Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eru bankar að reikna verðtryggð lán ólöglega?

Áhugavert viðtal á Bylgunni í morgun við formann Hagsmunasamtaka Heimilanna, Andreu Jóhönnu Ólafsdóttur, þar sem hún fullyrðir að reikningsaðferðir banka á verðtryggðum lánum standist ekki lög.

Hlustaðu með því að smella hér.


Hefur þú viðurkennt ósigur þinn gagnvart stjórnmálakerfinu?

Þessa dagana heyrist lítið annað en hvað allt gengur ljómandi vel á Íslandi. Þessi fögnuður hljómar svolítið grunsamlega, rétt eins og þegar allt var í ljómandi lukku rétt fyrir búsáhaldabyltinguna. Þá var verið að mæla fyrir að áfengi yrði flutt í verslanir, en í dag fyrir að sígarettur fari í apótekin. Þessir blessuðu stjórnmálamenn á þingi virðast algjörlega búnir að tapa áttum. Þeim má þó hrósa fyrir súrrealískt ímyndunarafl.

Af hverju var kerfinu ekki bylt eftir "byltinguna"? Það eina sem gerðist var að nýir tækifærissinnar tóku við ónýtu kefli og tóku á rás - í þetta sinn innrás frekar en útrás. Það þarf að taka til. Ekki með því að moka drasli út úr húsi og svo aftur inn. Það þarf að rífa niður kofann og byggja nýjan.

Alþingiskosningar eru brandari í dag. Hafa verið það frá því ég man eftir mér. Hinn almenni þegn hefur ekkert raunverulegt vald. Valið stendur um flokka. Fólk í þessum flokkum gefur fögur loforð. Þessi flokkur er kosinn. Til að ná völdum þarf flokkurinn að fórna einhverjum loforðum sínum, þannig að eftir stendur flokkur sem fólk hefði aldrei kosið. Varla er ég sá eini sem sér þetta sem sturlun?

Stjórnmálastéttin er með allt á hælunum. Jafnvel stjórnmálaþingið varð að stjórnmálaráði, fyrirbæri sem þing getur feykt á brott með einu pennastriki. Fólk  hefur sest í valdastóla sem einungis komst í þá vegna loforða um að slökkva elda og taka til, en hefur þess í stað bætt olíu á eldinn og rústað því sem eftir stóð. Eftir stendur uppgefið fólk í rjúkandi rústum.

Gjáin á milli lánþega og eigenda hefur breikkað með stuðningi ríkisstjórnar við fjármagnseigendur, endursölu á bönkum og þögulli leynigreiðslu til kröfuhafa sem þjóðin hefði þurft að samþykkja. Þjóðin vaknaði þegar ICESAVE málið kom fram, en nú hefur annað sambærilegt mál komið fram, og ríkisstjórn bæði búin að borga og samþykkja án þess að nokkur hafi fengið tækifæri til að benda á að íslensk heimili áttu þennan pening og honum fleygt úr landi í stað þess að mæta þörfum þeirra sem eru læstir inni í brennandi heimilum sínum.

Þeir sem á þingi sitja eiga það flestir sameiginlegt að vera fjármagnseigendur og þau kalla lánþega enn hinu niðrandi heiti "skuldara". Hringir það engum viðvaranabjöllum að heil stofnun var stofnuð með þessu níðingsnafni?

Lánþeginn hefur tekið á sig alla ábyrgð á forsendubrestum, og sumir leyst út allan séreignarsparnað til að sjá fyrir sér og sínum - og stjórnmálastéttin ber sér á brjóst og hreykir sér hátt af sýndarleiknum sem hún hefur staðið fyrir. Á meðan hefur fjármagnseigandinn tekið eitthvað á sig, en í engum líkindum við það sem hrunið hefur yfir lánþega.

Sér enginn að búsáhaldabyltingin misheppnaðist? Sér enginn að það var bara skipt um skaft á skóflu, í stað þess að skipta um skóflu?

Er engin leið út úr þessu sviksamlega og spillta kerfi sem ræður öllu á Íslandi í dag?

 

 

 

 

Ég vil benda á að Facebook síðuna: Stopp!! Hingað og ekki lengra, fyrir fólk sem vill láta í sér heyra og stoppa þann ófögnuð sem er í gangi, miðvikudaginn 8. júní kl. 16:00-23:00.


Ný hugmynd um framkvæmd kosninga: 10 inn, 10 út

Hvaða skoðun þú hefur á þessari hugmynd um lausn á spillingarvandamálinu? Ef þér finnst hugmyndin góð, ræddu hana við félaga þína og skrifaðu í athugasemdakerfið. Með þessu fyrirkomulagi fengju þingmenn á sig pressu til að standa sig vel og vinna af heilindum. Þá gætu einstaklingar með vafasama fortíð síður laumað sér inn á þing með því að spila á kosningakerfið. 

Mig langar að vekja athygli og varpa fram til umræðu þessari hugmynd sem Einar Sólheim sendi í athugasemdakerfið við greinina Hefur meirihlutinn alltaf rétt fyrir sér?

Hann skrifar:

Kannski við ættum að fá að kjósa fólk bæði á og af þingi í beinni kosningu. Jack Welch sagðist alltaf losa sig við 10% starfsmanna á ári hverju. Þannig náði hann stöðugt að hækka meðlahæfni hjá GE. Við gætum t.d. árlega kosið á þing 10 nýja einstaklinga, en á sama tíma kjósa burtu þá 10 sem við vildum losna við. Þannig gætu t.d. ekki setið á þingi einstaklingar sem hefðu 30% stuðning ef 70% væru á móti þeim.

Vekjum athygli á þessari góðu hugmynd.


Hefur meirihlutinn alltaf rétt fyrir sér?

animal1

Á Íslandi ríkir meirihlutalýðræði. Meirihlutinn ræður. Það virðist engu skipta hvort meirihlutinn hafi rétt eða rangt fyrir sér. Það eitt að hann ræður, gerir ákvörðun hans rétta. Þetta er afskræming á lýðræðinu. Lýðræði snýst ekki um það að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér, heldur að meirihlutinn stjórni umræðunum og komist að því hvað er rétt og hvað rangt á hverri stundu.

Mér hefur sýnst íslenska ríkisstjórnin, bæði núverandi sem og þær fyrri, hafi snúið lýðræðishugtakinu upp í þann misskilning að meirihlutinn ráði, og að þeir sem stjórna meirihlutanum, ráði þar af leiðandi ennþá meiru. Og mig grunar að samfélagið allt sé sýkt af þessari ranghugmynd og að erfitt verði að brjóta hana á bak aftur. 

Ranglátt fólk setur lög yfir samlanda sína. Ranglátt fólk fer með völd eins og leikföng.

Ísland í dag virðist orðið að orvelsku ríki, bæði í anda Animal Farm og 1984, þar sem frelsi þykir hættulegt, sérstaklega nýtt frelsi, og best að koma á höftum til að fólk fari ekki fram úr sjálfu sér. Valdhafar gera allt sem þeir geta til að halda völdum, myndu ekki hika við að heilaþvo lýðinn væri það mögulegt, væru tilbúnir að fórna duglegasta vinnuhestinum til þess eins að narta í kjöt hans.

Ég er viss um að kreppan á Íslandi sé að dýpka. Það þykist ég sjá á þingsfrumvörpum um ritstýringu á fjölmiðlum, skömmtun á gjaldeyri, hörðum vörnum fyrir fjármálafyrirtækin,  og þeirri einföldu hugmynd að ein lausn sé á öllum vandamálum - að ganga í Evrópusambandið. Það þykist ég sjá á því að smáþjófum er refsað af hörku en þeir sem hafa rústað lífi fjölskyldna fá stjörnu í kladdann.

Ákveði meirihluti Íslendinga að ganga í ESB, þýðir það ekki að það sé rétt ákvörðun. Það að meirihluti Íslendinga kaus gegn Icesave III samkomulaginu, þýðir ekki að það hafi verið rétt ákvörðun (þó að ég trúi því). Það að meirihluti Íslendinga hafi kosið VG og Samfylkingu til stjórnunar á landinu, þýðir ekki að það hafi verið rétt ákvörðun (nokkuð augljóst - hins vegar var enginn góður kostur í stöðunni), og þó að þjóðin kjósi Ólaf Ragnar aftur sem forseta, þýðir það ekki að það sé rétt ákvörðun, þó að ég telji hann réttan mann á réttum stað, umkringdan fjandmönnum.

Ég vil sjá fólk í brúnni sem hefur engu að leyna. Fólk sem hægt er að treysta. Fólk sem hefur ekki eina einustu beinagrind í skápnum. Fólk með hreinan skjöld. Fólk sem hefur ekki komist áfram með því að svíkja annað fólk og svindla á kerfinu.

Meirihlutalýðræði ætti að snúast um að færa ákvörðunarvald í hendur fólki sem er treystandi. Þegar í ljós kemur að þessu fólki er ekki treystandi, ætti að vera hægt að svipta það völdum, og ef í ljós kemur að lýðræðiskerfið sjálft kaffærir gott fólk og spillir því þannig að úr góðu fólki verður vont, þá þarf að vera hægt að umturna slíku kerfi, í stað þess að fylgja því eftir eins og lamb forystusauði fram af bjargbrún.


Ólík viðhorf: Landflótta lánþegi og aðstoðarmaður forsætisráðherra

Facebook_863982i

Við Hrannar B. Arnarsson áttum í samskiptum á Facebook sem endaði með að ég var sakaður um að bulla og leita mér ekki upplýsinga. Mér er afar annt um sannleikann og þætti miður ef ég sjálfur uppfyllti ekki þær kröfur sem ég geri til sjálfs mín, um að leita mér stöðugt upplýsinga til að mynda skoðanir reistar á traustum rökum, og segja satt og rétt frá þessum skoðunum. Og í fullri hógværð vona ég að þessar skoðanir reynist það traustar að hægt verði að kalla þær þekkingu sem er sterkari en straumar og stefnur líðandi stundar.

Skoðanir Hrannar B. Arnarsson hljóta að enduróma þær skoðanir sem líðast í forsætisráðuneytinu. Ég er hins vegar landflótta lánþegi. Ég sá ekki fram á að geta haft fyrir mér og minni fjölskyldu á Íslandi, og flutti úr landi til að vinna mér inn fyrir stökkbreyttum húsnæðisskulum og bílalánum á Íslandi, nokkuð sem ég sé ekki eftir, sérstaklega eftir að hafa upplifað samræðu eins og þessa.

Ég hef ekki hugmynd um hversu margir Íslendingar hafa flutt af landi brott eða íhuga það, en reikna með að fyrri talan sé í þúsundum og síðari talan í tugum þúsunda.

Það er ekkert léttmeti að flytja frá einu landi til annars. Í mínu tilfelli var ákvörðunin auðveld þó að framkvæmdin hafi verið og sé enn í dag erfið. Ég sá ranglætið sem var í gangi og vildi ekki að börn mín þyrftu að búa við slíka samfélagsgerð í framtíðinni, þar sem gífurlegar greiðslur til stjórnmálamanna þykja eðliðlegar, þar sem stjórnmálamenn og útrásarvíkingar taka saman höndum og ryksuga allan auð þjóðarinnar og reyna að komast upp með það, og gera það hugsanlega, þar sem eigendur banka eignast banka með því að taka lán í öðrum bönkum, og lána eigendum hinna bankanna til að eignast þá. Ég vil ekki lifa í svona samfélagi og spurningin var einföld: átti ég að berjast fyrir að breyta Íslandi í betra samfélag eða flytja úr landi?

Hugsanlega átti ég auðvelt með að taka þessa ákvörðun þar sem ég hef búið erlendis áður. Sem unglingur bjó ég eitt sumar í Noregi, vann við að skúra á spítala í Bærum 16 ára gamall. Gerði það til að kaupa mér Commodore Amiga 2000 tölvu, sem tókst. 

Nokkrum árum síðar fór ég í M.Ed. nám til Bandaríkjanna og kynntist bandarískri menningu innanfrá. 

Enn síðar flutti ég til Mexíkó og kynntist öðru lífi og menningu þar. 

Eftir að hafa flutt heim til Íslands 2004 gerði ég þau mistök að kaupa mér íbúð á 100% láni. Mistök sem ég sé eftir enn í dag. Ég á mér enga ósk heitari en að losna við þessa íbúð og lánið sem á henni hvílir. 110% leiðin virkar ekki til þess, vegna þess að ég hef staðið í skilum og staðið undir ábyrgð. Ísland er undarlegur heimur.

Fjölskyldan ákváð saman að flytja úr landi. Forsendur fyrir að búa á Íslandi höfðu brostið.

Árin erlendis hafa ekki verið auðveld. Það er ekki auðvelt að finna samanstað fyrir fjögurra manna fjölskyldu í nýju landi, eða finna gott starf og skóla sem henta börnunum. Það er í mörg horn að líta. Ég sé fram á að lífið komist fyrst í nokkuð eðlilegt horf næsta haust, um tveimur og hálfu ári eftir brottflutning frá Íslandi.

Því finnst mér svo merkilegt þegar ég sé lítið gert úr flutning fólks frá Íslandi, eins og það sé bara einhver þægileg lausn. Það er ekki þannig. Þetta er góð leið fyrir þá sem sætta sig ekki við að lifa við stöðugan ójöfnuð og spillingu, nokkuð sem hefur því miður virðist vera haldið áfram af nýjustu ríkisstjórn Samfylkingar og VG, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að hreinsa til. Gífurlegum fjármunum hefur verið varið í að verja fjármálastofnanir, sem miskunnarlausar hafa aleiguna af varnarlausu fólki.

Það allra sárasta finnst mér loforðin um skjaldborg yfir heimilin og að banna verðtryggingu, en bæði Samfylking og VG gjömmuðu hátt um bæði fyrirbærin fyrir síðustu kosningar og reyndar stanslaust í mörg ár áður en til byltingar kom, og þegar kemur að deginum þegar tækifærið gefst til að standa við gefin loforð og áætlanir, snúa báðir flokkarnir baki í þjóðina og yppta öxlum. Þeim er sama um fólkið. Þannig er það bara.

hrannarbjorn.jpg

3. maí 2011, kl. 16:33
Hrannar Björn Arnarsson skrifar:

Skjaldborg í orði og á borði - gjaldþrotum fækkar þrátt fyrir eitt mesta efnahagshruni síðari tíma - vitið þér enn eða hvað ?

"Samkvæmt opinberum tölum um fjölda gjaldþrota einstaklinga hefur engin aukning orðið á slíkum gjaldþrotum eftir bankahrunið. Þvert á móti hefur slíkum gjaldþrotum fækkað ef eitthvað og eru í lágmarki miðað við tölur frá aldamótum."

Nokkrir einstaklingar birtu skilaboð um að þetta væri frekar villandi. Ein spurning frá Frímanni S. var þannig kl. 16:36:

„Hvað eru margir gjaldþrota sem eru með frest vegna greiðsluaðlögunar og annarra úrræða.?"

Og önnur athugsemd frá Gunnhildi Ö. kl. 16:49:

Æil hvurslags er þetta eiginlega Hrannar, við erum ekki asnar þó við virðumst kannski stundum vera það. Hvað eru margir með frystingar sem nú eru að renna sitt skeið, hvað eru margir með umsóknir inni hjá Umboðsmanni skuldara og því í raun greiðsluþrota? En það er gott að þú ert svona ánægður með gang mála á Íslandi, það er þá einhver sem gleðst yfir ástandinu. Er ég þó sannfærð um að það eru ekki þeir sem berjast við að eiga fyrir salti í grautinn og standa fyrir utan hjáparstofnanir í hverri viku. Mig langar að segja við þig: Skammastu þín, en þar sem ég er vel upp alin geri ég það ekki.

Hugmyndaheimurinn sem birtist í athugasemdum nafna míns þykir mér skelfilegur, en hann svarar kl. 16:53:

Þetta er allt satt og rétt hjá ykkur - fullt af fólki sem berst í bökkum, fullt af fólki sem er með frystingar og skjól af allskyns úrræðum og flestir Íslendingar hafa það mun verr en fyrir hrun. Þessu neitar enginn. Tölurnar tala hinsvegar sínu máli um að stjórnvöldum hefur tekist að forða fjölda gjaldþrotum og því að fólk missi heimili sín umvörpum eins og allt stefndi í. Því er væntanlega óþarfi að afneita - eða hvað ?

Ég vil taka fram að þessu neita ég í svari sem kemur síðar. „Þessu neitar enginn" er staðhæfing sem stenst ekki þar sem ég neita henni, og tel nokkuð öruggt að ég er ekki enginn. Þessu neita ég.

Árni H. Svarar kl. 17:04:

Þessi framsetning er villandi Hrannar. Gjaldþrot eru ekki fleiri vegna þess að það kostar kröfuhafa að setja fólk í gjaldþrot og í flestum tilfellum er ekki eftir neinu að slægjast, allar eignir yfirveðsettar og kröfuhafar græða lítið á því að setja fólk í þrot. Það hafa hins vegar margir misst heimili sín á nauðungarsölum þegar veðhafar leysa til sín eignirnar.

Hrannar Björn svarar kl. 17:20:

Sömu rök áttu við um gjaldþrot einstaklinga fyrir hrun Árni, enda fátítt að einstaklingar séu séttir í þrot, nema búið sé að ganga að öllum fasteignum áður. Hitt er rétt að fjöldi fólks hefur misst fasteignir í kjölfar hrunsins, þó þar hafi menn hingað til getað verið í skjóli vegna úrræða stjórnvalda - margir hafa hinsvegar kosið að nýta það skjól ekki enda felst ekki í því lausn, heldur aðeins skjól til að leita lausna.

Þarna kemur skýrt fram að skjaldborg ríkisstjórnar fyrir heimili hafi aðeins verið „skjól til að leita lausna" en markmiðið ekki verið að hjálpa fólki til að leysa sín mál eftir allt ranglætið sem hefur hrunið yfir heimilin frá og fyrir hrun. Þetta er þvert á það sem flokkar lofuðu fyrir Hrun, en í raun er þetta ekkert annað en það sem gagnrýnendur hafa verið að segja: úrræði ríkisstjórnarinnar hafa verið að lengja í hengingarólinni. Þetta hefur Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra staðfest. Mér finnst þetta mikil frétt.

Gunnhildur Ö kveikir greinilega á þessu og svarar Hrannari kl. 17:26:

Hvaða tölur eru það Hrannar sem sýna að fólki hafi verið forðað frá gjalþrotum. Hvað hafa t.d. mörg greiðsluaðlögunarmál komist á? Við vitum öll að það hafa fjölmargir fengið gálgafrest með frystingum og að fjölmörg mál liggja inni hjá Umboðsmanni skuldara sem ekki hafa fengið afgleiðslu. Þegar niðurstað þeirra mála allra liggur fyrir getum við farið að tala um tölur/staðreyndir. Mér verður mjög misboðið þegar svona fáránlegum fréttaflutningi er skellt í andlit okkar sem vitum á eigin skinni hvernig skaldborgin virkar.

Eftir að hafa séð þessi samskipti skrifar Don Hrannar de Breiðholt, rétt áður en hann ekur af stað til vinnu 4.5.2011 kl. 7:43:

 

‎"Tölurnar tala hinsvegar sínu máli um að stjórnvöldum hefur tekist að forða fjölda gjaldþrotum og því að fólk missi heimili sín umvörpum eins og allt stefndi í. Því er væntanlega óþarfi að afneita - eða hvað ?"

Það eru ekki stjórnvöld sem hafa forðað fólki frá gjaldþrotum, heldur er það fólkið sjálft sem hefur gert það, með samhjálp og með því að flytja úr landi. Hvert sem ég fer og sama á hvern ég hlusta, nema þig, þá er fólk afar hneykslað á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

Kannski hefurðu sjálfur það bara of gott til að líta niður úr fílabeinsturninum? Ekki veit ég það.

Síðan bætti ég við 4 mínútum síðar:

Það er ein ástæð fyrir því að ég varð ekki gjaldþrota: þar sem lögin um gjaldþrot jafnast á við lífstíðarfangelsi ákvað ég frekar að flytja úr landi með fjölskyldu mína en sitja í skuldafangelsi með mín börn alla ævi. Að minnsta kosti er von til að komast af erlendis. Ekki misskilja mig, Ísland er land sem ég elska, en stjórnendur þessa lands hafa algjörlega klúðrað því að fólk sem keypti sér húsnæði á síðasta áratug geti komist þar af. Þá er ég bæði að tala um núverandi ríkisstjórn og þær fyrri. Ekkert hefur breyst.

Þarna er ég að sjálfsögðu að tala um gjaldþrotalögin eins og þau voru þegar ég flutti af landi snemma árs 2009. Ég kannast við breytingar á lögunum desember 2010, þar sem bætt var inn ákvæði um að kröfuhafar gætu aðeins framlengt kröfur sínar fyrir dómstólum, og þeir gætu gert það á tveggja ára fresti. Þessa breytingu tel ég ekki vera marktæka fyrr en í ljós hefur komið að gjaldþrota manneskja verður ekki hundelt af kröfuhöfum ævina út. Einnig tel ég það í sjálfu sér ömurlegt hlutskipti fyrir nokkra manneskju að verða gjaldþrota, og sérstaklega ef það er ekki hennar sök, ef hún hefur ekki lifað um efni fram og hefur aðeins verið saknæm um að taka sér húsnæðislán - eins og það sé glæpur. Í það minnsta sýnist mér refsað harðar á Íslandi fyrir að taka stökkbreytt húsnæðislán heldur en líkamsárásir, nauðganir og jafnvel morð.

Hrannar Björn svarar kl. 11:57:

Eithvað hefur þú kynnt þér gjaldþrotalögin ílla nafni, rétt eins og þau úrræði sem skuldurum bjóðast, ef þú telur að í þeim felist ekki aðrar lausnir en "lífstiðarfangelsi". Það er beinlínis fráleit fullyrðing og ekki í neinu samhengi við raunveruleikann. Eins stenst það ekki skoðun að menn geti flúið gjaldþrot með því að flýja land, en það er önnur saga. Skuldir hverfa ekki við það að yfirgefa landið. Annars finnst mér þú tala um þessi mál af svo yfirgripsmikilli fáfræði Hrannar, að það er mér eiginlega áfall - þú virðist hvorki kynna þér mál, né taka mark á þeim ábendingum sem þú færð um allar þær rangfærslur sem þú ferð með. Ég sé því satt best að segja lítinn tilgang í að ræða þessi mál við þig öllu frekar. Þú virðist fastur í einhverjum tilbúnum veruleika sem engu fær breytt og þannig verður það bara að vera. Gangi þér annars allt í haginn.

Þarna gefur Hrannar Björn sér að ég hafi kynnt mér gjaldþrotalögin illa. Ég hef lesið þau. Bæði þau sem voru í gangi fyrir breytinguna í desember 2010 og eftir breytinguna. Ég hef skoðað hvaða áhrif gjaldþrot hefur haft á manneskjur og séð að fólk hefur verið hundelt alla ævi af kröfuhöfum, og að kröfurnar eru einfaldlega endurnýjaðar með reglulegu millibili. Ég hef rætt við lögfræðing um þetta. Hans mat var að breytingin á lögunum breyttu í raun engu, aðeins því að kröfurnar yrðu endurnýjaðar með styttra millibili.  Ef þetta er merki um að hafa kynnt mér gjaldþrotalögin illa, þá hef ég gert það, og óska eftir að mér verði bent á nákvæmlega hvað ég hef gert vitlaust.

Einnig bendir Hrannar Björn mér á að ég hafi kynnt mér úrræði skuldara illa. Í fyrsta lagi, þá líkar mér illa við að kalla lánþega „skuldara". Í öðru lagi hef ég lagt á mig töluverða vinnu til að kynna mér þessi úrræði. Áður en ég tók ákvörðun um að flytja úr landi, kynnti ég mér þessi úrræði rækilega. Ég gekk meira að segja í Hagsmunasamtök heimilanna og hjálpaði samtökunum að safna upplýsingum, ræddi við samtökin á fundum og var sá aðili sem benti á að bæði gjaldeyrislán og verðtryggð lán væru í raun ólögleg vegna forsendubrests. Síðan þetta gerðist hefur bróður mínum tekist að sanna ólögmæti gjaldeyrislána í réttarsal, sem þýtt hefur að fjármálafyrirtækin hafa þurft að endurgreiða töluverðar upphæðir.

Nú tel ég rétt að beina athyglinni að verðtryggðum lánum, en forsendur þeirra hafa einnig brugðist, þó ástæðurnar séu aðrar. Ég hef stöðugt kynnt mér úrræði „lánþega" og verið ósáttur við t.d. 110% leiðina, en ég geri skýra grein fyrir henni í þessari færslu sem ég skrifaði 20.4.2011:

"Þeim var eg verst er eg unni mest" og Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag?

Þannig að ég hef leitað mér upplýsinga um þessi mál, en Hrannari Birni Arnarssyni finnst mér ég hafa leitað þessara upplýsinga illa, og þætti mér vænt um að vita hvað er rangt í mínum málflutningi. Það er slegið undir beltisstað með að ásaka viðmælandann um þekkingarleysi og gera ekkert til að leiðrétta þetta mögulega þekkingarleysi, þetta er þekkt úrræði mælskulistarmanna notað til að drepa málefnislega umræðu.

Þessu svara ég kl. 19:21 (að loknum löngum vinnudegi):

Í fyrsta lagi, þá hef ég skoðað gjaldþrotalögin nýju þar sem kröfuhafar geta aðeins samkvæmt dómsúrskorði fengið kröfur sínar endurnýjaðar. Nú hefur engin reynsla komið á þessi lög, þannig að það er 50-50 hvort þessi endurnýjun verði áfram jafn auðveld fyrir kröfuhafa og áður. Ég vildi ekki verða gjaldþrota og flutti úr landi, ekki til að láta skuldir hverfa, heldur til að geta borgað mínar skuldir með launum erlendis frá.

Skemmtilega orðað hjá þér að þér finnst ég fastur í einhverjum tilbúnum veruleika. Það finnst mér líka. Hins vegar hef ég mikla trú á að þessum veruleika sé hægt að breyta til hins betra sé vilji og dugnaður fyrir hendi.

Gangi þér sömuleiðis allt í haginn.

Samhliða þessu áttum við í orðasennu á öðrum þræði Hrannars B. Arnarssonar, þar sem hann sýnir frá tölfræðilegu sjónarhorni að allt er í allrabesta lagi á Íslandi. Þeir sem þekkja eitthvað til tölfræði kannast við hversu auðvelt er að túlka hvaða hugsanlegar tölur sér í hag, sé til þess vilji. Það finnst mér ósiðlegt háttarlag.

Þannig hófst hin samræðan með skilaboðum frá Hrannari Birni, 2.5.2011:

‎"Ólíkt því sem margir vilja vera að láta í umræðu, og stundum af öðrum ástæðum en sannleiksást, þá fer skulda- og gjaldeyrisstaðan hratt batnandi. Það þýðir að vonandi verða tækifæri til að hefja afléttingu hafta fyrr en síðar, og að það er engin ástæða til að ætla að krónan veikist ef svo heldur áfram sem horfir."

Mér sýnist Hrannar Björn fullyrða hér að krónan sé sterk. Verðbólgan er lítil. Fyrir kosningar lofuðu Samfylking og VG að banna verðtrygginguna. Nú er tækifæri til þess. Og takið eftir hvernig nafni minn fer í hring í þessari samræðu. Fyrst segir hann að krónan sé sterk og síðar heldur hann því fram að krónan sé ekki nógu sterk til að hægt sé að klippa verðtrygginguna úr sambandi.

4.4.2011 skrifaði ég grein um þetta mál: Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?

Undirritaður skrifar kl. 16:20:

Svo ég leyfi mér að tala eins og rispuð plata: Hvað um aftengingu verðtryggingar?

Svarið frá Hrannari Birni kl. 16:59 kom mér á óvart, enda hefur þarna greinilega orðið algjör viðsnúningur á stefnu Samfylkingar og VG, og þar að auki finnst mér hugsunin svo grunn, skammsýn og innantóm að mér hreinlega blöskrar:

Myndir þú frekar velja lán með breytilegum vöxtum ? Ég þakka mínu sæla fyrir 4,15% vexti + verðtryggingu, en lægri vexti efast ég um að hægt verði að gefa í íslenskum krónum - sú hefur amk ekki verið raunin undanfarna áratugi... Aftenging verðtryggingar eða bann við henni leysir engan vanda - fjármagnið mun alltaf þurfa að innibera vexti sem dekka áhættuna

Ég get svarað nú að ég tel málið ekki það einfalt að einungis ein lausn sé möguleg: annað hvort að viðhalda verðtryggingu eða hafa lán með breytilegum vöxtum. Mögulegar lausnir þarf að kanna og útlista. Það eru hundruðir mögulegra lausna. Ekki bara ein. Mér hafði ekki dottið í hug að aðstoðarmaður forsætisráðherra gæti verið svona skammsýnn.

Þess vegna svara ég kl. 18:03:

Hrannar Björn: Ertu að grínast eða ertu blindur? Verðtryggingin er búin að éta upp eignir fólks í heimilum þeirra. Nú þegar verðbólgan er lág gefst einmitt tækifæri til að klippa á hana. Mundu að þegar verðtrygging var fyrst sett á, þá var hún einnig sett á laun. Nú þegar verðtryggð laun og verðtryggð lán fylgjast ekki að, skapar það gríðarlegt ójafnvægi. Ég er, í mestu vinsemd, hneykslaður í skammsýni þinni.

Í stað þess að átta sig á að kannski sé hægt að hugsa þetta í víðara samhengi, ákveður Hrannar Björn að festa sig við að einungis ein önnur leið sé til en verðtrygging. Þessu svarar hann kl. 19:03

Berðu saman vexti af óverðtryggðum lánum og verðtryggðum Hrannar - farðu eins langt aftur og þú vilt en ræðum um kosti og galla verðtryggingar þegar þú hefur rannsakað þróun þessarar grunnforsendu rökræðunnar sem þú fitjar hér uppá. Til langs tíma kemur verðtryggingin nefnilega betur út. Verðtrygging étur ekki upp neinar eignir, ekki frekar en hún bjó þær til þegar hún hélt hvorki í við þróun launa eða fasteignaverðs. Verðtrygging er hlutlaus mælikvarði á þróun verðlags, sem ver lánveitendur og lántaka fyrir áhættu af verðbólgu. Hvað heldur þú að margir hefðu farið á hausinn eða misst eignir sínar ef þeir hefðu haft breytilega vexti á lánum sínum í stað verðtryggða, þegar vextir lágu í kringum 20% - Ég hefði amk ekki ráðið við slika vexti á 25 milljóna láni - bara vextir hefðu verið um 5 milljónir á ári ! Ég er því hvorki blindur né í hlátur í hug... Vandinn er ekki verðtrygging - vandinn er óstöðugleiki íslensku krónunnar og þann vanda leysir þú ekki með afnámi verðtryggingar. Sorry !

Munið að í upphafi greinar skrifar Hrannar Björn um styrkleika krónunnar, en í síðustu málsgrein um óstöðugleika íslensku krónunnar. Hann talar í hringi og aðeins um eina hugsanlega lausn.

Ég tel verðtryggingu rangláta vegna þess að hún tryggir aðeins lánveitanda, en lánþegi hefur enga tryggingu. Hækki verðlag, hækkar lánið, en ekki geta lánþega til að greiða af láninu því að laun eru ekki verðtryggð. Afleiðing þessa er ójöfnuður. Þar sem Hrannar Björn Arnarsson situr í forsvari fyrir flokk sem kennir sig við jöfnuð, þykir mér þetta afar athyglisvert, og því held ég áfram að velta þessu fyrir mér, en gat ekki á mér setið að stinga inn einum léttum brandara, þrátt fyrir alvarleika málsins, kl. 22:29:

Jú, blindur. Þú sérð það bara ekki sjálfur.

Og síðan bæti ég við 4.5.2011 kl. 19:31:

Að sjálfsögðu leita ég mér upplýsinga, nafni. Í raun er þetta í grunninn pólitísk afstaða. Að halda í verðtryggingu eykur ójöfnuð í samfélaginu og flokkast sem hægri stefna, eða íhaldssemi. Það er auðvelt að rökstyðja slíka stefnu, hafirðu farið í framboð í skjóli hennar. Að afnema verðtryggingu miðar að jöfnuði í samfélaginu og ber keim af svokallaðri jafnaðarstefnu, nokkuð sem Samfylking var kosin til að berjast fyrir. Að Samfylking og Vinstri græn skuli hafa breyst í hálfgerða hægri flokka er svolítið spes.

Rétt eins og með Icesave, þá virðist þú vera að þiggja þínar upplýsingar, hvaðan sem þú færð þær, gagnrýnislaust. Þú getur betur.

Ég hafði gagnrýnt Samfylkingu og VG fyrir Icesave afstöðu þeirra þar sem efnisleg rök héldu ekki vatni, og reynt var að kasta ryki í augu fólks með stanslausum endurtekningum, hræðsluáróðri og spuna. Þessi spunahegðun heldur áfram þegar kemur að verðtryggingu og úrræðum fyrir lánþega.

Ég skil ekki af hverju, en íslenskir stjórnmálamenn virðast ekki kunna auðmýkt. Að viðurkenna þegar þeir hafa haft rangt fyrir sér. Það virðist útilokað. Að hafa rangt fyrir sér getur ekki gerst, aðeins aðstæður geta breyst. Svona tækifærishyggja mun aldrei leiða til góðs.

Nú hefur þolinmæði Hrannars Björns þrotið, enda sér hann að rökleg staða hans er töpuð. Í stað þess að gefast upp og takast í hendur eins og heiðursmönnum sæmir, ákveður hann að ryðja taflmönnunum af borðinu og rjúka í burtu með þessari athugasemd á miðnætti, kl. 0:05 (á mínum tíma - sjálfsagt 22:05 að íslenskum tíma):

Verðtryggingin hefur ekkert að gera með hægri eða vinsti - þetta er þvílíkt dæmalaust rugl hjá þér að það tekur engu tali... úff!

Að lokum óskaði ég eftir leyfi til að birta þessa samræðu á blogginu, en fékk aldrei svar. 5.5.2011 kl. 19:45 skrifa ég:

Sæll aftur Hrannar Björn, fæ ég leyfi þitt til að birta þessa samræðu á bloggi mínu?

Þessi samskipti fóru fram samtímis á tveimur ólíkum þráðum, og að lokum bað ég nafna minn um leyfi til að birta samræðu okkar á bloggi mínu. Ég hef ekki fengið neitt svar við þessari beiðni og álykta því að þögn sé það sama og samþykki. Tveir dagar hafa liðið frá þessari spurningu minni og tel ég það meira en nægan umþóttunartíma.

Þögn er sama og samþykki.

620x350_facebook_chat_tcm48-155120

Sárt finnst mér að vera ásakaður um að kanna málin ekki vel, en ég tel mig hafa gert það og jafnvel prófað skoðanir mínar með því að skrifa um þær greinar og lesa vandlega athugasemdir við þær, eins og sjá má á greinum sem ég hef áður birt. 

Hins vegar hef ég ekki atvinnu af að rýna í þessi mál og nota eingöngu örfáar tómstundir um kvöld og helgar til þess. Það að ég fæ ekki laun fyrir að rannsaka þessi mál og hafa skoðanir um þau, þýðir ekki að skoðanir mínar né nokkurs annars séu einskis virði. 

Að gera lítið úr skoðunum annarra kalla ég hroka. Hroki frá næstæðsta starfsmanni einnar æðstu stofnunar þjóðarinnar til manns sem hefur neyðst til að flytja frá landi og þjóð sem hann elskar, veldur óneitanlega svolitlum vonbrigðum.

 

***

Að sjálfsögðu eru athugasemdir við þessa færslu opnar þannig að ekki verði hægt að segja þessa grein vera aðeins háða einu takmörkuðu sjónarhorni. Athugasemdirnar verða sjálfkrafa hluti að greininni, og öllum er velkomið að taka þátt.

Endilega, ef þú sérð hvar ég hef rangt fyrir mér, hvar upplýsingar mínar, þekking eða skoðanir eru ónákvæmar, þá þætti mér afar vænt um leiðréttingu, ekki leiðréttingu með upphrópun, heldur leiðréttingu með rökum.

 

Fyrri færslur sem tengjast þessari samræðu:

  1. Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag? 21.4.2011 | 18:47
  2. "Þeim var eg verst er eg unni mest" 20.4.2011 | 05:55
  3. Af hverju ríkisstjórnin verður að víkja strax 10.4.2011 | 06:57
  4. Af hverju við segjum NEI við Icesave III (myndbönd) 9.4.2011 | 07:09
  5. Af hverju "já" er ekki það sama og að loka Icesave málinu 8.4.2011 | 05:48
  6. Hefurðu lesið áhættugreiningu Marinós G. Njálssonar um Icesave? 7.4.2011 | 14:43
  7. Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána? 4.4.2011 | 23:33
  8. Nei eða já? Já eða nei? 3.4.2011 | 21:19
  9. "Ég nenni þessu ekki lengur" 15.3.2011 | 17:13
  10. Viltu ræða nokkrar af grundvallarspurningum Icesave? 27.2.2011 | 09:55
  11. Hvort eiga lögin um Icesave að vernda hagsmuni eða réttlætið? 22.2.2011 | 00:04
  12. Er ekkert pláss fyrir heiðarlegt fólk á Íslandi? 20.2.2011 | 09:26

"Þeim var eg verst er eg unni mest"

Eftir að hafa kannað 110% leiðina kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Eðlilegt hefði verið að 110% leiðin tæki mið af fjárfestingarmati Ríkisins til að finna sanngjarna viðmiðunarupphæð. Svo er ekki gert, heldur er farið eftir markaðsvirði, og einungis Bankinn hefur rétt til að velja matsaðila sem metur upphæðina. Sjálfstætt mat þriðja aðila kemur ekki til greina. Þannig getur 19 milljóna lán sem rokið hefur upp í 29 milljónir aðeins lækkað niður í 28 milljónir, þó að óhugsandi sé að selja viðkomandi húsnæði á meira en 23 milljónir, hafi reglulega verið borgað af láninu. Hafi lánið hins vegar verið komið í vanskil getur sagan verið önnur.

Einnig hef ég kannað hvort bankar kaupi upp fasteignir, en svörin eru þau að það geri þeir einungis þegar fólk er komið í þrot, fasteignin komin í vanskil og málið gert upp með nauðungarsölu. 

Fyrirgefið, en þessi nálgun á vandamálinu frá bankans hendi finnst mér skelfileg. Þarna verður mér hugsað til sagna um skrímsli og forynjur sem liggja á gulli og nærast á mannakjöti.

Nú óska ég eftir því að ríkisstjórnin taki í taumana og geri eitthvað af viti í þessum málum. Þó ekki væri nema aftengja verðtryggingu frá húsnæðislánum frá deginum í dag, til þess að fólk geti hugsanlega minnkað húsnæðisskuldir sínar á komandi árum. Allt minna en það er ómannúðlegt.

Einnig kæmi til álita að afskrifa húsnæðisskuldir, sem eru komnar langt fram úr upphaflegum áætlunum vegna forsendubrests, en þessi forsendubrestur er runninn undan rifjum bankanna sjálfra sé hægt að treysta á upplýsingar úr Skýrslunni sem nú er árs gömul. 

Það er ljóst að peningurinn sem bankarnir fengu til að leysa úr málum heimilanna fór í að halda uppi háum launum og arðgreiðslum, en fóru ekki í eðlilegan og nauðsynlegan farveg. Það er ekki nóg að fara af stað með aðra rannsókn eða málið í nefnd. Og ekki bara eitthvað verður að gera í málinu. Það verður að gera eitthvað raunhæft, sem gerir fólki fært að byrja upp á nýtt. Á núlli. Eða næstum núlli.

Ég óska eftir að ríkisstjórnin beiti sér í þessum málum eins og VG, Framsókn, Borgarahreyfingin og Samfylking lofuðu fyrir síðustu kosningar. Hvað þarf til að hreyfa við þeim? Henda í þau blóðugum fötum? Þannig voru sumir knúðir áfram í Íslendingasögunum þegar þeir komu sér undan að gera skyldu sína.

 

Úr Laxdælu, löngu eftir að Bolli Þorleiksson hefur verið veginn, og Guðrún Ósvífursdóttir er orðin þreytt á aðgerðarleysi þegar kemur að því að gera það sem þarf að gera:

Fám nóttum síðar en Guðrún hafði heim komið heimti hún sonu sína til máls við sig í laukagarð sinn. En er þeir koma þar sjá þeir að þar voru breidd niður línklæði, skyrta og línbrækur. Þau voru blóðug mjög.

Þá mælti Guðrún: "Þessi sömu klæði er þið sjáið hér frýja ykkur föðurhefnda. Nú mun eg ekki hafa hér um mörg orð því að ekki er von að þið skipist af framhvöt orða ef þið íhugið ekki við slíkar bendingar og áminningar."

Þeim bræðrum brá mjög við þetta er Guðrún mælti en svöruðu þó á þá leið að þeir hafa verið ungir til hefnda að leita og forystulausir, kváðust hvorki kunna ráð gera fyrir sér né öðrum "og muna mættum við hvað við höfum látið."

Guðrún kvaðst ætla að þeir mundu meir hugsa um hestavíg eða leika.

Eftir þetta gengu þeir í brott.

Um nóttina eftir máttu þeir bræður eigi sofa. Þorgils varð þess var og spurði hvað þeim væri. Þeir segja honum allt tal þeirra mæðgina og það með að þeir mega eigi bera lengur harm sinn og frýju móður sinnar.

"Viljum vér til hefnda leita," sagði Bolli, "og höfum við bræður nú þann þroska að menn munu mjög á leita við okkur ef við hefjum eigi handa."


Af hverju ríkisstjórnin verður að víkja strax

Ríkisstjórnin hefur ekkert umboð vegna Icesave enda vill hún ekki skilja hvað þjóðin hefur að segja um málið. Ólafur Ragnar skildi það vel í fyrra og var góður málsvari fyrir þjóðina. En þessi ríkisstjórn fór strax að ræða við aðila úti í heimi með afsökunartón og rugli.

Steingrímur ætlar að sitja sem fastast. Hann er lím ríkisstjórnar sem er að liðast í sundur. Steingrímur þarf að skilja að völd eru ekki bara fyrir völd, heldur er fólk kosið í embætti vegna loforða sem það gefur. Maðurinn er fastur í heimi fjarri veruleikanum, enda setið á þingi í meira en 30 ár. Mín skoðun er að þingmennska umfram átta ár ætti ekki að líðast.

Árni Páll er ekki rétti maðurinn til að sjá um Icesave málið á erlendri grundu, enda reynast í hans höndum tilgangurinn helga meðalið. Tilgangurinn er að komast í Evrópusambandið og meðalaðið er hvað sem er sama hvað það kostar. Og fórnarkostnaðurinn er þegar orðinn gífurlegur.

Sjálfur hef ég ekkert á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en er ekki sáttur við hvernig litið er á það sem lausn á vandamálum frekar en markmið til að finna betri stefnu. Það þarf að leysa mörg mál á Íslandi og sitjandi ríkisstjórnin hefur ekki getað gert mikið þau tvö ár sem hún hefur setið. Hún er svona eins og kona sem situr í ruggustól og reynir að leggja kapal og rugga sér samtímis.

Það þarf að laga skuldavanda heimila og fyrirtækja með því að klippa á verðtrygginguna. Það eitt getur gefið fólki von um einhvers konar framtíð. 110% leiðin reyndist bara djók, þar sem að bankarnir stjórna öllu eignamati og útiloka sjálfstætt mat. Það er náttúrulega bara bilun.

Þessi ríkisstjórn er ráðalaus en heldur sér á floti með öllum tiltækum ráðum sem hægt er að lesa um í Prinsinum eftir Machiavelli, 16. aldar verk sem fjallar um hvernig stjórnmálamenn ná völdum og hversu auðvelt er að halda þeim þegar völdin eru loks þeirra, sé öllum tiltækum ráðum og blekkingum beitt.

Í þarsíðustu kosningum kaus ég Samfylkinguna og varð fyrir afar djúpum vonbrigðum, enda hafði Björgvin G. Sigurðsson, heimspekingur, mælt fyrir að hann myndi berjast gegn verðtryggingunni og varð hann viðskiptaráðherra, sem síðan gerði ekkert í málinu, heldur fór að spila með þeim sem höfðu mestan hag af því að halda henni. Þá var það hluti af stefnuskrá Samfylkingarinnar að berjast gegn verðtryggingarskrímslinu, en hún gerði aldrei neitt, heldur ákvað að láta það líðast áfram. Sama sagan er ennþá í gangi. Sjálf forsætisráðherra hafði barist gegn verðtryggingu með kjafti og klóm í stjórnarandstöðu og vildi umsvifalaust banna hana vegna þess ranglætis sem hún skapaði, en sem forsætisráðherra setti hún málið í nefnd sem kæfði það síðan á einni viku.

Stjórnmálamenn sem eru við völd í dag á Íslandi eru aðeins við völd valdanna vegna, og svoleiðis verður að stoppa. Þeim virðist sama um hvað þjóðin hefur að segja og túlkar úrslitin í kosningum gærdagsins eins og þeim hentar. Því spái ég. Þetta munum við sjá í allan dag og næstu daga, eins og verið sé að neyða í okkur ógeðisdrykk. það gerðist eftir Icesave kosninguna í fyrra og það mun gerast eftir Icesave kosninguna núna.

Stóri vandinn er sá að næsta ríkisstjórn verður sjálfsagt eins byggð upp, bara með öðru fólki. Það þyrfti að brjóta þetta upp með því að breyta kosningafyrirlaginu þannig að fólk geti ekki keypt sér sæti á listum með forkosningum og þannig svindlað sér bakdyramegin inn á þing. Það þarf að breyta framkvæmdarreglum um kosningar, nokkuð sem hópur eins og stjórnlagaráð mætti beita sér fyrir.

Það er ljóst að þessi ríkisstjórn þarf að víkja strax, enda hefur þjóðin sýnt skýrt og greinilega að hún treystir ríkisstjórninni ekki fyrir að breyta rétt í Icesave málinu. Það er í sjálfu sér alvarleg vantraustsyfirlýsing frá þjóðinni sem ábyrgðarfullri ríkisstjórn ber að taka alvarlega.

Mikið hefur verið talað um að þessi ríkisstjórn sé að taka til. Því miður hefur það ekki verið mín upplifun. Þessi ríkisstjórn hefur reynt að halda veislunni áfram og hefur ekki ennþá fundið sér kúst og fægiskóflu.


Af hverju við segjum NEI við Icesave III (myndbönd)

Við erum ekki aðeins að greiða atkvæði sem Íslendingar fyrir hönd Íslendinga, við erum að greiða atkvæði sem manneskjur gegn ranglátu og miskunnarlausu kerfi fyrir hönd allra manneskja í heiminum sem þolað hafa þurft viðstöðulaust ranglæti frá þessu kerfi. Sumir hafa vissulega ekki upplifað þetta ranglæti og finnst þetta ekki skipta neinu máli. Þetta fólk mætti tileinka sér aðeins meiri náungakærleik og horfa gagnrýnið á hvernig fólk er bundið í skuldaþrældóm og hundelt alla ævi verði það gjaldþrota. Hvernig hin rangláta varðtrygging stendur sem hungraður varðhundur um þetta fólk og kemur í veg fyrir að þau gangi um gæfuhlið lífsins.

Mér er ekki sama um hollenska og breska þegna og lít ekki á þá sem andstæðinga, heldur samherja. Síðustu helgi var ég á Bretlandseyjum og gat ekki betur séð en að þar væri fólk á sama máli. Það hafði reyndar sterkari skoðanir gagnvart eldgosum á Íslandi heldur en Icesave.

Ég hef haft gæfu til að ferðast víða um heim á þessu ári og stöðugt spurt fólk hvað þeim finnst um þessi mál; í Mexíkó, Bandaríkjunum, Spáni, Bretlandi og Noregi, og það sem stendur upp úr er að almenningur skuli ekki taka á sig ábyrgð og skuldir þeirra sem ábyrgð og skuldir eiga að bera, að ranglæti skuli ekki sigra, að barátta Íslendinga gegn þessum samningi sé barátta hins venjulega þegns um allan heim.

Ég gæti aldrei sagt já við Icesave, ekki bara vegna því óbragði sem fylgir, heldur að það myndi setja blett á sál mína sem ég sjálfur gæti aldrei fyrirgefið mér.

Flestir þeir sem ætla að kjósa "já" virðast gera það vegna þess að þeir eru orðnir leiðir á málinu eða hafa annarlegra hagsmuna að gæta. Það er kannski skiljanlegt viðhorf, en það er uppgjafarviðhorf, nánast þrælslund, sem gefur aðeins aukið skotfæri á Íslendinga.

Hvað ef William Wallace í Braveheart hefði sagt fyrir aftökuna: "Æi, ég nenni þessu ekki lengur. Að deyja hægt og kvalarfullt fyrir glataðan málstað eins og frelsi?"

Hvað ef Jesús hefði ákveðið að stíga niður af krossinum og sappa þá sem hann ákærði með eldingum og sagt: "Æi, pabbi. Til hvers að deyja á kvalarfullan hátt fyrir þetta pakk? Til hvers í andskotanum þarf mannkynið dæmi um algjöra fyrirgefningu?"

Hef ef Jón forseti hefði sagt: "Ég nenni ekki að standa í einhverri sjálfstæðisbaráttu. Það er miklu auðveldara að láta Dani sjá um okkur og detta bara í það. Vér samþykkjum allir."

Hvað ef Gunnar á Hlíðarenda hefði sagt: "Fögur er hlíðin og ekkert skiptir mig meira máli en þessi fallega hlíð og flotta eiginkona, en ég nenni þessu ekki lengur, og er farinn frá öllu sem ég elska."

Hvað ef Ingólfur Arnarson hefði sagt áður en hann sigldi frá Noregi: "Shit! Ég nenni þessu ekki. Betra að sofa út en flakka norður um höf."

Hvað ef Danton hefði sagt: "Það er tilgangslaust að gera byltingu gegn þessari skrúðfylkingu hefðarfólks, því að á endanum mun lýðurinn stjórna og lýðurinn er nautheimskur."

Hvað ef íslenska landsliðið í handbolta kæmist í úrslitaleik HM og í stað þess að keppa við gífurlega sterka andstæðinga sína, ákveddu að leikurinn væri fyrirfram tapaður og gæfu leikinn.

Hvað ef íslenska þjóðin segir: "Það á ekki að kenna útrásarvíkingum, spilltum ráðamönnum og banksterum um Hrunið. Við skulum gefa þeim annað tækifæri með því að segja Já við Icesave III."

Uppgjöf er engin rök.

Málið er að stjórnvöld hafa verið að gefa þessu fólki annað tækifæri þvert á vilja þjóðarinnar. Einu tækifærin sem þjóðin hefur haft til að segja hvað hún vill var við atkvæðagreiðslu Icesave II sem var hafnað með um 97% atkvæðum, og ríkisstjórnin ákvað að túlka niðurstöðuna eins og henni hentaði - og hefur áfram starfað látlaust gegn vilja þjóðarinnar. Í dag fær þjóðin annað tækifæri til að segja hug sinn og á morgun mun ríkisstjórnin halda áfram að mistúlka niðurstöðuna og láta sig engu skipta hvað þjóðinni finnst. Við eigum aldrei að gefast upp gagnvart slíkri kúgun og þess vegna kaus ég nei. Að auki vil ég ekki taka myntkörfulán fyrir óákveðna upphæð til að borga eitthvað sem mér ber engin skylda til að borga.

Þú skilur vonandi það sem ég er að segja: "Ég nenni þessu ekki lengur" er uppgjöf vegna leiða.

Eini verulegi munurinn á Icesave II og Icesave III er að áróður fyrir Icesave III hefur verið miskunnarlaus. Nýjar blekkingar líta dagsins ljós hvern einasta dag. Það verður til dæmis áhugavert að sjá í næstu viku hvort verslunarkeðjan Iceland muni ennþá dekka samninginn allan. Verði svo er það hið besta mál, en verði svo ekki, mun einhver spyrja af hverju þessi hugsanlega sala var notuð sem áróðurstæki tveimur dögum fyrir kosningar?

Frá íslenskum vinum mínum, og ég ber mikla virðingu fyrir mínum vinum, sem ætla að segja já hef ég heyrt þrenns konar rök:

 

a) Það eru allir búnir að fá leið á þessu máli.

b) Það er skynsamlegra að semja heldur en að fara í dómsmál, þar sem að upphæð þessa samnings er líklega viðráðanleg og ódýrari en að fara í dómsmál.

c) Það felst minni áhætta og kostnaður í því að segja já.

 

Ungverskur vinur minn, Adam Tamás að nafni, hafði samband við mig á meðan ég skrifaði þessa grein og vildi endilega fá að senda inn nokkur orð:

Unfortunately, that's a global trend in the western word: most company leaders take no personal responsibility for what they are doing. They just enjoy the benefits of the leadership, but do not understand, that the dark side of being on the top is - rather should be - their personal responsibility for what they and their company does. And certainly they have the right connections to polititians, when trouble comes, so they can make it throuh not having any consequences whatever they do.

But this drives far further. There are many trials going on, where normal, ordinary citizens got far higher judges for far smaller crimes: in Hungary a few citizens were put in jail for fishing without permission, while polititians, and company leaders for causing far larger social and benefical damages got very short term, or rather virtually no punishment.

Í þessari færslu hef ég ákveðið að segja nákvæmlega það sem mér finnst, í stað þess að rökstyðja málið á hófsaman hátt, en það hef ég gert í fyrri færslum. Ég hætti ekki að berjast gegn ranglæti og læt ekki letja mig frá slíkri baráttu.

 

Hér eru að lokum nokkur myndbönd frá kjosum.is þar sem gangandi vegfarendur segja af hverju þeir munu segja "nei" við Icesave. Það sem er sameiginlegt með flestum rökunum er að sterk réttlætiskennd skín í gegn.






































Af hverju "já" er ekki það sama og að loka Icesave málinu

Flestir sem hafa hug á að kjósa "já" í Icesave kosningunni telja sig vera að kjósa málið út af borðinu. Skoðum aðeins forsendur þessarar hugmyndar.

Með "já" verður samningur samþykktur þar sem staðfest er að þjóðin mun greiða óþekkta upphæð til Breta og Hollendinga. 

Upphæðin er óþekkt. Við höfum fengið upplýsingar frá skilanefnd bankans um afar bjartsýnar tölur. Getum við treyst á áreiðanleika skilanefndar? Hver og einn verður að gera það upp við sig. Þar sem ég hef heyrt of oft "úlfur, úlfur" frá "bankasérfræðingum" efast ég um áreiðanleika þessa mats.

Tímasetning á upplýsingum um að upphæðin gæti auðveldlega orðið engin kemur á frekar undarlegum tíma, aðeins tveimur dögum fyrir kosningar í máli sem tekið hefur tvö ár. Áróðursbrellur og blekkingarleikir ríkisstjórnar lituðu fyrri kosningar, og hugsanlega þær sem eru í gangi núna. Mig grunar að ríkisstjórnin sé að deila út áróðri frekar en áreiðanlegum upplýsingum, rétt eins og umræður á alþingi snúast um að sannfæra frekar en að segja sannleikann. Ég treysti ekki ríkisstjórninni.

Klárast málið með "já"? 

Hugsaðu þér að þú sért að kaupa þér bíl eða húsnæði með láni í erlendum gjaldmiðli? Þú hefur fengið greiðsluáætlun frá bankanum sem lítur ágætlega út. Það lítur út fyrir að greiðslur munu ganga ágætlega. "Sérfræðingar" lofa slík lán. Icesave er slíkt lán, fyrir utan að það er ekki verið að kaupa neitt annað en hugsanlega þjónkun við Breta og Hollendinga.

Til að tryggja stöðugleika krónunnar eftir "já" verður að halda við gjaldeyrishöftum þar til "skuldin" er greidd. Athugið að þetta verður ekki að skuld fyrr en þjóðin hefur sagt "já". Þetta þýðir að ef greiðslumat skilanefndar bankans er röng, geta gjaldeyrishöftin verið föst í allt að 40 ár. Það þýðir að stærstu alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi neyðast til að fara úr landi og á móti minnkar tekjustofn ríkisins verulega, sem þýðir að hækka verður skatta meira, draga meira úr þjónustu og að ráðstöfunartekjur heimila verði minni. 

"Já" lokar þjóðina inni og gefur ríkisstjórninni tækifæri til að koma á kommúnismaveldi sem ekki verður hægt að losna úr fyrr en lánið hefur verið greitt.

Sagt er að "nei" leiðin kalli á óvissu dómstóla. "Já" leiðin kallar því miður á meiri óvissu en "nei" leiðin. Í "nei" leiðinni verður aðeins þörf á að hafa áhyggjur af hugsanlegu dómsmáli þar sem Bretar og Hollendingar óska eftir meiri peningum frá þjóð sem næstum varð gjaldþrota á einu bretti, og sett voru neyðarlög til að bjarga því. Ekki var gert upp á fólki vegna þjóðernis, heldur aðeins umráðs íslenskra stjórnvalda. Ríkið tryggði fullar innistæður á Íslandi og lágmarksinnistæður erlendis, enda réði þjóðin aldrei við að greiða fullar innistæður. Hefðu ekki allar innistæður verið tryggðar á Íslandi eru líkur á að kerfið hefði hrunið, þess í stað hefur það hneigt sig og er byrjað að rísa á ný með gífurlegum gróða íslenskra einkabanka og banka sem hafa verið yfirteknir af ríkinu, enda streyma peningar inn til þeirra vegna gífurlegs magns af verðtryggðum húsnæðislánum heimila, sem sumar fjölskyldur geta aðeins borgað vegna aðgangs að séreignarsparnaði, en sjá fram á gjaldþrot með áframhaldandi stöðugu álagi.

Í gangi er undirbúningur fyrir tvö dómsmál sem gera "já" leiðina stórhættulega. Annars vegar er mál þar sem dæmt verður um lögmæti neyðarlaganna. Tapi ríkið því málið án þess að hafa "já" samning er líklegt að fjármálakerfið íslenska hrynji. Nauðsynleg endurreisn fer í gang strax. En þá kemur í ljós að Bretar og Hollendingar halda í kröfur sínar, og hóta að fara í mál sem Íslendingar hafa ekki lengur efni á að taka þátt í. Þeir vilja sinn pening enda er skuldin orðin raunveruleg. Í stað peninga verður sótt í aðrar náttúrulegar auðlindir, sama hverjar þær eru, hugsanlega orkusamninga yfir 100 ár, aðgang að vatni í 100 ár, eða eitthvað slíkt. Annað eins hefur gerst víða um heim. Verði enginn slíkur samningur að þvælast fyrir þjóðinni mun endurreisnin ganga betur.

Annað dómsmál í undirbúningi er gegn sjálfum gjaldeyrishöftunum. Það er ljóst að falli gjaldeyrishöftin í dómsmáli, verður endurgreiðslan strax mun erfiðari. Evrópubankinn hefur eitt mat á verðmæti krónunnar. Það sem kallað er "raungildi" er miklu hagstæðari upphæð, en er í rauninni "platgildi" þar sem því er haldið vegna gjaldeyrishaftanna.

Niðurstaða mín er að hvorki "já" né "nei" muni klára málið. Hins vegar hefur áróður ríkisstjórnar frá upphafi snúist um að koma þessu "leiðinlega" máli frá svo það hætti að flækjast fyrir uppbyggingu. Þetta er einfaldlega ósatt. 

Það eina sem "já" tryggir er að ábyrgðarmenn Icesave skuldanna sleppa með skrekkinn og undan reiði Hollendinga og Breta, og þurfa aðeins að takast á við reiði íslensks almennings sem finnur fyrir auknum þunga á eigin herðar. Ég reikna með að mikill fjöldi muni finna sig knúna til að flytja úr landi, og spurning hvert þetta fólk geti farið, enda erfið kreppa víða um heim í dag.

"Já" er ekki það sama og að loka málinu. Ef ég tryði því og þeim upplýsingum sem hefur verið dælt í þjóðina af ríkisstjórn og fjármálastofnunum fyrir þessar kosningar, þætti mér freistandi að velja "já". En ég trúi ekki að þessar upplýsingar séu neitt áreiðanlegri en þær sem gefnar voru fyrir Icesave II kosningarnar og enn lengra aftur í tímann, um hinn "glæsilega" Svavars-samning sem átti að þvinga hljóðlaust gegnum atkvæðagreiðslu á þingi. Ég hef eiri ástæðu til að efast um áreiðanleika upplýsinga frá þessum aðilum, þar sem þeir hafa reynt vísvitandi að blekkja mig og þjóð mína, ekki bara einu sinni eða tvisvar, heldur stöðugt og í næstum hverju einasta máli. Reynt er að sannfæra frekar en að segja satt, og það böggar mig. 

Svar mitt er "nei". Málið klárast ekki með "já".

 

---

Kíktu á þessa grein sem sönnunargagn 1 til að sjá svart á hvítu að þessari ríkisstjórn er ekki treystandi: Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?


Hefurðu lesið áhættugreiningu Marinós G. Njálssonar um Icesave?

Ég mæli með að þú kíkir á bloggsíðu Marinós og lesir vandlega áhættugreiningu hans um Icesave. Þetta er vönduð grein og fylgt eftir með skynsamlegum umræðum í athugasemdakerfinu.

Smelltu hér:

Hvernig sem fer tapar þjóðin

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband