Færsluflokkur: Kvikmyndir

The Wrestler (2008) ****

thewrestler

Manstu eftir Taxi Driver (1976) og hvernig Robert DeNiro sló í gegn sem Travis Brickle? Misstir þú af Taxi Driver í bíó? Mickey Rourke jafnar þann stórleik og gerir enn betur í The Wrestler. Þú verður að sjá þessa í bíó.

Öðru hverju eru gerðar kvikmyndir með svo eftirminnilegum persónum að þær festast í huga manns og verða nánast að staðalímynd. The Wrestler er ein af þessum myndum. Frammistaða Mickey Rourke er svo frammúrskarandi og eftirminnileg að þetta er nánast eindæmi í sögunni. Ekki er verra að áhugaverðum minnum er bætt inn hér og þar og gefið í skyn að sagan sé hliðstæða af píslarsögu Krists.

Randy 'The Ram' Robinson er á síðasta snúningi sem fjölbragðaglímukappi. Hann elskar íþróttina og allt það sem hún stendur fyrir, en einhvern veginn er hinn brjálaði 8. áratugur liðinn með sínu þungarokki og brjálæði, og 9. áratugurinn einnig farinn hjá og sá 10. nánast á enda. Aldurinn hefur læðst aftur af kappanum og er orðinn hans skæðasti óvinur. The Wrestler fjallar um hvernig þessi glímukappi öðlast ódauðleika.

thewrestler01

Þegar Randy fær hjartaáfall eftir sérlega blóðuga glímu, rennur upp fyrir honum ljós, að kannski, hugsanlega, sé eitthvað meira í lífinu en fjölbragðaglima og rokk og ról. Hann hefur ekkert samband við dóttur sína, lifir í fátækt og uppgötvar smám saman að hann er furðuvera í þessum heimi sem passar hvergi annars staðar en í hringnum. Nánasta samband hans við aðra manneskju er við Pam Cassidy (Marisa Tomei), nektardansmær á pöbb sem lítur fyrst og fremst á hann sem kúnna, þó að hann sjálfur sjái það góða í henni.

Randy fær starf í matvöruverslun við að afgreiða kjötvörur, en hjarta hans, þó að það sé á síðasta snúning, finnur ekki takt sem hentar honum. Hann uppgötvar að líf hans er einskis virði ef hann leggur sig ekki allan í það sem hann hefur alltaf lifað fyrir, fjölbragðaglímuna. Það er hans stolt, hans líf. Hann ákveður þrátt fyrir hjartaáfallið að þjálfa sig upp fyrir eina lokaglímu.

thewrestler02

Saga fórnarlambsins Randy Hrúts er mikil þjáningarsaga, en ákvarðanirnar sem hann tekur eru allar af einurð og stefna allar að því að gera hans eina draum að veruleika - að verða goðsögn og setja mark sitt á heiminn, á hans eigin hátt, sama hvað það kostar og sama þó að það þýði fórn á eins og einum hrúti. Það má vel vera að draumur hans sé barnalegur og ekki í tengslum við veruleikann, en þessi Don Quixote nútímans hefur samt eitthvað til að bera sem gerir hann mun merkilegri en veruleikann sjálfan.

Mickey Rourke hlýtur að fá Óskarinn fyrir þennan magnaða leik. Annað er óhugsandi. Ég man ekki til þess að hafa séð nokkurn leikara setja jafn mikinn kraft í eitt hlutverk, jafnt í hringnum við glímu sem og utan hans. Reyndar er leikur Robert DeNiro í Taxi Driver sambærilegur. Þar sem að fjölmörg hlutverk hafa verið verðug til Óskarsverðlauna, þá gengur Rourke mun lengra heldur en að vera verðugur - hann býr til tragíska og heillandi persónu sem hefur gífurlega mikið að segja um okkar samtíma, þó að hann átti sig engan veginn á honum sjálfur.

Darren Aronofsky sýnir afbragðs leikstjórn þar sem öll áherslan er á sögunni og persónunum, og lítil sem engin á kvikmyndatækninni - þó að hún sé vissulega til staðar. Hann hefur góða tilfinningu fyrir hvernig hægt er að nota kvikmyndatöku til að fylgja eftir góðum leik. Hann á tvær aðrar gífurlega áhugaverðar myndir að baki, stærðfræðiþrillerinn Pi (1998) þar sem hugtakið Pi ógnar sálarheill stærðfræðings, verðbréfamarkaðnum og virðist tengjast heilagri ritningu gyðinga. Requiem for a Dream (2000) fjallaði um afleiðingar vímuefnaneyslu og ætti að vera skylduáhorf fyrir alla þá sem halda að eitthvað sé heillandi við slíka neyslu. Það tók hann fjölmörg ár að gera hina frekar mislukkuðu The Fountain (2006) en meðal þess sem tafði gerð þá myndar er að Brad Pitt hætti við að leika aðalhlutverkið og tók þess í stað aðalhlutverkið í Troy (2004).

Það verður áhugavert að fylgjast með hvað Aronofsky gerir við RoboCop (2010), en hann var reyndar upphaflega orðaður við Batman Begins, sem Christoper Nolan gerði í staðinn, með mikilli lukku. Án vafa einn áhugaverðast leikstjóri nútímans og ein besta frammistaða allra tíma í kvikmynd.


The Curious Case of Benjamin Button (2008) **1/2

The Curious Case of Benjamin Button er vel leikin af Brad Pitt og Cate Blanchett, en í stað þess að rannsaka af dýpt merkinguna á bakvið líf sem gengur afturábak, festist kvikmyndin í frekar innantómu melódrama um samband tveggja einstaklinga, sem þroskast í ólíkar áttir.

Það væri hægt að vinna mígrút úr hugmyndum upp úr sögu um mann sem yngist í stað þess að eldast, og hægt væri að fókusa á tímabil í hans lífi frekar en að segja söguna frá fæðingu í hárri elli og dauða í æsku. Það er frekar lítið heillandi við þá nálgun. Brad Pitt og tölvubrellur sýna stórleik sem Benjamin Button, en söguna vantar bara ákveðið drama.

Það að segja ævi manneskju á þremur klukkustundum, sama þó að ævin líði afturábak, krefst mun meira en það sem við fáum út úr þessari kvikmynd.

Þegar eiginkona Thomas Button (Jason Flemyng) deyr við fæðingu sonar þeirra, Benjamin (Brad Pitt), bregst Thomas illa við þegar hann sér krumpað og afar ljótt barn og þrífur það með sér og hleypur niður á árbakka til að drekkja því. Lögreglumaður verður var við hann, þannig að hann hleypur inn í húsasund og skilur Benjamin eftir á tröppunum, vafinn inn í teppi og með átján dollara innan á sér.

Queenie (Taraj P. Henson) finnur barnið, tekur það að sér og elur upp á heimili fyrir aldraða. Barninu er spáður skjótur dauði, en Queenie ákveður að sinna barninu til dauðadags, eins og hún hefur sinnt fjölmörgum öldruðum. Hins vegar kemur í ljós að barnið deyr ekki, heldur yngist með hverju árinu.

Gamla fólkið kennir Benjamin ýmsar ágætis listir og lífsviðhorf, og þar kynnist hann loks Daisy (Elle Fanning (7 ára), Madison Beaty (10 ára), Cate Blanchett) og þau verða fljótt góðir vinir. Það er svo mörgum árum seinn að þau hittast á miðri leið, þar sem hún eldist eðlilega og hann yngist, að ástin blossar.

Vandamálið er að hann heldur áfram að yngjast og hún að eldast, þannig að aðskilnaður er óhjákvæmilegur, sérstaklega þegar í ljós kemur að það er komið barn í spilið.

Þetta hefði getað verið ansi spennandi og skemmtileg mynd, en það hefur mistekist að gera þessa góðu hugmynd að einhverju dýpra og betra en bara góðri hugmynd. Hafirðu sér sýnishornið hér að neðan, hefurðu nánast séð myndina.

The Curious Case of Benjamin Button er því miður ekki nógu athyglisverð til að halda fullri athygli og áhuga yfir henni í 166 mínútur. Og þó að Brad Pitt sé góður í aðalhlutverkinu, þá er maður alltaf meðvitaður um að þetta er hann með tölvubrellum, en ekki sjálfstæð og djúp persóna.Nú hefur þessi kvikmynd fengið 13 tilnefningar til Óskarsverðlauna, og fjórar í stærstu flokkunum. Hún ætti aðeins að fá verðlaun fyrir förðun að mínu mati.

  • Besta kvikmyndin
  • Besti aðalleikari: Brad Pitt
  • Besta aukaleikkona: Taraji P. Henson
  • Besti leikstjóri: David Fincher

Taken (2008) ***

taken

Taken er hörkugóð hasar- og spennumynd um fyrrverandi njósnara sem eltir uppi mannræningja dóttur sinnar. Hún er nákvæmlega það sem nýjustu Bond myndinni mistókst að vera, spennandi og skemmtileg. Reyndar þarf maður að trúa því að Bryan Mills sé nánast ofurmannlegur njósnari til að hafa gaman af þessu öllu, en hver er ekki til í það?

Bryan Mills (Liam Neeson) hefur hætt störfum sem sérfræðingur í fyrirbyggjandi aðgerðum fyrir bandarísku ríkisstjórnina, til þess að geta búið sem næst dóttur sinni Kim (Maggie Grace), sem býr hjá móður sinni Lenore (Famke Janssen) og forríkum eiginmanni hennar Stuart (Xander Berkeley).

Bryan hefur svolítið sérstaka áráttu. Þegar hann ákveður að gera eitthvað, þá stendur hann við það hvað sem það kostar. Þegar Kim var fimm ára lofaði hann henni að vera alltaf hjá henni á afmæli hennar, og hefur alltaf staðið við það - þó að það hafi kostað ferðalög milli landa.

taken01

Kim fer til Parísar ásamt vinkonu sinni, og þær hafa varla fyrr stigið fyrstu skrefin út af flugvellinum en búið er að reikna út hvernig þeim skal rænt og selt í hvítan þrældóm. Kim tekst þó að hringja í föður sinn þegar hún verður þess var að einhverjir menn hafa brotist inn í íbúð hennar og yfirbugað vinkonu hennar.

Samtalið er það eina sem Bryan hefur til að hafa upp á ræningjum dóttur sinnar og bjarga henni úr ánauð. Þegar hann heyrir andardrátt eins ræningjans segist hann gefa honum eitt tækifæri til að skila dótturinni, annars muni hann sjá eftir því.

Ræninginn gerir þau mistök að segja: "Gangi þér vel," en með háþróaðri raddgreiningartækni tekst Bryan að komast að því hvaða einstaklingur þetta er. James Bond og Jason Bourne, eins flottir og þeir eru, ættu ekki roð í Bryan Mills.

Hann sýnir slíka útsjónarsemi og styrk að maður hefur ekki séð annað eins langa lengi. Liam Neeson tekst að gera Bryan afar mannlegan og skiljanlegan, þrátt fyrir að hann sé fyrst og fremst drápsmaskína sem engu illu hlífir. Aldrei þessu vant eru hasaratriðin afar raunsæ og vel útfærð, og maður trúir næstum því að hinn 56 ára gamli Liam Neeson sé um áratugi yngri.

Taken er eins og góður þáttur af 24 með aðeins eldri og írskari Jack Bauer. Mjög ofbeldisfull spennumynd sem þó er óhætt að mæla með. Ég er sáttur.


Revolutionary Road (2008) ***1/2

revolutionaryroad

Revolutionary Road er afar vel leikinn og skrifaður harmleikur sem ætti sjálfsagt jafnmikið heima á fjölum leikhúsa og í bíó, enda leiksviðið annars vegar heimilið og hins vegar skrifstofan, en einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að heimilið og skrifstofan séu stórt hversdagsfangelsi, og að fangarnir viti ekki einu sinni að þeir séu í fangelsi, nema sumir - og þá hefst barátta upp á líf og dauða.

Þetta er í annað skiptið sem Leonardo DiCaprio og Kate Winslet leika saman aðalhlutverk. Fyrra skiptið var hinn sögulegi stórsigur Titanic, sem sló öll aðsóknarmet á sínum tíma, en Revolutionary Road, þó að hún sé á margan hátt betri kvikmynd en Titanic, mun aldrei ná slíkum hæðum.

revolutionaryroad01

Wheeler hjónin Frank (Leonardo DiCaprio) og April (Kate Winslet) hafa eignast fallegt heimili í úthverfum stórborgar, hann er í vel launaðri en merkingarlausri vinnu, og hún er heimavinnandi húsmóðir, sem þó lærði leiklist á yngri árum.

Á meðan Frank unir sér ágætlega og hefur sætt sig við hið vonlausa tómarúm sem líf hans er orðið, hefur April aðrar hugmyndir. Þegar þau fyrst kynntust höfðu þau hugmyndir um að kynnast heiminum betur, en svo kom fyrsta barnið, þau ákváðu að fá sér hús og nú eru þau föst í heimi sem þau geta ekki sloppið úr: Norminu!

Þau geta sagt sér að þau séu sérstakar manneskjur, en við ofurlitla íhugun sjá þau strax að þau eru bara ósköp venjuleg og ósæl hjón. Það sem nagar April er tilgangsleysi tilverunnar, hvernig allt þarf að vera eðlilegt og hvernig þau verða að aðlagast Norminu til að rugga ekki bátnum.

Hún fær þá hugmynd að flytja til Parísar, staðar sem Frank þekkir af eigin raun og er hrifinn af, enda vill hún brjótast úr viðjum vanans og fá að vera til, fá að vera hluti af samfélaginu, fá að vera eitthvað annað en kona sem hangir heima og tekur til, undirbýr matinn.

Hún vill reyndar að eigin sögn ekki komast út, heldur inn. Frank tekur ágætlega í hugmyndina og er bara nokkuð til í tuskið þar sem hann áttar sig á að April hefur fyllilega rétt fyrir sér, að líf þeirra er án merkingar og þau þurfa að gera eitthvað til að komast í burtu. En það eru hindranir á veginum.

Ein er sú að öllum öðrum finnst þetta vera barnaleg hugmynd, fyrir utan fyrrverandi stærðfræðinginn John Givings (Michael Shannon) sem hefur tapað stærðfræðigáfunni vegna of margra rafstuða í meðferð á geðspítala. Hann er næmur fyrir tilvistarkreppu hjónanna og segir nákvæmlega það sem hann sér. Sannleikurinn hefur ólík áhrif á fólk sem hefur aðlagast blekkingum. Og takist því ekki að aðlagast, getur það alltaf farið til sálfræðings.

revolutionaryroad02

Önnur hindrun í veginum er óvænt tilboð sem Frank fær frá vinnuveitanda sínum, um betri stöðu og hærri laun, og að auki kemur í ljós að April er ófrísk. Enn önnur hindrun felst í framhjáhaldi, tap á trausti og ást. Tilvistarkreppan sem þetta ágæta fólk upplifir er raunsæ og djúp.

Þau Winslet og DiCaprio leika sín hlutverk með afburðum vel, ég er reyndar ekki frá því að DiCaprio sé búinn að næla sér í nokkrar brellum úr vopnabúri Jack Nickolson - hann flýtir sér hægt og sýnir einstæða yfirvegun á meðan undir kraumar.

Afar eftirminileg kvikmynd sem á einstaklega vel við á krepputímum. Hún kennir okkur að meta það sem er mest virði í lífinu og hverjar afleiðingarnar geta verið hunsum við þetta kall til dýpri merkingar.


Slumdog Millionaire (2008) ****

slumdogmillionaire

Slumdog Millionaire er ein af þessum myndum sem allir verða að sjá. Hún er snilldarblanda af góðum sögum: Skytturnar Þrjár, Oliver Twist, The Usual Suspect, City of God og Öskubuska, með smá blöndu af Bollywood. Ég get fyrirgefið Danny Boyle fyrir hina hroðalegu Sunshine (2007) og fullyrði að nú er hann aftur kominn í gamla góða Trainspotting (1996) gírinn, þar sem hann fókusar á áhugaverðar persónur og góða sögu.

slumdogmillionaire03

Jamal Malik (Dev Patel), ungur múslimi sem alist hefur upp í fátækrahverfum Mumbai fær tækifæri til að vinna fúlgur fjár í spurningarþættinum "Viltu vinna milljón?" Þáttarstjórnandann Prem Kumar (Anil Kapoor) grunar að Jamal svindli einhvern veginn, því að hann svarar hverri einustu spurningu hárrétt, þrátt fyrir að hafa aldrei gengið í skóla, búið við sára fátækt og þurft að stela til að komast af frá blautu barnsbeini. Fyrir úrslitakvöldið er Jamal handtekinn af lögreglunni og hann pyntaður til að hafa út úr honum leyndarmálið um velgengni hans. Það er ekki fyrr en rannsóknarlögreglumaður (Irrfan Khan) yfirheyrir hann að losna fer um málbeinið og útskýringar á hvernig hann vissi hvert og eitt svar tengist mikilvægum atburðum í lífi Jamal (einnig leikið af Ayush Mahesh Khedekar og Tanay Chheda) , bróður hans Salim (Azharuddin Mohammed Ismail, Ashutosh Lobo Gajwala og Madhur Mittal) og stúlkunni sem hann elskar Latika (Ribiana Ali, Tanvi Ganesh Lonkar og Freida Pinto), en saman eru þau frá barnæsku skytturnar þrjár.

slumdogmillionaire02

Í ljós kemur að Jamal og Salim eru eins ólíkir og bræður geta verið. Báðir upplifa þeir hörmulegar aðstæður, en vegna ólíkrar skapgerðar þroskast þeir í tvær ólíkar áttir, þar sem annar er gjörspilltur og hinn virðist hafa fundið leið til að lifa lífinu af heilindum. Einnig hafa þeir báðir áhuga á Latika, en af gjörólíkum forsendum. Slumdog Millionaire er ekki bara einhver saga um öðruvísi menningu, heldur hörkuspennandi glæpasaga, gott drama og fín rómantík í bland. Það er nákvæmlega ekkert yfirborðskennt við hana og maður virkilega skilur aðalpersónurnar með öllum þeirra göllum og kostum. Stíll myndarinnar og gæði minna mikið á hina brasilísku City of God (2002), og formið á The Usual Suspects (1994) en samt eru þær af gjörólíkum meiði.

slumdogmillionaire01

Ég mæli eindregið með að þú kíkir á þessa stórskemmtilegu kvikmynd í bíó.

10 bestu kvikmyndir ársins 2008

 

titanic.jpg

 

Þar sem ég hef ekki enn séð þær kvikmyndir sem líklegastar eru til óskarsverðlauna fyrir árið 2008, sem koma reyndar flestar út í desember, mun ég að sjálfsögðu einungis velja úr þeim myndum sem ég hef þegar séð. Halo Ef ég ætlaði mér að afla vinsælda og gera pólitísk réttan lista um bestu myndirnar, yrðu sjálfsagt The Dark Knight og Wall-E á toppnum, því að þær voru vinsælar og almennt vel tekið. Hins vegar hef ég ekki áhuga á að þóknast neinum og lista bara þær myndir sem ég fékk sjálfur mest út úr á árinu sem er að líða og hafa framleiðsluárið 2008 stimplaðar á sig.

Íslenskar myndir komust ekki á listann, enda Mýrin sem ætti vel heima ofarlega á slíkum lista kom út 2006 og önnur góð íslensk kvikmynd, Astrópía, kom út 2007. Þær sem ég hef séð á árinu 2008 finnst mér ekki verðskulda að komast inn á listann. Auðvitað vantar evrópskar, asískar og Indverskar myndir á listann, því þær berast okkur mun síðar en það sem Hollywood dælir til okkar á færibandi. Það er því eðlilegt að bandaríska draumaverksmiðjan eigi flestar myndir á þessum lista.

Einnig sá ég nokkrar heimildarmyndir, sem ég ætla reyndar ekki að telja með sem kvikmyndir, en deila má um hvort að sú höfnun sé réttlætanleg. En sú heimildarmynd sem mér fannst merkilegust var Man On Wire, sem fjallar um franskan mann sem dreymdi um það, frá því að hann sá fyrst teikningar af tvíburaturnunum í New York, fyrir byggingu þeirra, að dansa línudans á milli þeirra einhvern tíma á ævinni, og hann var tilbúinn að deyja fyrir þennan draum.

Smelltu á fyrirsagnir til að lesa rökstuðning fyrir dómi mínum um viðkomandi kvikmynd.

 

10. besta: Red

Red

Frábært spennudrama þó að uppbyggingin sé afar hæg og sviðsmyndin hógvær. Brian Cox leikur fyrrverandi hermann sem misst hefur eiginkonu sína og tvo syni í miklum harmleik. Bilaðir unglingar koma aftan að honum þegar hann er í veiðitúr með hundi sínum, Red, og skjóta hundinn í hausinn. Gamli maðurinn leitar réttlætis og vekur upp miklu fleiri drauga en hann gerði ráð fyrir.

 

9. besta: In Bruges

Spennu og gamanmynd um tvo leigumorðingja sem njóta þess að vera í fríi í Belgíu eftir misheppnað launmorð og tekst með þeim afbragðs vinátta. Reyndar leiðist öðrum þeirra hræðilega en hinum finnst gaman. Málin flækjast þegar yfirmaðurinn sendir öðrum þeirra skipun um að drepa hinn.

 

8. besta: Get Smart

getsmart-final-poster-big

Ótrúlega fyndinn og vel gerður farsi um leyniþjónustumanninn Smart, sem loks fær tækifæri til að gera annað en að greina vandamál niður í smæstu öreindir, og fær að spreyta sig sem alvöru njósnari, - en býr því miður oft til fleiri vandamál en hann leysir.

 

7. besta: Burn After Reading

BurnAfterReadingPoster

Litskrúðugar persónur gera þessa kolsvörtu kómedíu um fáfræði og fordóma að prýðis skemmtun. Brad Pitt er sérstaklega ferskur í sínu hlutverki. George Clooney er verulega fyndinn og John Malkovich svellkaldur. Coen bræðurnir kunna ekki að klikka.

 

6. besta: The Dark Knight

DarkKnightPoster

Fyrsta ofurhetjumyndin sem reynir að láta taka sig jafn grafalvarlega og ef um sannsögulega mynd væri að ræða. Vissulega áhugaverð tilraun með sérlega skemmtilegum leik frá hinum heitna Heath Ledger. Samt gengur myndin ekki alveg upp, því að forsendur breytinga hjá einni mikilvægustu persónunni ganga ekki alveg upp. Ekki besta ofurhetjumynd ársins. Myndin var mikið töluð upp og talað um að ég hlyti að hafa misst af einhverju mikilvægu þegar ég sá hana, því mér fannst Batman Begins betri. Þannig að ég lét til leiðast, fór á hana í IMAX bíóið í London, og hún var einfaldlega ekkert betri. Mér hálf leiddist í seinna skiptið satt best að segja, enda hafði ég náð sögunni við fyrsta áhorf.

 

5. besta: Wall-E

Pixar endurtekur leikinn frá Ratatouille og framleiðir teiknimynd sem er á mörkum þess að vera listrænt stórvirki. Þemað er náttúruvernd, bundið inn í ástarsögu vélmenna sem ferðast um geiminn til að bjarga mannkyninu og Jörðinni frá glötun. Þó að Wall-E sé listræn og falleg, þá get ég ekki hugsað mér að horfa á hana aftur. Ég reikna með að Wall-E verði valin besta teiknimynd ársins á óskarnum, en það þýðir samt ekkert endilega að hún muni lifa lengst allra teiknimynda ársins. Kem síðar að því.

 

4. besta: Kung Fu Panda


Pönduna Po dreymir um að verða Kung-Fu hetja. Sem starfsmaður á núðluhúsi föður síns er það fjarlægur draumur þar til örlögin skjóta honum í stöðu Drekastríðsmannsins. Sagan er frekar einföld, en persónurnar afar skemmtilegar og þá sérstaklega Po í meðförum Jack Black og þjálfarinn hans Shifu (Dustin Hoffman).

 

3. besta: Mamma Mia!

Nú grunar mig að sumir lesendur hljóti að hneykslast á að ég velji létta grín og söngvamynd sem eina af bestu myndum ársins, en sannleikurinn er sá að það var dúndurgaman að horfa á þessa mynd í bíó, þrátt fyrir kjánahrollinn sem ég fæ ennþá þegar Pierce Brosnan tekur lagið. Meryl Streep hélt hins vegar myndinni uppi með glaðlegum leik og frábærum söng, og aukaleikararnir hver öðrum betri. 

 

2. besta: Iron Man

Besta ofurhetjumynd ársins að mínu mati. Robert Downey Jr. og Jeff Bridges sýna stórleik, og Gwyneth Paltrow sýnir óvenju góðan leik sem aðstoðarkona Tony Stark. Tæknibrellurnar eru pottþéttar og sagan frekar einföld, en þetta er ofurhetjumynd sem tekur sig hæfilega alvarlega og virkar 100%.

 

Besta mynd 2008...

 

 

...er...

 

 

Bolt

Bolt

Teiknimynd frá Walt Disney um hvutta sem uppgötvar að hann er ekki sú ofurhetja sem hann hefur alltaf haldið að hann væri. Myndin sem ég sá var í þrívídd og afbragðs vel talsett á íslensku - en ég hef satt best að segja lengi haft fordóma gagnvart talsetningu á bíómyndum - en í þetta sinn virkaði þetta. Allt smellpassar saman, létt kómedía í bland við hasar og spennu - og að auki hef ég aldrei séð jafn góða teiknimyndagerð þar sem margar persónur virðast raunverulegar - sérstaklega dúfurnar. 

Þannig er listi minn yfir 10 bestu kvikmyndir ársins 2008. Sjálfsagt mun hann breytast með tíð og tíma eftir að ég hef séð enn fleiri kvikmyndir úr öllum heimsálfum frá þessu mikla kreppuári. 

 

Gleðilegt nýtt kvikmyndaár 2009!


10 verstu kvikmyndir ársins 2008

SharkAttack3

 

Ég vil taka það fram að einungis er um að ræða þær myndir sem framleiddar hafa verið árið 2008 og ég hef séð. Þar sem ég er ekki atvinnugagnrýnandi og tími minn takmarkaður til áhorfunar hef ég ekki aðgang að öllum þeim kvikmyndum sem skemmtilegra væri að hafa séð á árinu.

 

10. versta: Quantum of Solace

QuantumOfSolacePoster

Réttara að kalla þetta mestu vonbrigðin. (Indiana Jones and the Kingdome of the Crystal Skull var reyndar skammt á eftir). Ein slakasta James Bond mynd frá upphafi, þrátt fyrir góðan Daniel Craig. Það spilar reyndar svolítið inn í að ég bjóst við einhverju miklu betra eftir snilldina Casino Royale.

 

9. versta: The Happening

Allt í einu klikkast fólk í hópum og fer að fremja sjálfsmorð upp úr þurru. Plöntur jarðarinnar hafa gert uppreisn gegn mannkyninu og ná að virkja sjálfseyðingarhvöt mannsins með ensímum. Ágætis hugmynd, en kvikmyndin frekar leiðinleg.

 

8. versta: Hancock

HancockPoster

Lofaði góðu á pappírnum. Misheppnuð ofurhetja og róni. Útkoman: misheppnað.

 

7. versta: Fool's Gold

Fjársjóðsleit í karabíska hafinu þar sem leikararnir virðast hafa meiri áhuga á sólbaði en leiklist.

 

6. versta: Untraceable

Frekar döpur mynd um internetlöggu sem lendir í klónum á netfjöldamorðingja.

 

5. versta:  Step Up 2: The Streets

StepUpToTheStreetsPoster

Frekar innantóm dansmynd, sem samt inniheldur nokkuð flotta dansa.

 

4. versta: Righteous Kill

RighteousKillPoster

Tveir af mögnuðustu leikurum kvikmyndasögunnar, Robert De Niro og Al Pacino leika tvær löggur sem rannsaka fjöldamorð. Báðir langt frá sínu besta. Ég hef reyndar heyrt að 88 Minutes með Al Pacino sé enn verri. Hef ekki séð hana, en þótti samt rétt að vara við henni.

 

3. versta: Babylon A.D.

BabylonADPoster

Vin Diesel áhugalaus í alltof flóknum söguþræði um erfðabreytta stúlku sem á að vera móðir næsta Messíasar sem verða tvíburar, fyrir framtíðartrúarbrögð, en meikar engan sens - ljóst að leikararnir höfðu jafn litla hugmynd um hvað var í gangi og áhorfandinn.

 

2. versta: The Mummy: Tomb of the Dragon Emperor

MummyTombOfTheDragonEmperor

Draumur nördans, en illa farið með góða hæfileika þeirra Brenda Frasier, Jet Li og Michelle Yeoh - sem öll eru í aukahlutverkum! Peningum og tæknibrellum sóað í vitleysu.

 

Og...

 

...versta mynd ársins 2008 (af þeim sem ég hef séð - og ég sé aðeins þær myndir sem ég hef fyrirfram einhvern áhuga á að sjá)...

 

...er

 

... 10.000 BC

10000bcPoster

Hörmulega illa sögð saga um forna menningu í þrældómi þar sem mammútar og sverðtígrar koma aðeins við sögu, en þá fyrst og fremst sem tæknibrellufígúrur og Deus Ex vélar.

 

Listinn yfir tíu bestu myndir ársins 2008 birtist væntanlega á morgun eða hinn á bloggsíðu Donsins.

 

Gleðilegt nýtt ár!


Eru einhverjir annmarkar á skáldaleyfi* fjármálaráðherra?

 

John_F_Kennedy_White_House_portrait
 

 

"Þegar völd gera mann hrokafullan, minna ljóð hann á eigin takmarkanir. Þegar völd þrengja áhugasvið og umhyggju manns, minna ljóðin hann á ríkidóm og fjölbreytileika hans eigin tilvistar. Þegar völd spilla, hreinsa ljóð, því að listin sýnir sannleika þess mannlega sem verður að þjóna sem hornsteinn dómgreindar okkar." (John Fitzgerald Kennedy, 1917-1963)

Ljóst er að settur dómsmálaráðherra tók ranga stjórnskipulega ákvörðun og að hún lítur út eins og afsprengi spillingar fyrir almenningi öllum. Hvort sem um spillingu hafi verið að ræða eða ekki, þá hlýtur sú tenging sem fólk gerir við athöfnina að skipta lykilmáli. Oft er grunur um sekt jafn afrifaríkur og sönn sekt. Hverri ákvörðun fylgir ábyrgð hefði ég ætlað. Hvernig ætli þessi ábyrgð verði öxluð?

Ég hjó eftir eftirfarandi í grein mbl.is um þetta mál:

„Umboðsmaður telur annmarka á þessu en þó ekki meiri en svo að hann telur að þeir leiði ekki til ógildingar," sagði Árni Mathiesen við Morgunblaðið í kvöld.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis var einungis að meta hvort að um annmarka hafi verið að ræða eða ekki. Hann hefur ekkert að segja um hugsanlegar afleiðingar þessa brots, eins og fram kemur í niðurstöðu umsagnar hans, ef lesið er aðeins lengra:

Úr niðurstöðu umboðsmanns alþingis:

Eins og áður sagði er það niðurstaða mín að tilteknir annmarkar hafi verið á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð setts dómsmálaráðherra við skipun í umrætt embætti héraðsdómara. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar hér á landi og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut skipun í embættið tel ég ekki líkur á að ofangreindir annmarkar leiði til ógildingar á skipuninni. Það fellur hins vegar utan starfssviðs míns að taka afstöðu til þess hvaða lagalegu afleiðingar þessir annmarkar á meðferð málsins kynnu að öðru leyti hafa í för með sér ef um þetta yrði fjallað af dómstólum t.d. í formi skaðabótamáls. Ég beini þó þeim tilmælum til skipaðs dómsmálaráðherra að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst er í áliti þessu við undirbúning og veitingu embætta héraðsdómara.

Við getum ekki sagt að um lögbrot sé að ræða, heldur verður löglærður dómari að skera úr um það. En til þess þarf sjálfsagt einhver að kæra málið, eða hvað? Líklegasta niðurstaðan er að hinir þrír sem metnir voru hæfari kæri málið og semji um sæmilegar skaðabætur frá Ríkinu, og þar með verði málinu lokið.

Væri þá réttlætinu fullnægt?

 

Undarleg er íslensk þjóð!
Allt, sem hefur lifað,
hugsun sína og hag í ljóð
hefur hún sett og skrifað.

Hlustir þú og sé þér sögð
samankveðna bagan,
þér er upp í lófa lögð:
landið, þjóðin, sagan.

Stephan G. Stephansen (1853-1927)

 

* Skilgreining á skáldaleyfi, af vefsetrinu Bókastoðin:

Stundum taka skáld sér skáldaleyfi en með því er átt við að þeir virða ekki settar reglur, t.d. hvað málform eða bragform varðar. Þetta gerði Halldór Laxness til dæmis, en hann hundsaði ng- og nk-reglurnar í stafsetningu og skrifa orð á borð við langur svona ‘lángur’. Skáldaleyfi getur einnig falist í því að hagræða sögulegum staðreyndum eða tíma.


mbl.is Telur nýmæli í niðurstöðu umboðsmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bolt 3D (2008) ****

Árið 2008 hefur verið gott fyrir teiknimyndir. Þær bestu sem ég hef séð á árinu eru Kung-Fu Panda, Wall-E og Bolt.  Mér finnst Bolt sú besta af þeim þremur, þó að erfitt geti verið að bera þær saman. Bolt hefur nefnilega hjartað á réttum stað, í sögu með ógleymanlegum persónum. Aðeins tvisvar áður hef ég séð teiknimyndir sem mér finnst algjörlega frábærar. Það eru Lion King (1994) og Toy Story (1995). Þetta eru sams konar sögur, persóna týnist, leitar að sjálfum sér og lærir nýjan tilgang með lífinu.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég sá myndina í þrívídd og með íslenskri talsetningu sem var frábærlega unnin.

Bolt er fimm ára gamall hvutti sem heldur að hann sé ofurhundur, en sannleikurinn er sá að hann er sjónvarpsstjarna sem veit ekki að allt í kringum hann er tilbúningur, rétt eins og Jim Carrey sem Truman  í The Truman Show (1999). Reyndar á Bolt sér eina sanna fótfestu í lífinu, en það er skilyrðislaust ást hans á eiganda sínum, stúlkunni Penny. Hann trúir að illmenni séu stöðugt á eftir henni og leggur sig allan fram við að bjarga henni úr vandræðum. Á nóttinni er hann skilinn eftir í hjólhýsi á sviðinu, og komið er í veg fyrir að hann fái nokkurn tíma að sjá hinn raunverulega heim.

Framleiðendur þáttanna óska eftir að einhverjir þættir endi illa. Í lok þáttar er látið sem að Penny hafi verið rænt og Bolt komið fyrir í hundakassa. Allir þættir höfðu endað vel til þessa, þannig að Bolt er virkilega pirraður þegar hann losnar úr kassanum, og tekst að flýja úr hjólhýsinu en þegar hann ætlar að stökkva í gegnum glugga rotast hann og dettur ofan í kassa sem póstsendur er til New York.

Þegar út úr kassanum er komið þarf Bolt að komast aftur til Hollywood og bjarga Penny frá illmenninu með græna augað. Hann fær óvænta hjálp frá kettinum Mittens og hamstrinum Rhino. Hamsturinn Rhino kom mér til að hlæja upphátt nokkrum sinnum, en það hefur ekki gerst síðan ég sá Get Smart (2008) síðasta sumar. Smám saman uppgötvar Bolt að hann hefur lifað í draumaheimi, uppgötvar mikilvægi vináttu og gefst ekki upp í leit að Penny, fyrr en að hann sér að hún hefur fengið annan hund, alveg eins og hann. Þá fyrst þarf hann á sannri vináttu að halda.

Sagan er í raun afar einföld, en framsetningin og persónusköpunin er fyrsta flokks. John Lasseter, frumkvöðull Pixar Studios sá um framleiðsluna á myndinni og má greinilega skynja handverk hans, enda leggur hann alltaf mikla áhersluna á að sagan sé frumleg og skemmtileg, áður en hann fer út í tæknilegri hluti, sem eru samt líka óaðfinnanlegir.


The Philadelphia Story (1940) ***1/2

 

Allir kannast við hinn klassíska ástarþríhyrning, þar sem til dæmis tveir karlar berjast um hylli og ást einnar konu. Í The Philadelpha Story fáum við aðeins flóknari útgáfu: ástarfimmhyrning, þar sem karlarnir eru þrír og konurnar tvær. Úr verður hin besta skemmtun.

Ljóðskáldið Macaulay Connor (James Stewart) og myndlistamaðurinn Elizabeth Imbrie (Ruth Hussey) sem starfa hjá slúðurtímaritinu Spy sem dálkahöfundur og ljósmyndari fá það verkefni frá ritstjóra blaðsins, Sidney Kidd (Henry Daniell) að fjalla um brúðkaup í Philadelphia. Þau eiga í einhvers konar rómantísku sambandi en eru ekki á föstu.

 

Tracy Lord (Katharine Hepburn) og George Kittredge (John Howard) eiga að giftast á laugardegi, en Connor og Imbrie mæta heim Lord fjölskyldunnar, sem er afar illa við blaðasnápa í fylgd fyrrverandi eiginmanns Tracy, C. K. Dexter Haven (Cary Grant).

Hjónaband þeirra Tracy og Dexter hafði lokið með ósköpum tveimur árum fyrr, enda Tracy mjög kröfuhörð og Dexter í vandræðum með áfengisneyslu. Dexter vill fyrir alla muni koma í veg fyrir brúðkaupið, en hann veit að George Kittredge er ósvífinn tækifærissinni sem ætlar sér að nota ríkidæmi Tracy fyrir pólitískan frama. Macaulay Connor hefur einnig mjög sterkar skoðanir á Kittredge og þekkir sögur um hvernig hann kom sér úr fátækt til ríkidæmis.

 

Macaulay Connor er meinilla við að skoða einkalíf annarra, og líkar það enn verr þegar Lord fjölskyldan, öll sem ein setur á svið blekkingarleik til að þykjast vera venjuleg suðurríkjafjölskylda. Connor ákveður samt að fara á bókasafn til að lesa sér til um fjölskylduna, en finnur þar sjálfa Tracy Lord sem situr og les smásögubók eftir Macaulay. Þau átta sig strax á að þau hafa dæmt hina manneskjuna of fljótt, og áhugi þeirra hvort á öðru fer hratt vaxandi og verður hugsanlega að einhverju meiru þegar þau fá sér í glas seinna um kvöldið.

Það er hreinn unaður að fylgjast með þeim James Stewart og Katherine Hepburn leika saman. Það einfaldlega geislar af þeim og þau hafa nákvæmlega það sem þarf til að allir vilji að þau nái saman á endanum. Það vita allir að Kittridge væri ekki góður eiginmaður fyrir hana. Dexter og Imbrie standa á hliðarlínunni, en hafa afdrifarík áhrif á framvindu sögunnar.


Afar skemmtileg kvikmynd sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þó að The Philadelphia Story sé orðin 69 ára gömul, er hún mun betri en flestar rómantískar gamanmyndir sem gerðar eru í dag, sérstaklega vegna þess hversu frábær persónusköpunin er hjá risunum þremur: James Stewart, Katherine Hepburn og Cary Grant. 

James Stewart fékk óskarinn sem besti leikari í aðalhlutverki og Donald Ogden Stewart fékk óskarinn fyrir besta handritið.

 

Atriði úr The Philadelphia Story: Somewhere Over the Rainbow


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband