Færsluflokkur: Kvikmyndir

Varúð! Hörmuleg mynd: BloodRayne (2005) 0


Það sem fær mig til að skrifa þessa grein var auglýsing frá BT sem kom með póstinum í gær. Þar er  BloodRayne auglýst til sölu á DVD fyrir kr. 2299,- (Gos og snakk fylgir).

 

EKKI KAUPA HANA!

 

 

Ég sá BloodRayne fyrir nokkrum mánuðum en skrifaði ekkert um hana þar sem hún virtist ekki vera til á íslenskum vídeóleigum né hafa komið í bíó.

Í gær skrifaði ég um mjög slaka mynd, The Seven Swords, sem var í leikstjórn Tsui Hark, reyndar var mér tjáð í athugasemdum að sú útgáfa sem ég sá hafi verið sundurklippt vitleysa unnin úr mun lengri sjónvarpsþáttum. Ég væri tilbúinn til að kíkja á sjónvarpsþættina ef eitthvað er til í þessu. En til samanburðar, þá er The Seven Swords snilldarverk við hliðina á BloodRayne, og ég er alls ekki að gefa í skyn að The Seven Swords hafi mikla kosti.

BloodRayne er ein af þessum myndum sem er svo léleg að það er ekki einu sinni fyndið. Ef þú tækir með þér hóp af félögum til að gera grín að því hversu léleg þessi mynd er væri kvöldið ónýtt, þar sem vonlaust er að halda sér vakandi yfir þessum leiðindum.

Rayne er vampíra sem hatar allar aðrar vampírur og setur sér það mark í lífinu og drepa vampíruna sem nauðgaði og át síðan móður hennar þegar hún var lítil stúlka, en það vill þannig til að vonda vampíran er pabbi hennar. En þessi aðal og vonda vampíra er leikin af engum öðrum en sjálfum Ben Kingsley, sem hefur aldrei verið jafn lélegur og í þessari mynd.

Aðrir ágætis leikarar taka þátt í hörmungunum og standa sig allir jafn hörmulega. Þarna eru Michael Madsen, Meat Loaf, Billy Zane og Michelle Rodriguez; en þau virðast því miður öll vera uppdópuð og rugluð í þessu samsulli sem snýst ekki um neitt annað en dráp, hefnd og ofbeldi; þar sem mannslíf er einskis virði í huga nokkurs, ekki einu sinni leikstjórans.

En aðeins um leikstjórann, Uwe Boll. Hann hefur fengið það orð á sig að vera versti núlifandi leikstjórinn. Hann er arftaki Ed Wood. Ed Wood er þekktur fyrir að hafa gert Plan 69 from Outer Space, sem nær á neðsta sæti fjölmargra lista yfir lélegustu kvikmynd sem gerð hefur verið og gefin út.

Uwe Boll virðist ekki bera neitt skynbragð á eigin smekkleysi, sem útskýrir kannski hversu smekklausar og lélegar myndirnar hans eru að einhverju leyti. En getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig hann fer að því að fá öll þessu þekktu nöfn í leikhópinn? Ég trúi því ekki að hann geti borgað þeim sæmileg laun. Ég einfaldlega trúi ekki að það sé markaður fyrir þessar hörmungar sem hann hefur leikstýrt.

Til að styðja mál mitt get ég bent á að BloodRayne fékk 2.6 af 10 í einkunn á IMDB.com. Einnig fékk hún sex tilnefningar, öll á Bláu hindberjahátíðinni árið 2005, sem ég tel hér með upp:

  • Versta leikkona - Kristanna Loken
  • Versti leikstjóri - Uwe Boll
  • Versta kvikmynd
  • Versta handrit
  • Versti leikari í aukahlutverki - Ben Kingsley
  • Versta leikkona í aukahlutverki - Michelle Rodriguez

Til gamans langar mig að telja upp þær kvikmyndir sem Uwe Boll hefur leikstýrt og birta einkunnir þeirra af IMDB.com, þannig að nú lesandi góður, lærir þú eitthvað um það hvernig hægt er að forðast lélegar bíómyndir - athugaðu hver leikstjórinn er og leitaðu að umsögnum um aðrar myndir eftir hann.

Ég hef séð aðra mynd eftir Uwe Boll, sem gerð er eftir einum af mínum eftirlætis tölvuleikjum, Alone in the Dark, en hún er álíka slæm og BloodRayne. Uwe Boll hefur sýnt og sannað að það þarf ekki listamannsauga til að meika það í bíóheiminum. Hann nær einfaldlega að semja um not á nöfnum tölvuleikja sem hafa verið vinsælir, og getur þannig tryggt sér sölu á myndinni. Hann græðir alltaf, sama hversu lélegar myndirnar eru.

Hæsta mögulega einkunn er 10. Lægsta mögulega einkunn er 1.

 

  • German Fried Movie (1991) - 1.3
  • Barschel - Mord in Genf? (1993) - 1.4
  • Amoklauf (1994) - 1.6
  • Das Erste Semester (1997) - 2.0
  • Sanctimony (2000) - 3.0
  • Blackwoods (2002) - 2.6
  • Heart of America (2003) - 4.5
  • House of the Dead (2003) - 2.0
  • Alone in the Dark (2005) - 2.2
  • BloodRayne (2005) - 2.6
  • In the Name of the King: A Dungeon Siege Tale (2007) - 3.8
  • Seed (2007) - 2.5
  • Postal (2007) - 4.4
  • BloodRayne II: Deliverance (2007) - 4.1

Chat Gim (The Seven Swords) (2005) *

 


Chat Gim er misheppnuð bardagamynd, þrátt fyrir góð bardagaatriði.

Keisarinn hefur gefið fyrirskipan um að sérhver dauður bardagalistamaður sé 300 silfurpeninga virði. Herskár hópur um héröð og slátrar heilu þorpunum til að græða sem mest, sama hvort að viðkomandi kunni eitthvað fyrir sér í bardagalistum eða ekki. Það er nefnilega ekkert auðvelt að skilgreina hver er bardagamaður og hver er það ekki.

Nú vantar hetjur til að stoppa illmennin. Til eru sjö sverð sem gera þá sem þau munda nánast að ofurhetjum. Kynntar eru til sögunnar sjö manneskjur, en þó það illa að maður veit aldrei hver er hver né hvaðan þær koma, þrátt fyrir og hugsanlega vegna endalausra endurleiftra úr fortíð þeirra.

Persónurnar eru svo slitróttar að þær eru ekki einu sinni flatar. Flatt er slæmt. Þetta er stigi verra.

Leikstjórinn, Tsui Hark, sem oft hefur gert spennandi og vel gerðar myndir missir hér algjörlega marks. Hann er svo upptekinn við að hræra í grautnum að hann áttar sig aldrei á því að hráefnin eru ónýt. Hann hefur tekið að sér verkefni sem hann ræður engan veginn við, en hann hefur tekið þátt í að gera snilldarmynd eins og The Killer og A Better Tomorrow, ásamt John Woo, auk þess að hann gerði Time and Tide, Black Mask og sitthvað fleira sem má hafa gaman af. Reyndar eru myndirnar hans alltaf fallegar á að horfa, enda sérlega litríkar.

Chat Gim er tvær og hálf klukkustund að lengd, en manni finnst hún vera fimm.

 

Nú er búið að vara þig við.

 

Sýnishorn á kínversku:


The Exorcism of Emily Rose (2005) ***1/2


Kaþólskur prestur  (Tom Wilkinson) er ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Ákærandinn telur hann hafa drepið unga stúlku þegar hann reyndi að særa úr henni illan anda, en læknar höfðu gefist upp á að finna leiðir gegn kvillum hennar, og því var leitað til prests.

Verjandi hans er trúlaus lögfræðingur (Laura Linney) sem hefur áhuga á fáu öðru en eigin frama. Við rannsókn málsins fara dularfullir hlutir að gerast sem vekja hana til umhugsunar um eigin trúleysi.

Í málsvörn prestsins er fjallað um heim þar sem púkar, englar, Guð, píslarganga og andsetning eru raunverulegir hlutir; en þessi hugmyndaheimur tekst á við veruleika réttarins sem fjallar um sannleika, trú, sannfæringu, persónulegar og faglegar ákvarðanir.

Það er spennandi að fylgjast með hvernig þessir tveir heimar takast á í leit að sameiginlegum umræðugrundvelli. Var stúlkan í raun og veru andsetin, eða er presturinn bara einhver klikkaður gaur sem drap stúlkuna við að framkvæma vafasamar særingar? Getur verið að presturinn hafi bjargað sál stúlkunnar með því að losa hana undan þrælkun líkamans? Hvort er meira virði, sál eða líkami? Eru sál og líkami kannski eitt og hið sama?

Til að auka við spennuna verður ekki aðeins presturinn, heldur lögfræðingurinn skotmark þessa illa anda, hvort sem hann er raunverulegur eða sálrænt fyrirbæri.

Laura Linney og Tom Wilkinson leika sín hlutverk sérlega vel. Myndinni er leikstýrt af Scott Derrickson. Þetta er önnur mynd hans í fullri lengd. Sú fyrsta hét Hellraiser: Inferno, og fékk frekar slaka dóma. En næsta mynd hans mun líklega ákvarða feril hans, en hún verður jólamynd árið 2008 með Keanu Reeves í aðalhlutverki, en það er endurgerð hinnar klassísku The Day the Earth Stood Still.

The Exorcism of Emily Rose er alls ekki fyrir börn og viðkvæmar sálir.


Curious George (2006) ***1/2


Smelltu hér til að sjá sýnishorn úr Curious George

Í frumskógum Afríku býr api sem hefur gaman af listum og skemmtilegum uppátækjum. Hann þráir ekkert meira en að hafa leikfélaga og vin.

Einhvers staðar hinumegin við hafið starfar Ted (Will Ferrell) sem leiðsögumaður á safni sem er við það að fara á hausinn, enda eru fyrirlestrar hans með eindæmum þurrir og leiðinlegir. Honum tekst að snúa áhugaverðum staðreyndum um sögu mannkyns í augnablik þar sem þolinmæði er við það að bresta hjá áhorfendum, öllum nema Maggie (Drew Barrymore), kennara sem kemur í hverri viku með bekkinn sinn að heimsækja safnið, en sjálf hefur hún meiri áhuga á Ted heldur en því sem hann hefur að segja.

Apinn George kominn í heimsókn til TedSafninu er ógnað af nútímanum. Gestir hafa ekki gaman af því að heimsækja það, þar sem allt er ósnertanlegt og þeim sífellt fjarlægara. Herra Bloomsberry (Dick Van Dyke) stofnandi og eigandi safnsins vill allt gera til að halda því við, en hann er orðinn of gamall fyrir ævintýraferðir og leiðangra, og þar að auki hefur sonur hans (David Cross) áhuga á að leggja safnið niður og byggja bílastæði í staðinn, þar sem það er arðvænlegra.

Málin æxlast þannig að Ted er sendur til Afríku þar sem þessi litli og frumlegi api finnur og tekur ástfóstri við hann. Það er ekki alveg gagnkvæmt, en eftir að Ted hefur fundið minjagrip til að fara með heim, eltir apinn hann í stórborgina og alla leið heim í íbúð.Nú taka við fjölmörg ævintýri þar sem Ted lærir ýmislegt af apanum, sem hann ákveður að nefna George, eftir George Washinton.

Umfjöllunarefni myndarinnar er mjög áhugavert, en það snýr helst að vandamálinu sem felst í ófrumlegum og formbundnum kennsluháttum, - þar sem upplýsingum er mokað upp í nemendur án þess að þeir hafi nokkuð að gera sjálfir, og þeim í raun bannað að nálgast viðfangsefnið þar sem því verður að vera haldið við; og á móti þessu kemur prógressíva aðferðafræðin, þar sem börn eru hvött til að prófa sig áfram, gera hlutina og átta sig á frá eigin sjónarhorni á því hvernig heimurinn er. Þegar börn eru leidd um heim þekkingar þurfa þau að fá eitthvað til að leika sér með, eitthvað til að snerta.

Hver einasti rammi er gullfallegur og teiknimyndagerðin í hæsta gæðaflokki. Sagan er góð og persónur lifandi og skemmtilegar. Börnin mín höfðu mjög gaman að Curious George, sem er algjörlega án ofbeldis og virkilega frumleg á marga vegu. Ég hafði líka mjög gaman að henni.

Curious George er stjórgóð mynd fyrir alla fjölskylduna.

 

Heimildir og myndir:

http://imdb.com
Yahoo! Movies
IMP Awards


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 2. sæti: The Incredibles (2004)

Ótrúlega fjölskyldan innheldur fimm meðlimi, fjölskylduföðurinn, Herra Ótrúlegan (Craig T. Nelson) sem hefur ofurkrafta, móðurina, Teygjustúlku (Holly Hunter) sem getur teygt líkama sinn nánast óendanlega langt, og svo börnin Fjólu (getur gert sig ósýnilega og búið til skjöld utan um sig og sína), Skot (getur hlaupið ótrúlega hratt) og Jóa Jóa (getur skipt um ham).


Vegna skaðabótamála og óvinsælda hefur ofurhetjum verið bannað að klæðast ofurhetjubúningum og lifa nú hversdagslegu lífi. Herra Ótrúlegur starfar í tryggingabransanum sem ráðgjafi sem ekki má gefa góð ráð, því að þá tapar fyrirtækið. Hann tollir hvergi í starfi því hann hefur hugarfar hetjunnar sem lætur sér annt um þá sem veikir eru fyrir. Það gengur ekki í samfélagi þar sem vinnuferlar og ósnertanleg fagmennska skipta öllu máli.


Þegar ofurhetjur taka upp á því að hverfa er ljóst að ekki er allt með felldu. Ofurskúrkurinn  Sjúkdómseinkenni (Jason Lee) hefur tekið upp á því að tæla til sín ofurhetjur og drepa þær með fullkomnum vélmennum sem hann hefur hannað. Herra Ótrúlegur gengur í gildruna, en tekst að sigrast á vélmenninu sem ætlað er að drepa hann. Þegar verkefninu lýkur er honum boðið í kvöldverð og starf; að berjast við svona vélmenni. Það sem hann veit ekki er að vélmennin safna upplýsingum um hann þannig að næsta útgáfa verður sífellt líklegri til að sigrast á honum.


Kemur að því að hann ræður ekki við ofurskúrkinn, sem fangar hann og gefur skúrksræðuna sem er svo ómissandi í James Bond bíómyndum. Teygjustúlkan kemst að því að eiginmaður hennar er í vanda staddur og fer í björgunarleiðangur, Skot og Fjóla smygla sér með. Flugvél þeirra er skotin niður, en þau komast lífs að og halda ótrauð í átt að eyjunni þar sem fjölskylduföðurnum er haldið nauðugum.


Tæknibrellur og þrívíddargrafíkin er með því besta sem sést hefur á tjaldinu. Persónurnar eru hver annarri betri, samtölin smellpassa og hasaratriðin koma adrenalíninu í gang; sérstaklega þar sem Skot hleypur undan fleygum illmennum á einhvers konar þyrlum.


Leikstjóra The Incredibles, Brad Bird, tekst það sem fáum teiknimyndaleikstjórum hefur tekist síðustu árin, fyrir utan japanska snillinginn, Hayao Miyazaki og Pixargúrúinn John Lasseter; hann gerir sína aðra mynd að meistaraverki, og sem er ekkert síðri en hans fyrsta mynd, The Iron Giant (1999). Einnig sló hann aftur í gegn með Ratatouille (2007). Brad Bird er nafn sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.

Hvernig get ég varið það að næstbesta ofurhetjumyndin að mínu mati skuli vera teiknimynd? Ég ver það ekki, kíktu bara á þessa mynd, helst með pottþéttri upplausn, pottþéttu hljóði og á stórum skjá - og þú sérð ekki eftir þessum 115 mínútum.

 

Þýðingar á ofurhetjunöfnum:

Mr. Incredible = Herra Ótrúlegur

Elastigirl = Teygjustúlka

Violet = Fjóla

Dash = Skot

Jack Jack = Jói Jói

Syndrome = Sjúkdómseinkenni 

 

10 bestu ofurhetjumyndirnar:

2. sæti: The Incredibles (2004) 

3. sæti: Spider-man (1999-2003)

4. sæti: The Matrix (1999-2003) 

5. sæti: Superman (1978-2006)

6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)

7. sæti: Darkman (1990)

8. sæti: Ghost Rider (2007)

9. sæti: Unbreakable (2000)

10. sæti: Hellboy (2004)


10 bestu ofurhetjumyndirnar: 3. sæti: Spider-Man (2002-2007)


Í Spider-Man (2002) kynntumst við Peter Parker (Tobey Maguire), vísindanörd sem sífellt var undir þegar kom að því að vera svalur, eða einfaldlega sýnilegur þegar kom að stúlkunni sem hann hafði verið skotinn í frá 6 ára bekk, Mary Jane Watson (Kirsten Dunst). Þetta breytist allt þegar Peter er bitinn af erfðabreyttri kónguló. Fyrir vikið fær hann alla helstu eiginleika kóngulóar, fyrir utan kannski að fá fjórar aukalappi og sex viðbótaraugu. Hann öðlast ofurkrafta, getur klifrað upp veggi, skotið vef út úr úlnliðum sínum og umfram allt er hann sneggri en andskotinn.


Það veit á vel þegar þú ert ofurhetja, því að þá fyrst birtast andskotarnir. Norman Osborn (Willem Dafoe) er þekktur vísindamaður sem vinnur að lausnum fyrir herinn, hann er líka pabbi Harry Osborn (James Franco), besta vini Peter. Þegar vísindatilraun fer úrskeiðis breytist kallinn í geðveikt ofurmenni sem verður að erkióvini Peter þegar hann ógnar lífi Mary Jane. 

SpiderMan3_01

Sagan fjallar svo um það hvernig Spider-Man berst gegn þessum erkifjanda sínum. Inn í söguna fléttast morð á Ben, frænda Peter, sem Peter hefði getað afstýrt. Fyrir vikið finnur hann til mikils samviskubits sem nagar hann það sem eftir er, og birtist helst í samskiptum hans við Mæju frænku., eða allt fram í lok Spider-Man 3, þegar Peter kemst að því að hann hefði kannski ekki getað afstýrt morðinu á frænda sínum (2007).

Sama þemað gengur í gegnum allar myndirnar. Það virkar ferskt í fyrstu myndinni, enda passar það vel inn í söguna, að mikil ábyrgð fylgi í kjölfar mikilla krafta. Spider-Man 2 (2004) hélt vel utan um persónurnar og gaf fyrri myndinni ekkert eftir í persónusköpun, spennu og tæknibrellum. 


En svo kom Spider-Man 3, sem eyðilagði allt. Í stað þess að halda uppi dramatískri spennu tókst leikstjóranum að klúðra góðum möguleikum með Harry Osborn, Venom varð að næstum engu, og sandmaðurinn var einfaldlega illa skrifaður. Einnig varð Peter frekar asnalegur og leiðinlegur þegar meiningin var að hann yrði illur og svalur. Ekki nóg með það, skemmtilega sambandið við Mary Jane snérist upp í að vera væmið og leiðinlegt.

Spider-Man 1 og 2 banka harkalega upp á sem bestu ofurhetjumyndirnar; en það eru samt tvær til sem mér finnst ennþá betri. 

SpiderMan3_09

 

10 bestu ofurhetjumyndirnar:

3. sæti: Spider-man (1999-2003)

4. sæti: The Matrix (1999-2003) 

5. sæti: Superman (1978-2006)

6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)

7. sæti: Darkman (1990)

8. sæti: Ghost Rider (2007)

9. sæti: Unbreakable (2000)

10. sæti: Hellboy (2004)


Transformers (2007) **1/2


Transformers er byggð á teiknimyndaseríu sem var byggð á japönskum leikföngum. Leikföngunum var auðveldlega hægt að umbreyta úr vélmenni í einhvers konar fararæki og aftur í vélmenni. Þessar breytingar voru leystar á mjög flottan hátt í teiknimyndunum; en mér fannst þessar umbreytingar ósannfærandi og frekar slakar í kvikmyndinni, auk þess að vélmennin eru frekar illa hönnuð og beinlínis ljót, en samt er gert mikið upp úr því að breytingarnar séu svakalega flottar og fólk ætti að segja, "vá! en flott!"; það virkaði bara öfugt á mig.

Fyrir utan það eru tæknibrellurnar afbragsgóðar, sem og kvikmyndatakan þar sem að lykilskot gerast nákvæmlega við sólarupprás, þar sem vélar fljúga yfir aðalhetjurnar sem eru sýndar hægt, eins og í öllum kvikmyndum eftir Michael Bay; það mörgum að þetta er löngu orðin klisja, sem var reyndar eitt af skotmörkum Hot Fuzz (2007).

Sam Witwicky (mjög vel leikinn af Shia LaBeouf) er hormónagraður unglingur sem hefur bara eitt takmark í lífinu; að sofa hjá ofurskvísunni Mikaela Banes (Megan Fox) fallegustu stelpunni í skólanum, sem finnst ekkert skemmtilegra en að halla sér undir vélarhlífar bifreiða til að vekja losta hormónagraðra unglinga. Það eru bara tvö vandamál, hann vantar bíl til að heilla stelpuna og svo persónuleikann til að laða hana að sér.  Það reddast þegar bíllinn sem hann kaupir sér er Bumblebee, einn af góðu umbreytunum (Autobots) sem hefur það hlutverk að vernda Sam gegn vondu umbreytunum (The Decepticons), vegna þess að sam hefur undir höndum gleraugu frá afa sínum sem inniheldur kort sem sýnir hvar sköpunarkubburinn er falinn; en sköpunarkubburinn breytir öllum tækjum sem hann snertir í illa umbreytinga. 


Í Quatar eyðimörkinni ræðst illur umbreytingur á bandaríska herstöð til þess eins að hakka sig inn í tölvukerfið þeirra. Það tekst að eyðileggja tölvubúnaðinn áður en vélmenninu tekst að klára verkefnið. Síðar smyglar annað vélmenni sér inn í Air Force One, einkaflugvél bandaríkjaforseta, og tekst að stela nógu miklu af upplýsingum til að finna nafnið Witwicky í tengslum við uppgötvum sem afi Sam gerði á Norðurpólnum einhverjum hundrað árum áður; en það var staðsetning sköpunarkubbsins og Megatron, hins illa foringja þeirra umbreytinga sem gerðu uppreisn gegn hinum góðu og drepa allt sem þeir geta.  Semsagt klassísk barátta góðs og ills; þar sem að þeir góðu eru verndarar alls lífs, en hinir illu vilja eyða því. Þeir góðu breyta sér alltaf í bíla og trukka og berjast með sverðum og í návígi; enda göfugir riddarar þar á ferð, en þeir vondu breyta sér í nýtísku hernaðartæki; skriðdreka, orustuþotur, þyrlur, og alls konar flottar græjur; með nýjustu vopnum og endalausum forða af skothylkjum, og ættu samkvæmt því að taka þá góðu í nefið.

Þó að persóna Sams sé vel skilgreind, þá eru umbreytingarnir það ekki. Maður veit hverjir þeir eru og þekkir persónuleika þeirra nokkurn veginn ef maður hefur séð teiknimyndirnar. Annars eru umbreytingarnir eins og þeir birtast í myndinni bara sálarlaus vélmenni sem annað hvort vernda eða eyðileggja. Persónuleikar þeirra eru klisjur og útlit; og ekkert lagt upp úr að gera þá trúverðuga; sem ég held að hefði sýnt frumefninu meiri virðingu og getað bætt myndina.


En við hverju býst maður af Michael Bay? Hann hefur gert eina frábæra bíómynd (The Rock, 1996), eina góða (Bad Boys, 1995) og fullt af miðlungsmyndum með flottum tæknibrellum og myndatöku. Það að hann gerði hina ógurlega löngu og leiðinlegu Pearl Harbor (2001) er næstum ófyirgefanlegt, því að sýnishornin fyrir þá mynd voru hrein snilld; en myndin sjálf var síðan grunn og flöt. 

Transformers er fyrst og fremst Michael Bay mynd. Hasaratriðin eru glæsileg, en persónurnar grunnar. Ef það er þetta sem maður býst við frá Michael Bay, þá fær maður þetta. Reyndar bjóst ég við þessu og því kom myndin mér skemmtilega á óvart með sögunni um hormónagraða unglinginn sem var svo vel leikinn. Sum hasaratriðin eru mjög flott; en lætin eru svo gífurleg og bardagarnir svo tilgangslausir og yfirgnæfandi; og svo lítið um augnablik til að ná andanum; að ofgnótt hennar dregur úr áhrifamættinum.


Ef þú ferð á Transformers og býst við einhverju í líkingu við teiknimyndirnar, þá verðurðu fyrir vonbrigðum, því að þó umbreytingarnir heiti sömu nöfnum og hagi sér á svipaðan hátt og hafi samræmt útlit; þá vantar algjörlega persónuleika þeirra inn í myndina og það sem gerði þá heillandi. Það er mikið og lengi spilað inn á fórnarvilja Optimus Prime um að fórna lífi sínu til að eyðileggja kubbinn, sem er reyndar vísun í teiknimyndina Transformers: The Movie (1986), og reiknar vélmennið með að Sam, sem heldur á kubbnum geti hlaupið með hann yfir nokkrar götur og farið upp á efstu hæð byggingar til þess eins að láta einhverja þyrluflugmenn fá kubbinn; á meðan illu vélmennin hafa sýnt að þau geta lagt byggingar í rúst með því að klessa á þær og lagt hverfið í rúst með eins og einni sprengju. 


Kubburinn er það sem gagnrýnandinn Roger Ebert kallar MacGuffin, hugtak sem Alfred Hitchcock notaði til að lýsa einhverjum hlut sem allir eru að eltast við en skiptir engu máli. Spielberg notaði þetta hugtak í Raiders of the Lost Ark (1981), en örkin var þar þessi MacGuffin. Þetta er tilvalin leið til að skapa persónum einhvern tilgang með því að vera þarna á skjánum; en yfirleitt er hún bara til að sýnast, rétt eins og í þessu tilfelli.

Snillingurinn John Torturro leikur lítið og skemmtilegt hlutverk í myndinni sem kaldrifjaður FBI fulltrúi sem hefur það verkefni að fylgjast með ferðum geimvera á jörðinni, og gefur nokkrum atriðum ferskan blæ, eins og reyndar í flestum þeim myndum sem hann tekur þátt í. Jon Voight gengur hins vegar í svefni gegnum sitt hlutverk sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.


Skilaboðin sem leikstjórinn sendir áhorfandanum eru nokkuð ljós. Það er ekkert flottari en bandaríski herinn og bandarískir hermenn. Þeir eru nógu öflugir til að sigrast á öllu illu, bæði á jörðinni sem og utan hennar. Þannig að segja má að Transformers sé fyrst og fremst öflugt áróðurstæki fyrir bandaríska herinn.

Ég mæli aðeins með Transformers fyrir aðdáendur Michael Bay og bandaríska hersins. Hún er ekki illa gerð, bara hávaðasöm og með grunna persónubyggingu. Aðrir geta sleppt henni án þess að þurfa að finnast þeir hafa misst af nokkru merkilegu. 


Chavez gegn frjálshyggju

chavez

Chavez þyrfti að kíkja á bíómyndir eins og "The Last King of Scotland" og "Der Untergang" til að sjá hversu flókið það getur verið að vera einræðisherra. Samt telur hann sig vera að gera rétt; að þetta sé eina leiðin til að komast út úr samfélagi gegnsýrðu af auð- og frjálshyggju, sem er heldur ekki góður kostur. Vonandi hafnar þingið þessari tillögu frá honum, en samt skil ég að hann meinar vel.

Vandinn er að frjálshyggjan leggur minni áherslu á mikilvæga þætti eins og menntun, listir og almenn manngildi; en stefnir frekar á að búa til aðstæður þar sem fólk getur hagnast sem mest.

Eftir situr samt spurningin: hvað er hægt að gera við þeirri andlegu fátækt sem auðvaldshyggjan boðar, annað en að gera algjöra uppreisn gegn ríkjandi stefnu? 

chavez2

Er lausnin sú að búa til enn stærra vandamál svo að þau fyrri gleymist; að skapa slíkt hörmungarástand og þjáningar að fólk fari að meta meira það að komast hreinlega lífs af en spá í hvert auðurinn fer?

Einræði getur skerpt sýnina á ákveðin gildi í skamman tíma; en til lengri tíma litið skerðist réttur þegnanna þegar örfáir verða hafnir yfir lög og reglu; og börn þeirra alast upp við það sama og vilja verða kóngar og drottningar. Slíkt getur gengið upp í áratugi, jafnvel aldir; en fórnarkostnaðurinn er frelsi þegnanna. 


mbl.is Chavez boðar stjórnarskrárbreytingar sjálfum sér í hag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Abre los Ojos (1997) ****

420px-Abre_los_ojos_movie

César (Educardo Noriega), sjálfselskur og ríkur glaumgosi, heldur afmælisveislu heima hjá sér og bíður meðal öðrum sínum besta vini, Pelayo (Fele Martinéz)  í veisluna. Pelayo gerir þau mistök að taka kærustuna sína, Soffíu (Penélope Cruz) með, en César verður strax hrifinn af henni og grípur tækifærið þegar vinur hans hefur drukkið of mikið, og fylgir stúlkunni heim. Eftir nóttina, þegar César heldur heim á leið, keyrir Nuria (Najwa Nimmi) upp að honum og býður honum far. Hann sest upp í hjá henni. Hún keyrir bílnum vísvitandi útaf veginum á ofsahraða, drepur sjálfa sig en César lifir af, með ónýtt andlit. 

AbreLosOjos02

Þar sem að César metur ytri fegurð en telur allt tal um innri fegurð tóma vitleysu hrynur líf hans. Hann trúir ekki að nokkrum geti líkað við hann með þetta afmyndaða andlit. Hann trúir ekki að Soffía geti elskað hann og efast um vináttu Pelayo. César leitar ráða hjá bestu lýtalæknum í heimi, en enginn getur lagað andlit hans. Síðasta úrræðið er að láta frysta sig og lifa í draumaheimi í stað veruleikans.  

Eftir kaldrifjað morð situr César í fangaklefa og er í stöðugum viðtölum með sálfræðingi, sem reynir að grafast fyrir um hvers vegna César myrti manneskju og leitar leiða til að finna honum hugarró. César felur andlit sitt með grímu, enda trúir hann að andlit sitt sé afmyndað undir henni. Eftir dáleiðslutíma hjá sálfræðingnum fer César að gruna veruleikann vera annan en það sem hann upplifir. Hann fer að gruna að hann sé hvorki staddur í veruleikanum né draumi; heldur martröð og sjálfskaparvíti sem hann verður að sleppa úr. 

AbreLosOjos01

Abre los Ojos er spænsk mynd, leikstýrð af Alejandro Amenábar, sem meðal annars hefur einnig gert hinar stórgóðu The Sea Inside og The OthersAbre los Ojos var endurgerð af leikstjóranum Cameron Crowe undir nafninu Vanilla Sky.  Endurgerðin er ekki jafngóð frumgerðinni, þar sem að leikur Eduardo Noriega er óviðjafnanlegur og Tom Cruise kemst ekki með tærnar þar sem Noriega hefur hælana.

Abre los Ojos fjallar um hugtök og spurningar sem hverjum og einum er mikilvægt að skilja og velta fyrir sér.

  • Veltur hamingjan á fegurð og ríkidæmi, eða trú manns á eigin ágæti; eða sannleikanum sjálfum?
  • Getur nokkur einstaklingur þekkt sjálfan sig og verið sáttur við það sem hann finnur; og ekki bara sáttur, heldur hamingjusamur?
  • Hefur það illa sem við framkvæmum áhrif á eigin hamingju, eða skiptir það engu máli þegar á heildina er litið?

10 bestu ofurhetjumyndirnar: 4. sæti: The Matrix (1999-2003)

A70-4902

Tölvuforritarinn og hakkarinn Thomas A. Anderson (Keanu Reeves) uppgötvar að í heiminum er ekki allt sem sýnist, og að í raun sé heimurinn ekkert annað en sýndarveruleiki, hannaður í risastórri tölvu sem keyrð er af manneskjum sem ræktaðar eru til að vera ekkert annað en rafhlöður alla ævi. Sumar af þessum manneskjum vakna til lífsins og átta sig á að þær geta haft áhrif á sýndarveruleikann, og meðal annars vakið til lífsins áhugaverða einstaklinga. 

matrix1Morpheus (Laurence Fishburne), leiðtogi þeirra sem hafa vaknað, grunar að Anderson sé öðruvísi en allir aðrir; og sendir hann einn af sínum bestu útsendurum, Trinity (Carrie-Anne Moss) til að vekja hann áður en vírusvarnarforritin, eða Agent Smith (Hugo Weaving) ná honum. Semsagt, manneskjur sem vakna til vitundar eru tölvuvírusar sem kerfið reynir að stoppa.

Morpheus nær sambandi við Anderson, segir honum sögu The Matrix og býður honum að taka bláa eða rauða töflu; eina sem gerir honum fært að lifa áfram í sýndarveruleikanum, en hina sem sýnir honum heiminn eins og hann er. Anderson velur raunveruleikann og verður að Neo, ofurhetju í sýndarveruleikanum sem er sá eini sem hefur nokkur tök á að berjast við Agent Smith og gengi hans. 

Á sama tíma og Neo leitar upplýsinga í sýndarveruleikann um hvernig hægt er að bjarga mannkyninu frá því að vera eintómar rafhlöður, fréttir hann af borg í raunveruleikanum sem heitir Síon, þar sem allar þær manneskjur sem hafa vaknað til lífsins búa.

The Matrix er hrein snilld. Frábær mynd í alla staða. En í kjölfar hennar fylgdu lakari myndir, The Matrix Reloaded (2003) og The Matrix Revolutions (2003) sem ljúka sögunni, þar sem Neo tekst að auka enn frekar krafta sína og yfirfæra þá yfir í veruleikann, auk þess sem að við kynnumst borginni Síon, útþynntri útgáfu af undirheimum hvaða stórborgar sem er, og stóra spurningin verður hvort að hún sé þess virði að henni verði bjargað frá gervigreindarheiminum; spurning sem að Neo spyr sjálfan sig í lokin.

Reyndar er The Matrix á mörkunum að geta kallast ofurhetjumynd, en þar sem Neo getur flogið, hægt á tímanum og barist eins og ofurhetja í sýndarveruleikanum, þá rétt sleppur hún.

 

10 bestu ofurhetjumyndirnar:

4. sæti: The Matrix (1999-2003) 

5. sæti: Superman (1978-2006)

6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)

7. sæti: Darkman (1990)

8. sæti: Ghost Rider (2007)

9. sæti: Unbreakable (2000)

10. sæti: Hellboy (2004)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband