10 bestu ofurhetjumyndirnar: 8. sæti: Ghost Rider (2007)


Faðir Johnny Blaze (Nicolas Cage/Matt Long) hefur greinst með lungnakrabba, enda reykir hann eins og strompur. Skrattinn (Peter Fonda) kemur til Johnny og býður honum upp á samning, hann muni komi í veg fyrir að faðir hans deyi úr krabbameini, en í staðinn eignist hann sál Johnny. Johnny samþykkir. Krabbameinið hverfur, en faðir Johnny deyr samt. Bara af öðrum orsökum.  

Til margra ára er Johnny bitur út í skrattann fyrir þessi svik. Hann hefur mótorhjólastökk sem atvinnu, og sama hversu illa hann lendir; alltaf lifir hann af.  Það er verk skrattans. Líður að þeim degi þegar skrattinn vill fá sál Johnny og nota hann sem verkfæri sitt á jörðu. Johnny breytist í logandi beinagrind á nóttunni, en lítur svo út eins og Nicolas Cage á daginn.

En Johnny er ekki sáttur við að vera verkfæri djöfulsins, enda góður strákur sem gaf sál sína í göfugum tilgangi - en ekki eigingirni eins og flestir sem selja djöflinum sál sína, og það gefur honum sjálfstæðan vilja og tækifæri til að berjast um eignina á eigin sál. Það er þessi hugmynd sem gerir Ghost Rider áhorfsins virði, og hvernig Nicolas Cage fer með hlutverkið. Einnig er Peter Fonda ágætur sem skrattinn, en Sam Elliot stelur hins vegar senunni sem eldri útgáfa af draugaþreytinum.

Tæknibrellurnar eru flottar, leikurinn la-la, og plottið sjálft frekar þunnt, illmennin grunn en flott, þó að aðalpersónan sé mjög vel heppnuð. Styrkur myndarinnar felst fyrst og fremst í kjarnahugmyndinni um að það er til lausn á öllum vandamálum, sama þó að maður hafi sjálfur skrifað undir að lenda í þeim, svona rétt eins og hjónaskilnaður.

Ghost Rider er ekki fyrir hvern sem er, en hún tekur persónurnar alvarlega og gerir heiðarlega tilraun til að skila góðu efni. Alls ekki fullkomin, en ef þér líst á rökin hér að ofan, kíktu þá endilega á hana. En ef þér finnst of mikið að sjá logandi beinagrind á mótorhjóli berjast við einhverja skrattakolla frá helvíti, þá er eins gott að sleppa henni. Mörgum finnst Nicolas Cage of gamall í þetta hlutverk, en mér finnst hann fínn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alvy Singer

Ég vil ekki trúa því að þetta sé góð mynd því ég fékk svo mikinn kjánahroll þegar ég sá trailerinn!

Alvy Singer, 7.7.2007 kl. 13:49

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta. Ég á eftir að sjá þessa mynd og er nú ákveðin í að drífa í því.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.7.2007 kl. 16:08

3 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Nei andskotinn. Ghost Rider? Hef reyndar ekki séð hana en er bara búinn að heyra slæma hluti.

Ómar Örn Hauksson, 7.7.2007 kl. 21:19

4 identicon

Sancho heldur að þú hafir borðað skemmdan burger úti í USA um daginn.

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband