6. Óskarsverðlaunin: Cavalcade (1933) ***

Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. Cavalcade frá 1933 er sú sjötta í röðinni.

Cavalcade hefur hjartað á réttum stað og skil ég vel af hverju hún þótti frábær árið 1933. Hún er epísk í þeim skilningin að hún spannar rúm þrjátíu ár í lífi einstaklinga sem vert er að fylgjast með; og áhugaverð því að hún virðist taka þverskurð á raunverulegu lífi fólks og vandamálum á þessum árum.

Kostir Cavalcade eru fleiri en gallarnir. Samt er frásögnin oft heldur stíf og leikur sumra leikara stundum stirður, en sagan hangir saman á sterku sambandi aðalpersónanna tveggja.

Jane (Diana Wynyard) og Robert Marryot (Clive Brook) eru auðugt hástéttarfólk í London. Þau eiga tvo unga syni, en Robert er kvaddur til herþjónustu í Búrastríðinu þar sem vígvöllurinn er Afríka.

Robert fer ásamt þjóni heimilisins, Alfred Bridges (Herbert Mundin), sem segir aðspurður að stríð séu til þess að sanna hver er þjóða sterkust, eða "To show who's the Top Dog". Hann er giftur Ellen (Una O'Connor) og eiga þau saman nýfædda dóttur. Þegar Alfred kemur heim úr stríðinu opnar hann eigin krá og fer að fá sér oftar neðan í því en gott þykir.

Diana Wynyard sýnir stórgóðan leik sem Jane Marryot, en hún er þungamiðja sögunnar. Á meðan stríðin geysa situr hún heima og bíður. Fyrst eftir eiginmanni sínum í Búrastríðinu, og síðan eftir eiginmanni og syni í Fyrri Heimstyrjöldinni. Við fylgjumst meira með henni og þeirri kvöl sem biðin getur verið, og þeirri sturlun þegar biðin tekur loks enda.

Á meðan eiginkonan lifir í stöðugum ótta við að sjá ástvini sína aldrei aftur er eiginmaður hennar raunsær þegar hann rifjar upp hverju hann hefur verið að berjast fyrir öll þessi ár: mannvirðingu, mikilfengleika og friði. Það getur verið erfitt fyrir hana að sjá hvernig þetta þrennt fer saman sérstaklega þegar heitasta ósk hennar er sú að vilja halda fjölskyldunni lifandi, heilbrigðri og hamingjusamri saman.

Frank Lawton sýnir sérstaklega skemmtilegan leik sem sonur þeirra hjóna, Joe Marryot. Hann verður ástfanginn af Fanny Bridges, dóttur Alfred og Ellen, en hún er orðin frægur skemmtikraftur í borginni. Þau eiga sérstaka stund saman þar sem þau standa uppi á þaki byggingar á meðan yfir þeim sveima þýskir Zeppelin loftbelgir sem láta sprengjur falla á London.

Cavalcade varpar ljósi á vitfirringu og tilgangsleysi styrjalda, og hvernig þegnar ríkis sem byggir á stríðsrekstri þurfa stöðugt að lifa við óttann um að sjá ástvini sína aldrei aftur. Hún sýnir hvað góð fjölskylda getur þurft að þjást, þrátt fyrir að hún hafi í raun allt sem þarf til velferðar.

Einnig er áhugavert að fylgjast með muninum á fjölskyldunum tveimur, Bridges og Marryot. Robert Marryot hefur verið tignaður sem riddari og því þurfa þau hjónin að huga að orðspori fjölskyldunnar. Öllum þeirra athöfnum er stjórnað af dyggð og tign.

Alfred Bridges og fjölskylda hans er hins vegar almúgafólk, verr menntað og er nokk sama um heiður og tign. Þeirra markmið í lífinu eru allt önnur. Þau eru að berjast fyrir eigin sjálfstæði, og eru ekki orðin jafn fáguð og þau vilja vera.

Til að mynda hneykslast Ellen Bridges (Una O'Connor), á ástarsambandi dóttur hennar við Joe, þar sem að það er ekki opinbert. Hún heimsækir Jane til að að ræða við hana um þetta vandamál, sem Jane sér alls ekki sem vandamál, en hún hefur meiri áhyggjur á að sjá son sinn aftur á lífi heldur en skipta sér af ástarmálum hans - og hún áttar sig á að haf og heimur er milli þeirra menningarlega séð, og rekur hana af heimili sínu.

Jane fyrirlítur fordóma byggða á yfirborðskenndu þvaðri og hefur þann eiginleika að geta séð dýptina og það sem máli skiptir í mannlegu lífi.

Stéttarskiptingin verður þannig greinileg, ekki útfrá tækifærum einstaklinganna, heldur vegna stefnu þeirra í lífinu, dýpt og heiðurs.

Einnig er mjög gaman að fylgjast með persónunum eldast, en ég man ekki til þess að hafa séð persónur eldast jafn sannfærandi og þær gera í þessari mynd.  

Cavalcade er ágæt kvikmynd sem hefur staðist tímans tönn. Ég mæli með henni.

 

 

 

 

Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:

Wings (1928) **** 

The Broadway Melody (1929) *1/2

All Quiet on the Western Front (1930) ****

Cimarron (1931) ***1/2

Grand Hotel (1932) ***

 

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Gott framtak:) sniðugt að velja kvikmyndir ársins. Margir listar með bestu myndir allra tíma, erfitt að velja hvaða lista maður á að fara eftir.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 8.4.2007 kl. 00:09

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

hvar færðu myndirnar? Varla á myndbandaleigunum eða hvað?

Jóna Á. Gísladóttir, 8.4.2007 kl. 09:59

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég hef keypt þær á Ebay.

Hrannar Baldursson, 8.4.2007 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband