Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mikil er grimmd Íslendingsins

Fólk tók lán fyrir húsnæði. Það þótti eðlilegt. Síðan hrundi fjármálakerfið. Sökin var hjá fjármálastofnunum og ríkinu. Innistæður voru tryggðar í botn. Þannig að þeir sem áttu pening urðu ekki fyrir ónæði. Hins vegar tvöfölduðust allar verðtryggðar skuldir og hækka enn. Engin útkomuleið önnur en gjaldþrot, og ekki hefur enn reynt á ný gjaldþrotalög, þar sem mögulegt er að viðhalda kröfum gagnvart fólki að eilífu. Gjaldþrot fyrir manneskju er ekki það sama og gjaldþrot fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki er bara kennitala. Manneskja er líf.

Af hverju áttar fólk sig ekki á ranglætinu og gerir eitthvað í því?

Hugsanlega vegna þess að meirihluta landsmanna líður bara nokkuð vel og getur verið sáttur við að þessi minnihluti taki á sig allan skellinn.

Mikil er grimmd Íslendingsins. Sérstaklega þegar hann getur lokað eyrunum, hallað sér aftur í hægindastólnum og horft á Liverpool spila, helst beint, frekar en hlusta á endalaust vælið í bloggurum og lánþegum.

 

---

 

Ég mæli sterklega með góðri grein Marinó G. Njálssonar sem greinir þessi mál út frá heilbrigðri skynsemi og sterkri réttlætiskennd: Almenningur ber skaðann af óheiðarleika, vanhæfi og spillingu fjármálafyrirtækja


Hin stórfenglega vinstri ríkisstjórn

Þremur árum eftir efnahagshrun hefur hin vinstri ríkisstjórn íslenska slegið rækilega í gegn. Henni hefur tekist að framkvæma öll þau loforð sem hún lét falla áður en hún komst til valda.

Hagur landsmanna hefur tekið stökk til hins betra. Þar sem að manneskjur skipta ekki jafn miklu máli og kerfin, hefur mikil orka verið lögð í að reisa bankana við eftir mikið fall þeirra. Það hefur að mestu tekist. Þó að einhverjar fjölskyldur hafi flutt úr landi og einhverjir einstaklingar tapað vitinu, þá má búast við slíku í flestum samfélögum. Berum okkur bara saman við samfélög þar sem allt er á öðrum endanum. Þá ættum við að sjá hvað við höfum það gott.

Tekist hefur að vernda hina réttlátu verðtryggingu frá árás hagsmunasamtaka, þannig að tryggt er að enn streyma gríðarlegar fjárhæðir inn í lífeyrissjóðina. Gagnrýnisraddir segja að verið sé að mergsjúga heimilin með þessu móti. Skiptir það einhverju máli? Er ekki sama hvaðan gott kemur?

Krónan er sterkari en nokkurn tíma áður. Í stað þess að láta hana fljóta einhvers staðar á gjaldeyrishafi hafsins, höfum við fest hana við íslenska bryggju og látum hana ekki róa fyrr en stærri bátur er kominn í höfn, Evran. 

Evrópusambandsaðild er rétt handan við hornið. Þegar tekist hefur að rústa algjörlega íslenska hagkerfinu, svelta nokkrar fjölskyldur, og fylla þær slíku vonleysi að engin útkomuleið virðist möguleg, þá er rétti tíminn til að koma á þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, og hver kýs gegn einu útgönguleiðinni?

Tekist hefur að sefa þjóðina hvað eftir annað. Í hvert sinn sem hún reiðist, þá koma fram útspil sem rugla fólk í rýminu og draga úr reiði hennar, því hún veit ekki alltaf út í hvern hún á að vera reið. Til allrar hamingju trúir hún blint að kumpánarnir Davíð, Hannes og Geir séu ábyrgir fyrir öllu sem út af hefur borið síðustu tvo áratugina, þar á meðal allar ákvarðanir sem teknar hafa verið síðustu þrjú árin, enda aðstæðurnar þröngvaðar upp á hina snilldarlegu vinstri stjórn.

Það er ljóst að Ísland á sér bjarta framtíð undir leiðsögn vinstri stjórnmálaflakka, sem vinna undir merkjum sannleikans án þess að segja hann, sannfæringar án þess að fylgja henni, umhverfisvernd án þess að skipta sér af henni. Framtíðin er björt fyrir Íslendinga undir slíkri leiðsögn. Þessir lampar sem skína á Alþingi ættu allir að vera steyptir í mót.

Það kæmi mér á óvart ef ríkisstjórnin fengi ekki einróma lófaklapp við upphaf næsta þings og 99% aftkvæði í næstu kosningum, enda hefur henni á eftirminnilegan hátt tekist að fanga hvern hvítflibbaglæpamanninn á fætur öðrum, stórglæpamenn sem höfðu næstum rænt öllu sem mögulega var hægt að ræna af þjóðinni, og meira til. Þeir sitja nú í Hörpunni, elítufangelsinu.


Þjóðaratkvæðagreiðsla um verðtryggingu?

Ég hef hlustað á rök með og á móti verðtryggingunni, og heyri samhljóm með ICESAVE málinu. Vilhjálmur Bjarnason lét jafnvel út úr sér í Kastljósþætti að verðtryggingin væri réttlát. Ég hefði haldið að hvert einasta mannsbarn sæi ranglætið í þessu, og get ekki annað en spurt hvaða vonda málstað Vilhjálmur hafi að vera. Síðan kemur Þórólfur Matthíasson fram og gagnrýnir útreikninga Hagsmunasamtaka heimilanna, og í kjölfarið fylgir Hrannar Björn Arnarson, aðstoðarmaður forsætisráðherra eftir á Facebook með orðalaginu: "Blekkingar Hagsmunasamtaka heimilanna afhjúpaðar - allir fjölmiðlar gleyptu dæmin hinsvegar hrá !" Ekki veit ég hvaða hagsmuna þessir einstaklingar hafa að gæta, en þeir virðast hvorki hlutlausir né hafa mikinn áhuga á réttlæti. Því miður. Kannski þurfa þeir bara knús?

Rökin á móti verðtrygginginu snúast um réttlæti. Fyrir efnahagshrunið höfðu sumir sjóðir fitnað mikið, meðal þeirra lífeyrissjóðir, og krefjast þeir að stöðugt sé bætt gulli á hauginn í hlutfalli við haug sem þegar var alltof stór fyrir. Þessir sjóðir eru það eina sem virðist verða að vaxa þrátt fyrir að allt annað í kring hafi rýrnað. Á gullinu sitja ósnertanlegir drekar sem blása eldi og brennisteini á þá sem geta hugsanlega ógnað gulli þeirra á einhvern hátt.

Rökin með verðtryggingu snúast um hagsmuni. Hagsmuni þeirra sem stjórna drekunum. Hagsmuni þeirra sem eiga gullið og vilja sjá það vaxa meira. Þetta er hópur Jóakim Aðalanda sem áttar sig ekki á því að peningar eru ekki til að synda í, heldur til að nota og leyfa hjólum atvinnu og samfélags að snúast. Þessir Jóakimar eru svo reiðubúnir að verja gullið til skamms tíma að þeim er nákvæmlega sama þó að venjulegt fólk sjái lífskjör sín rýrna og eigin möguleika og drauma verða að engu. Þessum Jóakimum er nákvæmlega sama um alla nema Jóakim Aðalönd.

Réttlæti á við um alla. Hagsmunir eiga við um suma. Þessir fáu sem eiga auðinn munu berjast með kjafti og klóm til að halda honum og krefjast þess að hann vaxi. Og þeir eru að gera það, með verðtryggingunni.

Hugsaðu þér veislu árið 2006. Elton John mætir og syngur. Fínustu kræsingar á borðum. Rándýrt. Þúsund manns boðið. Og hvert ár eftir það er krafist þess að veislan verði 4% flottari, þrátt fyrir að veisluhaldarinn fór á hausinn árið 2008! Hvar er vitið í þessu?

Ég veit að til er fólk sem heldur því fram að þjóðaratkvæði eigi ekki við þegar kemur að skattlagningu og slíku, en ég held að þessir einstaklingar hafi rangt fyrir sér. Þjóðinni er hægt að treysta fyrir sjálfri sér.

Mætti ekki gefa þjóðinni kost á að greiða atkvæði um verðtrygginguna?  Hér með óska ég eftir þingmanni sem vill leggja það til á næsta þingi.


Gylfi Magnússon: Verðtrygging lána bönnuð víða um heim vegna baráttu gegn verðbólgu

Gylfi Magnússon, helsti hagfræðigúrú ríkisstjórnarinnar og fyrrverandi ráðherra, var virtur fræðimaður áður en hann fór í stjórnmál. Hann varð gífurlega vinsæll á meðal almennings eftir að hann hélt ræðu á mótmælafundi og ljóst að honum var ekki sama um heimilin í landinu. Síðan varð hann ráðherra. Við vitum hvað gerist þegar góð manneskja fær of mikil völd alltof fljótt. 

 

Smelltu á myndina til að skoða grein Gylfa Magnússonar á Vísindavefnum.

verdtrygginggylfim.jpg


Ísland eina landið í heiminum sem tryggir skuldir heimilanna?

Jóhanna Sigurðardóttir fjallar um efnahagsleg rök, sanngirni og verðtrygginguna. Loksins. Eða hvað?

Smelltu á myndina til að stækka hana.

islandverdrygging.jpg


Afnema verðtrygginguna?

Afnema verðtrygginguna. Afnema verðtrygginguna. Afnema verðtrygginguna.

Er ekki sagt að séu hlutirnir endurteknir nógu oft verði þeir að veruleika?

Afnema verðtrygginguna. Afnema verðtrygginguna. Afnema verðtrygginguna.


Greiðsluvandi heimila og velferðarráðuneytið: "Eru lánþegar bara fáfróðir vitleysingar?"

110% leiðin hljómaði vel í upphafi:

Að lán sem hvílir á heimili verði lækkað niður í 110% af fasteignamati. 

Þetta hljómar vel. Veruleikinn er annar. Allt annar.

Í fyrsta lagi, þá er þetta ekki jafn einfalt og það hljómar, því að lánveitandi (banki) hefur algjört vald um hvernig farið er í málið. Og lánveitendum er í sjálfvald sett hversu sanngjarnir þeir vilja vera.  Bankar hafa ekki reynst sanngjarnir lánveitendur og hafa ekki reynst trausts verðir síðasta áratuginn.

Í einum bankanum fór fram samræða, nokkurn veginn með þessum hætti:

 

Heimsókn í banka

Íbúðareigandi sem tók 100% lán 2005 og hefur séð lánið hækka um 50% á þessum tíma, kemur inn í útibú Íslandsbanka og óskar upplýsinga um 110% leiðina.

Lánþegi: "Halló, ég vil óska eftir 110% leiðinni. Hvað þýðir hún í raun og veru?"

Bankastarfsmaður: "Gjörðu svo vel og fáðu þér sæti. Jú, í fyrsta lagi þá þurfum við umsókn frá þér og maka þínum, auk allar mögulegar upplýsingar um fjárhag þinn og maka þíns."

LÞ: "Af hverju?"

BS: "Af því bara. Annars færðu umsóknina ekki afgreidda. Í öðru lagi þá fáum við mat frá fasteignamati ríkisins um verðmæti íbúðarinnar. Síðan fáum við okkar eigin matsaðila til að verðmeta raunverulegt verðmæti eignarinnar."

LÞ: "Bíddu nú aðeins. Ertu að segja mér að fasteignamatið sé ekki hið raunverulega mat?"

BS: "Já, við höfum samning við fasteignasala sem verðmeta eignina út frá öðrum forsendum, og síðan förum við eftir því mati."

LÞ: "Er það löglegt? Má ég fá mat frá öðrum fasteignasala?"

BS: "Við förum einungis eftir mati okkar eigin fasteignasala."

LÞ: "Hvað svo?"

BS: "Ofan á mat fasteignasala okkar, leggjum við 15%, sem er til að fá út 110% upphæðina. Ofan á það leggst síðan ýmis konar kostnaður."

LÞ: "Jahérna. Getið þið ekki bara tekið íbúðina mína og fellt niður lánið?"

BS: "Nei, við tökum aðeins yfir íbúðina þegar lánþegi er kominn í greiðsluþrot."

LÞ: "Og tekur þá bankinn yfir íbúðina og selur, en lánþeginn þarf að borga það sem stendur eftir að láninu?"

BS: "Nákvæmlega."

Lánþegi gengur út úr bankanum með óbragð í munni og ákveður að sækja ekki um 110% leiðina.

 

Ég skrifa þessa grein eftir að hafa lesið skýrslu frá velferðarráðuneytinu þar sem höfundur veltir fyrir sér af hverju 30% færri en áætlað var, ákváðu að fara 110% leiðina. Ég geri ráð fyrir að hluta svarsins sé að finna í þeirri köldu ósanngirni og vantrausti sem birtist í samtalinu hér fyrir ofan. 

Hér kemur hluti skýrslunnar sem vakti athygli mína. Ég merki þá kafla með grænu sem mér finnst athyglisverðir í þessu samhengi og skrifa svo skástrikaðar athugasemdir með.

 

Úr áfangaskýrslu velferðarvaktarinnar:

Vinnuhópur um fjárhagsvanda heimilanna lagði fram eftirfarandi niðurstöður og ábendingar:

  1. Umboðsmanni skuldara hafa borist 200–300 umsóknir um greiðsluaðlögun í hverjum mánuði síðastliðið hálft ár. Úrvinnsla greiðsluaðlögunarmála hefur gengið hægt og uppsöfnuðum málum hjá embættinu fjölgað hratt á liðnum mánuðum. Um 1.900 frjáls greiðsluaðlögunarmál eru óafgreidd en með fjölgun starfsmanna og betri vinnuferlum er talið að hraðar gangi að afgreiða mál en áður.
  2. Umsóknir um 110% leið stjórnvalda hafa verið mun færri en gert var ráð fyrir. Íbúðalánasjóði hafa borist um 2.750 umsóknir sem er um 30% þess sem áætlanir sjóðsins gerðu ráð fyrir og viðskiptabankarnir hafa móttekið um 1.300 umsóknir.
    HB: Ég reikna með að flestar umsóknir hafi farið til Landsbankans, þar sem spurst hefur út að þeir hafi í raun komið til móts við viðskiptavini sína.
  3. Sértækum skuldaaðlögunarmálum hefur fjölgað nokkuð frá því skilyrði voru rýmkuð í desember 2010 en eru þó enn mun færri en gert var ráð fyrir. Um 550 heimili hafa frá október 2009 gert samninga um sértæka skuldaaðlögun, þar af um 400 frá október 2010.
  4. Óvissa er enn um endurútreikning gengisbundinna lána en kæra vegna þeirra var send Eftirlitsstofnun EFTA í apríl síðastliðnum. Óljóst er hve langan tíma málsmeðferð tekur.
  5. Tilfinnanlega skortir miðlægan gagnagrunn um fjárhagsstöðu heimilanna þannig greina megi heildstætt fjárhagsstöðu og vanda heimilanna. Með fyrirliggjandi gögnum er einungis mögulegt að skoða stöðu og þróun frá einstaka aðilum og allar líkur á að talsverð skörun sé milli aðila þar sem margir fá lausnir hjá fleiri en einum aðila. Skortur á samkeyrslu upplýsinga veldur því að engu er hægt að slá föstu um hve mörg heimili eru í vanda eða hve margir hafa fengið úrlausn mála sinna.
    HB: Af hverju í ósköpunum er ekki löngu búið að stofna slíkan gagnagrunn? Eru þeir sem starfa að þessum málum bara að vinna í Word og Excel, en nota ekki upplýsingatæknina samkvæmt þörfum?
  6. Vanskil fara vaxandi og árangurslausum fjárnámum hefur fjölgað verulega á liðnum mánuðum.
    HB: Viðvörunarbjöllur hljóta að hljóma í þingsölum þegar þeir lesa þennan hluta skýrslunnar. Þetta er bara ein setning, en mikilvæg er hún. Málið er að verðtryggingin blæs upp skuldirnar hvort sem farið er 110% leið eða ekki. Það er ekki tekist á við rætur vandans, og eina ástæðan sem kemur mér til hugar er að þau öfl sem ráða í landinu eru grimm, eigingjörn og ómannúðleg með öllu.
  7. Út frá þeim gögnum sem vinnuhópurinn hefur aðgang að má álykta að mun færri heimili hafi nýtt sér úrræðin sem tiltæk eru en áætlanir gerðu ráð fyrir. Að óbreyttu er hætta á því að sá vandi sem þeim var ætlað að leysa sé enn að verulegum hluta óleystur. Ástæða er til að skoða hvort ekki sé rétt að lengja umsóknarfrest um 110% leiðina sem er að óbreyttu til 1. júlí næstkomandi41, en Íbúðalánasjóði er ekki heimilt að framlengja úrræðið án lagaheimildar. Auk þess ættu stjórnvöld að beita sér fyrir betri kynningu til almennings á þeim úrræðum sem í boði eru.
    HB: Það breytir engu að framlengja frestinn. 110% lausnin dugar ekki. Verðtrygging og okurvextir byrja strax að leggjast ofan á 110% lausnina, rétt eins og hún hefur gert við 100% lán. Fólk verður komið í sömu stöðu og áður innan árs.
  8. Úrræðin sem eru í boði eru mörg og flókin og erfitt er fyrir fólk að átta sig á hvað hentar og hvar eigi að sækja um. Sértæk skuldaaðlögun sem var sett fram sem heildarlausn fyrir yfirskuldsett heimili hefur reynst seinfarnari en ráð var fyrir gert. Þá virðist hópur fólks enn bíða eftir frekara útspili eða raunverulegri leiðréttingu hrunsins.
    HB: Þetta er rétt. Úrræðin eru það flókin að sérfræðingar bankanna geta túlkað þau og unnð bankanum í hag á kostnað lánþega. Það verður að stoppa snjóboltaáhrif verðtryggingarinnar og leita raunverulegrar leiðréttingar á ráni fjármálastofnanna úr vösum almennings gegnum okurvexti sem felast í vafasömum og hugsanlega ólöglegum útreikningum á hækkun höfuðstóls. Ég skil ekki hvernig 19 milljón króna lán til 40 ára getur orðið að 29 milljón króna skuld 5 árum síðar, þrátt fyrir að skil hafi verið staðin á láninu. Það að greitt sé inn á lán á að lækka höfuðstólinn. Annað er út í hött. En þannig er staðan í dag - höfuðstóll lána er enn að bólgna út, þökk sé verðtryggingunni og þeirri kúgun sem fólkið með svipuna beitir í hennar nafni.
  9. 110% leiðinni var ætlað að flýta aðlögun íbúðaskulda að verðmæti eigna. Ljóst er að umsóknir hafa verið mun færri en ráð var fyrir gert. Eftir því sem næst verður komist stafar þetta af ýmsum ástæðum, svo sem:
    HB: Ég geri grein fyrir einni ástæðunni efst í þessari grein. Þegar bankinn hefur vald til að nota eigin verðmat á íbúð og smyrja þannig ofan á mat ríkisins, býður það upp á misnotkun og ranglæti. Hver treystir þessum bönkum í dag?
  • Þeir sem eru mikið yfirskuldsettir eru gjarnan í miklum greiðsluvanda og þá dugar ekki 10% lækkun lána.
    HB: Sammála
  • Algengt er að fólk telji að 110% leiðin sé bundin við þá sem eru í greiðsluvanda og sækir því ekki um.
    HB: Ósammála að vandinn felist í vanþekkingu fólks á lausnum.
  • Nokkurs misskilnings hefur gætt um að afskriftir á lánum séu skattskyldar og að fólk lendi á vanskilaskrá í kjölfar niðurfærslu lána.
    HB: Ósammála að vandinn felist í vanþekkingu fólks á lausnum.
  • Neikvæð umfjöllun fjölmiðla á eflaust einnig einhvern þátt í því að ásókn í úrræðið hefur ekki verið meiri en raun ber vitni.
    HB: Ósammála að vandinn felist í vanþekkingu fólks á lausnum.

Það er eins og þeir sem stóðu að þessari rannsókn átti sig ekki á þeim óásættanlegu lausnum sem viðskiptabankarnir stjórna, og telji vanþekkingu hafa meiri áhrif á dómgreind manna, heldur en skynsemi og góð dómgreind. Ég held einmitt að flest fólk í þessari erfiðu stöðu hafi ágætis dómgreind, og sé þreytt á að heyra hvað stjórnvöld telja almenning vera heimskan og fáfróðan. Fólk vill lausn á þessum vanda, en stjórnvöld skella við skollaeyrum og hlusta ekki. Ég tel þann heimskan sem ekki vill hlusta. Ég tel þann heimskan sem telur sig vita allt, geta allt, og stjórna öllu betur en allir aðrir. Því miður er of mikið af slíku fólki við völd á Íslandi í dag. Þetta fólk þarf að læra að hlusta. Það þarf að læra auðmýkt. Það þarf að vinna með fólkinu, ekki á móti því.

     10. Rétt er að benda á í þessu sambandi að áætlanir um fjölda umsókna byggðust á hlutfalli lána af fasteignamati eigna en verðmat samkvæmt 110% leiðinni hefur reynst að meðaltali 10% hærri en fasteignamat.
HB: Þetta er kjarni málsins. Að meðaltali 10% hærri, sem þýðir sjálfsagt að sumir bankar höfðu verðmatið 0% hærra og aðrir kannski 20% hærra. Af hverju er ekki fylgst með slíkri hegðun? 10% af 20 milljónum eru 2 milljónir, þannig að þessi mismunur er engin smá upphæð. Til samanburður eru 20% af 20 milljónum 4 milljónir.

 

Að lokum

Með von um að stjórnvöld fari að vakna og að almenningi takist að vekja þau með virkri þátttöku í átaki Hagsmunasamtaka heimilanna. Skráðu þig til þátttöku hér.

(Ég vil taka fram að undirritaður er ekki tengdur neinum stjórnmálaflokki, og er fyrst og fremst rekinn áfram til að skrifa greinar sem þessar af sterkri réttlætiskennd og gremju vegna aðgerðarleysis stjórnvalda sem komst til valda með fögrum loforðum - en stendur ekki við neitt af því sem skiptir máli.)


Af hverju að segja verðtryggingu stríð á hendur?

breaking-the-chains

Kúgun er samnefnari yfir þá upplifun sem sérhver þjóð hefur upplifað fyrir allsherjar byltingu. 

Franskir borgarar upplifðu kúgun aðalsins fyrir frönsku byltinguna. Kúbverjar upplifðu kúgun áður en Castro og Che gerðu þar uppreisn. Blökkumenn upplifðu kúgun áður en þeir gerðu uppreisn gegn Apartheit stefnunni í Suður Afríku. Austur þjóðverjar upplifðu kúgun áður en þeir gerðu uppreisn gegn kommúnismanum og brutu niður múrinn sem aðskildi fjölskyldar vegna tómrar heimsku stjórnvalda.

Kúgun getur ekki endað öðruvísi en með stjórnleysi sé henni haldið stöðugt áfram af þrjósku og skilningsleysi.

Ég hvet lesendur mína og Íslendinga alla til að taka stöðu gegn verðtryggingunni, gegn einni af mörgum ljótum myndum kúgunar. Henni hefur verið viðhaldið og beitt áfram á fullum krafti þrátt fyrir algjört Hrun. Það er ranglátt. Það er rangt.

Vinsamlegast, skrifaðu undir kröfu Hagsmunasamtaka heimilanna, sért þú sammála mér. Sértu ósammála, er þér velkomið að skrifa athugasemd í kerfið hérna fyrir neðan og útskýra, vinsamlegast á mannamáli, hvað ég er að misskilja. 

Verðtryggingin: verkfæri þeirra sem vilja tryggja eigin afkomu á kostnað lánþega. Þetta væri í lagi ef jafnvægisástand ríkti, en í ástandi þar sem 40 ára húsnæðislán hækkar um 50% á sex árum, þá er um ekkert annað en kúgunarástand að ræða.

"Öll kúgun skapar stríðsástand." - Simone de Beauvoir

 

Af vefsíðu Hagsmunasamtaka heimilanna:

Í nafni almannahagsmuna krefjumst við undirrituð almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar.

Hafi stjórnvöld ekki orðið við þessari kröfu fyrir 1. janúar 2012 jafngildir undirskrift mín kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfugerðina.

Verðtryggð lán: Verðbótaþáttur frá og með 1. janúar 2008, takmarkist við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, eða að hámarki 4% á ári. Sjá nánar hér um hvernig

Gengistryggð lán: Betri réttur neytenda gildi. Sama reikniaðferð og við verðtryggð lán eða niðurstaða dómstóla standi eftir því hvort kemur betur út fyrir lántaka. Tekinn verði af allur vafi um að afturvirkar íþyngjandi innheimtur sem stríða gegn rétti neytenda séu BANNAÐAR með öllu. Sjá nánar hér um hvernig
 

Heilaþvegið Ísland?

brain-drain1-11

Heilaþvott þjóðar má kalla það fyrirbæri þegar mikið af vel menntuðu fólki flytur úr landi á stuttum tíma. Ástæður heilaþvotts eru yfirleitt af tvennu tagi: annars vegar eru aðstæður í heimalandi viðkomandi óaðlaðandi eða mikið af freistandi tækifærum í öðru landi. Á Íslandi ríkir efnahagskreppa, stjórnmálakreppa og siðferðiskreppa sem virka afar fráhrindandi á sumt fólk. Í Noregi er engin kreppa. Þess vegna er Noregur aðlaðandi fyrir vel menntað fólk frá Íslandi. Einnig er vel tekið á móti Íslendingum sem koma loks aftur "heim" eftir þúsund ára ferðalag.

Ég tel Íslendinga vera að upplifa heilaþvott í dag. Hann er sýnilegastur fyrst hjá heilbrigðisstéttum, enda mikið öryggisatriði að hafa traust heilbrigðisstarfsfólks til taks, og fólk fljótt að finna fyrir því þegar skortir á heilbrigðisþjónustu. En ekki má gleyma hinum stéttunum, ósýnilegu stéttunum. Smám saman hverfa píparar, húsasmiðir, verkfræðingar, kennarar, og fleira fólk til annarra landa. Enginn tekur eftir þessu hvarfi fyrr en alltof seint. Og þá verður alltof seint orðið alltof seint.

Fjölskyldur sem festu kaup á húsnæði frá 2004 með húsnæðislánum hafa lent í gríðarlegum erfiðleikum og upplifað skilningsleysi frá stjórnvöldum og þeim helmingi þjóðarinnar sem lenti ekki í sams konar klípu. Margir eru enn að berjast við að láta enda ná saman á Íslandi. Þegar einfaldir útreikningar sýna að dæmið gengur ekki upp, þá er leitað annarra leiða. Leitað er allra hugsanlegra leiða á heimaslóðum. Þegar þær bregðast, er leitað út á við. Þeir duglegustu finna tækifæri til að flytja úr landi. Þeir sem hafa minni metnað staldra lengur við og vonast til að málin reddist. Þetta fólk læsist inni í eigin skuldafangelsi.

Í vikunni ræddi ég við nokkra félaga mína í Bandaríkjunum. Þeir ræddu þessa tegund heilaþvottar og kölluðu "Brain Drain" á ensku. Sumir Bandaríkjamenn eru farnir að leita sér tækifæra erlendis, rétt eins og Íslendingar, enda sífellt erfiðara að fá vel launuð störf í landi hinna frjálsu. Spáð er því að vaxandi heimsveldi Kínverja muni gjörbreyta hinum vestræna heimi á næstu árum, og mikilvægt sé að halda í hið vel menntaða og duglega fólk sem leitar annað við svona aðstæður. Annars verður lítil von fyrir þá sem eftir sitja. Það má spyrja sig hvort að vestrið sé reiðubúið fyrir valdatíma austursins.

Ekki má gleyma að gríðarlegar fjárhæðir hafa verið greiddar til að styrkja innviði samfélagsins með menntakerfinu, og það á við um heim allan. Þeim löndum sem tekst að laða til sín efnilegasta og best menntaða fólkið, þeim mun farnast vel, sama hvernig viðrar. 

Viðbrögð Íslendinga eru frekar púkaleg gagnvart þessu ástandi. Það er eins og fólk átti sig ekki á því hversu verðmæt hver einasta manneskja er, og hversu mikið tap það er fyrir þjóðarbúið að missa duglegt og vel menntað fólk úr landi. Stundum furða ég mig á þessu innantóma afskipta- og sinnisleysi, og tel það jafn skaðlegt og allar hinar kreppurnar sem nú geysa á Íslandi. Þarf að þýða allt yfir í krónur eða evrur til að fólk skilji tapið sem felst í brottflutningnum?

Það væri áhugavert að sjá það í nákvæmlegum útreikningum hversu mikils virði hver einasta dugleg og vel menntuð manneskja er, sem frá Íslandi flytur. Sérhver slík manneskja kostar sjálfsagt að minnsta kosti 10 milljónir króna á ári. 10 brottfluttir kosta þá um 100 milljónir og 100 brottfluttir verða að milljarði. Sjálfsagt má meta höfuðstól hverrar manneskjur upp á hundrað milljónir.

Ég hef heyrt töluna 2500 í þessu samhengi, og með einföldum reikningskúnstum sjáum við í hendi okkar að slíkur fjöldi brottfluttra getur auðveldlega kostað þjóðina 2500 milljarði á ári. Og þá er þessi tala sjálfsagt vanmetin frekar en hitt.

Ætli ríkisstjórnin og Alþingi velti þessu yfir höfuð fyrir sér?


Er íslenska hagkerfið ennþá að hrynja, hægt og hljótt?

Fjármálastofnanir svindluðu grimmt og sköpuðu sér gríðarlegan sýndargróða, bæði með því að fjármagna eigið féð á ólögmætan hátt og með því að taka stöðu gegn krónunni árið fyrir október 2008. Um þessar forsendur má lesa hér í afar góðri grein í Viðskiptablaðinu eftir Magnús Halldórsson. Ég er sammála þeim forsendum sem hann gefur sér í þessari grein, en ekki þeirri trú hans að neyðarlögin hafi verið af hinu góða fyrir þjóðina. Reyndar komu þau í veg fyrir þjóðargjaldþrot á þeirri stundu, og hafa skapað svigrúm til aðgerða, en aðgerðir hafa ekki verið nýttar sem skyldi og stofninn er fúinn, og mun fyrr eða síðar gefa eftir.

Mikið af þessum sýndargróða var breytt í raunverulegan pening fyrir fólk sem tók virkan þátt í svindlinu, og skapaði þannig nýja yfirstétt í íslensku samfélagi. Þessi nýja stétt hefur varið blóðpeningum sínum á ólíkan hátt, með kaupum á eignum hérlendis sem og erlendis, og með því að ávaxta þennan (sviksamlega) arð á innlánsreikningum með föstum vöxtum (og tryggða með verðtryggingum), en þessir reikningar voru varðir með neyðarlögum í október 2008. Lífeyrissjóðir voru virkir þátttakendur í svikamyllunni og eru það enn, þar sem innistæður þeirra eru orðnar miklu hærri en þær hefðu verið án fjármálakerfisblöðrunnar. Og líffeyrissjóðir verja þessa peninga eins og dreki á gulli sínu, og ekki nóg með það, heldur er krafist reglulegrar og verðtryggðrar ávöxtunar á höfuðstólnum.

Það er aðeins ein leið möguleg til að fjármagna slíkar ofurupphæðir; það er með því að hækka höfuðstóla á lánum lántakenda langt umfram það sem upphaflega var gert ráð fyrir. Lántakendur hafa engan annan kost en að ganga við þessum auknu og ósanngjörnu kröfum, þar sem að annars gætu þeir misst húsnæði eða atvinnutæki, með gjaldþroti. Þetta er mun alvarlegra þegar um einstaklinga er að ræða en fyrirtæki, því að manneskja sem verður gjaldþrota lendir í miklu óvissuástandi og getur hæglega tapað öllum sínum eignum, á meðan gjaldþrota fyrirtæki getur skipt um kennitölu og fært eignir sínar yfir á það, en skilið skuldirnar eftir. Í það minnsta virðast þetta vera leikreglurnar í dag. Og þetta virðast fáir vilja skilja eða hafa áhuga á.

Ég hef verið þeirrar skoðun að neyðarlögin voru galin, þó ég skilji vel af hverju sumir telja þau snilld, að þau hafi verið sett til að bjarga fjármálakerfi sem er dæmt til að hrynja á endanum, aðgerð til að tefja hrunið, þar sem grundvöllur þess að fá peninga frá lánþegum hlýtur á endanum að þverra. Hið nýja kerfi, sem er reyndar spegilmynd hins gamla, byggir á fúnum grunni sem hlýtur að gefa eftir. Það verður eitthvað hægt að sparsla í hinn fúna við, en á endanum munu þessir plástrar ekki lengur duga til annars en að fela sárin tímabundið.

Hrunið er ennþá í gangi. Með neyðarlögunum var því frestað og hinni nýju yfirstétt og líffeyrisjóðum gefið tækifæri til að skjóta eignum sínum undan. Allt sem gert hefur verið gert miðar að því að bjarga hinni nýju yfirstétt, á meðan almúginn má bíta í skjaldarendurnar og éta þær á meðan lengt er í hengingarólinni sem ennþá er vafin um hálsinn.

Samfélag og fjármálakerfi sem byggir á ranglátum grunni mun aldrei standast tímans tönn. Spurningin er hvenær næsti skellur verður og hvort að spilaborgin muni þá hrynja til grunna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband