Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Af hverju er ekki enn búið að BANNA verðtryggingu lána?
4.4.2011 | 23:33
Þessa grein birti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, 2. nóvember árið 1996 og virtist þá full af réttlætiskennd og umhugað um íslensk heimili. Skáletrun og textastækkun er frá undirrituðum. Hvað hefur breyst síðan Jóhanna birti þessa grein?
Árni Páll Árnason viðskiptaráðherra hefur einnig lýst yfir að hann vilji losna við verðtrygginguna, en heldur að það sé aðeins hægt með því að ganga fyrst í Evrópusambandið, en hann sagði í viðtali við Vísi árið 2008:
,,Því fyrr sem við náum í gegn aðild að Evrópusambandinu því fyrr getum við kvatt verðtrygginguna. Við megum einfaldlega engan tíma missa."
Ályktun landsfundar VG 2009 um afnám verðtryggingar:
"Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leita leiða til að lækka höfuðstól húsnæðislána eða frysta hluta hækkunar höfuðstóls lána vegna verðbólguskotsins. Einnig að gerð verði tímasett áætlun um afnám verðtryggingar.
Ekki verði gengið lengra í innheimtu skulda en að lánastofnun leysi til sín veðsetta eign."
Fyrir kosningar og alla tíð hafa Samfylking og VG verið sammála um afnám verðtryggingar. Nú eru þessir flokkar við völd, og munu sjálfsagt glata þeim innan skamms, en geta þau ekki að minnsta kosti gert einn hlut rétt: afnema verðtrygginguna áður en hún veldur enn meiri skaða? Nú er verðbólgan lág og kjörið tækifæri til að afnema þetta skrímsli.
Hvað er það sem stoppar, annað en að verðtryggingin leiðir fjármálastofnanir á spena íslenskra heimila?
Mikið væri ég feginn að sjá þing og ríkisstjórn gera að minnsta kost einn hlut rétt.
Grein forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, skrifuð áður en hún blindaðist af eigin völdum:
Ísland eina landið sem verðtryggir skuldir heimilanna
Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð. að ríkisstjórnin sé föst í gamla verðbólguhugsunarhættinum.
RÍKISSTJÓRNIN telur að sívaxandi skuldir heimilanna séu merki um að heimilin eyði um efni fram. Ríkisstjórnin talar minna um að heimilin í landinu eru oft neydd til að taka lán til að eiga til hnífs og skeiðar frá degi til dags og fyrir gluggaumslögunum frá lánastofnunum vegna skulda sem sífellt vefja upp á sig. Ríkisstjórnin talar heldur ekki um hvernig verndarstefnan og ofurtollar í landbúnaði, sem heimilin eiga enga sök á, hafa aukið skuldir heimilanna.
Grænmetisverð eykur skuldir heimilanna
Stöðugleiki hefur ríkt í efnahagslífinu á udanförnum árum- fyrir tilstuðlan launafólks og verðbólgan verið með því minnsta sem þekkist. Fólkið skilur því ekki hvernig höfuðstóll skuldanna vex sífellt. Er nema von að það skilji ekki ástæðurnar, eins og þegar kartöflur hækkuðu tímabundið í sumar, þá leiddi vísitalan og verðtrygging til þess að skuldir heimilanna jukust um 500 milljónir króna. Hækkun á grænmeti á einu ári, sem mörg heimili hafa ekki efni á að kaupa vegna ofurtolla og verndarstefnu ríkisstjórnarinnar, juku engu að síður skuldir heimilanna um 1300 milljónir króna.
Verðtryggð lán ekki afnumin
Undirrituð beindi fyrirspurn til viðskiptaráðherra á Alþingi um verðtryggingu lána og skuldir heimilanna. Þar kom margt athyglisvert fram sem kallar á viðbrögð.
Meginniðurstaðan er að verðtrygging er ekki á lánum til heimila í löndum OECD, að Íslandi undanskildu. Notkun hennar í öðrum löndum hefur einskorðast við ríkisskuldabréf en þó í mjög litlum mæli. Skuldir heimila í árslok verða 350 milljarðar króna og hafa aukist á þessu ári um 25 milljarða króna. 90% af lánunum eru verðtryggð, en einungis 10% óverðtryggð.
Af hálfu stjórnvalda eru engin áform uppi um að takmarka verðtryggingu lána, umfram það sem þegar hefur verið ákveðið.
Staða heimilanna hér og á hinum Norðurlöndunum
Skuldir heimilanna á hinum Norðurlöndum hafa farið hraðminnkandi frá 1986. Hér á landi hafa þær farið vaxandi á þessum tíma og voru á síðasta ári 125% af ráðstöfunartekjum eða 25% umfram það fé sem heimilin hafa til ráðstöfunar. Gjaldþrot heimilanna hafa vaxið gífurlega. Á árinu 1993 voru þau 414 á árinu 1995 871 gjaldþrot. Þannig hafa gjaldþrot heimilanna meira en tvöfaldast á 2 árum. Laun og lífskjör eru hér með því lægsta sem þekkist og vinnutími hvað lengstur. Auk þess þurfa íslensk heimili að búa við verðtryggingu á lánaskuldbindingum sínum sem hvergi þekkist innan landa OECD. Því til viðbótar eru bæði raunvextir og nafnvextir mun hærri hér á landi. Þannig voru nafnvextir um 23% hærri á Íslandi, en hinum Norðurlöndum í október sl., þó verðbólgan sé svipuð í þessum löndum.
Ríkisstjórnin hefur enga trú á stöðugleikanum
Stöðugleiki, lítil verðbólga og lengst af jákvæður viðskiptajöfnuður hefur ríkt hérlendis á síðustu misserum. Jafnframt sýna mörg fyrirtæki mikinn hagnað og greiða niður skuldir sínar.
Þessi umskipti í efnahags- og atvinnulífi má að langmestu leyti þakka launafólki, en afleiðing þess hefur bitnað á launafólki, með auknum skuldum þeirra og litlum launahækkunum. Allt þetta ætti nú að skapa forsendur til að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna. En allt kemur fyrir ekki. Rökstuðningur ráðherrans í svari við fyrirspurn minni byggist á gamla verðbólguhugsunarhættinum, sem ríkisstjórnin virðist föst í. Hún hefur enga trú á að stöðugleikinn haldist til frambúðar.
Er Ísland öðruvísi?
Það vekur líka athygli í svari ráðherrans að þó stjórnvöld hafi þegar ákveðið að banna verðtryggingu á sparifé landsmanna frá 1. janúar árið 2000 stendur ekki til að banna verðtryggingu útlána umfram það sem þegar hefur verið ákveðið á skammtímalánum. Það mæla bæði efnahagsleg rök og sanngirni með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð á næstu misserum.
Við viljum ekki endurtaka leikinn frá 1983 að kippa úr sambandi verðtryggingu launa en ekki lána. Ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að svara af hverju Ísland, sem býr við svipað efnahagsumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við, hafi eitt landa verðtryggingu á lánum til heimilanna. Og það sem verra er. Ætli að viðhalda henni. Því verður að breyta.
Jóhanna Sigurðardóttir, alþingism. (Mbl. nóvember, 1996)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Nei eða já? Já eða nei?
3.4.2011 | 21:19
Bera ríki ábyrgð á einkafyrirtækjum?
Svar mitt er nei.
Eiga ríki að bera ábyrgð á einkafyrirtækjum?
Svar mitt er nei.
Á þjóð að taka lán í erlendum gjaldmiðlum til að borga fyrir skáldaða ábyrgð?
Svar mitt er nei.
Ef ekkert fæst úr þrotabúi gjaldþrota fyrirtækis, á þá þjóðin að borga eftirstöðvar af skuldum þess?
Svar mitt er nei.
Mun Icesave málið hverfa verði samningurinn samþykktur?
Svar mitt er nei.
Mun Icesave máli hverfa verði samningurinn felldur?
Svar mitt er nei.
Verður hægt að ákæra heila þjóð fyrir afbrot einkafyrirtækis?
Svar mitt er nei.
Íslendingar eiga að vera leiðtogar í þessari staðfestu, þar sem þjóðir um allan heim eru í samskonar vanda. Ætlast er til að skattborgarar borgi skuldir einkafyrirtækja víða um veröld, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ættum við ekki að stoppa auðvaldið frá því að vaða yfir almúgann um allan heim með því að stoppa þá heima? Það verður aðeins gert með því að segja "nei, hingað og ekki lengra." Ekki með því að segja "já, og endurtaktu leikinn að ári".
"Já" viðheldur nýfrjálshyggju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Hvar er siðferðið í að hengja bakara fyrir smið?
30.3.2011 | 19:49
Hinn ágæti bloggari, Valgarður Guðjónsson spyr á bloggi sínu: "Er öllum sama um siðferðið?" og leggur upp ágætis mynd, en kemst að annarri niðurstöðu en undirritaður. Valgarður skrifar:
Sennilega er einfaldast eins og ég hef nefnt áður að ímynda sér erlendan banka sem kæmi hingað að safna innistæðum með loforði um himinháa vexti. Gefum okkur að stjórnvöld í viðkomandi landi hafa haft sterkan grun um, ef ekki örugga vissu fyrir, að viðkomandi banki væri að falla. Þætti okkur ekki sem þessi sömu stjórnvöld bæru einhverja ábyrgð?
Eftir þessa ágætu uppsetningu og spurningu fer hann að tala um "okkur" sem stjórnvöld. Ég vil ekki kannast við að "ég" eða "við" séum stjórnvöld. Þetta er samsemdarvilla.
Hins vegar vil ég kannast við að fólk var kosið og að þetta fólk sem stjórnaði var kosið til að bera mikla ábyrgð. Það að þetta fólk stóð ekki undir ábyrgðinni, þýðir ekki að þjóðin skuli þar með axla hana og skrifa undir óútfylltan tékka.
Alþingi hefur ákveðið að einungis einn maður skuli sæta ábyrgð: Geir H. Haarde, á meðan sannleikurinn er sá að bara í einræðisríkjum ber einn aðili ábyrgð. Það er mikill fjöldi af samábyrgum aðilum enn á kreiki. Og þessir aðilar eru ekki þjóðin.
Ef stjórnvöld eru ábyrg eiga þeir sem brugðust fyrir hönd stjórnvalda að sæta ábyrgð, auk þeirra sem lögðu metnað sinn og starfsheiður að veði gegn greiðslu og frama, í stað þess að hengja bakara fyrir smið. Í þessu máli er fjöldinn allur af bökurum. Smiðirnir munu líklega sleppa með væga timburmenn verði Icesave samningurinn samþykktur og byrja aftur eftir helgi, enda verður ekki lengur alþjóðleg pressa á þessu fólki, og stjórnvöldum (sem ætlast er til að geri eitthvað af viti í málinu, og þá ekki bara semja um skuldir þessa fólks). Í staðinn á að varpa ábyrgðinni yfir á heila þjóð.
Hvar er siðferðið í að varpa ábyrgð eins yfir á annan? Hvar er siðferðið í að hengja bakara fyrir smið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
"Ég nenni þessu ekki lengur"
15.3.2011 | 17:13
Mikið er talað um að kjósa I3 samninginn í burtu, enda áberandi raddir sammála um að það sé orðið hundleiðinlegt mál. Ég er ekki sannfærður um að hægt verði að kjósa málið í burtu, hvorki með nei eða já.
Verði I3 samþykkt, mun fyrirbærið breytast í ótilgreinda peningaskuld sem greiðist aðeins upp verði ekki gengisfelling á Íslandi næstu árin. Hætt verður að ræða um samninginn, skuldin mun leggjast á herðar íslenskra þegna sem munu þegjandi borga í breska og hollenska sjóði einhverja áratugi eða aldir, skuld sem klyfjuð var á bak þeirra meðan þeir sváfu.
Verði I3 ekki samþykkt, hafa þau skilaboð verið send í annað sinn að skuldir einkafyrirtækis verði ekki greiddar af almenningi, sérstaklega í ljósi þess að þessar skuldir virðast hafa verið illa fengnar.
Ég hafna þeim letirökum sem atvinnumenn í áróðri eru að troða upp á venjulegt fólk. Þau rök heyrði ég fyrst haft þegar samningi tvö átti fyrst að þvinga í gegn, og í dag virðist hver einasti málsmetandi aðili segja það sama. Samt hefur ekkert breyst, annað en að áróðursmaskínan virkar ljómandi vel, miklu betur en nokkurn tíma fyrr.
Reyndir lögfræðingar mæla með samningaleiðinni sem hagstæðari leið en höfnun, en aðrir telja mikilvægara að standa vörð um réttlætið sem slíkt og gefa ekki þumlung eftir. Þarna takast á nytjarök og skyldurök. Með frekar einföldu áhættumati getum við áttað okkur á að líklega sé skynsamlegra að samþykkja en hafna, enda andstæðingar Íslands alltof stórir og voldugir til að við eigum séns í þá (minnimáttarkenndarrök). Spurning hvað skyldan segir okkur að gera?
Hefði Ísland öðlast sjálfstæði árið 1944 eða farið út í þorskastríð gegn stórþjóð og tryggt 200 mílna fiskveiðilögsögu, eða hinir norsku víkingar nokkurn tíma vogað sér að stinga tá í kaldan sjó fyrir meira en þúsund árum, hefðu viðkomandi verið meðvitaðir um nýtísku áhættustjórnun?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hversu auðvelt er að gleyma 1200 milljörðum króna?
4.3.2011 | 00:47
Þegar talað er um Icesave þessa dagana er sífellt talað um einhverja tugi milljarða. 34 milljarða hér eða 65 milljarða þar.
Einhverjir virðast viljandi gleyma því að raunverulegu tölurnar eru 1234 milljarðar hér eða 1265 milljarðar þar.
Eða það skilst leikmanninum mér.
Sko, 1200 milljarðarnir eru sú upphæð sem Bretar og Hollendingar eiga að fá úr þrotabúi Landsbankans fari allt á næstbesta veg. Það gleymist hinsvegar oft að minnast á óvissuna sem felst í hversu mikið tekst að endurheimta af þessum 1200 milljörðum til að borga upp í Icesave.
Segjum að samningur númer þrjú verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Segjum að ekki takist að endurheimta eina einustu krónu úr hinum fallna Landsbanka.
Þá fellur skuld á þjóðina sem samsvarar ríflega 1200 milljörðum. Ég nenni ekki einu sinni að minnast á einhverja tugi í þessu samhengi.
Væri ég til í að taka slíka áhættu?
Ekki glæta.
Þar að auki hef ég ekki enn séð rök fyrir því að Íslendingar skuldi allan þennan pening annan en þau að ríkisstjórnin hefur verið dugleg að taka einhver lán í nafni Icesave samninga sem þjóðin hefur hafnað og mun hafna. Að sjálfsögðu vilja fæstir tala um slíkar skuldbindingar og siðferðið bakvið þær.
Væri hin raunverulega upphæð "skuldarinnar" kr. 34 milljarðar, af hverju má ekki setja þá uppæð sem þak á hvað Íslendingar eru tilbúnir að borga, þrátt fyrir að skulda ekki neitt?
Ég skil vel að fólk verði ringlað í umræðu sem er stjórnað af fólki sem telur sig vita hvað öllum öðrum er fyrir bestu án þess að vita sjálft hvað þeim sjálfum er fyrir bestu, og þegar áróður ómar mun hærra en skynsemin.
En ég trúi því að fólk átti sig á að allur þessi áróður er bara skvetta í hafið og að hinar stöðugu öldur sannleikans verði það sem fólk sjái að lokum, þó að þeim sé skipað að horfa bara í skvetturnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Viltu ræða nokkrar af grundvallarspurningum Icesave?
27.2.2011 | 09:55
Ég er á móti því að Icesave reikningar verði borgaðir af íslensku þjóðinni og vona sannarlega að sú skoðun ein geri mig ekki að öfgakenndum vitleysing, en þannig hef ég heyrt þeim hópi lýst sem er alfarið gegn slíkum samningnum.
Ég kannast ekki við skuldbindingu íslensku þjóðarinnar til að borga skuldir einkabanka sem fóru á hausinn, þó svo að þessir bankar hafi verið með íslenska kennitölu, ekki frekar en að ég tel Saudi-Arabíu bera fulla ábyrgð á afleiðingum gjörða Osama bin Laden bara vegna þess að hann fæddist í Saudi Arabíu.
Hins vegar kannast ég við að íslensk ríkisstjórn setti neyðarlög og í kjölfarið var henni bylt úr stjórn og við tók ný ríkisstjórn sem þóttist hafa allt aðrar áherslur, en ákvað að fylgja stefnu fyrri ríkisstjórnar í veigamestu málum 100%. Ég efast enn í dag um réttmæti þessara neyðarlaga, og kannast við að erlendir kröfuhafar muni láta reyna á lögmæti hennar.
Núverandi ríkisstjórn reyndi að þvinga fram Icesave númer tvö sem þjóðin hafnaði. Ári síðar kemur sama ríkisstjórn með lítið breyttan samning og ætlar að þvinga honum í gegn. Deja Vu?
Þegar ég kaus gegn Icesave í fyrra kom ég í verk þeirri skoðun minni að þjóðin og afkomendur okkar skuli ekki borga skuldir einkafyrirtækis sem fór á hausinn. Þingið ákvað að hunsa þessa skoðun, og hefur sýnt þeim sem hafa þessa skoðun virðingarleysi með því að hugleiða ekki að við höfum hugsanlega eitthvað til okkar máls.
Nú met ég stöðuna óbreytta fyrir utan það að ríkisstjórn og þing hlustuðu ekki á þjóðina og hafa sýnt að þau hafa engan vilja til að hlusta á rök þeirra sem hafa ólíka skoðun en þá sem þeim hentar.
Eins og þing og ríkisstjórn sé að segja enn og aftur: "Þið eruð ekki þjóðin!"
Það er enginn sveigjanleiki til staðar hjá þessari ríkisstjórn, hún telur sig vita hvað er best og berst með þekktum herbrögðum fyrir málstaði sínum, sem hún er ekki tilbúin að velta fyrir sér hvort sé réttur eða rangur.
Nú þarf ég að spyrja nokkurra spurninga sem mér finnst þurfa að svara. Þetta eru ekki auðveldar spurningar, en ég tel mikilvægt að sérhver manneskja velti þeim vandlega fyrir sér, ræði þær við félaga sína og reyni þannig að átta sig á grundvallaratriðum málsins. Ég tek það fram að þetta er ekki endanlegur spurningarlisti yfir öll hugsanleg málefni tengd Icesave, en tel þetta grundvallarspurningar málsins.
Ef þér tekst ekki að svara einhverri af þessum spurningum, komdu þér þá í aðstæður þar sem fólk með ólíkar hugmyndir er til í að ræða málin, þar sem einhver einn kemst ekki upp með að reyna að sannfæra alla hina með brennandi mælskulist, þar sem allir fá tækifæri til að segja sína skoðun og ræða rökin á bakvið hana með skynsamlegum hætti.
- Af hverju á ríkisstjórn og þing að semja við Breta og Hollendinga um skuld banka og tryggingarsjóðs sem bankarnir báru ábyrgð á? Bara vegna þess að bankarnir voru með íslenska kennitölu?
- Af hverju er ekki hlustað á að þjóðin gerði byltingu þegar fyrst átti að þvinga þessu í gegn?
- Af hverju er ekki hlustað þegar þjóðin greiðir um 97% atkvæði gegn því að þetta nái í gegn?
- Af hverju á að þvinga þetta í gegn núna með auknum hræðsluáróðri og meiri mælskutækni?
- Af hverju halda þeir sem eru fylgjandi þessum samningi að það sé siðferðilega rangt að samþykkja hann ekki?
- Af hverju halda meðmælendur samningsins því fram að það sé skylda þjóðarinnar að borga skuldir einkabanka?
- Af hverju sjá meðmælendur samningsins það ekki sem skyldu þjóðarinnar að vernda næstu kynslóðir með kjafti og klóm, að gæta sjálfstæðis þeirra og virðingu til lengri tíma?
- Af hverju finnst meðmælendum samningsins í lagi að kynslóðin í dag sleppi með skrekkinn þar sem álögurnar verða ekki gífurlegar næsta áratuginn, með þeirri vitneskju að álögurnar verða aftur á móti gífurlegar fyrir næstu kynslóðir?
- Af hverju er þegar búið að taka lán út á þessa samninga þó að þjóðin sé algjörlega á móti þeim?
- Ef þjóðin segir aftur nei, hvernig verður hægt að tryggja að þing og ríkisstjórn reyni ekki að troða Icesave fjögur ofan í kok þjóðarinnar að ári liðnu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Hvort eiga lögin um Icesave að vernda hagsmuni eða réttlætið?
22.2.2011 | 00:04
Um Icesave:
Tvenn sjónarmið takast á. Annað þeirra er sjónarmið hagsmuna, hitt er sjónarmið réttlætis.
Út frá sjónarmiði réttlætisins er augljóst að íslenskum almenningi ber engin skylda til að borga skuldir óreiðumanna og fella þannig niður gífurlegar skuldir fámenns hóps. Afleiðingar slíks verknaðar verða þær að almenningur borgar skuldir einkafyrirtækis, sem getur þýtt að sambærilegar skuldir falli á íslenskan almenning.
Réttlætissjónarmiðið er augljóst. Hið sanna blasir við.
Hagsmunasjónarmiðið er óskýrara. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvað gerist ef samningaleiðin er farin. Ég efast um að hagsmunir þjóðarinnar sem slíkrar verði í hættu, þó svo að farið verði í mál. Evrópsk lög sem Hollendingar og Bretar hlíta beinlínis banna að ríki láti almenning borga upp tryggingarsjóð fjármálafyrirtækja. Hagsmunir þeirra sem skulda þessar gífurlegu fjárhæðir, þeirra sem stjórna í raun Íslandi, þeirra hagsmunum er stefnt í voða. Hvað er að því?
Þjóðin má ekki taka á sig að borga skuldir þessa fólks.
Köfum aðeins dýpra.
Í Kastljósviðtali kvöldsins sagði fjármálaráðherra að málið snérist um hagsmuni fyrst og fremst. Gott að fá hans sjónarmið á hreint.
Spyrjum: hvort eiga lög að fjalla um hagsmuni eða réttlæti?
Sett eru lög: þú skalt ekki stela. Ef þú stelur verður þér refsað með sekt eða fangelsisvist. Ef ekki bara þú, heldur hver sem er stelur, skal refsað með sekt eða fangelsisvist. Hvort er með þessum lögum verið að passa upp á hagsmuni eða verið að gæta réttlætis? Er verið að passa upp á hagsmuni þeirra sem eiga mikið eða eiga lítið? Tja, það er verið að gæta hagsmuna beggja. Ef aðeins væri verið að gæta hagsmuna annars aðilans, þá væri það ranglátt. Icesave samningurinn gætir hagsmuna takmarkaðs hóps Íslendinga og hunsar algjörlega stóran hóp. Það er ranglátt í sjálfu sér.
Hagsmunir eru afstæðir út frá aðstæðum. Aðstæður breytast hratt.
Réttlæti er hins vegar ekki afstætt. Þar er skýrt tekið fram hvað er rétt og hvað rangt. Hugsanlega hafa íslensk lög fjarlægst þessa hugmynd. Stundum er gerður greinarmunur á hvort að eitthvað sé siðferðilega rangt en lögfræðilega rétt og öfugt. Þar sem að lög byggja á siðferðilegum dómum, eins og að rangt sé að stela, þá er það afskræming á siðferði þegar lög og dómar eru lagalega rökréttir, en siðferðilega vafasamir.
Hver þekkir ekki dæmið um fátæka manninn í sögu Victor Hugo sem stelur til að forða börnum sínum frá hungurdauða. Lögreglan klófestir manninn, fangelsar hann og ofsækir árum saman. Hvar er réttlætið í slíku máli? Það er ekki alltaf réttlátt að fylgja lagabókstafnum blint.
Við megum ekki gleyma grundvelli laga og réttar. Við megum ekki gleyma að það er raunverulegur munur á réttu og röngu. Að setja ranglát lög getur ekki haft hagstæðar afleiðingar til lengri tíma, lög eins og "Það er bannað að stela, nema viðkomandi komist upp með þjófnaðinn". Aðeins réttlát lög geta haft hagstæðar afleiðingar.
Ólög geta hentað takmörkuðum hópi hagstætt yfir skamman tíma. Við þurfum að gæta okkur á slíkum tilhneigingum. Ólög poppa upp öðru hverju, og við áttum okkur ekki á óréttlætinu sem fylgir þeim fyrr en einhverjum kynslóðum síðar, eins og þegar kosningaréttur er takmarkaður við kyn, frelsi er takmarkað við kynþátt, eða skuldbindingar yfirfærðar á ófædda kynslóð sem getur ekki varið sig, enda ekki til í augnablikinu.
Lög eru nefnilega komin til að vera, ekki bara sett eftir hentisemi, aðstæðum eða hagsmunum. Lög geta verið virk í hundruði ára. Bæði góð lög og ólög. Góð lög leiða til réttlætis. Vond lög til ranglætis.
Berum nógu mikla virðingu fyrir Lögum landsins til að sverta þau ekki með ólögum.
Ég ætla að kjósa gegn Icesave lögunum því að ég tel þau vera ólög. Verði þau samþykkt mun þrýstingi létt af þeim sem bera raunverulega ábyrgð á Icesave skuldinni, og þunginn færður yfir á þjóðina. Ég hef sterka tilfinningu um að það sé rangt. Ég er tilbúinn að hlusta á rök þeirra sem telja mína sannfæringu ranga, en ekki tilbúinn að hlusta á þá sem fordæma mig fyirr að hafa þessa sannfæringu, sem ég hef vonandi rökstutt sæmilega, og er tilbúinn að verja í rólegheitunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
Er ekkert pláss fyrir heiðarlegt fólk á Íslandi?
20.2.2011 | 09:26
Hvort er betra fyrir kærðan en saklausan mann að gera samning til að losna við kostnað hugsanlegra réttarhalda og taka þannig á sig skuldbindingar einhvers annars, eða berjast fyrir sakleysi sínu og sjálfsvirðingu þar til hlutlaus dómari getur tekið skynsamlega ákvörðun?
Þeir sem vilja borga reikninga svikahrappa og bankaræningja vegna Icesave endurtaka stöðugt að "Íslendingar eigi að standa við skuldbindingar sínar".
Að sjálfsögðu eiga Íslendingar og annað fólk að standa við skuldbindingar sínar. Að Íslendingar borgi reikning þjófanna þýðir ekki að Íslendingar séu að standa við skuldbindingar sínar, heldur þýðir það að öllum Íslendingum verði refsað í stað þess að finna þá sem sviku og prettuðu til að öðlast völd og peninga, og refsa þeim, og aðeins þeim. Þó að svikahrapparnir séu Íslendingar, þýðir það ekki að allir Íslendingar eigi að borga fyrir þá. Við erum ekki öll samsek.
Gefum okkur að færeyskir svikahrappar stofni banka og svíki gífurlega fjármuni út úr íslenskum borgurum. Þýðir það að íslenskur almenningur krefjist þess að færeyskur almenningur eigi að borga skuldbindingar svikahrappana?
Þú hlýtur að sjá hversu farsakennt þetta mál er orðið. Bara það að íhuga þurfi að borga þessar skuldir bankaræningja er í sjálfu sér sviksamlegt gagnvart náttúrulegum rétti heiðarlegrar manneskju. Því ef íslenska þjóðin er látin borga, þá verður komið fordæmi fyrir því að íslenska þjóðin taki á sig afleiðingar gjörða þessara manna sem enn hafa ekki verið klófestir af réttvísinni. Við vitum að bankarán hefur átt sér stað og vitum að ekki hefur tekist að klófesta einn einasta ræningja. Þýðir það að þjóðin öll sé bankaræningi?
Ef þjóðin tekur á sig skuldbindingar þjófanna um að borga ránsfenginn til baka, er verið að sleppa þjófunum aðeins vegna þess að það er þægilegra en að leita réttlætis. Nóg hefur þjóðin þegar þurft að taka á sig vegna þessara svika, eiga þessir glæpamenn virkilega að sleppa svona auðveldlega? Ef þjóðin borgar er hún að leysa fjárglæframenn úr snörunni vefja sömu snöru um háls saklausra barna.
Þegar þjófur rænir veski er þjóðinni ekki skylt að skila ránsfengnum, heldur skal þjófurinn gera það. Vilji hann það ekki verður að þvinga hann til þess. Þjóðfélagið er skuldbundið til að ná þjófnum, finna tilhneigingum hans betri farveg og koma veskinu í réttar hendur. Vissulega viljum við hjálpa fórnarlambinu og finnst þjófnaðurinn ranglátur í eðli sínu - en þessa áköllun á réttlæti skal aldrei taka út á röngum aðila.
Verði lausnin á Icesave sú að íslenskur almenningur borgi skuldina, verður sama lausn yfirfærð á öll önnur stórsvikamál, bæði íslensk og erlend sem enn eru óleyst, og er sú leið svo röng að átakanlegt er að horfa upp á það, og átakanlegt að sjá gott fólk ringlað í rýminu vegna stöðugra áróðursbragða að það hefur glatað sýn á hvað er rétt og hvað rangt í þessu máli, og hræðist því að taka afstöðu.
Áróðursmaskínunni hefur tekist að útmála marga þá sem eru á minni skoðun sem öfgafólk, en tekist að sýna þá sem borga vilja sem ábyrgðarfulla einstaklinga. Slíkur áróður hjálpar ekki við að taka skynsamlegar ákvarðanir. Ég get séð að frá sjónarhóli hinna samseku er skynsamlegt að semja um Icesave. Frá sjónarhóli saklausrar manneskju er það hins vegar ekki skynsamlegt, heldur beinlínis ranglátt.
Skuldbinding sérhverrar manneskju gagnvart þjóð sinni og umheiminum er að breyta rétt, og þegar óljóst er hvað hið rétta er, rannsaka málið, reyna að átta sig á samhenginu, og mynda sér skynsamlegar skoðanir um málið. Það er erfitt þegar hinir samseku hafa virk áhrif á alla fjölmiðla landsins. Það er erfitt að efast um það sem birtist í viðurkenndum fjölmiðlum. Þannig er það bara.
Næst þegar þú heyrir einhvern segja "Íslendingar eiga að standa við skuldbindingar sínar", skaltu spyrja: "Þegar þú segir Íslendingar, áttu við allir Íslendingar eða bara þá Íslendinga sem skulda?"
Með Icesave samningnum er verið að taka út þessa knýjandi réttlætiskröfu á röngum aðila, ekki bara íslenskum almenningi sem kom ekkert nálægt glæpnum, heldur einnig ófæddum Íslendingum um komandi framtíð. Vegna þessarar sviksamlegu afstöðu þings gagnvart þjóð, og því miskunnarlausa ranglæti sem þing vill að lendi á almenningi, án nokkurs skynbragðs á almennu siðferði, hef ég komið mínum eigin börnum úr landi og mun ekki mæla með að þau flytji til baka, nema eitthvað mikið breytist.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
"Hugmyndir eru öflugri en byssur. Við myndum ekki gefa óvinum okkar byssur, af hverju ættum við að gefa þeim hugmyndir?" (Jósef Stalín)
Fyrir tæpri viku keypti nýr hópur vefsvæðið eyjan.is og í dag liggur athugasemdakerfi Eyjunnar niðri, á sama tíma hefur Icesave 3 verið samþykkt á þingi, án þess að nokkuð hafi breyst í grundvallaratriðum.
Skuldbindingar eigenda og stjórnenda gríðarlega stórs einkafyrirtækis eiga ekki að lenda á Íslendingum framtíðarinnar, sama þó að Íslendingar nútímans geti fengið einhver trilljón milljarða lán á móti. Það er ekkert sem réttlætir þetta ofbeldi gegn framtíð okkar. Þeir sem huga ekki að framtíðinni í svona málum, sjálfum grundvelli siðferðisins, hafa ekkert erindi á þing.
Þetta lítur út eins og tilraun ríkisstjórnar eða útrásarvíkinga, hugsanlega beggja, til að ná aftur stjórn á umræðu, sem áður var í höndum þessara aðila, en þeir höfðu glatað henni í hendur venjulegs fólks; bloggara, í kjölfar hrunsins.
Eyjan var einhvers konar paradís þar sem rödd samfélagsins ómaði, en Adam ákvað að selja Paradís og leggjast á helgan stein með Evu. Í dag er slökkt á kerfinu. Á morgun verður nafnlausum notendum ekki lengur leyft að skrifa þar. Eyjan var öflugasta kerfi sinnar tegundar á landinu. Ekki lengur.
Vígi hvers vefmiðils og fjölmiðils á eftir öðrum lendir í höndum hagsmunasamtaka, þeirra sem vilja passa upp á sitt - hvort sem hagsmunirnir felast í völdum eða peningum, enda vitum við vel að sá sem stjórnar fjölmiðlum, stjórnar þjóðfélagsumræðunni, og sá sem stjórnar umræðunni getur haft gífurleg áhrif á hvernig fólk hugsar. Þér finnst kannski erfitt að trúa því. Veltu því fyrir þér.
Í samfélagi þar sem ekki finnst pláss fyrir gagnrýna hugsun, þar finnst ekki heldur pláss fyrir lýðræði.
Spurningin á þessu augnabliki er hvort að þjóðin fatti svikamylluna og láti bjóða sér þetta möglunarlaust, eða hvort hún láti þetta yfir börn sín ganga?
"Ég elska lætin í lýðræðinu." (James Buchanan)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Valdabrellur eða formgalli?
26.1.2011 | 22:05
Að hæstaréttardómarar geti blásið af úrslit lýðræðislegra kosninga vegna formgalla er svipað og ef knattspyrnudómari blési af leik á síðustu mínútu vegna þess að einhver lína á vellinum var skakkt máluð, eða gáfumenni tæki þá ákvörðun að fjall því það skyggði á sólina. Þetta er ekki ósvipað því að jólin yrðu blásin af vegna þess að dómari kemst að þeirri niðurstöðu að jólasveinninn sé ekki til, og að það sé ákveðinn formgalli á jólahaldinu.
Ætlar fólk virkilega að láta bjóða sér svona skrípaleik?
Nú virðist ljóst að frá þessum degi verður hægt að kæra allar kosningar sem fram fara á Íslandi og fáist dómarar sem allir eru á móti kosinni ríkisstjórn, munu þeir hafa vald til að ógilda kosningar þar til vænlegri úrslit koma í ljós.
Er þetta nýjasta trikkið til að halda völdum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)