarnir flokkaðir sem vondir aðeins vegna þess að þeir vilja halda nafni sínu leyndu.

AmazingSpiderMan01

Myndin sem sýnd var í Stjörnubíó var ein af þremur sjónvarpsmyndum um Spider-Man. Aðalhlutverkið lék Nicholas Hammond, en nánari upplýsingar um fyrstu myndina geturðu fundið hér á IMDB

 Myndirnar um Spider-Man voru eftirtaldar:

The Amazing Spider-Man (1977) (TV)

Spider-Man Strikes Back (1978) (TV)

Spider-Man: The Dragon's Challenge (1979) (TV)

AmazingSpiderMan04

Og svo voru framleiddir 13 þættir, en Stan Lee var mjög á móti því hvernig farið var með sköpun hans í þessum þáttum. Samt er ég viss um að þetta hljóti að hafa ákveðið skemmtigildi fyrir algjöra bíónörda. :)



"The Amazing Spider-Man" (13 episodes)
... aka Spiderman
  1. The Deadly Dust: Part 1 (5 April 1978) 
  2. The Deadly Dust: Part 2 (12 April 1978) 
  3. The Curse of Rava (19 April 1978) 
  4. Night of the Clones (26 April 1978) 
  5. Escort to Danger (3 May 1978) 
  6. The Captive Tower (5 September 1978) 
  7. A Matter of State (12 September 1978)  
  8. The Con Caper (25 November 1978) 
  9. The Kirkwood Haunting (30 December 1978) 
  10. Photo Finish (7 February 1979) 
  11. Wolfpack (21 February 1979)
  12. The Chinese Web: Part 2 (6 July 1979) 
  13. The Chinese Web: Part 1 (6 July 1979)
AmazingSpiderMan06

mbl.is Köngulóarmaðurinn enn á toppnum vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

20 bestu bíólögin: 20. sæti, Old Time Rock and Roll - Risky Business (1983)

Ég hef gaman af að búa til lista. Það voru engar vísindalegar aðferðir notaðar af minni hálfu við að búa hann til. Aftur á móti studdist ég við AFI listann um 100 bestu lögin úr Hollywood kvikmyndum og valdi mér þau 20 sem mér finnst skemmtilegust. Svo leitaði ég að þeim á YouTube og ætla að láta myndband fylgja með öllum færslunum. Oftast gefa lögin viðkomandi kvikmynd aukið gildi, og stundum er jafnvel munað eftir kvikmyndinni fyrir það eitt að viðkomandi lag var í henni.

Jæja, látum þetta flakka. Ég stefni á að klára þetta á 20 dögum. Eitt lag á dag, þar til kemur að númer eitt. Gaman væri að fá athugasemdir um valið og uppástungur sem mér hefur ekki dottið í hug að setja þarna inn.

Svona listi hefur takmarkað gildi, aðallega skemmtigildi fyrir þann sem býr hann til, og bara gaman ef fleiri geta notið hans. 

20. sæti: Old Time Rock and Roll  úr Risky Business, 1983

Tom Cruise leikur ungling sem er alveg að fara yfirum í hormónadeildinni.

 Góða skemmtun!


Kvikmyndir í 100 ár (1902-2002)

Í dag eru kosningar og Eurovision. Ég er búinn að kjósa og horfi ekki á Eurvision eftir afhroðið á fimmtudag. Þess í stað lék ég mér aðeins á YouTube og fann myndbrot úr bíómyndum allt aftur til 1902, og leitaði svo að brotum úr myndum sem mér finnst skemmtilegar.  

1. áratugur 20. aldar

Le Voyage dans la lune, 1902

Hérna fyrir neðan fylgir öll stuttmyndin 'Ferðin til tunglsins"  sem gerð var eftir sögu Jules Verne. Hún er ekki nema 8 mínútur og 25 sekúndur, en er furðulega skemmtileg miðað við aldur. Það er svolítið fyndið hvernig þyngdaraflið spilar varla neitt hlutverk í þessari ágætu vísindaskáldsögu.

ATH: Betra er að taka hljóðið af áður en horft er á þessa mynd.

2. áratugur 20. aldar

Birth of a Nation, 1915

Fánaberi berst yfir vígvöll og kemst upp að óvinunum til þess eins að troða fána í fallbyssuna þeirra.

Þema: hetjudáðir, göfugmennska og hugrekki.

3. áratugur 20. aldar

Wings, 1927

Mary Preston er nýbúin að skrá sig til herþjónustu og er að keyra inn í þorp, en þar sem mikill skruðningur er í trukknum sem hún keyrir heyrði hún ekki viðvaranir um yfirvofandi loftvarnarárás.

Ekkert ákveðið þema, nema kannski hættan sem fylgir stríði, en þetta atriði er gott dæmi sem sýnir hversu vel myndin er gerð.

4. áratugur 20. aldar

Gone with the Wind, 1939

"I will never be hungry again" (Scarlett O'Hara)

Eftir miklar raunir og hörmungar í borgarastyrjöldinni, er Scarlett loks komin heim til sín; og tekur þá ákvörðun að vera nógu staðföst og hörð til að hún og hennar nánustu þurfi ekki að þjást meira.

Þema: staðfesta

5. áratugur 20. aldar 

Casablanca, 1942

"Here's looking at you kid," (Rick Blaine)

Rick Blaine varð aðskila við Ilsu Lund, sem hann var ástfanginn af í París við upphaf seinni heimstyrjaldarinnar. Hún kemur til hans í neyð þar sem hann rekur veitingastað í Casablanca. Hún biður hann um að hjálpa henni til að komast úr landi með eiginmanni sínum. Rick neitar að hjálpa eiginmanni hennar, en ætlar sjálfur að fara með henni til Bandaríkjanna og skilja manninn hennar eftir í höndum nasista, eða það heldur hún.

Þema: Göfuglyndi og ást.

6. áratugur 20. aldar

Úr: The Bridge on the River Kway, 1957

Stríðsfangar blístra.

Breskir og bandarískir stríðsfangar Japana í seinni heimstyrjöldinni hafa verið neyddir til að bryggja brú yfir brúnna Kwai. Vinnan er erfið, en fangarnir eru með góðan liðsanda sem gefur þeim aukinn kraft.

Þema: Slæmar aðstæður þýða ekki endilega slæman anda ef hugarfarið er í lagi.

7. áratugur 20. aldar

Lawrence of Arabia, 1962

T.E. Lawrence "Why?" 
Sherif Ali: "It's my well."
T.E. Lawrence "I drank from it."
Sherif Ali:"You are welcome."

Maður á úlfalda nálgast T.E. Lawrence og leiðsögumann hans í Sahara eyðimörkinni.

Þema: Ólíkir menningarheimar mætast.

8. áratugur 20. aldar

Apocalypse Now, 1979

"I love the smell of napalm in the morning" (Lieutenant Colonel Bill Kilgore)

Þyrluflugmenn ráðast með þungum vélbyssum og sprengjum á þorp í Norður Víetnam með "The Ride of the Valkyres" sem undirspil.

Þema: Geðveiki og tilgangsleysi stríðsbrölts

 

9. áratugur 20. aldar

Star Wars Episode V - The Empire Strikes Back, 1980

Keisarinn og Darth Vader ræða um ógnina og möguleikana eftir að þeir uppgötva hversu hættulegur Luke Skywalker getur orðið.

"He will join us or die, master" (Darth Vader)

Þema: Valfrelsi er ekkert frelsi þegar möguleikarnir eru takmarkaðir.

10. áratugur 20. aldar

Braveheart, 1995

"They may take our lives, but they will never take our freedom. " (William Wallace)

William Wallace flytur ræðu til að hvetja samlanda sína til orrustu gegn Englendingum.

Þema: Einn dagur í lífinu sem frjáls manneskja er meira virði en heil ævi ófrjáls.

1. áratugur 21. aldar

Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring, 2001

"One Ring to rule them all, One Ring to find them, One Ring to bring them all, and in the darkness bind them." J.R.R. Tolkien

Farið yfir sögu Miðjarðar og hringsins.

Þema: Hvernig mikið vald tælir, spillir og étur upp þá sem hafa það.


Nýtt í bíó: Spider-Man 3 (2007) **1/2

SpiderMan3_Poster3

Um daginn þegar ég skrifaði umfjöllun um Spider-Man spáði ég að Spider-Man 3 myndi slá öll aðsóknarmet. Þegar þetta er skrifað hefur hún þegar náð inn 392 milljónum dollara í tekjum um allan heim, en hún kostaði 258 milljónir dollara í framleiðslu og markaðssetningu. Þannig að sú spá stóðst, enda hefur auglýsingaherferðin fyrir myndina verið ævintýralega flott. Því miður stendur myndin ekki undir þessum háu væntingum.

SpiderMan3_08

Peter Parker er aldrei þessu vant ánægður með lífið og tilveruna. Hann er byrjaður í sambandi með Mary Jane (Kirsten Dunst) og allir í New York virðast elska hann, fyrir utan besta vin hans, Harry Osborn (James Franco), sem þráir ekkert heitar en að drepa hann. Harry umbreytir sér í ofurhermanninn New Goblin og ræðst á Peter Parker; en fær slæma útreið, lendir á spítala og missir minnið.

Þannig að nú er allt í ennþá betri málum hjá Peter. Harry hefur gleymt að þeir eru óvinir og allt leikur í lyndi, eða þar til Spider-Man verður á kyssa Gwen Stacy (Bryce Dallas Howard) fyrir framan mikinn mannfjölda í New York, og þar á meðal Mary Jane.

SpiderMan3_01

Peter skilur ekkert í því þegar Mary Jane er honum reið fyrir kossinn; og hann fær ekki tækifæri til að biðja hennar, eins og hann ætlaði sér. Nú fara hlutirnir að ganga á afturfótunum fyrir hetjuna. Sambandið að hrynja, og slímug geimvera tekur yfir búning hans, sem gerir Peter sterkari, fimari, árásargjarnari og illkvittinn.

SpiderMan3_06

Á meðan hann er í þessum ham reynir hann að drepa Harry, særa Mary Jane og útrýma Sandmanninum (Thomas Haden Church), af því að hann er klæddur svarta búningnum sem geimveran stjórnar, en Sandmaðurinn er ólánsamur smákrimmi sem Peter fréttir að var maðurinn sem skaut Ben frænda hans. Sú persóna er alveg út í hött. Handritið reynir að réttlæta glæpi sem hann hefur framið og reynir að vekja með honum samúð þar sem að dóttir hans er lasin og hann þurfti að safna saman peningum til að koma henni í meðferð. Það gleymist algjörlega að í leiðinni verður hann nokkrum saklausum vegfarendum að bana, veltir nokkrum bílum og misþyrmir öryggisvörðum.

SpiderMan3_05

Á sama tíma og allt þetta gengur yfir hefur Peter fengið keppinaut við ljósmyndun á Spider-Man, en Eddie Brock (Topher Grace) keppist um að ná stöðu sem Peter ætti réttilega að fá eftir áralanga vinnu við dagblaðið sem J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) stjórnar með mikilli heift.

Vandamálið við Spider-Man 3 er að söguþráðurinn er ofhlaðinn nýjum persónum, og engri þeirra er gerð nógu góð skil. Samt eru Kirsten Dunst og James Franco mun betri í þessari mynd heldur en Spider-Man 2, þar sem þau voru áður flöt - en eru nokkuð líflegri núna; en Tobey Maguire virðist vera að missa tökin á persónunni, rétt eins og Sam Raimi virðist vera að missa tökin á leikstjórninni. Mig grunar að þeir séu einfaldlega búnir að þurrausa persónuna, orðnir eitthvað þreyttir á þessu, enda gerði handritið fátt annað en að endurtaka þemu úr fyrstu tveimur myndunum, annars vegar að með miklum mætti fylgi mikil ábyrgð og hins vegar að mikilvægt sé að vanda valið á mikilvægum ákvörðunum.

SpiderMan3_10

Mesti galli Spider-Man 3 er handritið sjálft; það er einfaldlega ofhlaðið hugmyndum sem skynsamlegra hefði verið að dreifa yfir tvær kvikmyndir en setja í eina, og þar að auki er enga yfirvegun að finna í samtölunum eins og í fyrri tveimur myndunum, þar sem maður hafði á tilfinningunni að ekki einhver klisja, heldur sæmilega djúp skilaboð væru undir yfirborðinu.

Tæknibrellurnar eru flottar, hasaratriðin vel gerð, hljóðið mjög gott og myndatakan glæsileg, en það er bara ekki nóg þegar dramað klikkar. Það eru mörg góð atriði í Spider-Man 3, og gaman loksins að sjá Venom birtast; en hann er frekar illa nýttur og virðist fyrst og fremst vera þarna bara til að vera þarna.

SpiderMan3_07

Ég hefði gefið myndinni þrjár stjörnur ef ekki hefði bæst ofan á það sem ég hef minnst á hreint hryllilega væminn endir, þar sem í einu og sama atriðinu ofleika Tobey Maguire og Kirsten Dunst þannig að mín viðbrögð voru að mér fannst þetta frekar fyndið, en samúð var sjálfsagt það sem leikstjórinn var að leita eftir frá áhorfendum. Auk þess er einfaldlega illa gengið frá lausum endum. Ætli framleiðsla myndarinnar hafi ekki verið á síðasta snúningi og þeim ágætu listamönnum sem komu að gerð hennar ekki gefist færi á að fínpússa hana.

SpiderMan3_09

Því miður get ég ekki mælt með Spider-Man 3. Það er bara ekkert nýtt þarna, þó að hún sé augnakonfekt. Þó er hægt að hafa gaman að henni, en til þess þyrfti helst að skilja heilann eftir heima.


Allt toppmyndir

photo_05_hires

Ég er innilega sammála þessu með einni undantekningu, og viðurkenni að þó að ég hafi horft oftar á karlmannsmyndirnar, hef ég einnig mjög gaman af Dirty Dancing, Grease, Sound of Music og Pretty Woman. Um daginn keypti ég mér Pretty Woman á DVD og fékk háðsglósur fyrir frá nokkrum félögum mínum. Sem er nú svosem allt í lagi, - en góð mynd engu að síður. Verð að taka þessar myndir fyrir í gagnrýni einhvern daginn, auk Hringadróttinssögu, sem mér finnst að mætti vera númer 1 á báðum listum. Halo

Fimm efstu myndirnar hjá körlum eru:

  1. Stjörnustríðs myndirnar þrjár
  2. Aliens
  3. The Terminator
  4. Blade Runner
  5. The Godfather
Fimm efstu myndirnar hjá konum eru:
  1. Dirty Dancing
  2. Stjörnustríðs myndirnar þrjár
  3. Grease
  4. The Sound of Music
  5. Pretty Woman

mbl.is Geta horft aftur og aftur á Stjörnustríðsmyndirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10. Óskarsverðlaunin: The Life of Emile Zola (1937) ***1/2

Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. The Life of Emile Zola frá 1937 er sú tíunda í röðinni.

Emile Zola (Paul Muni) er fátækur rithöfundur í París sem deilir stúdíóíbúð með listmálaranum Paul Cezanne (Vladimir Sokoloff). Einn daginn sitja þeir félagar inni á kaffihúsi þegar vændiskonan Nana (Erin O'Brien-Moore) flýr þangað undan lögreglunni, en vinirnir bjóða henni sæti og vernda gegn ofsóknum lögreglunnar. Báðir finna þeir innblástur með Nana, en Cezanne teiknar af henni mynd og Zola skrifar um hana bók sem rokselst og gerir hann að vellauðugum manni.


Zola heldur áfram að skrifa. Rit hans eru yfirleitt gagnrýnin á stofnanir og hörmulegu ástandi almúgans sem hann verður vitni að. Fyrir vikið verður hann gífurlega vinsæll, en jafnframt umdeildur penni. Árin líða og Zola missir smám saman áhuga á mannúðarskrifum og gagnrýni. Honum finnst gott að borða og safnar að sér allskonar listmunum alls staðar að úr heiminu. Cezanne, hans gamli vinur, minnir hann á að velgengnin hafi hugsanlega stigið honum til höfuðs.

Þegar Alfred Dreyfus (Joseph Schildkraut), kafteinn í hernum og fjölskyldufaðir, er gerður að blóraböggli fyrir landráð sem einhver innan hæstu raða hersins hefur staðið fyrir - en hershöfðingjarnir ákveða að Dreyfus sé sá seki og byggja mál sitt á því að hann sé af gyðingaættum, og því hljóti hann að vera svikarinn. Dreyfus er gefinn kostur á að svipta sig lífi eða fara fyrir herrétt. Þar sem að hann er blásaklaus krefst hann þess að fá sakleysi sitt sannað. Herréttur dæmir hann til ævilangrar fangavistar, án samskipta við nokkurn mann. 

Eiginkona saklausa hermannsins, Lucie Dreyfus (Gale Sondergaard) trúir á sakleysi hans, og leitar til Emile Zola og biður hann um hjálp við að sanna sakleysi manns hennar. Eftir langa umhugsun ákveður Zola að skera upp herör gegn franska hernum, en hann telur sig hafa nóga miklar upplýsingar til að vera sannfærður um sakleysi Dreyfus, enda hefur að auki annar háttsettur foringi í hernum fullyrt að Dreyfus sé saklaus og að hinum raunverulega sökudólgi verið sleppt lausum vegna klúðursins við dóminn um Dreyfus.

Zola skrifar grein til forseta lýðveldisins um spillingu innan hersins. Fyrir vikið er hann kærður af hernum og skipað að gera orð sín ómerk. Hann neitar að gera það og fær snjallan lögfræðing til að verja sig gegn þessum ásökunum, en ætlun hans er að afhjúpa sannleikann í máli Dreyfus með því að ræða um forsendur þess í tengslum við hans eigin ásakanir.

Myndin er stórvel leikin, og þá sérstaklega af Paul Muni í titillhlutverkinu og Joseph Schildkraut í hlutverki Dreyfus sem dæmdur er saklaus og þarf að dvelja mörg ár í prísundinni. Samtölin eru djúp og skörp; og einfaldlega svo rík að maður gæti ekki beðið um meira prótein fyrir heilasellurnar og mannúðarsálina.

 
Það sem helst situr eftir er þessi orka sem Emile Zola finnur í sjálfum sér þegar hann uppgötvar hversu mikið verk er fyrir höndum við það að gagnrýna ríkjandi kerfi og afhjúpa sannleikann sem alltof margir reyna að hylja sjálfum sér til frama.

Ég mæli sterklega með The Life of Emile Zola

 

Óskarsverðlaun: 

Besta kvikmynd: Henry Blanke

Besta handrit: Heinz Herald, Geza Herczeg, Norman Reilly Raine

Besti leikari í aukahlutverki: Joseph Schildkraut

 

Tilnefningar:

Besti leikstjóri: William Dieterle

Besta listræna stjórnun: Anton Grot

Besta hlóðblöndun: Nathan Levinson

Besti leikari í aðalhlutverki: Paul Muni

Besti aðstoðarleikstjóri: Russell Saunders

Besta tónlist: Leo F. Forbstein

  

Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:

Wings (1928) **** 

The Broadway Melody (1929) *1/2

All Quiet on the Western Front (1930) ****

Cimarron (1931) ***1/2

Grand Hotel (1932) ***

Cavalcade (1933) ***

It Happened One Night (1934) ****

Mutiny on the Bounty (1935) ****

The Great Ziegfeld (1936) ***

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

Spider-Man 2 (2004) ***1/2

SpiderMan2_Poster3

Peter Parker (Tobey Maguire) hefur ákveðið að fórna einkalífi sínu til að geta látið gott af sér leiða sem ofurhetjan Spider-Man. Hann er hræddur um að ef hann leyfi öðrum manneskjum að komast of nálægt sér persónulega, þá munu illmenni nýta sér það gegn honum, rétt eins og Green Goblin (Willem Defoe) gerði í fyrri myndinni, þar sem að hann réðst bæði á ástkæra frænku Peter; May Parker (Rosemary Harris) og á stúlkuna sem hann elskar; Mary Jane Watson (Kirsten Dunst). Besti vinur hans, Harry Osborn (James Franco), er hundfúll út í hann fyrir að taka ljósmyndir af Spider-Man og gefa ekki upp hver hann er, enda telur Harry að Spider-Man hafi myrt föður hans.

SpiderMan2_04

Peter Parker á aðeins þrjá vini í öllum heiminum: May frænku, Mary Jane og Harry Osborn. Hann hefur fjarlægst May frænku frá því að Ben frændi hans (Cliff Robertson) var myrtur og hann telur sjálfan sig ábyrgan fyrir dauða hans. Hann hefur fjarlægst Harry vegna dauða föður hans, og hann hefur fjarlægst Mary Jane af því að hann vill halda henni í öruggri fjarlægð.

Allt í einu kemur upp sú staða að bæði Mary Jane og Harry hafa gefist upp á honum. Í sömu veislunni opinberar Mary Jane trúlofun sína við John Jameson (Daniel Gillies), geimfara og son ritstjórans J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) og Harry slær Peter utan undir fyrir að vera lélegur vinur. Ofan á þetta kemur að Peter játar fyrir frænku sinni hlut sinn í dauða Ben, og þar að auki gengur honum illa í skólanum, hefur verið rekinn sem pizzasendill og er skítblankur. Um stund virðist líf hans vera í rúst.

SpiderMan2_14

Til að bæta gráu ofan á svart verður til nýtt ofurillmenni þegar vísindamaðurinn Dr. Otto Octavius (Alfred Molina) reynir að búa til nýja smásól sem framtíðar orkugjafa. Til að stilla smásólina af notar hann fjóra langa vélararma með gervigreind sem hann hefur tengt við mænuna á sér. En tilraunin fer til andskotans, eiginkona Dr. Octavius, Rosalie Octavius (Donna Murphy) deyr í slysinu og Spider-Man mætir á staðinn til að kippa tilrauninni úr sambandi. Örgjörvinn sem Dr. Octavius notar til að stjórna hreyfiörmunum eyðileggst í látunum, og fyrir vikið missir hann stjórn á þeim, en þeir ná stjórn á honum.

Allt þetta stress sem Peter Parker upplifir í einkalífinu verður til þess að hann langar ekki lengur til að vera Spider-Man. Þetta veldur því að Peter Parker missir ofurkraftana, hættir að sjá jafn vel og getur ekki lengur skotið vef eða klifið veggi. Hann er sáttur við það og hendir búningnum í ruslið, ákveðinn að hætta því að vera Spider-Man.

SpiderMan2_19

Við taka góðir dagar hjá Peter Parker. Honum tekst að bæta örlítið samskiptin við þá fáu vini sem hann á, og tengjast nýjum einstaklingum, eins og nágranna sínum, Ursula (Mageina Tovah), stúlku sem virðist vera hrifin af honum. Skólinn fer að ganga betur, og jafnvel Mary Jane er farin að sýna honum athygli á ný þegar ósköpin dynja yfir.

Dr. Octavius þurfti eldsneyti til að ljúka við að búa til nýja sól. Eini maðurinn sem gæti keypt slíkt handa honum er Harry Osburn. Þeir gera samning. Ef Dr. Octavius kemur Spider-Man í hendur Harry, þá fengi hann eldsneytið.

SpiderMan2_23

Peter og Mary Jane eru á kaffihúsi, og við það að kyssast, þegar bíll flýgur inn um gluggann og yfir þau. Dr. Octavius er kominn til að fá upplýsingar um hvar hann getur fundið Spider-Man, og hann heldur að Peter sé rétti maðurinn til að útvega þær. Hann tekur Mary Jane í gíslingu, og segir honum að koma ákveðnum skilaboðum til Spider-Man, annars muni hann drepa hana.

Við þetta fær Peter ofurkraftana aftur, klæðist búningnum og sveiflar sér í langan og strangan bardaga gegn Dr. Octavius, sem meðal annars felur í sér magnað atriði yfir, innan í og fyrir framan stjórnlausa hraðlest.

SpiderMan2_29

Spider-Man 2 fjallar um mikilvægi þess að huga að eigin vandamálum og leysa þau í samhengi við annað sem maður gerir í lífinu. Það er ekki hægt að vera tvær manneskjur í einum líkama. Þetta minnir á togstreituna milli þess persónulega og þess faglega, og hvernig þætta verður þetta tvennt saman til að manneskja getur lifað farsælu lífi. Ef þú aðskilur algjörlega þitt faglega og persónulega líf, er spurning hvort þú lifir lífi sem vert er að lifa.

Þó að ég sé hrifinn af Spider-Man 2 finnst mér hún ekki jafngóð og fyrsta myndin. Í fyrsta lagi er litasamsetningin í framhaldinu ekki jafn björt og í þeirri fyrstu, sem er reyndar bara spurning um smekksatriði. Fyrir utan það fannst mér Kirsten Dunst og James Franco alls ekki standa sig vel í hlutverkum sínum, og í stað dýptar sem ég varð var við í fyrri myndinni, fannst mér persónur þeirra orðnar flatar og óáhugaverðar.

SpiderMan2_15

Aftur á móti eru þeir Tobey Maguire og Alfred Molina frábærir í sínum hlutverkum, auk þess að tæknibrellurnar eru trúverðugri en í þeirri fyrri - það er eins og þyngdaraflið hafi verið reiknað betur inn í hreyfingar persónanna; og hver einasti hlutur sem hreyfist virðist gera það í réttri þyngd. Tæknibrellurnar höfðu semsagt skánað en leikurinn er ekki jafn góður. Það hefur sjálfsagt eitthvað með handritið að gera, sem er skrifað af Alvin Sargent í þetta skiptið, en David Koepp, ansi mistækur en hugmyndaríkur handritshöfundur, hafði skrifað fyrri myndina, og mun víst skrifa þá fjórðu líka, auk Indiana Jones 4, sem kemur út á næsta ári; en til gamans má geta að Alfred Molina lék einmitt lítið hlutverk í fyrstu myndinni um Indiana Jones: Raiders of the Lost Arc.

Ég mæli hiklaust með Spider-Man 2, en veit samt af nokkrum einstaklingum sem þola hana ekki; finnst hún hræðileg, og af öðrum sem finnst hún betri en Spider-Man.


Stórmyndir: Spider-Man (2002) ****

SpiderManPoster

Spider-Man 3 verður frumsýnd á morgun. Ég spái því að hún muni slá öll aðsóknarmet og verða meðal vinsælustu kvikmynda allra tíma. Mér finnst við hæfi að birta gagnrýni á Spider-Man frá 2002 í dag, og síðan umfjöllun um Spider-Man 2 (2004) á morgun. Eftir það mun ég skella mér á bíó við fyrsta tækifæri til að bera nýjustu útgáfuna augum.

Ég viðurkenni fúslega að ég er svolítið veikur fyrir ofurhetjumyndum og myndskreyttum skáldsögum um ofurhetjur, enda eru þær oftast blanda af þremur frásagnaformum sem ég er hrifinn af: vísindaskáldsögum, fantasíum og drama.  Möguleikarnir fyrir frásagnargleði eru óþrjótandi í heimi ofurhetja.

SpiderMan05

Peter Parker (Tobey Maguire) er nemandi í framhaldsskóla sem staddur er í vítahring eineltis.  Hann er vísindanörd, með lélega sjón og svolítill væskill. Hann hefur verið hrifinn af Mary Jane Watson (Kirsten Dunst) frá sex ára aldri, en þarf stöðugt að horfa upp á hana í sambandi með ömurlegum karlmönnum. Hún fær slæma meðferð frá föður sínum, lendir í sambandi með mesta töffara en jafnframt hálfvita skólans, Flash Thompson (Joe Manganiello), og síðan með Harry Osborn (James Franco), besta vini Peter.

SpiderMan11

Faðir Harry er vísindamaðurinn og auðkýfingurinn Norman Osborn (Willem Dafoe) sem vinnur að þróun öflugra vopna fyrir herinn. Þegar tilraun hjá honum fer úr böndunum, missir hann vitið, fær ofurkrafta og ákveður að nota tækin sem hann hefur þróað í eigin þágu, í gervi Green Goblin. En nú er ég kominn framúr mér.

SpiderMan10

Á rannsóknarstofu um erfðagreiningu er Peter Parker bitinn af kónguló sem hefur verið sett saman úr mörgum ólíkum tegundum kóngulóa. Þegar hann vaknar næsta dag þarf hann ekki að nota gleraugu, sér vöðvabúnt í speglinum og uppgötvar að hann er orðinn gjörbreyttur maður, með ofurkrafta frá kóngulónni. Það er stórskemmtilegt að fylgjast með þegar hann uppgötvar vefinn sem skýst út úr úlnliðum hans (upphaflega í teiknimyndasögunum hafði Peter Parker hannað tæki sem hann setti utan um úlnliðina), og þegar hann uppgötvar kóngulóartilfinninguna - en þá nemur hann allt í umhverfinu á ofurhraða og getur brugðist við öllu áreiti með mikilli fimi. Einnig er gaman að því þegar hann klifrar sinn fyrsta vegg og stekkur á milli húsþaka og síðan stórhýsa á frekar spaugsaman hátt.

SpiderMan15

Tæknibrellurnar eru skemmtilega gerðar, en ná þó ekki að sannfæra mig 100%, enda finnst mér óraunhæft að krefjast þess af kvikmyndagerðarmönnunum. Það er eins og þyngdaraflið virki ekki alltaf alveg rétt. Spennuatriðin þar sem Spider-Man sveiflar sér á milli bygginga og lúskrar á glæpamönnum eru góð, en frumkrafturinn í myndinni felst í gífurlega vel skrifuðu handriti David Koepp og Stan Lee, með góðri persónusköpun, samtölum og leik. Sambandið á milli Peter Parker, Mary Jane Watson og Harry Osborn er klassískur ástarþríhyrningur sem getur aðeins endað með ósköpum; sérstaklega þegar faðir Harry dýrkar Peter sem Norman Osborn en hatar hann sem Green Goblin.

SpiderMan73

Einnig er samband Peter við frænku sína og uppalanda, May Parker (Rosemary Harris) mjög vel útfært, svo og frumforsenda þess að Peter ákveður að nota krafta sína til góðs frekar en í eigin þágu; en hann hafði með aðgerðarleysi sínu þegar hann hleypti glæpamanni framhjá sér, óbeint valdið dauða frænda síns Ben (Cliff Robertson), en sami glæpamaðurinn og hann hafði sleppt framhjá sér skaut Ben banaskoti.

SpiderMan22"Remember, with great power comes great responsibility" (Ben frændi).

Með samviskubit yfir dauða frænda sinn og ábyrgðartilfinningu til að sjá fyrir frænku sinni, sættir hann sig við það sem Ben frændi hans hafði sagt honum um aukinn þroska, að miklum krafti fylgi mikil ábyrgð. Peter flytur til New York borgar, byrjar í háskólanámi og fær aukastarf sem ljósmyndari fyrir dagblaðið The Daily Bugle, sem rekið er af æsifréttaritstjóranum J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) sem er sannfærður frá fyrsta augnabliki að Spider-Man sé ekkert annað en ótýndur glæpamaður.

 

SpiderMan47

Þetta gerir Spider-Man einmitt að góðri mynd, hún hefur þema sem skiptir máli og sýnir hvað gerist ef menn sýna ekki ábyrgð. Norman Osborn fær gífurlega krafta en er knúinn áfram af reiði og hefndarfýkn, á meðan Peter Parker fær jafnmikla krafta en gerir allt sem í hans valdi stendur til að breyta rétt. Alla myndina slær þessi siðferðilegi púls sem tengist frelsi og ábyrgð; en vissulega er frelsið einmitt sá mikli kraftur sem vesturlandabúar höndla í dag. Stóra spurningin sem aðrar þjóðir spyrja sig að sjálfsögðu er sú hvort að vesturlöndin, og þá sérstaklega Bandaríkin, séu líkari Green Goblin, sem bregst við minnsta áreiti með ofbeldi og ofsa; eða Spider-Man, sem gerir sitt besta til að leysa vandamálin með eins litlu valdi og mögulegt er.

SpiderMan42

Tobey Maguire stendur sig stórvel í aðalhlutverkinu og nær góðu sambandi við Kirsten Dunst. Willem Dafoe er einnig stórgóður. Sam Raimi heldur traust um stjórnvölinn sem leikstjóri og tónlistin eftir Danny Elfman er eins og kvikmyndatónlist á að vera, truflar ekki söguna, heldur blæs ferskum anda í persónurnar.

Engin spurning að ég mæli hiklaust með Spider-Man, þrátt fyrir að ég kannist við nokkra kauða sem segjast ekki þola þessar myndir. Sonur minn spurði mig í dag hvort að ég ætlaði að sjá Spider-Man 3. Svarið var: Ja-há!

SpiderMan71

Óskarsverðlaunatilnefningar:

Bestu tæknibrellur: John Dykstra, Scott Stokdyk, Anthony LaMolinara, John Frazier

Besta hljóðrás: Kevin O'Connell, Greg P. Russell, Ed Novick


Nýtt í bíó: Next (2007) **1/2

NextPoster

Chris Johnson (Nicolas Cage) hefur frá barnsaldri getað séð tvær mínútur inn í framtíð sem tengd er hans persónulegu reynslu. Hann getur ekki séð inn í framtíð annarra. Hann uppgötvar að þegar hann er í návist stúlku, Liz (Jessica Biel), sem hann rekst á fyrir tilviljun á kaffihúsi getur hann séð allt að tólf mínútur fram í tímann. Hann furðar sig á þessu og vill ólmur kynnast henni betur, enda er hún með glæsilegri konum.

FBI fulltrúinn Callie Ferris (Julianne Moore) hefur áttað sig á þessum hæfileikum Chris, og vill samstarf með honum þar sem að hann gæti hjálpað til við að finna kjarnorkusprengju sem smyglað hefur verið inn í Bandaríkin af evrópskum hryðjuverkamönnum.

Á sama tíma eru hryðjuverkamennirnir að hlera FBI og komast að mikilvægi Chris Johnson, en vita ekki af hverju hann er mikilvægur, þannig að þeir ákveða að drepa hann áður en FBI nær til hans.

Þannig hefst mikill eltingarleikur. Hryðjuverkamenn elta FBI sem eltir Chris sem eltir Liz. Chris nær Liz og sefur meira að segja hjá henni. FBI nær Liz og hvetur hana til að svíkja Chris með því að stinga svefnlyfi í drykkinn hans. FBI nær Chris, en hryðjuverkamennirnir ná Liz, og því þarf Chris að hjálpa FBI til að ná hryðjuverkamönnunum svo að hann geti náð Liz aftur. Kannski myndin hefði betur mátt heita 'Getting There'. Flókið? Ekkert svo.

Það eru nokkur skondin og snjöll atriði í Next sem tengjast því hvernig Chris stjórnar atburðarrás vegna þess hversu auðveldlega hann getur séð inn í framtíðina. Til dæmis getur hann prófað fjölmargar línur til að ná athygli Liz, án þess nokkurn tíma að framkvæma þær, fyrr en hann sér fram á hvernig hann getur náð árangri. Það er í raun besti hluti myndarinnar sem minnir skemmtilega á Groundhog Day (1993), þar sem Bill Murray fór á kostum sem sjálfselskur veðurfréttamaður sem upplifði í nokkur hundruð eða jafnvel þúsund ár sama daginn.

Annað skemmtilegt atriði sýnir Chris leita að manneskju í rangölum, en þar skiptir hann sér upp í margar mögulegar framtíðir þar til hann finnur það sem hann leitar að, og þá fyrst fer hann sjálfur þangað. Því miður veldur endirinn miklum vonbrigðum, því að hann er alls ekki í anda þess sem áður hefur gengið á. Sjálfsagt átti þessi endir að þykja snjall, - og ég get skilið af hverju kvikmyndamönnunum hefur þótt hann það, en hann virkar bara því miður ekki.

Ég var nokkuð ánægður með að ekkert var reynt að útskýra hvernig Chris fékk þessa eiginleika eða hvað var í raun og veru í gangi. Hann bara fæddist svona. Hvort hann nýtir hæfileikana til að vera skúrkur eða ofurhetja er hans val.

Next vekur mig til umhugsunar um mikilvægi þess að taka góðar ákvarðanir á réttu augnabliki og af réttum ástæðum; nokkuð sem að kvikmyndagerðarmennirnir hefðu mátt hafa í huga áður en þeir sendu myndina endanlega frá sér. Eftir smá umhugsun um mögulegar afleiðingar gjörða þinna, getur þessi umhugsun gjörbreytt því hvernig þú hagar þér, og þannig allri þinni framtíð. Þetta finnst mér flott pæling og er nokkuð sáttur við að hafa þó fengið hana út úr myndinni.

Annars er Next ágætis stundargaman, en þar sem hún veldur vonbrigðum með slökum endi og frekar slöppum samtölum í handritinu og leik sem hangir í meðalmennsku, þá hef ég sterka fyrirvara þegar ég mæli með henni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband