Færsluflokkur: Kvikmyndir

Stallone og Schwarzenegger loks saman í hasarmynd

 

schwarzenegger-stallone

 

Á 8. og 9. áratugnum vonuðust margir hasarmyndaunnendur eftir því að Arnold Schwarzenegger og Sylvester Stallone leiddu saman hesta sína. Nú er komið að því. Ásamt þessum goðsögnum hasarmyndanna, munu margir af helstu hasarleikurum síðustu þriggja áratuga leika í myndinni:

  • Jason Statham
  • Mickey Rourke
  • Jet Li
  • Dolph Lundgren
  • Danny Trejo
  • Eric Roberts 

Það verður gaman að sjá hvað verður úr þessu hjá gömlu kempunum.

Ég er reyndar á þeirri skoðun að myndin mætti heita The Wrestlers, svona til heiðurs Mickey Rourke og myndinni sem náðist nýlega af Stallone þar sem hann skutlar sér tígulega til jarðar.

 

 


Watchmen (2009) ****

watchmen

Watchmen er afar vel heppnuð kvikmynd gerð úr margbrotinni og flókinni teiknimyndasögu eftir Alan Moore. Áður hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum Moore, hin ágæta From Hell (2001) með Johnny Depp í hlutverki uppdópaðs leynilögreglumanns í leit að Jack the Ripper í London. Hin er hin háværa og frekar misheppnaða The League of Extraordinary Gentlemen (2003), sem er þekktust fyrir að vera svanasöngur Sean Connery.

Watchmen gerist í mögulegum heimi þar sem ekki komst upp um Watergate málið og Nixon heldur völdum í Bandaríkjunum fram til ársins 1985 að hann er enn forseti landsins. Allir eru spilltir, hvort sem það eru stjórnmálamenn, auðmenn, almúgi eða ofurhetjur. Það hugsa allir fyrst og fremst um sjálfa sig, með tveimur undantekningum. Þessar tvær undantekningar er það sem gefur kvikmyndinni líf.

 

watchmen01

 

Önnur undantekningin er ofurmennið Dr. Manhattan (Billy Crudup), vísindamaður sem fékk ofurkrafta vegna slyss á tilraunastofu, sem gerir það að verkum að hann getur séð inn í fortíðina og framtíðina af jafn mikilli nákvæmni og hann sér nútíðina, en með þeim hliðarverkum að hann fer að sjá nútíðina með sömu fjarlægð og við sjáum fortíð okkar. Hann getur sent sjálfan sig og aðra eins og sjónvarpssendingar eitthvert annað í heiminum, og séð bæði með eigin huga myrkustu leyndarmál mannssálarinnar, og gefið öðrum vald til að skilja sjálf sig betur. Eini vandinn við Dr. Manhattan er að hann hefur einangrast mikið vegna þess að hann eldist ekki og er allt öðruvísi en annað fólk. Aftur á móti hefur hann yfir slíkum kröftum að ráða að hann getur leyst manneskjur upp í frumeindir sínar með því einu að lyfta fingri. Það er frekar hættulegt að styggja slíkan mann.

 

watchmen02

 

Hin undantekningin er Rorschach (Jackie Earle Haley), frekar þunglynd ofurhetja sem gengur um í síðum frakka með barðastóran hatt, og hvíta andlitsgrímu sem hylur allt andlit hans en með síbreytilegum svörtum flekkjum, sem hver og einn á að geta túlkað fyrir sjálfan sig. Hans ofurkraftar eru ekkert miðað við Dr. Manhattan, en hann er lipur, sterkur og snöggur. Hann er alltaf samkvæmur sjálfum sér og hatar alla spillingu af einlægni. Hann er eins og blanda af Batman, The Punisher og Dirty Harry - nokkuð sem glæpamenn vilja alls ekki fá gegn sér.

Aðrar persónur eru vel framsettar, en sérstaklega The Comedian (Jeffrey Dean Morgan), ofurhetja sem í flestum öðrum sögum væri flokkaður meðal illmenna, en svo skökk er hin siðspillta dómgreind í söguheimi Watchmen, að hann er talinn með hinum góðu, þrátt fyrir að hafa drepið af óþörfu saklaust fólk og reynt að nauðga annari ofurhetju.

 

watchmen03

 

Persónurnar eru margar og nokkuð miklum tíma varið í Nite Owl II (Patrick Wilson) og Silk Spectre II (Malin Akerman), en þau eru bæði ofurhetjur sem eru þreyttar á að fá ekki að vera í gervum sína vegna laga sem sett voru gegn slíku fólki. Þau verða ástfangin og ákveða að klæðast búningunum til að auka erótík í sambandi þeirra - og uppgötva að þeim finnst æsandi að stjórna atburðarrás sem fáir geta ráðið við - og fyrir vikið eykst hitinn í ástarsambandi þeirra.

Síðasta persónan sem vert er að minnast á er gáfaðasti maður í heimi, Ozymandias (Matthew Goode), en hann hefur þá ofurkrafta að vera sneggri og sterkari en flestar aðrar ofurhetjur, og margfalt gáfaðri. Reyndar minnist Dr. Manhattan á að gáfur Ozymandias væru fyrir honum ekkert merkilegri en gáfur gáfaðasta kakkalakka í heimi, sem segir meira um Dr. Manhattan en Ozymandias.

 

watchmen04

 

Það sem keyrir atburðarrásina í gang, í þessum spillta heimi þar sem áhrifa Nixon gætir í öllu - er að ein ofurhetjan sér að þessi heimur er óásættanlegur, og ákveður að gera sitt besta til að breyta honum til hins betra, sama hvað það kostar. Til þess að geta það, þarf hann að spinna blekkingarvef og plata alla í kringum sig, þar á meðal Dr. Manhattan, sem gegnir lykilhlutverki í áætlun hans. The Comedian kemst hins vegar að ráðagerðinni og er myrtur.

Rorschach rannsakar morðið og upplýsir hinar hetjurnar um grun sinn um að einhver sé að drepa ofurhetjur, eina af annarri, og varar þær við þessum grun sínum. Ég ætla ekki að segja hvernig sagan fer, en í enda kvikmyndarinnar situr eftir spurning sem erfitt er að svara: Eru hryðjuverk þar sem þúsundir saklausra einstaklinga eru drepnir, réttlætanleg, ef þau leiða til heimsfriðar? Spurningar tengdar 11. september vakna að sjálfsögðu þegar hryðjuverkaárás kvikmyndarinnar er gerð á New York borg, og maður hlýtur að spyrja sig hvort að þeir sem flétta samsæri, sem og hryðjuverkamenn, hugsi ekki á svipaðan hátt og þeir sem fremja voðaverkin í þessari kvikmynd, telja verk sitt göfugt, að þeir séu að sigrast á skrímsli - að þeir séu að ná fram heimsfriði, og að slíkur friður sé þess virði þó að fórna þurfi nokkrum milljónum ókunnugra einstaklinga.

 

watchmen05

 

Þetta þema tengist pælingu um þróun, hvort að eitthvað gott og fagurt geti sprottið úr einhverju illu og ljótu, eða hvort að æðri máttarvöld skapi hlutina í þeirri mynd sem þeir eiga að vera. Svarið sem myndin gefur er ekki afgerandi, heldur einhvers staðar á milli þessara tveggja. Það sem gefur einmitt myndinni mestan lit er hversu gjörólíkar grundvallarskoðanir hver persóna hefur og hvernig sannleikurinn, komi hann fram, getur ógnað heimi sem byggður er á lygum.

Það kemur mér á óvart hversu óvægin Watchmen er þegar kemur að jafn viðkvæmum málefnum.Ég mæli með Watchmen, en vara við að ofbeldið er mjög grafískt. Þetta er óvenjuleg ofurhetjumynd að því leyti að hún hefur kynlífssenur og eitthvað af nekt, sem þýðir einfaldlega að kvikmyndin er ætluð fullorðnum en ekki börnum. Allt öðruvísi kvikmynd og sú bragðmesta sem ég hef séð á árinu til þessa.


Bestu kvikmyndir allra tíma

Þá er komið að því. Skorið úr því í eitt skipti fyrir öll hver besta kvikmyndin sem gerð hefur verið frá því að kvikmyndatakan var fundin upp. Whistling

Ég vil taka það fram að þríleikir eins og Indiana Jones, Star Wars og Godfather eru flokkaðir sem ein kvikmynd í mínum huga. Það þýðir að Raiders of the Lost Ark kemur ekki til greina vegna mynda númer tvö og fjögur í Indiana Jones bálkinum. Hvorki The Empire Strikes BackA New Hope koma til greina vegna Attack of the Clones, og Godfather 2 og 3 koma ekki til greina vegna Godfather 3.

Ég fann nokkra lista á netinu til að koma mér í gang.

Mr. Showbiz's CRITICS' Picks: The 100 Best Movies of All Time

  1. Casablanca (1942)
  2. The Godfather Part II (1974)
  3. North By Northwest (1959)
  4. Citizen Kane (1941)
  5. Lawrence of Arabia (1962)
Casablanca_original_film_poster

 

Mr. Showbiz's READERS' Picks: The 100 Best Movies of All Time

  1. Star Wars (1977)
  2. The Godfather (1972)
  3. Pulp Fiction (1994)
  4. Casablanca (1942)
  5. Gone With The Wind (1939)
StarWarsMoviePoster1977

 

IMDB: Best 250 Movies of All Time

  1. The Shawshank Redemption (1994)
  2. The Godfather (1972)
  3. The Godfather: Part II (1974)
  4. The Good, The Bad, and The Ugly (1966)
  5. Pulp Fiction (1994)

 

ShawshankRedemptionMoviePoster

 

THE BRUSSELS WORLD'S FAIR (1958)

  1. Battleship Potemkin (1925)
  2. The Gold Rush (1925)
  3. Bicycle Thieves (1948)
  4. The Passion of Joan of Arc (1928)
  5. Grand Illusion (1937) 

 

Vintage_Potemkin

 

 

Sight & Sound (2002)

  1. Citizen Kane (1941)
  2. Vertigo (1958)
  3. The Rules of the Game (1939)
  4. The Godfather (1972) and The Godfather Part II (1974)
  5. Tokyo Story (1953)

Citizenkane
 

 

Listi Don Hrannars

Allt eru þetta frábærar kvikmyndir sem listaðar eru hér fyrir ofan, en engin þeirra kemst með tærnar þar sem sú allra besta hefur hælana. Hérna er minn listi:

  1. The Lord of the Rings (2001-2003)
  2. Braveheart (1995)
  3. Pulp Fiction (1994)
  4. Gone With the Wind (1939)
  5. Lawrence of Arabia (1962)

 



Þorsteinn Einarsson spyr í athugasemdakerfinu hvernig ég skilgreini góða kvikmynd. Ég hef reyndar aldrei skrifað slíka skilgreiningu og prófa það því hérna:

Góð kvikmynd uppfyllir ekki aðeins tæknileg skilyrði á framúrskarandi hátt, heldur skapar persónur sem hjálpa þér að átta þig á djúpum mannlegum gildum, sem skína oft í gegnum skapgerðarbresti eða ófullkomleika mannsins. Góð kvikmynd  býr einnig til heim sem er samkvæmur sjálfum sér og hlítur sínum ákveðnu lögmálum, og hlutverk allra þeirra sem taka þátt í þessum heimi gegna ákveðnu hlutverki, til þess annað hvort að bæta hann eða brjóta. Þessi heimur og þessar persónur eru svo skýrar og raunverulegar að þær verða trúverðugar innan heims kvikmyndarinnar.

Ég er hrifinn af mannlegum gildum, og sérstaklega ef þau fá litríkan og skemmtilegan búning sem kemur ímyndunarafli mínu í gang.

Lord of the Rings fjallar um þrautseigju, og mikilvægi þess að gefast aldrei upp, sama hvernig líkurnar hlaðast upp gegn þér, dygð sem ég tel afar mikilvæga, sama hvað það er sem við tökum okkur fyrir hendur. Skýrasta augnablikið er þegar Frodo gefst upp, en Sam lyftir honum á herðar sér og ber síðasta spölinn um eldfjallið.

Braveheart fjallar um gildi hugsjónar sem fær ekki að þrífast vegna spillingar í samfélaginu, en William Wallace berst fyrir til hinsta andardráttar - þessi hugsjón er frelsi til að elska í friði. Hljómar kannski væmið en er gert afar góð skil í kvikmyndinni.

Pulp Fiction fjallar um hið óvænta í heimi sem er algjörlega snarruglaður, hvernig góðmennska getur brotist út úr mykjuhaug illsku og spillingar, þegar leigumorðinginn Jules ákveður að taka upp betri siði, þegar boxarinn Butch leggur líf sitt í sölurnar fyrir úr föður síns. Ég man ekki eftir að hafa séð kvikmynd sem hefur komið mér jafn oft á óvart á jafn stuttum tíma, skapað hjá mér væntingar og snúið út úr þeim þannig að ég hafði ekki hugmynd um hvað myndi gerast næst - og það sem gerist næst er fullkomlega ásættanlegt og passar við heim kvikmyndarinnar þannig að hún fær mig til að hugsa aðeins betur um ólíka möguleika. Ætli Pulp Fiction sé ekki ein frumspekilegasta mynd sem ég hef séð, þar sem möguleikarnir í henni virðast óendanlegir, en er samt meistaralega fléttað saman - eins og guðspjalli.

Gone With the Wind fjallar um menningarheim á þverhnípi eigin tortímingar og hvernig fólk sem tapar öllu getur náð sér aftur á strik, með því að þekkja sjálft sig og uppruna sinn. Þannig fer Scarlett O'Hara, þegar hún hefur tapað öllu, á landsvæði sitt Tara, þar sem hún ákveður að byggja upp á nýtt - tilbúin að takast á við nýja tíma og sætta sig við að þeir gömlu eru farnir. 

Lawrence of Arabia fjallar um mann sem reynir að átta sig á tveimur gjörólíkum menningarheimum, og áttar sig smám saman á því að það væri ekki sniðug hugmynd að blanda þeim í einn, heldur halda þeim aðskildum vegna svo gjörólíkra grundvallarviðhorfa til lífsins að þeir hljóti að enda í stríði. Kannski þurfum við að sætta okkur við að ekki er hægt að sætta menningarheima saman þegar meðlimir þeirra ríghalda í eigin menningu og trúarbrögð, og að eina vonin er gagnrýnin hugsun, - nokkuð sem D.H.Lawrence reyndi að beita ásamt ljóðrænu - en hann var bara einn á móti milljónum.

Ekki misskilja mig. Þetta eru þær myndir sem ég beinlínis elska í dag. Á morgun gæti ég kallað til einhverjar allt aðrar myndir ef ég er í þannig skapi. En svona er Don Hrannar í dag. Og því verður að kyngja.

Listinn er huglægur, og eru þetta þær kvikmyndir sem að mér finnst bestar á þessu augnabliki. Hafi ég gleymt einhverri stórgóðri mynd, er þér velkomið að hneykslast í athugasemdakerfinu.

Ég hlusta.


Ræða Davíðs Oddssonar á landsfundi 2009 og sú "stórfurðulega heimsmynd sem sá einkennilegi fýr hefur"

Smelltu hérna til að sjá ræðu Davíðs.


Þar sem Don Hrannari barst fyrirspurn frá skjaldsveini sínum Sancho, ákvað hann að skella saman stuttum texta til að svara áskoruninni.

"Væri gaman ef eðalpenni eins og þú myndir kryfja ræða Davíðs Oddsonar frá landsfundi og mála upp stórfurðulega heimsmynd sem sá einkennilegi fýr hefur." (Sancho)

Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að eltast við ræðuna hans Davíðs, og telja hversu oft hann notar mælskulist í stað rökræðu. En ég nenni ekki að eltast við slíkt, frekar berst ég við vindmyllur.

Sjálfsagt væri betra að fá bókmenntarýni til að skoða snilldartextann sem Davíð flutti í dag, heldur en gagnrýni til að greina merkinguna á bakvið orðin og bera saman við heiminn eins og við teljum hann vera.

Davíð Oddson er gott skáld, og notar mikið myndmál. Ég held samt ekki að hann sé að varpa fram hans eigin ímyndaða heimi, heldur sýnist mér einfaldlega hans eigin skoðanir nánast drukkna og vera ansi óskýrar og margræðar innan um flokksfordóma. Þegar hann segir að sannleikurinn muni koma í ljós, þá er hann ekki að vísa í eigin ræðu, því að hún hefur með allt aðra hluti en sannleikann að gera. Þetta er flokksræða á áróðurstíl, greinilega skrifuð til að líma þá flokksmenn sem enn tolla í sjálfstæðisflokknum við þá hugsjón að flokkurinn sé heiðarlegur og hreinn, og hafi barist gegn hinum illu öflum sem komu þjóðinni á höfuðið með lævísum klækjum og valdníðslu, hann er að stappa stálinu í flokk sem hann veit að tapar í þessum kosningum, en er meira en líklegur til að komast aftur til valda í þeim næstu.

poet

Í fáum orðum túlka ég ræðuna hans þannig: "sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað þessari orustu, en ekki stríðinu." Megi nú kalt vatn renna milli skinns og hörunds þeirra sem vilja.

Þar sem að Davíð talaði um sjálfan sig alltaf í þriðju persónu, setti hann sig fram sem persónu í sögu, sögu sem nær aftur til krossfestingar Krists, þar sem Davíð hinn óprúttni var hengdur við hlið tveimur heiðarlegum. Þetta er náttúrulega stórkostlega 'twisted' myndmál, sem minnir mig einna helst á togstreitu Svarthöfða sjálfs sem þurfti að gera upp við sig hvort hann ætti að drepa keisarann eða son sinn.


Málið er að myndmál er vandmeðfarið ef ætlunin er að tjá ákveðna meiningu, en í þessari ræðu talaði Davíð ekki aðeins undir rós, heldur þyrnirósarunna, hjó af nokkrar greinar og sló um sig með þyrnirósum svo að jafnvel flokksfélögum blæddi.

Ef þú ætlar að gefa hluti í skyn eða höfða til tilfinninga fólks, þá notarðu myndmál. Ef þú ætlar að segja skoðun þína, láta í ljós þekkingu þína eða jafnvel fræða fólk, þá er hætt við að ræðan verði sjálfsagt merkilegri, en mun áhugaverðari fyrir aðra en bókmenntafræðinga. 

Þessi ræða höfðaði til tilfinninga viðstaddra, en Davíð lét einnig áhugaverða heimspekilega skoðun í ljós undir lokin, sem margir hafa kannski misst af vegna fyrri voðaskota: en það var að sannleikurinn væri seigari en afar vel skipulagðar blekkingar. Þessu get ég ekki annað en verið sammála, þar sem lygar og tilbúningur, sama hversu vel hannaðar þær eru, falla á endanum um sjálfar sig, sérstaklega ef fólk hættir að viðhalda lygunum og snýr sér að einhverju öðru. Þá liggur sannleikurinn í leyni bakvið lygastífluna og brýst fram við fyrsta tækifæri, þegar brestir koma í steypuna.


Ég er sammála Davíð um að upp komist svik um síðir, og ég hef trú á því að hann sé að einhverju leyti fórnarlamb í þessari atburðarás, en á erfitt með að trúa því hversu máttlaus hann virðist hafa verið gagnvart ofureflinu. Það er einfaldlega ekki sá Davíð sem maður kannast við.

Ég hef á tilfinningunni að Davíð reynist sannspár, og að hann muni komast ágætlega út úr sögulegri skoðun, en það breytir ekki því að litur ræðunnar var svo blár að hafið roðnar í samanburði.

Eina sterka hugmynd kveikti þó þessi skemmtilega ræða Davíðs - hún fékk mig til að spyrja hvort að Davíð hafi komist til valda fyrst og fremst vegna þess að hann er gott skáld, getur skrifað flottar ræður, er gífurlega hnyttinn í framsögu og skemmtilegur á að hlusta. Ég get vel skilið að þunglynd þjóð hafi fyrir áratugum kosið mann til valda á þessum forsendum, svona rétt til að gera heiminn aðeins skemmtilegri.

Vissulega hefði Ísland verið fölt ef ekki hefði verið fyrir Davíð Oddsson. Þakka ég honum fyrir skemmtunina, en það er ekki séns að ég muni gera tilraun til að dæma manninn út frá því sem hann hafði að segja við þessar aðstæður, ekki frekar en Henrik V þegar hann hvatti menn sína til dáða í frægu verki Shakespeare. 

Málið er að Davíð er eiginlega Shakespeare og Henrik V í eina og sama manninum.

Athugið að höfundur rembist við að skrifa bloggið með myndmáli, enda er hér (vonandi) meira um gamansama pælingu að ræða en djúpan könnunarleiðangur inn í hugarheim Davíðs Oddssonar.

 

Myndir:

Don Quixote: Things to do in China when you are dying...

Krossfestingin: Crucifixion of Jesus by Spencer Williams

Svarthöfði og Láki geimgengill: STAR WARS: Injuries of Darth Vader

Skáldstrumpur: smurfs.com


Gran Torino (2008) ***1/2

Ímyndaðu þér nafnlausa kúrekann í spaghettívestrum Sergio Leone, Will Munny úr Unforgiven og allar hinar hetjurnar sem Clint Eastwood hefur túlkað í vestrum, blandaðu þeim saman við Dirty Harry Callahan, hrærðu vel saman þannig að út komi ein persóna sem lifir í nútímanum á áttræðisaldri, en með öll gömlu persónueinkennin og útkoman verður Walt Kowalski í Gran Torino.

grantorino01

Gran Torino er sérlega vel heppnaður nútímavestri um gamlan og fordómafullan kúreka sem í stað þess að ríða um á hestum, notar mest ruggustól, pallbíl og Gran Torino glæsibifreið. Hann þarf ekki að leita upp vandamálin, því að þau koma til hans með breyttu samfélagi. Í gömlu vestrunum riðu hetjur um héruð og björguðu fólki sem lentu í vanda vegna glæpaklíka eða stórkaupmanna. Í nútímanum þarftu ekki að fara út fyrir eigin lóð til að takast á við spillingu í samfélaginu og glæpaklíkur.

Walt Kowalski (Clint Eastwood) hefur misst eiginkonu sína og sér fram á rólega ellidaga á veröndinni með bjór í hendi. Samfélagið hefur breyst. Gömlu nágrannarnir hafa fallið frá og nýir komnir í staðinn, af Hmong ættum - sem er ættbálkur frá Suður Kína.

Þegar glæpaklíka reynir að fá nágranna Kowalski, hinn hógværa Thao (Bee Vang) til að ganga í gengið og plata hann til að stela Gran Torino bifreið Kowalskis, fer aðeins að hitna í kolunum. Kowalski tekst að koma í veg fyrir ránið en kynnist þess í stað Thao, og ákveður að kenna honum að meta það sem er einhvers virði í lífinu.

Film Review Gran Torino

Að sjálfsögðu flokkar Cowalski Hmung fólkið sem asíubúa og tengir það við alla þá fordóma sem söfnuðust saman við þátttöku hans í Kóreustríðinu. Þegar hann uppgötvar að nágrannarnir eru ágætis fólk, verður hann jafnt sem nágrannar hans frekar undrandi.

Kowalski upplifir sín eigin börn og barnabörn sem afskræmingu þeirra gilda sem hann hefur barist fyrir alla sína ævi, og það kemur honum á óvart að hann finnur meira af þessum gildum hjá nágrönnum sínum en eigin fjölskyldu.

Þegar nágrannarnir og Sue Vang Lor (Ahney Her), systir Thao, stúlka sem Kowalski kann sérlega vel við, verða fyrir fólskulegri stórskota- og líkamsárás gengisins, ákveður hann að taka til eigin ráða, finnur gömlu skammbyssurnar og tekur til við að hreinsa þær.

grantorino05

Gran Torino er meistaralega upp byggð og vel sögð saga. Frásagnarstíllinn er ekki skreyttur með miklum tæknibrellum eða skrautlegum klippingum, heldur er undirstaðan í traustu handriti, góðri leikstjórn og rafmögnuðum leik Clint Eastwood í hugsanlega síðasta hlutverki ferilsins. Ef sú verður raunin, get ég ekki hugsað mér betri útgöngu en Gran Torino.


S.O.S. INTERPOL - Ræsum út víkingasveit fjársvika strax!

 

interpol_logo

 

Sú frétt að Kaupþing hafi lánað stærstu eigendum sínum og tengdum aðilum tæplega 500 milljarða króna kallar á tafarlausa alþjóðlega rannsókn. Góðu fréttirnar eru þær að INTERPOL getur hjálpað.

Mig grunar að þetta sé ekkert einsdæmi og að svipaða hluti verði hægt að finna hjá Landsbanka og Glitni - nokkuð sem ætti að vera löngu komið í harða rannsókn.

Ég spyr: Hefur saksóknari efnahagsglæpa eða efnahagsbrotadeild ríkislögreglunnar haft samband við INTERPOL, eða þarf að rétta þeim blóði drifna peysu heimila og fyrirtækja til að þeir sjái hversu alvarlegt málið er?

Þetta mál á heima undir fjármálaglæpi INTERPOL, en þessi texti kemur þaðan og passar 100% við ástandið sem Íslendingar eru að upplifa.

 

070709_interpol_hmed_430a.hmedium

 

Ef við getum sýnt fram á með INTERPOL að við séum ekki fjárglæfrafólk upp til hópa, heldur fórnarlömb fjársvikara, getum við fengið aðrar þjóðir virkar í lið með okkur til að berjast gegn kreppunni.

Ef við lítum á kreppuna sem slys, er hætta á sjálfsvorkunn og eymd. Ef við lítum á kreppuna sem glæp, er mikil von um endurreisn og að réttlætiskennd vakni með fólki, ekki aðeins íslensku þjóðinni - sem virðist að miklu ana áfram eins og uppvakningar og ekki átta sig á hvað margir úr þeirra samfélagi þjást hvern einasta dag vegna þessa ástands, heldur einnig í alþjóðasamfélaginu.

Hugarfarsbreyting verður að eiga sér stað. Kreppan er ekki slys eins og hún var á 3. og 4. áratug 20. aldar, heldur er hún stórfelldur glæpur. Þetta er tvennt ólíkt. Ef verslun eða heimili þitt brennur vegna gáleysis, situr eigandinn eftir ráðlaus - viti hann hins vegar að einhver lagði eld að heimilinu mun hann ekki leita sér hvíldar fyrr en viðkomanda hefur verið komið fyrir á öruggum stað - fjarri eldspýtum.

 

 

Málið er að við höldum að skipið hafi strandað. Það er ekki rétt, það hefur rétt rekist á sker, og áhöfnin sem því olli er ennþá um borð í leit að næsta skeri. Við getum ekki byrjað björgunarstörfin fyrr en við höfum upprætt rót vandans. Það á eftir að hjóla í það vandamál, og það þarf að gera strax. 

Fyrst úrræðið er þegar til, INTERPOL, af hverju ekki að byrja opinbert ferli með þeim, þar sem þeir hjálpa okkur að leita uppi og stöðva þá sem rændu af íslensku þjóðinni og vinaþjóðum hennar upphæðum sem við getum varla ímyndað okkur vegna stærðar þeirra?

Það er allt annað hugarfar ef við skiptum úr því hugarfari að vera þjóð minnimáttarkenndar sem gerði fáránleg mistök, heldur en þjóð sem leitar réttar síns af styrk og yfirvegun.

Hvort á það að vera?

 

Fjármálaglæpadeild INTERPOL

Margvísleg áhrif fjárhagslegra svika, ekki aðeins gegn einstaklingum og fyrirtækjum, heldur einnig gegn hagkerfum þjóða, vaxa hratt á alþjóðavísu.

Ef látið afskiptalaust, geta svik leitt til fjárhagslegs hruns fólks og fyrirtækja, sem og skaðað hagkerfið alvarlega. 

Sveit fjármálaglæpa hjá INTERPOL hefur tekið að sér að berjast gegn þessari alþjóðlegu hreyfingu innan verkefnis sem er sérstaklega hannað til að berjast gegn alvarlegum svikafyrirbærum.

Verkefnið er hannað í kringum stýringarhugtak INTERPOL með að veita aðstoð við rannsókn á alþjóðlegu og svæðisbundnu stigi sem og með skipulögðum stuðningi með samfélagi lögregluyfirvalda.

Verkefnið reynir einnig að fræða almenning um áhætturnar sem fylgja svikum og ólíkum aðferðum til að fyrirbyggja þau í náinni samvinnu við fyrirtæki með því að nota viðeigandi tæki og ráðstafanir.

(Þýðing: HB)

 

Financial crime

The adverse impact of financial fraud, not only on individuals and the commercial sector but even on national economic systems, is increasing rapidly worldwide.

Left unchecked, fraud could lead to the financial ruin of people and commercial enterprises as well as seriously damage economic systems.

The Financial Crime unit of INTERPOL has taken up the challenge of fighting this global scourge within the framework of a project designed to combat significant fraud phenomena.

The project is designed around the concept of a Coordination role for INTERPOL in providing assistance to investigations on international and regional levels as well as strategic support to the Law Enforcement community.

The project also seeks to inform the public about the risks of fraud and different prevention methods in close co-operation with the commercial sector by employing suitable tools and platforms.


mbl.is 500 milljarðar til eigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskarsverðlaunin 2009 - Úrslit og innskot frá Mickey Rourke

Ég vil byrja þennan pistil á þakkarræðu Mickey Rourke frá síðasta laugardagskvöldi, þar sem hann tók við verðlaunum fyrir besta aðalhlutverk karlmanns í sjálfstæðri kvikmynd.
 
 
Annars voru úrslitin á Óskarsverðlaununum þannig:
 
Mitt val: Slumdog Millionaire
Sigurvegari: Slumdog Millionaire
SÁTTUR
 
Mitt val: Mickey Rourke
Sigurvegari:Sean Penn
 
ÓSÁTTUR
Mickey Rourke sýndi frammistöðu sem aldrei verður leikin eftir og enginn leikari hefði getað gert það sem hann gerði í þessu hlutverki. Aftur á móti tel ég hlutverk Sean Penn ekki hafa verið jafn krefjandi, þó að hann sé stórgóður leikari.
 
Mitt val: Angelina Jolie
Sigurvegari:Kate Winslet
 
SÁTTUR
Winslet sýndi framúrskarandi leik í Revolutionary Road og mjög góðan í The Reader, en mér fannst Angelina Jolie samt slá henni við í Changeling - en alls ekki ef skoðuð er frammistaða hennar í Wanted.

Besti leikari í aukahlutverki
Mitt val: Michael Shannon
Sigurvegari:Heath Ledger
 
SÁTTUR
Þetta var fyrirsjáanlegur sigur Ledger, en andlát hans á mikinn þátt í þessum sigri, án nokkurs vafa. Samt var Michael Shannon frábær í Revolutionary Road.
 
Besta leikkona í aukahlutverki
Mitt val: Viola Davis
Sigurvegari: Penélope Cruz
 
SÁTTUR
Get ekki verið annað en sáttur þar sem ég hef ekki séð Vicky Christina Barcelona.
 
Besta leikstjórn
Mitt val: Danny Boyle fyrir Slumdog Millionaire
Sigurvegari: Danny Boyle fyrir Slumdog Millionaire
 
SÁTTUR
 
Besta frumsamda handrit
Mitt val: In Bruges
Sigurvegari: Milk
 
ÓSÁTTUR
Morðið á Milk er látið líta út fyrir að vera pólitísk valdbeiting gegn samkynhneigðum, og sannleikurinn virðist svolítið teigður með því að gera Milk að meiri hetju en hann var í raun og veru. En svona er dramatíkin. 
 
Besta aðlagaða handrit
Mitt val: Doubt
Sigurvegari: Slumdog Millionaire
 
SÁTTUR
 
Besta teiknimyndin
Mitt val: Bolt
Sigurvegari: WALL-E
 
SÁTTUR
Gat ekki farið öðruvísi, en Bolt er samt skemmtilegri teiknimynd en WALL-E. Ég stend við það.
 
Besta kvikmyndatakan
Mitt val: The Dark Knight
Sigurvegari: Slumdog Millionaire
 
ÓSÁTTUR
Kvikmyndatakan í The Dark Knight var frumleg og skemmtileg, en hins vegar var kvikmyndatakan úr Slumdog Millionaire nánast afrit af brasilísku snilldinni Cidade de Deus.
 
Besta klippingin
Mitt val: Slumdog Millionaire
Sigurvegari: Slumdog Millionaire
 
SÁTTUR
 
Besta sviðsmyndin
Mitt val: The Dark Knight
Sigurvegari: The Curious Case of Benjamin Button
 
ÓSÁTTUR, en samt ekki. Það besta við Benjamin Button var sviðsetningin, en myndin fannst mér bara ekki nógu góð til að eiga heima í Óskarskapphlaupinu.
 
Bestu búningar
Mitt val: Revolutionary Road
Sigurvegari: The Duchess
 
SÁTTUR, enda hef ég ekki séð The Duchess.
 
Besta föðrun
Mitt val: The Dark Knight
Sigurvegari: The Curious Case of Benjamin Button
 
ÓSÁTTUR, förðunin í Benjamin Button var gervileg og dró of mikla athygli að sjálfri sér.
 
Besta kvikmyndatónlist
Mitt val: WALL-E
Sigurvegari: Slumdog Millionaire
 
SÁTTUR
 
Besta lagið
Mitt val: Down to Earth úr WALL-E
Sigurvegari: Slumdog Millionaire
 
ALVEG SAMA
 
Besta hljóð
Mitt val: The Dark Knight
Sigurvegari: Slumdog Millionaire
 
SÁTTUR
 
Besta hljóðblöndun
Mitt val: Iron Man
Sigurvegari: The Dark Knight
 
SÁTTUR
 
Bestu tæknibrellur
Mitt val: Iron Man
Sigurvegari: The Curious Case of Benjamin Button
 
ÓSÁTTUR  - Horfðu á þessar tvær myndir hlið við hlið og dæmdu aftur. Iron Man hefur framúrskarandi tæknibrellur og ef réttlæti væri til í heiminum þá hefði hún tekið þetta. En réttlætið er greinilega ekki til og því verðum við að búa það til.

mbl.is Viltu vinna milljarð? sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskarsverðlaunaspá 2009

 

vert330_81awards

 

Enn er komið að stóru stundinni þar sem gæði og vinsældir takast á í baráttu um verðlaun. Þar sem að bæði mat á gæðum og vinsældir eru frekar huglæg hugtök er vonlaust að segja til um hver fær hvaða verðlaun. Manni finnst að þetta ættu að vera gæðaverðlaun fyrir kvikmyndagerð, en þar sem að fólk er afar ólíkt, með afar ólíkan smekk og fordóma, auk samúðar eða andúðar með ólíku fólki, þá blandast breyskleiki fólks töluvert inn í valið.

Það er bæði helsti kostur og galli Óskarsverðlaunanna að kjósendur eru fólk sem er viðurkenndur hluti af akademíunni, fólk sem hefur atvinnu af kvikmyndagerð og hefur náð góðum árangri. Ég gæti flokkað mína spá eftir ímynduðum vinsældum, gæðum eða hverju sem er, hins vegar ætla ég aðeins að fylgja einu viðmiði í minni spá: þau áhrif sem viðkomandi hafði á mig, og fyrst og fremst mín eigin tilfinning fyrir gæðum viðkomandi fyrirbæris.

Besta kvikmyndin

The Curious Case of Benjamin Button

Frost / Nixon

Milk

The Reader

Slumdog Millionaire

Þetta er auðvelt. Þar sem að mér þótti hvorki Benjamin Button né Milk sérstaklega góðar myndir, og þó að mér hafi þótt Frost / Nixon og The Reader mjög góðar, þá er aðeins ein frábær mynd í þessum flokki, og það er Slumdog Millionaire.

Besta kvikmyndin: Slumdog Millionaire fjallar um mann í leit að konunni sem hann elskar, en henni er haldið nauðugri af indverskum mafíósa. Eina leiðin sem hann sér til að bjarga henni er með að brjótast úr sárri fátækt og verða bæði frægur og vellauðugur. Því tekur hann þátt í spurningakeppninni "Viltu vinna milljarð?" Leikstýrð af Danny Boyle, sem ég fyrirgef fyrir hina ömurlegu Sunshine.

Besti leikari í aðalhlutverki

Richard Jenkins í The Visitor

Frank Langella í Frost / Nixon

Sean Penn í Milk

Brad Pitt í The Curious Case of Benjamin Button

Mickey Rourke í The Wrestler

Ég hef ekki enn séð The Visitor og get því ekki dæmt um það hlutverk, og þótti ekki mikið til Sean Penn koma í Milk, þó að hann hafi vissulega staðið sig ágætlega. Frank Langella er frábær í Frost / Nixon, og Brad Pitt mjög góður sem Benjamin Button, þó að tæknibrellurnar hafi truflað mig svolítið við áhorfið - en langbesti leikurinn í ár, og hugsanlega allra tíma var hjá Mickey Rourke í The Wrestler.

Besti leikari í aðalhlutverki: Mickey Rourke í The Wrestler þar sem Rourke leikur fjölbragðaglímukappa sem kominn er yfir sitt besta skeið. Hann pumpar sig þó ennþá upp af sterum og leggur sig allan í glímuna. Vandinn er sá að Rourke er kominn í 21. öldina en hann telur sig ennþá vera einhvers konar ósigrandi Herkúles á 9. áratug 20. aldarinnar. Þegar hann fær hjartaáfall og sér fram á líf án glímu verður hann að taka ákvörðun upp á líf og dauða - hvort að lífið sé þess virði að lifa því án þess sem þú elskar mest. Leikstýrð af Darren Arronofsky.

Besta leikkona í aðalhlutverki

Anne Hathaway í Rachel Getting Married

Angelina Jolie í Changeling

Melissa Leo í Frozen River

Meryl Streep í Doubt

Kate Winslet í The Reader

Ég hef hvorki séð Rachel Getting MarriedFrozen River, en hinar þrjár hef ég séð. Meryl Streep var mjög góð í Doubt - þó að hún hafi verið enn skemmtilegri í Mamma Mia! Angelina Jolie var óaðfinnanleg í Changeling og Kate Winslet mjög góð í The Reader. Af þessum þremur hlutverkum fannst mér Angelina Jolie best, en samt tel ég að Kate Winslet vinni, og þá einnig verka leiks hennar í Revolutionary Road, þar sem hún var að mínu mati enn betri heldur en í The Reader. En eins og ég sagði, þá ætla ég að byggja spá mína á eigin tilfinningu frekar en trú, þannig að Angelina Jolie fær verðlaunin samkvæmt því.

Besta leikkona í aðalhlutverki: Angelina Jolie í Changeling þar sem Jolie leikur móður í Los Angeles á 3. áratug 20. aldar. Sonur hennar hverfur einn góðan veðurdag og lögreglan finnur annan dreng sem hún telur sannað að sé sonur Jolie. Þrátt fyrir að Jolie geti sannað að drengurinn sé ekki sonur hennar með því að sýna fram á tannlæknaskýrslur, ólíka hæð, og framburð kennara, kemur lögreglan henni fyrir á geðveikrahæli þar sem að gagnrýni hennar er orðin óþægileg. Á meðan tapast mikilvægur tími til að bjarga syni hennar, hugsanlega úr höndum fjöldamorðingja. Leikstýrð af Clint Eastwood.

Besti leikari í aukahlutverki

Josh Brolin í Milk

Robert Downey Jr. í Tropic Thunder

Philip Seymour Hoffman í Doubt

Heath Ledger í The Dark Knight

Michael Shannon í Revolutionary Road

Ég veit að Heath Ledger tekur þetta. Annað er óhugsandi. Enda var hann frábær sem Jókerinn í The Dark Knight, þrátt fyrir ákveðna galla í  lykilatriði myndarinnar þegar hann rétti Harvey Dent byssu. Josh Brolin sýndi nú enga stórmerkilega hluti í Milk, en hann hefur sjálfsagt fengið þessa tilnefningu vegna stórkostlegrar túlkunar sinnar á George W. Bush í W. Hann vinnur ekki en á tilnefningu skilið vegna hinnar myndarinnar. Robert Downey Jr. var frábær í ár bæði sem Iron Man og ástralski leikarinn sem leikur blökkumann í Tropic Thunder. Reyndar átti Tom Cruise líka frábært smáhlutverk í sömu mynd sem hefði alveg eins mátt fá tilnefningu. Philip Seymour Hoffman var frábær í Doubt sem kaþólskur prestur grunaður um að hafa misnotað dreng, en allra bestur fannst mér þó Michael Shannon í Revolutionary Road.

Besti leikari í aukahlutverki: Michael Shannon í Revolutionary Road þar sem hann leikur fyrrverandi snilling í stærðfræði sem hefur verið lokaður inni á geðsjúkraheimili og fengið svo mörg raflost að öll hans stærðfræðikunnátta er farin. Hins vegar sker hann sig í gegnum lygar og blekkingar eins og hárbeittur hnífur og sjálfsagt betri mannþekkjari en sjálfur Sherlock Holmes. Frábær karakter sem allir telja geðveikan, en reynist samt vera sá eini sem sér hlutina eins og þeir eru.

Besta leikkona í aukahlutverki

Amy Adams í Doubt

Penélope Cruz í Vicky Christina Barcelona

Viola Davis í Doubt

Taraji P. Henson í The Curious Case of Benjamin Button

Marisa Tomei í The Wrestler

Ég hef ekki séð Vicky Christina Barcelona, en sá ekkert framúrskarandi við Amy Adams í Doubt eða Taraji P. Henson í Benjamin Button. Hins vegar fannst mér Marisa Tomei mjög góð í The Wrestler, og Viola Davis afar eftirminnileg í Doubt. Ég held að Viola Davis hafi búið til kröftugasta karakterinn af þeim sem ég hef séð, og vona að hún taki þetta.

Besta leikkona í aukahlutverki: Viola Davis í Doubt þar sem hún leikur móður drengs sem á sér litla von um framtíð án menntunar, en hún er tilbúin til að sætta sig við ef prestur hefur misnotað son hennar, en hún telur það meira virði að drengurinn komist áfram í lífinu en verði stoppaður vegna slíkra mála. Davis varpar upp mynd af hrikalegu ástandi og þeim fórnum sem sumir þurfa að færa til að komast áfram í lífinu.

Önnur verðlaun vona ég að fari þannig:

Besta frumsamda handrit

In Bruges er stórskemmtileg saga um tvo leigumorðingja sem fara í frí til Belgíu eftir morð sem fór ekki eftir áætlun. Með þeim tekst mikil vinátta sem fær aukið flækjustig þegar annar þeirra fær skipun um að myrða hinn.

Besta aðlagaða handrit

Doubt má vinna þessi verðlaun, sérstaklega vegna þess hversu vel er farið með viðkvæm hugtök eins og efa og fullvissu og hvernig þau spila meginhlutverk í margbrotinni sögu, sem þó hefur frekar einfalda atburðarás.

Besta teiknimyndin

Bolt fannst mér besta teiknimynd ársins. Hún var fyndin, saklaus og skemmtileg. Ég veit að ég er í minnihluta hérna og 99% öruggt að WALL-E taki verðlaunin, enda fjallar hún um miklu meira en bara vélmenni - en framtíð alls mannkyns er í húfi vegna illrar meðferðar okkar á umhverfinu.

Besta leikstjórn

Danny Boyle fyrir Slumdog Millionaire. Það er einfaldlega við hæfi þar sem það er án vafa besta myndin og fyrst og fremst Boyle að þakka.

Besta kvikmyndatakan

Hérna má The Dark Knight sigra, enda afar vel kvikmynduð mynd sem nýtir sér Chicago borg til hins ýtrasta og gerir úr henni magnaða útgáfu af Gotham borg. The Dark Knight er uppfullt af gífurlega flottum atriðum sem hrein unun er að fylgjast með.

Besta klippingin

Þarna eru þrjár framúrskarandi vel klipptar mynd: The Dark Knight, Frost / Nixon og Slumdog Millionaire. Mér finnst Slumdog Millionaire best klippt af þessum þremur, enda afar flókið ferli að taka sögu sem gerist á þremur ólíkum tímaskeiðum og við afar ólíkar aðstæður og gera úr henni heilstæða og vel skiljanlega mynd. 

Besta sviðsmyndin

The Dark Knight má taka þessi verðlaun, þó að The Curious Case of Benjamin Button hljóti að gera ansi sterkt tilkall til þessara verðlauna. 

Bestu búningar

Ég skil ekki alveg hvað Milk er að keppa um bestu búningana - mér sýnist flestir leikaranna einfaldlega hafa tekið einhver klæði út úr skápnum - þarna hefði The Dark Knight eða Iron Man vera með í keppni, en af þeim sem keppa myndi ég taka Revolutionary Road, enda stíllinn á fötunum í þeirri mynd með því flottasta sem sést á tjaldinu, og spilar stóra rullu í að sýna firringu aðalpersónanna, sem vilja ekki falla í fjöldann en gera það samt.

Besta föðrun

The Dark Knight má taka þetta fyrir snilldarförðunina á Heath Ledger, sem passaði snilldarlega við persónuna, auk Tvíféss, sem var mátulega hryllilegur. Benjamin Button fannst mér ekki nógu góð í förðunardeildinni vegna þess hversu meðvitaður maður var um að maður væri að horfa á tölvugrafík, og Hellboy II: The Golden Army - þó að hún hafi verið ógeðslega flott, þá er ekki beinlínis hægt að segja að förðunin hafi verið eitthvað frumlegri heldur en í fyrri myndinni. Þannig að Dark Knight er það heillin.

Besta kvikmyndatónlist

Ég játa að tónlistin er ekki mín sterkasta hlið, en mér finnst tónlistin úr WALL-E eftirminnilegust.

Besta lagið

Down to Earth úr WALL-E, - enda man ég ekki eftir lögunum úr Slumdog Millionaire - var of upptekinn við að fylgjast með frábærri kvikmynd.

Besta hljóð

The Dark Knight tekur þetta léttilega.

Besta hljóðblöndun

Iron Man má eiga þessi verðlaun, enda hreint frábærar hljóðbrellur sem fá mann til að trúa að maðurinn að járnmaðurinn sé um tonn að þyngd og úr efni sterkara en stáli.

Bestu tæknibrellur

Þarna hefði ég gefið Hellboy II tækifæri, en þar sem sú mynd er ekki í boði, þá er það Iron Man sem má taka þessi verðlaun, enda trúði ég að járnmaðurinn gæti flogið og tekist á við orrustuþotur í háloftunum. Tæknibrellumynd ársins. Engin spurning.

Besta erlenda myndin

Ég hef ekki séð neina þeirra, en vona samt að Entre les murs taki þetta, enda víst afar frumleg kvikmynd um samband nemenda og kennara, og þar sem ég er kennari að mennt er ég svolítið veikur fyrir slíkum kvikmyndum.

Besta heimildamyndin

Ég hef aðeins séð eina þeirra sem tilnefnd eru, Man on Wire, sem vissulega er góð, en ef það er einhver sem ég hefði sérstaklega áhuga á að sjá er það Encounters at the End of the World þar sem Werner Herzog fylgist með vísindamönnum og lífinu á Antartíku.

Besta stutta heimildamyndin

Ég veit ekki nóg um neina af þessum til að kveða upp dóm, þannig að: ugla sat á kvisti, átti börn og missti, einn tveir þrír og það varst þú: The Conscience of Nhem En.

Besta stutta teiknimyndin

Presto er náttúrulega frábær. Ég hef ekki séð aðrar.

Besta stuttmyndin

Spielzeugland held ég að taki þetta einfaldlega vegna þess að hún er um þýskan dreng í seinni heimstyrjöldinni sem heldur að allir gyðingarnir sé á leið til Leikfangalands. Seinni heimstyrjöldin er yfirleitt sigursæl í þessum flokki.


Milk (2008) **1/2

milkposter

Milk er því miður meiri formúlumynd en það frumlega stórvirki sem hefur verið talað upp síðustu vikurnar fyrir Óskarsverðlaunahátíðina. Mikið hefur verið rætt um snilld Sean Penn, en fyrir þá sem hafa séð I Am Sam (2001) þar sem hann leikur hinn þroskahefta Sam í baráttu um forræði yfir dóttur sinni, og All The King's Men (2006) þar sem hann leikur pólitíkusinn Willie Stark, þá erum við í raun ekki að sjá neitt nýtt, heldur í raun blöndu af þessum tveimur hlutverkum, þar sem að Harvey hefur hægan málróm Sam og pólitíska útgeislun Willie Stark.

Samkynhneigðir í Milk hafa flestir frekar hægan talandi og annarlegt látbragð, sem er einfaldlega klisjukennd staðalímynd af samkynhneigðu fólki. Ég á bágt með að trúa því að kynhneigð fólks spili svona stóra rullu í látbragði þess. En kannski hef ég rangt fyrir mér.

Harvey Milk (Sean Penn) hefur verið lokaður í skáp eigin kynhneigðar áratugum saman og ákveður loks að sprengja sig út úr skápnum með því að berjast fyrir því að rödd samkynhneigðra fái að heyrast í bandarísku samfélagi. Hann velur að flytja til San Francisco ásamt elskhuga sínum Scott Smith (James Franco) þar sem að umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum á að vera meira en annars staðar, en þó ekki nógu mikið til að þessi ákveðni hópur fólks geti gengið óáreitt um götur borgarinnar.

milk01

Sagt er frá hvernig Harvey Milk með mikilli þrautseigju og persónulegum fórnum fær fyrstu kosningu í sögu Bandaríkjanna sem samkynhneigður einstaklingur, og þau djúpstæðu áhrif sem hann hefur á samfélagið í kringum sig, og þá einkum á hans helsta samstarfsfélaga Dan White (Josh Brolin) sem Milk telur vera einn af þeim, mann með bældar kynhneigðir.

Það má segja að Milk sé blanda af þemum sem birst hafa áður í myndum eins og American Beauty, Brokeback Mountain og Malcolm X. Allar þessar myndir eiga það sameiginlegt að þær fjalla á opinskáan hátt um viðkvæm baráttumál minnihlutahópa.

Málið er að Milk er miklu meira mynd um málefni heldur en snilldar kvikmyndagerð, það er einfaldlega vitað að viðurkenning á samkynhneigð er eitt af vinsælustu baráttumálunum í Hollywood þessa dagana og það er einkum þess vegna sem myndin nýtur svo mikils umtals og slíkrar athygli.

milk02

Ég verð að játa, að þó að mér hafi ekki þótt The Dark Knight besta mynd allra tíma, þá finnst mér hún eiga meira erindi á Óskarsverðlaunahátíð en Milk. En svona er sýndarheimur Hollywood. Þetta snýst um vinsældir og pólitík, rétt eins og Eurovision.

Milk er þrátt fyrir lengd sína ekki beinlínis leiðinleg eða langdregin. Mér fannst hún bara ekkert spes. Ævisögur og ádeiluefni hafa hins vegar alltaf þótt efnilegt verðlaunafóður. Spurning hvort að svo verði á ár.


Doubt (2008) ***1/2

doubtposter

Doubt er vel skrifað drama byggt á samnefndu leikriti eftir John Patrick Shanley, sem einnig skrifar handrit og leikstýrir verkinu.

Árið er 1964, staðurinn kaþólskur skóli í Bronx hverfi New York borgar. Systir Aloysius Beauvier (Meryl Streep) er af gamla skólanum. Hún krefst skilyrðislegrar hlýðni nemenda og er ströng sem járnhamar. Sé eitthvað úr lagi hjá einhverjum nemanda hellir hún sér yfir viðkomandi með ógnarkrafti. Hún gerir skýran greinarmun á prestum og nunnum, og vill sem minnst samskipti hafa við prestana.

Faðir Brendan Flynn (Philip Seymour Hoffman) hefur áhuga á að bjóða nýja tíma velkomna í hina fornu stofnun, og vill að andrúmsloftið sé fullt af kærleik og hlýju. Systur Aloysius líst ekkert alltof vel á þetta, þar sem að hennar reynsla hefur sýnt að strangur agi í upphafi leiði til betri árangurs en að byrja með hlýju og sveiganleika, þar sem að slíkt gefur aðeins færi á misnotkun aðstæðna, sem sumir grípa. Þannig að systir Aloysius er fyrirfram afar tortryggin út í föður Flynn og þær hugmyndir sem hann stendur fyrir.

doubt01

Systir James (Amy Adams) er nýr kennari við skólann, afar græn á bakvið eyrun. Hún vill gera allt sem hún hugsanlega getur til að vera systur Aloysius þóknanleg, og þegar hún verður var við óvenjulega hegðun eins drengs í skólastofunni, og tengir þessa hegðun við föður Flynn, og gerir þau mistök að segja systur Aloysius frá grunsemdum sínum, sem eru annars ekkert meira en sakleysislegar grunsemdir, - stekkur systir Aloysius á þær eins og heilagan sannleik og leggur sig eftir því að koma föður Flynn frá störfum fyrir að hafa misnotað drenginn.

Hvort að faðir Flynn sé sekur eða saklaus skiptir engu máli, því að trúin á sekt hans er svo sterk að hún verður að veruleika, svona rétt eins og trúarbrögðin sjálf. Móðir drengsins , Mrs. Miller (Viola Davis) á áhrifaríkt viðtal við systur Aloysius, sem gefur sterklega í skyn að faðir Flynn hafi aðeins sýnt kærleik í anda Krists, og ekkert meira - en það virðist samt vera of mikið af því góða fyrir suma.

Leikur þeirra Streep og Hoffman er framúrskarandi eins og við má búast af þeim tveimur, og aðrir leikarar halda vel í við þau. Handritið er afar vel skrifað, en ef einhver galli er á myndinni, þá er hann kannski helst sá að mér fannst leikararnir vera búnir að æfa sig alltof vel fyrir hlutverkin, þannig að ég hafði á tilfinningunni að ég væri að horfa á leikverk á sviði, frekar en kvikmynd. Sumum gæti þó þótt það kostur.

doubt02

Sem fyrrverandi kennari við kaþólska skóla, get ég vottað fyrir að þemun sem tengjast agamálum og því hvernig er að vera kennari í framandi umhverfi hljóma ansi kunnuglega.

Óhætt að mæla með kvikmynd sem vekur upp pælingar um staðsetningu efa og trúar í skoðanamyndum þegar eina rétta leiðin að sannleikanum er með sönnunargögnum og gagnrýnni hugsun. Afar áhugaverðar pælingar sem vakna við þessa kvikmynd. Nokkrar spurningar:

  1. Er slæmt að efast um eigin trú?
  2. Á efinn sér eitthvað rúm í trúarbrögðum?
  3. Hvaða upplýsingar þarf til að gera skoðun að trú?
  4. Hvaða upplýsingar þarf til að gera trú að þekkingu?
  5. Felst kærleikur í ströngum aga?
  6. Felst kærleikur í hlýju og umburðarlyndi?
  7. Hvort er betra fyrir nemendur: strangur agi eða hlýja?
  8. Er fullvissa alltaf sjálfsblekking?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband