Charlie Wilson's War (2007) ***

Öldungardeildarþingmaður fyrir Texas, Charlie Wilson (Tom Hanks) sem starfað hefur í sex kjörtímabil án þess að gera nokkurn skapaðan hlut af viti annað en að drekka viskí, sniffa kókaín og vera með fjölmörgum kvenmönnum, fær allt í einu samvisku eftir að Joanne Herring (Julia Roberts) biður hann að skreppa til Afganistan og kíkja á ástandið þar. Hann fer þangað ásamt aðstoðarkonu sinni Bonnie Bach (Amy Adams) og eru þau bæði djúpt snortin.

Árið er 1980 og rússneski herinn stráfellir Afgana með öflugum þyrlum, en Afganir hafa rétt gamaldags riffla til að verja sig. Þegar Wilson sér börn illa farin eftir jarðsprengjur, og hungursneyð og hörmungar á svæðinu, ákveður hann að gera eitthvað í málinu, einfaldlega vegna þess að hann þolir ekki að sjá einhvern beittan óréttlæti.

Hann fær til liðs við sig CIA njósnarann og snillinginn Gust Avrakotos (Philip Seymor Hoffmann), sem er með allt á hreinu um alla og segir nákvæmlega það sem honum sýnist við hvern sem er, og er alltaf með á hreinu hver er að hlusta.

Charlie Wilson veit hvað þarf að gera. Afgana vantar vopn og þjálfun til að geta varið sig gegn skrímslum eins og herþyrlum, herþotum og skriðdrekum. Á nokkrum árum tekst honum að breyta fjáröflun til Afganistan úr 5 milljónum í 1 milljarð, og með þessu flæma sovéska herinn frá Afganistan.

Á endanum vantar hann ekki nema eina milljón til að stofna skóla sem fræða á Afgana um hvernig Bandaríkjamenn tóku þátt í að bjarga þjóðinni frá Rússum, en sú fjárútnefning er felld, og þar sem Afganir vissu ekki um aðild Bandaríkjamanna í frelsisbaráttu þeirra og fengu enga fræðslu um hana, var grundvöllur gerður fyrir því að vel þjálfaðir hermenn gerðust hryðjuverkamenn sem árið 2001 réðust á tvíburaturnana í New York.

Það er magnað að skoða þessa hluti í þessu samhengi, og áhugavert að spyrja hvort að þessi eina milljón í skólabyggingu hefði breytt einhverju um framtíð þessara tveggja þjóða. Hefðu talibanar þá ekki komist til valda? Hefði ekki verið gerð árás á Bandaríkin? Væri ekki stríð í Írak enn í fullum gangi?

Handritið er vel skrifað og Philip Seymor Hoffmann er sérstaklega skemmtilegur sem hinn ófyrirleitni njósnari. Helsti gallinn felst helst í leik Julia Roberts, sem er óvenju stíf og ótrúverðug í sínu hlutverki. Þar að auki vantar algjörlega dramatík í söguna, en það er eins og enginn sé nokkurn tíma að berjast fyrir einhverju sem skiptir þá sjálfa persónulega máli, nokkuð sem mér finnst frekar ótrúverðugt miðað við manngerðirnar sem eiga í hlut. Einnig eru Bandaríkin máluð sem bjargvættur í alþjóðasamfélaginu, þrátt fyrir að hafa töluvert af skapgerðargöllum og nautnahyggju í farteskinu.

Áhugaverð kvikmynd en engin snilld.

 

Leikstjóri: Mike Nichols

Einkunn: 7



---

Myndir: Rottentomatoes.com

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Bíddu, ertu nokkuð að meina þetta? Er vit í þessu sukki? :) 

"sem starfað hefur í sex kjörtímabil án þess að gera nokkurn skapaðan hlut af viti annað en að drekka viskí, sniffa kókaín og vera með fjölmörgum kvenmönnum,"

Svanur Gísli Þorkelsson, 1.6.2008 kl. 01:23

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vissulega kjánalega orðað hjá mér.

Hrannar Baldursson, 1.6.2008 kl. 01:32

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Fín umfjöllun engu að síður. Hnaut um þetta alveg í byrjun :)

Seymor er vanur að redda myndum sem hann á annað borð er í.

Svanur Gísli Þorkelsson, 1.6.2008 kl. 01:42

4 Smámynd: Ómar Ingi

Svanur sjáðu myndina og þú munt skilja hvað DON er að meina

Þú klikkar ekki á umfjöllunum þínum og í þetta skiptið uppá hár alveg sammála þér og í stjörnugjöfinni líka.

Ómar Ingi, 1.6.2008 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband