The Fantastic Four: Rise of the Silver Surfer (2007) *


Reed Richards, sem opinberlega er kallaður hinu hógværa nafni, herra frábær (Ioan Gruffudd) og Sue Storm sem kölluð er ósýnilega konan (Jessica Alba) ætla að giftast. Mikið fjölmiðlafár er í kringum giftingu þeirra enda eru þau frægasta par í heimi, eða því sem næst. Bróðir Sue, eldmaðurinn Johnny Storm (Chris Evans) er fúll út í kærustuparið fyrir að vilja giftast og skilja sig eftir í ofurhetjusúpunni með hlunkinum Ben Grimm (Michael Chicklis), sem er jafnfúll yfir þessum áformum parsins. Þroski hetjanna frábæru er semsagt á við fimm ára krakka og hugsanlega er það markhópur myndarinnar, því hún nær engan veginn til mín.


Samband þeirra Reed hins teygjanlega og Sue hinnar ósýnilegu er áhorfandanum svo gjörsamlega ósýnilegt að hann hlýtur að teygja kjammann í geispa. 

Yfirmenn í bandaríska hernum nálgast Reed Richards og segjast hafa áhyggjur af fljúgandi furðuhlut sem er að skilja hálfa heimsbyggðina rafmagnslausa og frosna. Reed segist hafa lítinn tíma í svona heimsendapælingar enda gifting á næsta leiti og ekkert getur truflað hann frá henni, nema kannski gemsinn sem hann gleymir að slökkva á við athöfnina.


Óvætturinn utan úr geymnum er silfurlitaður gaur sem lítur út nákvæmlega eins og T-1000 úr Terminator 2, nema hvað líkami hans er leikinn af Doug Jones, þeim hinum sama og lék skrýmslin í hinni frábæru Pan's Labyrinth, og rödd hans er leikinn af engum öðrum en Morpheus úr The Matrix, eða Laurence Fishburne. Ástæða komu hans til jarðar er að undirbúa málsverð fyrir Galactus, mikið skrýmsli sem lítur út eins og þrumuský í myndinni - en er mikill og ógurlegur risi í teiknimyndasögunum. 

Ég get ekki annað en viðurkennt að tæknibrellurnar eru flottar. The Silver Surfer er vel gerður og skemmtilegt hvernig hann þeytist út um hittinn og dattinn; einnig er skemmtilegt þegar Thames fljótið í London tæmist. Fyrir þessi atriði fær myndin eina stjörnu. Og jú, Doktor Doom blandast inn í atburðarrásina og flækist eitthvað smá fyrir, drepur einhverja hermenn, stelur bretti og hverfur svo þegar ofurhetjunum tekst að ná aftur brettinu sem hann stal.


Allt hitt er drasl. Sagan er hrein hörmung, og þá sérstaklega með tilliti til þess hversu vel henni er komið til skila í teiknimyndasögunum sjálfum.  Leikararnir standa sig hörmulega, fyrir utan þá Doug Jones og Laurence Fishburne í sama hlutverkinu sem Silfurvafrarinn. Gamanleikurinn sem aðallega birtist á milli hlunksins og eldmannsins er klunnalegur. Það sem mér finnst allra verst er að þessar hetjur haga sér alls ekki eins og hetjur; þær haga sér eins og fórnarlömb aðstæðna frá upphafi til enda. Maður reiknar alveg eins með því að þeir setjist á götuna og skæli.

Þetta hefði getað verið góð mynd, jafnfvel frábær, ef aðeins hefði verið lögð lágmarks vinna í handritsgerðina. Handritið er uppistaða góðrar kvikmyndar, án góðs handrits verður aldrei til góð kvikmynd. Ég viðurkenni þó að sumt fólk virðist njóta þessarar myndar. Þegar ég sá hana í kvikmyndahúsi í Bandaríkjunum um daginn, klöppuðu þónokkrir gestir í lok myndarinnar. Mér varð hálf hverft við. Svo gaf Mogginn henni þrjár stjörnur. Varla lýgur Mogginn?


Reyndar var svolítið merkileg auglýsing í bíóinu áður en myndin hófst; þar sem bandaríski herinn kom með skilaboð til barna og unglinga, en þar var auglýst eftir sjálfboðaliðum í bandaríska herinn, með loforði um stuðning á móti til góðrar menntunnar og fjárhagslegrar velgengni í lífinu. Við lok þeirrar auglýsingar heyrðist í tveimur félögum á fertugsaldri sem sátu fyrir aftan mig: 'Bullshit!'

Ég vil bæta við tilvitnun í gagnrýni Sæbjörns Valdimarssonar, sem reyndar gaf myndinni þrjár stjörnur; nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt fyrir jafn slaka mynd, og er reyndar þvert á niðurlag greinar hans. En svona eru manneskjur ólíkar, sitt finnst hverjum:

Ff-2 er bærileg afþreying, sem er meira en hægt er að segja um aðrar stórmyndir sumarsins, sem hafa tekið sig alltof alvarlega og maður hefur setið uppi með þriggja tíma meiri og minni leiðindi. Ekki svo að skilja að Ff-2 sé annálafær á nokkurn hátt, gallarnir eru aðeins flestir þeirrar gerðar sem er fastur hluti hefðbundinnar sumarafþreyingar. Heimskulegur söguþráður, götótt framavinda, slök persónusköpun, allt er þetta til staðar, en leiðindi bætast ekki í hópinn. Við þökkum fyrir lítilræði á sumrin og útkoman er besta sumarafþreyingin til þessa.

(Sæbjörn Valdimarsson, Morgunblaðið, 16.06.2007)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

jæja þá veit ég það að ég eyði ekki tíma mínum í þetta

Hafrún Kristjánsdóttir, 3.7.2007 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband