Færsluflokkur: Kvikmyndir

Death Proof (2007) ***1/2


Þegar Quentin Tarantino og Robert Rodriguez gáfu út að þeir væru að gera bíómynd saman sem kallaðist Grindhouse, varð ég strax spenntur og gat varla beðið eftir útkomunni. Grindhouse var sett upp sem kvikmyndakvöld sem enginn átti að geta gleymt. Fyrst var uppvakningamyndin Planet Terror (2007) sýnd, í leikstjórn Rodriguez, og sú seinni Death Proof í leikstjórn Tarantino. Það eina sem átti að skilja myndirnar að voru sýnishorn úr myndum sem eru ekki til. Þótti þessi upplifun sérstaklega vel heppnuð og er Grindhouse sem ein kvikmynd með einkunnina 8.4 á Internet Movie Database, sem þýðir að hún er 98. besta kvikmynd sem gerð hefur verið samkvæmt því kerfi. 

Vandamálið er að Grindhouse náði ekki inn nógu miklu af peningum. Hinn almenni kvikmyndagestur fattaði ekki hvað Tarantino og Rodriguez voru að gera, og margir fóru heim í hlénu og misstu af kvikmynd Tarantinos. Þetta þýddi að þegar til Íslands kom var Grindhouse einfaldlega ekki í boði. Þess í stað eru myndirnar sýndar í sitthvoru lagi og í ólíkum kvikmyndahúsum, þannig að manni er jafnvel gert erfitt fyrir með að horfa á þær í röð.


Ég var búinn að ákveða að fara ekki á þessar myndir í bíó, né kaupa þær á DVD. Ég var virkilega svekktur yfir að fá ekki að sjá bíómyndina eins og leikstjórarnir ætluðu upphaflega að hafa hana, og skil ekki hvers vegna kvikmyndahúseigendum dettur ekki í hug að halda Grindhouse kvöld a.m.k. einu sinni til að gera þetta mögulegt. Ljóst er að græðgishyggjan er að drepa íslenskt bíó; það kostar 900 kall í bíó sem fólki finnst einfaldlega alltof mikið (álíka mikið og kostar í bíó á dýrustu sýningar í stærstu höfuðborgum heims), og þannig eru Íslendingar vandir af því að stunda þessa mikla skemmtun. Þess í stað virðist fólk annað hvort bíða eftir myndinni á DVD eða hlaða þeim niður af netinu, sem er ekki góð hugmynd þegar um sjóræningjaútgáfur er að ræða, aðallega vegna þess að gæði slíkra mynda jafnast sjaldan á við að sjá flotta mynd í bíó. Reyndar hafa fyrirtæki víða um heim tekið upp á að bjóða löglegt niðurhal á myndum gegn gjaldi, sem er reyndar varla raunhæfur kostur á Íslandi þar sem rukkað er ansi stíft fyrir megabætið í erlendu niðurhali. Þar að auki, fyrir 900 kall í bíó ætlast maður til að fá einhverja þjónustu, en það bregst ekki; gólfið í íslenskum bíóhúsum er með því ógeðslegasta sem maður upplifir í heiminum; klístrug og skítug, og það sama má segja um sætin. Þau lykta oft ansi illa og eru ekkert endilega þægileg. Svo eru líka alltaf þessi andskotans hlé sem klippa bíómyndirnar í sundur hvort sem að maður vill eða ekki. Það er engin furða að heimabíóin eru orðin vinsælli en kvikmyndahúsin.

Vissulega vandist ég á góða hluti í Mexíkó, þar sem kvikmyndahúsin eru snyrtileg, það kostar ekki nema um kr. 250 á hverja sýningu, engin hlé, stólarnir eru þægilegir og bæði mynd- og hljóðgæði eins góð og hægt er að hugsa sér; og svo er spænskur texti með myndunum, sem maður kippir sér reyndar ekkert upp við. Á Íslandi eru flest bíó því miður þriðja flokks. Ég fór oft tvisvar í viku á bíó, en þegar ég kom heim til Íslands nánast hætti ég bíóferðum af öllum þeim ástæðum sem að ofan greinir. Það er nánast búið að venja mig af þessari fíkn. Þess í stað leigi ég og kaupi fleiri myndir á DVD, en að kaupa eina DVD mynd er oft ódýrara en einn bíómiði.

Út af öllu þessu ætlaði ég ekki að fara á Death Proof í bíó. Mér finnst alltof mikið vaðið yfir mig sem bíógest á Íslandi, en ég er bara ekki sterkari persóna en svo að ég stóðst ekki freistinguna. Mig langaði í bíó og Death Proof gat orðið að góðri skemmtun. 

Jæja, hvað um það.


Death Proof fjallar um hóp kvenna sem skuggalegur maður, kallaður Stuntman Mike (Kurt Russell) eltir á röndum. Persónurnar eru sérstaklega vel byggðar. Manni finnst þær vera til. Tarantino tekst í þessari mynd að gera það sem gerði Pulp Fiction (1994) að svo frábærri skemmtun, hann fylgir gamalreyndri formúlu, snýr svo uppá hana og gengur lengra en nokkur myndi þora að vona. Hann er meistari í því að koma áhorfandanum á óvart, og það að honum skuli takast það í mynd sem segir allt sem segja þarf í titlinum, er mikið afrek. Tvisvar snýr hann myndinni upp á rönd og mölvar formúluna í spað á áhrifaríkan hátt.


Kurt Russel nær að skapa besta karakter síðan hann var Snake Pliskin í John Carpenter myndunum Escape from New York (1981) og Escape from L.A. (1996) Hann á heima á sama stalli og Vincent Vega úr Pulp Fiction og Mr. White úr Reservoir Dogs (1992). Hefði mátt kalla hann Stuntman Vega. Konurnar eru líka góðar, sérstaklega Pam (Rose McGowan), Abernathy (Rosario Dawson) og Zoe Bell sem leikur sjálfa sig. 


Langbesti bílaeltingaleikur sem ég hef séð í kvikmynd birtist á tjaldinu þar sem Tarantino tekst að slá við myndum eins og Bullit (1968) og French Connection (1971) með æsilegasta eltingaleik sem gerður hefur verið, þar sem ein aðalpersónan hangir lengi á húddi bílsins sem verið er að elta.  

Ekki má gleyma því að Tarantino tekst að lauma inn sígerattutegundinni Blue Apple, og minnist á hamborgarastaðinn Big Kahuna, nokkuð sem gladdi mikið Sancho félaga minn sem fór með mér á myndina. Einnig vísar hann töluvert í gamlar bílaeltingamyndir, eins og Vanishing Point (1971), sem ég einfaldlega hef ekki séð, en Sancho dásamaði mikið.


Ég mæli tvímælalaust með Death Proof, en hún inniheldur gífurlega mikið af samtölum, eins og Tarantino er von og vísa, sem sumum gæti leiðst ef þeir leita bara eftir spennu og hasar. Aftur á móti tekst með samtölunum að skapa sterkar og eftirminnilegar persónur sem manni stendur ekki á sama um þegar hasarinn byrjar. Það er svona sem ég vil hafa spennumyndirnar mínar; með smá dýpt og persónum sem lögð er vinna í. 

Þrátt fyrir að fá Death Proof ekki sem hluta af Grindhouse veislunni, stendur hún sterk ein og sér.


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 5. sæti: Superman (1978-2006)


Superman: The Movie (1978) stuðlaði að byltingu í ofurhetjukvikmyndum. Þetta var fyrsta bíómyndin byggð á teiknimyndapersónum sem þorði að taka sjálfa sig alvarlega. Salkind feðgarnir sem fjármögnuðu myndina tóku gífurlega áhættu með því að fá til liðs við sig Marlon Brando til að leika föður Superman, stærsta nafnið í Hollywood eftir The Godfather (1972) og The Last Tango in Paris (1972), og Gene Hackman, sem var eitt stærsta nafnið í Hollywood á 7. áratug 20. aldar, sérstaklega eftir stórmyndirnar The French Connection (1971), The Poseidon Adventure (1972), The Conversation (1974) og Young Frankenstein (1974).

Ef Marlon Brando hefði ekki fyrstur samþykkt til að leika í myndinni, þá er ólíklegt að ofurhetjumyndir hefðu náð þeim vinsældum sem þær hafa náð í dag. Það sérstaka við ofurhetjumyndir er að þær eru kvikmyndaútgáfan af nútíma goðsögum; en Superman er að sjálfsögðu endurímyndun Herkúlesar úr grísku goðafræðinni og Þórs úr þeirri norrænu. Það sem gerði þessar fornu hetjur heillandi er nákvæmlega það sem kveikir áhuga fólks á Superman.

Vísindamaðurinn Jor-El og eiginkona hans Lara hafa tekið virkan þátt í að mynda fyrirmyndaríki á plánetunni Krypton. Þegar Jor-El verður var við geimfyrirbæri sem ógnar tilvist plánetunnar, og ráðamenn standa í veg fyrir að hann bjargi Kryptonkyninu frá tortýmingu, ákveður hann að senda son sinn, Kal-El, með geimskipi til Jarðar. Þar sem að frumeindir í líkama Kryptonbúa eru mjög þéttar, verður Kal-El gífurlega sterkur á jörðinni. Drengurinn er tekinn í fóstur hjá Kent fjölskyldunni. Hann vex úr grasi og flytur til Metropolis, þar sem hann lifir hversdagslífinu sem blaðamaðurinn Clark Kent, en tekur af sér gervið þegar nauðsyn krefur og bjargar manni og öðrum sem Superman.

Sagan snýst um ástarævintýri Clark/Superman og Luis Lane annars vegar; og um glæpsamlegar áætlanir snillingsins Lex Luthor um að sökkva hluta af Bandaríkjunum til þess að geta selt landsvæði sem hann hefur fjárfest í, en er aðeins eyðimörk. Superman bjargar að sjálfsögðu öllum málum, en þó ekki án þess að breyta sjálfum náttúrulögmálunum (sem er að mínu mati eini gallinn við myndina).

supermaniiadv17378Christopher Reeve varð að stjörnu í hlutverki Superman, og átti eftir að sýna í lífinu sjálfu, eftir að hafa hálsbrotnað eftir fall af hestbaki, að hann var ofurmannlegur þegar kom að baráttunni fyrir eigin bata; og þegar hann áttaði sig á að hann myndi aldrei ná fullum bata, varð hann ofurmannlegur í baráttunni fyrir betri lífsgæðum lamaðra. 

Superman II  (1980) er svolítið merkileg. Megnið af henni var tekin upp á sama tíma og fyrsta myndin, en þegar kom að því að klára hana, var leikstjóranum Richard Donner rekinn frá störfum; og það þrátt fyrir geysilega vel heppnaða fyrstu mynd. Þetta varð til þess að Richard Lester tók við keflinu og stóð sig bærilega. Hann notaði mikið af því efni sem Donner hafði tekið upp, en bætti einnig við fjölda atriða sem höfðu meiri 'húmor'; og fyrir vikið tók hann myndina ekki jafn alvarlega og þá fyrri, og úr varð mun lakari framhaldsmynd. 

En Richard Donner fékk hins vegar tækifæri til að púsla saman sinni útgáfu á síðasta ári; og þó að ekki hafi tekist að ljúka henni fullkomlega, af tæknilegum ástæðum, þá er um mun betri mynd að ræða; þar sem Marlon Brando endurtekur hlutverk sitt - en hann birtist ekkert í Richard Lester útgáfunni. Það má segja að Richard Donner útgáfan hafi sál, en Lester útgáfan þynni hana út.

Í þessari mynd losna þrír uppreysnarmenn frá Krypton úr fangelsi sem Jor-El hafði fundið upp; og hefur foringi þeirra heitið því að uppræta fjölskyldu Jor-El. Því er sjálfsagt að hópurinn heldur með ofurkrafta til jarðar, leggur allt í rúst og ætlar að drepa Superman; en á sama tíma hefur Superman ákveðið að hafna kröftum sínum til að geta lifað sem manneskja með Luis Lane.

supermaniii1983_50657nÞegar hann uppgötvar að jörðin er orðin að vígvelli sem enginn getur bjargað nema Superman, þarf hann að taka mikilvæga ákvörðun: að fá ofurkraftana aftur og verða aldrei mennskur aftur, eða deyja fljótt á hertekinni jörð með konunni sem hann elskar.

Superman III (1983) var leikstýrð af Richard Lester. Richard Pryor leikur eitt aðalhlutverkið, og kannski þess vegna er myndin nánast einn skopleikur. Pryor leikur tölvusnilling sem getur stjórnað gervihnöttum og haft áhrif á hvað sem er á jörðu niðri, auk þess að hann finnur leið til að skapa ofurtölvu með öfluga gervigreind. Superman þarf að stoppa þennan snilling og illmennin sem toga í strengi hans.

supermaniv1Mest af þessari mynd er drasl. Samt er hluti af Superman III hrein snilld. Það er þegar Superman hefur fengið gervi-kryptonít loftstein að gjöf, sem hefur þau áhrif á Superman að honum verður nákvæmlega sama um allt, sem verður til þess að hann mótast smám saman í hreint illmenni. Þessi sena er myndarinnar virði. Annað ekki.

Superman IV: The Quest for Peace (1987) er mistök frá A til Ö. Það er ekki nóg með að sagan sé hallærisleg, um tilraun Superman til að eyða öllum kjarnorkuvopnum á jörðinni, sem verður svo til þess að Lex Luthor misnotar skortinn á kjarnorkuvopnum til að græða pening og búa til Kjarnorkumanninn til að berjast við Superman, heldur eru tæknibrellurnar svo skelfilega lélegar að það er varla horfandi á myndina. Þetta varð til þess að ekki var gerð ný Superman mynd í 20 ár.

superman_returns_ver2Superman Returns (2006) er nýjasta afurðin um ofurmennið Superman. Hún er tæknilega frábær og leikstýrð af miklu öryggi. Aftur á móti er hún frekar sálarlaus; þ.e.a.s. leikurinn og handritið eru ekkert framúrskarandi, en klára samt sína vinnu.

Superman hefur verið í rannsóknarleiðangri í fimm ár til að finna út hvað varð um plánetuna Krypton. Hann snýr aftur með þá vitneskju að allir á Krypton fórust. Þegar hann mætir aftur til vinnu í Metropolis hefur Luis Lane eignast barn og er trúlofuð syni ritstjóra Daily Planet. Hans fyrsta verk er að sjálfsögðu að bjarga lífi hennar; en nú er staðan aðeins flóknari, því að hann yfirgaf hana fimm árum fyrr - og getur ekki reiknað með að verða sjálfkrafa hluti af lífi hennar aftur.

Þessi tónn virkaði alls ekki á mig þegar ég sá Superman Returns í bíó. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Svo sá ég hana um daginn á DVD, og væntingarnar voru þá vissulega ekki jafn miklar; en ég áttaði mig þá á að myndin er mun betri en mér hafði upphaflega fundist; hún er bara svo allt öðruvísi en ég vonaðist til, þess vegna hafði ég dæmt hana af hörku. Í dag finnst mér Superman Returns vera feikigóð mynd, þ.e.a.s. eftir að ég hafði sætt mig við tóninn. 

 

 

5. sæti: Superman (1978-2006)

6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)

7. sæti: Darkman (1990)

8. sæti: Ghost Rider (2007)

9. sæti: Unbreakable (2000)

10. sæti: Hellboy (2004)


Raunverulegur möguleiki á heimsmeistaratitli fyrir Íslendinga

Góðir möguleikar á heimsmeistaratitli fyrir Íslendinga, en mér finnst nóg um hversu mikið er lagt á börnin.  (Sigurður Bragi Guðmundsson)

 

Tékkland: HM í Pardubice # 4

Dagur 5:  

Í dag fengu Íslendingar tékknesku U-14 sveitina og lögðu hana 4-0. Jóhanna Björg vann sinn andstæðing eftir laglega sókn á kóngsvæng. Patti sigraði af miklu öryggi. Palli vann með einstakri heppni, og Gummi lagði sinn andstæðing létt.

Á morgun verður teflt við Qatar, fyrst U-16 sveitina og síðan U-14. Ljóst er að þetta eru lykil viðureignir þar sem heimsmeistaratitill liggur undir. 

Ég mun senda inn fréttir á morgun af gengi okkar manna.

Staðan er þannig í U-14 flokki:

  • 1. sæti: Salaskóli 11,5
  • 2. sæti Qatar -  8,5
  • 3. sæti Portugal 8,0 

Fyrir utan að hafa verið að tefla allt að tvær skákir í dag, allt að fjóra tíma í senn, hafa börnin verið að stúdera þrjá til fjóra tíma á dag eftir skákirnar til að læra af þeim. Þau sýna einstaklega mikinn áhuga og dugnað, við erfiðar aðstæður, enda hótelið ekki loftkælt og hitinn 35 gráður. Börnin halda enn góðri einbeitingu þrátt fyrir bæði mikinn klið og læti í skákhöllinni, auk mikils hita. Hitinn gæti verið Qatar í hag; en spáð er um 37 stiga hita á morgun, en börnin úr Salaskóla eru vel undirbúin, hafa borðað vel, sofið vel og haldið góðum aga, þannig að þetta verður æsispennandi.

Mér finnst gott hvað Hrannar heldur góðum aga á svefnvenjum, mataræði, kurteisi, stundvísi, og góðri háttsemi. (Sigurður Bragi Guðmundsson) 

Meira á morgun...

Tékkland: HM í Pardubice # 1

Dagur 1:

Hópurinn fríði lagði af stað kl. 4:30. Flug til Kaupmannahafnar kl. 7:00 og til Prag kl. 14, og svo rúta til Pardubice kl. 17:00.

Ferðin var tíðindalaus að mestu, sem er gott fyrir svona ferðir. Börnin borðuðu góðan kvöldmat og ættu að vera sæmilega stillt fyrir 1. umferð heimsmeistaramóts barnaskólasveita sem hefst k. 15:30 á morgun.

Sveitin er þannig skipuð:

  1. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
  2. Patrekur Maron Magnússon
  3. Páll Snædal Andrason
  4. Guðmundur Kristinn Lee
  5. Birkir Karl Sigurðsson

Dagur 2:  

Allir eru orðnir vel þreyttir núna kl. 20:00. Kominn tími til að fara í háttinn.

Þegar á skákstað var komið daginn eftir hafði umgjörð mótsins verið breytt. U-14 og U-16 eru að keppa í sama hollli, og umferðum hefur verið fjölgað úr 7 í 9. Við erum U-14 og lentum á móti U-16 sveit frá Prag í fyrstu umferð. Ég er ekki viss um að þeir hafi verið neitt sterkari skákmenn en okkar krakkar, sem tefldu ekki alveg eins og þau eiga að sér, nema þá kannski Patti á 2. borði, en hann var sá eini sem náði jafntefli. Þannig að 1. umferð töpuðum við 3.5-0.5.

Það skiptir ekki máli hversu stórt er sigrað eða tapað, því að liðið fær aðeins stig fyrir sigur eða jafntefli. Það eru tvö stig í pottinum. 2 stig fyrir sigur og 1 fyrir jafntefli.

Semsagt Ísland U-14 gegn Tékklandi U-16: 0-1 

Krakkarnir kvörtuðu svolítið yfir látum á skákstað, en keppt er í stórri skautahöll, ófrystri, og var mikið af fólki inni í höllinni sem var ekki að tefla og hugsaði ekkert um mikilvægi þagnar fyrir skákina. Margoft heyrði maður háværar gemsahringingar og ekkert gert við því. Ég talaði við skipuleggjendur um þetta, en þeir sögðust ekkert geta gert við þessu, en að þetta myndi skána því að fleira fólk sem ber virðingu fyrir skák verður í salnum næstu daga, því fjöldi skákmóta mun fara fram þar. 

Það á eftir að reyna á þetta. Þetta pirrar mig ekki persónulega, því að ég er vanur miklum klið í skákmótum á Mexíkó; en skil vel að þetta trufli börnin. Þau þurfa bara að læra mikilvægi þess að láta ekki ytri aðstæður trufla sig.

Við fórum yfir þrjár af skákunum í gærkvöldi, og börnin lærðu mikið af þeim rannsóknum. Ljóst að þau voru ekki að átta sig á mikilvægi þess að taka vald á hálfopnum og opnum línum. Einnig var svolítið um að drottningar færu á flakk í byrjuninni og farið í sókn áður en byrjuninn var lokið, nokkuð sem kemur varla fyrir á æfingum hjá okkur. En þessu er auðvelt að kippa í lag og mikilvægast af öllu að börnin bæði hafi gaman af og læri á reynslunni.

Næsta umferð er í dag kl. 15:00.

Heimasíða heimsmeistaramóts barnaskóla í skák 2007

 


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)

Í upphafi X-Men skilja nasistar drenginn Eric Lensherr frá foreldrum sínum. Drengurinn tryllist og uppgötvast að hann getur stjórnað málmi með hugarorkunni einni saman. Nasistar halda honum á lífi. Síðar er þessi drengur betur þekktur sem Magneto (Ian McKellen) höfuðóvinur X-manna, sem reyna að lifa friðsælu lífi, og rannsaka sjálfa sig og eigin ofurkrafta.

Magneto heldur að mannkynið sé allt nasistar, að það muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að útrýma stökkbreyttum einstaklingum með ofurkrafta. Þess vegna vill hann útrýma mannkyninu áður en það fær tækifæri til að útrýma honum og hans líkum.

Charles Xavier (Patrick Stewart) er leiðtogi X-manna og hann sér að mannkynið stefnir einmitt í þá átt að ógna tilvist þessara stökkbreyttu einstaklinga. Xavier hefur ógurlega hugarorku, hann getur lesið hugsanir annarra, náð hugarsambandi við annað fólk og staðsett hverja einustu mannveru í heiminum, eins og væri hann gríðarlegur GPS nemi. Xavier vill ekki útrýma mannkyninu. Hann vill leita friðsamlegra lausna með samræðum og auknum skilningi.

Stjórnmálamenn vilja krefjast þess að stökkbreytt fólk skrái sig sérstaklega svo að hægt verði að fylgjast með því. Magneto getur engan veginn sætt sig við þetta; en Xavier er tilbúnari til að gangast við þessu. Þetta þýðir að ofurhetjurnar hjá X-mönnum lenda í átökum gegn ofur-illmennum Magneto.

Wolverine (Hugh Jackman) fer fremstur í flokki hetjanna, en beinagrind hans er gerð úr fljótandi, sem gerir honum mögulegt að skjóta fram stálhnífum milli hnúa sinna þegar hann reiðist, og öll sár hans gróa fljótt, sama hversu alvarleg þau kunna að vera. Félagar hans og óvinir eru of margir til að telja upp; en sagan tekur á sig skemmtilegan krók í upphafi X2: X-Men United,  þegar hershöfðinginn William Stryker (Brian Cox) finnur nýjar leiðir til að etja óvinunum saman, og laumar á leyndarmáli um uppruna Wolverine.

Það er nauðsynlegt að minnast aðeins á X-Men: The Last Stand, niðurlagið á þríleiknum; en sú mynd nær engan veginn með tærnar þar sem fyrstu tvær höfðu hælana, þrátt fyrir góðar tæknibrellur. Sú mynd er algjörlega sálarlaus; nokkuð sem einkennir ekki fyrstu tvær X-Men myndirnar, aðalpersónur eru drepnar og ein er í það mikilli tilvistarkreppu að hún spáir í að rústa heiminum öllum, það má segja að hún sé myrkari en fyrri myndirnar, en það má líka segja að hún sé töluvert heimskulegri. 

Tæknibrellur eru óaðfinnanlegar í þessum myndum; og gífurlega stór og misjafnlega góður leikarahópur nær vel saman. Allra verst finnst mér þó Halle Berry sem Storm, en bestur finnst mér Hugh Jackman sem Wolverine; en einhvern veginn tekst honum að vera jarðtenging og hjarta fyrstu tveggja myndanna, en gefur aðeins eftir í þeirri þriðju, þrátt fyrir að vera grófur og ruddalegur persónuleiki sem þykist vera sama um allt og alla, - honum er samt alls ekki sama.

 

X-Men

 

X2: X-Men United

 

X-Men: The Last Stand


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 7. sæti: Darkman (1990)

 398px-Darkman

Vísindamanninum Peyton Westlake (Liam Neeson) hefur tekist að þróa gervihúð sem notuð getur verið til lýtalækninga. Formúlan er þó ekki fullkomin, þar sem að eftir 99 mínútur bráðnar húðin og verður að engu. Kvöldið sem hann finnur ástæðuna fyrir þessum galla brjótast glæpamenn inn í rannsóknarstofuna til að ná skjölum sem kærasta hans, lögfræðingurinn Julie Hastings (Frances McDormand) skildi eftir, en þau geta sannað sekt mafíuforingjans Larry Drake (Robert G. Durant).

Glæpamennirnir misþyrma Westlake og sprengja rannsóknarstofu hans í loft upp. Það sem þeir vita ekki er að hann lifir sprenginguna af, en öll hans húð hefur brunnið. Til að lina sársauka hans klippa læknar á þær taugar sem bera sársaukaboð upp í heila. 

Eftir aðgerðina getur Westlake aðeins hugsað um tvennt, kærustuna sína og að ná fram hefndum. Þessi rólyndismaður hefur misst alla stjórn á eigin tilfinningum og er skapbráðari en nokkurn tíma fyrr. Hann notar tæknina sem hann hefur þróað til að búa til húð og andlit handa sjálfum sér, og uppgötvar að hann getur í raun sett á sig hvaða andlit sem honum dettur í hug og verið með það í 99 mínútur áður en það bráðnar af. Hann notar þessa tækni óspart til að hrella bófana.

Westlake er orðinn að Myrkramanninum og tekst á við tvö erfið verkefni; að gera út af við skúrkana og viðhalda sjálfum sér sem heilsteyptri manneskju, þó svo að húð hans sé alltaf að detta í sundur.

Sam Raimi leikstýrði Darkman, heilum áratug áður en hann tókst á við Spider-Man.

 


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 8. sæti: Ghost Rider (2007)


Faðir Johnny Blaze (Nicolas Cage/Matt Long) hefur greinst með lungnakrabba, enda reykir hann eins og strompur. Skrattinn (Peter Fonda) kemur til Johnny og býður honum upp á samning, hann muni komi í veg fyrir að faðir hans deyi úr krabbameini, en í staðinn eignist hann sál Johnny. Johnny samþykkir. Krabbameinið hverfur, en faðir Johnny deyr samt. Bara af öðrum orsökum.  

Til margra ára er Johnny bitur út í skrattann fyrir þessi svik. Hann hefur mótorhjólastökk sem atvinnu, og sama hversu illa hann lendir; alltaf lifir hann af.  Það er verk skrattans. Líður að þeim degi þegar skrattinn vill fá sál Johnny og nota hann sem verkfæri sitt á jörðu. Johnny breytist í logandi beinagrind á nóttunni, en lítur svo út eins og Nicolas Cage á daginn.

En Johnny er ekki sáttur við að vera verkfæri djöfulsins, enda góður strákur sem gaf sál sína í göfugum tilgangi - en ekki eigingirni eins og flestir sem selja djöflinum sál sína, og það gefur honum sjálfstæðan vilja og tækifæri til að berjast um eignina á eigin sál. Það er þessi hugmynd sem gerir Ghost Rider áhorfsins virði, og hvernig Nicolas Cage fer með hlutverkið. Einnig er Peter Fonda ágætur sem skrattinn, en Sam Elliot stelur hins vegar senunni sem eldri útgáfa af draugaþreytinum.

Tæknibrellurnar eru flottar, leikurinn la-la, og plottið sjálft frekar þunnt, illmennin grunn en flott, þó að aðalpersónan sé mjög vel heppnuð. Styrkur myndarinnar felst fyrst og fremst í kjarnahugmyndinni um að það er til lausn á öllum vandamálum, sama þó að maður hafi sjálfur skrifað undir að lenda í þeim, svona rétt eins og hjónaskilnaður.

Ghost Rider er ekki fyrir hvern sem er, en hún tekur persónurnar alvarlega og gerir heiðarlega tilraun til að skila góðu efni. Alls ekki fullkomin, en ef þér líst á rökin hér að ofan, kíktu þá endilega á hana. En ef þér finnst of mikið að sjá logandi beinagrind á mótorhjóli berjast við einhverja skrattakolla frá helvíti, þá er eins gott að sleppa henni. Mörgum finnst Nicolas Cage of gamall í þetta hlutverk, en mér finnst hann fínn.


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 9. sæti: Unbreakable (2000)


Í Unbreakable uppgötvar David Dunn (Bruce Willis), fjölskyldufaðir um fimmtugt sem starfar við öryggisvörslu, eftir að hann lifir af lestarslys sem verður 131 manni að bana; að hann er ekki eins og fólk er flest. Hann hefur ekki fengið á sig eina einustu skrámu og er óendanlega sterkur - það hafði bara aldrei reynt á það. Eins og flest ofurmenni, hefur hann einn veikleika, og í hans tilfelli er vatn það eina sem getur drepið hann.


David verður var við mann sem virðist elta hann út um allt. Þessi náungi er Eliah Price eða Mr. Glass (Samuel L. Jackson), maður sem er svo brothættur að nánast hvert einasta bein í líkama hans hefur einhvern tíma brotnað. Hann setti saman þá kenningu að eina útskýringin á veikum líkama sínum væri sú að æðri máttarvöld hlytu að hafa gert andstæðu hans sem væri jafn sterk og hann var veikur. Hann er tilbúinn til að sanna þessa kenningu sína, sama hvað það kostar.

Á meðan David leitar leiða til að nýta ofurkrafta sinna á hetjulegan hátt, reynir Price að ná sínum sjálfselsku markmiðum; og þannig verða til öfl sem berjast hvert gegn öðru, hið góða og hið illa.


Unbreakable er í sjálfu sér ekkert sérstaklega spennandi mynd eða vel gerð, en hugmyndirnar á bak við hana eru góðar. Hvað ef Dabbi á götunni uppgötvaði einn góðan veðurdag að hann hefur ofurkrafta og ekkert geti unnið honum tjón? Hvað myndi Dabbi gera við þessa krafta? Væri hann skuldbundinn til að bæta samfélagið með verkum sínum, eða gæti hann lifað lífi sínu óbreyttu eftir að hafa öðlast þessa nýju þekkingu?

Þessar pælingar eru stórskemmtilegar og eru það sem gerir Unbreakable að fínni skemmtun. Ekki hasaratriði fljúgandi ofurhetja í latexbúningu, heldur pælingar um það hvort að allt hafi merkingu í veröldinni, og hvort að allt tengist einhvern veginn saman, og hvernig þá?

 Kíktu á kynningarmyndband um Unbreakable:


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 10. sæti: Hellboy (2004)

Nú langar mig að búa til lista yfir 10 bestu ofurhetjumyndir sem gerðar hafa verið fyrir bíó. Ef gerðar hafa verið fleiri en ein mynd um viðkomandi ofurhetju mun ég aðeins nefna þá sem mér finnst best í röðinni. James Bond, Indiana Jones og John MacClane flokkast ekki sem ofurhetjur í þessari upptalningu, þar sem að ofurhetjan þarf helst að hafa einhverja sérstaka krafta eða einkenni sem aðskilur hana frá öllum öðrum hetjum. Jones er fornleifafræðingur, Bond er njósnari og MacClane er lögga. Ofurhetjumyndir fjalla um þá sem eru fyrst og fremst ofurhetjur, og svo eitthvað annað; en ekki öfugt.

Ég ætla ekki að skrifa eiginlega gagnrýni fyrir hverja mynd, heldur draga fram þá þætti sem mér finnst gera viðkomandi mynd þess virði að kíkja á hana. 

826813~Hellboy-Gold-Door-Posters

10. besta ofurhetjumyndin að mati Donsins er Hellboy frá 2004, sem leikstýrð var af snillingnum Guillermo del Toro. Ég viðurkenni fúslega að þetta er engan veginn fullkomin ofurhetjumynd og hefur þónokkuð af göllum, en hún er samt frumleg og vel gerð. Möguleikarnir eru miklir og hún leyfir sér að sýna sérstakan karakter.

Það eru nokkrar ofurhetjur í þessari mynd, en aðal gaurinn er Heljarguttinn, eldrauður náungi með horn á hausnum sem hann hefur sorfið af, því hann vill ekki líkjast skrattanum um of. Hann kom inn í mannheima gegnum hlið sem nasistar opna til heljar; og rétt áður en bandamönnum tekst að loka hliðinu og stoppa illmennin, skríður Heljarguttinn, sem lýkist helst rauðum apa með gífurlega stóra krumlu út úr hliðinu. Prestur tekur guttann að sér og elur hann upp í kaþólskri trú. Þannig er strax orðin til nokkuð þversagnarkennd persóna; skrattakollur úr helvíti sem langar að enda í himnaríki og ætlar að vinna sér inn fyrir ferðinni þangað með því að berjast gegn illum öflum sem herja á jarðarbúum. 

Ron Perlman er stórgóður og bara nokkuð fyndinn sem Heljarguttinn, og er hann bara nokkuð sannfærandi sem góða skrýmslið sem lúskrar á vondu skrýmslunum. Tæknibrellurnar eru óaðfinnanlegar, en helsti veikleiki myndarinnar er frekar slakt handrit og klisjukenndur söguþráður (þrátt fyrir frumleika) og slakar aukapersónur og leikarar, fyrir utan Ron Perlman og John Hurt í hlutverki prestsins. Illmennin eru líka skemmtilega gerð, en samt ekki nógu klók til að skapa neina almennilega spennu.


Vil líka láta vita að því að hægt er að fá 4 DVD diska útgáfu af Superman The Movie (sem verður reyndar ofar á topp 10 listanum mínum) á um kr. 400 (með sendingarkostnaði), sem með tolli og skatti ætti að kosta í mesta lagi um kr. 1000,- í heildina þegar heim er komin. Ég hef sett hlekk á þetta góða verð á forsíðu síðunnar Philosophy in the Movies, og verður þetta tilboð þar, uns verðið hækkar. Götuverð á þessari útgáfu er kr. 2400,- í Bandaríkjunum, þannig að ég tel þetta vera einstaklega gott tilboð.

Kíktu á sýnishorn úr Hellboy hérna:





The Fantastic Four: Rise of the Silver Surfer (2007) *


Reed Richards, sem opinberlega er kallaður hinu hógværa nafni, herra frábær (Ioan Gruffudd) og Sue Storm sem kölluð er ósýnilega konan (Jessica Alba) ætla að giftast. Mikið fjölmiðlafár er í kringum giftingu þeirra enda eru þau frægasta par í heimi, eða því sem næst. Bróðir Sue, eldmaðurinn Johnny Storm (Chris Evans) er fúll út í kærustuparið fyrir að vilja giftast og skilja sig eftir í ofurhetjusúpunni með hlunkinum Ben Grimm (Michael Chicklis), sem er jafnfúll yfir þessum áformum parsins. Þroski hetjanna frábæru er semsagt á við fimm ára krakka og hugsanlega er það markhópur myndarinnar, því hún nær engan veginn til mín.


Samband þeirra Reed hins teygjanlega og Sue hinnar ósýnilegu er áhorfandanum svo gjörsamlega ósýnilegt að hann hlýtur að teygja kjammann í geispa. 

Yfirmenn í bandaríska hernum nálgast Reed Richards og segjast hafa áhyggjur af fljúgandi furðuhlut sem er að skilja hálfa heimsbyggðina rafmagnslausa og frosna. Reed segist hafa lítinn tíma í svona heimsendapælingar enda gifting á næsta leiti og ekkert getur truflað hann frá henni, nema kannski gemsinn sem hann gleymir að slökkva á við athöfnina.


Óvætturinn utan úr geymnum er silfurlitaður gaur sem lítur út nákvæmlega eins og T-1000 úr Terminator 2, nema hvað líkami hans er leikinn af Doug Jones, þeim hinum sama og lék skrýmslin í hinni frábæru Pan's Labyrinth, og rödd hans er leikinn af engum öðrum en Morpheus úr The Matrix, eða Laurence Fishburne. Ástæða komu hans til jarðar er að undirbúa málsverð fyrir Galactus, mikið skrýmsli sem lítur út eins og þrumuský í myndinni - en er mikill og ógurlegur risi í teiknimyndasögunum. 

Ég get ekki annað en viðurkennt að tæknibrellurnar eru flottar. The Silver Surfer er vel gerður og skemmtilegt hvernig hann þeytist út um hittinn og dattinn; einnig er skemmtilegt þegar Thames fljótið í London tæmist. Fyrir þessi atriði fær myndin eina stjörnu. Og jú, Doktor Doom blandast inn í atburðarrásina og flækist eitthvað smá fyrir, drepur einhverja hermenn, stelur bretti og hverfur svo þegar ofurhetjunum tekst að ná aftur brettinu sem hann stal.


Allt hitt er drasl. Sagan er hrein hörmung, og þá sérstaklega með tilliti til þess hversu vel henni er komið til skila í teiknimyndasögunum sjálfum.  Leikararnir standa sig hörmulega, fyrir utan þá Doug Jones og Laurence Fishburne í sama hlutverkinu sem Silfurvafrarinn. Gamanleikurinn sem aðallega birtist á milli hlunksins og eldmannsins er klunnalegur. Það sem mér finnst allra verst er að þessar hetjur haga sér alls ekki eins og hetjur; þær haga sér eins og fórnarlömb aðstæðna frá upphafi til enda. Maður reiknar alveg eins með því að þeir setjist á götuna og skæli.

Þetta hefði getað verið góð mynd, jafnfvel frábær, ef aðeins hefði verið lögð lágmarks vinna í handritsgerðina. Handritið er uppistaða góðrar kvikmyndar, án góðs handrits verður aldrei til góð kvikmynd. Ég viðurkenni þó að sumt fólk virðist njóta þessarar myndar. Þegar ég sá hana í kvikmyndahúsi í Bandaríkjunum um daginn, klöppuðu þónokkrir gestir í lok myndarinnar. Mér varð hálf hverft við. Svo gaf Mogginn henni þrjár stjörnur. Varla lýgur Mogginn?


Reyndar var svolítið merkileg auglýsing í bíóinu áður en myndin hófst; þar sem bandaríski herinn kom með skilaboð til barna og unglinga, en þar var auglýst eftir sjálfboðaliðum í bandaríska herinn, með loforði um stuðning á móti til góðrar menntunnar og fjárhagslegrar velgengni í lífinu. Við lok þeirrar auglýsingar heyrðist í tveimur félögum á fertugsaldri sem sátu fyrir aftan mig: 'Bullshit!'

Ég vil bæta við tilvitnun í gagnrýni Sæbjörns Valdimarssonar, sem reyndar gaf myndinni þrjár stjörnur; nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt fyrir jafn slaka mynd, og er reyndar þvert á niðurlag greinar hans. En svona eru manneskjur ólíkar, sitt finnst hverjum:

Ff-2 er bærileg afþreying, sem er meira en hægt er að segja um aðrar stórmyndir sumarsins, sem hafa tekið sig alltof alvarlega og maður hefur setið uppi með þriggja tíma meiri og minni leiðindi. Ekki svo að skilja að Ff-2 sé annálafær á nokkurn hátt, gallarnir eru aðeins flestir þeirrar gerðar sem er fastur hluti hefðbundinnar sumarafþreyingar. Heimskulegur söguþráður, götótt framavinda, slök persónusköpun, allt er þetta til staðar, en leiðindi bætast ekki í hópinn. Við þökkum fyrir lítilræði á sumrin og útkoman er besta sumarafþreyingin til þessa.

(Sæbjörn Valdimarsson, Morgunblaðið, 16.06.2007)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband