Death Proof (2007) ***1/2


Þegar Quentin Tarantino og Robert Rodriguez gáfu út að þeir væru að gera bíómynd saman sem kallaðist Grindhouse, varð ég strax spenntur og gat varla beðið eftir útkomunni. Grindhouse var sett upp sem kvikmyndakvöld sem enginn átti að geta gleymt. Fyrst var uppvakningamyndin Planet Terror (2007) sýnd, í leikstjórn Rodriguez, og sú seinni Death Proof í leikstjórn Tarantino. Það eina sem átti að skilja myndirnar að voru sýnishorn úr myndum sem eru ekki til. Þótti þessi upplifun sérstaklega vel heppnuð og er Grindhouse sem ein kvikmynd með einkunnina 8.4 á Internet Movie Database, sem þýðir að hún er 98. besta kvikmynd sem gerð hefur verið samkvæmt því kerfi. 

Vandamálið er að Grindhouse náði ekki inn nógu miklu af peningum. Hinn almenni kvikmyndagestur fattaði ekki hvað Tarantino og Rodriguez voru að gera, og margir fóru heim í hlénu og misstu af kvikmynd Tarantinos. Þetta þýddi að þegar til Íslands kom var Grindhouse einfaldlega ekki í boði. Þess í stað eru myndirnar sýndar í sitthvoru lagi og í ólíkum kvikmyndahúsum, þannig að manni er jafnvel gert erfitt fyrir með að horfa á þær í röð.


Ég var búinn að ákveða að fara ekki á þessar myndir í bíó, né kaupa þær á DVD. Ég var virkilega svekktur yfir að fá ekki að sjá bíómyndina eins og leikstjórarnir ætluðu upphaflega að hafa hana, og skil ekki hvers vegna kvikmyndahúseigendum dettur ekki í hug að halda Grindhouse kvöld a.m.k. einu sinni til að gera þetta mögulegt. Ljóst er að græðgishyggjan er að drepa íslenskt bíó; það kostar 900 kall í bíó sem fólki finnst einfaldlega alltof mikið (álíka mikið og kostar í bíó á dýrustu sýningar í stærstu höfuðborgum heims), og þannig eru Íslendingar vandir af því að stunda þessa mikla skemmtun. Þess í stað virðist fólk annað hvort bíða eftir myndinni á DVD eða hlaða þeim niður af netinu, sem er ekki góð hugmynd þegar um sjóræningjaútgáfur er að ræða, aðallega vegna þess að gæði slíkra mynda jafnast sjaldan á við að sjá flotta mynd í bíó. Reyndar hafa fyrirtæki víða um heim tekið upp á að bjóða löglegt niðurhal á myndum gegn gjaldi, sem er reyndar varla raunhæfur kostur á Íslandi þar sem rukkað er ansi stíft fyrir megabætið í erlendu niðurhali. Þar að auki, fyrir 900 kall í bíó ætlast maður til að fá einhverja þjónustu, en það bregst ekki; gólfið í íslenskum bíóhúsum er með því ógeðslegasta sem maður upplifir í heiminum; klístrug og skítug, og það sama má segja um sætin. Þau lykta oft ansi illa og eru ekkert endilega þægileg. Svo eru líka alltaf þessi andskotans hlé sem klippa bíómyndirnar í sundur hvort sem að maður vill eða ekki. Það er engin furða að heimabíóin eru orðin vinsælli en kvikmyndahúsin.

Vissulega vandist ég á góða hluti í Mexíkó, þar sem kvikmyndahúsin eru snyrtileg, það kostar ekki nema um kr. 250 á hverja sýningu, engin hlé, stólarnir eru þægilegir og bæði mynd- og hljóðgæði eins góð og hægt er að hugsa sér; og svo er spænskur texti með myndunum, sem maður kippir sér reyndar ekkert upp við. Á Íslandi eru flest bíó því miður þriðja flokks. Ég fór oft tvisvar í viku á bíó, en þegar ég kom heim til Íslands nánast hætti ég bíóferðum af öllum þeim ástæðum sem að ofan greinir. Það er nánast búið að venja mig af þessari fíkn. Þess í stað leigi ég og kaupi fleiri myndir á DVD, en að kaupa eina DVD mynd er oft ódýrara en einn bíómiði.

Út af öllu þessu ætlaði ég ekki að fara á Death Proof í bíó. Mér finnst alltof mikið vaðið yfir mig sem bíógest á Íslandi, en ég er bara ekki sterkari persóna en svo að ég stóðst ekki freistinguna. Mig langaði í bíó og Death Proof gat orðið að góðri skemmtun. 

Jæja, hvað um það.


Death Proof fjallar um hóp kvenna sem skuggalegur maður, kallaður Stuntman Mike (Kurt Russell) eltir á röndum. Persónurnar eru sérstaklega vel byggðar. Manni finnst þær vera til. Tarantino tekst í þessari mynd að gera það sem gerði Pulp Fiction (1994) að svo frábærri skemmtun, hann fylgir gamalreyndri formúlu, snýr svo uppá hana og gengur lengra en nokkur myndi þora að vona. Hann er meistari í því að koma áhorfandanum á óvart, og það að honum skuli takast það í mynd sem segir allt sem segja þarf í titlinum, er mikið afrek. Tvisvar snýr hann myndinni upp á rönd og mölvar formúluna í spað á áhrifaríkan hátt.


Kurt Russel nær að skapa besta karakter síðan hann var Snake Pliskin í John Carpenter myndunum Escape from New York (1981) og Escape from L.A. (1996) Hann á heima á sama stalli og Vincent Vega úr Pulp Fiction og Mr. White úr Reservoir Dogs (1992). Hefði mátt kalla hann Stuntman Vega. Konurnar eru líka góðar, sérstaklega Pam (Rose McGowan), Abernathy (Rosario Dawson) og Zoe Bell sem leikur sjálfa sig. 


Langbesti bílaeltingaleikur sem ég hef séð í kvikmynd birtist á tjaldinu þar sem Tarantino tekst að slá við myndum eins og Bullit (1968) og French Connection (1971) með æsilegasta eltingaleik sem gerður hefur verið, þar sem ein aðalpersónan hangir lengi á húddi bílsins sem verið er að elta.  

Ekki má gleyma því að Tarantino tekst að lauma inn sígerattutegundinni Blue Apple, og minnist á hamborgarastaðinn Big Kahuna, nokkuð sem gladdi mikið Sancho félaga minn sem fór með mér á myndina. Einnig vísar hann töluvert í gamlar bílaeltingamyndir, eins og Vanishing Point (1971), sem ég einfaldlega hef ekki séð, en Sancho dásamaði mikið.


Ég mæli tvímælalaust með Death Proof, en hún inniheldur gífurlega mikið af samtölum, eins og Tarantino er von og vísa, sem sumum gæti leiðst ef þeir leita bara eftir spennu og hasar. Aftur á móti tekst með samtölunum að skapa sterkar og eftirminnilegar persónur sem manni stendur ekki á sama um þegar hasarinn byrjar. Það er svona sem ég vil hafa spennumyndirnar mínar; með smá dýpt og persónum sem lögð er vinna í. 

Þrátt fyrir að fá Death Proof ekki sem hluta af Grindhouse veislunni, stendur hún sterk ein og sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Fín grein hjá þér

Er reyndar þér ekki allskostar sammála vegna þess að mér finnst þetta ein af hans verri myndum a la Jackie Brown þar sem sæmræðurnar eru langt frá því a vera jafn beittar og fyndnar og oft áður , ennig að leika þarna sjálfur með vini sinum Eli Roth sem ekkert getur leikið gerir atriðin á barnum slæleg þrátt fyrir góða spretti Russels og í heildina er þetta ekki sú mynd sem mátti búast við það vantaði aðeins uppá Ultra hardcore violence eins og honum er von og vísa og það er bara með myndir hans QT maður hefur væntingar.

Það er af mörgum sagt að snobbað sé fyrir honum og geri ég það án efa sjálfur en þrátt fyrri vonbrigðin gaf ég þessari mynd 2 og hálfa stjörnu af 4 mögulegum en alveg bara rétt svo og einfaldlega af því að þarna er um að ræða smá af töfrum QT en lítið var það

Ómar Ingi, 4.8.2007 kl. 10:56

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson



Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.8.2007 kl. 20:07

3 Smámynd: arnar valgeirsson

var einmitt að lesa dóma um myndirnar tvær. held ég í fréttablaðinu. þar var rýnir ivíð hressari með rodrigez, þótti samtölin þar algjör snilld en tarantino eitthvað rólegri. skildist reyndar að tarantino - death proof- hefði verið á undan því vitnað er i hana í rodrigez mynd en kannski hef ég misskilið.... en er hjartanlega sammála flestu i grein. bíóin frekar lásí, flest, ekki allir salir þó. og sjitt hvað ég varð fúll um daginn þegar hléið kom. ekki farið í bíó lengi og þegar maður var orðin persóna í myndinni, þvílík innlifun, þá bara vúbbs, ljósin kveikt og allir út að pissa og kaupa meira popp og kók.

en ég væri sko til í grindhouse kvöld og það í bíó. þó þau séu slöpp þá finnst mér miklu meira gaman að horfa á góðar myndir í bíó en liggjandi fyrir framan imbann sko...

arnar valgeirsson, 5.8.2007 kl. 00:36

4 identicon

sælinú, fín mynd í góðum félagsskap.

Sígarettutegundin sem er að sjálfsögðu Red Apples, ekki Blue Apples, annars nokkuð sammála þér með stjörnugjöf, betri mynd en ég þorði að vona.

kv. Sancho.

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 01:29

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Arnar: Planet Terror var á undan þegar myndirnar voru sýndar saman sem Grindhouse. Ég viðurkenni að samtölin í Death Proof voru engin snilld að öðru leiti en því að með þeim tókst að búa til góðar persónur. Þar með var tilganginum náð.

Úr einum dóm af IMDB.com um Grindhouse: 

I'd been anticipating this movie for a long time now, and I was beyond excited when I got to see it... and I wasn't disappointed one bit. "Grindhouse" is an adrenaline-pumping thrill machine that consists of two back-to-back full length horror movies, capturing the style of the sleazy grind house movies of the '70s. They even went as far as tying the two films together with fake movie trailers. First in line is Robert Rodriguez's "Planet Terror", which is about a small Texas town where a bio-chemical is unleashed, transforming everyone into disgusting zombies. It's up to a go-go dancer with one leg, her ex-boyfriend, a doctor with an evil husband, and a few others to save the world. The second film is Quentin Tarantino's "Death Proof", which follows a psychotic ex-stunt man who takes late-night joyrides, preying on young women to kill them with his 'death proof' stunt car, and two groups of girls who unfortunately cross his path.

 Samkvæmt þessu, og mörgum öðrum dómum var Planet Terror sýnd fyrst.

Ómar: ég hafði einmitt heyrt að fólk var frekar vonsvikið með Death Proof, fyrir utan Kurt Russell, en myndin kom mér skemmtilega á óvart - persónusköpun góð, framvindan óvænt og endirinn betri en ég þorði að vona.

Sancho: Sammála að myndin var sérstaklega góð í þessum félagsskap. Að sjálfsögðu er rétt hjá þér að sígarettutegundin hét Red Apples. Þetta var einhvers konar Freudian slip hjá Doninum. Einhvern veginn finnst mér samt Blue Apples vera sígarettulegra nafn en Red Apples.

Gunnar: Mín er ánægjan

Hrannar Baldursson, 5.8.2007 kl. 05:04

6 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Veit ekki hvort þú hefur skoðað minn dóm á síðunni minni en ég er þér gjörsamlega ósámmála varðandi þessa ræmu. Ein af verstu myndum ársins. Er spenntari yfir Planet Terror.

Það er hisnvegar spurning hvort að menn haldi double feature nú þegar Planet Terror er komin í bíó. Hinsvegar eru myndirnar hér mun lengri en þegar þær voru sýndar í Ameríku. En eftir að hafa séð Death Proof nú þegar þá myndi ég persónulega ekki fara á það double feature. 

Ómar Örn Hauksson, 5.8.2007 kl. 08:24

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Horfi ekki á þessar myndir en finnst umræðan skemmtileg.

Ásdís Sigurðardóttir, 5.8.2007 kl. 09:52

8 Smámynd: Ómar Ingi

Já nafni enda var Planet Terror eiginlega betri en Deathproof sem Grindhouse kvikmynd en að setja þessar myndir saman eins Ómar nafni minn bendir á er ekki vænlegt og það sýndi sig í aðsókn í USA þetta heillaði ekki fólk að fara á rúmlega 4 klt og 20 min útgáfa af tveimur myndum.

En það sem vinirnir QT og Rodriques báðu Weisteins fyritæki um var að fólk gæti labbað inn og út af myndinni af vild og komið jafnvel daginn eftir , já svona eins og hægt var víst í den , en nú er öldin önnur og þetta áframkvæmanlegt og svo varð sem var segja vinirnir.

En QT verður að gera betur já mun betur ef hann á ekki fljótt að hverfa okkur sjónum sem einn ferskasti í Hollywood.

Ómar Ingi, 8.8.2007 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband